Lágur loftþrýstingur - miðað við árstíma

Lægðin sem nú er yfir landinu telst óvenjudjúp miðað við árstíma. Þegar þetta er skrifað er þrýstingur í miðju hennar rétt við 980 hPa. Það er að vísu nokkuð langt frá mánaðarmetinu en samt ekki árlegur viðburður. Flettingar í metaskrá sýna að sjávarmálsþrýstingur hefur þrisvar áður á öldinni farið niður fyrir 980 hPa í júlímánuði hér á landi. 

Það var þann 25. árið 2002, þá mældist lægsti þrýstingurinn á Dalatanga, 978,8 hPa, þann 2. árið 2014, en þá fór þrýstingur á Húsavík niður í 975,0 hPa og er líklega lægsti þrýstingur sem mælst hefur norðanlands í júlí. Þann 22.júlí 2012 fór þrýstingur á Stórhöfða í Vestmannaeyjum niður í 972,4 hPa og er það júlímet hér á landi. Lægðin sú varð reyndar enn dýpri, líklega um 966 hPa í miðju - en sá lági þrýstingur hitti ekki á landið. 

Eldra met var frá árinu 1901, 974,1 hPa, mæling úr Stykkishólmi þann 18. Eins og fjallað var um í pistli á hungurdiskum [17.desember 2018] er líklegt að þrýstingur í Reykjavík hafi þá farið niður í 972,8 hPa (eða þar um bil).

Vegna metsins 2012 setti ritstjóri hungurdiska saman pistil með vangaveltum um lægsta hugsanlega þrýsting í júlí hér á landi og birtist hann 23.júlí 2012. Niðurstaðan var sú að sá þrýstingur væri líklega á bilinu 953 til 956 hPa - en jafnframt að svo lágar tölur væru líklega mjög sjaldséðar, mikið vantar upp á að þær hafi sést í júlí í öll þau 200 ár sem nánast samfelldar þrýstimælingar hafa staðið hér á landi. 

Eins og minnst hefur verið á í fjölmiðlum hafa fáeinar óvenjudjúpar lægðir nú snemmsumars gengið inn yfir Skandinavíu og Finnland og höggvið nærri metum þar um slóðir. Í grófum dráttum má segja að lægðin nú sé afleiðing sömu stöðu. Hin óvenjulegi hlýindaatgangur yfir Síberíu og Rússlandi austanverðu hefur þrengt að kulda norðurslóða og stuggað honum suður til okkar (og N-Evrópu). Lág veðrahvörf (og lægðasveigja) fylgja kuldanum og hittist þannig á að hlýtt loft komist inn í þetta meginkerfi fellur loftþrýstingur mjög og lægðir hafa tilhneigingu til að verða óvenjudjúpar. Þetta er svosem ekkert nýtt, en því hefur hins vegar verið haldið fram að mjög djúpar sumarlægðir yfir Norður-Íshafi hafi orðið algengari á síðari árum heldur en áður var. Þessi meinta nýjung hefur þó varla staðið nægilega lengi til að hægt sé að fullyrða um einhverja marktækni hennar. 

Í viðhenginu er skrá yfir þá mánuði (og staði á landinu) þegar vitað er um að þrýstingur hafi farið niður fyrir 980 hPa í júlímánuði, líklega bætist ein ný tala við neðst á listann í dag. Tölurnar verða því 19 á um 200 árum. Nánast öruggt er að mælingarnar hafa misst af einhverjum tilvikum - þær voru lengi vel mjög gisnar, bæði í tíma og rúmi. Aðeins var mælt á örfáum stöðvum - jafnvel aðeins einum og þá aðeins einu sinni til þrisvar á dag. Við getum ráðið af þessu að þrýstings neðan 980 hPa sé aðeins að vænta í júlímánuði á 5 til 10 ára fresti að jafnaði hér á landi.

Hæsti þrýstingur sem mælst hefur hér á landi í júlí er 1034,3 hPa, mældur í Stykkishólmi þann 3. árið 1917. Þrýstimælingar eru reyndar grunsamlega háar í Hólminum á þeim árum [ca.1914 til 1919], kannski um 0,7 hPa of háar. Ástæðan gæti verið óskráður flutningur á loftvoginni, en þrýstimælingar eru mjög viðkvæmar fyrir flutningum, t.d. veldur flutningur milli hæða í húsi skekkju upp á um 0,3 til 0,4 hPa. Næsthæsti júlíþrýstingurinn mældist á Gufuskálum þann 4. árið 1978, 1033,9 hPa - kannski sá hæsti sé Stykkishólmstalan lítillega of há. Þrýstingur hefur ekki komist yfir 1029 hPa hér á landi á þessari öld, ekki frá 1996 reyndar. Hæsta 21.aldartalan er 1029,5 hPa sem mældist á Reykjavíkurflugvelli og í Surtsey þann 6. árið 2012, rúmum hálfum mánuði áður en lágþrýstimetið var sett á Stórhöfða. Við látum alveg liggja á milli hluta hvort þessi „skortur“ er merki um eitthvað - en ritstjóranum finnst það reyndar ólíklegt - við fáum 1030 hPa einhvern daginn. Ekki er að sjá að langtímabreytingar hafi orðið á meðalþrýstingi júlímánaðar.

Háþrýstitölur júlímánaðar má einnig finna í viðhenginu. Minni líkur eru á að missa illa [svo skeiki mörgum hPa] af háum gildum heldur en lágum. Þegar þrýstingur er hár breytist hann oftast hægt - og er þar að auki svipaður á nokkuð stóru svæði. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg121124a
  • w-blogg101124c
  • w-blogg101124b
  • w-blogg101124a
  • w-blogg081124d

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (14.11.): 223
  • Sl. sólarhring: 317
  • Sl. viku: 2485
  • Frá upphafi: 2410474

Annað

  • Innlit í dag: 177
  • Innlit sl. viku: 2208
  • Gestir í dag: 166
  • IP-tölur í dag: 157

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband