Hugað að árshámarkshita í Reykjavík

Það er ekki algengt að hiti nái 20 stigum í Reykjavík. Jafnvel geta liðið mörg ár á milli slíkra atburða. Sé miðað við síðustu 100 ár og opinberar tölur tengdar veðurstöðinni „Reykjavík“ hefur hæsti hiti ársins náð 20 stigum á þriggja ára fresti að meðaltali, 35 sinnum af 100. Tuttugu stiga tilvikin eru þó fleiri vegna þess að stundum mælist hiti 20 stig eða meiri oftar en einu sinni sama árið. Mælingar hafa verið gerðar á sjálfvirkri veðurstöð á „Veðurstofutúni“ í 25 ár. Á þeim tíma hefur hæsti hiti ársins 17 sinnum náð 20 stigum - eða í tveimur árum af þremur. Sömu ár náði hæsti hiti á kvikasilfursmæli í skýli 16 sinnum 20 stigum. Síðasti aldarfjórðungurinn hefur því verið talsvert gæfari á 20 stigin heldur en þeir næstu þrír á undan. 

Á þessum 100 árum hefur veðurstöðin ítrekað verið flutt - eða þá að einhverjar aðrar breytingar hafa orðið. Þó flestar þessara breytinga virðist ekki hafa haft teljandi áhrif á meðalhita ársins (að undantekinni veru stöðvarinnar á þaki Landsímahússins 1931 til 1945) er því ekki að neita að verulegar líkur eru á að áhrif á hæsta hita ársins geti verið nokkrar. 

Fyrir utan flutningana er hætt við truflunum sé mælibúnaði eða mæliháttum breytt. Hitamælaskýli hafa ekki alltaf verið sömu gerðar, mestar breytingar urðu þegar veggskýli voru lögð af og fríttstandandi skýli tekin upp í staðinn - og síðan á síðari árum þegar hefðbundin skýli hafa smám saman lagst af og sjálfvirkar mælingar tekið við. Mælihólkar sjálfvirku mælinganna eru miklu fyrirferðarminni heldur en skýli kvikasilfursmælanna - tregða þeirra gagnvart snöggum hitabreytingum er minni og líkur á að það takist að mæla skyndilegar, skammvinnar hitasveiflur eru meiri. Hólkarnir eru líka næmari fyrir óæskilegum varma- og stuttbylgjugeislaáhrifum heldur en skýlin. Samt virðist það vera svo að áhrif á meðalhita séu lítil - áhrif á hæsta hita ársins geta hins vegar verið töluverð.

Haustið 2015 var hætt að nota kvikasilfursmælingar í veðurskeytum frá Reykjavík. Allar hámarksmælingar veðurstöðvarinnar „Reykjavík“ síðan, eru því fengnar úr hólki sjálfvirku stöðvarinnar. Haldið hefur verið áfram að lesa hámarks- og lágmarkshita kvikasilfursmæla í gamla skýlinu - þó þær mælingar eigi formlega ekki lengur við veðurstöðina „Reykjavík“. Þessar mælingar eru þó ekki fullkomlega sambærilegar við eldri mælingar sömu mæla í sama skýli vegna þess að skýlið er ekki opnað nema tvisvar á sólarhring, en var opnað átta sinnum áður. Gætu þessir nýju hættir haft áhrif á mælingarnar. Annað hefðbundið skýli er í reit Veðurstofunnar. Í því er annar sjálfvirkur skynjari, sem líka mælir hámarkshita, og þar með hæsta hita ársins. Þessi mælir hefur verið í rekstri frá árinu 2005. Þetta skýli er ekki opnað reglulega (aðeins þegar einhvers viðhalds er þörf). 

skylin-i-gamla-reitnum_2013--08-07-DSCN0393

Myndin sýnir skýlin tvö (í ágúst 2013). 

Þessar fjölbreyttu mælingar gefa okkur kost á samanburði hæsta árshita skýlanna beggja og mælihólks sjálfvirku stöðvarinnar. 

Á árunum 1996 til 2015 var hæsti hiti ársins á kvikasilfursmæli í skýli að meðaltali 20,3 stig, á sama tíma var hann 20,6 stig á skynjara í hólki. Munar 0,3 stigum. Síðustu 5 ár (2016 til 2020) var meðalhámark ársins 21,5 stig á kvikasilfursmæli í skýli, en á sama tíma 22,0 stig á skynjara í hólki. Sömu ár var meðalhámark ársins 21,4 stig á sjálfvirkan skynjara í „lokaða skýlinu“. Á árunum 2006 til 2020 var meðalhámark ársins 21,6 stig á skynjara í hólki, en 20,9 stig á skynjara í skýli. 

Munur á árshámörkum þessara mæliraða er því ekki mikill, en hann er samt nægilega mikill til þess að metingur um hæsta hita getur átt sér stað. Að auki gæti líka virst að þessi munur sé heldur meiri þegar árshámarkið er hátt heldur en þegar það er lágt. Hæsti hiti sem mælst hefur á kvikasilfursmælinn á Veðurstofutúni er 25,7 stig (30.júlí 2008). Hæsti hiti sjálfvirka mælisins í hinu skýlinu (sem ekki er opnað) var þá 25,5 stig, en aftur á móti 26,4 stig á skynjarann í hólknum. Svipað var uppi á teningnum í hitabylgjunni miklu í ágúst 2004. Þá var hæsti hiti á kvikasilfursmælinum 24,8 stig, en 25,7 á skynjaranum í hólknum. 

Svo virðist - ekki aðeins í Reykjavík heldur einnig annars staðar, að í logni og miklu sólskini verði hiti lítillega hærri í hólkum sjálfvirku stöðvanna heldur en í hefðbundnum skýlum. Við vitum hins vegar ekki með vissu hvort þessi „umframhiti“ er til kominn vegna þess að hlýrra er í hólknum heldur en í loftinu umhverfis (nokkuð sem við viljum alls ekki) eða vegna þess að blöndun lofts í kringum hólkinn er einfaldlega lítil í logninu. Slíkt ástand stendur þá e.t.v. ekki nægilega lengi til þess að mælir í skýli frétti af því - þó það sé alveg raunverulegt. Um þetta má þrasa að vild - en minna verður þó á að framleiðandi hólkanna segir að í glampandi sólskini og stafalogni sýni skynjararnir 1 til 3 stigum hærra en mælir í fullloftræstum hólki - en ekki er boðið upp á samanburð við skýli.

Hver er þá hæsti hiti sem mælst hefur á veðurstöðinni „Reykjavík“? Jú, formlega séð eru það 25,7 stig - en hefði sá mælir sem nú er notaður verið notaður við gerð skeytis væri hann 26,4 stig. Þetta setur okkur í ákveðinn vanda. Enn eitt þrastilefnið. Þetta kann líka að hafa áhrif á fjölda tuttugustigadaga - og tuttugustigaára. Við skulum bíða með það viðfangsefni - að minnsta kosti í bili, því enn fleiri flækjur bætast við. 

Eins og fram kom að ofan hafa tuttugustigaár verið mun fleiri síðustu 25 árin heldur en þau næstu 75 á undan. En hefðu tuttugustiga ár orðið fleiri áður hefði sjálfvirki mælirinn (og hólkurinn) verið notaður - en ekki kvikasilfursmælirinn. Við vitum raunar ekki mikið um það - skýlið á Veðurstofutúni var sett þar upp 1973. Áður var mælt á tveimur stöðum á flugvellinum - og þar áður við Sjómannaskólann, á þaki Landsímahússins og í bakgarði við neðanverðan Skólavörðustíg. Samfelldar hámarksmælingar hófust á síðastnefnda staðnum árið 1920. Á umsjónartíma dönsku veðurstofunnar var enginn hámarksmælir á Veðurstofunni í Reykjavík. Þar var aftur á móti hitasíriti og þegar hann var í lagi mátti lesa hámarkshita hvers dags af honum. Við höfum því sæmilega áreiðanlegar upplýsingar um árshámarkshita áranna 1886 til 1906 í Reykjavík - en ekki 1907 til 1919 og ekki fyrir 1886. Sex áranna 1886 til 1906 voru örugglega tuttugustigaár í Reykjavík - fleiri en allt tímabilið 1961 til 1990, þegar þau voru aðeins þrjú. Öll þessi ár (og dagsetningar) eru skilmerkilega nefnd í gamalli ritgerð ritstjóra hungurdiska, „Hitabylgjur og hlýir dagar“ sem finna má á vef Veðurstofunnar (á bls.23 og 24).   

Enn sem komið er (14.júlí) hefur hiti ekki náð 20 stigum í Reykjavík sumarið 2021, en enn eru þeir dagar eftir sem að jafnaði eru hlýjastir. Hámarkshiti til þessa í sumar (í hólknum) er 18,3 stig, (mældust 29.júní), í skýlinu mældist þá hæst 18,0 stig, en í lokaða skýlinu 17,9 stig. Í nýjum reit Veðurstofunnar („Háuhlíð“) mældist hiti hæstur 17,8 stig. Hæstur hiti á stöðvum á höfuðborgarsvæðinu í sumar er 19,8 stig (á Geldinganesi). Lægstur er hæsti hiti sumarsins til þessa á Suðurnesi á Seltjarnarnesi, 16,3 stig. Áhugasamir geta litið á lista í viðhengi. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • w-blogg241224b
  • w-blogg241224a
  • w-blogg211224b
  • w-blogg211224
  • w-blogg121224

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.12.): 45
  • Sl. sólarhring: 444
  • Sl. viku: 1596
  • Frá upphafi: 2421975

Annað

  • Innlit í dag: 37
  • Innlit sl. viku: 1449
  • Gestir í dag: 37
  • IP-tölur í dag: 37

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband