Smávegis af jarðskjálftum 1789

Ekki þarf að fletta lengi eða mikið í gömlum blöðum til að finna eitthvað um jarðskjálfta á Reykjanesskaganum. Það er þó misjafnt hvar meginvirknin hefur verið hverju sinni. Ritstjóri hungurdiska er ekki fræðimaður á þessu sviði, veit lítið og ætti því að segja sem minnst um málið. Honum finnst þó freistandi að minnast á jarðskjálftana 1789, en snemma sumars það ár gekk mikil jarðskjálftahrina yfir landið suðvestanvert. Hún er almennt talin hafa átt upptök sín á Hengilssvæðinu - en ekki þar sem nú skelfur. Þorvaldur Thoroddsen nefnir í riti sínu „Landskjálftar á Suðurlandi“ ýmsar heimildir um skjálftana og segir meðal annars (s.36):

„Miklir jarðskjálftar i Árnessýslu og víðar um suðvesturlandið svo hús hrundu á allmörgum bæjum; þó voru jarðskjálftar þessir ekki nærri eins harðir eins og kippirnir 1784. Landskjálftarnir byrjuðu 10. júní, og í viku á eftir var varla nokkurn tíma kyrrt nótt eða dag, og voru varla 10 mínútur milli hræringanna; oft urðu menn síðan varir við jarðskjálftana fram eftir sumri“. 

Síðan lýsir Þorvaldur ýmsum breytingum sem urðu við skjálftana, einna mestar virðast þær hafa orðið á Þingvöllum og „sökum skemmda og breytinga þeirra, sem urðu, varð jarðskjálfti þessi meðfram tilefni til þess, að alþingi var flutt frá Þingvöllum og breyttist í yfirrétt i Reykjavík“. Væntanlega hefur Þorvaldur þetta síðasta eftir Magnúsi Stephensen. 

Í bókinni „Sendibréf frá íslenzkum konum 1784-1900“, sem Finnur Sigmundsson bjó til prentunar (Rvk, 1952) er að finna bréf sem Guðrún Skúladóttir (landfógeta) ritar Sveini Pálssyni, en hann var þá náttúrufræðinemi í Kaupmannahöfn:

„Viðey 16. ágúst 1789: Þann 8. júní um kvöldið komu þrír jarðskjálftar, og (s16) þar eftir aftur og aftur nætur og daga í heila viku. Þann 10. taldi eg 108, en nóttina þar eftir taldi stúlka, sem vakti, 39. Flestir voru þeir smáir, þó nokkrir æði miklir, en hér um pláss varð ei skaði af þeim. Hér og hvar duttu og skemmdust gömul hús. Í Ölvesi féll bær, sem heitir Þurá, og í Selvogi annar, heitir Hlíð, nema eitt hús stóð, og þar lá í vanfær manneskja, sem ei gat hrært sig. Fólkið þorði ekki að liggja í bæjunum á nóttunni, meðan á þessu stóð, og lá úti í tjöldum og undir berum himni. Í Þingvallahrauni urðu stórar umbreytingar, 2 gjár komu í Þingvallatún, Öxará er orðin þurr hjá Þinginu, því hún rennur ofan í jörð, en vatnið rennur uppheftir farvegnum langtum lengra en fyrri, því að er orðið miklu dýpra Þingvallamegin en það var, en hitt landið á móts við sjást upp úr því steinar, þar sem var 7-8 faðma djúp. Í jarðskjálftunum kom upp á Hellisheiði vellandi hver og 3 austur í Ölvesi, þar enginn var áður. Eftir þetta sást hér nokkra daga jarðeldsreykur eða einhver móða honum lík, og sagt var að eldur væri í Krýsivíkurfjalli. En norðanvindur kom, og þá hvarf móðan, og síðan hefur ei verið getið um eldinn. Síðan vindurinn kom á austan, hefur móðan sézt öðru hverju“.

Þorvaldur segir (og hefur eftir „Mannfækkun af hallærum“ eftir Hannes Finnsson):

„Grundvöllur Þingvallavatns sökk að norðan og dýpkaði það þeim megin og hljóp á land, en suðvestan grynnkaði það svo, að þar sem áður var 4 faðma dýpi var þurrt á eftir“.  

Trúlega er ítarlegustu upplýsingar um jarðskjálftana sjálfa að finna í athugasemdum Rasmusar Lievog stjörnuathugunarmeistara í Lambhúsum við Bessastaði. Þó ritstjóri hungurdiska eigi í ákveðnum erfiðleikum með að lesa skrift hans er hún þó mun viðráðanlegri en flestir þeir dagbókartextar og bréf sem hann hefur séð frá þessum árum. Ekki leggur hann þó í uppskrift - slíkt ætti að vera vanari augum auðvelt verk. Myndin sýnir blaðsíðu úr skýrslu Lievog. [Þann 6.júní segist hann sjá Snæfellsjökul - [Vester-Jökelen saet] - eins og slíkt sé viðburður.

lievog_jardskjalftar_1789

Fyrsta hræringin sem Lievog minnist á þetta vor (1789) er 31.maí. Þá segir hann að kl.1 1/4 að kvöldi hafi komið „temmelig stærkt Jordstød, eller Rystelse“. Nokkuð sterkur jarðskjálfti eða hræring. Síðan kemur að 8. júní. Þá segir hann (lauslega eftir haft): Kl. 9:42 að kvöldi. Kom fyrst lítill, en eftir fáeinar sekúndur, nokkuð meiri jarðskjálfti, sem virtist koma úr suðvestri. 

Mest var síðan um að vera þann 10.júní. Lýsing á atburðum þess dags tekur hátt á þriðju síðu í yfirliti Lievog. Segir að hann hafi talið 88 nokkuð sterka skjálfta þennan dag - en ábyggilega hafi þeir verið fleiri. Hálfleiðinlegt veður var þennan dag, sunnanstrekkingur með skúrum eða rigningu - en svo virðist sem hann hafi samt ákveðið að sofa í tjaldi - morguninn eftir vakti skjálfti hann kl.6 og frá kl.10 árdegis til 6 síðdegis hafi komu að sögn 6 skjálftar. Næstu daga voru einhverjir skjálftar á hverjum degi, til og með 16. Síðan kom nokkurra daga hlé, til þess 21. að vart varð við hræringar. 

Magnús Ketilsson sýslumaður í Búðardal (á Skarðsströnd) getur skjálftanna í dagbók sinni í júní 1789:

„Jarðskjálftar oft til þess 14da svo stundum brakaði í húsinu“. 

Í dagbókum Sveins Pálssonar er sagt að vart hafi orðið jarðskjálfta í Viðey bæði 1785 og 1786 - ekki er vitað hvar upptök þeirra kunna að hafa verið. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Víst ertu fræðimaður góður (þótt ekki i jarðfræði eða skyldu) og þess vegna hungra lesendur í að lesa allt sem frá þér kemur og er sérstaklega áhugavert þessa dagana að fá birta hér heimildir um skjálftana 1784 og 1789 ofl.auk afleiðiga þess á landslagið. Takk fyrir.

Helga Kristjánsdóttir, 2.3.2021 kl. 01:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg181124a
  • w-blogg151124c
  • w-blogg151124b
  • w-blogg151124a
  • w-blogg141124ii

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 48
  • Sl. sólarhring: 143
  • Sl. viku: 1969
  • Frá upphafi: 2412633

Annað

  • Innlit í dag: 48
  • Innlit sl. viku: 1722
  • Gestir í dag: 47
  • IP-tölur í dag: 46

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband