Skortur á hlýindum?

Þó hiti í maí hafi til þessa verið nærri meðallagi á landinu (rétt ofan þess suðvestanlands, en rétt neðan í öðrum landshlutum) hafa hlýir dagar varla látið sjá sig - og ekki á landsvísu. Hlýindum hefur svæðisbundið rétt brugðið fyrir dag og dag - t.d. var meðalhiti í Reykjavík föstudaginn 22. sá hæsti sem sést hefur þann almanaksdag (þó hámarkshitinn næði ekki meti). Laugardagurinn var aftur á móti næsthlýjasti 23.maí sem vitað er um (hann var hlýrri 1988). 

Hæsti hiti sem mælst hefur á landinu á árinu til þessa er 18,3 stig - svo „hátt“ fór hitinn á Korpu og í Skaftafelli á laugardaginn (23.). Hæsti hiti sem mælst hefur á mannaðri stöð á árinu til þessa er 17,0 stig, þau mældust á Akureyri þann 21. Spurt hefur verið hvor það sé óvenjulegt að hæsti hámarkshiti ársins fram til 26.maí sé á þessu róli. Við skulum líta á málið.Smáflettingar í gögnum sem ritstjórinn hefur unnið upp úr skrám Veðurstofunnar sýna að bæði 2013 og 2014 var hæsti hámarkshiti á landinu til 26.maí 18,1 stig - nánast sá sami og nú (örlítið lægri samt). 

Þegar við förum lengra aftur í tímann koma upp samfelluvandamál af ýmsu tagi. Mannaða stöðvakerfið þynntist mjög eftir 2012 og líkur á því að það veiddi hæsta hita dagsins á landinu minnkuðu mjög. Sjálfvirka kerfið var aftur á móti nokkuð gisið fyrir 2004 þannig að fyrir þann tíma eru veiðar þess að jafnaði síðri en mannaða kerfisins. 

Auðvelt er að ná í dagleg landshámarksgildi mannaða kerfisins aftur til 1960 - en í gagnagrunni Veðurstofunnar eru aðeins dagleg gildi frá skeytastöðvum á tímabilinu 1949 til 1960 - en þær voru til þess að gera fleiri í útsveitum heldur en inni í landi - og veiddu ekki alltaf hæstu tölur dagsins. Minni upplýsingar um dagleg hámörk eru rýrari fyrir þann tíma. 

En það er langt liðið á maí þannig að við getum e.t.v. bjargast með því að líta á hæsta hita fyrstu fimm mánaða ársins lengra aftur í tímann. Nú - en þá kemur aftur að því að hámarkshitamælingar voru harla rýrar fyrir 1930. 

w-blogg250520a

Lítum nú á mynd - það þarf þó að gera með athygli. Tölur ársins í ár (og til og með 25.maí) eru lengst til hægri á myndinni, 18,3 stig fyrir sjálfvirku stöðvarnar (bleikur ferill aftur til 1996), en 17,0 stig fyrir þær mönnuðu (grænn ferill aftur til 1960). Við sjáum að tölur ársins í ár eru með lægra móti (miðað við þau gögn sem við höfum) - þó ekkert út úr myndinni. Á hafísárunum svonefndu og þar um kring hefðu 18,3 stig ársins í ár hins vegar talist nokkuð há. Allralægsta talan er frá árinu 1979 - þá hafði hitinn á árinu ekki komist nema í 13,4 stig fram til 26.maí. 

Á myndinni má einnig sjá rauða punktalínu. Hún segir frá hæsta hita fyrstu 5 mánaða ársins á mönnuðu stöðvunum. Hún er mjög oft nokkru hærri en græna línan - sem þýðir auðvitað að hæsti hiti í maí er oft síðast í mánuðinum, reyndar 64 sinnum af 146 tilvikum alls (44 prósent tilvika - en 19 prósent daga alls). Almennt er því líklegt að við eigum eftir að sjá hærri tölu en 18,3 stig í þessum maímánuði. - En - en enn og aftur verður að benda á að framtíðin er samt frjáls og lætur svona talningar ekki kúga sig. 

w-blogg250520b

Við skulum til gamans líta lengra aftur. Sá hluti þessarar myndar sem nær til áranna eftir 1960 er nákvæmlega sá sami og á fyrri mynd. Blái ferillinn á þessari nær hins vegar allt aftur til 1874 - en segir frá hæsta hita ársins - til maíloka. Þar sjáum við að á tímabilinu hlýja 1928 til 1948 var algengt að hiti hefði náð 20 stigum á einhverri veðurstöð fyrir maílok. Fyrir þann tíma var það sjaldgæfara - en höfum í huga að stöðvar voru mjög fáar og líkur eru á að stöðvakerfi nútímans hefði veitt betur en þetta gisna kerfi gerði. En því miður verður líka að hafa í huga að mælar voru ekki vel varðir á þessum tíma og sýndu gjarnan of hátt í hádegissólinni - þó réttir væru á öðrum tímum dags. Hiti um miðjan dag er ekki notaður við meðaltalsreikninga hér á landi nema þar sem athugunarfjöldi nær að minnsta kosti 8 á dag - og nútímaskýli eða hólkar séu í notkun. 

Svo er spurning um fyrstu 20 stig ársins 2020 - hvenær koma þau? Við vitum (og sjáum af myndinni að ofan) að þau eru nú þegar síðbúnar en algengast hefur verið á síðari árum. Hungurdiskar hafa áður fjallað um tuttugustigakomuna og geta fróðleiksfúsir lesið þar um í pistli sem birtist 23.júní 2014. Þar er líka tengill á enn eldra uppgjör.   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • w-blogg211224b
  • w-blogg211224
  • w-blogg121224
  • w-blogg111224a
  • w-blogg101224b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 20
  • Sl. sólarhring: 214
  • Sl. viku: 985
  • Frá upphafi: 2420869

Annað

  • Innlit í dag: 15
  • Innlit sl. viku: 864
  • Gestir í dag: 15
  • IP-tölur í dag: 15

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband