Af árinu 1857

Ekki var mikið ritað um veður í fréttablöð á árinu 1857 - þrátt fyrir illviðri af ýmsu tagi og skaða af þeirra völdum, en því meira um fjárkláðann - þó umfjöllun um hann væri rétt að komast á skrið. En tíð var nokkuð breytileg, í heildina séð má þó segja að ræst hafi furðanlega úr. Meðalhiti í Stykkishólmi var 3,4 stig (sama og 1994), og í meðallagi næstu tíu ára á undan. Í Reykjavík er meðalhiti áætlaður 4,2 stig og 2,7 stig á Akureyri. Óvenjukalt var í janúar og einnig var kalt í febrúar, apríl, júlí og desember. September var hins vegar óvenjuhlýr, og einnig var hlýtt í maí, ágúst og nóvember. 

ar_1857t

Mjög kaldir dagar voru 15 í Stykkishólmi, nokkuð dreifðir um árið (sjá viðhengi), einna kaldast að tiltölu var í skæðu hreti sem gerði um páskana [þeir voru 12.apríl]. Tveir dagar voru mjög hlýir í Hólminum, 21.september og 10. nóvember. 

Úrkoma í Stykkishólmi mældist 810 mm, febrúar og síðustu þrír mánuðir ársins voru úrkomusamir en fremur þurrt var í maí og í júní líka - en í síðarnefnda mánuðinum féll stór hluti heildarúrkomu mánaðarins á einum degi (mældist að morgni þess 17.).

ar_1857p

Veðurlag var órólegt um veturinn, fram í miðjan mars. Þrýstingur var óvenjulágur í febrúar og sömuleiðis í júlí. Róleg tíð var hins vegar lengst af í maí og júní. Lægsti þrýstingur ársins mældist í Stykkishólmi 26.febrúar, 955,7 hPa, en hæstur á sama stað 24.janúar, 1038,5 hPa. Hafís var lengi að flækjast við Norðurland. 

Á árinu urðu mjög umtöluð slys af völdum veðurs, tveggja veðra var lengi minnst. Hið fyrra varð í mars, þegar menn á leið í ver lentu í hrakningum og urðu nokkrir úti á Mosfellsheiði. Nokkuð greinargóð lýsing á því er hér að neðan. Hitt var mikið útsunnaveður 27.nóvember þegar tvö millilandaskip, póstskipið „Sjölöven“ og „Drei Annas“, fórust við Mýrar og á Snæfellsnesi. Þó greint sé frá þeim í fréttablöðum er samt mesta furða hvað litlar lýsingar er þar að finna. Í Lesbók Morgunblaðsins 27.mars 1949 er fróðleg samantekt á atvikum, eftir Árna Óla, hinn kunna fróðleiksþul  [timarit.is], nokkuð ítarlegri en sú sem hér er að neðan. Nefnist samantekt Árna „Fjórir kaupmenn farast“. Ættu áhugamenn um slysfarir ekki að láta hana fram hjá sér fara.  

Hér að neðan má finna helstu heimildir um veðurfar ársins. Nokkuð af veðurskýrslum og dagbókum er enn óyfirfarið. Að vanda er stafsetning að mestu færð til nútímavenju. Fleiri slysa er getið í heimildum heldur en nefnd eru hér að neðan. Óljóst er hver þeirra tengdust veðri og dagsetningar vantar. 

Brandsstaðaannáll [vetur]:

Í janúar sunnan og austanátt, frostalítið, smáblotar og oftar fjársnöp á láglendi, þar til 22. janúar að norðanhríð og fönn gjörði langvinnt jarðleysi. Þó voru ei öll hross inntekinn fyrr en um miðþorra. Í febrúar hríðarbyljir af öllum áttum og miklar fannir. Blotar juku svellgaddinn, er ávallt sletti í. 1. mars mikið hvasst með þíðu, svo margir hlutu heyskaða. Tók þá upp í lágsveitum. Aftur mikill hríðarkafli, svo bágt var að hirða um skepnur. Fylltust gil og fram af brekkum venju framar. Hafís kom með þorra. Hann var laus fyrir, á sífelldu reki.

Þjóðólfur segir frá þann 24.janúar:

Það virðist nú sem alvarlegar vetrarhörkur séu komnar, hvað lengi sem þær haldast, því stöðug bylja- og blotaveður á mis, með allmikilli fannkomu hafa nú gengið hér sunnanlands síðan um byrjun þessa mánaðar og mun hér sunnanfjalls vera víðast mjög hagskart orðið ef ekki haglaust. Nóttina milli 13. og 14.[janúar] gjörði hér syðra eitt hið mesta ofsaveður af austri-landsuðri, en ekki hafa spurst af því önnur tjón, en að fáeinir hjallar fuku hér um koll. 

Norðri segir frá í pistli þann 5.febrúar:

Veðráttan hefur frá byrjun jólaföstu verið fremur hörð og frostamikil, þó hefur kuldinn orðið mestur hér norðanlands 20—25° Reaumur [25 til 31°C], en minni á Austurlandi. Jarðir hafa næstum því einlægt verið nokkrar, en oft ekki gefið að beita fénaði út sökum illviðra. Selaafli hefur verið nokkur hér á Eyjafirði í vetur. Ekki höfum vér spurt, að neinir hafi farið í hákarlalegu hér nyrðra sökum gæftaleysis, nema Fljótamenn skutust út snemma í janúar, og fengu 12 kúta mest, en 4 minnst. ... Hafís liggur nú fyrir Norðurlandi, einkum austur um frá Sléttu til Austfjarða. Til Austfjarða kom hann þriðja í jólum, og hefur hann aldrei komið þar svo snemma í manna minnum.

Þjóðólfur segir fréttir í pistli þann 27.febrúar:

Einstök harðindi, fannfergi og jarðbönn eru sögð allstaðar að vestan, eins og hér sunnanlands, en góð tíð í Norðurlandi til þessa. — Fjárkláðans verður nú hvergi vart fyrir vestan eður norðan Hvítá í Borgarfirði, en aftur megn bráðasótt í fé í Suðurmúla- og Austurskaftafellssýslu, í Strandasýslu og sumstaðar í Dalasýslu. Góður fiskiafli í kringum Ísafjarðardjúp síðan um nýár, en fiskilaust enn hér syðra.

Þjóðólfur segir stuttlega frá þann 9.mars:

Hin sömu harðindi og harðveður ganga hér enn; að hlákunni í fyrri viku varð lítill bati; - víða urðu mjög heyskaðar í ofsasunnanveðrinu 2. [mars] og víða hér syðra fuku þá um koll hjallar og tók upp skip og brotnuðu í spón.

[Þann 29.febrúar] varð úti í byl stúlka frá Neðstabæ í Norðurárdal í Húnavatnsýslu. Um mánaðamótin janúar—febrúar urðu og úti yfir fé 2 menn austur á Síðu, Stefán bóndi Þórarinsson á Núpum, ungur maður og röskur, og vinnumaður annars bóndans í Mörtungu. — 6.[febrúar] lagði undan Dyrhólaey í Mýrdal skip með 18 manns, og einum kvenmanni að auk, til Vestmanneyja, það voru allt sjóróðramenn; formaðurinn var Helgi Eiríksson frá Ketilsstöðum i Mýrdal, ungur maður og röskur, og hinn mesti fullhugi; þann dag ofanverðan var þar austari landsynnings átt og hagstæð til Eyjanna, en hljóp í útsuður um kveldið með byl; hafa skipverjar að öllum líkindum misst sjónar á Eyjunum og þá borið ekki alllítið vestar áður en hann gekk til, því daginn eftir fannst skipið rekið mölbrotið fyrir Landeyjasandi, árar allar (11) er á voru og færur; voru allar líkur til, að skipið hefði farist mjög nærri landi, og máski inn í brimboðum.

Þjóðólfur segir í viðaukablaði 9.mars:

[Þann 26.febrúar] fórst róðrarskip, sexmannafar, frá Gufuskálum í Garði, og á því 8 manns, 5 þar innlendir og 3 útlendir, einn þeirra unglingspiltur héðan úr Reykjavík. — 7.[mars] lögðu 14 sjóróðramenn vestur yfir Mosfellsheiði, náðu 8 þeirra byggð morguninn eftir, flestir aðframkomnir, en 6 urðu úti.

Norðri segir af illviðrum í pistli þann 16.mars:

Nóttina fyrir annan dag þessa mánaðar kom hér eitthvert hið mesta stórveður, sem verið hefur hér norðanlands, og hefur það gjört víða stórskaða, og að líkindum miklu víðar en vér höfum til spurt. Kirkjan á Upsum í Svarfaðardal fauk af grundvellinum og brotnaði til stórskemmda. Á Karlsá í sömu sveit reif bæjardyraloft, og sópaði burtu flestu fémætu er bóndinn átti þar, mat og vöru. Á mörgum stöðum hafa menn misst hey, og það svo stóru nemur. Mest brögð hafa orðið að þessu vestur í Húnavatnssýslu, því þar er mælt að á 2 bæjum í Svínavatnshrepp hafi tapast um 100 hestar af heyi á hvorum bænum, og í landsynningi nóttina milli 13. og 14. hafi Jósep Skaptason héraðslæknir á Hnausum misst 80 til 100 hesta af heyi. Seinast í febrúar brann allur bærinn á Núpdalstungu í Miðfirði en ekki er oss skrifað neitt greinilegt um það. Ekki höfum vér til spurt að mikið hafi tapast af bátum, en þó nokkrir. Nóttina fyrir þann 10. kom hér næstum því eins mikið ofviðri aftur, en ekki ætlum vér að það hafi gjört jafnmikið tjón sem hið fyrra. Úr Svarfaðardal hefur og frést að hrútar hafi kafnað inni í húsi og 40 fjár í einum stað í Húnavatnssýslu, og hlýtur slíkt að vera að kenna hirðuleysi manna, annaðhvort af því, að ekki hefur verið mokað frá húsunum, eða af því að menn hafa vanhirt að líta eftir fjárhúsunum í ofviðrinu. Slíkt ætti að kenna mönnum varúðarsemi framvegis.

Þjóðólfur segir enn af slysförum þann 11.apríl:

Eftir nákvæmari fregnum og skýrslum er síðar hafa borist, skal hér leiðrétta það — að Stefán bóndi Þórarinsson frá Núpum varð úti 22.janúar, ekki yfir fé, heldur var hann að fylgja unglingum vestur yfir Hverfisvötnin, og sama daginn varð úti sauðamaðurinn frá Mörtungu á Síðu, sem fyrr er getið, Páll Bjarnason að nafni. Hinn sama dag, eður nóttina þar á eftir, varð og úti yfir fé sauðamaður frá Þvottá í Múlasýslu og þrír menn fyrir norðan: bóndi úr Þistilfirði, vinnumaður frá Fossvöllum á Jökulsdal og annar frá Rafnkelsstöðum í Fljótsdal; þannig hafa þessa dagana, 22.—23. janúar orðið úti alls 6 manns og er þó ekki til spurt úr „Fjörðunum" í Múlasýslunum. Þessa hina sömu nótt féll snjóflóð yfir bæinn að Hlíð í Lóni (Austurskaftafellssýslu) og brotnaði niður undan því eldhúsið; bóndinn Jón Markússon, var þar þá staddur og vinnukona, var hann að baka sig yfir eldinum og maka með áburði við meinsemd einni, en í því bili brotnaði niður eldhúsið undan snjóflóðinu, og hafði þau bæði undir og ofan á eldinn, og lágu þau þar og gátu enga björg veitt sér, þangað til veðrinu slotaði og menn urðu til kallaðir að bjarga þeim; stúlkuna sakaði lítið, en bóndi var svo skemmdur af bruna að hann var talinn af. — Í öndverðum febrúar varð maður úti á leið frá Skagaströnd, hann var drukkinn. ... 9. desember [1856] gekk unglingsmaður, Jóhann Friðrik Ólafsson á Neðri-Glerá í Eyjafirði, að heiman með byssu á rjúpnaveiðar; hann hefir ekki fundist síðan, og var talið víst, að hann mundi hafa farist með snjóflóði í gljúfrum þeim sem Glerá fellur eftir.

Þjóðólfur segir nánar af frægum marshrakningum á Mosfellsheiði í pistli 18.apríl:

Skýrsla um hrakning og harðar farir hinna 14 sjóróðrarmanna er lögðu vestur á Mosfellsheiði [laugardaginn 6. mars] (Skrásett af séra M[agnúsi]. Grímssyni í Mosfelli.) Lögðu allir þessir 14 menn saman á heiðina, og fóru frá Kárastöðum í Þingvallasveit um dagmál, í logni og sokkabandsdjúpri lausamjöll. Héldu þeir síðan áfram, og voru vissir um að vera óvilltir út að Þrívörðum, Úr því kom í Vilborgarkeldu, fengu þeir lága-skafrenning vel ratljósan, en skall á með þreifandi byl á norðan, eða útnorðan, við Þrívörður. Ætluðu þeir þá að hitta sæluhúsið, en gátu ekki. Vissu þeir nú ekki hvar þeir voru, en héldu þó áfram nokkuð, og ætluðu sig komna suður undir Gullbringur. En af því þeir voru þá orðnir villtir og þreyttir, staðnæmdust þeir þar á flatri fönn, skjóllausri, og héldu þá vera um nón. Með ófærðinni tafði það ferð þeirra á heiðinni, að sumir fóru svo fljótt að gefast upp; Guðmundur Pálsson á Hjálmstöðum gafst fyrst upp, þegar fyrir utan Moldbrekku, af máttleysi og fótakulda. Var þá enginn svo fær að geta borið bagga hans að neinum mun, nema Sveinn, sem bar hann mikið af leið. Hinir voru þá og að smá gefast upp; urðu við það biðir á og dvalir, sem mest ollu því, að þeir týndu áttunum og villtust. Þegar um kyrrt var sest, stóðu þeir fyrst lengi, og væntu að lygna mundi veðrið og batna, en þegar það varð ekki, fóru flestir til og grófu sig niður í fönnina, og og skýldu að sér með farangrinum. Um dagsetursbil um kvöldið héldu þeir, að Þorsteinn frá Kervatnsstöðum mundi hafa dáið í fönninni af kulda og þreytu.

Flestir munu hafa sofnað um nóttina, en þó ekki allir; Guðmundur sofnaði aldrei og Pétur varla neitt. Að áliðinni nóttu var farið að reka þá á fætur, sem i fönninni lágu, og gekk Pétur best fram í, að grafa þá upp, sem mest voru fenntir, og dýpst lágu, og ekki voru sjálfbjarga. Kól hann þá og skemmdist á höndum, og allir þeir sem að þessu voru með honum. Þegar allir voru komnir upp úr fönninni, nema Þorsteinn, gátu þeir staðið með veikan mátt sumir, og fóru þá að detta niður, og urðu ekki reistir upp. Voru þeir ferskari þá lengi að stumra yfir hinum, sem ekki gátu bjargað sér, þangað til loks að 9 tóku sig til að fara á stað og leita byggða, en vera ekki lengur yfir hinum 5, er þeir sáu þá ekkert lífsmark með sumum þeirra. Þeir, sem hér urðu eftir við farangurinn voru: Þorsteinn, Egill, Ísak, Jón og Þiðrik. Eftir að þeir höfðu lengi gengið eitthvað áfram í villunni, dó Guðmundur frá Múla í höndunum á þeim. Varð þá enn staða og töf, er þeir Pétur voru að stumra yfir honum og reyna að koma honum með sér áleiðis. Því tóku sig 5 frá, og komust við veikan mátt ofan að Gullbringum til Jóhannesar Jónssonar Lúnd. Var þá enginn þeirra svo fær, að geta staðið upp hjálparlaust, þegar þeir duttu. Jóhannes tók þeim, sem föng voru á. Þegar hann frétti hvað um var, hljóp hann þegar, er hann hafti hjálpað þessum 5 úr fötum, móti þeim 3, sem á eftir voru: Pétri, Einari i og Gísla á Snorrastöðum. Gekk hann þá í braut þessara 5 inn á Geldingatjarnarhæðir, og tafðist honum að finna mennina bæði sökum kafalds, og þess, að þeir voru komnir í aðra átt en hann vænti, eftir brautinni. Loks kom hann auga á þá niður með Geldingatjarnarlæk. Stefndu þeir þá suður beint um austurhalann á Grímmannsfelli. Voru þeir þá mjög af sér komnir, er Jóhannes kom til þeirra, og varð hann að ganga undir Pétri heim til sín. Af þeim 8, sem til Jóhannesar komust var Pétur lakast á sig kominn, hann var rænulaus þegar í bæinn kom og þekkti þá ekki lagsmenn sína. Hjálpaði Jóhannes nú þessum úr fötunum, og setti þá niður í vatn og snjó að þörfum, og veitti þeim allan beina, sem hann gat. Að því búnu fór hann þegar ofan til bæja, að fá menn og hesta, sem þurfti. Um eða undir hálfbirtu á sunnudagsmorguninn lögðu mennirnir á stað þaðan, sem þeir lágu um nóttina.

Klukkan nálægt 6 komust þeir 5 til Jóhannesar, en kl. hér um bil 10 hinir 3, sem hann sótti, að, því er hann segir sjálfur, en um hádegi kom hann ofan að Mosfelli. Allan þann tíma, sem mennirnir voru á heiðinni, frá Þrívörðum, var hörku kafaldsbylur með brunafrosti og ofsalegum vindi. Á laugardaginn sá lengi fram eftir öðru hverju til sólar, og til dags sást á sunnudagsmorguninn, þegar dagur var nokkuð hátt á loft kominn, en batnaði það að ratljóst varð á heiðinni fram úr dagmálunum. Síðan batnaði veðrið alltaf, og gjörð gott veður, nærri kafaldslaust og lygnt, fram úr hádeginu. Undir miðmunda á sunnudaginn voru 8 manns neðan úr Mosfellsdalnum komnir með Jóhannesi upp í Gullbringur með 7 hesta og þurr klæði til að sækja mennina, er þar voru. Voru þá þegar fluttir þaðan 6. Sveinn og Gísli voru langminnst kaldir; Sveinn varla neitt, Gísli helst á kinn og eyra. Bjarni og Guðmundur þóttu ekki flutningsfærir, og voru kyrrir um nóttina í Gullbringum. A mánudaginn voru þeir fluttir niður í byggð.

Séra M. Grímsson skýrir því næst frá því í niðurlagi skýrslunnar, að 3 Mosfellsdalsmanna hafi þegar á sunnudaginn verið sendir með duglega hesta frá Gullbringum til að finna hina látnu og farangurinn, að þeir hafi brátt fundið lík Guðmundar frá Múla skammt eitt frá Smalaskála hinum eystri, þvínæst hafi þeir fundið Ísak nokkru norðar, með mjög litlu lífsmarki; fluttu þeir hann strax að Stardal, því þangað var skemmst, en hann dó á leiðinni og varð ekki lífgaður; því næst sneru þeir 3 byggðarmenn aftur upp í heiðina, og fundu þá farangurinn og hina fjóra mennina sunnan til við Leirvogsvatn í Lómatjarnarlæk. Höfðu þeir lagst rétt í lækinn. Jón frá Ketilvöllum var þá enn með lífsmarki, og „fluttu þeir hann að Stardal, en hann dó á leiðinni og varð ekki lífgaður". Séra M. G. skýrir loks frá hversu allar tilraunir hafi verið viðhafðar, eftir réttum læknareglum til að meðhöndla líkin og reyna að kveikja aftur líf með þeim, og frá greftrun þeirra.

Brandsstaðaannáll [vor]:

Með jafndægrum kom snöp og stilltist veður til þess á skírdagskvöld 9. apríl, að mikla norðanhríð gjörði. Báða páskadaga mesta hvassviðri og fannkoma, en reif vel. Við sjó á útkjálkum var frostlítið og veður minna, en harka og sorti var hér fremra. Fór þá að bera á heyleysi, 18.-19. apríl kom norðaustan-þíðvindur, svo alveg tók upp. Með sumri hagstæður bati. Með maí kom gróður í túni. Vorið var hretalaust.

Norðri segir af illri tíð í pistli þann 20.apríl:

Úr öllum áttum eru bágar fréttir úr héruðum sökum hey- og bjargarleysis. Um miðja góuna [undir miðjan mars] kom góður bati, og voru síðan blíðviðri hér nyrðra og eystra fram að skírdegi [9.apríl], en síðan hafa hér gengið hörð veður, einkum báða páskadagana [12. og 13.apríl], nú í 10 daga, og mun víða yfrið lítið um jörð. Hafís er kominn hér inn á Eyjafjörð, og hákarlamenn er út voru komnir fyrir hátíðina í legur hafa einnig orðið varir við töluverðan ís í hafinu. Víða hér um Eyjafjörð og Skagafjörð eru menn komnir í heyskort svo að til vandræða horfir, og að austan höfum vér frétt hið sama, og oss er skrifað að fé hafi verið farið að falla sunnan til í Múlasýslum við sjóarsíðuna þegar póstur fór. Fimmtudaginn næstan fyrir þorra [22.janúar] var mannskaðaveður mikið fyrir austan, urðu 3 menn úti, og fjárskaðar miklir urðu þar víða. Á Þvottá í Álftafirði fórust nærfellt 100 fjár, og rak það fé á sjó; á Þverhamri í Breiðdal týndist 40 fjár, og víða annarstaðar urðu fjárskaðar miklir. Af Suðurlandi hefur líka frést að mjög hörð tíð hafi gengið og fiskileysi framan af vetri, og var orðið hið mesta harðæri af bjargarskorti um Suðurnes.

Á Hvanneyri í Siglufirði segir af hafís í apríl: „14. Hafís inni og útifyrir, 15. Meiri hafís, 16. Hafþök af ís, 17. til 21. Sami hafís, 22. Rak ísinn út, 25. Rak aftur ís inn“.

Norðri segir þann 4.maí:

Hér er nú allt þakið ís úti fyrir Eyjafirði, svo að skip þau sem ætluðu út til hákarlaveiða hafa orðið að koma inn aftur.

Þjóðólfur segir frá tíð og slysförum í maípistlum:

[2.] Að vestan og norðan hafa nýfallið ferðir hingað, og voru þar hin mestu harðindi og jarðleysur víðast hvar allt fram til miðs [apríl], og horfði heldur til fellis sakir heyskorts, sem von er, eftir jafnlangan gjafatíma, um 20 vikur eða meira; fyrir norðan land voru hafþök af Grænlandsís; en ekkí vildi vestanmaðurinn segja hann kominn inn á Breiðafjörð, eins og skipherra einn fullyrti er sigldi þar um og kom hér í þessari viku. — 23. [apríl] strandaði i Grindavik, frönsk fiskiskúta, „la jeuni Delphine" (hinn ungi höfrungur) að nafni; allir skipverjarnir, 14 að tölu, komust af; talsvert af salti var á skipinu, nokkur fiskur, og matvæli; var það allt selt á uppboðsþingi í gær. Hér syðra hefir alla þessa viku verið mjög fiskilítið, nema skást á Akranesi. Í gær og fyrradag fiskaðist hér á lóð.

[9.] Úr öllum áttum fréttist, að kastið um páskana [12.apríl] hafi orðið eitt hið harðasta íhlaup og leitt hér og hvar með sér fjárfelli hjá ýmsum; allt hið innra af Eyjafirði, þ.e. Akureyrarhöfnina, lagði með helluís, svo, að ekki var aðeins gengur ísinn úr landi út í skipin sem lágu þar fyrir akkerum, heldur var ekið í land vörunum úr þeim á ísnum. Harðindi og hagleysur voru víða á Norðurlandi fram til loka [apríl], og horfði til fénaðarfellis, ef ekki kæmi bráður bati, einkum hér og hvar í Skagafirði. — Í Skaftafellssýslu, Skaftártungu og Síðu, hafa og gengið hinar mestu vetrarhörkur, og fénaður farinn að falla þar hjá einstöku búendum. Nóttina milli 23.-24.[apríl] strandaði skip frá Horsens á Jótlandi austur í Meðallandi; það var sama skipið og hingað kom með kornfarm í fyrra; nú var það einnig fermt kornmat og annarri vöru, og ætlaði hingað. Hina sömu nótt strandaði og skip í Vestmannaeyjum frá Björgvin i Noregi, hið sama og hér kom i fyrra, og með hinum sama skipherra, Lind; það var að sögn, fermt timbri o.fl. Af báðum þeirra skipum komust allir skipverjarnir lífs af.

[16.] Skipskaði. Aðfaranóttina 7.[maí] fórst bátur héðan í beitifjöruferð, nálægt Kjalarnesi, með 4 manns, einum var bjargað af kjöl; annar bátur sökk hina sömu nótt, einnig í beitifjöruferð; af þeim báti varð öllum bjargað; Þorkell Árnason (frá Brautarholti) á Bala bjargaði af báðum.

Brandsstaðaannáll [sumar]:

Um fardaga norðanátt með breiskjum miklum og náttfrosti, svo gras skemmdist á túnum og bliknaði mög. Maðkur var líka til meins á grasvexti. Í fardögum var geldfé rekið á heiðar. Eftir 10. júní kom hlý og góð veðurátt. Fór þá grasvexti vel fram og var sláttur byrjaður 13. júlí og voru ræktartún þá vel sprottin. Þann 19. skipti um til votviðra, svo ei var þurrkað um 13 daga. Hröktust þá töður hjá allmörgum, helst þar seint var tekið til. 2. ágúst góður þerrir, sem öllum gat komið að notum, en ekki þurfti að skemmast utan 2 daga slægja, ef vel var með farið. Eftir 6. ágúst var rekju- og rigningasamt, (s195) en skarpur þerrir þess á milli, besta nýting fyrir göngurnar og gras dofnaði seint. Heyskapur var í meira lagi, en töðubrestur þó á hörðum túnum fyrir sólbruna og kvartað yfir rýrum heyskap í Vindhælishrepp. Sunnan-og vestanlands varð almennt ónýting.

Þann 8. júní snjóaði niður í byggð á Hvanneyri í Siglufirði og aftur þann 25.júlí, þá var hiti þar 0°R um miðjan dag. Sama júlídag var norðan krapahríð í Laufási (að sögn séra Björns). 

Norðri segir af tíð og veiði þann 13.júní:

Um veðráttufarið hér norðanlands í vor viljum vér geta þess, að af því bráðlega batnaði úr sumarmálum varð hér að ætlun vorri enginn fellir, þó víða væru menn farnir að koma fé niður í fóður, og vér ætlum, að fé hafi víðast hvar gengið allvel undan hér nyrðra. Vorkuldar hafa verið hér miklir, eins og von er, því ísinn lá hér svo lengi við land, og dagana í þessari viku 8., 9. og 10. júní var hér grimmdarkuldi, og snjóaði ofan undir Eyjafjörð, og þumlungsþykkan ís lagði á vatn er inni stóð í keri hér á Akureyri. Í Húnavatnssýslu hefur vorkuldinn verið enn meiri en hér norðar, enda hefur íshroði verið inn á Húnaflóa allt til þessa. Hér í Eyjafjarðarsýslu og austur um hefur ísinn ekki fært mönnum nema kulda og tálmað mjög útferðum hákarlamanna, en í Húnavatnssýslu hafa náðst miklir hvalir. Þeir faktorarnir á Hólanesi, og Skagaströnd Holm og Knudsen ásamt öðrum fleirum mönnum á 5 bátum drápu 3 hvali í Vík á milli kaupstaðanna og reru þá síðan í land. Þessir hvalir voru frá 30 til 60 álna að stærð. Aðra 3 drápu sveitarmenn þar nokkru utar í Harastaðavík í Spákonufellslandi, og er sá reki kirkjueign; vér höfum heyrt að þeir hafi verið álíka að stærð. Jón bóndi í Stöpum, klausturlandseti lagði einn hval til bana og náði honum; hann var 30—40 álna. Enn rak hval á Bakkakotslandi í Skagafjarðarsýslu, er oss hefur verið sagt, að væri Miklabæjarkirkjueign, Rúmar 20 hnísur voru reknar á land í Víkum á Skaga.

Norðri segir stuttlega 15.júlí:

Veðráttan er hér einlægt hin besta fyrir grasvöxtinn og víðast hvar lítur allvel út með hann; en fremur er tíðin einlægt köld og fáir sólskinsdagar hafa verið hér í sumar.

Þjóðólfur segir 14.september:

[Þann 20.apríl] fórst flutningabátur með 4 mönnum á Hvammsfirði vestra, og týndust allir mennirnir; formaðurinn hét Páll Jónasson, ungur maður og efnilegur. — Í öndverðum júlímánuði týndist bátur með 2 mönnum suður í Garði.

Brandsstaðaannáll [haust og vetur til áramóta]:

Haustið var mikið gott með þíðum og góðviðrum, svo haustverk lukkuðust vel, utan landnorðan-veðurofsa og hríð gjörði ytra 2.-6. okt., þá fjártaka og kauptíð stóð hæst. 30.-31. okt. gjörði skarpa hríð og fönn ytra og í Skagafirði. Fórst þá um 20 fjár á Völlum og Vallholti í Vötnin. Í nóvember 4.-21. sífelld hláka og blíðviðri og þó ei rigning að mun utan þann 11. og 27. ofsaveður með slettingskafaldi af vestri. Þá fórst póstskipið og kaupskip Bierings með 4 höndlurum á, vestur á Mýrum og Snæfellsnesi. Þann 3. des. skipti um. Gjörði þá vikuhríð á vestan og fannlög mikil móti austri, en móti vestri reif vel, en þó hláku gjörði 12.-13. des., tók þar ei upp, heldur hleypti í gadd. Var ei teljandi fjárbeit á vestri síðu dalanna, en autt varð á lágsveitum. Blotasamt var um jólin og alltaf frostalítið, smáfjúkasamt og góð tíð eftir áður nefnda hláku. (s196) ... Höfðaverslun hlaut mikinn skaða. Stórt skip þangað sent fórst, líklega norðan land í hafís í páskaofviðrinu. (s203)

Norðri segir af tíð þann 10.október:

Veðuráttan hefur verið hér norðanlands hin besta og hagstæðasta seinni part sumarsins, og hefur því nýting orðið góð, þó að heyföngin séu sumstaðar lítil. Nú um mánaðarmótin er veðri brugðið, snjóveður og rigningar skiptast á.

Norðri lofar tíð í pistli þann 17.nóvember:

Veðuráttan er hér norðanlands einlægt enn hin besta, alautt í sveit og litlir snjódílar hæst í fjöllum nú í miðjum nóvembermánuði, og einkum hefur núna seinustu dagana verið hlýr sunnanvindur eins og á sumardag, þá stundum með regni. Hitinn varð einn daginn 12 mælistig.

Seint í nóvember gerði mikið útsunnanveður. Fréttir af sjósköðum í því voru lengi að berast. Þjóðólfur segir fyrst frá þann 19.desember:

Eftir embættisbréfi sýslumannsins í Mýrasýslu, hr. B. Thorarensens, er sendiboði færði hingað til bæjarfógetans 15.[desember], hefir síðan um jólaföstukomu, 29.[nóvember], verið að smáreka á land, á Álftanesfjörur á Mýrum, ýmislegt af kaupskipi, bæði af sjálfum skipsskrokknum, reiða, farmi, farangri skipverja o.fl, þar á meðal einnig dagbók eins skipverjanna og önnur skjöl; á Ásreka í Melasveit bar líka upp nálægt 10.—11. [nóvember] mikinn skipsfleka af aftari hluta kaupskips, tólgartunnur o.fl. Af öllu þessu, en þó einkum af skjölum þeim er fundist hafa rekin, þykir mega ganga að því vakandi og vísu, að mest eða allt þetta strand sé af jagtskipinu „Drei Annas“ skipherra Hans Lundt, er lagði héðan af stað að morgni 26.[nóvember] ... ; átti kaupmaður konsúll M.W. Biering það skip og farminn, og sigldi hann nú sjálfur með  því héðan, ásamt konu sinni, og 2 elstu börnunum, James og Valgerði. Virðist allt lúta að því, að skipið hafi enn verið hérna megin Fuglaskerjanna, þegar þetta fádæma ofveður skall á af útsuðri (hér um bil SSV á „kompási"), nóttina milli 26. og 27.[nóvember], er hélst fram undir miðaftan á föstudaginn 27., og var svo ofsamikið, að vart neinu hafskipi var siglandi heldur varð að láta reka undan, hvað sem við tók, hafi svo skip þetta borið upp á skerin fyrir framan Mýrarnar austanverðar og molast þar í spón. 

Þjóðólfur heldur svo áfram þann 9.janúar 1858:

Bæði með þeim sem fóru héðan upp á Mýrar til þess að vera við uppboðið á skipstrandinu af „Drei Annas", farmi þess skips o.fl. af því er rekið var, en komu aftur rétt fyrir jólin, og eins í bréfi einu með sömu ferðum, bárust fréttir um enn einn skiptapann, undir Lónbjargi á Snæfellsnesi sunnanverðu, er hafi átt að bera að undir eða um lok nóvember; bréfið, er segir greinilegast frá, hefir ritað 22. desember Þórður bóndi Benediktsson á Ánastöðum á Mýrum, skilvís maður að allra rómi, hann kveðst hafa komið vestan frá Búðum kvöldinu fyrir, skýrir síðan frá skipstrandinu, sjálfsagt með þeim atvikum er honum hafa verið sögð þar vestra, að reiði, segl, möstrin í brotum, nokkuð af tólg og mikið af eir utan af skipinu sé rekið upp á Malarrifi og Stapanum, á rifinu hafi og rekið upp 3 hesta „strax á laugardaginn eftir veðrið", (að líkindum ofsaveðrið föstudaginn 27. nóvember) og að héraðsmenn sé að síga fyrir nefnt bjarg (Lónbjarg) en hafi litlu getað náð. — Svo sem nú þetta, sem sagt er rekið, bendir auðsjáanlega til, að ef hér á sér skiptapi stað, þá hefir það verið skip á útsiglingu héðan frá landi, svo liggja og óneitanlega helst til of miklar sönnur að því, að sé viðburðurinn sannur, þá sé ekki ástæðulaust að óttast, að þetta kunni að vera póstskipið Sölöven, er lagði út héðan nokkru fyrir dagmál 26. nóvember, og hefir því að öllum líkindum einnig hreppt hérna megin Fuglaskerjanna hið óviðráðanlega ofsaveður af útsuðri er skall á nóttina eftir. Aftur þykir draga nokkuð úr líkum þessum, það tvennt, bæði að það er fullyrt, að bréf er bárust austur á Mýranar vestan úr Staðarsveit og frá Búðum um sama leyti, geta að engu þessa skiptapa undir Lónbjargi né neins verulegs strands þar vestra, og í annan stað helst hér syðra stöðugt það rykti, sem búið var reyndar að heyrast áður en fréttist um ófarir þeirra Bierings, að í Grindavík hafi sést til skips á útsiglingu, mjög djúpt fyrir, á 3. degi eftir veðrið; og ef svo var, þá gat þetta vart annað skip verið en póstskipið. Nú er búið að senda héðan mann gagngjört vestur, til að fá fulla vissu í þessu efni. 

Og enn eru fréttir af sama máli í Þjóðólfi þann 23.janúar 1858:

Vér gátum þess í síðasta blaði, að maður hefði verið sendur héðan vestur til þess að fá vissu um, hvort það væri póstskipið Sölöven, sem týnst hefði nálægt Lónbjargi. Maður þessi kom aftur hingað 19.[janúar], og hafði það tafið ferð hans, auk ófærðar og umhleypinga, að hann fór vestur í Stykkishólm á fund sýslumannsins; en fregnirnar er hann nú færir eru litlar aðrar en full staðfesting þess er fyrr var frétt: að skip hafi farist 27. nóvember nálægt Lónbjargi á Snæfellsnesi, því sama daginn, um sólarlag, varð vart við reka af skiptapa, á Malarrifi, að 3 hesta móalótta hafi rekið á land daginn eftir, ýmislegt af reiða, seglum, eir utan af skipi, smáfleka, o.fl., að mikið sé rekið af ull og af tólg nálega 4 skpd., nokkuð af kjöti, smápakkveti er menn hér bera kennsl á og vita að voru send með póstskipinu héðan, stúfar af karlmannafatnaði, einkum nærfatnaði, með ýmsum fangamörkum, t.d. S.B. o.fl., brot af fjöl með litskornum stöfunum SÖLÖ en þó numið neðan af öllum stöfunum svo að ekki sést t.a.m. glöggt allt „ellið"; þetta er og samkvæmt bréfi sýslumannsins í Snæfellsnessýslu til bæjarfógetans í Reykjavík, dags. 5. [janúar], er barst hingað 15. næst á eftir. Allt lýtur þannig því miður að því, að þetta sé póstskipið „Sölöven", skipstjóri H. Stilhoff, er hafi borið þar upp að björgunum og molast í spón í ofsaveðrinu 27.nóvember, daginn eftir að það sigldi út héðan; það var með eirhúð utan, fermt með ull, tólg og saltkjöt þegar það nú fór héðan, og hafði innanborðs meðal annars 4 hesta móalótta.

Með póstskipinu sigldu héðan úr staðnum kaupmennirnir Ditlew Thomsen og Jón Markússon og Snæbjörn Benedictsen (Snæbjörnsson) er fyrr var verslunarstjóri hér hjá kaupmanni Havsteen. — Engir mennirnir voru reknir upp, hvorki af þessu skipi né af „Drei Annas", þegar síðast spurðist. ... Það virðist ekki tilefnislaust út af þessu, að vekja athygli að því, hvað hið opinbera eða embættismennirnir sem hlut eiga að máli, hafa verið afskipta- og aðgjörðahægir í þessu efni, en þótt hér væri að ræða um póstskipið er á að ganga milli Danmerkur og Íslands. [Síðan eru sýslumaður og fleiri gagnrýndir harðlega fyrir seinagang].

Þann 16.mars 1858 segir Þjóðólfur af náttúruviðburði sem átti sér stað 3.desember. Nú er talið fullvíst að um snjóflóð hafi verið að ræða:

Sjaldgæfur náttúruviðburður; (aðsent frá prófasti hr. Ó. Sívertsen í Flatey). Þann 3. desember 1857 í hálfbirtu um morguninn, sást svart ský yfir fjallsgnípunni er skagar lengst í sjó fram fyrir sunnan Patreksfjörð; heyrðist þá líka hastarlegur hvinur í fjallshyrnunni fyrir ofan og utan bæinn að Kollsvík og í sama vetfangi skall bylur á bænum sem braut hann þegar niður, og þrúgaði baðstofunni svo niður og braut, að af viðum í henni fannst ei eftir nokkur spýta einni alin lengri. Ein gift kona og eitt barn dóu strax undir rústunum, en 3 af heimilisfólkinu, sem náðust brátt á eftir, sköðuðust og og lágu síðan veikir. Eitt barn náðist á 4. annað á 6.dægri seinna, bæði lifandi og ósködduð, nema annað kalið á hendinni. Allt innanbæjar, áhöld, verkfæri, kistur, matvæli, rúmföt, bækur, skemmdust og ónýttust með öllu. Hálft hey, sem stóð við bæinn þverkubbaðist sundur sem hnífskorið væri, og í rústunum var allt í samblandaðri hrúgu, snjórinn, heyið, viðarbrotin, moldirnar og grjótið. Fjósið, hlaða og öll önnur útihús stóðu ósködduð. Þenna dag tjáist að í Kollsvík hafi verið allgott veður bæði fyrir og eftir; en hér í Flatey var austan stórviðri og kafald.

Þjóðólfur segir frá 27.mars 1858:

Skömmu fyrir næstliðin jól fóru tvær mæðgur, vestur í Bolungarvík, þar í annan bæ, er að Skálavík heitir, og er háls í milli, en á heimleiðinni datt kafaldsbylur á, á hálsinum svo þær gátu ekki hitt bæinn, urðu því úti og fundust skammt þar frá, báðar örendar.

Þann 22.desember getur Þorleifur í Hvammi jarðskjálfta.

Lýkur hér að sinni umfjöllun hungurdiska um veður og tíðarfar ársins 1857. Þakka Sigurði Þór Guðjónssyni fyrir innslátt texta úr Brandsstaðaannál. Fáeinar tölur eru í viðhenginu.  


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg200125c
  • w-blogg200125g
  • w-blogg200125f
  • w-blogg200125e
  • w-blogg200125d

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 19
  • Sl. sólarhring: 277
  • Sl. viku: 2398
  • Frá upphafi: 2434840

Annað

  • Innlit í dag: 15
  • Innlit sl. viku: 2125
  • Gestir í dag: 14
  • IP-tölur í dag: 14

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband