12.10.2020 | 23:35
Af árinu 1850
Árið 1850 var talið hagstætt. Meðalhiti í Reykjavík var 4,1 stig, 0,4 stigum neðan við meðalhita næstu tíu ára á undan. Meðalhiti í Stykkishólmi var 3,2 stig, -0,3 stigum neðan meðalhita þánýliðinna tíu ára. Á Akureyri var meðalhiti 2,6 stig. Hlýtt var í apríl, september og desember, sérlega kalt var í ágúst og fremur kalt var einnig í janúar, febrúar, maí, júní og október.
Hiti fór tvisvar í 20 stig í Reykjavík, mest 23,8 stig þann 25.júlí - og var sá dagur sá eini þar á árinu sem telst mjög hlýr (í langtímasamanburði). Tuttugu dagar voru hins vegar kaldir í Reykjavík, 14 þeirra í ágúst, hinn 19.kaldasti dagur ársins að tiltölu og bæði þann dag og þann 14. fór næturhiti í Reykjavík niður í frostmark, sem er óvenjulegt. Í Stykkishólmi voru köldu dagarnir 11, þar af 8 í ágúst. Þá hrímaði eina nótt við Ofanleiti í Vestmanneyjum (sjá hér neðar) og snjóaði víða norðanlands.
Úrkoma í Reykjavík mældist 833 mm. Þurrt var í apríl, en úrkomusamt í febrúar.
Meðalþrýstingur var fremur hár í mars, og einnig fremur hár í janúar, og júlí til október, en fremur lágur í febrúar, júní og desember. Lægsti þrýstingur ársins mældist í Stykkishólmi síðasta dag ársins, 31.desember, 947,8 hPa en hæstur í Stykkishólmi 23.mars, 1047,3 hPa.
Hér að neðan má finna helstu heimildir um veðurfar ársins. Nokkuð af veðurskýrslum og dagbókum er enn óyfirfarið. Að vanda er stafsetning að mestu færð til nútímavenju. Fleiri slysa er getið í heimildum heldur en nefnd eru hér að neðan. Óljóst er hver þeirra tengdust veðri og dagsetningar vantar. Áberandi lítið er rætt um veðurlag á Austurlandi - nánari upplýsingar um það kunna að finnast við ítarlegri leit.
Gestur vestfirðingur lýsti tíðarfari ársins 1850 í pistli sem birtist í blaðinu árið 1855:
Árið 1850 hófst vestra með góðviðrum og þíðum, en síðan komu fannalög, hvassviðri og umhleypingar; sjaldan voru þó frost mikil, en haglaust allvíðast frá því viku fyrir þorra allt fram á miðgóu; þá kom hagstæð hláka, er stóð í 10 daga, og var þaðan frá til sumarmála jafnan góð veðrátta. Vorið var fremur kalt, og langt frosthret gjörði með fjúki eftir miðju maí; rak þá hafís víða að landi á Vestfjörðum; ísinn tók að sönnu skjótt frá landinu aftur, en sást þó lengi frameftir sumri af farmönnum í höfum ekki langt undan landi. Miðsumarmánuðurinn (júlíus) var jafnast kaldur og þurrkar miklir; grasvöxtur varð því í lakara lagi vestra, nema á votlendi; aftur varð heynýting einhver hin besta sökum hægviðra og þerra. Septembermánuður var að sönnu vætumeiri, en þó hagstæður til aðdrátta; októbermánuður var fremur skakviðrasamur, en í nóvember og desember var snjókoma lítil og frost að því skapi væg, og veturinn því góður fram á nýár; svo ár þetta mátti kalla árgæskuár eins og hin næstu á undan.
Afli var góður víðast um Vestfjörðu, en þó einna bestur á Ísafirði; því aukist hefur þar afli og haldist, að kalla má, árið um kring. Undir Jökli urðu vetrarhlutir 4 hundruð og þaðan af minni; en vorhlutir í Dritvík urðu að meðaltali um 2 hundruð. Steinbíts- og þorskafli vestur um fjörðu var að sínu leyti þessu líkur. Í Bolungarvík við Ísafjarðardjúp var bestur afli með skipi 50 hundruð þorsks og 90 skötur, sem gjörðu 1 tunnu lifrar. Í Arnarfirði var besti haustafli, hæstur hlutur 800 af þorski og ýsu. Í Steingrímsfirði 4 hundraða hlutir og þaðan af minna; þótti sá afli nýlunda þar. Á Breiðafirði var aflinn rýrari, líkt og árin hér á undan. Hákarlsaflinn varð víðast í góðu meðallagi.
Árið 1850. 9. dag mara urðu 2 kvenmenn úti í áhlaupskafaldi milli bæja í Steingrímsfirði í Strandasýslu. Þá datt og unglingspiltur ofan af ísjaka í Mjóafirði í Ísafjarðarsýslu, og beið þaraf bana. Á vetri þessum týndist maður í Dýrafirði í snjóflóði, og er sagt, að það bæri uppá sama dag, sem stúlka fórst frá sama bæ veturinn áður. Í maímánuði hrapaði maður til bana í Önundarfirði. Þá drukknaði og maður af hesti í Steingrímsfjarðarbotni; hann var úr Saurbæ, og var mælt, að hann hefði drukkinn verð; þá datt maður út af fiskiskútu frá Flatey, og annar af Svaninum" frá Ólafsvík, og varð ei bjargað. Í nóvembermánuði varð kvenmaður í Steingrímsfirði úti í kafaldsbil. Á sumri þessu týndist þilbátur, sá er Tréfótur" hét, úr Önundarfirði; áttu þeir hann Guðmundur Bjarnason og Jón Bjarnason á Sæbóli, bændur, og stýrðu honum synir þeirra, Pálmi Guðmundsson og Kristján Jónsson. Það vissu menn síðast til, að skúta þessi var að hvalskurði á hafi úti í hvassviðri, og halda menn, að þiljur hafi opnar verið, en skútan þrauthlaðin, og muni þetta hafa orðið henni að tjóni. 15. júní týndist skip með 4 mönnum á Ísafirði á leið frá Æðey til Skálavíkur; var þar á bóndinn frá Skálavík og stjúpsonur hans. 18. desember týndust 4 menn af báti á Ísafirði, og bar það svo við, að bátur sá var á heimleið frá Ísafjarðarkaupstað, fyllti þá bátinn af grunnboðum, og hvolfdi örskammt frá landi norður frá Arnardal. Á bátnum voru 6 menn, og varð tveimur þeirra bjargað; meðal hinna, er drukknuðu, var og sóknarpresturinn úr Grunnavík, Hannes Arnórsson prófasts Jónssonar úr Vatnsfirði. Hann var gáfumaður og skáld, enda er haft eftir þeim tveimur mönnum, er bjargað var, að presturinn, sem komst með þeim á kjölinn, hafi þá orkt og mælt fram með sálarstyrk allmiklum vers hjartnæmt mjög; en ekki námu þeir versið.
Þjóðólfur dró stuttlega saman veðurlag ársins 1850 í pistli sem birtist 15.janúar 1851:
Veturinn 1849 og 50 má vist telja með betri vetrum að veðuráttufari til. Eftir stutt en hart íhlaup, sem kom snemma í nóvember [1849] viðraði svo, að ýmist var hæg sunnanátt og mari, eða þá norðankæla og hreinviðri með vægu frosti. Hélst sú veðurreynd fram yfir miðjan vetur. Úr því tók heldur að snasa að með snjógangi og hryssingi, en aldrei var frost til muna, og var veðrátta heldur umhleypingasöm veturinn út. Vorið var venju framar kalt fram eftir öllu, og varð því gróður víða hvar með minnsta móti. Eins var sumarið fremur kalt, en þurrkasamt, og hélst sú veðurreynd til veturnótta, hefur og haldist svo allt fram að árslokunum, að minnsta kosti á Suðurlandi, að varla hafa menn haft af vetri að segja. Vetrarvertíðarafli var þetta ár mikill í flestum útverum, en með minnsta móti allstaðar innan Faxaflóa, og brugðust bændum net enn meir, en árið áður.
Brandsstaðaannáll [vetur]:
Sama góða vetrarfar hélst til þorra, blotasamt og frostlítið; á honum jarðleysi, sumstaðar lítil snöp. 24. febr. kom jörð upp. Aftur með mars köföld og smáblotar, jarðlítið. 11.-12. mars rigning mikil, vatnsgangur og skriðuskemmdir miklar á túni og engjum, þar eftir þíður, svo vel gaf að moka skriður.
Lanztíðindi segja 28.febrúar af veðurlagi í Reykjavík í janúar:
Í þessum mánuði hefur, líkt og i næstundanfarandí verið hin besta og mildasta vetrarveðurátta, austan og landnorðan átt hefir lengst af viðvarið, þó oftast hæg, nema þann 7. var hvassviðri, fyrst á austan landsunnan, þann 8. líka hvasst á útsunnan með éljum, og þann 9. framan af degi, en um kvöldið gjörði ofsaveður af suðri, með stórrigningu og miklum skruggugangi, um miðnætti hægði veðrið og gekk til vesturs. Eftir það þann 12. kom hin hæga austanátt sem áður var, og hélst við til mánaðarins enda; 22 dagar hafa einhverntíma orðið frostlausir, en einar 5 nætur voru þíðar til enda svo, að frost hefur ekki verið stöðugt dag og nótt, nema eina 9 daga, og þó þiðnað oft á milli þeirra. Töluvert vetrarfrost var ekki, nema 5 daga, þ. 25. til 29.
Lanztíðindi segja 20.mars af veðurlagi í Reykjavík í febrúar:
Þá fyrstu 9 daga af þessum mánuði var eins og að undanförnu í vetur góð veðurátta, og hæg, með landnyrðingskælu og litlu frosti; en strax eftir það varð bæði meira frost með köflum, og einkum mikið snjófall með hvassviðri af ýmsum áttum. helst af útsuðri, austri og landsuðri, og tvisvar með mikilli blotarigningu, þ. 24. og 28., svo að seinni hluta mánaðarins, hafa lengst og mest verið köföld og illviðri.
Lanztíðindi segja 6.apríl af veðurlagi í Reykjavík í mars:
Fyrstu 10 dagana af þessum mánuði var sama veðurátta og seinast í febrúar, ýmist landnyrðings hvassviðri með köföldum, og stundum blotum, þegar vindáttin komst í landsuður, eða útsynningsstormi t.a.m. þann 9., með kafaldséljum eða rigningu; upp frá þeim 10. var þíðviðri og hláka, fyrstu 3 dagana með rigningu af suðri og landsuðri, svo allan snjó leysti af láglendi, síðan var hægð og góðviðri í viku, oftast með hægri austanátt, og frostleysu, en þann 22. byrjaði hart norðankuldakast, sem varaði á sjötta dag, var þá frost oft 10° og stundum lítið minna; þó féll enginn snjór þá daga. Seinustu dagana var aftur hægð og gott veður.
Eggert Jónsson athugunarmaður á Akureyri segir að 21. til 29.mars hafi hafís rekið um við Norðurland - en hann hafi horfið dagana 4. til 13.apríl, en síðan snúið aftur 6. til 15.maí.
Brandsstaðaannáll [vor]:
Eftir 23. [mars] frostasamt og í apríl lengst af þurrt og stillt frostveður. Með maí grænkaði í túni. 6.-12. [maí] hríðarkast mikið og harka á nætur. Bar þá mikið á töðuskorti. Um krossmessu gott, en aftur kuldakast og mikil hríð ytra 23.-29. maí.
Lanztíðindi segja 7.maí af veðurlagi í Reykjavík í apríl:
Strax í byrjun þessa mánaðar minnkaði kuldinn. er var seint í mars, og varð gott veður með austan- og landnyrðingskulda, þó oftar með hægð, en hvassviðri og stundum logn, frost var aldrei heilan dag til enda. en næturfrost við og við, til þess 24.; þann 14. rigndi nokkuð til muna, annars lítið, og eftir þann 15. ekkert til muna, en þurrt veður, hæg austanátt og góðviðri viðhélst til mánaðarins enda.
Lanztíðindi segja 15.júní af veðurlagi í Reykjavík í maí:
Þessi mánuður var að sínu leyti miklu kaldari en apríl, fyrstu 2 vikurnar var oftast nær töluverði næturfrost með köldum landnyrðingi, stundum með kafaldi eða vestan útsynningi með éljum, eða krapaskúrum. Eftir miðjan mánuðinn hlýnaði dálítið og var oft hægð og gott veður, en þó kalt og næturfrost við og við, nema seinustu 3 næturnar, þá var austanátt og rigning, svo jörðin fór að grænka.
Þann 7. maí segir Jón Austmann í Ofanleiti frá norðan bálviðri, kollheiðu veðri, en skarafjúki. Hita segir hann svo: Kl.9: -4, kl.12 -5, kl.15 -6. Ísdringlar yfir gluggum viknuðu ekkert á móti sólu. Þorleifur í Hvammi segir að þann 23.maí hafi verið snjókóf að nóttu og þann 24.maí rak inn hafíshroða á Siglufirði að sögn athugunarmanns.
Þann 15. júní birtist í Lanztíðindum fróðleikspistill um vindhraða og ísrek:
Afl og hraði vindsins. Menn hafa gjört margar athugasemdir um afl vinds hér. Ályktanir segja, dregnar af þessum athugunum: Hægasti vindur (andvari, blær), eða sá vindur, sem menn finna aðeins, fer 5,400 fóta langan veg á klukkustundu hverri, nokkuð meiri vindur (kalda-korn) fer 10.800 fet, golu-vindur 21.600, stinningskaldi 58.800, storm-korn 108.000 til 216.000, stormur eða hvass vindur 313.200 og fellibylur, eða sá vindur, sem þeytir um koll og brýtur bæði hús og tré, 416.000, eða 135 fet á einni sekúndu. Það er alkunnugt, að á sama tíma blása oft vindar úr gagnstæðum áttum. þannig að annar vindur er ofar eða hærra í lofti uppi, en hinn. Sjófarendur hafa þráfaldlega tekið eftir því, að ísar í norðurskautshöfunum hala borist i tvær gagnstæðar áttir, svo að annar jakinn hefur sýnst renna þvert á móti vindi, er annar hefur farið undan vindi og kemur þetta af því, að jakar þeir, sem fara móti vindi, ná dýpra niður í sjóinn og berast af strauminum í djúpinu, sem þá mega sín meira, en vindurinn á þeim hluta jakanna, sem upp úr sjó stendur og minni er fyrirferðar. Af því að nú jakarnir standa mishátt upp og mislangt niður í sjóinn, þó þeir séu hvor hjá öðrum, eða í sömu ísbreiðunni, þá verkar líka vindur og straumur misjafnt.
Brandsstaðaannáll [sumar]:
Í júní allgott. 25. brutust lestamenn suður, en 27.-28. gjörði mikið hret og vatnsaga, svo, stöku kindur króknuðu og fráfærur frestuðust til 30. júní. 4. júlí bati góður og enn þann 12. stórrigning með kalsa. Gras varð lítið fyrir ofvætu og oft kulda. Sláttur byrjaði með hundadögum. Fékkst þá góð rekja og þerrir til 29. júlí til 3. ágúst. Taða varð í minna lagi. Engi spratt lengi. Þó varð rýr heyskapur. 16. og 21. ágúst rigndi mjög og snjóaði. Fennti þá nokkuð af lömbum í norðurfjöllum og fylgdu því kuldar út mánuðinn. Í september góðviðri og nýting góð, 15. [september] flóð í jökulám.
Lanztíðindi segja 1.ágúst af veðurlagi í Reykjavík í júní:
Fyrstu 6 dagana var landsynningur með hægu regni, og gott vorveður, svo þá vikuna spratt vel gras, en frá því voru oftast norðankælur og heldur kalt í veðri, allt til mánaðarins enda, en lítið regn, og skjaldgæft. Þann 28. og 29. var norðan hvassviðri, en annars oftast hægvindi.
Þann 28.júní segir athugunarmaður á Siglufirði að snjóað hafi niðrum byggð.
Lanztíðindi segja 6.september af veðurlagi í Reykjavík í júlí:
Framan af þessum mánuði var oftast hæg norðankæla og heldur kalt á næturnar, og þurrt veður, en frá þeim 6. var stundum þoka með sudda smáskúrum af vestri og útsuðri, og sjaldan vel hlýtt í veðri; frá þeim 16. til þess 21. var gott og bjart veður, og frá því þurr og hæg austan og sunnan átt til þess 28., en seinustu 4 dagana var aftur vestanátt, með þoku og rigningu.
Þorleifur í Hvammi segir að þar hafi verið snjóél í 1° hita aðfaranótt 2.júlí. Þann 24. og 25.júlí fór hiti í yfir 20 stig á Akureyri og þann 23. og 25.júlí á Odda á Rangárvöllum (23,2 stig). Sama dag (25.) fór hiti í 23,8 stig í Reykjavík.
Lanztíðindi segja 6.október af veðurlagi í Reykjavík í ágúst
Fyrstu vikuna af þessum mánuði var hæg vestan átt með þoku og suddaskúrum, en frá því var næstum allan mánuðinn þerrir, með oftast hægri norðanátt, og oft heldur kalt í veðri, einkum frá þeim 18. til 23., því þá var hvass norðanvindur. Seinustu 2 daga mánaðarins voru regnskúrir af útsuðri og þoka.
Jón Austmann í Ofanleiti segir af hrímfalli þar í heiðríkju aðfaranótt 23.ágúst. Þá segir af Siglufirði að þar hafi þann 21.alsnjóað í nótt - bleytuhríð svo alhvítt er. 22. ágúst - alhvítt enn yfir allt. 23. ágúst: Snjókoma í nótt svo alhvítt var í morgun. Eggert á Akureyri segir þann 21. ágúst af Snjókomu og slyddu til kl.15 (hiti 0,8 til 2,3 stig) og daginn eftir að snjóað hafi af og til.
Lanztíðindi segja 1.nóvember af veðurlagi í Reykjavík í september
Fyrstu 12. dagana af þessum mánuði var góð veðurátta með hægri austanlandnyrðingskælu, og jafnan þurrt veður, og nýttist því heyskapur manna vel. Frá þeim 12. til 20. var austan og sunnanátt með rigningum, en þornaði aftur eftir þann 20. með ýmist logni og góðviðri, eða landnyrðingskælu og hægri vestanátt, en rigndi sjaldan að mun, svo góð nýting hefur orðið á heyjum allstaðar hér nálægt.
Brandsstaðaannáll [haust og vetur til áramóta]:
Haust gott og hretalaust til 13. okt., þó sama góðviðri eftir það 27. okt. Lagði þá á mikla fönn og þunga skorpu. 10. nóv. varð jarðlaust fyrir fé í lágsveitum, en betra til dala og fjallabyggða. Veður var oftar frostalítið, óstöðugt og slyddusamt. 17. kom upp snöp og voru mikil svellalög með jólaföstu, en með henni kom stöðug, góð hláka um 12 daga, svo allan gadd tók af heiðum. Eftir það besta tíð til nýárs. (s170)
Lanztíðindi segja 12.nóvember af veðurlagi í Reykjavík í október
Fyrstu 5 dagana af mánuðinum var austanvindur, og þann 5. stórrigning; frá því var oftast hæg veðurátta lengi fram eftir mánuðinum, og stundum logn og besta veður, nema einstaka daga var útsynningur með hvassviðri og rigningu, þann 11., 12. og 13. með vestanvindi og hagléljum, þann 21. með þoku og stórrigningu, og 22. með þurru hvassviðri á vestan; eftir það var austan- og norðanátt til mánaðarins enda. Eftir þann 14. var flestar nætur frost, en ekki viðhélst það allan daginn, fyrri enn þann 28, Snjór féll ekki á láglendi fyrri| enn þann 29, sem þiðnaði aftur eftir 3 daga.
Lanztíðindi segja 10.desember af veðurlagi í Reykjavík í nóvember
Þann 1. dag mánaðarins kom skyndilegt hvassviðri upp úr logni að kalla, litlu fyrir hádegi, sem varð skaðræðisveður fyrir nokkra menn, er á sjó voru; frá því var oftast hægð og gott veður lengi fram eftir mánuðinum ýmist með landnyrðingi, eða útsynningi með þoku og þíðum, til þess 16. Eftir það var frost við og við, og einkum á næturnar, til útgöngu mánaðarins, með austan og norðanátt, nema seinasta daginn var hláka og rigning á austan-landsunnan.
Þjóðólfur segir 1.desember:
Fyrsta dag nóvembermánaðar brast á upp úr logni hastarlegur stormur með hafróti á vestan útsunnan; týndist þá bátur með 4 mönnum ofan úr Andakíl, er lagt höfðu héðan frá Reykjavíkursandi. Hefur báturinn að líkindum farist fram undan Kjalarnesstöngum, því sagan segir, að þar hafi rekið á land 8 brennivínskútar auk stóru ílátanna; og má þá segja út af atviki því, eins og mælt er, að Steingrímur biskup hófsami hafi sagt við prest einn, sem átti dagleið fyrir höndum, og reiddi 2 pottflöskur fyrir aftan sig: ekki ætlið þér þó að fara nestislaus, prestur góður! [Einn mannanna var Jón Pálsson, langa-langa-langafi ritstjóra hungurdiska, þá bóndi á Hvanneyri]. Í þessu sama veðri týndist líka róðrarbátur í Vogum með 2 mönnum; en þriðji maðurinn bjargaðist í land.
Lanztíðindi segja 10.janúar 1851 af veðurlagi í Reykjavík í desember 1850:
Allan fyrri hluta mánaðarins eða til þess 15. var oftast austanvindur, stundum með þoku og rigningu eða hvassviðri, en alltaf þíðviðri; frá þeim 15. til þess 20. var norðankæla, þó oftast hæg, og frost, og féll hrím á jörðu; eftir þann 20. og til mánaðarins enda, var ýmist austanvindur, með rigningu eða snjógangi, eða þegar vindurinn hljóp í útsuður, með útsynningséljum, Ýmist með þíðu eða frosti, svo að seinni hluta mánaðarins hefur verið óstöðug og umhleypingasöm veðurátta.
Lýkur hér að sinni umfjöllun hungurdiska um veður og tíðarfar ársins 1850. Þakka Sigurði Þór Guðjónssyni fyrir innslátt texta úr Brandsstaðaannál. Fáeinar tölur eru í viðhenginu.
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt 17.10.2020 kl. 01:02 | Facebook
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.12.): 20
- Sl. sólarhring: 214
- Sl. viku: 985
- Frá upphafi: 2420869
Annað
- Innlit í dag: 15
- Innlit sl. viku: 864
- Gestir í dag: 15
- IP-tölur í dag: 15
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.