Norðvestanáttin fláráða

Um þessar mundir er norðvestanátt ríkjandi í háloftunum við landið og útlit fyrir að það ástand haldi áfram - að vísu með einhverjum tilbrigðum eins og gengur. Lægðardrög berast úr vestri yfir Grænland og svo ýmist austur, suðaustur eða suður yfir Ísland. Köld norðanátt steypist yfir landið í kjölfar þeirra allra. Miðað við kuldann sem kom með páskadraginu kemur það þó á óvart að veðrið skuli þó ekki vera verra heldur en það er. 

Drag er við landið í dag (miðvikudag 7.apríl). Norðanáttin í kjölfar þess er að vísu nokkuð snörp - veldur vetrarveðri - en virðist eiga að ganga fljótt hjá. Næsta drag verður síðan í undirbúningi síðdegis á föstudag - eins og kortið hér að neðan sýnir.

w-blogg070421a

Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar, þykkt er sýnd með litum. Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs, því minni sem hún er því kaldara er loftið. Kuldapollur er yfir Austurlandi - leifar norðanáttar lægðarinnar sem er við Vesturland í dag - en lægðin sjálf verður á föstudaginn komin til Noregs.

Næsta lægðardrag er hér við Vestur-Grænland - fer yfir jökulinn aðfaranótt laugardags og lægð myndast á Grænlandshafi. Eins og spár eru í augnablikinu er gert ráð fyrir öðru lægðardragi strax í kjölfarið - sem sameinist því fyrra og valdi nokkuð snarpri norðanátt upp úr helginni.

Kuldinn á þannig að halda áfram. En eins og áður sagði hefur samt farið til þess að gera vel með veður til þessa - miðað við stöðu og tilefni. Vonandi að slíkt haldi áfram. 

En útnorðanátt í háloftum er mjög fláráð og getur með skömmum fyrirvara farið að sýna á sér hinar verstu hliðar - þannig að rétt er að fylgjast vel með.  

Kuldinn þessa dagana hefur verið fremur óvenjulegur fyrir aprílmánuð - sé miðað við síðustu áratugi. Aðeins einn apríldagur á öldinni hefur verið kaldari - á landsvísu. Það var 7.apríl árið 2005 - einnig í snarpri háloftanorðvestanátt. Sú staða stóð hins vegar aðeins þann eina dag. 

Í eldri gögnum - aftur til 1949 finnum við 24 kaldari apríldaga heldur en nú. Kaldastur þeirra var auðvitað hinn illræmdi 1.apríl 1968 - honum fylgdu 2 aðrir kaldari en nú. Sá næsti á undan þeim 2005 var 1991 - en á árunum 1949 til 1991 komu kaldari apríldagar í 12 árum (af 53) - svona fjórða hvert ár. Varla mjög óvenjulegt. 

Tíðnin í Reykjavík er ekki ósvipuð - frá 1990 er aðeins einn apríldagur kaldari en nú (7. 2005) og 14 ár á tímabilinu 1949 til 1991 skreyta sig með að minnsta kosti einum apríldegi kaldari en nú. Frá 1871 eru slíkir dagar hins vegar 69 (fáeina aprílmánuði vantar), kaldastur 1.apríl 1886 - ómarktækt kaldari heldur en sá 1. 1968. 

Fyrstu 3 dagar mánaðarins voru hlýir nú þannig að meðalhitinn er ekki enn kominn á aldarbotninn - en mun væntanlega ná honum fljótlega haldi kuldinn áfram. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

 • Slide10
 • Slide9
 • Slide11
 • w-1945v
 • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

 • Í dag (21.5.): 356
 • Sl. sólarhring: 361
 • Sl. viku: 1902
 • Frá upphafi: 2355749

Annað

 • Innlit í dag: 332
 • Innlit sl. viku: 1756
 • Gestir í dag: 312
 • IP-tölur í dag: 311

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband