Af árinu 1852

Tíð þótti hagstæð árið 1852. Meðalhiti var 4,0 stig í Reykjavík og í Stykkishólmi og 3,1 stig á Akureyri. Apríl var sérlega hlýr, ekki er vitað um nema tvo hlýrri aprílmánuði í Stykkishólmi (1974 og 2019) og þrjá í Reykjavík. Sömuleiðis var hlýtt í mars, maí, júní og júlí. Aftur á móti var óvenjukalt í desember, fremur kalt var einnig í janúar, september og nóvember. 

ar_1852t

Fjórir dagar voru mjög kaldir í Reykjavík, kaldast að tiltölu 12.ágúst (en þá var lágmarkshiti aðeins 2 stig). Enginn dagur var mjög kaldur í Stykkishólmi - þar voru aftur á móti óvenjuhlýir dagar í apríl. 

Úrkoma í Reykjavík mældist 786 mm. Þurrt var í nóvember og desember, en úrkomusamt í febrúar. 

ar_1852p

Þrýstingur var í hærra lagi í mars, september og október, en fremur lágur í janúar. Lægsti þrýstingur ársins mældist í Reykjavík 21.janúar, 937,7 hPa en hæstur í Stykkishólmi 25.febrúar, 1042,6 hPa.

Hér að neðan má finna helstu heimildir um veðurfar ársins. Nokkuð af veðurskýrslum og dagbókum er enn óyfirfarið. Að vanda er stafsetning að mestu færð til nútímavenju. Fleiri slysa er getið í heimildum heldur en nefnd eru hér að neðan. Óljóst er hver þeirra tengdust veðri og dagsetningar vantar.   

Gestur vestfirðingur segir frá tíðarfari ársins 1852 í pistli sem birtist 1855:

Árið 1852 byrjaði enn með góðri veðráttu. Með þorra varð hagaskarpt af blotum, og voru víða vestra hagleysur fram til miðgóu; batnaði þá veðrátta, en þó komu hret, er ollu sumstaðar fjársköðum. Á einmánuði voru góðviðri svo mikil, að gróður var kominn í jörð að liðnum sumarmálum. Allt vorið heldust góð veður, svo í fardögum var gróður kominn jafnvel upp til fjalla; sumarið var og allt hið veðurblíðasta og hagstæðasta sumar um alla Vestfjörðu. Einatt voru á sumri þessu hitar miklir, og kenndu menn það þeim, að víða varð vart við orma vestra, sem venju fremur voru hingað og þangað út um haga; þeir voru að stærð og sköpulagi líkir tólffótungum. Svo voru mikil brögð að þeim sumstaðar, að amboð og reipi og fatnaður sláttumanna og hvað annað skreið kvikt af þeim; ekki urðu menn með neinni vissu þess varir, að ormar þessir yrðu búsmala að tjóni, hvorki í högum að sumrinu, eða af heyjunum að vetrinum. Haustið var fremur vindasamt; landveðrátta var þó fremur góð, þangað til undir lok nóvembermánaðar, að snjóa lagði á upp til sveita, og jók við þá talsvert í desembermánuði með allhörðu frosti, svo að við árslokin voru víða komin jarðbönn. Hafís sást einatt fyrir vestan land þetta ár, en ei varð hann landfastur svo teljandi væri. Það þykir undrum sæta, hve lítil höpp hafa þessi ár fylgt honum, við það sem áður hefur einatt verið; og kalla menn svo, að rekabann hafi verið þessi ár.

Meðalhlutir undir Jökli urðu alltað 5 hundruðum. 14 skip stunduðu þar auk þorskveiða hákarlaveiði, og heppnaðist sumum allvel, en flestum miður, svo mest varð 1 tunna lifrar til hlutar. Um Vestfjörð var bæði þorsk- og hákarlsafli í góu lagi. Einkum eykst þorskaflinn talsvert á Ísafirði og í Strandasýslu; en aftur hnignar selveiðinni mjög við Ísafjörð. Þetta ár var bjarndýr unnið á Ströndum.

[Þann 10.janúar] týndust 9 menn af hákarlaskipi í Önundarfirði; formaðurinn hét Guðmundur Jónsson hreppstjóra Guðmundssonar á Kirkjubóli í Valþjófsdal. 7.desember fórst skip af Hjallasandi undir Jökli á heimleið úr Ólafsvík; týndust þar 6 menn. Formaðurinn var Skúli Jónsson frá Fagurey, sem þá var nýorðinn útvegsbóndi í Hallsbæ. Þá ráku að landi 3.maí 2 útlend skip, galeas og jagt, er lágu á Vatneyrarhöfn. Skip þessi löskuðust svo, að þau voru bæði seld við uppboð; frá skiprekum þessum er greinilega sagt í „Nýjum Tíðindum", 7l.blaðsíðu.

Norðri rekur tíðarfar ársins 1852 í pistli í janúar 1853:

Næstliðið vor og sumar má, þegar á allt er litið, telja hér norðanlands eitthvert meðal hinna bestu er komið hafa. þannig munu þess fá dæmi, að ekki hafi komið eitthvert kuldaskot yfir jafnlangan tíma og þessi var, þar sem svo mátti að orði kveða, sem hver dagurinn væri öðrum betri. Að sönnu gengu í vor eð var sífeldir þurrkar fram yfir fráfærur, svo nálega kom enginn deigur dropi úr lofti; olli það sumstaðar nokkrum misferlum á grasvexti, einkum á harðvellis- og hólatúnum, sem brunnu mjög og skemmdust víðahvar af maðki, er kviknaði venju framar bæði í túnum, harðvellisgrundum og afréttum; þó varð grasvöxtur yfir höfuð að tala í betra lagi, og sumstaðar enda upp á hið besta, svo tún urðu hér og hvar meir eða minna tvíslegin. Eftir fráfærur snerist veðráttan upp í óþurrka, er héldust við að öðru hverju fram í 16.viku sumars [kringum 10.ágúst]; átti því margur bágt með töður sínar, er hröktust víða hvar meira eður minna. Eftir þetta kom aftur góður þurrkkafli, er hélst víð það eftir var heyskaparins, svo uppskera og nýting á útheyi varð almennt í besta lagi. Frá heyskaparlokum og fram til messna má og kalla að verið hafi einkar góð tíð. Eftir Þjóðólfi og Nýtíðindunum er og að frétta líkt tíðarfar, heyafla og nýting í hinum fjórðungum landsins, sem hér nyrðra, nema í Skaftafellssýslum voru óþerrar í meira lagi, en þó allgott fóðurhey í garði. En eftir messur breytti veðráttan sér og gekk til norðurs; hófust þá rigningar og krapahríðar miklar; síðan víða hvar, einkum á útsveitum, fádæma miklar snjókomur með hörkum og harðviðrum, svo að bæir fóru í kaf, og við og við spilliblotum, þangað til komnar voru fullkomnar jarðbannir, svo víða kom útigangspeningur algjörlega á gjöf, þá hálfur mánuður var af vetri. Tíðarfar þetta, hefur hvað til hefir frést, haldist einlægt við, að kalla má; því þó síðan áleið, nokkuð hafi linnt hríðum og harðviðrum, þá hefur aldrei svíað svo til, að jörð hafi getað upp komið til gagns, enda er fannfergjan allvíðast svo mikil, að nú til margra ára mun ekki slík hafa komið. Sagt er og að víða muni heybirgðir manna ekki hrökkva, einkum í þeim sveitunum, hvar venjulega er mjög stólað á útiganginn, en peningshöldin þó mest, komi jörð ekki upp, þegar fram á nýárið kemur. Það hefur og frést hingað, að sumir meira og minna hafi skorið af heyjum sínum, t.a.m. í Kelduhverfi, Axarfirði, Vopnafirði og víðar; og í Suðurmúlasýslu hefðu nokkrir haft það í áformi, batnaði ekki því fyrri. Þar á mót tjáist, að í einstökum héruðum, hafi jarðir haldist, svo sem á Fljótsdal, á Efri Jökuldal, við Mývatn.og hér og hvar fremst til dala, en þó einkum á mið- og framsveitum Skagafjarðar, hvar allt að þessu hefur að sögn verið nógur hagi fyrir útigangspening. Eins fréttist að sunnan, að þar hafi hvervetna verið góð tíð og nægar jarðsældir, aðeins venju framar frostasamt. Viðlíkar fréttir hafa og borist af Vesturlandi sunnan Breiðafjörð; aftur á mót af Vestfjörðum, kringum Húnaflóa og öllum útsveitum Skagafjarðarsýslu, sem hér. Á jólaföstunni voru heljurnar stundum svo miklar, að hitamælir Celsiusar féll hér á Akureyri rúm 25 mælistig niður fyrir frostmerki, og mun það þó hafa orðið meira til sveita og dala. Eins og að árgæskan var á landi í vor, sumar og til messna, eins var hún í sjónum allvíðast hér við land, og í besta lagi, einkum hákarlsaflinn á Vestfjörðum, hvar þiljuskip öfluðu hærst undir og yfir 200 og eitt hartnær 250 tunnur lifrar.

Brandsstaðaannáll [vetur]:

Þó jörð væri snjólítil, var storka og farið að gefa fé eftir þrettánda. Viku eftir hann frostamikið, annars mátti kalla, að aldrei hélaði glugga veturinn út. Síðari part janúar blotasamt og óstöðugt, en jörð allnóg til miðþorra. 8. febr. fyrst innistaða, svo hríðarkafli og jarðlítið til mars, með honum blotar og þíður góðar. 8.-19. hláka og heiðarleysing, klakalítið og þurrir melar. 21.-23 norðanhríð, þó snjólítið.

Þjóðólfur segir fréttir 1.mars

Þó vér segjum, að hinn göfugi þorraþræll hafi verið í gær, þá mun það þykja lítil tíðindi; eigi að siður ætlum vér, að flestir sunnlendingar hafi fagnað honum, því hann rak þó þorra úr landinu, er að minnsta kosti á suðurkjálka þess hefur verið æði þungbúinn; hefur snjókoma jafnan verið mikil með óþverra blotum, svo snjóþyngslin og áfreðarnir banna nú allar bjargir. En það höfum vér heyrt, að bæði fyrir norðan og þegar langt kemur austur, muni hafa orðið miklu minna, og lítið sem ekkert, af þessum snjó; og er það merkilegt, að snjórinn skuli ekki eins og regnið ganga jafnt yfir rangláta sem réttláta. En það er líklega eins með þessar fréttir, og hafísinn og bjarndýrið; hamingjan ein má vita, hvað satt er af því!

Ný tíðindi segja þann 10.mars:

Eftir bréfum, sem ritstjóri „Tíðindanna" hefur fengið úr Snæfellsness- og Strandasýslum, hefur veturinn þar verið einhver hinn besti og veðurblíðasti fram að þorra, og jafnvel fyrstu viku hans. En þá brá til harðviðra, og gjörði fullkomin jarðbönn, eins á Vesturlandi og víðast hvar annarstaðar, sem frést hefur til. — Hafís hefur verið skammt undan landi á Ströndum, en þó ekki borist að landinu, nema jakar á stangli. — Snemma í vetur var unninn hvítabjörn einn, sem kom á land, vestur í Stigahlíð. — Það þykir undrum gegna hversu lítil höpp fylgja hafísnum vestur um Strandir; því varla kvað þar sjást spýta rekin á nokkurri fjöru. Í ágúst f.á. rak hvalkálf á Krossnesi í Trékyllisvík, og voru á honum 100 vættir af spiki. — Í sumar eð var fiskaðist alls ekki sunnan jökuls, en í haust var allgóður afli í Ólafsvík, norðan jökuls. Nú kvað þar og aflast allvel, og eins í Rifi og á Sandi undir Jökli. Í þessum veiðistöðum kvað nú margir vera farnir að stunda hákarlaveiði (14 skip i staðinn fyrir 2 eða 3 árin fyrirfarandi). Sumir af þessum hákarlaveiðendum hafa aflað allvel, en fleiri þó fremur illa. — Engra skipskaða er getið að vestan. — Það er sagt, að kaupstaðirnir vestra séu nú komnir á þrot með flest.

Ný tíðindi segja af hrakningum og skipskaða í pistli 20.apríl:

[Þann 21. febrúar] voru 6 menn nærri því orðnir úti í byl á Kambsskarði vestra; lágu þeir úti um nótt, grófu sig í fönn og komust til byggða daginn eftir, og þó naumlega einn þeirra. — Úr Holtssókn í Önundarfirði vantaði í marsmánuði hákarlaskip með 10 eða 11 manns á.

Brandsstaðaannáll [vor]:

Aftur með apríl mesta vorblíða, heiðar auðar og vötn þíð og 9. apríl farið að grænka næst bæjum, á sumarmálum sauðgróður og mátti vera búið að breiða tún. Í maí óstöðugt skúraveður. Eftir krossmessu frost og kuldar og svo kalsasamt út mánuðinn.

Ný tíðindi segja af manntjóni í pistli þann 11.maí:

[Þann 17.apríl] barst skipi á suður í Leiru. Formaðurinn hét Árni. Mönnunum varð öllum bjargað, en 1 þjakaðist mjög svo hann lagðist á eftir, og vitum vér ekki hvort hann hefur dáið, eða ekki. — Þetta var í norðanstormi og ósjó. — 23.[apríl] fórst bátur fyrir framan Kálfatjarnarhverfi, og héldu menn að hann hefði siglt sig um. Formaðurinn hét Kjartan Jónsson frá Svartagili, en hásetinn Björn Halldórsson frá Skarðshömrum í Norðurárdal, og týndust þeir báðir. — Snemma í sama mánuði barst á báti í Hraununum; formaðurinn komst af, en hásetinn, vinnumaður að austan, drukknaði. [Þann 1.maí] barst á skipi í Grindavík. Höfðu menn róið alskipa um daginn, og drógu fiskinn mjög ótt. Síðan kippti skip þetta og reyndi á grynnra miði, en er gangurinn fór af, sökk það þegar. Fórust þar, að sögn, 12 menn, þar af 5 bændur úr Grindavík, en 3 varð bjargað. [Nánar segir af þessu slysi í sama blaði 2.júní og takið þar að um ofhleðslu hafi verið að ræða, enda hið besta veður]. — 2.maí barst báti á í Viðeyjarsundi; 2 mönnunum varð bjargað, en hinn 3. drukknaði. Var það ungur maður, og hinn efnilegasti, uppeldissonur sekretera Stephensens; hann hét Ólafur Jónsson.

Ný tíðindi segja skaðafréttir frá Patreksfirði í pistli þann 29.júlí:

[Þann 3.maí] um morguninn kom galíasin: De tvende Brödre, sem skipsforingi Hansen var fyrir, og lagðist við akkeri á Patreksfirði. Vindurinn var á sunnan-landsunnan (SSA) og byljóttur mjög. Um hádegisbil fór skipið að reka, og lenti á jagt, er einnig hét De tvende Brödre, og rak hana með. Brandurinn (Sprydet) á jagtinni flæktist í reiðanum á galiasinni, og áður en flækjan yröi greidd stóð jaglin á grunni á bakborða. Stjórborðí jagtarinnar sneri þá galíasinni, svo að „Röstbolterne“ á henni gengu í gegn um borðið á jagtinni, og áður en skipverjar gátu borgið eigum sínum fylltist jagtin af sjó, og af því öldurnar gengu þá og yfir hana alla, fóru þeir burtu af henni. Um flóðið setti galíasin segl upp til þess að komast hærra upp í fjöruna, eða á grunn, til að affermast; náðist og farmurinn mestallur þurrúr henni. Bæði skipin voru síðan seld við uppboð, hinn 24. s.m. og fóru þau með rá og reiða fyrir lítið, nema vara sú, er kaupmaður á Patreksfirði Thomsen átti, sem gekk með hér um bil fullu verði.

Ný tíðindi segja enn af sjóskaða í pistli þann 2.júní:

[Þann 18.maí] barst á báti á Stokkseyrarsundi við Eyrarbakka. Hann kom úr róðri, og var stormur á sunnan-landsunnan, og brim. Á bátnum voru 4 menn, og týndust þeir allir. Formaðurinn var Jóhann bóndi á Stokkseyri.

Brandsstaðaannáll [sumar]:

Í júní blíðviðri, en rigndi lítið. Besti gróður á fráfærum, eftir það rekjur hægar. Sláttur byrjaði 7.-10. júlí. Héldust þá þurrkar og sterkir (s178) hitar. Þann 17. júlí var fífa fallin og berin sortnuð. Seint í júlí hagstæðar rekjur. Í ágúst sömu blíðviðri og hagstætt veður allan sláttinn. Fyrsta hret 19. sept. Þetta var sá lengsti og blíðasti sláttartími, er menn hafa fengið, töðumegn og útheyja allt að því eins og mikla grasárið 1847. Heilbrigði var almenn sem sjaldan er í mestu hitasumrum. Heyskapartími var 11 vikur og heyjanægtir yfir allar sveitir, en minnst við þurrlendar mýraslægjur.

Þorleifur í Hvammi segir af mistri þann 1. til 4.júní. Í Hvammi fór hiti í meir en 20 stig bæði 19. og 20.júní og svo aftur alla dagana 13. til 17.júlí, hæst 24 stig þann 16. Lengi var mælt í Hvammi og eru þetta óvenjuleg hlýindi. Líklega hefur verið hlýtt víðar inn til landsins þessa daga. Jón Austmann í Ofanleiti nefnir jarðhræringu kl.10 að morgni 2. (og) 3.september. Þann 7.september fór hiti í 21,4 stig á Akureyri. 

Þjóðólfur segir lauslega af tíð þann 24.júlí:

Nú í langan tíma hefur enginn hlutur frést neinstaðar að úr héruðum landsins, og síðan Páll Eyfirðingur var á ferð í vetur í mikla snjónum. Um blessað árferðið þurfum vér varla að tala, því flestir taka til þess. þó er það ætlun vor, að eigi sé tíðin og veðráttan jafn æskileg um allt land. Heyrst hefur kvartað um of mikla þyrrkinga að norðan, og of miklar vætur sumstaðar í Skaftafellssýslu. En það mun mega fullyrða, að eigi verði kosið á hagstæðari tíð en verið hefur víðast hvar i öllum Sunnlendingafjórðungi; er það eitt til merkis, að búið er að tvíslá blett hér í bænum fyrir byrjun hundadaga [13.júlí].

Ný tíðindi segja þann 29.júlí:

Árferði hér á landi segja menn hvervetna í betra, eða jafnvel besta lagi, nema hvað menn kvarta víða um þerrileysi á töður sínar.

Norðri segir frá í janúarhefti 1853:

Hið mikla útsynningsveður 23 september sem mörgum mun minnilegt, olli hér og hvar meiri og minni skemmdum og tjóni: er þó mest gjört orð á því í Skriðdal í Suðurmúlasýslu, í hvar sagt er að fokið hafi hey á nokkrum bæjum, 50 til 100 hestar; og í hinu sama veðri sleit upp á Seyðisfjarðarhöfn briggskipið „Nornin“, 65 lesta stór, eign höndlunarhússins Örum og Wulffs, með 300 tunnum af korni, nokkru af timbri og litlu af íslenskri vöru og rak þar að landi, hvar molaðist undan því allur botninn; skipverjum varð bjargað; kornvaran ónýttist að kalla öll, nema einar 50 tunnur; Og var skipskrokkurinn ásamt því er bjargað varð, seldur við uppboð, og fara sögur af því, að þar hafi fengist góð kaup eins og oftar er við slík tækifæri.

Brandsstaðaannáll [haust og vetur til áramóta]:

Í göngum snjór og frost, svo heiðarvötn lagði, rigning réttardaga og ofsa-vestanveður 23. sept. og snjór á eftir, síðan stillt frostveður til 7. okt., þá gott og frostalítið haustveður og snjólítið til 14. nóv., að gjörði langa hríð og snjó allmikinn til útsveita, en stórfannir norður og austur á landi, er gerði þar mjög harðan vetur. Hér til framsveita var snjólítið. 30. nóv. kom rigningarbloti, er víða gjörði jarðlaust, þó auða jörð á láglendi í Skagafirði og hér vestur í sýslu, en brotajörð til afdala. Á jólaföstu hörkur miklar og kafaldasamt, hríð á jólum og mikið búið að gefa á nýári. Nú var sannkallað mesta veltiár. Skurðarfé í besta máta, en málnyt þótti í lakara lagi. Grasið létt, hitatíð, margt í högum og lítið vönduð hirðing mun hafa valdið því. (s179)

Þjóðólfur segir fréttir þann 5.nóvember:

Síðan Þjóðólfur kom seinast út, vitum vér ekki til að neitt hafi sérlegt til tíðinda orðið, og hafa þó fregnir víða borist að bæði úr héruðum landsins og frá útlöndum. Árgæskan er alltaf hin sama, því þó sumarið sé búið að kveðja oss, svo blessað og blítt sem það var í alla staði, þá sýnist svo sem veturinn ætli að taka víð af því, og vilji ekki verða miður.

Ný tíðindi segja 6.nóvember:

Norðan og vestanpóstarnir komu hingað um mánaðamótin, og heyrist ei annað fréttnæmara með þeim en árgæska og veðurblíða.

Norðri segir frá í janúarblaði 1853

Í svonefndu Bessahlaðnaskarði í Yxnadal, fórst húsmaður nokkur, að nafni Jón Ólafsson í snjóflóði 1 dag nóvember [1852]. Hafði hann verið í kindaleit og ætlað yfir gil eitt, hvar flóðið sprakk á hann og kæfði þegar. [Í sama blaði er frásögn af hrakningum þann 6.nóvember - hún er mjög stytt hér á eftir] Að áliðnum laugardegi hins 6. nóvember lögðu frá Húsavíkurverslunarstað, upp á Reykjaheiði, sem hart nær er þingmannaleið byggða á millum, 3 menn úr Axarfirði og hétu Jón, Hallgrímur og Árni, allir ungir og frískir menn: Jón var og húsasmiður; höfðu þeir 2 hesta meðferðis, sem voru með áburði: þá þeir komu upp á svonefndan Grjótháls, brast á þá krapahríð, með hinu mesta landnorðanveðri, er meir og meir varð í móti þeim þá norðureftir kom; héldu þeir samt áfram að þarnefndum sæluhúsatóttum; voru þeir þá mjög máttfarnir af þreytu og vosi, lögðust þar fyrir og sváfu nokkuð; en er þeir vöknuðu, var komin harka og harðviður, og fötin frosin utan á þeim. Jón var í léreftsskyrtu og klæðistreyju einni; þá hann tók að hreyfa sig og berja sér, sprungu fötin utanaf honum, svo að kuldinn gagntók hann því meir, enda treystist hann þá ekki til að ganga, hafði líka misst annan skóinn af fæti sér, úr hverju Árni bætti, með því að leysa annan skóinn af sér og binda aftur uppá Jón, svo og setja hann upp á annan hestinn; drógust þeir en áfram; dró þá svo af mætti Jóns, að hann treystist ekki lengur til að halda áfram; var því það ráð tekið, að búa um hann í gjá eða gjótu sem nógar eru á Reykjaheiði síðan var tekið reiðverið af öðrum hestinum og þakið yfir með því, og annar hesturinn skilinn þar eftir. [Hallgrímur gafst einnig upp - en Árni komst til byggða eftir nær tveggja sólarhringa útivist, svo að segja berfættur og þó samt ekki stórskemmdur, Jón og Hallgrímur fundust frosnir. Blaðið segir að lokum]: Mat höfðu menn þessir haft í för sinni, og því miður eitthvað af brennivíni. Annar hesturinn hafði sjálfur leitað til byggða, en hinn var ekki fundinn þá seinast fréttist. [Síðan segir blaðið af hrakningi á Flateyjardalsheiði 22.desember, þann mann kól svo illa á fótum að nema varð þá brott á legg].

Norðri segir í janúarhefti 1853:

Sagt var í sumar, að Breiðamerkurjökull, sem liggur sunnanvert í hinum mikla Vatnajökli, hver að er víst 1/10 hluti af stærð landsins, og austan Öræfajökuls, nær því að sjá, hefði hlaupið í sjó fram, og þess jafnframt getið, að jökulhlaupið mundi hafa tekið allan veg af, svo ófært væri, og skipt þannig Skaftafellssýslu í sundur. Líka var þess getið, að Skjaldbreiðarjökull [hér er átt við Dyngjujökul] eða Trölladyngjur, sem liggja í útnorður af téðum Vatnajökli og Kistufelli og syðst að kalla í Ódáðahrauni, hefði þiðnað venju framar, sem merki þess, að honum mundi vera farið að hitna undir hjartarótunum; eins og að þar í grennd vart hefði orðið við jarðskjálfta, og höfðu merki þessi að undanförnu verið undanfari eldsuppkomu. Jöklanám mun annars venju framar hafa verið næstliðið sumar [meira bráðnað en venjulega].

Þjóðólfur segir þann 31.desember:

Þar sem hinni blíðu sumar- og haust veðuráttu sleit, hefir veturinn tekið við og haldið til þessa hér sunnanlands hinni bestu veðuráttu, og varla komið nema lítið föl, sem var ekki nema til bóta bæði fyrir útifénað og jörðina sjálfa. En nokkuð hefir hér verið frosthart á jólaföstunni. Frostið mun hafa orðið mest 13°R [-16,3°C]. Nokkru frostharðara og snjómeira var sagt að vestan um jólaföstu komuna, einkum i Dala- og Barðastrandarsýslum.

Lýkur hér að sinni umfjöllun hungurdiska um veður og tíðarfar ársins 1852. Þakka Sigurði Þór Guðjónssyni fyrir innslátt texta úr Brandsstaðaannál. Fáeinar tölur eru í viðhenginu. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • w-blogg211224b
  • w-blogg211224
  • w-blogg121224
  • w-blogg111224a
  • w-blogg101224b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 20
  • Sl. sólarhring: 214
  • Sl. viku: 985
  • Frá upphafi: 2420869

Annað

  • Innlit í dag: 15
  • Innlit sl. viku: 864
  • Gestir í dag: 15
  • IP-tölur í dag: 15

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband