Illviðrasyrpan heldur áfram

Svo virðist sem bærilegt veður verði um meginhluta landsins mestallan morgundaginn (laugardag 18.janúar) en síðan dregur aftur til tíðinda. Lægð sem í dag hefur valdið miklu hríðarveðri og að sögn óvenjulegri snjókomu á Nýfundnalandi stefnir til okkar og á að fara til norðausturs milli Íslands og Grænlands á sunnudag og mánudag. 

w-blogg180120a

Kortið sýnir sjávarmálsþrýstispá evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir seint á sunnudagskvöld, en þá verður meginlægðin komin framhjá, landsynningsveðrið á aðfaranótt sunndags gengið yfir og hvass útsynningur tekinn við. Lægðin er öðru vísi en þær sem hafa plagað okkur að undanförnu. Hún tók út sína óðadýpkun sunnan Nýfundnalands, er nú (á föstudagskvöld) um 955 hPa í miðju en á ekki að dýpka frekar á leið til okkar - á þessu korti hefur hún meira að segja grynnst nokkuð (miðjurnar tvær 970 hPa og 976 hPa). Aftur á móti hefur þrýstingur yfir Bretlandseyjum stigið rækilega. Spáin segir þrýsting í hæðarmiðju vera 1049 hPa. Breskir tístarar - og breska veðurstofan velta vöngum yfir því hvort 1050 hPa-mörkunum verði náð, en slíkur háþrýstingur er óvenjulegur þar um slóðir, ekki þó met (það er að sögn 1053,6 hPa), en met er sagt hugsanlegt í Frakklandi (1048,9 hPa er metið þar). Metatölur þessar eru hér úr lausu lofti (Wikipediu) og ætti ekki að vitna í þær - en eru vonandi réttar.

Þrýstimunur eru því mikill á milli hæðar og lægðar - hátt í 80 hPa. Gömul þumalfingursregla segir að séu þrýstilínur dregnar með 4 hPa bili (eins á kortinu að ofan) og fjöldi þeirra á sama grunnkorti (á stærð við þetta) sé 20 eða fleiri sé fárviðri einhvers staðar á kortinu. Á þessu korti eru þær 19. - Þetta er því mikið veður þó miðjuþrýstingur lægðanna sé ekki tiltakanlega lágur (miðað við þær að undanförnu). 

Við sjáum svo nýja lægð við Nýfundnaland. Spár eru ekki sammála um framtíð hennar nema hvað langflestar senda hana líka til Íslands. Spár enn lengra fram í tímann halda flestar hverjar leiknum áfram - en mikið sitt á hvað frá einni spárunu til annarrar. 

Margs konar vandræði fylgja oftast lægðum af þessu tagi. Vonandi láta þau sem minnst á sér bera að þessu sinni. Vel má vera að hungurdiskar sulli eitthvað meira í þeim (fer eftir þreki og sveimi ritstjórans). En lesendur eru hvattir til að fylgjast vel með spám Veðurstofunnar. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • w-blogg211224b
  • w-blogg211224
  • w-blogg121224
  • w-blogg111224a
  • w-blogg101224b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 20
  • Sl. sólarhring: 214
  • Sl. viku: 985
  • Frá upphafi: 2420869

Annað

  • Innlit í dag: 15
  • Innlit sl. viku: 864
  • Gestir í dag: 15
  • IP-tölur í dag: 15

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband