14.4.2021 | 20:30
Af árinu 1803
Tíð var talsvert skárri en árið áður, en harðindi í maí settu strik í reikninginn og víða syðra var erfið heyskapartíð. Talsverður hafís var við land, en ekki nærri því eins og árið áður. Mælingar eru heldur rýrar. Sveinn Pálsson mældi þó stóran hluta ársins í Kotmúla í Fljótshlíð og undir lok árs í Reykjavík, en hann var um hríð settur landlæknir. Giskað er á að ársmeðalhiti í Reykjavík hafi verið 4,3 stig, en 3,2 stig í Stykkishólmi. Þessar tölur eru þó mjög óvissar.
Við sjáum af mælingum Sveins að ekki er kalt fyrr en kemur fram í miðjan febrúar, vorið virtist síðan ætla að fara eðlilega af stað, en talsvert bakslag kom með sumri og sárkalt var langt fram eftir maí. Hiti var viðunandi um hásumarið, en seint í ágúst kom verulegt kuldakast, óvenjulegt að því leyti að þá snjóaði í Fljótshlíðinni ef rétt er skilið. Síðasti hluti ársins fékk allgóða dóma.
Hér að neðan eru helstu heimildir um tíðarfar og veður á árinu. Ítarlegust er frásögn Minnisverðra tíðinda, samantekt Brandstaðaannáls er einnig góð, lítið þetta ár hjá Espólin. Jón Jónsson á Möðrufelli og Sveinn Pálsson skráðu veður daglega auk þess að draga það saman viku- eða mánaðarlega. Mjög erfitt er hins vegar að lesa þessi handrit - og ekki víst að þau brot sem hér birtast séu rétt eftir höfð. Að vanda var talsvert um slys, menn drukknuðu og urðu úti, óljóst hvað tengist veðri. Lesa má um það í Annál 19.aldar. Þar má m.a. lesa alllanga frásögn um sjóskaða við Grímsey á einmánuði - en því miður er dagsetningar ekki getið. Þar segir frá lygnu veðri sem hafi litlu eftir miðjan dag snúist í dimmviðrishríðarbyl af norðri með ofsaveðri svo hús hristust við. Níu konur urðu ekkjur. Segir einnig af öðru skipi sem í veðrinu lenti, en komst af við illan leik. Annállinn segir að 17 menn hafi orðið úti á árinu.
Minnisverð tíðindi segja frá [1804 2.hefti bls. 224-232]
Veturinn 1802 [til 1803] , byrjaði á Suðurlandi með stakri veðurgæsku, er líktist vorblíðu, og hélst það veður að kalla fram seint á þorra, enda skall þá veturinn á, með náttúrlegri hörku, snjó og frostum, er viðhélst framyfir sumarmál, eins og síðar greinir. Líkt þessu var árferðið i syðri hluta hluta Vestfirðingafjórðungs; þó gjörði í Dalasýslu, þann 30. nóvember [1802] mikið áhlaups kafald, en afleiðingar þess voru ekki mjög skaðvænar. Í Ísafjarðarsýslu var veturinn rétt góður, allt að góubyrjun, en þá skall á með kaföldum, hafísum og stormum, sem að segja héldust veturinn út. Í Strandasýslu gjörði óveðrakast mikið á jólaföstu, þá sumstaðar tók af alla jörð, er síðan ekki uppkom á þeim vetri. Annars var veðurátt rétt góð fram á þorra, en þaðan af mjög óstöðugt með stóráhlaupum framyfir sumarmál. Í Norðurlandi var veturinn víðast sæmilegur á þorra, þá hörkur ágnúðu og viðhéldust það eftir var vetrar. Í nyrðra hluta Austfjarða byrjaði vetur þessi með framhaldi haustharðindanna, er varaði til skömmu fyrir aðventu, þá góða hláku gjörði, var þá sauðfé komið á hvassa merg, en hestar horfallnir, þó ekki, að menn meintu, af eiginlegum vetrarhörkum, heldur af einskonar pestartaðri sýki, um hverja síðar mun getið verða. Í syðra parti Norður-Múlasýslu, einkum Fljótsdalshéraði, var fyrri hluti vetrar rétt góður, og kýr gengu hér sumstaðar úti alt til jólaföstu; þaðan af var veturinn óvenjulega góður víðast í sýslunni, allt að sumarmálum, nema í Hrafnkels- og Jökuldal upp til fjalla, hvar hann var einn harðasti í manna minnum. Í Suður-Múlasýslu var veturinn, í tilliti til veðráttufars, einn hinn æskilegasti.
Brandsstaðaannáll [vetur]:
Í janúar þíður og smáblotar, þess á milli gott og stillt frostveður; eftir miðþorra [um 5.febrúar] vestanátt mjög óstöðug og í síðustu viku [12. til 19.febrúar] norðanhríðar og fannlög. Kom þá fé á gjöf, en beit var nú notuð sem mest var mögulegt. Á góu var snöp lengst og hross lítið inntekin, en óstöðugt veður; ... Hafísinn kom á þorra og lá fram á sumar, ... (s45)
Geir Vídalín biskup lýsir vetrinum 1802 til 1803 í bréfi:
Lambastöðum 1. apríl 1803: Veturinn byrjaði hér strax með Mikaelsmessu [29.september 1802] með norðan- (s32) veðri, frosti og snjó, svo heiðar urðu ófærar, og mörgum, sem á ferð voru, lá við stórslysum. Margir átti þá enn hey úti, sem allt varð að litlum eða engum notum. Þetta veður varaði hér um mánuð, batnaði síðan ágæta vel hér sunnanlands, og sama góða veður viðvaraði til febrúarm. byrjun. Síðan hafa oftast verið umhleypingar, frost, kaföld og stundum jarðleysur. Norðanlands hefur fyrri partur vetrarins verið harðari, en sá seinni betri. ... Svo var stór grasbrestur á Ströndum í sumar eð var [1802], að tún urðu ekki ljáborin, og margir flúðu með gripi sína inn að Ísafjarðardjúpi og fengu þar leyfi til að slá fyrir þeim, það sem aðrir ekki vildu nota, svo þessi sveit sýndist framar öðrum stödd í dauðans kverkum. Þar skal annars í Hælavík, skammt frá Horni, vera enn nú einu sinni strandað skip frá Skagaströnd, hlaðið með kjöt, tólg og ull. Menn meina menn komist hafi lífs á land, en drukknað í forvaða einum, en þaðan er yfir að fara til mannabyggða. ... (s33)
Frú Gytha Thorlacius sýslumannsfrú á Eskifirði minnist á vetur og sumar:
(Úr Fru Th.s Erindringer fra Iisland) Den følgende Vinter 18021803 var haard. (s19) Sommeren var god".(s23)
Í lauslegri þýðingu: Veturinn 1802 til 1803 var harður. Sumarið (1803) var gott.
Brandsstaðaannáll [vor]:
... með einmánuði [byrjaði 22.mars] góður bati, svo frostalitið og gott til sumarmála. Þá skipti til landnyrðingsstorma með frostum miklum, er héldust allt vorið. 3. til 13. maí var mikil norðan- og suðaustanhríð. Seint í maí kom gróður. Var þá mjög þrotin taða að vonum og kýr magrar.
Minnisverð tíðindi halda áfram - og lýsa vori og síðan sumri og hausti:
Vorið 1803, var á Suðurlandi mjög kalt og stirt, hver veðrátta viðhélst langt fram á sumar, fylgdi henni grasvöxtur í minna lagi, sumstaðar mjög aumur. Töður nýttust nokkurnveginn víðast hvar, en útheyjanýtingin varð bágari; haustveðráttan var þó góð og blíð. Í Vestfirðingafjórðungi var líkt veðráttufar. Heyskapur, einkum í Mýra-, Snæfellsness-, Ísafjarðar- og Strandasýslum, mjög aumur, vegna grasbrests og bágrar nýtingar. Í Mýrasýslu var, af þeim langvinnu rigningum, sjaldgæft vatnsmegn samsafnað í hennar mörgu flóum og mýrum. Að álíðanda sumri varð veðráttan í Strandasýslu aftur mjög kafalda- og úrfellasöm, en frost fylgdi hverri fannkomu, og voru þar um haustið skornar ungar og hagbærar kýr vegna fóðurleysis. Í Norðurlandi var vor þetta mjög hart; þó voru skepnur víðast í nokkurnveginn holdum, en gróður vara bæði seinn og lítill, og fyrst í júlímánuði fyrir sauðfé nýkominn að kalla. Í Þingeyjarsýslu var sannkallað vetrarveður allt fram að trínitatishátíð [5.júní]. Í nyrðri hluta Vestfjarða sýndist náttúran að breyta eðli sínu í tilliti til veðráttufarsins á fyrrtéðu sumri. Að enduðum þeim, víðast þar, yfrið góða vetri, og sauðfé, er horað hafði verið undan haustinu, aftur var komið í sæmilegt stand, skall á með sumarmálum geysiharka, er kom sér því verr, sem menn þá voru orðnir heylausir fyrir pening sinn, og væntu síst þvílíkrar veðráttu um þær mundir. Þó tók út yfir hið stóra áfelli, sem gjörðist fyrir hvítasunnuhátíð [29.maí], er varaði rúmar 3 vikur, og gjörfelldi mestan þorra sauðpenings í mörgum sveitum, en einkum í Hjaltastaðarþinghá og Eiðasókn, í hverjum og hestar í mannsminni ekki höfðu þannig gjörfallið. Afleiðingar þessara harðinda létu sig strax í ljósi, nefnilega: mesta hungur og hallæri; keyptu þeir, er gátu kjöt og tólg, fyrir dýra dóma, úr kaupstöðum, er þeir þangað sjálfir fellt höfðu haustinu áður, fyrir miklu minna verð, en fluttu nú þangað með miklum kostnaði, í ófærð og snjóum, heim til sín aftur. Með messum batnaði veðuráttan, og varð hin hagstæðasta, er viðhélst til höfuðdags [29.ágúst]. Tún, sem um vorið kalið hafði til skaða, voru mjög graslítil; úthagi betri og nýting á heyjum sæmileg. Eftir höfuðdaginn versnaði veður, er gekk með snjóhretum, frostum og stormum allt til Mikaelsmessu [29.september]. Í Suður-Múlasýslu var sumarið framan af vindasamt og rosablandið, en seinni hluti þess og haustið hið blíðasta að veðráttufari. Grasbrestur var þó hér mikill, vegna undangengis gróðurlítils vors, en heynýting yfir höfuð hin besta. Veturinn 1803, byrjaði á Suðurlandi með blíðri veðurátt, og hélt þannig við til nýjárs 1804. Sama hagstæða veðurlag gekk einnig víðast í hinum landsins fjórðungum, og kvaddi þannig ár þetta, í því tilliti, land vort eins mildilega og hið næst undanfarna.
Brandsstaðaannáll [sumar]:
Á fráfærum, fært frá 10 vikur af sumri [23. til 29.júní], gróðurlaust á heiðum og fjöllum. Sláttur byrjaði í 15. viku sumars [28.júlí til 3.ágúst]. Voru þá vætur og óþurrkar, þar til í 18. viku [19. til 24.ágúst] og kom góður þerrir. Grasbrestur mikill varð á túni og engi. Í 19.-20. viku mikið snjóhret [25.ágúst til 7.september], er tók fyrir vinnu um vikutíma í meðallagi hálendum sveitum. Eftir það flóði jörð. Eftir það hélst úrfelli og þerrileysi fram yfir göngur. Síðan voru hey inn látin hrakin og illa þurr.
Brandsstaðaannáll [haust og vetur til áramóta]:
Haustið var vott og óstöðugt. Mikil norðanhríð á Mikaelsmessu og ofsa vestanveður á föstudag fyrstan í vetri [29.október], eftir það allgott utan íkast á hverjum föstudegi til jólaföstu. Var þá kominn snjór og frost, en allan desember stillt veður, auð jörð og frostalítið, svo ei þurfti að gefa lömbum. Eftir áður sögðum málnytuskorti og ýmislegum aðdráttahnekki, þá kalla mætti, að allar bjargir væri bannaðar.
Espólin er heldur stuttorður um tíðarfar ársins 1803:
Espólín: XCIV. Kap. Var þá vetur áhlaupasamur öndverður [1802], en rættist vel af. Var miður veturinn góður, en misjafn endrarnær. Þá dó margt fólk úr sótt, en sumt úr harðrétti. (s 125). XCVI. Kap. Það vor var hið kaldasta, og svo öndvert sumar, og voru hafísar við land. (s 126). Var þá þungt árferði, og lítill fiskifengur víða. (s 127). XCVII. Kap. Á því ári dóu ei allfáir úr harðrétti, og fleiri dóu en fæddust; skipatjón þeirra, er í förum voru, urðu í ýmsum stöðum. Allmargir menn drukknuðu, og fleiri urðu misfarir. (s 128). XCVIII. Kap. Þá gjörði vetur hinn besta [1803-1804]. (s 130).
Við reynum að draga saman nokkra punkta úr dagbókum Jóns Jónssonar á Möðrufelli í Eyjafirði og vonum að ekki sé mikið um mislestur:
Hann segir janúar allan gæðagóðan og stilltan. Febrúar hafi verið allsæmilegur nema ein vika, sú fyrsta (bókuð þann 5.) var stillt og aldrei var frosthart enda þó skafheiðríkt væri, jarðir nógar. Þann 12. segir Jón af sæmilegri viku, en nokkuð óstöðugri en áður. Þann 19. segir Jón af harðri viku, en sæmilegri þann 26. en frosthörð hafi hún verið síðast. Mars segir hann í meðallagi, nokkuð óstöðugar og frostaríkan síðast af hafískomu. Í apríl var fyrri partur dágóður en síðan sára bág tíð. Í maí samfelld bágindi og harðindi með sífelldum fannhríðum og norðan stormum, oft jarðlaust af snjó. Júní var sæmilegur og gróðri fór fram. Júlí segir hann gæðagóðan mestallan að veðráttu og grasvöxtur besti. Ágúst mikið hlýr og góður fyrri part en síðast kaldur mjög með áfelli. September allur mjög andkaldur og óþurrkasamur. Október mikið stilltur og góður. Nóvember teljist þar um pláss góður þó frost væru mikil um tíma, jörð alltaf dágóð. Desember stillur og góður að veðráttu og snjólaust allstaðar. Sama góðviðri fréttist að vestan og sunnan.
Vikuyfirlit Sveins Pálssonar eru illlæsileg eins og venjulega - en smávegis má lesa um veðurviðburði, merkastur frá okkar sjónarhóli er snjókoman í ágúst:
Nokkuð var um þrumuveður í Kotmúla, 4.janúar (með ljósagangi), 21.mars og 7.apríl Þann 14.mars segir Sveinn að gluggafluga sé fyrst séð. Seint í mars segir hann frá fiskreki meðfram Eyjafjöllum öllum. Þverá ruddi sig nærri Kotmúla 12.apríl. Alhvít jörð 29.apríl. Ofsaflóð var í jökulvötnum þann 27.júní. Að kvöldi 24.ágúst snjóaði niður í byggð og um nóttina hvítnaði niður í Landeyjar, mikið snjóaði í fjöll.
Brot úr tíðavísu Jóns Hjaltalín yfir árið 1803:
Veitti snjóa vítt á móa vetur liðinn
lítinn góa græddi friðinn
gaf óróa logna biðin.
Gróðurs kyrða kraft réð myrða kælinn andi
hafís nyrðra lá að landi,
læsti stirður eyjabandi.
Njótar meina nóg spratt ei þó nýttust töður
en úthey um engja stöður
í fór þvegið garð og hlöður.
Haust veðráttan hefur mátt þó heita blíða
kvikfé fátt sem lifir lýða
lurast smátt um jörðu víða.
Úr tíðavísum Þórarins í Múla 1803:
Árið leið fyrir utan neyð mjög stóra
þorra skeið ei þreytti hríð
þá gekk heiðrík frosta tíð.
Storma þrasi stýrði lasin góe
um nam flasa yggjar sprund
ör í fasi` og stygg í lund.
Einmánaðar ofsa-glaðir vindar
hétu skaða hauðri` og lá
harðlundaðir víða þá.
Vorið allt sár voða kalt með hretum
kosta hallt af kvikfénað
komst gjörvallt og lotum að.
Menn því kviðu mundu við ei standast
frost-hretviðrum frekum þó
fram að miðjum júlíó.
Sendi drottinn sumars gott hádegi
heitt og vott því hagsæld bar
hauðri` er sprottið lítt þá var.
Mæðu klemmdir menn við rembdust sláttinn
vætur stemmdu verkin því
víða skemmdust heyin ný.
September þó sýndist verr útleika
hretin þver og hryðju loft
hreyfðu sér til þrautar oft.
Úr Mikkaelismessu vel nam batna
frosta él og fjúka þrá
framar teljast ekki má.
Hret á ný í nóvembrí kom miðjum
allt frá því, á árs-lok fram
örn ei skýja bærði hramm.
Hefði tíð svo hæð og blíð ei fallið
fyrir kvíða máttu menn
missi víða stórum enn.
Lýkur hér að sinni umfjöllun hungurdiska um árið 1803. Sigurði Þór Guðjónssyni er þakkað fyrir innslátt Brandstaðaannáls og Hjördísi Guðmundsdóttur fyrir innslátt Árbóka Espólíns (stafsetningu hnikað hér - mistök við þá aðgerð sem og allan annan innslátt eru ritstjóra hungurdiska). Örfáar tölur í viðhengi.
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 20:37 | Facebook
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 871
- Sl. sólarhring: 912
- Sl. viku: 2666
- Frá upphafi: 2413686
Annað
- Innlit í dag: 815
- Innlit sl. viku: 2415
- Gestir í dag: 792
- IP-tölur í dag: 773
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.