Óvenjuleg lægð?

Í dag (mánudaginn 27.september) hefur leiðindaillviðri gengið yfir landið norðvestanvert - (og gætt víðar). Lægð gekk til vesturs með norðurströndinni, en er þegar þetta er skrifað (seint á mánudagskvöldi) að leysast upp á leið sinni suðvestur um Vestfirði. Sú hreyfistefna er lægðum oftast mjög fjandsamleg. Þessi lægð var ekki mikil um sig - á stærð við Ísland ef allt er talið - og heldur veigalítil. Olli þó töluverðum leiðindum og jafnvel foktjóni. Lægðir sem þessar eru auðvitað erfiðar viðfangs í veðurspám. 

En eins og stundum áður á önnur lægð að koma í kjölfar hinnar fyrri. Sú virðist öllu veigameiri, en tekst samt á við sömu vandamál. Hreyfist til vesturs meðfram norðurströndinni og síðan til suðvesturs um Vestfirði eða nærri þeim. 

w-blogg270921a

Kortið sýnir spá harmonie-líkansins og gildir kl.17 á morgun, þriðjudag 28.september. Lægðin á síðan að fara til suðvesturs, um Breiðafjörð annað kvöld og aðra nótt. Eins og sjá má virðist sem svo að lægðinni fylgi bæði mjög mikill vindur og mikil úrkoma - sem vafalítið mun þó gæta mismikið frá einum stað til annars eftir því hversu vel skjóls nýtur frá fjöllum - verst verður veðrið þó á heiðum og fjöllum og þar verður versta hríð. Þegar lægðin fer hjá gæti hlánað og bleytt í byggð. 

Þessi lægð er - eins og áður sagði - veigameiri en sú sem fór hjá í dag - og stendur því líklega betur af sér baráttuna við hreyfistefnuna. Rétt að þeir sem eiga eitthvað undir veðri fylgist vel með spám Veðurstofunnar (engar spár eru gerðar á hungurdiskum). 

Í fljótu bragði finnst manni þetta heldur óvenjulegt svona snemma hausts. En það er það kannski ekki. Hríðarveður eru alla vega algeng um mánaðamótin september/október. Auðvitað ráða tilviljanir mjög braut kerfa sem þessara - lítið þarf til þess að landið eða heilir landshlutar sleppi algjörlega. Við leit fann ritstjóri hungurdiska slatta af ættingjum lægðarinnar - bæði illskeyttari sem og vægari á þessum tíma árs. Af einhverjum ástæðum leitaði ein dagsetning þó á frekar en aðrar, 9. og 10.október árið 1964 - mjög snemma á búskaparárum ritstjórans. 

w-blogg270921c

Hér má sjá greiningu japönsku veðurstofunnar að morgni föstudagsins 9. október 1964. Þá er lægðarmiðja fyrir norðan land - og hún fór einmitt svipaða leið og sú sem nú er væntanleg. Mun verra veður var um landið norðvestanvert heldur en annars staðar - og langverst á Vestfjörðum. Menn voru lítið á ferð um heiðar á þessum árstíma árið 1964 - þó fréttist að Breiðadalsheiði væri ófær. Margir bátar voru á sjó og því miður fórust tveir þeirra, báðir frá Flateyri (Mummi og Sæfell). Hluti áhafnar Mumma bjargaðist naumlega, veður var að mestu gengið niður og áhöfnin að veiðum þegar hann fór, en straumhnútur kom á bátinn og sökkti honum. Fiskhjallar fuku á Suðureyri við Súgandafjörð og fjárskaðar urðu á Vestfjörðum.

Í texta með veðurkorti Morgunblaðsins laugardaginn 10.október segir (veðurkortið sýnir stöðuna 6 klst síðar en kortið hér að ofan):

Í gær voru miklar sviptingar í veðri hér á landi. Um morguninn var lægð skammt fyrir norðaustan land og norðan hvassviðri með slyddu um norðan- og vestanvert landið. Síðdegis var aðallægðin komin suður fyrir landið og hægviðri um mikinn hluta landsins. Á Vestfjörðum var þó ennþá versta veður, rokhvasst og snjókoma. Á Ermarsundi er kröpp lægð á hádegi, eiginlega hálfgerður fellibylur, því skip hafa gefið allt upp í 12 vindstig skammt frá miðju sveipsins. 

Ritstjóra hungurdiska er þetta veður minnisstætt - ekki síst vegna þess að „aukaviðvörun“ var gefin út vegna þess - á milli veðurfréttatíma. Slíkt var mjög óvenjulegt á þessum árum. Gallinn er hins vegar sá að engar heimildir finnast á Veðurstofunni um þessa viðvörun. Veðurnördið unga varð hins vegar fyrir nokkrum vonbrigðum þegar lítið varð úr veðri (að því þótti) á heimaslóðum í Borgarnesi.

Veðurspár voru erfiðar viðfangs á þessum árum, mun erfiðari heldur en nú. Þriðjudaginn 6.október segir í athugasemdum með veðurkorti dagsins (skrifaðar mánudaginn 5.):

Í gær var vindur á sunnan og suðaustan hér á landi, skúraveður sunnan lands, en bjart fyrir norðan. Hitinn var 6—10 stig. Líkur eru á óstöðugu veðri og vætusömu næstu daga, ekki hætta á frostum í bili.

Ekki þurfti þó að bíða lengi eftir frosti og vetri. Föstudaginn 9. - daginn sem illviðrið á Vestfjörðum var sem verst birtist þetta kort í Morgunblaðinu - það sýnir veður um hádegi þann 8.

w-blogg280921v-b

Mikil lægð er fyrir austan land - en mjög langt á milli þrýstilína við landið og vindur hægur. Ekkert í sjálfu sér sem bendir til þess að illviðri sé í nánd. Engar gervihnattamyndir engar tölvuspár. Um kvöldið hefur verið ljóst að eitthvað var á seyði, lægðin dýpri og á meiri hreyfingu til vesturs heldur en ráð hafði verið fyrir gert. Rétt að bæta í vinda- og úrkomuspár.

w-blogg280921v-a

Hér má sjá Íslandskort á hádegi 9.október. Mikið illviðri með hríð gengur þá yfir Vestfirði - og sennilega Snæfellsnes sunnanvert líka. Þrýstingur er lægstur á Blönduósi og lægðarmiðjan væntanlega þar suður af - nokkuð farin að grynnast. Hún fór síðan suður yfir landið. Fyrr um morguninn var norðan fárviðri á veðurstöðinni á Hvallátrum - en þar var ekki athugað á hádegi. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg200125c
  • w-blogg200125g
  • w-blogg200125f
  • w-blogg200125e
  • w-blogg200125d

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 29
  • Sl. sólarhring: 129
  • Sl. viku: 2476
  • Frá upphafi: 2434586

Annað

  • Innlit í dag: 26
  • Innlit sl. viku: 2200
  • Gestir í dag: 26
  • IP-tölur í dag: 25

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband