11.1.2021 | 00:59
Af árinu 1834
Árið 1834 var ekki talið jafnhagstætt og þau næstu á undan. Meðalhiti í Reykjavík var 4,0 stig en áætlaður 3,1 stig í Stykkishólmi, sem má heita í meðallagi næstu tíu ára á undan. Febrúar var fremur kaldur, og sömuleiðis voru mánuðirnir júní til og með október einnig kaldir, sérstaklega júní. Aftur á móti var desember með hlýjasta móti.
Óvenjukaldir dagar voru 15 í Reykjavík, þar af 7 í ágúst og fór hiti niður í frostmark þar aðfaranótt þess 24. og var hámarkshiti þann dag aðeins 3,1 stig. Óvenjuhlýir dagar voru þrír, 30. og 31.maí og svo 3.júní. Hiti fór í 20 stig þann 31.maí og 3.júní. Þessara hlýinda virðist hafa gætt víða um land, t.d. fór hiti í 20 stig alla síðustu 6 daga maímánaðar á Ketilsstöðum á Völlum. Mikil viðbrigði urðu í langvinnu kuldakasti sem hófst snemma í júní. Þá snjóaði víða - m.a. virðist hafa snjóað í Vík í Mýrdal aðfaranótt þess 18. og þá fór hiti þar rétt niður fyrir frostmark - og svo aftur niður í frostmark að morgni þess 20. [dagbók Sveins Pálssonar].
Ársúrkoma mældist 714 mm í Reykjavík. Votast var í október og desember, en sumarið var fremur þurrt. Loftþrýstingur var óvenjuhár í apríl og mars virðist hafa verið órólegur mánuður. Lægsti þrýstingur ársins mældist í Reykjavík 5.mars, 944,7 hPa. Þann dag segir Sveinn Pálsson í Vík í Mýrdal frá óvenjuhárri sjávarstöðu og sjógangi. Hæstur mældist þrýstingurinn í Reykjavík 1038,2 hPa, það var 18.desember.
Hér að neðan eru helstu prentaðar heimildir um árið teknar saman - þær eru ekki mjög miklar. Ágætar veðurdagbækur eru til, en mjög erfitt er að lesa þær. Annáll 19.aldar getur fjölmargra slysa sem ekki eru nema að litlu leyti tíunduð hér að neðan - enda langflest án dagsetninga og erfitt að tengja þau veðri.
Sunnanpósturinn (1.árgangur, 1835) segir af tíð næstu ár á undan - og einkum þó 1834. Byrjað er á að kvarta undan því að þrátt fyrir gæðatíð undangenginna ára sýni menn litla fyrirhyggju - eyði umframfé í innflutning á óþarfa (harla kunnuglegar kvartanir):
Viti þeir það þá, sem vilja vita, að næstliðin átta ár, að því seinasta undanteknu, hafa verið mikið góð ár, máski svo góð, sem Ísland getur fengið eða vænst að fá. Vetrar frost; og snjór litlir allvíðast. Grasvöxtur nægilegur og stundum góður. Nýting víðast hvar góð og oftast allgóð. Afli hefir þessi sömu árin í fáum veiðistöðum brugðist; víða verið mikill, einkum 1831 í Hafnarfirði: þá voru nokkrir sem fengu meir en lestarhlut, ei sárfáir, sem ekki næðu 5 hundraða hlut. Aðflutningur á útlendum vörum, bæði þörfum og óþörfum, hefir verið töluverður, og þó sjaldan svo, að ekki hafi allt hið þarfa, og meir en skyldi, af sumu hinu óþarfa, útgengið. Höndlunin hefir og verið landsfólkinu ábatasöm, því ekki hafa fá skip siglt upp landið, og þegar margir vildu eignast þær vörur sem hér voru til, var ekki furða þótt á þeim yrði töluvert verð; hafa vörur og tíðast komið fyrir vörur, en ekki peningar, sem að eins og nú í þrjú næstliðin ár hafa verið innfluttir svo nokkru hefir numið.
Af eldgosum eða ísalögum hér við land, hefir á þessum árum ekki mein orðið, þó við og við hafi sést íshrakningur nyrðra og vestra. Þegar allt þetta er yfirvegað, ættu þess einhverjar menjar að sjást, að árferði hefur verið hér, ekki aðeins nú í átta ár, heldur að kalla má, síðan 1802 í betra lagi. Að fénaðartala sé nú á landinu töluverð, er ekki ólíklegt; en ekki þarf nema einn harðan vetur til að fækka fénaði; byggingar eru víða orðnar æði betri en að undanförnu, og megun, yfirhöfuð að tala, mun nokkuð hafa batnað, en þá minna heldur en líkindi væru til: er það víst því að kenna, að þegar efnin leyfa, þá er manninum það náttúrlegt, að líta ekki eins og sína þörf, heldur leita sér unaðssemdar, sé þess nokkur kostur að hún finnist; fer þá stundum svo, að afgangsleifarnar verða ei meiri fyrir það. þó mikið aflist, heldur enn þegar minna aflast, sé sparseminnar vandlega gætt.
[5] Það seinast liðna ár varð hið lakasta af þeim átta árum, sem vér nú lítum yfir. Vetur lagðist snemma að, bæði vestra og sumstaðar nyrðra, og varð langur eins og alvenja hefir verið. Jarðbönn voru allvíða lengi; samt varð engin, allra síst töluverður, penings fellir.
Vorið byrjaði allvel syðra, en varð því kaldara, sem á það leið, og undir sólstöðurnar með hretviðrum, svo kalt, að óvenju þótti gegna. Sumarið bætti ei um fyrir vorinu, varla gafst á því hlýr dagur. Upp til fjalla var iðuglega töluvert næturfrost, sem náði eftir sem það var sterkt, lengra eða skemmra niður eftir byggðinni; stundum var öllu til skila haldið að það þiðnaði á daginn sem fraus á nóttunni upp um sveitir. Eftir þessu veðráttufari var ekki að furða, þó grasvöxtur yrði lítill. Hann var og víða öllum þriðjungi minni en undanfarið ár. Samt heyjaðist vonum betur, er því má þakka, að veðráttan varð hagstæðari til heyafla, en hún hafði verið til gróðurs. Veturinn til þessa árs byrjunar [1835] hefir allstaðar, sem til hefir frést, verið góður; veðrátta storma- og vætusöm, en varla sést hér syðra snjór á jörðu. Frost kom töluvert um veturnæturnar, allt að 10 gráður, en það stóð ekki lengi. [Við sleppum hér pistli um kvefsótt].
[7] Hér að auki hafa orðið nokkrar slysfarir á þessu ári. Þrjú kaupskip hafa hér við land strandað á þessu ári, sem vér af vitum; af öllum varð mönnum bjargað þó skipin týndust, eitt af þessum rak á land í Grindavík, annað á Búðum, og hið þriðja varð undan ís að hleypa á land í Skagafjarðarsýslu; það var á ferð frá Reykjavík til Akureyrar í Eyjafirði. Í Vestmannaeyjum týndist við land tíært skip; fjórum mönnum af skipshöfninni varð bjargað, hinir 13 drukknuðu. Á Akranesi í Borgarfjarðarsýslu týndust í fiskiróðri á sjó 17 menn þann 26. apríl; en á Álftanesi í Gullbringusýslu 26, sama daginn. Stóð það norðanveður, sem þessu manntjóni olli, ekki mikið yfir fjóra tíma.
Brandsstaðaannáll [vetur]:
Var sjöunda veltiárið víðast hvar. Í janúar mikil vetrartíð. Í febrúar óstöðugt og jarðlítið, utan á bestu útigangsjörðum. 13.-14. hláka og mikill vatnsgangur í lágsveitum. Á þorraþræl varð jarðbann, er hélst um 10 daga, seint á góu þíða og góðviðri.
Laufási 7-2 1834 [Gunnar Gunnarsson] [Aðallega er hér talað um haustið 1833] (s59) Fjórir menn hafa orðið úti sinn í hverjum stað í áhlaupsbyljum ... og nú í næstliðinni viku fórst efnilegur ungur maður í snjóflóði á Látraströnd ... Sérstaklega umhleypingasamt og óstöðugt hefur veðráttufarið verið síðan í haust til þessa, með sterkum stormum og áhlaupa hríðarbyljum, þó sérílagi keyrði fram úr öllu góðu hófi bæði með rigningu og þaráofan öskukafaldshríð þann 14. og 15. október n.l. [1833] þegar Herta fékk slysin fékk þá svo margur sveitabóndi stórvægilegan skaða á skepnum sínum, sem hröktu í vötn og sjó og frusu. Þó urðu ekki mikil brögð að því hér í Norðursýslu, meiri í Eyja- og Skagafjarðar- en mest í Húnavatnssýslum. Jarðbönn hafa sumstaðar viðvarað síðan um veturnætur, svosem í Bárðardal og víðar fram til dala, sumstaðar síðan með jólaföstu, en almennust hafa þau verið til allra uppsveita, sérílagi síðan nú eftir nýárið, svovel yfir allar Eyjarfjarðar sem hér Norðursýslu og það heilt austur til Berufjarðar ... .
Svo er að skilja af dagbók Jóns á Möðrufelli að veðrátta (að ofan) hafi lengst af ekki verið slæm um veturinn, en jarðbönn mikil og sífelldir blotar spillt.
Bessastöðum 5-3 1834 [Ingibjörg Jónsdóttir] (s147) Langt fyrir norðan og vestan er vetur sagður strangur. Hér er hann í verra meðallagi.
Brandsstaðaannáll [vor]:
Í marslok snjóakafli um 10 daga, síðan góður bati, svo jörð kom upp til heiða og fjallabyggða. Hafði þar verið langvinnt jarðleysi. Í maí kuldasamt og greri seint og ei fyrr en í miðjum maí og kýrgróður ei fyrr en um fardaga. ... (s112) ... 26. apríl varð enn mannskaðabylur sunnanlands. Drukknuðu 26 menn á Álftanesi og 17 af Akranesi. ... Þilfarsbátur frá Höfðakaupstað sökk hér á flóanum, hefur líklega brotnað í íshrakning. (s113).
Brandsstaðaannáll [sumar]:
Í júní (s111) þurrt og stillt. 28. júní fóru lestir suður. Íshrakningur var norðan landið fram í júlí. Sláttur hófst á miðju sumri. Lengst var þurrkasamt, þó um fráfærur vestanátt og rigningar. Varð því grasvöxtur í meðallagi, en þó lítill á harðlendi og brann af hólatúnum mót sólu. Eftir 10. ágúst hálfsmánaðar votviðri, annars besta nýting. Með september frost og kuldar, líka smáhret, þó ei þyrfti að valda heyhrakningi.
Í dagbókum úr Eyjafirði (Ólafur á Uppsölum og Jón á Möðrufelli) kemur fram að það snjóaði í júní, mest þann 10., en þá segir Ólafur: Norðan hvass, oftast snjóburðarhríð, renningur um tíma; birti nokkuð og batnaði seinast.
Laufási 19-7 1834 [Gunnar Gunnarsson]: (s62) Ekki bætti vorið stórt um vetrar veðráttufarið hérna, því allt fram yfir Jónsmessu mátti oftar heita fremur vetur en sumar, og um Jónsmessuleytið varð hér jarðlaust fyrir allar skepnur, og skömmu fyrir hana króknuðu tvær kýr hérna framarlega í Fnjóskadalnum, og í þeim mörgu hríðaríhlaupum misstu einir og aðrir nokkuð af kindum sínum ... .
8. ágúst 1834 (Hallgrímur Jónsson á Sveinsstöðum - Andvari 98/1973):(bls 190)
[Y]fir höfuð var vetur mjög þungur víða vestan- og hvarvetna norðanlands, en vorið þó enn þungbærara með sífelldum kuldum og frostum og hafíshroða hrakningi fyrir landi, er hamlaði skipakomu á okkar höfn lengi sumars. Peningshöld urðu víða mjög bág, og gagnsmunir af málnytju í sumar í rýrara lagi. Þó ber minna á þessu á syðri hluta Vestfjarða, og líka fyrir norðan Yxnadalsheiði. Á Jónsmessu sjálfa skipti um veðráttu. Þá linnti kuldastormum og frostum, og hafa síðan gengið góðviðri. En jörð tók sig ekki eftir svo langsama kulda, er því grasvöxtur víðast mjög rýr, en nýting betri enn sem komið er.
Bjarni Thorarensen var um þessar mundir að gerast amtmaður á Möðruvöllum og flutti norður. Í bréfum hans kemur fram að hann átti flutning í skipinu sem brotnaði í ís við Skaga - húsgögn björguðust, en ýmislegt annað fór, þar með bækur og fleira úr Gufunesi (þar bjó hann áður).
Reykjavík 25-8 1834 (Bjarni Thorarensen): ... fylgdist ég með honum [krónprinsi dana] hingað [frá Möðruvöllum til Reykjavíkur] og fengum við snjó og óveður á Sandi [væntanlega Stórasandi]. ... Hafísinn hygg ég sé nú fyrst að fara. (s217)
Brandsstaðaannáll [haust og vetur til ársloka]:
Haustið allgott, frosta og snjóa lítið með oftar stilltu veðri. 1. nóv. hlóð niður fannkyngju, er lá á hálfan mánuð til lágsveita, síðan blotar, en ei tók upp til fjallendis né heiða. Á jólaföstu blotar og frostalítið, en hláka um jólin. Hafði fénaður hrakast mjög í snjóaskorpunni, en fáir gáfu þá fé utan í innistöðum.
[Möðruvöllum] Frederiksgave 25-9 1834 (Bjarni Thorarensen): Grasvöxtur hinn lélegasti, hey þessvegna lítil, engar fyrningar frá fyrri árum og því horfist illa á með flest ... . (s218)
Frederiksgave 15-10 1834 (Bjarni Thorarensen): Veturinn er farinn að sýna sig sumarið bágt grasvöxtur vesæll heybirgðir litlar. (s219)
Bessastöðum 5-10 1834 [Ingibjörg Jónsdóttir] (s152) ... veðuráttan er hin versta, sterkir stormar og eilífar rigningar.
Úr tíðavísum Jóns Hjaltalín 1834
Vetur liðinn veitti þjóð
veðra köstin hörð og óð
Snæg..ur fönn um byggðir bar
blotatamur, hagaspar.
Um Vestfjarða frón þó hét
frekast hefðu bylja hret
haga-bönn sem hjörðum bjó
hrakið fé í ár og sjó.
Vorið stóran vann ei prís
vitjaði fjarða Grænlands-ís
Kulda sá um hauðrið hratt,
hvar af grasið miður spratt.
Töðu-brestur víðast varð
væta haustsins gjörði skarð
heyskap engja einnig á,
úti sem í hríðum lá.
Margan þjáði mæðan fast
mikið gjörði snjóakast
Óþægilegt ullum brands
Einkanlega norðanlands.
Lýkur hér að sinni umfjöllun hungurdiska um árið 1834. Sigurði Þór Guðjónssyni er þakkað fyrir innslátt Brandstaðaannáls. Fáeinar tölur má finna í viðhengi.
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 01:44 | Facebook
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.1.): 28
- Sl. sólarhring: 132
- Sl. viku: 2475
- Frá upphafi: 2434585
Annað
- Innlit í dag: 25
- Innlit sl. viku: 2199
- Gestir í dag: 25
- IP-tölur í dag: 25
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.