Nýtt ágústhitamet á landinu

Í dag mældist hiti á Hallormsstað 29,4 stig. Þetta er hæsti hiti sem mælst hefur í ágústmánuði á landinu. Fyrra met var sett á Egilsstaðaflugvelli 11.ágúst 2004, 29,2 stig. Mesti hiti sem við vitum um á Hallormsstað er 30°C sem mældust þar 17.júlí 1946 (um þá mælingu er fjallað í gömlum hungurdiskapistli).

Met voru þó ekki sett víða í dag - ágústmet á fáeinum stöðvum á hálendi í námunda við Hallormsstað, og nýtt árshitamet var sett á Brú á Jökuldal, 27,3 stig. Þar höfðu mest mælst 27,0 stig áður (í júlí 1991). 

Hafgola setti víða strik í reikninginn - og sló mjög á hitann einmitt þegar hann var á hraðri uppleið. Hún gæti þó gefið sig aftur og ekki alveg útséð um lokahámarkstölur á einstökum stöðvum. 

Þess má geta í framhjáhlaupi að dagurinn í dag (24.ágúst) er sá 52. á árinu þegar hámarkshiti nær einhvers staðar 20 stigum eða meira á landinu. Lítið var um slíka daga fyrir sólstöður í ár, fyrstu 20 stigin komu þó fyrr en nokkru sinni áður, eða 18.mars þegar hiti fór í 20,3 stig á Dalatanga. Síðan gerðist ekkert í tuttugustigamálum fyrr en 27.maí og svo aftur 5.júní. Frá og með 24.júní hafa hins vegar flestir dagar náð 20 stigum einhvers staðar á landinu og eins og áður sagði eru dagarnir nú orðnir 52 á árinu. Metfjöldi slíkra daga var árið 2010, þá urðu þeir 55 talsins, og 54 árið 2012. Góð von virðist um að árið í ár muni skila fleiri slíkum dögum en vitað er um áður.

Ritstjóri hungurdiska reiknar einnig hitabylgjuvísitölur eins konar. Ein þeirra er hlutfallstala tuttugustigahita á hverjum degi. Vantar nokkuð upp á met einstakra daga (ekki hefur verið mikið um tuttugustig suðvestanlands), en vísitölusumma sumarsins er komin langt upp fyrir það sem mest er vitað um áður - og enn mun bætast við næstu daga. 

Miklum hlýindum er spáð á morgun (miðvikudaginn 25.ágúst) - og víðar heldur en í dag. Það er hins vegar óvíst hvort hið nýja ágústmet fellur og við fáum að sjá enn hærri tölu. 

Svo þarf auðvitað að fylgjast með sólarhringsmeðalhita, meðalhámarks- og lágmarkshita og ýmsu öðru. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg010125i
  • w-blogg010125
  • w-blogg271224a
  • w-blogg271224aa
  • w-blogg261224ia

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.1.): 1034
  • Sl. sólarhring: 1115
  • Sl. viku: 3424
  • Frá upphafi: 2426456

Annað

  • Innlit í dag: 922
  • Innlit sl. viku: 3078
  • Gestir í dag: 895
  • IP-tölur í dag: 828

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband