Gránar í Reykjavík (og víðar)

Um hádegið (miðvikudaginn 22.september) gekk allmikið él yfir höfuðborgarsvæðið og varð jörð hvít um stund og jafnvel varð lúmsk hálka á götum. Þetta telst þó ekki fyrsti alhvíti dagur haustsins og þegar þetta er ritað um klukkustund síðar er „snjórinn“ að mestu horfinn aftur.  Kannski gerir fleiri él síðar í dag. Mjög kalt loft kom inn yfir landið úr vestri í kjölfar illviðrislægðarinnar sem gekk yfir landið í gær. Myndin hér að neðan sýnir að um mjög afmarkaðan kuldapoll er að ræða - og hreyfist hann hratt til austurs og verður fljótt úr sögunni.

w-blogg220921a

Litir sýna hita í 850 hPa-fletinum, en jafnþykktarlínur eru heildregnar. Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs, því minni sem hún er því kaldara er loftið. Lægsta þykktin við Ísland er um 5230 metrar - á þessum tíma árs snjóar sjaldan við strendur í þeirri þykkt - standi vindur af hafi. Skammvinn él gerir þó og getur fest sé úrkomuákefðin nægilega mikil - eins og var í dag. Aftur á móti getur snjóað í meiri þykkt standi vindur ekki af sjó - þá ofmeta þykktartölur hita í lægstu lögum. 

Við sjáum þykktartölur sem þessar alloft síðari hluta september, þær verða fyrst óvenjulegar þegar komið er niður fyrir 5200 og sérlega óvenjulegar minni en 5150 metrar. Þann 23. september í fyrra var þykkt á hádegi 5196 metrar yfir landinu. Þá var næturfrost víða á höfuðborgarsvæðinu.  

Lægðin sem gekk yfir í gær(21.)  var nokkuð óvenjuleg. Þrýstingur fór niður fyrir 960 hPa á fáeinum veðurstöðvum, lægsta talan mældist á Fonti á Langanesi, 958,5 hPa, lægsti þrýstingur á landinu í september síðan árið 2004. Metið er hins vegar 952,9 hPa, sett í Stykkishólmi  í mannskaðaveðrinu mikla 20.september árið 1900.

Vindhraða var nokkuð misskipt, meðalvindhraði í byggðum landsins varð 8,9 m/s, það langmesta í mánuðinum til þessa. Stormur (10-mínútna meðalvindhraði meiri en 20 m/s) mældist hins vegar á 34 prósentum veðurstöðva í byggð - það er allmikið. Þessar tölur gefa til kynna að veðrinu hafi verið mjög misskipt. Stórir hlutar landsins sluppu nánast alveg, en annars staðar féllu septembervindhraðamet. Einna verst að tiltölu virðist veðrið hafa verið á Suðurlandsundirlendinu, austur með ströndinni og hálendinu þar norðaustur af og sömuleiðis á annesjum Austfjarða og þar á fjöllum. Þéttbýli eystra slapp betur. 

Í morgun var alhvítt á tveimur veðurstöðvum nyrðra, við Skeiðsfossvirkjun og á Auðnum í Öxnadal. Er það um 6 dögum fyrr en að meðaltali á þessari öld, en 8 dögum síðar en að meðaltali 1966 til 2015 (sjá gamlan hungurdiskapistil).


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg200125c
  • w-blogg200125g
  • w-blogg200125f
  • w-blogg200125e
  • w-blogg200125d

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 30
  • Sl. sólarhring: 129
  • Sl. viku: 2477
  • Frá upphafi: 2434587

Annað

  • Innlit í dag: 27
  • Innlit sl. viku: 2201
  • Gestir í dag: 27
  • IP-tölur í dag: 25

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband