Af árinu 1875

Tíð var talin hagstæð, sérstaklega voru vetur og vor mild. Ársmeðalhiti í Stykkishólmi var 3,9 stig, 1,3 stigum hærri en meðaltal næstu tíu ára á undan. Meðalhiti í Reykjavík var 4,9 stig og er áætlaður 4,0 stig á Akureyri (sú tala þó nokkuð óviss). Fimm mánuðir voru hlýir, mars og apríl hlýjastir að tiltölu. Þetta var í fyrsta skipti síðan 1853 að fimm mánuðir væru hlýir á sama ári. Aðeins tveir voru kaldir, júní og júlí. 

Mikil eldsumbrot urðu í Öskju og á Mývatnsöræfum, mest var þó sprengingin á annan dag páska, 29.mars. Gríðarlegt öskufall varð þá víða um landið austanvert. Eru bréf sem greina frá þessum atburðum nokkuð fyrirferðarmikil í textanum hér að neðan. Rétt þótti að taka þau með í þessu yfirliti. 

ar_1875t

Hæsti hiti ársins mældist á Djúpavogi 7.júlí, 19,1 stig. Stöðvar með kvörðuðum mælum voru þó engar inn til landsins og næsta víst að hiti hefur orðið hærri. Í Hvammi í Dölum mældust t.d. 20 stig þann 2.ágúst. Lægsti hitinn mældist í Grímsey þann 27.janúar, -16,1 stig. Meira frost hefur efalítið orðið inn til landsins. Þorleifur í Hvammi mældi t.d. -18,8 stig þann sama dag. Mjög kaldir dagar í Stykkishólmi voru aðeins sjö, kaldastur að tiltölu 26.júlí. Í Reykjavík var 31.maí kaldastur að tiltölu. 

Úrkoma mældist 868,5 mm í Stykkishólmi, sú mesta frá upphafi mælinga þar (1856) og mældist ekki svo mikil aftur fyrr en 1896. Úrkoma var einnig mikil á Djúpavogi og í Grímsey. Þurrviðrasamt var í apríl og einnig fremur þurrt í ágúst og nóvember, en úrkoma var óvenjumikil í maí og einnig nokkuð mikil í september og desember.

ar_1875p

Þrýstingur var óvenjuhár í nóvember, en sérlega lágur í maí og júní. Lægstur mældist þrýstingurinn á Djúpavogi 22.desember, 941,6 hPa, en hæstur á sama stað 16.mars, 1044,4 hPa.

Hér að neðan eru blaðafrásagnir af tíð og veðri [og eldsumbrotum]. Eins og venjulega er stafsetning að mestu færð til nútímaháttar. Að auki eru lítilsháttar upplýsingar úr öðrum áttum.

Séra Valdimar Briem ritar yfirlit um tíðarfar 1875 í „Fréttir frá Íslandi“:

Veðuráttufar á íslandi 1875 var yfir höfuð að tala eitthvert hið besta, sem verið hefur á þessari öld, og það nokkurn veginn jafnmilt allt árið í kring. Veturinn var þó fyrir sitt leyti mildastur og var hann næsta ólíkur vetrinum á undan; þann vetur kölluðu gamlir menn harðastan hafa verið í sinni tíð, en þennan vetur kváðu margir hinn blíðasta í manna minnum. Þó var veðurfar nokkuð mismunandi eftir landslegu og landsháttum. Á Suðurlandi var allra mildast. Í sjávarsveitum þar voru að sögn einir 8 frostdagar á vetrinum allt frá nýári, og meðalfrost aldrei meira en 8 stig (R, -10°C). Á Norðurlandi var nokkru kaldara, en þó eigi að mun, enda voru nú hafísar engir. Þó að hlýviðri væru, var úrkoma jafnan fremur lítil. Mestur snjór féll á Austurlandi, en mestar rigningar voru í Skaftafellssýslu. Vorið var að sínu leyti hin kaldasta árstíð. Þó voru blíðviðri mikil framan af vorinu nokkuð fram yfir sumarmál, en þá tók að kólna og snúast til hrakviðra og rigninga. í miðjum maímánuði gjörði kuldakast með hretum og hríðum á Norðurlandi og Vestfjörðum, og aftur annað enn meira í lok mánaðarins; urðu þá skip víða norðanlands fyrir hrakningum, og 9 þilskip týndust. Upp frá því snerist aftur til batnaðar. Sumarið var milt og hægviðrasamt víðast. Á Suðurlandi voru oft molluveður, þerrilítið en rigningalítið. 10. júlí gjörði í ofanverðum Biskupstungum dæmafáa haglhríð í hitaveðri. Haglkornin voru á stœrð við tittlingsegg, og mörg 3 föst saman. Á 2 stundum huldu þau alla jörð, svo að varla sá í gras, og var fönnin svo hörð, að varla markaði spor. Hríðinni fylgdi ofsastormur með ógurlegum þrumum og eldingum, og töldu menn allt að 100. Hríðin stóð i 3 stundir. Ekki kom hún yfir nema lítið svæði, en gjörði þar talsverðar skemmdir. Kál barðist niður í görðum, gras sligaðist og brotnaði, lauf barðist af skógum o.fl. Á Vesturlandi var veðurátt nokkuð óstöðugri. Á Norðurlandi og Austurlandi voru miklir þurrkar og hitar meiri hluta sumars, einkum framan af. Vart varð við hafís fyrir Ströndum vestur um sumarið, en hann hvarf bráðum aftur. Um haustið var víða óstöðug veðurátt framan af. Snemma í október gjörði hríðaráfelli víða um land með nokkurri fannkomu, en brátt blíðkaði aftur. Þó var á Vesturlandi víða kalsasamt og hryðjusamt allt til ársloka. Á Suðurlandi voru lengstum þíður og rosar um haustið og fyrri hluta vetrar, en á Norðurlandi og Austurlandi voru lengstum stillingar og blíðviðri.

Heyskapurinn varð víða um land í góðu meðallagi. Gróðurinn kom mjög snemma eftir hinn góða vetur, og um sumarmál var jörð víða orðin svo gróin sem endrarnær um fardaga. En þá komu vorkuldarnir, og kipptu úr grasvextinum, svo að í sláttarbyrjun var hann eigi meiri en í meðallagi í flestum sveitum. Þó voru tún, einkum á Suðurlandi, betur sprottin en í meðalári, en útengi miður, einkum mýrar og votlendi. Lakastur grasvöxtur var yfir höfuð á Vesturlandi, og þar varð nýting einnig að tiltölu lakari en annars staðar. Þó að þerrilítið væri á Suðurlandi, nýttist heyskapur þar vel, helst til sveita, en nokkru miður við sjávarsíðu. Á Norðurlandi og Austurlandi varð nýting best. Heybirgðir manna að haustinu urðu víðast allgóðar, með því líka að talsverðar heyfyrningar höfðu orðið hjá flestum eftir veturinn áður.

Janúar: Hagstæð tíð, nokkrar hríðar suðaustanlands.

Norðanfari birti þann 29.janúar bréf úr Mývatnssveit þar sem greinir frá upphafi eldsumbrota.

[Mývatni 8.janúar]: Rúmri viku fyrir jól, fór fyrst að bera á jarðskjálftum, og fóru þeir smá vaxandi. Ekki voru kippirnir harðir né langir, en svo tíðir að ekki varð tölu á komið, þó brakaði mikið í húsum í stærstu kippunum, og allt hringlaði sem laust var. Mest voru brögð að þessum ósköpum 2.[janúar], því svo mátti heita, að einlægur jarðskjálfti væri frá morgni til kvölds þann dag. Reykjarmökkur hafði sést í suðri nokkra daga á undan þegar heiðríkt var, en að morgni þess 3.[janúar] laust fyrir dag, sást héðan eldur mikill, litlu austar en í hásuður. Lagði logann hátt á loft upp, og var hann býsna breiður um sig niður við sjóndeildarhring, en bráðum dró ský fyrir svo ekkert sást. Síðan hefur oftast verið þykkviðri og líka dregið mikið úr jarðskjálftunum, og lítið gætt í dag og í gær. Hvar eldur þessi muni vera, er ekki auðvelt að segja, en sé hann í Vatnajökli hlýtur hann að vera nokkru vestar en sumarið 1867. [Svo bætir blaðið við]: Víða hér norðanlands er sagt að hafi orðið vart við jarðskjálfta þessa, helst fram til dala og fjalla t.a.m. í Möðrudal á Fjöllum, en minna á útsveitum.

Þjóðólfur ræðir afla og tíð í janúarpistlum:

[11.] Veðrátta hefur nú lengi gengið hin þýðasta, en þó vindasöm. Fiskiafli í Leiru og Garðsjó hinn besti, og hafa menn einkum nú um jólin sótt þangað héðan af Innnesjum með miklu kappi og dugnaði, enda hafa flestallir aflað prýðilega vel.

[29.] Í ýmsum sveitum hér syðra fullyrða menn að sést hafi til eldgosa yfir austurjöklum, á líkum stöðvum og undanfarin ár. Viljum vér óska að þeir menn er tekið hafa eftir þessu, vildu gefa oss skýrslu um það. Hin einmuna góða vetrartíð hefur haldist óbreytt til þessa dags, hvervetna þaðan er frést hefur.

Norðanfari birti 19.febrúar bréf dagsett í janúar:

[Saurbæ í Dalasýslu 16.janúar] Héðan úr Dölum er að frétta besta tíðarfar frá því fyrir jólaföstu, og voru það blessuð umskipti frá því sem áður var í allt haust frá réttum; víða voru hér slæmar heimtur, því ekki var búið að leita hér afréttir þá ótíðin byrjaði. Á stöku bæ í Mikaelismessuveðrinu [29.september] fauk hey, og er það, veðrið, talið með mestu veðrum sem hér hafi komið. Allur útigangspeningur er magur eftir hretið í haust og hagleysurnar. Heyskapur varð í meðallagi í sumar, því nýtingin varð svo æskilega góð, þó víða væri snöggslægt.

[Múlasýslu 22. janúar]: Síðan ég skrifaði þér í nóvember hefur tíðin mátt heita góð, frostlaust að kalla og alveg snjólaust yfir allar sveitir og því jarðir nógar þar til 13. [janúar] gjörði krapahríð og ákafan snjó hinn 14.; hljóp síðan í frost og gjörði þá haglaust í flestum fjarðasveitum, síðan hafa verið hæg frost og landnorðan blástur og nú er vindur af norðri.

Ísafold greinir frá eldsumbrotum og tíð þann 27.janúar:

Síðan rétt eftir nýárið hafa ýmsir menn hér í Reykjavík þóst sjá merki þess, að eldur væri uppi einhversstaðar í Vatnajökli, helst nálægt sömu stöðvum og síðast í hittiðfyrra. Með mönnum, sem komu norðan úr Eyjafirði fyrir fáum dögum, fréttist, að þessi sami(?) eldur hefði átt að sjást þaðan skömmu eftir nýárið. Sömuleiðis á hann að hafa sést úr Hvítársíðu í Borgarfirði, og eins úr Hreppunum í Árnessýslu. Hvergi hefir þó orðið vart við öskufall, svo til hafi spurst. Jarðskjálfta kvað hafa orðið vart víða um Eyjafjörð og Skagafjörð um og eftir jólin. Þeir voru tíðir, en eigi miklir.

Vetrarfar hið besta um allt land, eftir því sem frést hefir með ferðamönnum að norðan og vestan, og með austanpóstinum, sem kom hingað 18.[janúar]. Hér syðra hefir verið stök blíða síðan á nýári.

Norðanfari birti þann 17.mars bréf úr Bjarnanesi í Hornafirði, dagsett 1.febrúar.

Eftir því sem maður segir, sem hér er kominn norðan af Akureyri, og ýmis bréf og blöð skýra frá, hefur veðuráttan i haust verið mjög lík um land allt. Mánuðurinn, sem liðinn er af þessu ári, hefur sýnt okkur veturinn í sinni réttu mynd, með stormum, hríðum og snjókomum, svo víða var orðið haglítið; tvo síðustu daga hans var hér hláka, en í nótt brá því svo skyndilega í norðan grimmdarveður með aftaks frosti; fyrstu þorravikuna var oftast fjúk með feiknagrimmdum, sem ekki gáfu eftir þeim í fyrra. Vegna grasbrestsins næstliðið sumar, varð hér hjá flestum mjög lítið hey og vegna illrar ásetningar, er hætt við, að mörgum reiði illa af með skepnuhöldin, nema að því betur vori.

Febrúar: Hagstæð tíð, einkum sunnanlands.

Norðanfari segir 11.febrúar:

Síðan um næstliðið nýár hefur veðuráttan oftast verið óstillt en frostlítið, 2—7°R og stundum frostlaust, nema dagana 27. og 28.[janúar] 15—16° á Reaumur [-18 til -20°C]. Í öllum snjóléttum sveitum hefur oftast verið jörð, en þá út af því hefur brugðið, hefur það meir verið vegna áfreða en snjóþyngsla. En aftur víða á útsveitum, er kvartað um snjóþyngsli og jarðbannir, svo að sauðfé og hross hafa allajafna verið á gjöf síðan í haust; aftur á stöku stað við sjó, fé gengið allt að þessu að kalla sjálfala. Víða hefur fjárpestin eða bráðafárið drepið að mun, en þó mest á Silfrastöðum í Skagafirði allt að 60 fjár. Síðan fyrir jól hafa fáir róið til fiskjar, bæði vegna ógæfta og af því beituna hefur oftast vantað, og það sem aflast hefur af fiski verið smátt og fátt. Aldrei hefur, það vér til vitum, í vetur það af er, orðið róið til hákarls. Vart hefur orðið við útsel hér innfjarðar og fáeinir af þeim komnir á land. Ennþá í vetur hefur ekkert orðið vart við hafís hér norðan fyrir landi, og enginn vottur þess að hann sé á ferðinni hingað. Um tíma hefur þess hvergi hér verið getið, að vart hafi orðið við jarðskjálfta.

Norðanfari birtir 19.febrúar eldgosafréttir frá Mývatni:

[Mývatni 5.febrúar] Það er orðið augljóst, að eldgosið, sem í vetur hefur orsakað jarðskjálftana, er í Öskju- eða Dyngjufjöllum, hinum syðri, er svo eru nefnd á landkorti B. Gunnlaugsens. [Svo bætir blaðið við] Sagt er að jarðskjálftarnir hafi í vetur orðið stórkostlegastir í Möðrudal á Fjöllum, einnig þar á næstu bæjum Víðidal og Grímsstöðum, og sumt af húsum í Möðrudal legið við hruni. — Nýlega hefur frést að 4 eða 6 Mývetningar hafi haft í áformi að leggja af stað að heiman 15.[febrúar] suður á fjöllin til að skoða upptök eldsins.

Ísafold birti þann 18.mars nokkur bréf:

[Hornströndum, 30.janúar]: Héðan er með öllu fréttalaust; heilbrigði og vellíðun manna yfir höfuð. Sumarið sem leið var hér eitt hið kaldasta sem ég man eftir, enda lá hafísinn hér landfastur allan júlímánuð; grasvöxtur varð hér mjög rýr, og heyföng manna lítil, enda var heyskapur endasleppur, því 24. september tók algjörlega fyrir hann; þá gjörði hér mesta hret með fjarskalegri snjókomu og stormi, og áttu þá margir úti talsvert af heyi sem aldrei náðist. Haustveðráttan var storma- og snjóasöm til jólaföstu; síðan allgóð veðrátta til þess. Fiskiafli varð hér rétt góður í haust allstaðar kringum Húnaflóa, en mjög viðarrekalítið hefir verið hér á Ströndunum, það sem er af þessum vetri. Ekki er hafísinn komin hér ennþá að landi, en mjög er veðrátta því lík sem hann fari bráðum að sýna sig; hann er oft ónotagestur, sem hefir komið hér á hverjum vetri í mörg undanfarin ár, stundum legið hér landfastur langt fram á sumar.

[Ísafjarðardjúp 19.febrúar]: Veturinn er vægari en í fyrra, þó hefir nú um tíma að undanförnu verið allstaðar haglaust. Hvergi heyrist getið um hafís. Fiskiafli heima í haust og vetur með allrarýrasta móti, en góður síðan vertíð byrjaði í Bolungarvík eftir nýárið, en sjaldróið vegna ógæfta; ...

[Skógarströnd, 1.mars]: Frá 1. janúar til hins 24. voru austanlandsynningar, oftar hvassir með 6 til 7° frosti, þá gjörði frostbyl með 9—14° frosti til 29.; síðan blotaði snöggvast, eftir það komu austanlandsynningar aftur, og héldust til 15. febrúar með frostlinjum og frostvægðum, nema 3. febrúar þá var -10°. Við þann 16. brá til sunnanáttar og má svo kalla að síðari hluta mánaðarins hafi vindstaðan verið frá landsuðri til vesturs útsuðurs moð frostlinjum og hægðarþíðum.

Ísafold birti þann 31.maí bréf úr Vestmannaeyjum, dagsett 26.febrúar:

Veturinn hefir verið hér mjög mildur, frosta og snjóalaus, en mjög hvassviðrasamur; frá þriðja í jólum og og fram yfir miðjan janúar voru sífeldir austanstormar á hverjum degi og var aldrei á sjó komið allan þenna tíma. Jólafastan var og mjög hvassviðrasöm, og lítill fiskur, þá sjaldan róa gaf. Nokkur skip fóru til hákarla á jólaföstu, en aðeins eitt þeirra aflaði nokkuð að mun, nálægt 20 tunnum í 3 ferðum. Síðan um miðjan [janúar] hafa austanstormar verið mjög tíðir og sjógæftir því sjaldgæfar og illar, en fiskur nokkur á miðum, þegar menn hafa getað á sjó komist; nú í viku hafa verið góð sjóveður en fiskur lítill.

Ísafold segir af tíð þann 11. mars:

Veðrátta er enn hin sama og verið hefir í allan vetur; sífeldar þíður og blíðviðri, svo að varla sést föl á jörðu. Núna þessa dagana dálítið útsynningskast.

Þann 3.mars birti Norðanfari skýrslu um eldgosin sem Jón Sigurðsson á Gautlöndum ritaði 26.febrúar:

Í bréfi 8.[janúar] til ritstjóra Norðanfara gat ég nokkrum orðum um jarðeld þann er vart hafði orðið við í Þingeyjarsýslu, og um jarðskjálfta þá er honum voru samfara. Síðan hefur margt gjörst sögulegt í þessu efni. Það mátti ráða það fljótt af ýmsum líkum, að eldsupptökin mundu vera norðar en í Vatnajökli, og þótti nauðsynlegt að komast eftir hvar helst þau mundu vera. Sökum þessa voru 4 menn gjörðir út héðan úr sveit, til að leita að eldinum, og lögðu þeir af stað 15.[febrúar]. Þeir fóru beinustu leið suður eftir endilöngu Ódáðahrauni, og stefndu á Dyngjufjöll hin fremri — sem hér eru kölluð svo — og er stíf sólarhringsganga úr byggð, suður undir fjöllin, þegar þessi leið er farin. Þeir fengu gott veður og bjart mestalla leiðina til og frá. En er voru komnir svo sem á miðja leið, fóru þeir að heyra dunur miklar og dynki, og jafnframt fundu þeir sterka eldlykt, og fór þetta alltaf vaxandi eftir því sem þeir nálguðust fjöllin. Þegar lengra dró suður eftir sáu þeir reykjarmökkinn bera við loft vestan undir fjöllunum. Eins og sjá má á landabréfinu stóra eftir Gunnlaugssen, mynda Dyngjufjöllin fremri mikinn fjallahring, og er hraunbreiða mikil innan í bugnum, sem nefnd er Askja á landabréfinu. En lakast er, að eftir sögn kunnugra manna, eru fjöll þessi ekki sett rétt eða nákvæmlega niður á kortinu, svo þessvegna getur lýsing á afstöðunni ekki orðið svo glögg eða skýr fyrir þá sem ekki hafa annað við að styðjast en kortið sjálft. Þarna í Öskjunni, vestanundir eystri fjallgarðinum, fundu þó leitarmenn eldsupptökin, og hafa þeir skýrt svo frá, að þar sé mikill gígur eða hver, sem kasti grjóti og leireðju fleiri hundruð feta í loft upp En sökum grjótkastsins komust þeir ekki nær gígnum en svo, að nema mundi 60—70 föðmum. Varir urðu þeir við fleiri hveri í grennd við hinn mikla hverinn, og héldu þeir að úr einum þeirra mundi hafa komið dálítið hrauntagl, en ekki gátu þeir heldur komist nærri þeim. Vatn rann úr sumum hverunum og hafði það myndað dálitla tjörn þar í hrauninu Allt í kring var jörðin - eða réttara sagt hraunið — umhverfð og sundurrifin með stórum gjám og sprungum, og á sumum stöðum sigin niður, svo ekki mun hafa verið árennilegt að ganga nærri þessu tröllavirki náttúrunnar. Síðan hefur reykjarmökkurinn sést daglega úr byggð þegar heiðskírt hefur verið, engu minni en áður. Smákippir hafa fundist við og við, en engir hafa þeir verið stórfelldir; má og vera að þeir eigi rót sína í þeim atburðum sem síðar hafa gjörst, og sem ég skal leyfa mér að skýra frá með fáum orðum.

Að kvöldi hins 18.[febrúar] sást frá Grímsstöðum á Fjöllum eldur mikill í vestri, á sléttu þeirri hinni miklu, sem liggur milli Mývatnssveitar og Jökulsár á Fjöllum, og sem einu nafni nefnist Mývatnsöræfi, en öðru nafni Austurfjöll. Eftir því sem frést hefur hingað sýndist eldurinn koma fyrst upp á fleiri stöðum, og renna síðan saman í eitt mikið bál, sem sýndist taka yfir svo mikið svæði, að nema mundi fleiri túnlengdum. þetta mun og vera rétt eftir því sem síðar prófaðist. Þegar þessar fréttir bárust hingað, tóku nokkrir menn sig saman um að rannsaka þetta hið nýja eldgos, og var ég einn í þeirra tölu, og var þessari rannsókn lokið í gær. Eldsupptökin eru hér um bil 4—5 mílur frá byggð héðan, vestanvert við svonefnda Sveinagjá á Austurfjöllum. Þegar við komum þangað var hvergi eldur uppi, en að ætlun okkar mundi hafa logað uppúr á sumum stöðum hina næstu daga á undan, því en var hraun það er myndast hafði, sjóðandi heitt á sumum stöðum. Eldurinn hefur auðsjáanlega haft upptök sín (brotist út) á fleiri stöðum, og myndað marga gíga, suma stóra en suma litla. Uppúr sumum gígunum hefur ollið hálfstorkið hraun, og myndað háar borgir eða hraunhryggi í kringum þá. En úr sumum gígunum hefur komið bráðin hraunleðja, sem runnið hefur áfram og myndað flatt hraun. Voru allir gígarnir nú hættir störfum sínum og voru sumir þeirra tilbyrgðir af hraunvikri því er oltið hafði aftur ofan í þá, en sumir voru opnir, og sá í botnlausar gjárnar í botni þeirra. Úr flestum þeirra rauk enn heit gufa. Stærstu gígarnir höfðu kastað upp óbræddum steinum, og voru sumir allt að því manntak að þyngd. Höfðu þeir eigi komist nema upp á gígbarmana, en hinir minni — samt hraun og vikur — höfðu kastast 30—40 faðma frá, og komið niður á sumum stöðum í snjóinn, og brætt hann undan sér. Ekki sáust nein merki til þess að aska né leir hefði fylgt eldgosi þessu. Hraun það sem komið hefur úr öllum gígunum til gamans, er allt að hálfri bæjarleið á lengd, og 3—4 hundruð faðmar á breidd þar sem það er breiðast. Það hefur fyllt upp dæld nokkra sem legið hefur skammt frá eldsupptökunum, og er því býsna þykkt á sumum stöðum. Nú var hraunið farið að storkna allt að ofan, en í gegn um hraunsprungurnar sá víða í eldinn hvítglóandi undir, og mun skorpan hafa verið orðin 2—4 feta á þykkt. Var eigi hættulaust að ganga þar um, því hraunið er mjög brunnið og laust í sér, og þoldi því illa mannsþungann. Skór okkar og sokkar skemmdust einnig af hitanum. Á 2 eða 3 stöðum höfðu myndast smáborgir úr bráðinni hraunleðju holar innan, og á stærð við 2—4 tunnu ílát. Var ein þeirra minnst en mjög fögur ásýndum, og líktist hún hinu fegursta og smágjörfastajárnsteypusmíði. Mundi hún kölluð kjörgripur ef hún væri i konungahöllum. Umhverfis hraunið var jörðin víða rifin í sundur og sprungin; höfðu þar komið miklar og voðalegar gjár, sem verða hættulegar fyrir menn og skepnur á meðan þær eru að fyllast aftur. Það er ætlan mín að eldgangi þessum sé nú lokið á þessum stað, en eigi þyki mér ólíklegt, að eldurinn kunni að brjótast út aftur á öðrum stað hér í grennd, áður langir tímar líða. Ritað 26. dag febrúar 1875. Jón Sigurðsson.

Ísafold birtir 27.mars einnig bréf úr Mývatnssveit sem lýsir aðstæðum í Öskju um miðjan febrúar:

Hinn 16.[febrúar]kl.11 um morguninn voru leitarmenn komnir fram að fjöllunum austarlega. Þar eru þau lág og hali gengur þar austur úr þeim; þar gengu þeir upp, og var það fjallsdrag eða hali ekki meir en hálfs tíma ganga á breidd; þá varð fyrir þeim gildrag eða mjög þröngur dalur, sem lá beint í vestur og austur; ásinn, sem þeir gengu yfir, var lágur og þó nokkuð bratt suður af, en hátt og bratt fjall fyrir sunnan; það náði samt ekki langt til vesturs, því að gilið beygðist bráðum í suður, og skar þannig í sundur fjöllin í „vinkil". Við þetta fjall vestantil sáu þeir reykinn, og héldu þá að hann væri enn langt burtu og gengu því ekki eftir gildraginu heldur þvert suður yfir fjallið, sem þeir sögðu að verið hefði á að giska 2000 fet. Fjallið var mjótt, og þegar þeir komu á syðri brúnina, sáu þeir það sem þeir voru að leita að, þeir sáu þar fyrir neðan sig (fyrir sunnan og vestan) djúpa og marflata hvilft eða hverfi, nálega hálfri mílu á hvern veg, fjöllum lukt á allar hliðar, háum og bröttum, að austan og sunnan með hamrabeltum, en að vestan nokkru lægri og flatari, og norðvestan; gildragið, sem ég áður minntist á, myndaði þröngt op eða inngang norðan í hverfið, þar sem það (gilið) beygðist suður á við fyrir vestan fjallið. Jafnfallinn snjór var í öllu þessu hverfi. Syðst og austast í því, næstum fast uppi undir suðurfjallinu, var gígurinn, sem mest hefir sést rjúka úr, á sléttu, en þar var ekkert nýtt hraun í kringum hann, sem menn skyldu þó hafa ímyndað sér; í kringum sjálft opið var að eins kominn hraunhringur, þó ekki hár, en — eftir því sem þeir giskuðu á — hér um bil 40—50 faðma að þvermáli millum barmanna; barmarnir voru brattir ofan í sjálft gatið, svo að það hefir ekki getað verið mjög miklu mjórra en hraunhringurinn, sem sást. Svo nálægt komust þeir gígnum, að ekki voru nema hér um bil 70 faðmar að honum, nær þorðu þeir ekki. Ekki spúði hann einlægt jafnt og þétt, heldur með rokum, og þó einlægt nokkuð. Fyrir ógurlegum reykjarmökkvum gátu þeir ekki gjörla séð hverju hann gaus. Þeir sögðu að það hefði í reyknum sýnst líkast óheillegum druslum eða flyksum, sem hefir náttúrlega verið leðja og bráðið grjót. Mestallt féll þetta ofan í hann aftur eða á barmana og hrundi svo niður í hann, og þá urðu voðalegir brestir og dunur niðri. Því sem hann hafði lengst fleygt i burtu, hafði hann þó aðeins kastað um 20 faðma frá sér, en engu af því þorðu þeir að ná, því að einlægt gekk þessi grjóthríð og leðjuhríð logandi að ofan. Geysilega hátt hafði hann kastað hinu smæsta. en þeim ber ekki saman um hvað hátt, sumir segja yfir 100 faðma, sumir miklu meira, og það þykir mér líklegra. Engar eldstrokur sáu þeir koma upp úr honum. Nokkru fyrir vestan þennan gíg, hér um bil 80—90 föðmum, hafði — að því er þeim þótti líklegast og hér um bil sjálfsagt — við þessi gos myndast jarðfall, hér um bil 10—12 dagsláttur að stærð; lægst var það útnorðantil og þar stóðu þá björg eftir, hér um bil 6 faðma há, og svona var allt þetta stykki umgirt af björgum allt um kring, en langhæstum útnorðantil. Niðri í jarðfalli þessu sunnantil var annar gígur, nokkru minni en hinn, en spjó jafnara og ekki eins hátt; úr honum hafði runnið dálítil hrauná eftir jarðfallinu í útsuður. Úr henni kom líka lækur, með nokkurn veginn hreinu vatni, og rann hann norðvestur að björgunum og var þar komin stór tjörn. Niður í jarðfallið þorðu þeir ekki og gátu heldur ekki komist, því að bæði var snjórinn og björgin með svo stórum sprungum, að ekki var hægt að komast yfir, og svo voru hamrarnir svo háir að ómögulegt var fyrir þá að komast niður, en þeir höfðu engan útbúnað með sér til að síga ofan. Dálitlu fyrir vestan þenna gíg var einn lítill, sem þó nokkuð rauk úr, en ekkert rann úr. Margar smáar sprungur voru hingað og þangað, en engin svo stór, að úr ryki. Þessi hvilft liggur hér um bil eins lágt og Mývatnssveit, þó litlu hærra. Ef fjarska mikil hraunleðja rynni úr þessum gígum, gæti hún ekki runnið annað en fyrst um allt hverfið, og síðan norður um gildragið og svo austur eftir því, og þar taka við fjarska stórar og flatar sandauðnir austur að Jökulsá. Til þess að gefa þér greinilegri bugmynd um lögun þessa hverfis, skal ég, eftir þeirra sögusögn, sem fóru, lýsa því fyrir þér sem skeifu í lögun, táin (bungan) snýr suður, en hælar noröur, en með fjallalínu dreginni milli beggja hælanna. Á austanverðu fjallinu fyrir austan þetta hverfi þóttust þeir verða varir við eldgamla hraun-á, sem úr þeim hafði runnið í austurátt, en hvergi þóttust þeir á sjálfum fjöllunum hafa séð þess merki, að þau hefðu gosið, ég á við; gíga, eða skálmyndaðar hæðir eða hóla; en þó eru öll fjöllin brunnin; það eru að vísu ekki svo grófgerðir hraunsteinar eins og í hinum vanalegu hraunum vorum, heldur smágjörvari. Sökum fannar, sem var á fjöllunum, var ómögulegt að njósnast neitt um hvers konar „mineralia" (steintegundir) þar væru; en það mætti má sko takast í sumar, því að þá ætla héðan ég veit ekki hvað margir. Norðaustur um Fjöllin (Austurfjöll) hefir aska borist, og þar hafa jafnvel í jarðskjálftunum, sem hér komu um nýársleytið, komið stórar og margar gjár, þar sem slétt var áður. Mjög líklegt er að þetta öskufall hafi töluverð áhrif á grassprettuna í af réttinni að sumri, því að víða hvar er hún nú í vetur mjög snjóber, svo að askan fellur þar ofan í bera grasrótina. Frétt höfum við að jafnvel norður í Kelduhverfi hafi hér um daginn fallið töluverð aska. — Jarðskjálfta fundu leitarmenn mjög tíða og næstum alltaf í kringum hverinn sjálfan, og þar ekki alllangt frá byggðu þeir sér snjóhús undir hamri einum í gildraginu austanverðu, en urðu að flýja þaðan fyrir jarðskjálfta svo ógurlegum, að þeir óttuðust að hamarinn mundi falla ofan á þá.

Mars: Hagstæð tíð og hlý.

Þjóðólfur segir í mars fréttir af tíð og einnig af eldgosunum:

[6.] Hin milda veðurblíða hefur haldist til þessa dags. Ern það fádæmi á voru landi að jörð hafi haldist þelalaus nálega um allt land fram til mið-góu.

[23.] Sviplíkt veðráttufar yfir allt land. þó telja Ísfirðingar, Strandamenn og Þingeyingar vetur þennan ekki mikið betri en meðalvetur fram að þorra; enda lágu sumstaðar áfreðar frá hausthretunum yfir högum fjallbænda. En allvíða vita menn eigi dæmi til jafnharðindalauss vetrartíma. Þegar póstur fór um í Skagafirði, var þar víða búið að sleppa öllu fé til útigangs. Landvindar, frostleysi og þurrviðri hafa víðast og tíðast yfir gengið: mestur snær á Austurlandi, en rigning tíðust í Skaftafellssýslum. Hafísar engir. Fiskiafli síðan vertíð byrjaði spyrst góður nálega úr öllum veiðistöðum á landinu, en fyrir vertíð rýr afli á Vesturlandi, en drjúgur við Faxaflóa. Gæftalítið hefur verið þar sem veiðistöður liggja við suður og landsuðurátt.

Norðanfari birti 9.apríl skýrslu úr Mývatnssveit sem dagsett er þann 15.mars:

Að kvöldi hins 10.[mars] sást hér úr sveitinni mikill eldur í austri nálægt sömu stefnu og fyrri, og mun hafa verið stöðugt þá nótt alla, daginn eftir gjörði reykurinn svo ógnarlegan skýbólstrabakka við sjóndeildarhringsbrúnina, að hann tók yfir fullkomna eyktarlengd; þá var líka allhvass sunnanvindur, sem mun hafa gjört nokkuð að því, Á öðrum degi, eður þann 12.[mars] fórum við 3 saman austur, og vorum frá kl. 2—5 e.m. svo nærri hinum nýju eldsupptökum sem fært var, og skal ég nú með nokkrum línum, reyna að lýsa glögglega því, sem þá fram fór og að gjörst hafði á þessum 3—4 dægrum. Á að giska 700—800 föðmum norðar en hraun það, sem lýst er í síðari hluta hinnar áminnstu skýrslu, voru nú komnir 14—16 eldgígar stærri og smærri í nokkurn veginn beinni línu frá suðri til norðurs, á nálægt 20 faðma [svo - leiðrétt síðar í 200 faðma) löngu svæði; með grenjandi hljóði og hvellum, gusu þeir í sífellu mjög hátt í loft glóandi hraunflygsum stórum og smáum, sem fellur niður umhverfis gígana, og virtist okkur allt að helmingi meiri hraði á því sem upp fór, en hinu sem niður var að falla og sem hvíldarlaust fór á víxl hvað við annað. Vestanmegin við gígana hafði myndast jafnlangur hraunmalarkambur líklega 50—60 feta hár, þar sem áður var slétt eða jafnvel dæld, og að undanteknu litlu eiði vestan á þennan kamb, var allt umhverfis útrunnið hraunflóð, mikið til suðurs og austurs, en langmest til norðurs; að ætlan minni var það orðið 500 faðmar á breidd sunnanvert, en framundir míla á lengd, með afar háum kömbum og misjöfnum; skorpið og svart var það ofan, sem önnur hraun, en undir því var að ólga fram og færast út hvítglóandi leðja líkust gjalli, svo var hún brennandi þegar hún kom í ljós útúr hraunröðinni, að við þoldum ekki nema með mesta hraða að seilast til hennar með göngustöfunum , en innan 2 mínúta er komin svört skorpa á þetta, sem hlýtur að springa aftur og spyrnast frá nýrri ólgu, þannig gengur hvað af öðru, og þóttumst við sjá að hinir miklu kambar og mishæðir, myndist á þann hátt. Yfir öllu hrauninu lá hvítblá gufa til að sjá með hristing líkt því sem vér nefnum „landöldu", en sumir kalla „tíðbrá", nema hvað þetta var þeim mun meira, að fjöll þau er við blasa hinsvegar við hraunið, sýndust sem í gagnsærri þoku, en svo er gufa þessi smágjör, að við sáum hana ekki innann 60 faðma fjarlægðar, þegar við stóðum við hraunið. Til að reyna að sjá sem best yfir, gengum við um eiði það er ég áður nefndi upp á hraunmalarkambinn norðast, og var þá hvervetna yfir hraunið að líta, sem í kolagröf, þegar loginn er í þann veginn að brjótast upp úr kurlinu, og austan undir kambinum nærri þverhnípt ofan í tvær geysimiklar kvosir, eins og sprungið hefði kamburinn og hrunið ofan í gígana, sem norðastir hafa verið, og voru nú hættir að gjósa fyrir hér um bil 7—8 klukkutímum, eftir sem við sáum á austurleiðinni; þarna urðum við snögglega um að litast, vegna hitans í mölinni, mikil sprunga var í kambröðinni glóandi rauð upp í barma, og yfir höfuð ærið geigvænlegt útsýni. Svo ógurleg og svipmikil sem okkur þótti nú, þessi sjón, er ég hefi skýrt frá að framan, þá sáum við þó þess ýmis merki, að það voru smámunir einir hjá því sem fram hafði farið næstu dægrin á undan, svo sem það eitt, að þetta geysistóra hraun skyldi koma á, 2 sólarhringum, og svo mikill malarkambur annað það, að hraunmöl úr gosinu lá í 300 faðma fjarlægð norðvestur, og 160 faðma í vestur fundum við líka fjærstu hraunagnirnar, en varla féll nú gosið lengra en 10 faðma frá gígunum, líka var víðifláki nokkur á þessu svæði svo sviðinn að hvítbitktur kvisturinn stóð upp úr mölinni. Þegar náttmyrkrið kom yfir okkur á heimleiðinni, urðu gosin til að sjá sem bál, og mun svo jafnan vera að það er gosið sjálft en ekki bál, er menn sjá þannig í fjarlægð þegar eldur er uppi. Áður en þetta hvarf okkur var uppkomið gos norðan til við hraunröðina, hvar við höfðum oft um daginn séð gufukúfa koma upp og hverfa aftur. Og næsta kvöld (hinn 13.) sýndist þeim er til sáu það hafa aukist, og vegna þess sleppi ég í þetta sinn að lýsa frekar hinum eyðileggjandi afleiðingum, að það hlýtur líklega að koma framhald síðar. Grímsstöðum við Mývatn 15. dag marsmánaðar 1875. Jakob Hálfdánarson.

Jarðskjálftar og eldgos. Síðan snemma í febrúar hafa jarðskjálftar verið tíðir norður í Bárðardal og Mývatnssveit (þó ekki í Húsavík), enda hefur þaðan sést til eldgosa fram á fjöllum, jafnvel tvo aðskilda gufustróka. Höfðu nokkrir röskvir Mývetningar gjört leiðangur fram á fjöllin til að kanna eldana, en voru ekki aftur komnir, er síðast fréttist. Þykir líklegt að eldgos þessi standi upp úr Trölladyngjum er liggja austanvert við Ódáðahraun. ... Nýjustu bréf að norðan segja að nýr Geysir sé upp kominn nálægt eldgosstöðvunum í Þingeyjarsýslu hér um bil 10 mílur suður frá Mývatni. 

Þorleifur í Hvammi nefnir í veðurskýrslu sinni: „Að morgni heyrðust margir dynkir sem við eldsuppkomu“.

Apríl: Blíðviðri lengst af, kólnaði í lok mánaðar.

Þorleifur í Hvammi segir nokkrum sinnum frá miklu mistri í apríl: [16] Dymmumistur allan daginn. [17] Óskýrt sólfar af mistri. [18] Dauft sólfar af mistri. [21] Gekk upp misturbakki í S. [22] Mikið mistur á suðurfjöllum, svo sjaldan sá til sólar.

Norðanfari segir fréttir af tíð þann 9.apríl:

Hér og allstaðar hvað tilfréttist um land allt, hefur verið allt að þessu enn hin sama veðurblíðan og lengst af í vetur nema dag og dag, (t.a.m. 26.[mars] var 10° frost) og víða fyrir nokkru síðan farið að votta fyrir gróðri (um 12.[mars]). Eigi að síður er þó sagður talsverður hafís kominn hér undir land og stangl af honum inn á Siglufjörð. Og fyrir löngu síðan hafði hann verið kominn inn á Ísafjarðardjúp allt að Ögurshólma. Úr flestum vetrarveiðistöðum hér nyrðra hefur í vetur verið róið til hákarls, ... Alveg er nú sagt aftur fisklaust, segja þó Grímseyingar, að þar hafi í allan vetur verið fiskur fyrir og aflast meira og minna þá róið hefur orðið. Nýlega hefur ekkert frést hingað greinilega um eldgosið, nema að það hefur að öðru hverju allt undir þetta, haldist við, og seinast, eftir sögn, komið upp á nýjum stöðum og nokkru framar en getið er um í skýrslunni hér að framan. Það er því enn, eins og oftar fyrri, sem að oss íslendingum sé sýnt í tvo heimana, þar sem eldgosið og hafísinn er að norðan en fjárkláðinn að sunnan.

Norðanfari segir af eldgosinu þann 13.apríl:

Nýlega höfum vér fátt áreiðanlegt frétt af eldgosinu, nema að það væri alltaf að brjótast víðar upp, t.a.m. í útsuður, skammt frá Möðrudal og austanmegin Jökulsár. Og á Mývatnsöræfum er það sagt komið norður á svo nefndan Hraunháls, svo að þjóðvegurinn er í bráð og máski héðan af aftekinn. Austurlandspósturinn á nú á að leggja leið sína yfir Reykjaheiði eða Tunguheiði að Skinnastöðum í Axarfirði og þaðan yfir Hólssand að Grímsstöðum. Svo hafði mikið af hraunleðju og vikri fallið í Jökulsá á Fjöllum, að hún varð nær því óferjandi, sem í mesta ísreki og krapaburði á haustdag, og flóði meira og minna á land upp allt í sjó út, en þó óvíða til stórskemmda. Hraunleðjan og vikurinn, er nú sagt rekið á land aftur fyrir Kelduhverfi, Núpasveit og Vestursléttu.

Norðanfari segir enn af eldgosum þann 17.apríl - og hefur nú loks einhverjar fréttir að austan.

Um eldgosið á Mývatnsfjöllum. Þann 4.[apríl] að kvöldi dags, sást mikill eldroði um allt austurloft nokkru sunnar að sjá úr Laxárdal en fyrr hafði verið; tóku því nokkrir menn sig saman og lögðu af stað upp að gosinu. Það hafði í þetta skipti komið upp suður og austur af Búrfelli, töluvert austar en miðja vega milli þess og Jökulsár. Þá er vér komum austur að Hvannfelli heyrðum vér miklar dunur í fjallinu, en sökum þess að veðrið var töluvert hvasst á norðan og vestan, héldum vér að þetta væri veðurþytur. Undir Búrfelli varð þessi þytur svo mikill með köflum, að okkur fór að furða á þessum mikla dun í fjallinu, því líkast var sem margir stórfossar steyptust fram af fjallsbrúninni og þó þótti okkur dunurinn meiri. Þessum dunum slotaði með köflum og uxu þær svo aftur fjarska mikið. Er vér komum austur fyrir Búrfell heyrðum vér ekkert til dunsins um stund en er vér færðumst nær sjálfu gosinu, fór hann að vaxa og var líkastur því sem heyrist í fossnið. Eldurinn sjálfur gaus upp úr þremur hraunborgum hver suður af annarri, hafði hann hlaðið þær utan um sig af jafnsléttu. Nyrsta borgin var stærst og mest um sig. Í beinni stefnu norður og suður hér um bil 50 til 80 faðma vestur af borgunum, hafði í umbrotunum myndast stór jarðsprunga og landið allt sokkið niður hér um bil 3 mannhæðir eða jafnvel meira og hallaðist upp á við til austurs; um þessa kvos hafði hraunið runnið mestmegnis austur og suður af borgunum, en nú rann hraunið suður og vestur af syðri borgunum og sáum vér hversu eldstraumurinn þokaðist áfram. Sú hin nyrsta borgin sýndist oss vera aflöng og eldopið var hér um bil 300 faðmar á lengd; upp úr þessu opi stóðu eldstöplar jafnt og þétt, og spýttist sjóðandi hraunið hér um bil 2 til 300 fet í loft upp í samanhangandi stöpli, líkt og þá hver gýs. Toppurinn á stöplinum breiðist síðan út og fellur niður í smápörtum eina og dropar úr vatnsgosi og dökknuðu þeir jafnharðan og þeir losnuðu við stöpulinn og klofnuðu í marga parta og sprungu æ meir og meir eftir því sem þeir kólnuðu, en þó voru þeir svo bráðnir er þeir komu niður á barminn, að tár þeim skvettust og flöttust út líkt og vatni hefði verið skvett, og stendur líklegast svona á steinum þeim sem menn hafa talað um að kæmu upp með eldinum, að þeir eru í raun og veru ekki annað en hálfstorknir partar úr hraunleðjunni, logar sáust að sjálfsögðu hvergi og allur eldbjarminn kemur af eldstöplum þessum og hinni vellandi leðju sem er í gosborgum (Krater) þessum. Slíkir eldstöplar komu upp hingað og þangað í gosborginni, mest þó til endanna, og gátum við stundum talið millum 20 og 30, því ekki var alltaf jafnmikill kraftur í gosinu, heldur slotaði í því með köflum, og hertist svo aftur og þessir eldstöplar báru ekki ætíð yfir alveg á sama stað í brúninni og af því dreg ég að gosborgin hafi verið full af sjóðandi hraunleðju, þar sem þessir stöplar tóku sig upp úr, með því að fjarskalegt gufuafl þrýsti á eftir. Verulegur reykur var eigi gosinu samfara, heldur blá gufa, sem þandist út og hvítnaði eftir því sem ofar dró og var svo mikið afl í gufunni, að þó að hvasst væri mjög, hafði hún sig beint i loft upp um mörg hundruð faðma. Dunur þær sem ég áður nefndi að vér hefðum heyrt undir fjöllunum komu frá gosinu, af suðunni og vellandanum niðri í gosborginni, og var hann líkur fossnið, en svo mikill að vér vorum allir samdóma um, að vér hefðum aldrei heyrt láta eins hátt í neinum fossi; innan um þenna nið heyrðust stórir smellir eins og þá hleypt er úr fallbyssu eða jafnvel meiri, og tókum vér eftir að samfara þessum brestum kom upp blár gufustrókur, og ímynduðum vér oss að orsökin til brestanna, væri sú að loftbólur springi í yfirborði hraunleðjunnar. Af eldstróknum og falli hans niður var alls enginn hávaði; gosið í hinum borgunum hagaði sér að öllu eins og hér er sagt. Þessum gosum fylgir alls engin aska, þetta gos er víst hið sjötta síðan byrjaði á fjöllunum, og hafa þau alltaf farið vaxandi með 10 til 12 daga millibili og hefur eldurinn komið upp ýmist norðar eða sunnar í línu, sem nær frá Ódáðahrauni og lítið eitt norður fyrir veginn austur frá Reykjahlíð, jafnhliða Jökulsá, og eru hér um bil 2/3 partar vegar frá Reykjahlíð og austur að Jökulsá af, þá er komið er austur að hrauninu. Gjá sú er vér nefndum að framan, liggur fram með öllu hrauninu, sem allt hefur sigið niður og eiga að vera enn meiri brögð að þessu nyrst, heldur en þar sem vér komum að því. Dyn þann er vér nefndum, heyrðum vér glöggt þá er vér vorum aftur komnir ofan í Mývatnssveitina og höfðum vér verið rétta 12 tíma á leiðinni frá Reykjahlíð og þangað aftur. Stóðum vér hér um bil 3 tíma við hjá gosinu.

Annan í páskum [29.mars] sást úr Möðrudal á Fjöllum strókur mikill taka sig upp fyrir sunnan Herðibreið og giskuðu menn þar á, að gos mundi komið upp í Vatnajökli; úr öðrum stöðum, bar þessi strókur svo við eins og hann hefði komið upp sunnan til í Möðrudalslandi og var þar sagður eldur uppi, sem þó reyndist ósatt. Hvar sem nú þessi eldur hefur komið upp, hvort það er úr Vatnajökli eða úr tungu þeirri er myndast af kvíslum Jökulsár, eins og sumir hafa getið sér til, eða úr Dyngjufjöllum, þá varð honum samfara mikill vikur (Pimpsteen), og það svo, að Jökulsá var óferjandi um nokkra daga, sökum vikurburðar. Þá var vindur vestlægur og barst því ský- og vikur-strókurinn yfir Jökuldal, Fljótsdal og Seyðisfjörð. Á þessum stöðum varð fjarska mikið ösku- og vikurfall, sem þó minkaði eftir því sem austur dró. Var svo mikið af því í loftinu að á Jökuldal varð svo dimmt að um 5 klukkustunda bil varð að kveikja, þótt um albjartan dag væri. Þetta myrkur stóð hér um bil 3 tíma í Fljótsdalnum en 2 á Seyðisfirði eftir því sem sagt er. Vikurfallið er sagt svo mikið, að það sé 6 þumlungar á þykkt ofan til á Jökuldalnum, en ekki nema 2 á Seyðisfirði og eiga vikurstykkin innanum á Jökuldalnum að vera eins og framan af þumli. Ekki hefur frést af vikurfalli víðar en hér er greint. Ferðalangur.

Í sama blaði er bréf frá Jóni á Gautlöndum, dagsett 10.apríl og síðan almennar fréttir.

[Gautlöndum 10.apríl] „Það er ekki orðin nein létt sök að lýsa greinilega þeim ósköpum, sem hér áganga, því eins er og eldurinn sé alltaf að magnast. Núna þessa dagana hefur hann verið svo mikill, að hálfljóst er í húsum um hánótt og dynkir og dunur með mesta móti. Þó eldurinn liggi niðri dag og dag í senn, er hann jafnskjótt uppi aftur, hingað og þangað á þessari línu, sem hann virðist halda við og sem er orðin á 3. mílu á lengd. Á sumum stöðum kvað hraunið orðið 1/2 mílu á breidd [3 km eða svo]. Aska féll hér 5.[apríl], en ekki svo mikil að hún verði að meini ef ekki bætir á. Voðalegri eru fréttirnar að austan, sem borist hafa hingað nýskeð. Á annan í páskum, kom svo mikið öskufall á Jökuldal og sveitunum þar í grennd, að nema mundi kvartilsþykkt á auðri jörð á sumum stöðum. Um hádag var svo dimmt, að naumast var lesljóst í húsum. Vera má að þetta sé eitthvað ýkt, en sannspurt er, að Jökuldælingar hafi ætlað að flýja með fénað sinn út í Vopnafjörð fyrir bjargarskort. Þetta öskufall hefur að líkindum komið úr Dyngjufjöllum, nema svo sé, sem ekki er ólíklegt, að eldurinn sé komin austar norðan í Vatnajökli, eða norðan við hann. Í Dyngjufjöll hefur enginn komið síðan þeir 5 sem fóru héðan úr sveit á þorranum, en þar eru efalaust mikil umbrot í náttúrunni, því nú uppí heilan mánuð hefur rokið þar fjarskalega og í fleiri stöðum ýmist austar eða vestar. Þegar fram á vorið kemur, mun verða rannsakað bæði eystra og syðra, og mun ég þá ef ég tóri til, gefa svo nákvæma lýsingu, sem unnt er af öllum ummerkjum".

Eitt hákarlaskipið, sem var nýlega á ferð fyrir norðan Grímsey, hafði hitt þar fyrir sér miklar rastir af vikri og hraunleðju. Flest eða öll hákarlaskip eru nú úti, og því ekki enn frést af afla þeirra.

Norðanfari birtir úr bréfum þann 29.apríl (nokkuð stytt hér):

[Húnavatnssýslu 17.apríl] Alltaf helst hin sama góða tíð. Allar ár eins og um hásumar, og sumstaðar farin að koma nál í jörð. Eldmistur hefur verið fjarskalegt í gær og í dag, og það var svo með köflum, að vart hefur sést til fjalla yfir mílu vegar.

[Langanesi 7.apríl] Veðuráttan er einmuna góð, sífelldar þíður og blíður; skepnuhöld í góðu lagi; og væntanlegar heybirgðir í vor. Fiskafli töluverður hér á austanverðu Langanesi og er það sjaldgæft á þessum tíma árs. Hákarlaveiði og selveiði hefur miður gefist.

[Þistilfirði 12.apríl]: Engin skip rétt nýlega komin við allt Austurland. Selafli er sárlítill á Sléttunni, en enginn á Langanesi, þar er aftur orðið fiskvart að mun, varð það fyrst í seinustu viku góu. Tíð er hin ákjósanlegasta, hér sem annarstaðar, svo skepnuhöld hljóta að verða góð, ef afleiðingar af eldgosinu snúa því ekki á aðra leið. Einlægt logar í kolagröfinni á austurfjöllum og eins í Dyngjufjöllum. ... Vikurhrannir eru með allri Jökulsá kringum Núpasveit og Sléttu, og vart hefur orðið við samkyns reka hér.

Ísafold birti þann 31.maí bréf af Skógarströnd, dagsett 20.apríl:

Veðuráttufarið í mars var hér fremur breytilegt, umhleypinga- og votviðrasamt. Vindstaðan var lengst af frá landsuðri til útsuðurs. Fáeina daga var vindur í austan eða austnorðan. Tvívegis gjörði stórhríð, þann 10. og 31. Þann 29. heyrðust hér miklir dynkir, líklega af eldgosi nyrðra. Hiti var oftar á R hitamæli. Að kvöldi hins 26.[mars] varð hér ll° frost. Fremur var létt í lofti, sem menn kalla nema þann 25. ... Fyrstu 9 dagana af apríl hélst áfram hið breytilega veðurlag og vindstaðan af öllum áttum með krapahryðjum, einkum hinn 9. var sunnan ofviðri. Hinn 4. var blíðviðri. Frá þeim 10. til þess í gær hafa verið einstök blíðviðri með andvarakuli, ýmist af landsuðri eða útnorðri, en þessum kyrrviðrum hafa fylgt hin mesta móða og mistur suma daga, svo aðeins hefir grillt fyrir sólu.

mohn_1877-askja

Askan barst til Noregs og Svíþjóðar. Hér má sjá áætlaða leið og hraða hennar. Mynd úr: Mohn, H. (1877): Askeregnen den 29de-30te Marts 1875. Christiania vidensk.-selsk. forhandlinger 10, s.3-12.

Þann 13.maí birti Norðanfari bréf frá Mývatni og Seyðisfirði:

[Mývatni, 1.maí] Þegar ég skrifaði þér seinast, hafði ég von um að undraverk náttúrunnar mundu hvíla sig um stund; en á þriðjudaginn seinastan í vetri [20.apríl] virtist mönnum annað, því aldrei hafði hinn nýi eldgangur látið meira til sín heyra en þann dag; dunur, brestir og dynkir voru ákaflegir og reykurinn fjarskalega mikill. Á sumardaginn fyrsta [22.apríl] riðum við 4 austur á fjöllin til að sjá hið nýja eldsumrót. Þegar við komum austur að Kollóttafjalli, sáum við eldborgina gnæfa hátt upp, sem dálítið fjall á Sveinagjárbarminum, skammt utan við fjárgjána; þar voru áður fagrar grasi vaxnar sléttur, en nú er þar tilsýndar að sjá, sem hrikalegur fjallhryggur, með einlægum eldgígum stórum og smáum, sem liggja frá suðri til norðurs. [Þrír] eldgígarnir létu nú mikið til sín heyra, svo við fengum nóg af að horfa á þau undur; hávaðinn var svo fjarskalegur, skellirnir svo voðalegir og hristingurinn, sem allt ætlaði um koll að keyra, gígarnir köstuðu óaflátanlega grjóti og gjalli, þeir stóru steinar sem við misstum ekki sjónar af, voru 45 sekúndur eða 1 mínútu á niðurleið, gjall og smærri steinar fóru svo hátt, að við gátum ekki fylgt því með augunum, og kom svo aftur úr þokunni, sem hríðardrífa langar leiðir frá gígunum. Við gengum dálítið inn í hraunið og brenndum við það skó okkar; hraunið var svo illa storkið og víða sem að logaði í hraunsprungunum. Úr stærstu gígunum rann hvítglóandi eldá og stefndi til vesturs, það var mikilfengleg og hroðaleg sjón að sjá og heyra hana grenja á jafn fögru landi. Ekki vita menn hvað gjörist fram í Dyngjufjöllum, en líkur eru til, að þar séu undur mikil á ferðum, því alltaf rýkur þar stanslaust.

Þann 19.maí birti Norðanfari langt bréf frá Ísleifi Einarssyni á Bergstöðum um öskufall í Múlasýslum, dagsett í maí. Í sama blaði birtist einnig bréf úr Húnavatnssýslu. Bæði bréfin eru nokkuð stytt hér:

Vikuröskufall í Múlasýslum á 2. í páskum (29.mars) 1875. Seint á næstliðnu ári (1874) varð hér um Austurland oft vart við jarðskjálfta, einkum um jólin, og svo í byrjun þessa árs. Þá sáust og hér af fjöllum tveir digrir og háir reykjarmekkir upp úr jarðeldagjám inn og vestur af Herðabreið, svo sem væri í Dyngjufjalladal (Öskjunni). Sýndist mér hér af Hallormsstaðahálsi viðlíka langt milli þeirra, sem frá hinum ytra til Herðabreiðar. Þó ætla ég það bil væri lengra. Þá sá ég eigi til eldsins út á Mývatnsöræfum. Jarðskjálftarnir urðu strjálli og sjaldgæfari, þegar framleið á veturinn. Á annan í páskum (29. mars) heyrðust mjög snemma um morguninn dunur miklar og umbrot í vestri, og leiddi dunreiðarnar norðaustur til ytri Héraðsfjalla og svo inn suðurfjöllin, því vindur hefur verið á vestan eða sunnan við vestur, þar sem eldgosið var, og borið hljóðið.

Loft var þykkt og kolsvart til norðurs og norðausturs. Ég var staddur að Þingmúla í Skriðdal, þegar þetta var, og var þar logn. Um dagmálabil fór að rigna ofan úr loftinu hvítgráum vikri stórgerðum — kornið á digurð við grjón, en mikið lengri. Sortinn ytra færðist inneftir, og var alla tíð að dimma, og vikurregnið jókst. Rúmri stundu fyrir hádegi varð að kveikja ljós í húsum. Þá sá ég eigi lengur á bók. Þegar leið að hádegi var orðið svo dimmt úti, sem í gluggalausu húsi, og sá enginn á hendur sér (úti) fáa þumlunga frá augum. Þetta niðamyrkur hið svartasta, hélst rúma stund. Þá urðu allir glergluggar að skuggsjám, þeim er inn voru við ljósin eins og kvikasilfur væri utan á glerinu. Alls voru það um 4 stundir, er ljós varð að hafa. Heima hjá mér, rúmri mílu norðar, var niðamyrkrið 2 stundir. Meðan á því stóð, hrundi vikuraskan úr loftinu, og var á utangola hæg. Þá gekk lengi, svo lítið bil var milli, á eldingum og þrumudunreiðum miklum, svo allt fannst skjálfa við. Loftið var hlaðið rafurmagni, svo að logaði á turnatoppum og stafabroddum, sem upp var snúið — stundum og á höndum manna, er menn réttu upp — dunreiðarnar, sem fylgdu með reglulegu bili eldingunum, voru nokkuð ólíkar þrumuöskri — því hér var loftið hlaðið ösku og mótspyrnan meiri en í auðu lofti — var sem hvellur tæki við af hvell yfir þveran himinn. Þegar mesti myrkvinn leið af og öskufallið minnkaði, færðist mökkurinn inn til dala, en sýndist standa þar kyrr, því golu andvari kom þar móti og færði mökkinn aftur hægt og hægt út yfir dalinn. þá féll smá aska enn úr honum og varð skuggsýnt. Þar, sem ég var staddur, varð vikuröskulagið á hólum rúmlega 1 1/2 þumlungur á þykkt. Heima hjá mér og um ytri hluta Fljótsdals rúmir 2 þumlungar. Meira dálítið þegar út kom í Fell og um Völlu, hið innra allstaðar þykkra í lágum, því golan feykti vikrinum af bungum. Á efra Jökuldal varð vikurlagið 4 til 8 þumlunga þykkt og vikurinn stærri, margir molar hnefastórir og sumir á borð við 2 hnefa. Þar var og askan glóðheit, er hún kom niður — hér aðeins volg — og fá vikurkorn stærri en kaffibaun. Fyrst, þá askan féll, fylgdi henni megn brennisteinsfýla, síðan hvarf hún. Lítið bragð fannst að öskunni, þó virtist saltbragð og járnkeimur vera að hinni smæstu, er sat föst á steinum og staurum, er upp stóðu. Hér í fjörðunum, þar sem þessi aska féll, varð lagið þynnra og smærri vikurinn 1 þumlungur eða rúmlega það á þykkt allt að 2 þumlungum. Askan lá logndauð 3 daga. Jörð var hér öll auð í byggðum á undan öskufallinu. Engin skepna mátti úr húsum koma. Féð varð sem hamstola úti, rann og hljóp eitthvað út í bláinn. Á 4 degi kom hér býsna hvass suðvestanvindur. Þá reif öskuna víða í skafla, og fauk af þúfum, nema hið smæsta sat eftir í skóf; sumir skaflar urðu 1 til 2 álnir á þykkt. Næsta dag kom norðvestanveður, en eigi nógu hvasst. Skemmdi það aftur þar, sem áður reif af.

Ég hefi nú frétt nærri glöggt um það, hvað víða þessi aska féll hér, og sést hefir hér af hálsinum eldsuppkoman, sú er þessi mikla aska hefir líklega komið úr. Hún sýndist vera í Dyngjufjöllum suðvestur af Herðabreið nokkru innar en gjárnar þær í vetur, svo sem hún væri innst í Dyngjufjalladal eða þar um bil. Þaðan stefnir ytri brún öskufallsins um hnúkana innan við Möðrudal — svo um Fossvöll, svo innan við Unaós í Hjaltastaðaþinghá, um Vatnsdalsfjall. Þó nokkur aska sé utan við þessa línu, þá er hún lítil, eins innan við hana, næst henni miklu minni en þá er innar dregur á öskusvæðið. Innri hlið öskufallsins er yfir Laugarvalladal innan til (nærri 4 mílum inn og vestur frá Brú), um l 1/2 mílu vegar innan við Aðalból í Hrafnkelsdal, svo innan við Kleif í Fljótsdal, innan við Skriðdal, svo til Fáskrúðsfjarðar. Þó nokkur aska sé inn frá þessari stefnu, t.a m. í Breiðdal og Stöðvarfirði innan til, þá er hún lítil og rignir fljótt ofan í jörðina. Eins er og askan þunn utan til í flestum fjörðum, er spýjan stefndi á, því, þegar þar kom, var meiri hluti öskunnar fallinn. ...
Það eru 7 sveitir í Fljótsdalshéraði, sem verst eru  farnar af þessu stórkostlega vikurfalli. Jökuldalur, Fell, Fljótsdalur, Skógar, Skriðdalur, Vellir og Eiðaþinghá. Svo er og skaðleg og mikil aska í Norðfirði, Reyðarfirði, Mjóafirði, Seyðisfirði og Loðmundarfirði. Þar sem mosamýrar eru til eins og sumstaðar í Skriðdal, á Völlum og í Eiðaþinghá, vona menn helst að askan sökkvi í vor og sumar á mörgum blettum ef rigningar fást, svo hagar komi upp og jafnvel nokkrir sláandi blettir. Um harðlendu sveitirnar eru menn vonardaufari, að þar komi gripahagar. Þó býsna mikil aska (viða um 1 þumlungur eða meira) félli einkum innra í mörgum fjörðum, vona menn að nokkurn hluta hennar rigni af í vor og sumar, ef úrkomur fást, því þar er miklu rigningasamara enn í Héraði og víða bratt. Skrifað á Hallormsstað 24. apríl 1875. Sigurður Gunnarsson.

[Húnavatnssýslu 29.apríl] Vetrar þess, sem nú er nýliðinn, mun lengi minnst verða, sem einhvers hins besta, er vér íslendingar getum búist við að lifa. Hann hefur frá því batnaði eftir veturnæturnar verið svo jafnblíður, að trautt muna nú lifandi menn eins góða og stöðuga vetrarveðuráttu. Engar stórhríðar né hörð frost. Hér varð frostið mest 12 stig 9. desember og 27. janúar, og á öllum vetrinum, eru það einir 78 dagar, sem hitamælirinn hefur ekki einhverntíma á deginum stigið yfir 0. En nokkra vetur muna menn, sem hagar hafa verið betri, fyrir þá skuld að snjóþyngslin í haust urðu svo ákaflega mikil í sumum fjallabyggðum og útsveitum að öllu hleypti í gadd, sem ekki tók kipp fyrri en á þorra og góu og seinna sumstaðar. En eins og áður er sagt, hlýtur þó vetur þessi yfir höfuð að teljast með hinum bestu; ... Rétt fyrir sumarmálin komu hér inn á Skagaströnd 2 hákarlaskip (annað þeirra Akureyri). Sögðu skipverjar mikinn ís í hafinu og að hann væri þá 2 mílur undan Skagatá. Eigi að síður er hið sama blíðviðri, tún orðin algræn og mikill gróður kominn sumstaðar í úthaga. Mikið eldmistur var hér á sumardaginn fyrsta og eins næstliðinn sunnudag og mánudag. Fiskvart var orðið hér utarlega á ströndinni og út í Nesjum fyrir sumarmál. Hrognkelsaafli hinn besti; einnig er sagt orðið alsett Drangeyjarbjarg og menn þegar í undirbúningi að flytja þangað til verstöðu, sem er óvanalega snemma.

[Mývatni, 5.maí] Nú eru 11 dagar liðnir, síðan seinasta gosið datt niður, og er þess óskandi, að slíkum undrum væri nú lokið. Það er ekki unnt að gjöra grein fyrir hvað gosin hafa verið mörg og þétt, en þau sem mönnum verða minnisstæðust, fyrir það, að þau hafa látið mest til sín heyra hingað í sveitina, eru þessi: Fyrst og næst eftir því sem lýst er í skýrslunni, var það er uppi var 18.—19. mars, það var fram undir Ódáðahrauni; um nóttina vöknuðu menn í rekkju sinni við einn brest, þar næst 23.[mars], þá kom eldurinn upp nálægt veginum, og hefur verið sagt af Hólsfjöllum, að 40 eldar hafi verið taldir uppi til og frá það kvöld, svo það sem skýrt er frá í Norðanfara 20. blaði og kom upp 4. apríl og seinast þann 20., sem og varaði til hins 24. það var nálægt eða á sama stað, og 10. mars; og þaðan ætla ég mest hraun útflotið fyrst og seinast. Þess hefur verið getið, að hið nýja hraun mundi vera á [þriðju] mílu á lengd, og er ég því ókunnugur, en eftir sem ég hefi séð yfir það, þá ætla ég breidd þess hvergi yfir 1000 faðma, og þar sem það er mjóst 400—500 faðma, er þetta kippkorn sunnan við veginn; það er fjarskalega hroðafengið, óslétt og laust í sér, svo varla mun nokkur skepna fara sjálfráð á það, en sumir halda að það megi ryðja veg yfir það; ferðamenn láta illa af vegi þeim, sem nú er farinn fyrir norðan það, en ekki er það mjög mikill krókur. Að framanverðu kvað hraunið vera mikið á hagleysu og söndum, en gott haglendi hefir tapast við það norðar, þó það sé ekki mikill hluti svo víðlendra afrétta, sem liggja umhverfis. Hestaganga verður að vetrarlaginu óviðfelldnari og hættusamari en áður, og hættur fyrir allar skepnur hafa aukist í bráðina. Um langan tíma hefir nú rokið miklu meira í Dyngjufjöllunum, en í vetur áður og um það bil mennirnir gengu suður.

[Seyðisfirði 29.apríl]: Hér hafa nú dunið þau heimsins undur yfir Austurland, að slíkt man enginn núlifandi manna. Hér á Seyðisfirði og víðar, mun því annar í páskum lengi í minnum hafður. Dagurinn byrjaði nú raunar samt eins og hver annar dagur, sem Guð gefur yfir, þó var lítið eitt skuggsýnna fyrst, en kl. 9 dimmdi skyndilega og varð svo myrkt, að engin nótt getur orðið svo svört, því þótt menn stæðu í bæjardyrum var ómögulegt að vita, hvort það var úti eða inni, nema með áþreifingu. Þrumur gengu óteljandi með eldingum, líkt eins og gjörvallur heimur með brestum og braki ætlaði til grunna að ganga. Sumt af kvenþjóðinni hugði líka heimsendirinn kominn og lagðist upp í rúm, sjálfsagt með fyrirbænum. Stafalogn var úti, þegar þetta gjörðist Öskufallið varð hér um 1 1/2 þumlungur áður hún seig; sumstaðar hér hefur nú rifið dálítið, einkum norðanvert við fjörðinn. Menn eru nú í óða önn að verka tún sín, og væri óskandi að eigi fyki á þau aftur. Menn hyggja að lítið verði hér um heyskap í sumar, nema ef tún kynnu að verða notandi. Sumir segja að fénaður sé orðinn skinnlaus í munninum, hvað sem satt er í því Fiskafli var hér dálítill um tíma, en nú er hann enginn og er kennt vöðusel. Lítið eitt hefur aflast af hákarli eða hákallagotum, sem vart er teljandi, enda er hákarlaútgjörð Seyðisfirðinga í miklum barndómi, sér í lagi hvað skipin snertir. ... Tíðarfar er hér annars hið æskilegasta.

Þann 16.júní birti Norðanfari allítarlegt bréf úr Loðmundarfirði dagsett 9.apríl. Er þar lýst öskufalli þar um slóðir:

Veturinn hefir víðast hér eystra verið dæmalaust góður hvað tíð og jarðir snertir, þó var i þessari sveit gefið öllu stöðugt inni frá nýári til þess í miðgóu, þá komu nægar jarðir og veðurblíða sú mesta er menn muna til þessa dags; en þó er nú svo komið, að þessi vetur verður hinn þyngsti Austurlandi og þyngri nokkrum öðrum sem komið hefur á þessari öld, ef ekki frá landnámstíð. Á annan í páskum, þegar vaknað var hér kl.6 um morguninn, sást dimmur mökkur í vestri, leiddi hann skjótt yfir svo kl.7 var sem hálfrökkur af öskufalli, varð þá einnig vart við eldingar og ógurlegar þrumur í lofti, kl 8 birti litla stund, kl. 1/4 til 9 leiddi aftur yfir öskumökkinn, og kl. hálf 9 var orðið eins dimmt og í gluggalausu húsi; stóð það niðmyrkur í 3 klukkustundir. Það var dimmra en nokkurt svartnætti, því enginn kostur var að glöggva dyr eða stóran glugga þó maður stæði rétt fyrir innan; þegar ég stóð úti hjá piltum mínum var enginn kostur við sæjum hver annan, þó við værum hver við annars hlið. Á meðan á þessu helmyrkri stóð, riðu eldingarnar og þrumurnar svo þétt að eitt sinn taldi ég 4 á mínútu, hefi ég heyrt þrumur áður en aldrei þvílík undur, það var sem allt væri á reiðiskjálfi og ætlaði ofan að rífa og umrótast. Það var stórkostlegt og óttalegt að heyra í helmyrkvanum um hádaginn, enda mun enginn hér eystra í öskusveitunum verða eldri en það hann muni þá stund. Kl. hálf tólf fór aftur að birta og þrumurnar að strjálast, og kl.12 nokkurn veginn bjart, og munu allir hafa orðið því fegnir. En að sjá þá yfir jörðina, var allt annað en skemmtilegt, mógrátt öskulagið lá jafnt yfir allt, eins efstu fjallatinda sem láglendi — því blíða logn var meðan á þessu stóð. — Ég mældi strax öskulagið á sléttu og var það þriggja þumlunga þykkt. Á þriðja var nokkurt öskufall svo nokkuð rökkvaði, en þess gætti minna því vestan gola var með, svo öskuna leiddi meira yfir. Síðan hefir ekki aska fallið að mun. Á fjórða sendi ég mann í Hérað til að vita um hvort allstaðar hefði fallið eins, eða hvort hvergi væri að flýja með sauðpening og hesta héðan, þegar hann kom aftur, sagði hann allstaðar eins, milli Smjörvatnsheiðar að norðan og Axar að sunnan þó grynnra í sjálfu Héraðinu en hér, en öskulausan Vopnafjörð og þar fyrir norðan, einnig öskulítið í Úthlíð, Úttungu og ystu bæjum í Hjaltastafaþinghá, hafði verið norðaustan gola þar inn af flóanum er bægði nokkuð frá um daginn, en sökum þess að hér var hvass VNV-vindur á páskadaginn og fram eftir nóttinni sem hefir borið öskumökkinn en stíflaði með utanhaldi á annardagsmorgun, hefir öskufallið orðið einna verst hér í fjörðum; þó kvað það vera þykkra og með vikursteinum á Efra-Jökuldal, svo haldið er hann sé að miklu leyti eyðilagður um stund.

Norðanfari birti þann 3.júní stutta klausu úr Mývatnssveit. Hún er dagsett 20.maí:

Aldrei hefur rokið meira í Dyngjufjöllum en í gærkvöld (19.[maí]), stóð reykjarstólpinn eldrauður upp á háloft, og var til að sjá nokkru vestar en áður. Nú hefur eldurinn á Austurfjöllum legið niðri um tíma, og vona menn, að hann sé hættur til fulls. 

Þjóðólfur segir þann 16.apríl: „Fiskiafli hvervetna hér hinn besti, en veðrátta æði rosasöm.

Ísafold hrósar tíð þann 22.apríl:

Veðrátta að kalla eins og um hásumar. Mun sjaldnast hafa verið kominn upp meiri gróður mánuð af sumri en nú er hér syðra fyrir sumarmál. Hinn 8.[apríl] drukknuðu 2 menn af skipi hér úr Reykjavík, á heimsiglingu vestan af Sviði, í landsunnanveðri. Voru 7 á, og varð 5 bjargað af öðru skipi, er sigldi þar nærri, er hinu hvolfdi.

Ísafold segir óljósar fréttir af jarðeldi í pistli þann 27.apríl, trúlega er hér átt við Öskjugosið - ranglega staðsett:

Jarðeldur hafa menn þóst verða varir við að uppi muni vera í Vatnajökli sunnarlega. Hefir fyrir skömmu sést þar reykjarmökkur mikill af Rangárvöllum og víðar að. Um páskana heyrðust og elddynkir allmiklir viða um Suðurland, „eins og mesta fallbyssuskot“ er oss skrifað úr Hreppunum.

Þjóðólfur hrósar vetri í pistli þann 27.apríl:

Sumarmál: Þess mun getið í árbókum hinna síðari 1000 ára Íslands, að þeirra fyrsti vetur hafi liðið til loka, sem minnisstæður blíðuvetur. Skepnuhöld hafa verið almennt með skárra móli, — að fráteknum fjárkláðanum og bráðapestinni á ýmsum stöðum. Aflabrögð hin bestu við allan Faxaflóa, eins við Snæfellsjökul og víðar á Vesturlandi; en í austurveiðistöðum sunnlendingafjórðungs hefur afli ekki náð meðalupphæð til þessa. Lökust aflabrögð eru oss sögð úr Vestmannaeyjum; er þaðan sagt hið mesta harðæri. Slysfarir hafa orðið með allra minnsta móti, og hefur enginn maður á Suður- og Vesturlandi orðið úti á vetrinum, að því oss er kunnugt, en fáeinir týnst af öðrum slysum.

Þann 29.apríl segir Þjóðólfur af öskufallinu eystra. Efnislega er fréttin að mestu framkomin hér að ofan, en við lítum samt á fáeinar setningar síðast úr pistlinum:

Ótíðindi að austan. ... Tvennum fer sögum um, hvaðan askan hafi komið. Á þrem aðalstöðvum segja menn að brunnið hafi í vetur, nefnilega í hinum efri Trölladyngjum (Dyngjufjöllum), í Vatnajökli, og fjöllin vestur af Jökuldal. Líkast er að askan hafi komið ofan úr Vatnajökli — ekki úr Kröflu, sem sumir geta til. Mælt er að vindurinn hafi verið vestlægur þennan öskudag. Þann sama dag heyrðust dynkir miklir á Rangárvöllum (í Odda og víðar). Árnessýslubúar þykjast og sífellt sjá öskumökk yfir austurjöklum, og nokkrir segjast enda hafa séð til elda. Mistur mikið fylgir blíðviðrinu, og þykir það eins all-ótryggilegt og engi góðsviti. Úr Suður-Múlasýslu fyrir austan Héraðsfjöll heyrist ekki enn talað um plágu þessa; heldur ekki höfum vér heyrt skýrslur úr Þingeyjarsýslu; en mjög er hætt við, að hin hagasælu öræfi frá Mývatni og austur undir Jökuldal, séu meir eða minna ösku og eitri hulin. Er þetta allþung tíðindasaga, hvernig sem úr rætist, — „eldur að austan, eitur að sunnan“, — þarf nú að brýna hinar betri eggjar lífsins, sálarþrek og samheldi.

Maí: Sæmileg tíð í byrjun mánaðar,en síðan hrakviðri og rigningar, snjóahret nyrðra.

Þorleifur í Hvammi segir um hretið í lok mánaðarins: 

[30.maí] Fennti á fjöll [að morgni] krapafjúk að degi, en stórhríð að kvöldi. [31] Fjúkkóf [síðdegis] og snjór í byggð að kvöldi. [1.júní] Alsnjóaði að aftni.

Ísafold segir frá tíð þann 25.maí:

Síðari hluta [apríl] og fyrstu vikuna af þessum mánuði stóðu sömu hlýviðrin og að undanförnu, en vætur miklar, og lágu fiskiföng manna mjög undir skemmdum. En viku fyrir hvítasunnu, 10.[maí], kólnaði allt í einu, og hafa síðan verið sífelldir stormar með rigningum og fjúki til fjalla. Eru menn mjög hræddir um, að veðrabrigði þessi standi af hafís, enda hefir nýlega frést, að hann væri kominn inn á Skagafjörð. [Blaðið bætir svo við þann 31.maí]: Veðrátta enn hin sama, í nótt snjóað ofan í sjó.

Ísafold birti þann 26.júní frétt um skipstrand í maí (eftir bréfi úr Vestmannaeyjum 2.júní):

Fáar eru fréttir héðan; sífellt gæftaleysi af stormum og þar af leiðandi aflaleysi af sjó; 20.[maí] strandaði hér briggskip St. Jörgen frá Mandal, skipst. Thorvald Nielsen; þenna dag var hér hið grimmasta austanrok; slitnaði landfesti skipsins, og rak það þá fyrir einu akkeri, uns það um nónbil fór að höggva á svonefndu Básaskeri (fyrir innan verslunarstaðinn Tangabúð eða í norðvestur af honum); urðu þá skipverjar að
höggva á reiðann og fella siglutrén útbyrðis.

Ísafold birti þann 26.júní úr bréfi sem ritað er á Eskifirði þann 26.maí.

Nú halda menn að eldgosið sé hætt; nú er líka tíðin farin heldur að kólna; hér kom mikil rigning um daginn og sýndist okkur askan minnka nokkuð við það, sumstaðar rann hún með rigningunni ofan úr fjöllunum ofan á tún manna og skemmdi þau. Ég ímynda mér að nokkuð fáist af túnum í sumar ef tíðin verður góð, jafnvel líka í Héraði, því menn hafa víst víðast hvar hreinsað þau, en reyndar skemmast þau fljótt aftur hjá þeim, því undir eins og hvessir kemur sandfok eða öskufok yfir þau; en engjar og stórgripahagar verða víst víðast hvar lítt nýt; en furða er samt hvað grasið teygist upp úr öskunni og er orðið fremur venju hátt það sem upp úr kemst, en það er aftur á móti svo gisið. Menn voru orðnir varir við, að skepnur voru orðnar skinnlausar á grönunum, en þetta hefir samt ekki orðið til skaða, því ég trúi þeim versni ekki, heldur batni þetta aftur af sjálfu sér.

Þann 26.júlí segir Ísafold frá illviðri og mannsköðum nyrðra í maílok:

Sunnudaginn 30. maí var mesta illviðri fyrir norðan: aftakaveður með myrkviðrisfjúki, meira en nokkurn tíma kom í allan vetur. Hákarlaskip Eyfirðinga og Siglfirðinga voru flest úti og fengu hin verstu hrakföll. Þegar síðast fréttist voru þau þó öll heimt, nema 3, er sjálfsagt hafa farist, enda kvað eitt þeirra hafa fundist á hvolfi mannlaust fram undan Trékyllisvík á Ströndum. Það hét „Hreggviður“, og var eign Snorra Pálssonar alþingismanns, verslunarstjóra á Siglufirði. Þar hafa týnst 11 manns. Formaðurinn hét Sófonías Jónsson, frá Grund í Svarfaðardal. „Draupnir“ hét annað skipið, formaður Steinn Jónsson, frá Vik í Héðinsfirði, afbragðssjómaður gamall, með lO hásetum, einvalaliði. Það skip átti Snorri líka, og hefir ekkert til þess spurst. Þriðja skipið hét „Hafrenningur“, frá Hellu á Árskógaströnd, formaður Gunnlaugur Vigfússon, skipverjar lO alls. Enn fremur missti Snorri alþingismaður 3 menn af 3. skipi sínu, „Skildi“, í sama veðrinu. Loks var bróðir Snorra, Jón Pálsson, einn af þeim, sem týnst hafa á Hafrenningi, mesti efnismaður. Allt voru þetta þilskip, nema „Hreggviður“. Margir þessara 25 sjómanna, er þannig hafa látist í einu á besta skeiði, láta eftir sig mikla ómegð.

Norðanfari segir af tíð í pistli þann 9.júní:

Seinustu dagana af næstliðnum maímánuði voru hér frost og illviður landnorðan með snjókomu, svo alhvítt varð í byggðum og mikill snjór til fjalla og á sumum afréttum; menn eru því hræddir um að eitthvað af geldfé því sem búið var að reka þangað hafi fennt, og jafnvel það sem nýrúið var og bert króknað. Hafísinn er alla jafnan sagður hér úti fyrir ýmist grynnra eða dýpra, og stundum hamlað hákarlaskipunum að ná  vanalegum djúpmiðum, sem þrátt fyrir það eru þó búin flest þeirra að fá góðan lifrarafla. 

Júní: Framan af hagstæð tíð nyrðra, en þerrilítil syðra og hraksöm syðra. Kuldahret síðari hlutann norðanlands.

Þjóðólfur segir af veðráttu og aflabrögðum í pistli þann 11.júní:

Mjög hrakviðrasöm tíð síðan síðasta blað kom út, stundum snjókoma til fjalla; gróður því miklu minni en fyrst á horfðist. Fiskiafli sár-lítill síðan vorvertíð byrjaði, og þar hjá almenn vandræði með þurrk og hirðingu á fiski, svo að menn eru í mesta vanda ef veðrátta ekki fer óðum að batna.

Ísafold segir af júnítíð í pistli þann 26.júní:

Veðrátta hefir verið mjög stirð hér syðra mestallan þennan mánuð: stormar og vætur, og nógur kuldi. Regluleg sumarveðrátta að eins dag og dag í bili, þangað til núna á Jónsmessunni, að veðrið snerist í sumarblíðu, hvað lengi sem það stendur.

Ísafold birti þann 10.ágúst bréf á Skógarströnd, dagsett 24.júní:

Eftir 20. apríl tók veðurblíðan að verða stopulli, þó máttu góðviðri heita mánuðinn út. Með maímánuði brá til rigninga og fremur óveðra af útsuðri fram í hann miðjan, síðan kom góðviðri fáeina daga, en úr því rann á austnorðangarður, sem hélst með litlu „hleri“ mánuðinn út, og síðustu dagana var moldbylur, svo víða fennti ofan í sjó og stórfannir komu á fjöll. Fyrstu 6 dagana af júnímánuði hélst sama óveðrátta. Þá kom í 4 daga gott veður, en úr því þangað til í gær hafa gengið austnorðanstormar með næturfrostum og kófi með köflum til fjalla. ... Síðan kuldarnir komu, hefir gróðri og grasvexti lítið munað, og komi ekki bráðum ágætt grasveður, þá verður grasár varla i meðallagi.

Þann 26.júlí birti Ísafold allítarlegan pistil um eldgosin á Mývatnsöræfum. Efni hans er að mestu framkomið hér að ofan, en við lítum þó á brot:

... Eldgosin byrja, eftir því sem þau hafa nú komið oss hér fyrir sjónir, stundum með aðdraganda, en stundum í snöggri svipan. Kemur þá fyrst upp svartur reykjarkúfur, stundum með öskulit. Reykurinn fer ákaflega hátt í loft upp (líklega 2000—3000 fet) og gjörir þar ótrúlega mikla þokubólstra. Neðan til er reykurinn fyrst svo þéttur, að ekki sést á dagtíma til eldsins í fjarlægð, en þegar lengra líður þynnist reykurinn og verður eins og gufa, jafnvel gagnsæ, en sem þó safnast saman uppi og sýnist svo miklu meiri í fjarlægð, en hún er í raun og veru. Þá er að sjá til eldsins álengdar á dagtíma undir sól, sem svartir stólpar séu á einlægu iði, en þegar sólin skín þeim megin á eldinn, sem maður er staddur, fær hann sinn rauða lit, og þegar dimmt er af nótt, þá er ekki einungis eldurinn sjálfur sem logi á að líta, heldur líka gufan, sem upp af leggur, einkanlega í fjarska. Jarðeldurinn er ekki logi, heldur bráðið, glóandi grjót, sem spýtist með undra-afli beint í loft upp, ég ætla 100—200 fet, og máski nokkru meira stundum. Þessu fylgir drynjandi mikill, líkastur fossnið, en með meiri urganda, og svo brestum meðfram, sem líkjast fallbyssuskotum. Nokkuð af þessu berst út í loftið og dreifist víða sem áður er sagt (vikurmulið). En mestur hlutinn dettur niður aftur með miklu minni hraða, en það fer upp, og hleður þannig hólana eða borgirnar. Þetta gengur að kalla jafnt og stöðugt; þó lækkar gosið annað veifið í sumum gígunum, en espast þá í öðrum um leið. Jafnframt rennur glóandi hraunflóðið frá, en kemst mjög skammt áður skorpan kemur á það. En það heldur eigi að síður áfram í ýmsar áttir undir niðri, og spyrnir skorpunni af sér jafnóðum og hún kemur. Úr skorpunni verða þá hellur, sem reisast á rönd og stífla eldflóðið að nokkru leyti. Við þá tálmun vex flóðmegnið og sprengir þá aftur af sér skorpuna, sem myndast hefir á ný, og svona gengur koll af kolli, með sífelldum skruðningum og smábrestum. Meðan á þessu stendur, er hraunið líkast á að sjá og þegar nýlega er dottinn niður logi á steinkolaglóð fyrir smiðjuafli. Þá er hvítblá gufa yfir hrauninu, með svo miklum hristingi, að ekki verður neitt, sem gagnvart er, glöggvað í gegnum hana, þó það sjáist. Gufa þessi er svo þunn, að maður sér hana ekki nærri sér; þar að auki leggur á ýmsum stöðum sterkari gufu upp í loftið, og einkum úr gígum, sem hættir eru að gjósa. Úr þessari gufu verða stundum svo miklir reykjarbólstrar, að menn halda þar eld uppi, sem enginn eldur er. Gufan dreifist svo um landið, (hún hefir roðablæ), og er hún það, sem kallað er brunamóða (mistur). Hún var hér mest dagana frá 12. til 18. apríl, og svo dimm, að ekki sá til hóla né hæða meira en mílu frá sér. En ósaknæma ætla ég hana vera, því ekki virtist neitt falla úr henni. ... Ritað í öndverðum júní 1875. Mývetningur.

Ritstjóri Norðanfara virðist hafa misst prentsmiðjuna og/eða útgáfuleyfi í júní í hendur á öðru blaði [Norðlings] og varð um 4 mánaða útgáfuhlé á blaðinu. Í október birti hann hins vegar nokkuð af bréfum sem dagsett eru um sumarið:

Þann 26.október birti Norðanfari tvö bréf rituð af Sigurði Gunnarssyni á Hallormsstað (talsvert stytt hér):

[Hallormsstað 11.júní] Síðan ég skrifaði 24.[maí] um vikuröskufallið yfir Múlasýslur, hefir mikið breyst til batnaðar á vikuröskusvæðinu. Þykir mér það eiga vel við, að ég skýri frá, hvernig hér er nú útlits og horfa sýnist til um hag manna. Tíðarfarið hefir oftast verið æskilegt síðan askan féll, nema 2 áfelli hafa komið; hið fyrra til lítils meins, og dreif þá býsna snjó á Upphéraði, en með hægviðri — en hið síðara, 30.[maí] með háskalegu snjóbleytuveðri, sem deyddi víða nýrúnar kindur, einkum innan til á Jökuldal, í Fossvallalandi var fjöldi fjár, því þar var nærri öskulaust. Flest af því var nýrúið, þegar veðrið datt á — það kom um nótt eftir blíðuveður, og varð svo sem engu af fénu bjargað í hús. Nú fyrir viku var búið að finna um 80 fjár dautt og vantaði margt. Hvassviðri, sem komið hafa endur og sinnum, hafa feykt öskunni til og frá og minnkað hana furðanlega á þúfum og hæðabungum öllum — stórrigning kom í fjörðum og nokkur í Upphéraði 22.[maí], sem hreinsaði víða í fjörðunum, og dró allstaðar hið smæsta af öskunni ofan í rótina, og nú kom fyrir skömmu skaðaáfellið sem vann að hinu sama, þegar snjórinn bráðnaði. Fyrir allt þetta, rifveður nokkur, úrkomur og veðurblíðu á milli, hefir „fyrir kraft hans, sem tilsendi hitann" komist furðumikill gróður upp úr öskunni, svo fénaður fær nú orðið nóga björg í úthögum víðast hvar — nema á efra Jökuldal er líklega smátt um haga ennþá — kýr eru nú látnar út hér allstaðar og geta náð töluverðu af gróðri sem léttir gjöfina inni, og sumstaðar er hætt að gefa þeim. Hestar hafa og nú fengið nokkra björg. Gróðurinn er gisinn ennþá — því þétt öskuskóf og vikurmöl er í rótinni allstaðar — en furðu kjarngóður er hann svo sauðburður hefir orðið miklu farsælli, en menn væntu, einkum þeim, sem börðust með ærnar heima. Flestir hafa nú rekið heim geldfé sitt og hesta úr sveitunum, sem björguðu okkur margir, sem flýðu í vor með ær sínar, komnir heim með þær eða eru á leiðinni — þetta ætta ég sé rétt hermt um allar öskusveitir hér nema Efra-Jökuldal, þar er allt sagt í eyði því fólkið flýði á eftir gripunum, flestallt á Vopnafjörð. Ég hefi heyrt að það sé aðeins ein fátæk ekkja, sem eftir sé og ætli að vera með heimilisfólk sitt á Efradal, og hafi flutt sig að Aðalbóli en fénaðinn inn í afrétt um eina og hálfa mílu inn frá bænum.

Varir höfum við orðið þess hér nokkrum sinnum, síðan askan féll hér yfir okkur, að eldgos hafa verið að koma upp, bæði inn í Dyngjufjöllum og út á Mývatnsöræfum. En ég hefi eigi getað náð af sjón eða raun fullkominni vissu um þau, eða sett á mig dagana, þá menn segjast hafa séð eða orðið varir þessara eldgosa. Eins og hér um sveitir er nú eitt besta árferði á landi, svo er það og á sjónum. Hér kom aflahlaup snemma í vor — mjög víða í fjörðum varð mikil björg að því — svo hvarf sá fiskur. Nú er aftur kominn hér góður afli í mörgum fjörðunum, einkum utan til.

[Viðbætir 19. júlí 1875]: Síðan ég skrifaði fyrir 38 dögum um útlitið hér í öskusveitunum, hefir lítið breyst og gróðri í úthögum minna farið fram en á undan, því bæði var lengi þurr kalsatíð eftir rigninguna 22. maí og síðan sífelldir þurrkar og stundum frost um nætur. Nú meira en viku hafa verið miklir hitar, svo hólatún eru farin að brenna og öll jörð of þurr til þess að grasvöxtur aukist mikið. Hærð tún eru því varla sem hálfsprottin og hýið upp úr öskunni á mýrlendi svo sem engu þéttara en fyrir 5 vikum þó það hafi hækkað nokkuð. Í öskulausu eða öskulitlu sveitunum þykir of þurrt og heldur litið vaxið. Það hefi ég frétt með sanni af Efra-Jökuldal, að par eru víðast komnir fénaðarhagar og stórir blettir á túnunum, þar sem af hefir rifið (sumstaðar nærri hálf allt að tveim þriðjupörtum) eru silgrænir orðnir og nærri sláandi, eða velsláandi. Til fjalla eru flóar enn lítið vaxnir, því askan varnaði svo lengi snjónum að bráðna og víða eru haugar af snjó enn undir öskunni. En þar sem farið er að gróa á fjöllum og aska hefir sokkið í bleytuflóa, sýnist líklegt að dálítið megi heyja, þegar á sumar líður: 4. til 6. [júlí] var hér hvass vestanvindur, þá var hér öskudimmviðri sem grynnti sumstaðar skafla en reif sumstaðar á, þá sýndist gisinn gróðrarhýjungur gulna eða skrælna upp. Hallormsstað 19. júlí 1875. Sigurður Gunnarsson.

Júlí: Góð tíð nyrðra, mjög þurrt eystra, en óþurrkar og kuldi suðvestanlands.

Ísafold flytur fréttir að norðan þann 26.júlí:

Norðanpóstur segir eld enn uppi á Mývatnsöræfum. Hefir hann brotist þar út á nýjum stöðvum, austar en áður (nær Jökulsá), þar sem heitir Fjallagjá. Þar var haglendi mikið og gott, og mun það nú allt orðið að hrauni. Gos þetta hófst 2. júlí, og er mælt að það hafi verið engu minna en þegar mest gekk á í vetur. Það var ókannað, þegar póstur fór. Til allrar hamingju fylgdi því ekkert öskufall. — Þrettán enskir ferðamenn voru komnir (á „Fifeshire“) að skoða vegsummerkin eftir eldgosin; þar á meðal Burton og A. Locke. — Watts Vatnajökulsfari var kominn alla leið norður af jöklinum (að Grímstöðum á Fjöllum).

[Seyðisfirði 18. júlí]: Tíðin er og hefir mátt heita góð og hagstæð hér í fjörðum. Grasvöxtur er eftir vonum og nú sumstaðar byrjað að slá, og láta menn mjög illa yfir að ná grasinu, því askan situr í rótinni.

[Breiðdal 23.júlí]: Hér hefir varla komið deigur dropi úr lofti í 5 vikur. Hér eru menn almennt farnir að slá tún sín, sem gengur seint vegna öskunnar og þurrkanna; túnin eru í betra lagi sprottin en útengi miður og víða engu betri heldur en í fyrra.

[Reyðarfirði 24 júlí]: Síðan um Jónsmessu hafa steinar varla vöknað hér, grasvöxtur er því rýrari enn annars hefði orðið, þó má kalla að tún sé sprottin í meðallagi víðast hvar og sumstaðar betur, úthagi er og sprottinn að grashæð í meðallagi, en vegna öskunnar ógnarlega gisið, hefir sandurinn víða drepið mosann og stráin með; menn kvarta um hvað seinunnið sé, enda ná menn hvergi til rótar fyrir sandi.

Ísafold birtir þann 6.september úr bréfi úr Mývatnssveit, dagsett 1.ágúst:

Engin stórtíðindi er nú að segja héðan sem einu gildir. Eldgosa hefir lítið orðið vart. Þó munu þau hafa skotist upp snöggvast stöku sinnum í sumar, helst 1. júlí. En Dyngjufjallamökkurinn hverfur ekki nema stund og stund í senn. Nú hafa ýmsir skoðað sig þar um, og munu þeir sjálfir gefa skýrslu um það, einkum herra Watts hinn enski og förunautar hans, er þegar hafa aflað sér frægðar með jökulför sinni, svo erfið og hættusöm sem hún hefir verið. Það er illa farið, að sumt af því, sem sagt hefir verið frá eldgosunum hér á Austurfjöllum er ýkt, og ranghermt, og verst, að hvert blað tekur þetta eftir öðru. ... Þó vetur væri hér blíður og vorið framan af eitt hið besta, sem ég man, er ekki árferði nú svo gott að öllu hér um sveitir. Grasbrestur er á harðvelli og hálfdeigu engi í meira lagi, en vatna- og flæðiengjar sprottnar og tún víða allgóð. Málnyta kvikfénaðar þar sem ég veit til sú rýrasta, sem menn muna og var þó fé víðast í besta standi.

Þann 5.ágúst segir Þjóðólfur af tíð - og greinir frá merkilegu hagléli í Haukadal í Biskupstungum:

Veðrátta hefur nú um stund verið fremur þerrilítil, en á dögunum héldust í marga daga hvassir og kaldir norðanvindar. Þeir sem fljótir hafa verið með tún sín hafa því náð góðri nýtingu, en hinir miður. Grasvöxtur á túnum víða undir meðallagi; útengjar víðast hvar með lakasta móti.

Nýtt eldgos. [Annan] júlí var enn stórkostlegur eldur uppi nálægt Jökulsá og nokkru austar en fyrr. Greinilegar fregnir vantar enn.

[Haukadal 20.júlí] Óvanalegt haglél. Laugardaginn hinn 10. júlí næstliðinn var hér fyrra hluta dags logn og hiti. Loftið var að miklu leyti heiðríkt, nema í austri og vestri voru hvítir þokudampar. Kl. 1 e.m. drógust dampar þessir saman og urðu kolsvartir til að sjá, og sýndust smámsaman dragast saman yfir þvert loft héðan að Bjarnarfelli. En undir eins og þeir sýndust mætast brast á hin óttalegasta haglhríð sem enginn hér man slíka. Haglkornin voru á tærð við tittlingsegg og mörg þrjú föst saman; voru þau ísstykki eitt og á tveim tímum, huldu þau hér jörð alla svo að varla sá á nokkurt strá, og svo hart, að varla markaði spor. Þessu hagli fylgdi ofsastormur með óttalegustu þrumum og eldingum, er voru nálega óteljandi; sýndust stundum margar ganga undir eins; sumir þóttust hafa talið allt að hundrað. Þessi ósköp stóðu nálega 3 tíma. En afleiðingarnar urðu, að allt kál í görðum skemmdist, svo að þeir verða að litlum notum í ár. Tún og útjörð skemmdist líka að mun, því að grasið er bæði sligað niður og mölvað sundur, og er það kalið og dautt að ofan. Lauf barðist burt af skógum, og líta þeir út sem skógur á hausti, þegar hann er að fella lauf. Haglhríð þessi stóð á svæðinu með fjallgarðinum frá Haukadal að Úthlíð, er nema mundi fjórðungi þingmannaleiðar, en á breidd var hún stutt bæjarleið, þó eimur af þessu fyndist nokkuð lengra varð það ekki að neinu tjóni fyrir utan svæði það er fyrr var nefnt; en víða í sveitinni kom ekkert úr loftinu þann dag. Þessa fáorðu lýsingu mætti yður þóknast að taka í blað yðar, herra ritstjóri. Haukadal, 20. dag júlí 1875. Sigurður Pálsson.

Ágúst: Sæmileg tíð, en fremur kalt.

Norðanfari birti 26.október fáein bréf rituð í ágúst:

[Austur-Skaftafellssýslu 16.ágúst]: Fréttir eru héðan fáar. Jöklarnir standa kyrrir hérna hjá oss, því umbrotin öll hafa verið fyrir norðan þá, vér höfum að mestu orðið fyrir sunnan öskurokurnar, þó höfum vér fengið öskuryksköst nokkrum sinnum í sumar að stundum hefir varla séð til fjalla, sjaldan hafa þau varað lengur enn einn dag í senn. Grasvöxtur allgóður á túnum en lakari í úthaga, nema þar sem vötn vökva hann; nýting allt til þessa ágætlega góð, regn og þurrkar til skiptis. Fiskafli í vor í betra lagi, eftir sem hér hefir verið mörg undanfarin ár, og sjálfsagt enn meiri skötuafli á línur, ef nokkur kæmist til að leita hans. Æðarvarp allstaðar í lakasta lagi og dún og egg fullum þriðjungi minni víðast, heldur en í fyrra, og þykist enginn vita hvar af það kemur í svo góðu ári, nema ei vera skyldi þeim vikurhrönnum að kenna frá eldinum, sem vötnin nyrðra og eystra hafa borið í sjó út, og flotið hafa hér meðfram ströndunum, og meiri eða minni rastir rekið af upp á allar fjörur.

[Vatnsfirði við Ísafjarðardjúp 17.ágúst] Árferðið er fremur örðugt og dýrt, nauðsynjar og kostnaður til alls einkum sjóarútgjörðanna fer jafnan vaxandi, svo þótt mikið veiðist verður arðurinn lítill en skaðinn mikill þegar það bregst. Við hér við Djúpið höfum vetrarvertíð í betra lagi, hefði ekki fiskur orðið í svo lágu verði og vorvertíðin varð hlutaminni en í meðallagi. Vorið byrjaði vel, en varð þó kalt og stórhrotasamt, svo grasvöxtur fékk mesta hnekki og æðarvörp okkar urðu fyrir ærnum skemmdum. Þurrkar hafa nú síðan sláttur byrjaði verið sjaldfengnir, en þó hafa töður náðst óhraktar. Túnin voru víðast tæplega í meðallagi, en þó er lakar látið af engjunum.

[Reyðarfirði 30.águst] Tíðin hefur að mestu verið þurr, þó hafa verið úrkomur síðari hluta mánaðarins, en litlar. Grasvöxtur á útengi í versta lagi. Mun það óvíða að karlmaðurinn slái bagga á dag. Eru menn því leiðir og örvæntingarfullir margir hvorir af þessu sem von er. Tún gáfu talsvert hey af sér og víða undir það í meðallagi og allstaðar góð hirðing. Slátturinn er þessutan svo torsóttur sökum sandsins og bitleysis, að ei mun það ofhermt, að 1 maður hafi slegið þá viðáttu áður, sem 3—4 slá nú á sama tíma. Ljáir eyðast margfalt við það sem áður var, svo enskur ljár hefur enst tæplega túnið út. Fé þykir með fallegasta móti á hold og ull, einkum lömb.

Þjóðólfur birti þann 2.september bréf frá W.L. Watts um ferð hans yfir Vatnajökul - þar segir m.a.:

Víð fórum þar nálægt yfir háan ás einn sem ég ætla að sé einhver með hæstu stöðum þar, 6150 fet yfir sjó. En vera kunna enn hærri toppar á jöklinum. Á hrygg þessum lágum við 3 daga í hinu ógurlegasta veðri sem hugsa má og ég hef verið úti í, nema ef til vill í hinum mikla snjóbyl 1872 í Minnesota, er varð svo mörgum mönnum og skepnum að bana. 7. júlí komumst við ofan á norðurtá jökulsins og fórum þar niður nokkuð þverhnípta leið ofurlítið til austurs við Kistufell. Þar hefur sigið ofan stór jökultunga milli Kverkfjalla og Kistufells, er alveg hylur slóð þá er herra Gunnlaugssen fór um forðum daga, og breytt höfuðuppsprettu Jökulsár á Fjöllum, eins og hún er sett á kortinu. Vatnsfall þetta streymir, eins og nú er, framan úr áðurnefndri tungu, en alls ekki undan Kistufelli, en töluvert leðju-árdrag fellur nú eftir hinum stóra eldra fljótsfarveg, sem táknar stefnu er jökulvötnin höfðu í fyrri daga. Hér höfðum vér fagurt útsýni til Dyngjufjalla og stóðu upp úr þeim geysistórir reykjarstrókar, í lagi líkt og stórvaxnir ætisveppar beint upp úr fjallstindunum. Við sáum líka á þrem stöðum reyk leggja upp úr Kverkfjöllum. ... Mjög líklegt þykir mér að eldur sá, sem var uppi vorið 1872 hafi verið í Kverkfjöllum, þótt hin mikla fannkyngja, sem ég ímynda mér falli nálega jafnt allt árið um kring, breiði óðara yfir öll ummerki.

Annað bréf frá honum honum er í blaðinu þann 20.september [þar sem hann lýsir aðkomu sinni í Öskju] og þýðing úr frásögn hans í ensku blaði birti Þjóðólfur þann 30.september. Í síðastnefndu frásögninni lýsir Watts eldgosinu á Mývatnsöræfum 15.ágúst vel. Hann snemma í frásögninni:

„ ... gisti ég að Stóruvöllum við Skjálfandafljót sunnudaginn 15. ágúst; þar heyri ég þau tíðindi að aska hafi fallið þá um morguninn, þar á næsta bæ. Gekk ég þá upp á hæðir nokkrar fyrir ofan Stóruvelli til þess að skoða lögun og eðli landsins í kíki; þá sé ég þegar reykjarstrók mikinn, hvítleitan og þykkan, standa hátt í loft upp frá Mývatnsöræfunum, og enn aðra sex hálfu minni stróka þar út frá á sömu stöðvum. Frá hæðunum, sem ég stóð á, var hið besta útsýni suður til Dyngjufjalla og Kverkfjalla, sem liggja langt í suður af öræfunum. Þau fjöll sýndust að engu breytt heldur sami ætisvepp-myndaði reykjarstrókur upp úr Dyngjufjöllunum, sem þar hefur sést í allt sumar, og ekki voru þeir þrír mjóu gufustrókar, sem ég áður hafði tekið eftir upp úr Kverkfjöllum, neitt gildari að sjá. Í austri lá þoka yfir landinu — líklega gufa og aska frá hinu nýja gosi — og var hún að dreifast upp til Vatnajökuls. Vonum bráðara hvarf mér hinn mikli reykjarstrókur yfir Öræfunum, og skildi eftir þunna, dökkleita gufu, en að fáum augnablikum liðnum hóf hann sig aftur upp í þremur kastgosum, sem ég sá glöggt og fór hærra en áður. Ég flýtti mér að vörmu spori heim, tók hesta mína og þeysti af stað á leið til eldgossins. Um nóttina gisti ég að Grænavatni í Mývatnssveit, en næsta dag var bráð-ófært veður og varð ég nauðugur viljugur að fresta ferð minni“. [Síðan greinir frá ferðinni á eldstöðvarnar]. 

Ísafold segir af tíð og eldi þann 6.september:

Tíðarfar hefir verið i lakara lagi í sumar um land allt, það er vér höfum til spurt. Grasvöxtur rýr, einkum á útengi. Nýting á töðu ekki góð. Fyrir vestan og norðan sumstaðar tún einnig mjög snögg. Hafís fyrir Hornströndum, er síðast fréttist.

Nýtt eldgos. 15.[ágúst] kvað eldur hafa komið upp á nýjum stöðvum á Mývatnsöræfum: nokkuð sunnar en áður og austar, upp frá Sveinagjá. Er látið mikið af því, en nána lýsingu á því höfum vér eigi fengið enn.

September: Óstöðug tíð, en fremur hlý.

Ísafold birti þann 1.október bréf af Hornströndum, dagsett 7.september:

Veðrátta er hér umhleypingasöm og mjög köld, enda var hafíshroði töluverður að flækjast fyrir Hornströndum allan ágústmánuð sem leið. Hér er og hefir verið i sumar óvenjulegur grasbrestur, og það svo, að gamlir menn muna eigi slíkt grasleysi á engjum.

Norðanfari birti 26.október bréf úr Skagafirði ritað í september (ódagsett):

[Skagafirði dagsett seint í september]: Héðan er nú heldur gott að frétta, heilbrigði manna yfir höfuð, heyskapur varð heldur góður, þó engjar væru víðast snöggar, þá vannst vel að heyskap fyrir hagfelldustu tíð; töðufall varð í meðallagi, heyfyrningar voru viða í vor í mesta lagi, og eins mun vera um alla Húnavatnssýslu.

Þjóðólfur segir af tíð í september:

[20.] Veðráttan lengst af köld, og nú þessa síðustu viku vætusöm mjög; heyskapur mun allvíða hér syðra mega heita orðinn í meðallagi sökum ágætrar nýtingar, en útengjar hafa nálega allsstaðar verið laklega sprottnar. Austur undir fjöllum og í Skaftafellssýslu er nýting sögð lakari orðin. Fiskiafli hefur ekki verið teljandi hér um nesin til þessa frá því í vor.

[30.] Tíðarfar til þessa allgott, nema nokkuð hryðjusamt nú um nokkra daga. Engin sérleg tíðindi að frétta með kaupafólki og skólasveinum, tíð í allgóðu meðallagi yfir land allt. Fiskiafli mikill í Húnavatnssýslu, en lítill enn hér syðra.

Norðanfari rekur sumartíð stuttlega í pistli þann 26.október:

Síðan í næstliðnum júnímánuði hefir tíðin allajafnan, nema dag og dag, verið hér norðanlands hin æskilegasta fyrir heyskapinn, svo nýting á heyjunum yfir höfuð varð hin besta. Þótt öll deiglend jörð væri graslítil og harðvelli seinunnið vegna þurrkanna, munu heyin víðast vera, að meðtöldum í fyrningum sem voru meiri og minni hjá flestum, með meira móti. Töðurnar urðu víða hvar allt að því í meðallagi og á stöku stað meiri. Málnyta af peningi var sögð fremur rýr, og kenndu menn það þurrkunum og að stundum hefði orðið vart við sand, enda var hér oft meira og minna mistur, og stundum svo, að varla sá til næstu fjalla; eldurinn hefir líka alltaf verið sagður uppi, sér í lagi í Dyngjufjöllunum, en enginn síðan áleið sumarið á Mývatnsfjöllunum.

Október: Hríðarveður snemma í mánuðinum, en annars var betra veðurlag.

Þann 17.desember segir Ísafold frá skipskaða á Vatnsnesi 16.október (úr bréfi að norðan):

Laugardaginn 16. október reru menn hér almennt, en nokkuð var þó hvasst og fórst þá í þeim róðri annar báturinn, sem reri frá Stöpum. Á þeim bátnum var Agnar Jónsson frá Gnýstöðum formaður ... Það var að eins stundarkorn, sem nokkuð var hvasst, en lygndi svo bráðum aftur, og gjörði logn þegar leið á daginn. Það var fram á rúmsjó, sem báturinn týndist.

Þjóðólfur segir stuttlega þann 18.október:

Veðráttufar það sem af haustinu er hefur verið all stormasamt; þ. 8.[október] og þá daga gengu illviðri mikil, svo menn og skepnur urðu fyrir hrakningum, og fennti fé, bæði undir Hafnarfjalli og Esjunni.

Ísafold rekur tíð þann 20.október:

Framan af þessum mánuði var fremur hrakviðrasamt hér syðra, jafnvel kafaldshríðir með fannkomum eigi litlum, svo að fé fennti sumstaðar. Sömu fréttir segir pósturinn að norðan, og bjuggust Húnvetningar við að hafa misst talsvert fé í fannir. Núna síðustu vikuna hefir veðrátta aftur verið hin blíðasta.

Norðanfari birti þann 13.nóvember bréf af Suðurlandi, dagsett 21.október:

Sumar þetta sem nú er að enda hefir mátt heita hagstætt á Suðurlandi, vorið var nokkuð kalt og gróðurlítið og grasbrestur í meira lagi, en nýting á heyjum var allgóð og oftast hirt eftir hendinni, oft voru þokur með mollum og sjaldan skarpir þerrar, hita dagar fáir, að frátöldum 23.—24.júní er hitinn var mestur 16°, 17. júlí 17° og 29.—30. ágúst 15—16°. 20. ágúst gjörði norðankólgu, með hreti til fjalla svo snjóaði á þau, og þann 19. varð vart öskufalls i Árnessýslu. Rigningar voru aldrei miklar fyrr enn dagana frá 25.—27. september var mikið úrfelli, liðu svo nokkrir dagar með hægviðri þar til að kom norðanátt 6.[október] sem gekk í versta norðangarð með snjó og frosti 8.[október], var frostið þá 6° til sjávar niður, en snjóhríð gjörði svo mikla að fannir komu til fjalla og alhvítt varð í byggð, og mun fé hafa fennt við fjallgarða. Hinn 10. var landnorðanstormur og bleytubylur og norðankólga hinn 11., eftir það batnaði veðuráttan og hefir síðan verið stillt veður, fagurt og með hægu næturfrosti. Í gær og í dag er sunnan mari með hægri úrkomu. Í sumar hefir verið hið mesta aflaleysi, en núna um tíma hefir það heldur verið líflegra, af þorski og ýsu.

Ísafold birti þann 20.október bréf af Skógarströnd, dagsett 1.október:

Síðan ég ritaði síðast héðan eru liðnir þrír mánuðir, júlí, ágúst og september og vil ég nú rita stutt yfir þá: 1. til 6. júlí gengu sunnan útsynningar með skúrum; 7.—13. voru austnorðan stórviðri með kalsa; 14.-31. vindar af ýmsum áttum áttum, ýmist hregg eða þerristundir. ... Í ágústmánuði hélst áþekk veðrátta og verið hafði í júlí fram til hins 14. Þá kom 4 daga samstæður þerrir af norðri, síðan brá til sunnanáttar nokkra daga og úr því austnorðan átt til mánaðarins enda. Hinn 3.[ágúst] gjörði aftakaveður af landssuðri; fauk þá víða hey. ... Allan septembermánuð hefir verið hin hagstæðasta haustveðrátta; austan landsynningar eða vestan útnyrðingar með einstaka uppþotum, helst af suðri. ... Grasvöxtur varð i lakara lagi á túnum, með lakasta móti á votlendismýrum og flóum, en á valllendi allgóður. Sumir veittu því eftirtekt, að töðufall varð minna enn útleit fyrir, og kenndu því um, að allt smágresið hefði kulnað út í kuldunum framan af sumrinu. Málnyta var með rýrara móti, en út lítur fyrir að geldfé verði gott til frálags.

Ísafold birti þann 2. desember nokkur bréf utan af landi:

[Skógarströnd 1. nóvember]: Næstliðin októbermánuð hefir verið ein hin besta haustveðrátta hér um sveitir, sem hugsast getur. Að vísu voru nokkrir kuldavindar fyrri hluta mánaðarins af austnorðri og kafaldshret þann 4.-8., svo að fé fennti á stöku stað og fáeinar kindur fórust hér og þar, en upp frá þeim 13. til mánaðarenda voru að heita mátti sífelld landsunnan blíðviðri. Mest frost hér að morgni hins 9. -5°R.

[Þingeyjarsýslu 28. október]: Sumar þetta, sem nú er liðið, mátti teljast eitt með hinum betri sumrum hér í sýslu, sökum veðurgæða, og stillingar. Grasbrestur var að vísu nokkur sumstaðar, en sökum ágætrar nýtingar hefir heyafli manna yfir höfuð að tala orðið í meðallagi og sumstaðar betur. Sláturfé er með vænna móti. ... Í haust hefir verið sannnefnd öndvegistíð, að frá teknu einnar viku kuldakasti um mánaðamótin september og október. Nú í hálfan mánuð hafa verið stöðug blíðviðri, og jafnaðarlega 6—10 gr. hiti á daginn. Ekki er eldgosinu með öllu lokið. Sumardaginn síðastan í sumri gaus upp í einu vetfangi ógurlegur reykjarmökkur í landsuðri, og fylgdu því dunur miklar og dynkir, svo hvein í hverju fjalli.

[Eyjafirði 8. nóvember]: Tíðin hefir verið hin æskilegasta í allt haust, sífelld blíðviðri og stillingar dæmafáar; elstu menn muna eigi annað eins. Núna nokkra daga hefir verið hríðarveður, en snjókoma hér um bil engin. Mjög lítill snjór kominn. Fiskiafli í rýrara lagi, en þó komnir allgóðir hlutir, því að gefið hefir að róa á hverjum degi allt haustið, og aldrei þurft að fara í skinnklæði. Má kalla, að hér hafi verið stök árgæska nú upp í hálft annað ár, síðan á sumarmálum 1874.

[Breiðafjarðareyjum 10. nóvember]: Haustið hefir verið hér óvenjublítt og jafngóðan fjárskurð muna menn ekki.

[Hornafirði 13.október]: Tíðin var góð hér í sumar og heyskapur í góðu lagi. Reyndar var oft þurrklítið, einkum eftir höfuðdag, en hey nýttist þó bærilega.

Norðanfari birti þann 26.febrúar 1876 úr bréfi úr Ísafjarðardjúpi, dagsett 11.janúar:

Haustið og fyrripartur vetrar, hefir mátt góður heita í samanburði við 2 ár undanfarin, þó komu kýr inn 6. október, og 8.[október] var hér stórkafald.

Þjóðólfur segir 5.nóvember:

Af veðráttu þeirri, sem gengið hefur, hafa menn ætlað, að eldar séu uppi austur í jöklum. Uppi í Hvítársíðu hafa menn og þóst sjá til eldgosa nokkra undanfarna daga. Geta menn til að þeir eldar hafi enn upptök sín í hinni miklu kolagröf Íslands, Vatnajökli. Nú ganga allhörð norðanveður með frosti (2—3° R.), en snjór hefur ekki fallið á Suðurlandi frá því í septembermánuði.

Nóvember: Hryðjusamt um suðvestanvert landið, en mun skárra norðaustanlands.

Ísafold segir af tíð og slysförum í nóvemberpistlum:

[12.] Síðustu dagana af [október] og það sem af er þessum hefir staðið hér norðangarður allsnarpur, með talsverðu frosti (4—5°R), en lítið sem ekkert snjóað nema á fjöll.

Að kvöldi hins 15. [október] lagði skip, sem átti heima suður í Leiru og var hér í beitufjöru, af stað héðan suður þangað í góðu veðri, en um nóttina hvessti mjög á norðan, og kom skipið hvergi fram. Er haldið að það hafi fyllst á siglingu og sokkið með öllum mönnunum skammt undan Hólmsbergi, er svo er nefnt. Skipverjar voru 5: formaðurinn Þorgeir Jónsson frá Litla-Hólmi, ungur maður og hinn röskvasti.

[22.] Hinn 15. [nóvember] slotaði norðangarðinum og gjörði þíðu, sem staðið hefir síðan, nema hinn 19., hátíðardaginn, þá var frost með austanblásanda. Ekkert er farið að fiskast enn. [Hátíðin var samkoma á Austurvelli þegar afhjúpuð var stytta Thorvaldsen sem þar stóð lengi síðan]. 

Ísafold segir þann 4.febrúar 1876 af slysförum (stytt hér):

[Ísafjarðardjúpi 12.janúar 1876]: Hinn 22. nóvember [1875] barst á báti í landtöku norður á Sléttu (í Aðalvíkursókn). Þar er boðótt brimlending. Drukkaði formaðurinn og einn háseta, eu 2 skolaði upp lifandi. ... Hinn 20. desember fórst bátur með 4 mönnum í fiskiróðri frá Arnardal í Skutulsfirði; rak bátinn upp fyrir innan Hnífsdal hinu megin fjarðarins, með einum manni dauðum í. — Á gamlárskveld týndust 4 vinnumenn Einars snikkara Hálfdánarsonar á Hvítanesi, á heimleið úr kaupstað í niðamyrkri og kafaldi, höfðu lent í svonefndum Fótarboða hinumegin við Hestfjörð, og fundust 3 líkin upp rekin morguninn eftir þar í nesinu, og báturinn skammt þar frá óbrotinn á steini.

[Af öðrum heimildum blaðsins]: Kona frá Rifgirðingum í Hvammsfjarðareyjum varð úti aðfaranótt hins 6. nóvember á ferð frá Arnarbæli að Galtardal.

Norðanfari birti þann 31.desember úr fáeinum bréfum:

[Suðurlandi 30. nóvember]: Frá því ég ritaði þér seinast um árferðið af Suðurlandi hefir það verið á þessa leið: Það sem eftir var af október voru sunnanáttir, úrkoma 26. og síðan blíðasta veður, sem á vordegi. Með nóvember brá til norðanáttar og storma; var hinn 3. mistur mikið, líkast því sem Logi gamli þeytti upp ösku sinni þarna í norðrinu eins og ætíð, í hvert skipti sem norðanátt hefir komið síðan 2. í páskum; dagana frá 5.—14. var norðankólga með frosti, varð það hæst 6. 12. og 13., 4—8°. Seinni dagana féll snjór og var harðviðrishríð til fjalla hin eina er komið hefir. Þann 15.[nóvember] kom hláka og ofsastormur á sunnan með rigningu; hinn 20. daginn og nóttina fyrir, eins hinn 22. tók upp allan snjó af láglendi og mikið úr fjöllum; hefir síðan verið góðviðri, og stundum austanstormur.

[Barðastrandarsýslu 8.nóvember]: Vegna grasbrests næstliðið sumar varð heyskapur hér með rýrara móti, en vegna heyfyrninganna geta þó flestir sett á sig pening líkt og i fyrra.

[Borgarfirði 1.desember]: Veðuráttan hefir verið einstaklega góð, alltaf þurrviðri með hægum frostum.

Desember: Hagstæð tíð framan af, mjög hlýtt var norðaustanlands. Síðan var óstöðugra, einkum um landið sunnan- og vestanvert. 

Þann 23.desember birti Norðanfari fyrri hluta af löngu bréfi frá Sigurði á Hallormsstað - við styttum það mikið hér. Einnig er hér brot úr tveimur öðrum bréfum úr sama tölublaði:

[Fréttir úr öskusveitum í Múlasýslum 1. desember 1875]: Það var 19. júlí í sumar, að ég skrifaði seinast um útlit hér i öskusveitum. Eftir það voru oftast þurrkar og hitar einkum í Héraði, út allan sláttartíma; kom sjaldan votur dropi úr lofti. Grasið var alla tíð að spretta hægt og hægt fram yfir höfuðdag þar sem deigt var undir og askan yfir rótinni, þó litill sæist munurinn. Slegin öskutún spruttu og mikið upp, svo sumstaðar var slegið aftur. Vegna þurrkanna og vikursins í rótinni, voru menn mjög lengi að slá túnin, því enga stund beit. ...

Fyrir það, hvað lengi var verið að berja í túnunum, varð út heyskapartíminn mikið of stuttur, enda tóku hin gisnu strá að visna af næturfrostum eftir miðjan september, svo nærri lá þau hyrfi. ... Árangurinn af heyskapar-baráttunni varð víðast sá í Héraðs-öskusveitum, að menn fengu af töðu 1/2 til 2/3 móti meðalári óvíða meira eða minna, ... Annars var þar [í fjörðum] víða mikill grasbrestur, eigi síst þar sem engin aska var teljandi, því jörð varð þar óvanalega þurr, enda hafði komið þar kyrkingur í gróður í kuldum, sem komu etir snjóáfellið um lok maímánaðar í vor, einkum þar sem engin aska var til að hlífa rótinni. Varð útheyskapur sumstaðar hér í fjörðum, engu meiri en í Héraðs-öskusveitum — enda byrjuðu þeir slátt miklu seinna flestir en við í Héraði og askan tafði þar fyrir. Þar sinntu margir sjávargagni fram yfir mitt sumar því afli var fyrir og mikil gagnsvon af honum.

Nokkur rifveður komu hér í sumar, sum velhvöss. Þá var oft glórulítið af öskuryki. Reif öskuna úr sköflunum út um grasbletti og mela. Fjarska mikið lenti í lækjum, ám og vötnum og sumt rauk yfir fjarlægar sveitir öskulausar, svo þar varð eins og sporrækt og rauk úr jörðunni þá gengið var. Af þessu minnkaði stórskeflið hjá okkur og dreifðist, svo eigi má telja eftir af því þriðjung í sama stað, varla meira en fjórðung. Af mýrum gat aldrei rifið, bætti heldur á, svo þar er enn öskulagið yfir öllum mosa og sinu 1 til 3 þumlungar á þykkt nema á þúfnakollum. Þar kalla ég að mikil aska hafi fallið, sem hún hylur enn allan mosa, svo hvergi sér til, á hverjum mýrarbletti. ...

Margir trúa að vetur verði afbragðsgóður ef jarðeldurinn verður uppi alltaf annað veifið (eins og hingað til í Dyngjufjöllum) og er það eigi ólíklegt, þegar hitaofninn er eigi fjær. þó held ég þetta geti dável brugðist og mikil áfelli með snjókyngjum geti komið á milli, því oft liggur eldurinn niðri tímum saman. (Enda getur hann hætt að gjósa).

Lík því hefir tíðin verið í haust og vetur sem af er. Hér var blíðutíð fram yfir byrjun októbermánaðar. Svo komu rigningar og bleytusnjóar, fram að veturnóttum, svo blíðutíð, eins og um sumar fram yfir byrjun nóvember. Síðan gjörði bleytuveður og harðindi um 3 vikur, svo mjög víða varð lítið um jörð. Nú um 20.[nóvember] kom aftur þíða og er síðan stilling og góð tíð.

[Austurskaftafellssýslu 14.nóvember]: Með septembermánaðarbyrjun brá hér til votviðra og storma, sem hélst við til þess í dag, að nú er grimmdarveður á norðan með snjókomu;

[Grímsstöðum á Fjöllum 8.desember] Síðan á sunnudaginn seinastan í sumri, hefir ekki sést héðan eldur í Sveinagjá, en alltaf er reykjareimur úr því hrauni, og úr Dyngjufjöllum rýkur stöðugt; í gær var reykjarkúfurinn með meira móti, svo hann tók hátt á loft upp, og var mjög stór ummáls.

Þjóðólfur segir þann 4.desember:

Nóvembermánuður var fremur rosasamur framan af, en undir lok hans gjörði stillur og góðviðri.

Ísafold segir stuttlega af tíð í desember:

[7.] Veðrátta er enn góð og oft blíð, frostlítil og snjóar að kalla engir. Hélufall mikið nokkra daga um mánaðamótin.

[18.] Veðrátta er enn hin sama og áður; sífelldar þíður og hægviðri. — Fiskileysi algjörlegt, eins og að undanförnu í haust.

[30.] Nú um jólin hafa hér gengið grimmilegir útsynningar, með stórrigningum á milli. — Gjörsamlegt fiskileysi enn í öllum veiðistöðum hér syðra.

Ísafold birti þann 4.febrúar 1876 úr bréfi af Skógarströnd (ódagsett):

Fyrri hluta nóvembermánaðar [1875] gekk norðanátt og landnyrðingar, með allsnörpu frosti stöku sinnum (12° hinn 14.); síðari hlutann landsynningar með þíðum og blíðviðrum. Fyrri hluta desembermánaðar héldust landsunnangóðviðri áfram og komu þá héluföll mikil, en síðari hlutann voru sunnanútsynningar með blotum og bleytukaföldum.

Lýkur hér að sinni umfjöllun hungurdiska um árið 1875. Tölur má finna í viðhengi. 

Í öðru viðhengi er tafla sem sýnir atburðaröð í eldsumbrotunum - hún er fengin úr: Reck, H. (1910): Das vulcanische Horstgebirge Dyngjufjöll mit den Einbruchscalderen der Askja und des Knebelsees sowie dem Rudloffkrater in Centralisland. Abhandlungen der königlich preussischen Akademie der Wissenschaften. Physikalisch-matematische Classe, II s.1-99.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • w-blogg211224b
  • w-blogg211224
  • w-blogg121224
  • w-blogg111224a
  • w-blogg101224b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 20
  • Sl. sólarhring: 214
  • Sl. viku: 985
  • Frá upphafi: 2420869

Annað

  • Innlit í dag: 15
  • Innlit sl. viku: 864
  • Gestir í dag: 15
  • IP-tölur í dag: 15

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband