Enn af metingi

Ein af þeim leiðum sem ritstjóri hungurdiska notar í illviðrametingi er mismunur á hæsta og lægsta sjávarmálsþrýstingi landsins á hverjum tíma. Slíkar upplýsingar er að finna í gagnagrunni Veðurstofunnar og munurinn, sem við köllum þrýstispönn, auðreiknaður á 3 stunda fresti allt frá 1949 - auk þess sem ritstjórinn lúrir á nokkrum eldri tölum. Þar sem landið er lengra frá austri til vesturs heldur en norðri til suðurs eru slíkar tölur ekki alveg samanburðarhæfar sé ekki tekið til legu þrýstibrattans yfir landinu. Munur upp á 10 hPa milli norður- og suðurstranda landsins er því ávísun á meiri vind heldur en sami munur yfir landið frá austri til vesturs. Til að gera tölur samanburðarhæfari hefur ritstjórinn búið til töflu sem sýnir meðalvigurvindátt hvers sólarhrings aftur til 1949. Þá er hægt að metast um spannarstærð sérstaklega fyrir hverja vindátt. 

Oft hefur verið minnst á þessa gagnlegu reikninga hér á hungurdiskum. Í veðrinu á dögunum var vindátt úr norðri. Við berum því saman þrýstispönn í þeirri átt eingöngu. Mesti munur sem kom fram nú (á mönnuðu stöðvunum) var 29,7 hPa, kl.3 aðfaranótt þess 11. desember. Þess skal getið að þrýstispönn sjálfvirku stöðvanna var meiri - þær eru þéttari og mæla að auki oftar. Munur kerfanna tveggja hefur ekki verið kannaður ítarlega - en samt má reikna með því að tölur fyrri tíðar hefðu (að meðaltali) orðið lítillega hærri hefðum við haft alla þá mæla sem við höfum í dag og athugað jafnoft. 

Í skránum - aftur til 1949 - hefur þrýstispönn í norðanátt 22 sinnum verið meiri eða jafnmikil og nú - það gerist sum sé á um það bil 3 ára fresti að jafnaði að spönnin verði jafnmikil eða meiri.

Það er nokkur ánauð fyrir augu að horfa á allan listann hér inni í pistlinum - þannig að honum er komið fyrir í viðhengi (fyrir þá fáu sem kunna að hafa áhuga). Flest þessara veðra eru ritstjóranum kunnug - sum hefur hann meira að segja skrifað um (eða að minnsta kosti látið getið). Ekki er ísingar getið nema rétt stundum - enda er það fyrirbrigði algengara í norðaustan- eða jafnvel austanáttum. 

Þetta (og það sem ritstjórinn skrifaði í fyrradag) bendir til þess að hér sé alls ekki um neitt einstakt veður að ræða á landsvísu - ámóta veður hefur oft gert áður - ísingarveður verðum við þó e.t.v. að sækja meira í norðaustanáttarflokkinn. Á einstökum landsvæðum t.d. vestanverðu Norðurlandi og sumum útsveitum norðaustanland er þó um sjaldséðara veður að ræða.

Það er hins vegar augljóst af því mikla tjóni sem hefur orðið að samfélagið (eða öllu heldur tjónnæmi þess og innviða) er orðið eitthvað á skjön við það sem áður var. Mikilvægt er að farið verði i saumana á því hvernig megi draga úr tjónnæmi gagnvart veðrum sem þessum.

Mikilvægt er að viðurkenna að breytingar á tjónnæmi samfélagsins eru enn hraðari en breytingar á veðurfari (þó hraðar séu) - og að breytingar á veðurfari geta flett ofan af duldu tjónnæmi samfélagsins.  

Þó ísing samfara ofsaveðri sé mun sjaldgæfari um landið sunnanvert heldur en á Norður- og Norðausturlandi bíður slíkt veður samt færis í framtíðinni.   


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæl öll. Frá Ólafi Kjartanssyni Akureyri

Ég er nýbyrjaður að fylgjast með á þessari síðu. Mér finnst margt af því sem ég hef seð mjög upplýsandi og áhugavert. 'Í sambandi við hugleiðingar um styrk vinds í samhengi við þéttleika þrýstilína rifjuðust upp fyrir mér tvenn veður sem mér eru minnisstæð en eru ekki með samanstað í töflunni um Þrýstispannir í norðanátt. Það er vísast mjög eðlilegt að hið seinna sé ekki með þessa tengingu því að áttin var austlæg frekar en norðlæg. það veður var ef ég man rétt grimmast að morgni þ.28 des 1985 og ölli tjóni um norðanvert landið, m.a. felldi það 6 stauratvístæður byggðalínunnar þar sem hún liggur um Víðidal í húnavatnssýslu. Héraðsfréttablaðið Feykir er með góða lýsingu á þessu í fyrsta tölublaðinu 1985. Það sem mér fannst sérstakt við þessa línubilun var að engin ísing var á línunni. Vírinn slitnaði ekki en staurar brotnuðu. Ég var á þessum tíma línumaður hjá RARK Akureyri og var sendur á staðinn í viðgerðarvinnuna sem rétt hafðist fyrir áramótin, mig minnir að ég hafi náð í kvöldmatinn heima á gamlársdag.

Það var fyrra veðrið sem gekk yfir í desemberbyrjun 1980 sem ég bjóst við að sjá samsvörun við í þessari töflu. Það var norðanveður sem gekk m.a. yfir norðausturhluta landsins og varð mörgum til tjóns og vandræða. Línan frá Krölu austur um bilaði á mánudagsmorguninn 1. des. og við vorum sendir af stað tveir frá Akureyri til að fara með línunni á móti félögum okkar að austan. Það sást síðan úr flugvél þegar birti upp eftir veðrið að í Núpaskoti, sunnan undir Grímstaðanúp þar sem línan liggur yfir Skarðsána, höfðu 9 stæður farið en vírinn hélt (en var nokkuð hnuðlaður eftir óganginn). Mér er minnisstætt hvað við urðum forviða þegar við komum á staðinn og sáum ummerkin eftir veðrið. Uppí 12 bútar úr hverri af nokkrum tvístæðunum og þeir höfðu kastast allt að 150m undan vindi. Við félagarnir mátuðum okkur við einn þeirra sem fór hvað lengst og hann var meir en við tveir réðum við að lyfta. Þarna var nánast auð jörð en gaddfrosinn. Landið er að mestu berir melar en gróðurinn á bökkum Skarðsárinnar var rifinn af niður að rót. Möl og grjót hafði dregið í litla skafla eins og fönn í skafrenningi. Mér virðist að það hafi slegið niður hnút eða hnútum niður af Grímstaðanúpnum sem hafði þessar afleiðingar. Það var ekkert sem bennti til þess að ísing hafi verið á línunni enda var hitastigið það vel undir frostmarki og rakastigið það lágt að það var mjög ólíklegt að nokkuð hefði sest á vírinn. Þegar línan var reist heyrði ég sagt að hönnun hennar gerði ráð fyrir töluverðri ísingu og eitthvað yfir 12 vindstigum. Sem betur fer virðist þetta hafa verið sjaldgæfur atburður og ég hef hvergi séð neinar ágiskanir um hver vindhraðinn var í þessum látum þarna.

'olafur Kjartansson (IP-tala skráð) 13.12.2019 kl. 22:08

2 Smámynd: Trausti Jónsson

Þakka þér fyrir upplýsingarnar Ólafur. Þú átt væntanalega við 28.desember 1984 - ekki 1985. Það veður flokkast sem sunnanáttarveður í mínum bókum - og engin ísing. En þrýstispönnin fór hæst í 27 hPa (nærri því eins mikið og nú). Það var bara svona hvasst (og staurar fúnir - ef trúa má Feyki). Ég man hins vegar vel eftir hinu veðrinu sem þú nefnir (enda á vakt). Það var eitt af þeim gjörningaveðrum sem stundum gerir á Norðausturhorninu og á Austfjörðum - en flokkast sem norðvestanveður í mínum bókum (og er því ekki með á listanum) - en það náði heldur ekki nema til fremur takmarkaðs hluta landsins. Af tjónlýsingum má sjá að vindhraði hefur verið mjög mikill, í tjónaskrá minni segir um þetta veður:

Talsverðar skemmdir urðu á mannvirkjum austanlands í hvassviðri, m.a. fauk lögregluvarðstofan á Seyðisfirði á haf út og söluskálar skemmdust. Einnig fuku timburskúrar, bílar og þakplötur. Tveir smábátar sukku í höfninni. Foktjón varð einnig í Neskaupstað, þak tók af hálfu fjölbýlishúsi ofarlega í bænum, rúta fauk um koll og gamall nótabátur fauk út á sjó og eyðilagðist, hús voru þakin aur og mold eftir veðrið, ljósastaurar lögðust á hliðina og brotnuðu. Þakplötur fuku á Eskifirði, þar á meðal margar af hraðfrystistöðinni, hlið gamallar skemmu lagðist inn. Tveir bátar sukku í Reyðarfjarðarhöfn og fólksbifreið eyðilagðist, margir bátar skemmdust, reykháfur síldarverksmiðjunnar féll og brotnaði, jeppabifreið fauk um koll og járnplötur tók af mörgum húsum, íbúðarhús í byggingu stórskemmdist og mikið tjón varð í Þurrkstöðinni þar sem mikið af timbri fauk á haf út. Meirihluti af þaki gamals frystihúss fauk á Djúpavogi og rúður brotnuðu í nokkrum húsum. Byggðalínan slitnaði er 18 staurar brotnuðu við Jökulsá á Fjöllum. 

Bestu kveðjur.

Trausti Jónsson, 13.12.2019 kl. 23:35

3 identicon

Ólafur Kjartansson sendir:

Sæll aftur.

Þakkir fyrir snör svör.

Smá viðbót: Rétt ártal fyrir umrætt línutjón í húnaþingi er 1984 eins og þú bentir á. Ég get hinsvegar vottað að staurarnir í byggðalínunni voru ekki fúnir en það gæti hafa átt við um ýmsar eldri línur sem biluðu þennan sama dag í sveitunum þarna. Staðbundin vindátt á þeim bletti virtist hafa verið nær austri þegar byggðalínutjónið varð í Víðidalnum. Mín tilgáta er sú að landslag hafi haft áhrif á það. Og, í illviðrinu sem skellti byggðalínunni í byrjun des. 1980 var það sama hvað varðar vindáttina, brakið úr stæðunum hafði borist nánast beint í suður sem ég tel að bendi til þess að landslagið þarna hafi haft einnig staðbundin áhrif á stefnuna á þeim punkti. Að lokum, línurnar sjálfar slitnuðu ekki í sundur í þessi skipti en sköddaðust svo skipta þurfti um hluta af vírnum.

Bestu kveðjur.

Ólafur Kjartansson (IP-tala skráð) 14.12.2019 kl. 00:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg160424b
  • w-blogg160424a
  • w-blogg120424c
  • w-blogg120424b
  • w-blogg120424a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 18
  • Sl. sólarhring: 138
  • Sl. viku: 1767
  • Frá upphafi: 2348645

Annað

  • Innlit í dag: 18
  • Innlit sl. viku: 1548
  • Gestir í dag: 18
  • IP-tölur í dag: 18

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband