27.12.2020 | 20:38
Af árinu 1832
Vel var talað um veðurlag á árinu 1832. Sumarið var þó kalt um landið sunnanvert, en heyskapur bjargaðist. Meðalhiti í Reykjavík var 3,3 stig og reiknast 2,6 í Stykkishólmi (reiknast trúlega lítillega of lágt). Janúar var fremur hlýr, febrúar svalur og einnig allir mánuðirnir frá og með maí til og með október. Mælingar austur á Ketilsstöðum á Héraði benda þó til þess að þar hafi verið heldur hlýrra að tiltölu, sérstaklaga í júlí.
Þrjátíu dagar voru kaldir í Reykjavík, en enginn mjög hlýr. Það var sérlega kalt að næturlagi um langa hríð í ágúst, sólarhringslágmarkshiti 5 stig eða minna allar nætur eftir þann 8. (nema eina).
Árið var úrkomusamt í Reykjavík, úrkoman mældist alls 926 mm. Október var úrkomusamastur, en ágúst þurrastur.
Loftþrýstingur var mjög lágur í mars og október, en aftur á móti óvenjuhár í maí og júlí. Lægsti þrýstingur ársins mældist 944,1 hPa í Reykjavík þann 12.desember. Er ekki ótrúlegt að þá hafi sjávarflóðið orðið á Álftanesi og lítillega er minnst á í bréfakafla hér að neðan. Hæstur mældist þrýstingurinn 10.maí, 1036,8 hPa. Enn hefur ekki verið farið yfir þrýstimælingar sem gerðar voru á Ketilsstöðum á Héraði og á Möðruvöllum í Hörgárdal né gæði þeirra metin.
Hér að neðan eru helstu rituðu heimildir um árið teknar saman - þær eru ekki miklar. Veðurfarsyfirlit ársins er aðeins fjórar línur í annál 19.aldar. Annállinn getur hins vegar fjölmargra slysa sem ekki eru nema að litlu leyti tíunduð hér að neðan - enda langflest án dagsetninga og erfitt að tengja þau veðri.
Skírnir [VII 1833, s59] lýsir árferði 1832:
Á Íslandi var tíðindaár þetta góð árferð og heilsufar manna í góðu lagi; veturinn 18311832 var allgóður yfirhöfuð og snjólítill, en vorið var kalt og gróðurlítið lengi frameftir hið nyrðra og vestra, rak og hafís að landi, en ei varð hann lengi landfastur né kaupförum til tálma; fjárhöld urðu allgóð norðan- og austanlands, en syðra og vestra gekk peningur magur undan, og sumstaðar var þar nokkur fellir af sauðfé, en hvarvetna notalítið þegar sumraði. Grasvöxtur var næstliðið sumar yfir allt land allgóður og nýting að óskum, en haustið mikið votviðrasamt sunnanlands með gæftaleysi, og varð lítið um fiskiafla; en góðir urðu vetrar- og vorhlutir. Norðanlands gekk vetur snemma í garð, en með jólaföstu breyttist veður aftur til batnaðar, og voru úr því til þorraloka [1833] sunnanvindar og snjóleysur; syðra voru hreggviðri og slyddur fram um jól tíðast, en þá hægði til og þornaði og gjörði gott veður með lognum og hægu frosti; sumstaðar gjörðu skriðuhlaup og vatnsflóð nokkurn baga, einkum á Vesturlandi. Bæjabrunar urðu og nokkrir austanlands á næstliðnu sumri, er sagt 2 manneskjur brynni þar inni eður dæi af þeim menjum, og hafa þó eigi ljósar fréttir affarið.
Brandsstaðaannáll [vetur]:
Í janúar óstöðugt og blotasamt. Hélst þó jörð til lágsveita, en lagði jarðbann á heiðar og fjallabyggðir. Með febrúar norðanhörkur 9 daga, síðan hörkur og köföld með blotum á víxl, með jarðleysi. Í þorralok voru öll hross á gjöf komin. Á góu urðu oft skepnur ei hirtar við gjöf eftir þörfum vegna illviðra. Frá sólstöðum til góuloka urðu 16 blotar. Brutust þá vermenn suður, margir hestslausir. Í marslok lagði ofan á gaddinn mikla fönn, svo kalla mátti, að hús og bæir færi í kaf.
Brandsstaðaannáll [vor]:
Síðari part einmánaðar var stillt og gott veður og sólbráð, er svo vann á, að autt mátti kalla í lágsveitum á sumarmálum. Eftir sumarpáska mikill kuldakafli, þar til 12. maí, að hláku og heiðarleysing gerði og mikið flóð í vatnsföllum. 22. maí suðaustanhríð og gerði mikla fönn og var vond tíð um sauðburðinn.
Viðeyjarklaustri 6-3 1832 (Magnús Stephensen):
(s103) Vetur er hingað enn þá enginn kominn, aldrei að kalla frost, aldrei varla sést snjór, en aldrei linnt ofsastormviðra geysióveðrum, svo hvergi hefir orðið fært um jörð eða út úr húsum, og aldrei á sjó; er því alls ekkert fiskað, sumarhey allstaðar dáðlaus og mjólkurlaus ...
Bessastöðum 25-3 1832 [Ingibjörg Jónsdóttir]: (s136) Vetur hefur hér verið með þeim verstu illviðrum, svo útigangur er horaður.
Espólín [vor og sumar]:
CLXXIX. Kap. Var vor kalt og síðgróið, og ei mikill grasvöxtur á túnum eða þurrengi, og á votengi góður, og varð hin besta nýting, og ár gott var að spyrja um allt land með þurrviðrum, en allstaðar voru hin sömu vandræði með hjúaleysi og lausingjafjölda, og hrossamergð. (s 189).
Bessastöðum 13-5 1832 [Ingibjörg Jónsdóttir]: (s138) Vorið hefur verið mikið kalt, en nú í þrjá eða fjóra daga hefur veðrið verið blíðara.
Brandsstaðaannáll [sumar]:
Um fardaga kom fljótur og góður gróður, en langt þótti að bíða eftir honum, nokkru síðar kuldar og snjóaði á nætur, seinni helming júní góð tíð. 28. lögðu lestir suður og fengu menn ófærð og rigningar og gróðurleysi á fjöllum. Í júlí besta grasvaxtartíð, svo sláttur byrjaðist þann 16., veður og nýting að óskum allan heyskapartímann. 25.-26. júlí varð skaðaveður víða á heyi, en rekjulítið þótti á harðlendi. 9. sept. byrjuðu göngur, en eftir venju of snemma, mörgum til skaða. Var þá gras lítt dofnað. 16. kom fönn allmikil, síðan gott til 3. okt.
Hallgrímur Jónsson á Sveinsstöðum 6. ágúst 1832 - Andvari 98/1973):(bls. 188):
Sumar þetta hefir verið hér fyrst vindasamt og svalt, síðan heitt úr því sláttur byrjaði, en oft hafa stormar feykt heyjum til skaða. Töðunýting hin besta, grasár í betra lagi.
Gufunesi 7-8 1832 (Bjarni Thorarensen): Grasvöxtur hefir hér syðra verið góður og nýting allbærileg. (s203)
Viðeyjarklaustri 8-8 1832 (Magnús Stephensen): (s108) Veðurátt allgóð, grasvöxtur og nýting heyja það af er ...
Gufunesi 18-9 1832 (Bjarni Thorarensen): Veðurátta annars kalsasöm með snjóum ofaní byggð, en heyskapur hefir víðast hvar lukkast uppá það allrabesta. (s205)
Bessastöðum 15-8 1832 [Ingibjörg Jónsdóttir] (s139): Árferði er nú sæmilega gott hér, hvað þurrka og nýting snertir.
Laufási 30-9 1832 [Gunnar Gunnarsson]:
(s50) ... stakir þurrkar voru hér framanaf sumri allt fram í ágúst mánuð, svo að þurrlend tún brunnu víða og kólu til stórs skaða, svo heyafli varð víða á endanum lítið. Á dögunum framan af þessum mánuði gengu hér stormar, hreggviðri og hríðar, en í viku hefur verið staðviðri og blíða.
Brandsstaðaannáll [haust og vetur út árið]:
Gerði þá hríð mikla og hagleysi í útsveitum, svo kaupstaðarferð varð mörgum hin bágsta, en aðrir snéru aftur. Lítið snjóaði til framsveita. Eftir það rigningasamt, mest. 24. okt. Að vatnsföll urðu ófær og flaut mjög yfir jörðu. Með nóvember mikil fönn vikutíma, eftir það gott vetrarfar til nýárs, með stilltu og frosthægu veðri og oft auð jörð á fjalllendi.
Gufunesi 28-2 1833 (Bjarni Thorarensen): ... nema að veturinn hefir verið sá besti. Nokkuð hrakviðrasamt frameftir honum öllum, rigningar fjarskalegar í haust svo víða féllu þá skriður til stórskemmda einkum í Borgarfirði, meðal annars (s208) hefi ég heyrt að mikið af túnum hafi spillst á Húsafelli. (s209)
Bessastöðum 2-3 1833 (Ingibjörg Jónsdóttir til Magnúsar Eiríkssonar) (s84): Stórflóð, sem kom í desember, gjörði hér stóran skaða á býlum á Nesinu. Grútarkaggar og slorskrínur og allt hvað lauslegt var komst á haf út, svo ég er ekki óhrædd um, að eitthvað af þessu hafi rekið upp hjá ykkur. Þó mun ekkert af þessu með mínu marki. Í þessu kasti fór jörð mín, Bárukílseyri, næstum í sjó, svo ekki get ég sett mig þar niður, þegar ég flæmist héðan. ... Vetur hefur verið frostalítill en vindasamur. Skriður hafa fallið, einkum þó í Borgarfirði. Þó held ég að sýslumaður hafi ekki orðið undir þeim.
Úr tíðavísum Jóns Hjaltalín 1832:
Bilar von þá nálgast neyð
nærist víl og rauna skraf,
vindsvals sonur sem nú leið
sannfæringu þar um gaf.
Byrjun þorra frá ófrí,
fram að apríl hörku stór
haga vorra haddinn því
hvítur byrgði ís og snjór.
Sumir misstu seggir fé,
sögðust heyin krafta rýr,
bíða gisti heilla hlé
harkan svelti jarðar dýr.
Vorið gæða-veður gaf,
varmann hlýrnir að oss bar
sól nam bræða ísinn af
aldinn haddi fjörgynar.
Sumarið blíða sendi lóð
sælu-veður holl og þæg
hér því víða hreppti þjóð,
heyin bæði góð og næg.
Haustið nærði hret óspörð,
helli-skúrum með í ár
ofan færði oft á jörð
ýmis vaxin hvarma tár.
Hríða baðið beljandi
bagasamt því mörgum var
tóku skaða teljandi
tún og engi víða hvar.
Lýkur hér að sinni umfjöllun hungurdiska um árið 1832. Sigurði Þór Guðjónssyni er þakkað fyrir innslátt Brandstaðaannáls og Hjördísi Guðmundsdóttur fyrir innslátt Árbóka Espólíns (stafsetningu hnikað hér - mistök við þá aðgerð sem og allan annan innslátt eru ritstjóra hungurdiska). Fáeinar tölur má finna í viðhengi.
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (24.12.): 30
- Sl. sólarhring: 419
- Sl. viku: 1233
- Frá upphafi: 2421525
Annað
- Innlit í dag: 24
- Innlit sl. viku: 1106
- Gestir í dag: 24
- IP-tölur í dag: 24
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.