Norðurhvelsstaða að áliðnu hausti

Við lítum nú á stöðuna í miðju veðrahvolfi norðurhvels um þessar mundir. Við veljum spákort evrópureiknimiðstöðvarinnar síðdegis á morgun, þriðjudaginn 16. nóvember. Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar, af þeim ráðum við vindstefnu og styrk. Þykktin er sýnd í litum, en hún mælir meðalhita í neðri hluta veðrahvolfs, því meiri sem þykktin er því hlýrra er loftið. Meðalþykkt yfir Íslandi í nóvember er um 5280 metrar - á litaspjaldinu sem hér er notað er það einmitt á mörkum grænu og bláu litanna. Í byggðum landsins er meðalhiti nóvembermánaðar 1991 til 2020 +1,3 stig, +1,0 stigi hærri en var á tímabilinu 1961 til 1990, en -0,3 stigum lægri en var á tímabilinu 1931 til 1960. Spákortið segir þykktina yfir landinu á morgun verða um 5220 metra - neðri hluti veðrahvolfs því um -3 stigum kaldari en meðallagið segir til um.

w-blogg151121a

Norðurskaut er rétt ofan við miðja mynd - neðst til vinstri má sjá eyjar í Karíbahafi - og mestallan Kóreuskaga við efri brún myndarinnar. Heimskautaröstin hlykkjast að vanda kringum hvelið, við hana eru jafnhæðarlínur þéttastar og þar má sjá bylgjur af hlýju lofti sveigjast til norðurs, en kalt loft berst til suðurs á móti. Lega þessarar meginrastar er í aðalatriðum nærri brúna strikahringum á kortinu. 

Fyrir norðan röstina - en ótengdir henni - eru tveir meginkuldapollar - eins og oft er. Þeir eru smám saman að taka á sig vetrarblæ - farið að sjást í fjólubláa litinn í miðju þeirra. Þar er þykktin ekki nema 4920 metrar. Það er sárasjaldan sem slíkur veðrahvolfskuldi nær hingað til lands. Ísland er eyja og kalt loft þarf að fara yfir sjó til að komast til landsins. 

Kuldapollarnir vaxa hægt og bítandi þegar kemur fram á haustið og veturinn. Ná gjarnan hámarksstyrk í febrúar - en áraskipti eru þó í afli þeirra. Sömuleiðis er samvinna þeirra á ýmsan veg - stundum skipta þeir um sæti eða sameinast - eða skiptast upp í fleiri minni. Það er þó nánast regla að komist hinir þröngu hringir þeirra í námunda við heimskautaröstina bregst hún við og bítur frá sér - getur skotið upp alls konar kryppum sem hún gerir síður í sinni venjulegu stöðu. 

Á þessari mynd má einnig sjá nokkuð truflað svæði suður við Miðjarðarhaf. Þar er kuldapollur - og annar minni við jaðar myndarinnar, vestur af Kanaríeyjum. Þó þessi veðurkerfi hafi ekki bein áhrif hér á landi geta þau samt haft óbein áhrif. Á þeim tíma sem kortið sýnir er bil á milli rastar og þessarar óværu - en langtímaspár gera ráð fyrir því að þetta svæði komi til með að ganga hægt til vesturs þannig að til árekstra gæti komið á milli þess og öldudals í einhverri rastarbylgjunni. Gerist það getur röstin líka skotið upp kryppu - hún er þá kitluð úr suðri. 

Sumar framtíðarspár segja að slíkrar kryppu sé að vænta um næstu helgi. Fullsnemmt að segja um hversu mikil truflun verður úr - né hvort kryppan nær að sparka í kuldapollana þar sem þeir liggja rólegir í fleti sínu. 

Ritstjóri hungurdiska fylgist nokkuð grannt með framtíðarspám - (ekki þó af svo mikilli þráhyggju að ekkert fari fram hjá honum). Í nýjustu safnspám evrópureiknimiðstöðvarinnar er ekki mikið um öfgar hér við land næsta hálfan mánuð - kryppan er þó í spánum - en sem stendur virðist hún ekki líkleg til meta hér við land. - Gefum henni þó gaum. 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • w-blogg211224b
  • w-blogg211224
  • w-blogg121224
  • w-blogg111224a
  • w-blogg101224b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 20
  • Sl. sólarhring: 214
  • Sl. viku: 985
  • Frá upphafi: 2420869

Annað

  • Innlit í dag: 15
  • Innlit sl. viku: 864
  • Gestir í dag: 15
  • IP-tölur í dag: 15

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband