30.9.2020 | 23:00
Af árinu 1848
Tíðarfar sýndi á sér aðra hlið en árið á undan - aðallega kalda þó og mikil hafa umskiptin verið. Febrúarmánuður var óvenjukaldur, almennt sá kaldasti sem vitað er um. Samt var ekki mikið undan honum kvartað, því fremur hlýtt var í janúar og ekki var mikið um mjög slæm veður eða hríðarbylji. Mjög kalt var einnig í júní og allir mánuðir frá apríl til og með september teljast kaldir. Norðlægar áttir voru ríkjandi á þessu tímabili og tíð mjög slæm nyrðra en skárri syðra. Haustið þótti hagstætt. Meðalhiti í Stykkishólmi var 2,3 stig, það lægsta síðan 1836 og -1,2 stigum neðan meðallags næstu tíu ára á undan. Meðalhiti í Reykjavík var 3,9 stig, það kaldasta frá 1841. Á Akureyri var meðalhitinn 1,9 stig. Þar var -10,2 stiga frost að meðaltali í febrúar.
Kaldir dagar voru margir, bæði í Reykjavík (17) og í Stykkishólmi (20). Listi yfir þá er í viðhenginu, 11.febrúar einna kaldastur á báðum stöðum. Næturfrost var í Reykjavík 11.júní. og fór niður í frostmark marga daga snemma í september.
Úrkoma var nærri meðallagi í Reykjavík árið í heild, en hún var mikil í janúar og desember en fremur þurrt var í apríl, júlí, október og nóvember.
Þrýstingur var fremur hár í október, en lágur í mars, maí og ágúst. Hæsti þrýstingur ársins mældist í Stykkishólmi 16.október, 1040,3 hPa, en lægstur í Reykjavík þann 18.desember, 961,8 hPa. Ekki er ótrúlegt að þrýstingur hafi farið neðar þann dag því þá varð tjón af völdum sjávargangs í Grindavík og nágrenni.
Hér að neðan má finna helstu heimildir um veðurfar ársins. Nokkuð af veðurskýrslum og dagbókum er enn óyfirfarið. Að vanda er stafsetning að mestu færð til nútímavenju. Fleiri slysa er getið í heimildum heldur en nefnd eru hér að neðan. Óljóst er hvert þeirra tengdust veðri og dagsetningar vantar.
Ársritið Gestur Vestfirðingur 1849 [lýsir veðri ársins 1848] (lítillega stytt hér):
Mér þykir ekki taka því, að ég sé margorður um veðráttufarið á árinu 1848, að því leyti sem það ber saman við veðurlagið í hinum fjórðungum landsins, því ég þykist vita, að þeir, sem annars gefa nokkurn gaum að mér, taki ekki lakar fyrir það móti Reykjavíkurpóstinum, þeim eina, er segist ferðast á mánuði hverjum um landið, og greinir, svo að segja í hverri ferð, frá árferðinni, sem oftar fer nærri því, sem hún reynist á Vestfjörðum, þó ber stundum út af í ýmsu, eins og vonlegt er, eftir því sem lengra dregur norður eftir, og hvað mest þá, er hafís kemur og liggur við land, sem oft ber við, enda um hásumar. Þannig var hafís við hvert annes og á hverjum firði beggja vega Hornstranda, öðru hverju seinni hluta vetrarins er leið [1848], þó bönnuðu vindar og ókyrr veðrátta honum landsvist til lengdar. Veturinn frá nýári telja flestir Vestfirðingar með harðari meðalvetrum; því hagleysur voru allvíðast fram á einmánuð. En þótt vetrarfarið reyndist harðskeytt, verður ekki með sanni sagt, að það hefði ollað tjóni í búnaðarháttum manna, ef ei hefðu annmarkar og ókostir orðið vetrarfarinu samfara; en þeir voru fyrst það, að heyin frá árgæskuárinu [1847] og eftir mikla grasvöxtinn í fyrra sumar reyndust svo frábærlega létt, mikilgæf og óholl, að ei vissu menn dæmi til; því búsmali gat ei haldist við á þeim, allra síst lömb, nema hjá einstöku mönnum, er nógu snemma tóku það ráð, að gefa búsmala hálfu meiri gjöf, en vant var; sumstaðar bryddi á gaddi í sauðfénaði, þ.e. ofvexti á tönnum og skoltum þess, líka ofvexti á klaufunum, sem olli óþrifum og dauða, ef ei var í tíma aðgjört. Sá er annar ókosturinn, að ei muna Vestfirðingar þvílík vorharðindi, sem þau er á dundu í vor, því svo voru kuldar og frostnæðingar miklir, að víða ollu þeir töluverðu hruni á sauðkindum, en því nær allstaðar miklum unglambadauða. Svo var kalt vorið og sumarið allt fram í septembermánuð, að sumstaðar leysti þá fyrst snjó upp úr búfjárhögum; geldfé og unglömbum varð því víða ei komið á afrétti fyrir sakir snjóa, og því nær enginn gat aflað sér fjallagrasa; það var því ei kyn, þó gróður kæmi ærið seint, og yrði lítill; því fullyrða má, að sumar þetta hafi verið eitthvert hið mesta kulda- og þurrkasumar, og flaut þar af meðal annars, að málnytja varð næsta lítil, þó mun á endanum hafa rakist betur úr, en áhorfðist.
Grasbrestur varð víðast hvar mikill á túnum, en ekki urðu heyföng manna eftir því bág, þar eð nýting varð góð framan af sumri, og útengi spruttu sæmilega að lokunum; því svo þótti, sem hin hlýja og náttúrlega sumarveðrátta byrjaði fyrst með september. Á Hornströndum var kúm og sauðfé gefið inni fram um Jónsmessu. Mundi útheyskapur hafa orðið góður, hefðu þá ekki langvinnir óþerrar spillt honum. Haustið var gott, og veðrátta á því langtum mýkri, en hin haustin hér á undan, og héldust hlýindi öðru hverju fram í nóvember, harðnaði þá nokkuð veðurátta með snjókomu og frostum, en þann snjó leysti að mestu aftur í byggðinni í desember, og kalla menn vetrarfar þetta til nýárs í betra meðallagi, enda þótt hafís hafi verið fyrir framan Vestfirðina og einu sinni að landi komið. Eru menn þeirrar vonar, að flestir bændur verði héðan af í vetur ekki heyþrota, þó harðindakaflar komi, ef vorið verður bærilegt, enda er nú minni peningur á heyjum hjá bændum, en í fyrra; því fyrir þá skuld að heyjafengur þeirra varð í lakara lagi, fækkuðu nokkrir kúm, en festir sauðfé, því mjög fá lömb eru nú á vetur sett. Fjárskurður vestra reyndist þetta árið í lakasta lagi víðast hvar; kenna menn það léttu heyjunum í fyrra, ótímguninni í skepnunum., kuldanæðingunum í vor og þurrkunum í sumar.
Þegar hafísinn var orðinn landfastur í fyrra vetur, varð vart við birni tvo, er menn ætluðu hafa komið á land nálægt Stigahlíð við Ísafjörð, flökkuðu þeir suður um fjörðu og voru báðir unnir við Látrabjarg í Barðastrandarsýslu. Sjávarafli var um Vestfjörðu, eins og annarstaðar við landið, með betra móti. ...
Í Vestfirðingafjórðungi eru þetta árið, svo ég til viti, ei aðrir skipskaðar, en þessir: bátur, er fórst í lendingu við Hellna í Snæfellsnessýslu 5. júní; týndust þar 4 menn. Ólafur nokkur Illhugason, merkismaður og faðir formannsins, er Friðrik hét, sá til ferða bátsins, og vildi bjarga þeim, er á voru, veður hann því fram í brimið, og drukknaði, varð hann hinn 5. maður, er þar týndist. ... Bátur fórst líka í lendingu frá Byrgisvík í Strandasýslu 24.ágúst, týndust þar tveir menn, er komu úr Reykjarfjarðar kaupstað. Tveir menn týndust í Barðastrandarsýslu ofan um ís, annar á Tálknafirði, hinn á Kollafirði í Gufudalssveit.
Brandsstaðaannáll: [vetur]
Í janúar allgott veður, frosthægt, 11.-13. hláka, 17. norðansnjókoma og eftir það jarðlítið til dala og uppsveita, en lengst jörð til lágsveita. Í febrúar frostamikið, en lengst stillt veður. Í mars mildara, jarðlítið, 18.-20. landnyrðingshríðarkafli, 23.-31. þítt og tók upp til sveita, en til fjalla bjarglaust fram í maí.
Reykjavíkurpósturinn janúar 1848, bls. 63
[Yfirlit Jóns Þorsteinssonar] Fyrstu vikuna af mánuðinum voru oftast vindar og landsynningar, með þoku og rigningum eða snjókrapa; aðra vikuna voru jafnast útsynningar með rigningu eða snjóéljum; þann 16. og 17. var fyrst frost til muna 5°R og norðankæla, síðan voru alltaf ýmist landsynningar eða útsynningar, með rigningum eða snjóslettingi, þangað til þann 29., þá gekk vindur í norðurátt, og hélst við norðan kæla seinustu 3 dagana, nema hvað snjóþoka var þann 31. og gjörði lítið föl á jörðu. Jörð hefur oftast verið snjólítil eða auð á láglendi hér um kring, en veðurátta þó verið mjög storma- úrkomu- og umhleypingasöm.
[Blaðið sjálft] Veðráttufar hér syðra var í þessum mánuði svipað því sem var næst á undan; óstöðugt og stormasamt, mest af suðri og útsuðri en frost hefir verið lítið, og oftast nær þíðviðri. Innlendir atburðir sem oss eru kunnir og tíðindum skipta eru þessir: Við Ísafjarðardjúp fórst fiskiskúta, sem tveir bændur þar áttu, og er mælt að annar þeirra hafi viljað senda hana á veiðar en annar ekki, og hafi hún því lagt út honum nauðugt.
Reykjavíkurpósturinn febrúar 1848, bls. 75.
Þorrinn reyndist hér sunnanlands kaldur og umhleypingasamur, með norðlægum og útsynningsáttum en ekki var snjófall til muna; en af því að veðurátta var svo skakviðrasöm og ærið frosthörð, felldi útigangpeningur mjög af í holdum, þó jörð væri nóg fyrir, og er hann því sagður alvíða magur, enda hafa hey og reynst léttgæf og áburðarfrek, en það er bót í máli, að flestir eru vel heybirgir undan sumrinu. Norðan og vestan að berast fregnir um gott vetrarfar, og nægar jarðir, nema hvað þorrinn hafði verið þar eins og hér syðra, harður og frostið stigið hæst allt að 18°R [-22,5°C]. Víða hefur fjársýkin orði að meini, og enda borið mest á henni sumstaðar nyrðra og í Skaftafellsýslu, einkum á Síðu, hvar sagt er hún hafi drepið framundir þúsund fjár, og er sótt þessi mikill voðagestur. Borist hefur það og nýlega, að í miðjum þessum mánuði, hafi sést hafíshroði frá Skagaströnd og eins fyrir Ströndum, enda þykir veðurátta fremur ísaleg, hvað sem síðar reynist.
Reykjavíkurpósturinn mars 1848, bls. 91.
Veðurátta hefur í þessum mánuði verið hér syðra ærið umhleypingasöm og óstöðug, og vindstaðan helst verið norðlæg, Með útsynningsbyljum þess á milli. Norðanlands hafa borist fréttir um allgóða árferð, en öðru hverju gengu þar þó á þorra og góu köföld og hríðir, kól þar og nokkra menn til skemmda, og 1 maður varð úti í Miðfirði. Hey eru þar víðast hvar nægileg, þó kvað fárhöld ekki vera nema í meðallagi, því heyin reynast ekki sem hollust, og kom það helst fram á gemlingum. Hafíshroði var á Skagafirði en ekki Húnaflóa, en vestanað hefur sú fregn, að hafís mundi þar í nánd, enda þótti mönnum og nyrðra veðurátta ísaleg, og hræddir eru menn, að hafísinn hafi rekið þar að landi í norðankastinu núna í góulokin, en síðan hefur ekkert frést þaðan.
[Yfirlit Jóns Þorsteinssonar] Eins og undanförnu í vetur, hefur lengst af í þessum mánuði, veðurátta verið óstöðug, vinda og umhleypingasöm. Þann 1. var gott og bjart veður og logn, síðan var vindur ýmist á útsunnan-, sunnan-, eða á austan-landsunnan. Landsynningsstormur og rigning þann 3. stundum með rigningu og stundum með snjógangi, þangað til þann 10., þá gekk vindur til norðurs, þó fyrst með hægð, og töluverðu næturfrosti, sem hélst við til þess 22. og var þá stundum mikið hvassviðri, t.a.m. þann 14. landnyrðingsstormur, og frá þeim 18. til þess 21. mikið norðanveður. Frá því hefur síðan orðið sunnanátt og hlaupið ýmist til austurs eða útsuðurs, með rigningu og stundum snjókomu.
Suðurnesjaannáll:
Mikið hafrót á öskudaginn [1.mars] með hvassviðri. Braut víða garða, gekk sjór inn á tún og gerði skemmdir. [Þessu ber varla saman við veðurlýsingu Jóns Þorsteinssonar - kannski er hér um dagsetningarugling að ræða]. Frosthríðir miklar framan af vertíð.
Brandsstaðaannáll: [vor]
Í apríl langvinn harðviðri ytra og þíðulítið. Í maí þurrkar, kuldar og gróðurleysi til 23., að fyrst kom náttúrleg þíða og nokkur gróður.
Reykjavíkurpósturinn:
[Yfirlit Jóns Þorsteinssonar fyrir apríl (birtist í maíhefti Reykjavíkurpóstsins)]: Fyrstu 3 dagana var útsynningur með snjóéljum, síðan hefur jafnast verið norðanátt sem ýmist hljóp til austurs, landnorðurs eða til útnorðurs og hefur haldist við til mánaðarins enda með miklum kuldum og næturfrostum; oft hafa verið stormar og hvassviðri á norðan, einkum þann þann 4., 7., 9. til 11., og frá þeim 26. til mánaðarins enda norðan og landsynningsstormar, þar á milli var oft hægð og stundum logn.
Reykjavíkurpósturinn maí 1848, bls. 122.
Það sem af er sumri þessu hefur veðuráttan hér sunnanlands, og annarsstaðar í landinu þaðan sem vér höfum til frétt, verið ákaflega köld, er það ætlun manna að hafís liggi við Hornstrandir og standi af honum kuldinn. Tún eru hér - seinustu dagana í maímánuði - lítið eitt farin að grænka, en úthagi alls ekki, nema ef vera skyldi í Ölvesi. Gripahöld eru allvíða mjög bágborin, sumstaðar er sagt að falli bæði hross og sauðfé; en hvað mest látið af því úr Landeyjum og úr Hvolhrepp eystra.
[Yfirlit Jóns Þorsteinssonar, maí] Fyrstu viku þessa mánaðar voru voru austan vindar og landsynningar með rigningum, eftir það 4 daga, 7. til 10. landnyrðingshretviðri með snjókomu til fjalla og rigningum hér um kring, sem enda hélst við (stundum með norðanstormum 17. til 19.), allt til þess 20., oft með næturfrosti og kulda, Var því lítill gróður kominn viku eftir krossmessu; síðan hefur verið nokkuð mildari sunnanátt og oftar landsynningar, skúrir við og við, svo nú má fyrst heita að grasgróður sé lifnaður til gagns því mjög hefur vorkalt verið.
Brandsstaðaannáll: [sumar]
Aftur 1.-13. júní norðanstormur og kuldi, en þó stórhretalaust. Kælur og náttfrost héldust út júní. Í hans lok var geldfé rekið á afrétt og lömb 5.-7. júlí. Þann 3. lögðu flestir suður og fengu lítt færan flóann til baka og frost á nætur. Sláttur byrjaði í 15. viku sumar, utan hvar sleginn var sinulubbi, er víða var mikill frá grasárinu í fyrra. Á túni og sinulausu engi varð mesti grasbrestur síðan 1823. Í ágúst rekjusamt. Þó varð nýting allgóð, en mörgum þótti hitna í töðum til skemmda, er hún er þurrkfrek, þá kallast má hálfsprottin. Í september rigningasamt. Þó mátti hirða hey þann 8., þar laglega var að farið. 14.-16. rigndi og snjóaði um 6 dægur í sífellu, svo ei var úti vært að slætti. Drap þá almennt hey til stórskemmda, því víða voru þau flöt og ófullbúin. Áttu þá margir úti 2 vikna slægju, sem að mestu varð ónýt. Sæti gegnvöknaði og sumstaðar flæddi burt. Eftir það sífellt vætur og þerrilaust til septemberloka, að flestir náðu heyi inn illa þurru og dáðlausu. Varð svo heyfengur bæði lítill og slæmur, taða á óræktartúnum meira en hálfu minni en árið áður. Vanaþurrengi var lítt slægt, en sinuheyið dáðlítið.
Þorleifur í Hvammi segir af næturfrosti 29.júní, 20.júlí segir hann af krapaskúrum í byggð og það snjói í fjöll, 29.ágúst að það hafi snjóað að nóttu og 9.september að snjóað hafi til sjóar í byggð. Þann 14.september segir hann af áköfum vatnavöxtum. Athugunarmaður á Hvanneyri í Siglufirði segir að 16.september hafi snjóað ofan að sjó er á leið.
Ingibjörg Jónsdóttir (s237) segir í bréfi þann 3.ágúst: ... enda eru nú hér eilífir norðankuldar og stormar, og aldrei man ég annað eins vor. Grasbrestur er mikill hér, þó mun hann víða verri. Fiskur er nógur fyrir, ef fólk kæmist út á sjóinn fyrir ofsastormum.
Reykjavíkurpósturinn júlí 1848, bls. 159.
[Yfirlit Jóns Þorsteinssonar, júní] Í þessum mánuði var jafnast, og á hverjum degi til þess 16. norðanátt og þerrir, og því mjög kalt og gróðurlítið. Eina viku, frá þeim 16. til 24., var landsynningsátt með nokkurri rigningu, einkum þann 18., en norðanátt aftur seinast í mánuðinum.
[Yfirlit Jóns Þorsteinssonar, júlí] Norðankæla og þurrkur hefur haldist mestallan þennan mánuð, nema eina viku frá þeim 6. til þess 15. brá við og við til landsynnings, en lítið varð af rigningu.
Reykjavíkurpósturinn september 1848:
[Yfirlit Jóns Þorsteinssonar um ágúst]: Fyrstu 10 dagana var norðanátt, þerrir og kuldi, eins og tíðast var framan af sumrinu, síðan 4 daga vestanátt og hægð, og að mestu þurrt veður, en frá þeim 15. ýmist austanátt með rigningu eða þá norðanátt og stormar, stundum með hretviðri til fjalla og dala.
Eftir því sem vér höfum til spurt hefur hefur á þessu sumri allstaðar hér á landi norðanátt verið drottnandi, og þess vegna veðurlag verið mjög misjafnt, eftir því hvernig sveitirnar horfa ýmislega við. Þannig hefur á Suðurlandi mátt heita einlæg þurrkatíð til þess fram í þennan mánuð [september], að vindur gekk til suðurs og rigningar hófust, en en þar á móti hefur í Múlasýslum, Þingeyjarsýslu og á útkjálkum Eyafjarðar- og Skagafjarðarsýslu veðurátt verið ákaflega slæm með snjóum og rigningum; hefur því heyskapur manna á þeim stöðum orðið einhver sá minnsti, sem menn muna til og horfir þar til mestu harðinda nema veturinn bæti úr fyrir sumrinu. Þannig segir í bréfi úr Múlasýslum, sem ritað er því nær í miðjum [september]: Vorið var hér yfrið kalt og skakviðrasamt, svo trauðlega muna menn annað verra, flesta rekur minni til 17. maí og daganna þar á undan og eftir, þá kyngdi niður allmiklum snjó, svo gefa varð öllum sauðpeningi, ærnar báru þá sem ákafast og lömb drápust hrönnum. Um fráfærur var lítill sem enginn gróður á afréttum og geymdu því margir lömb og geldfé heima fram eftir öllu. Eftir að sláttur byrjaði, sem víða hvar var ei fyrr enn 14 vikur af sumri, linnti ekki rigningum í hálfan mánuð, svo við var búið að töður manna skemmdust, en þá kom góður kafli fram að 18.ágúst; hirtu þá flestir töður sínar. Upp frá þeim tíma hafa gengið norðankuldar með regni og snjóum". 10. dag september var alsnjóa í Fljótsdal ofan í Jökulsá og starir að henni, svo hún var illfær yfirferðar. Menn bjuggust þar við að sauðfé af afréttum mundi verða mjög rýrt, því fjöll voru mjög gróðurlítil og fjársýkin gerði þar víða vart við sig. Ofan á þetta bættist að veikindi hafa í sumar gengið í Múlasýslum. Þessu líkt hefur viðrað í Stranda- og Ísafjarðarsýslum. Fiskur hefur verið mikill fyrir öllu Norðurlandi, en þó svo sé gefa menn sig um sumartímann alla við heyskapnum, og verða því aflabrögðin af sjó næsta lítill. Hér sunnanlands hefur þar á móti norðanáttin komið sér vel í öllum votlendum sveitum, t.a. Flóa og Ölvesi, því þar hefur heyjast ágætlega vel; þó grasvöxtur væri minni enn í fyrrasumar, þá er nýting á heyi miklu betri en þá. Upp til fjalla og á hvarðvellisjörðum er heyskapur aftur með minna móti, og sumstaðar hafa hey skemmst í görðum í rigningakafla þeim, sem nú hefur gengið seinni hluta þessa mánaðar, því menn áttu hey úti og höfðu ekki lagað hey sín áður en veðrabrigðin komu.
[Yfirlit Jóns Þorsteinssonar um september]: Allan septembermánuð hefur verið lík veðurátta og seinni hluta ágústmánaðar, ýmist með norðan kulda, og hretviðrum, svo að snjóað hefur á fjöll einkum þann 9., og stundum hafa verið austanvindar eða útsynningar með rigningu svo að rignt hefur viðlíka mikið í september einum, sem frá sumarmálum til 31.águst.
Brandsstaðaannáll: [haust - og vetur til áramóta]
Frá 17. sept. til 23. okt. var sífelld sunnanátt. Sótti þá fé á heiðar venju framar. 24. okt. til. 8. nóv. snjóakafli, þann 6. bylur mikill, en hláka litlu á eftir. 16.-17. lagði fönn á fjallbyggðir, en 26. varð að taka fé á gjöf. Með desember frostkafli mikill. Eftir það hleyptu blotar jörð í gadd. Eftir sólstöður blotar og hláka um jólin. 31. kom lognfönn til dalanna, en reif af til lágsveita.
Reykjavíkurpósturinn nóvember 1848
Veturinn sem genginn er í garð, hefur allt á þennan dag verið hagstæður og árferð öll mjög að óskum; haustið var og hvarvetna veðurblítt, og bætti þannig í mörgum sveitum upp sumarið, einkum nyrðra, hvar sumarið var venju fremur óblítt og heyföng undan sumrinu með minnsta móti, svo sumstaðar ekki heyjaðist nema handa kúnum og fullorðnu fé, en ekkert handa lömbum.
[Yfirlit Jóns Þorsteinssonar um október]: Þennan mánuð var góð haustveðrátta; fyrri partinn oftast austanátt og landsynningar, stundum með vindi og rigningu, en stundum með logni og góðviðri; frost kom ekki fyrr enn þann 16., og frá því - seinni hluta mánaðarins gengu ýmist norðankælur með litlu næturfrosti, eða hægð og góðviðri, til mánaðarins enda.
[Yfirlit Jóns Þorsteinssonar um nóvember]: Þennan mánuð hefur og verið góð veðurátta eftir árstíðinni; stundum norðan- og vestankæla, en stundum hægð og góðviðri, oftast með nokkru en þó litlu frosti. Austan-landnorðan stormur var þann 19. og sunnudaginn þann 26. en snjókoma aldrei til muna, nema lítið eitt þann 30. með útsynningssnjóþoku, svo kalla má að jörð hafi oftast auð verið hér um pláss.
Reykjavíkurpósturinn desember 1848
Árferð í þessum mánuði var hér sunnanlands þannig háttað, að framan af lagði mikinn snjó í byggðir, og komst útigangspeningur sumstaðar á gjöf vegna jarðbanns; en þegar undir jólin leið, gekk vindur til suðurs með þíðum og rigningu, og leysti þá allan snjó í byggð. Í sunnanvindi þessum varð mikið brimrót fyrir sunnan fjall, einkum í Grindavík, og urðu einkum af því skemmdir á prestsetrinu Stað; gekk sjórinn þar upp á túnið og bar upp á það hrannir af vikur, möl, og sandi, braut varnargarða spillti vergögnum; og skemmdi vatnsbólið til muna og tók af hjábýlið Stóragerði; er hætt við að slíkar skemmdir hafi orðið víðar við sjó, þó ekki hafi fregnir af farið.
[Yfirlit Jóns Þorsteinssonar um desember] Þessi mánuður byrjaði með kafaldi, fyrstu tvo dagana á austan-landnorðan, og þann 3. með hægð á útsunnan og miklum lognsnjó, síðan gjörði heiðskírt gott veður um 6 daga, var þá frost töluvert hæst 11° [-13,8°C] og ennþá 3-4 daga var kyrrt með þoku og brimi, og þann 10. með frostrigningu, varð þá illt í högum, og víða því nær jarðlaust, því bæði var snjór mikill sem lá jafnt yfir jörð, og líka gjörði áfreða þann 10. Þann 12. 13. kom austan þíðviðri með regni; eftir það voru austan- og útsunnanvindar oft hvassir með rigningum eða kafaldi fram yfir jól, en seinustu 3 daga mánaðarins var hægð, með snjókomu, og gott vetrarveður.
Jón Austmann í Ofanleiti segir 19.desember: Mesta veður er komið hefir það sem af er vetrinum. Þann 27. desember segir Þorleifur í Hvammi af skruggum og eldingum að nóttu og morgni.
Lýkur hér að sinni umfjöllun hungurdiska um veður og tíðarfar ársins 1848. Þakka Sigurði Þór Guðjónssyni fyrir innslátt texta úr Brandsstaðaannál. Fáeinar tölur eru í viðhenginu.
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt 1.10.2020 kl. 02:22 | Facebook
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (2.1.): 914
- Sl. sólarhring: 1116
- Sl. viku: 3304
- Frá upphafi: 2426336
Annað
- Innlit í dag: 814
- Innlit sl. viku: 2970
- Gestir í dag: 796
- IP-tölur í dag: 732
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.