Kuldapollur?

Þó veðurspár hafi í aðalatriðum verið mjög skýrar fyrir þessi jól - og það eiginlega fyrir löngu - er samt ákveðið atriði að flækjast fyrir í spám fyrir dagana milli jóla og nýárs. Reiknimiðstöðvar hafa verið sammála um að dálítill kuldapollur - eða kalt háloftalægðardrag sé væntanlegt frá Norður-Grænlandi á mánudag/þriðjudag. Hins vegar hefur verið verulegt ósamkomulag um hversu öflugt kerfi verður um að ræða - spárnar hafa hringlast til - frá runu til runu - og veruleg óvissa í safnspám líka. Allt frá því að nærri því ekkert gerist yfir í umskipti til umhleypingatíðar - og alls konar leiðinda.

Ekkert er því enn fast í hendi. Spá evrópureiknimiðstöðvarinnar í morgun (aðfangadag) kom nokkuð á óvart. Eftir nokkrar runur með spá um að lítið yrði úr kuldapollinum - og hann rynni til suðurs vel fyrir vestan land - kom aftur spá um að hann færi beint yfir okkur - þá á aðfaranótt miðvikudags. Kortin hér að neðan sýna þetta.

w-blogg241221a

Hér má sjá reiknaða stöðu síðdegis á þriðjudag, 28.desember. Heildregnar línur sýna hæð 500 hPa-flatarins, af þeim ráðum við vindátt og styrk í miðju veðrahvolfi. Litirnir sýna þykktina en hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Því minni sem hún er því kaldara er loftið. Í kalda blettinum miðjum er hún ekki nema 5000 metrar, loftið þar er meir en tíu stigum kaldara en í meðallagi. Þetta kaldasta loft er hér á suðurleið, en sjórinn hitar það baki brotnu áður en það nær til landsins undir morgun á miðvikudag - standist spáin. 

Það er margt uppi á borðinu þegar svona kalt loft fer hjá - jafnvel þó kerfið sé ekki fyrirferðarmikið. Vonandi verður ekkert úr - eins og hefur reyndar verið tískan í haust. Nýjasta spá bandarísku veðurstofunnar gerir t.d. ráð fyrir því að kuldapollurinn taki austlægari stefnu og fari meira eða minna framhjá okkur. Alveg jafn líklegt að evrópureiknimiðstöðin detti í það sama far strax í kvöld. 

En ritstjóri hungurdiska óskar lesendum og landsmönnum öllum gleðilegra jóla. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk sömu leiðis, gleðileg jól og kærar þakkir fyrir allan þinn fróðleik sem þú hefur miðlað til lesenda þinna á liðnu ári.

Það er eins og maður viti eitthvað um veðrið á eftir.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 25.12.2021 kl. 12:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

 • Slide10
 • Slide8
 • Slide6
 • Slide5
 • Slide4

Heimsóknir

Flettingar

 • Í dag (22.4.): 67
 • Sl. sólarhring: 436
 • Sl. viku: 1831
 • Frá upphafi: 2349344

Annað

 • Innlit í dag: 55
 • Innlit sl. viku: 1647
 • Gestir í dag: 55
 • IP-tölur í dag: 54

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband