Kannski ekki óalgengt

Ritstjórinn varð (vægt) undrandi þegar hann sá kortið hér að neðan (eða öllu heldur fyrirrennara þess) fyrir nokkrum dögum. Kannski er það bara vegna minnisleysis - en einhvern veginn þykir honum þetta ekki mjög algeng sjón (en kannski er hún ekki óalgeng).

w-blogg270220a

Nú verður að skýra út hvað kortið sýnir. 

Litafletirnir sýna norska pólarlægðavísinn [mismunur sjávarhita og hita í 500 hPa]. Verði vísirinn 43 eða hærri eru taldar góðar líkur á myndun lægða af þessu tagi. Fleira þarf þó að koma til, við förum ekki út í það hér. Jafnþrýsilínur við sjávarmál eru gráar, heildregnar, 500/1000 hPa, jafnþykktarlínur eru rauðar og strikaðar og einnig má sjá vínrauðar heildregnar línur afmarka svæði þar sem veltimætti (CAPE) er meira en 50 J/kg. 

Það sem er óvenjulegt er að sjá nær allt hafsvæðið sem kortið nær til þakið gulum og brúnum litum. Á þessum svæðum er munur á sjávarhita og hita í 500 hPa-fletinum (í um 5 km hæð) meiri en 40 stig. Þetta kalda loft er mestallt komið úr vestri (melta úr kuldapollinum Stóra-Bola) - en líka beint úr Norðuríshafi - það sem er austarlega á kortinu. Þetta þýðir að loft í neðri hluta veðrahvolfs er mjög óstöðugt á öllu svæðinu - allt fullt af éljaflókum sem sums staðar raðast upp í garða eða sveipi. Reynslan sýnir að veðurlíkön eiga ekki gott með að ná smáatriðum í þróun slíkra kerfa - sérstaklega þegar þau eru í myndun. Heldur betur gengur að fylgja þeim eftir að þau eru orðin til. 

Pólarlægð er samheiti yfir fremur litla lægðasveipi sem verða til er kalt loft streymir út yfir hlýrra haf. Við að hitna að neðan verður kalda loftið mjög óstöðugt og myndar háreista skúra- og éljaklakka. Þessi sameiginlegi uppruni leynir þó því að eðli þeirra að öðru leyti er misjafnt. Þvermál lægðanna er yfirleitt á bilinu 100 til 500 km, dýpt oft í kringum 5 hPa, vindhraði á bilinu 10 til 20 m/s þar sem mest er og úrkoma talsverð. Þó Ísland sé ekki stórt hefur það veruleg áhrif á lægðir sem ekki eru stærri en þetta. Þó pólarlægðir séu mjög algengar á hafinu umhverfis Ísland er það ekki algengt að þær gangi á land. Þá sjaldan það gerist valda þær oft verulegri snjókomu og samgöngutruflunum en varla teljandi foktjóni. Vindhraði getur þó verið mjög hættulegur minni bátum á sjó.

Lægðin sem olli snjókomu og hálfgerðum leiðindum víða um landið suðvestanvert í dag er þó öllu stærri en svo að ritstjórinn sé fáanlegur til að tala um hana sem eiginlega pólarlægð, en bakkar hennar minna þó á slíkt.

En víst er að suðaustanáttin var með kaldasta móti í dag (fimmtudag 27.febrúar).  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • w-blogg211224b
  • w-blogg211224
  • w-blogg121224
  • w-blogg111224a
  • w-blogg101224b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 20
  • Sl. sólarhring: 214
  • Sl. viku: 985
  • Frá upphafi: 2420869

Annað

  • Innlit í dag: 15
  • Innlit sl. viku: 864
  • Gestir í dag: 15
  • IP-tölur í dag: 15

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband