17.2.2021 | 00:54
Af árinu 1841
Árið 1841 þótti hagstætt þrátt fyrir nokkra vorkulda, slæm sumarhret og mikinn kulda seint um haustið. Í heild var árið fremur kalt (að okkar tíma mati), meðalhiti í Reykjavík var 3,6 stig, -0,2 stigum neðan meðaltals næstu tíu ára á undan. Munaði mest um sérlega kaldan nóvember, þá var morgunhiti á Gilsbakka í Hvítársíðu -10°C eða lægri í 13 daga í röð. Ámóta kalt var í desember - en það er samt venjulegra. Auk þessa var einnig kalt í janúar, júlí, ágúst og október, en aftur á móti hlýtt í febrúar, mars, apríl og september, að tiltölu hlýjast í febrúar og mars, enda vel um tíð talað.
Í Reykjavík voru 24 dagar sérlega kaldir, þar af 9 í ágúst, sá 22. kaldastur að tiltölu. Enginn dagur var sérlega hlýr í Reykjavík.
Árið var þurrt í Reykjavík, ársúrkoman ekki nema 535 mm. Þurrast var í júní og júlí, en úrkoma var mest í mars. (Tölur í viðhengi).
Þrýstingur var sérlega hár í janúar og september og einnig hár í júlí, október og nóvember. Hann var fremur lágur í mars, apríl, maí og ágúst. Þann 4.janúar mældist þrýstingur hærri en nokkru sinni fyrr eða síðar hér á landi, 1058,0 hPa. Nákvæm tala er e.t.v. aðeins á reiki (vegna óvissu í hæð loftvogar og nákvæmni hennar) en ljóst að Jóni Þorsteinssyni athugunarmanni í Reykjavík þótti þetta mjög óvenjulegt, hann fylgdist með loftvoginni og skrifaði niður sér hæstu töluna sem hann sá. Þessi háþrýstingur stóð ekki lengi. Nánar er um þetta merka met fjallað í sérstökum metpistli á vef Veðurstofunnar.
Þetta var auðvitað hæsti þrýstingur ársins, en sá lægsti mældist í Reykjavík rúmum mánuði síðar, þann 19.febrúar, 948,4 hPa. Þrýstiórói var með minnsta móti í ágúst, september og október - sem bendir til hægra veðra.
Hér að neðan eru helstu prentaðar heimildir um árið teknar saman, stafsetning er að mestu færð til nútímahorfs. Fáeinar ágætar veðurdagbækur eru til sem lýsa veðri frá degi til dags, en mjög erfitt er að lesa þær. Hitamælingar á vegum Bókmenntafélagsins hófust víða um land um mitt ár - og síðan árið eftir. Um þetta merka átak má m.a. lesa í skýrslu í ritasafni Veðurstofunnar. Nokkuð hefur verið unnið úr mælingum og athugunum og heldur sú vinna vonandi áfram á næstu árum. Engin fréttblöð greindu frá tíðarfari eða veðri á þessu ári - nema Gestur vestfirðingur mörgum árum síðar - og þá í mjög stuttu máli. Annáll 19. aldar telur fjölda slysa og óhappa - við sleppum flestum þeirra hér, enda tengsl við veður óljós eða þá að dagsetninga er ekki getið.
Annállinn getur þó þess tvö systkin frá Ægissíðu hafi orðið úti á Vatnsnesi 2.janúar. Þann 28.júlí sleit frá tveimur akkerum í norðaustan rokviðri hollenska fiskiskútu á Haganesvík í Fljótum og rak að landi. Menn komust af nema skipstjórinn. Tveir bændur frá Vík í Héðinsfirði fórust í snjóflóði 22.nóvember.
Gestur Vestfirðingur lýsir árferði 1841 - en ekki fyrr en í 1. árgangi, 1847:
Árið 1841 var talið eitt með helstu góðárum landsins. Tvo hina fyrstu mánuðina [janúar og febrúar], og hinn níunda og tíunda [september og október], voru langvinn og sífeld staðviðri; hagar voru alltaf nægilegir, og sumstaðar gekk sauðfé sjálfala úti. Grasár varð gott, því tún og harðvelli spruttu vel, nýting sæmileg. Sjávarafli í meðallagi, vetrarhlutir undir Snæfellsjökli 4 hundruð og þaðan af minni, allt að 2 hundruð; vorhlutir í Dritvík tvö hundruð og minni, en að sínu leyti lakari í hinum verstöðunum vestra.
Árið 1841, í janúar, dóu 2 menn af róðrarskipi, sem hraktist frá Jökli til Barðastrandar. Það ár drukknuðu 2 menn af bát úr Skálavík, 7 menn. af hákarlaskipi frá Ögri í Ísafirði og 4 menn frá Felli í Tálknafirði.
Erfitt er að lesa hönd Jóns Jónssonar í Dunhaga í Hörgárdal, en þó má greina þetta (ekki orðrétt eftir haft):
Janúar mátti kallast yfirhöfuð í mikið betra lagi, þó um tíma gerði jarðbönn. Febrúar allur mikið góður að veðráttu. Mars merkilega góður. Apríl yfir höfuð að segja góður þó síðari partur (eitthvað neikvætt). Maí mestallur mjög kaldur. Júní má kalla í betra lagi. Júlí að sönnu allsæmilegur. Ágúst má kallast hér í meðallagi og þó betri. Október misjafn mjög, þó teljast í meðallagi. Nóvember má heldur teljast í lakara lagi. Desember jarðlítið mjög.
Brandsstaðaannáll [vetur]:
Þriðja janúar var mikil norðanhríð. Rak þá fjölda af svartsmáfugli, er kallast haftyrðill, mest í Hegranesi og Hrútafirði. Meintu margir það vissi á ís og harðindi, en veturinn varð mikið góður, því aldrei tók fyrir jörð. Snjóakafli með þorra 2 vikur, lengst stillt og mjúkt veður. 13. mars kom heiðarleysing og úr því gott vorveður.
Tíðarfari er lýst í fáeinum bréfum:
Frederiksgave [á Möðruvöllum í Hörgárdal] 15-2 1841 (Bjarni Thorarensen): Vetur þessi hefir verið hinn besti það sem af er ... (s154)
Frederiksgave 15-2 1841 (Bjarni Thorarensen): ... veturinn þann besta það sem af er, (s255)
Brekku 2-3 1841 (Páll Melsteð). Menn mun ekki eins góðan vetur, að minnsta kosti hér syðra, það má segja að eigi hafi lagt glugga oftar en tvisvar, nokkru fyrir jól og svo fáum dögum eftir nýár.
Bessastöðum 3-3 1841 [Ingibjörg Jónsdóttir] (s194) Vetur hefur verið blíður og hartnær snjólaus til þessa.
Frederiksgave 23-3 1841 (Bjarni Thorarensen): Veturinn hefir hér verið einhver hinn allrabesti enda þurfti þess með. (s175)
Frederiksgave 20-4 1841: Vetur hinn allrabesti (s298)
Frederiksgave 22-4 1841 (Bjarni Thorarensen): ... góður vetur ... menn vona að hafís komi ekki í ár, því austan átt hefir lengi dominerað og óvenjulega mikið brim með hverri norðangolu, hann er því langt í burtu. (s176)
Þann 10.febrúar segir Ólafur í Uppsölum frá mikilli námafýlu - trúlega á hann við brennisteinslykt. Annars er veðurlýsing þess dags: Sunnan stormur, hríð og frost fyrst, þá oftar rigning.
Brandsstaðaannáll [vor]:
Eftir jafndægur unnið á túnum og þau grænkuðu á sumarmálum. Með maí frost og ofurmiklir þurrkar, er stöðugt hélst allt vorið. Fór grasvexti seint fram. Þó varð hann mikill í útsveitum, hálsum og votlendi.
Brandsstaðaannáll [sumar]:
29. júní kom eitthvert mesta hret á þeim tíma. Mesta fannkoma var 3 dægur, síðan frost mikið, svo hestheldar urðu fannir á heiðum. Ei náði það suður yfir Sand og hálfan mánuð var snjór hér í fjöllum í góðu sumarveðri. Sláttur byrjaði 16.-17. júlí og varaði í lengsta (s136) lagi. Veðurátt varð hagstæð, rekjur góðar og nægur þerrir. 27.-28. ágúst stórfelld rigning. Skemmdist þá sæti, þar sem það var úti. Aftur 14.-18. sept. ógnarrigning. Varð þó allt hey hirt um göngur. Hélst góðviðrið út september.
Árgæska varð nú í flestum sveitum. Þó varð mikill málnytarhnekkir við fráfærnahretið. Fáheyrt var líka hér um slóðir að grasmaðkur gjöreyddi gróðri í Langadal, frá Buðlunganesi að Auðólfsstaðaá [neðanmáls: Fjallið varð hvítt og haglaust], svo skepnur flúðu á háfjöll, en Hlíðarfjall varð frítt, en skaði varð að þessu í Svartárdal og Blöndudal mót vestri og mjög víða í Skagafirði, einkum í Djúpadal. Maðkadyngjan færðist yfir í þykkum röstum, og varð hvít jörð eftir hann, færðist að túnum og þar mátti merja það mesta með fótum, eins og mola röst á túni. Spratt þar fljótt gras aftur af fitu hans, sem er ljósefni. Ei fór hann í velgróið tún, heldur jaðra og ræktarlitla bletti. Tíminn var milli fardaga og Jónsmessu. Á því maðk- (s137) étna svæði varð dáðlaust hey og hagar til mjólkurnota. Lítið varð vart við hann á hríslendinu. (s138)
Ólafur Eyjólfsson á Uppsölum í Öngulstaðahreppi segir af veðri síðustu daga júnímánaðar:
Sunnudagur 27.júní. Kyrrt og þoka fyrst, þá hafgola, stundum sólskin. Skúrir áliðið, aftur kyrrt og þoka seinast. Veðrið alltaf hlýtt. 28. Sunnan hvass, sólskin, hlýtt, þykknaði áliðið, mistur. 29. Suðvestan frameftir, þá vestan og stundum norðan seinast og kaldur, éljaleiðingar, stundum sólskin. 30. Fyrst sunnan, þá norðan og þá úr ýmsum áttum. Kuldi, hríðarkólga útí og éljaleiðingar, sjaldan sólskin, áttin alltaf af vestri. 1.júlí. Norðan kaldur, þykkur hríðardimma í fjöllum fyrst og þá éljaleiðingar, þá sólskin, seinast kyrrt og blítt.
Frederiksgave 23-8 1841 (Bjarni Thorarensen): Grasvöxtur hefir hér verið í betra meðallagi en ekki meir, því strax eftir Jónsmessu kom eftir langa sunnan- og vestanátt, hafís, svo kuldaköst hafa síðan gengið, þar á meðal nú seinustu viku af hundadögunum. Á Húsavík gat ég með góðu komið því á, að menn lögðu saman til að gera gryfju til að láta brennisteinsskol renna í þegar hann er þveginn, svo þau flytu ekki einmitt í sjó út, því menn kenndu mest um það aflaleysið sem hefir nokkur undanfarin ár verið á Skjálfandaflóa síðan brennisteinsþvottur tók þar aftur að tíðkast, en þegar gryfjan kom hefir svo viðbrugðið að á Flóanum sama hefir í sumar rétt vel fiskast, og þetta virðist að sanna meiningu almúga um skaðvæni brennisteins fyrir fiskiafla. (s257) [Bjarni lést snögglega aðeins 2 dögum síðar og jarðaður þann 4.september. Séra Jón í Dunhaga jarðsöng].
Sr. Jón Austmann í Ofanleiti segir af næturfrosti í Eyjum aðfaranótt 3.september.
Þann 1. september segir Magnús í Grímsey snjóa- og kuldalegt, og að þann 3.september hafi alsnjóað. Einnig segir séra Þorleifur í Hvammi frá því að þar hafi snjóað niður að sjávarmáli 3.september.
Brekku 7-10 1841 (Páll Melsteð). Héðan er fátt að frétta af Suðurlandi, nema tíðin er svo góð og blessuð alltaf, að ég hefi aldri lifað í betra veðri eða hagstæðara til allra aðdrátta og útivinnu. Heybændur eru líklega vel byrgir að heyjum, svo það er líklegt, ef veturinn verður góður, að þeir komi vel fótum undir sig. Hér við sjóinn er nú allt lakara, vertíðin var með lakara móti, vorið ekki betra.
Brandsstaðaannáll [haust og vetur í áramóta]:
Í október fyrst stillt og þurr norðanátt. 11. og einkum 19. okt. lagði á fannir miklar, 30.-31. blotaði og tók upp til lágsveita, en varð gaddur á hálendi. Með nóvember aftur fönn, svo öll lömb voru tekin inn. Varð Langidalur þá fyrir meiri gaddi en aðrar sveitir. 3.-13. nóv. var stillt veður, en lítil snöp; aftur langur landnyrðings-hörkukafli og langvinn hríð ytra. 22. nóv. kom allt fé á gjöf, braut aðeins niður framan í hálsbrúnum, en sléttur gaddur yfir alla jörð neðra. Í miðjum desember voru öll hross komin á gjöf. Hörkur og óstöðugt var lengst á jólaföstu. Um nýár var meira hey uppgengið en nokkru sinni áður.
Sr. Jón Austmann í Ofanleiti segir af desember 1841: Þann 20. þ.m. var frostið um dagmál 9° en um kvöldið kl.8 -15°.
Lýkur hér að sinni umfjöllun hungurdiska um árið 1841. Sigurði Þór Guðjónssyni er þakkað fyrir innslátt Brandstaðaannáls. Fáeinar tölur má finna í viðhengi.
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 11:40 | Facebook
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 852
- Sl. sólarhring: 902
- Sl. viku: 2647
- Frá upphafi: 2413667
Annað
- Innlit í dag: 796
- Innlit sl. viku: 2396
- Gestir í dag: 773
- IP-tölur í dag: 755
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.