Af nýliðnum febrúar

Eins og kemur fram í tíðarfarsyfirliti Veðurstofunnar var nýliðinn febrúar hlýr og tíð var hagstæð. Hann fer einnig í bækur sem veðragóður mánuður. Meðalvindhraði var undir meðallagi, á landsvísu sá minnsti í febrúar í nokkur ár - eða frá 2010. Illviðradagar voru einnig fáir. 

w-blogg020321c

Þetta riss sýnir „stormavísitölu“ febrúarmánaða aftur til 1949. Fjallað hefur verið um gerð hennar áður á þessum vettvangi. Há vísitala bendir til þess að mánuður hafi verið óvenjuillviðrasamur - en lág vísitala segir frá góðviðrum. Þó ekki sé allt einhlítt má sjá greinilegan mun á milli mánaða. Við sjáum t.d. að síðustu árin, frá 2015 til 2020, hefur febrúar lengst af verið illviðrasamur og að febrúar 2013 aftur á móti ámóta hægur og nú. Enga leitni er að sjá á myndinni - allt harla tilviljanakennt þó votti fyrir „klasamyndun“. 

Skipti frá mönnuðum athugunum yfir í sjálfvirkar valda smávegis tengivanda - en í aðalatriðum eru vísitölur beggja kerfa samhljóða að mestu. Hálendisstöðvar eru ekki inni í talningunni. Ritstjórinn fylgist sérstaklega með þeim. Vísitala hálendisstöðvanna var nú hin lægsta í febrúar frá 2010. Græna strikalínan sýnir vísitölu sem reiknuð er frá stöðvum Vegagerðarinnar. Fyrstu árin sýnir hún áberandi hærri gildi en hin stöðvakerfin - en verður síðan samstíga. Ástæðan er líklega sú að fyrstu árin var vegagerðarstöðvunum beinlínis komið fyrir á sérlega vindasömum stöðum - en eftir því sem árin hafa liðið hefur stöðvum á stöðum þar sem vindur er „venjulegri“ fjölgað og svo virðist nú sem munur á kerfunum sé ekki mjög mikill hvað þetta varðar. Meðalvindhraði vegagerðarstöðvanna er þó að jafnaði lítillega hærri en að meðaltali í byggðum landsins - þrátt fyrir að hæð mælis sé lægri (6 m í stað 10 m). 

w-blogg020321a

Hér má sjá stöðuna í háloftunum í febrúar. Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar, daufar strikalínur sýna þykktina, en litir vik þykktarinnar frá meðallagi áranna 1981 til 2010. Hún var undir meðallagi á bláu svæðunum, en yfir því á þeim gulu og rauðbrúnu. Með afbrigðum hlýtt var í norðanverðum Labrador. Hér á landi ríkti eindregin sunnanátt - út frá legu jafnhæðarlína einni og sér hefði mátt búast við að úrkoma væri vel yfir meðallagi, en svo var ekki. Mánuðurinn var frekar þurr - nema á Austfjörðum og Suðausturlandi. Þó áttin hafi verið jafneindregin af suðri og hér er sýnt var hún mun austlægari við sjávarmál - eins og sunnanáttin hafi staðið í stöðugri baráttu við kalt loft úr norðri - en langoftast haft svo miklu betur að ekkert varð úr átökum.

Leit að nánum „ættingjum“ skilar ekki miklu. Þetta virðist vera fremur óvenjuleg staða. Nánastur ættingjanna er febrúar 1926. Á svæðinu næst landinu var staðan þá afskaplega svipuð og var nú, en þegar litið er lengra til beggja átta sést skyldleikinn síður.

w-blogg020321b

Rétt að benda á að viðmiðunartímabil þykktarvikanna er ekki hið sama og á fyrri mynd - hér nær hún til allar 20.aldarinnar. Jákvæðu vikin væru heldur minni á síðari myndinni væri sama tímabil notað. 

Veðráttan (tímarit Veðurstofunnar) gefur þetta yfirlit um febrúar 1926:

„Einmuna veðurblíöa um allt land. Tíðin mjög hagstæð fyrir landbúnað og einnig fyrir sjóróðra fyrri hluta mánaðarins. Fremur óstöðugt síðari hlutann“. 

Við gætum notað svipað orðalag um þann nýliðna - alla vega þvældist veðrið fyrir fáum og flestir hafa vonandi notið þess til fulls. Við þökkum BP að vanda fyrir kortagerðina.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Nú mega einstaka veður ekki vera óvenjuleg nema loftslagsbreytingum sé kennt um. T.d. stórrigningarnar á Seyðisfirði og stórhríðakaflar tvo vetur í röð sem m.a. skemmdu raflínur. Ákveðnir veðurfréttamenn eru duglegri en aðrir að halda þessu fram og "spá" því t.d. að vindur og úrkoma muni aukast á Íslandi. Ég man þó ekki til þess að þeir hafi fullyrt að aukinn vindstyrkur hafi raungerst nú þegar.

Sumir vísindamenn fullyrða að tíðni fellibylja hafi aukist og sömuleiðis styrkur þeirra, meðan aðrir benda á að það sé tóm vitleysa og sýna gögn og gröf máli sínu til stuðnings.

Mín spurning til þín, Trausti, hefur úrkoma og vindstyrkur aukist á Íslandi sl. 10 ár, miðað við síðustu 100 ár? 

Gunnar Th. Gunnarsson, 4.3.2021 kl. 08:53

2 Smámynd: Trausti Jónsson

Vindstyrkur hefur - til langs tíma litið - ekki aukist. Svo er hins vegar að sjá að úrkoma um landið norðaustan- og austanvert hafi gert það. Norðlægar og austlægar áttir hafa hlýnað meira en aðrar og virðast bera með sér meiri úrkomu. Hvort þetta er tímabundið ástand vitum við ekki. 

Trausti Jónsson, 4.3.2021 kl. 13:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg040125ia
  • w-blogg040125b
  • w-blogg040125a
  • w-blogg020125a
  • w-blogg020125a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.1.): 73
  • Sl. sólarhring: 329
  • Sl. viku: 2840
  • Frá upphafi: 2427392

Annað

  • Innlit í dag: 55
  • Innlit sl. viku: 2543
  • Gestir í dag: 53
  • IP-tölur í dag: 53

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband