Þrýstivik í janúar

Loftþrýstingur var lágur í nýliðnum janúar, meðaltal mánaðarins í Reykjavík 984,5 hPa og það lægsta í nokkrum mánuði síðan í febrúar 1997 og lægsta í janúar síðan 1993. 

w-blogg020220a

Hér má sjá meðalsjávarmálsþrýstikort mánaðarins (heildregnar línur). Vik eru sýnd í lit. Lægðasvæðið við Ísland er mun öflugra heldur en venja er - og þrýstingur yfir Miðjarðarhafi er meiri en að meðaltali. Þetta veldur því að vestanáttin yfir Evrópu var mun sterkari í mánuðinum en að meðaltali. Þrýstivik sem þessi valda venjulega miklum jákvæðum hitavikum í norðanverðri álfunni - í þessu tilviki norður í miðja Skandinavíu. Methlýindi voru þar sem vestanvikin voru mest. 

Sama á við um vik í 500 hPa-fletinum. 

w-blogg020220b

Meðalhæð 500 hPa-flatarins í mánuðinum var aðeins 5100 m yfir Íslandi, sú lægsta síðan í desember 2011 (einum sárafárra kaldra mánaða þessarar aldar) og sú lægsta í janúar síðan 1993. 

Þessar lágu tölur rifja ýmislegt upp í huga ritstjóra hungurdiska. Á þeim árum sem hann byrjaði að fylgjast ítarlega með veðri var loftþrýstingur oftast fremur hár (á sjöunda áratugnum) - alla vega sást lítið til mánaða með mjög lágum meðalþrýstingi. Er honum því mjög minnisstæður janúar 1974 - sló allt sem hann hafði kynnst fram að því út af borðinu. Meðalþrýstingur var aðeins 977,1 hPa í Reykjavík - nýmeti var fram borið. Það var reyndar ekki fyrr en fáeinum árum síðar að ritstjórinn fór að gefa háloftaflötum nánari gaum og sá að þessi mánuður átti líka sérlega lágan 500 hPa-flöt, 5090 m yfir Íslandi - líka algjör nýjung frá upphafi samfelldra háloftaathugana 1949. 

Við skulum til gamans líta á 500 hPa-vikakort þessa merka mánaðar:

w-blogg020220c

Vikin liggja reyndar á annan hátt en nú - en það voru einnig óvenjuleg hlýindi viða um Evrópu - og áttin var suðlægari en nú hér á landi og úrkoman því blautari. Umskiptin frá hinum ofurkalda desember 1973 (næsta mánuði á undan) voru gríðarleg. Báðir þessir mánuðir, desember 1973 og janúar 1974 virtust hvor á sinn hátt vera afturhvarf til tímans fyrir 1920.

Ritstjórinn fór nú í það að giska á mánaðameðaltöl 500 hPa-flatarins aftur fyrir tíma háloftaathugana og fann að á fyrri tíð mátti finna ámóta mánuði - þeir höfðu bara ekki sýnt sig lengi. 

Svo gerist það að fleiri og fleiri lágþrýstivetrarmánuðir fóru að bætast í hópinn, janúar 1975 var mjög efnilegur, og síðan janúarmánuðir áranna 1983 og 1984. Síðan kom nánast hrúga af ámóta mánuðum frá og með 1989 og næstu ár þar á eftir. Að sjálfsögðu fylgdu mikil vetrarhlýindi í Vestur-Evrópu - og þar sem hlýnun af völdum vaxandi gróðurhúsaáhrifa var komin af alvöru inn í umræðuna fullyrtu fleiri og fleiri að þessi nýja staða væri þeim áhrifum að kenna. Gallinn var hins vegar sú að hún var ekki ný - heldur gömul. Þegar lágþrýstimánuðum fór aftur mjög fækkandi eftir 1995 datt þessi umræða niður - og snerist að lokum upp í andhverfu sína þegar háþrýstingur komst aftur í tísku - þá var hann allt í einu vaxandi gróðurhúsaáhrifum að kenna. Þetta er auðvitað hálfpínlegt - eða hvað?

En - þrátt fyrir þetta er ritstjórinn samt á því að greina megi áhrif aukinna gróðurhúsaáhrifa - alla vega í hæð 500 hPa-flatarins - og evrópsku hitametin eru sjálfsagt lítillega snarpari en ella hefði orðið. En höfum ætíð í huga að veðurlag einstakra daga, mánaða og ára hefur lítið með vaxandi gróðurhúsaáhrif að gera - hinn mikli þungi þeirra er undirliggjandi - alla vega enn sem komið er (hvað sem svo síðar verður). 

Þakka Bolla Pálmasyni fyrir kortin.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg151124c
  • w-blogg151124b
  • w-blogg151124a
  • w-blogg141124ii
  • w-blogg141124b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.11.): 62
  • Sl. sólarhring: 377
  • Sl. viku: 2456
  • Frá upphafi: 2411082

Annað

  • Innlit í dag: 53
  • Innlit sl. viku: 2120
  • Gestir í dag: 51
  • IP-tölur í dag: 50

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband