1.12.2019 | 00:24
Á aðventu 1925
Fyrir um þremur árum flutti ritstjóri hungurdiska tvö erindi um veður á aðventunni árið 1925. Hið fyrra í Gunnarshúsi 7.desember 2016, en hið síðara á jólaþingi veðurfræðifélagsins nokkrum dögum síðar. Erindin voru að hluta til samhljóða - en ekki þó alveg. Hér verða þau rifjuð upp saman, en lítið breytt.
Sagt er að Gunnar Gunnarsson hafi byggt Aðventu sína á ritgerð sem birtist í tímaritinu Eimreiðinni 1.tölublaði 1931. Greinin er eftir Þórð Jónsson og greinir frá eftirleitum Mývetninga á aðventu 1925 og ber yfirskriftina Í eftirleit. Sjónum er þar einkum beint að ferðum Benedikts Sigurjónssonar á Skútustöðum og nokkurra daga hrakningum hans í lok leitar. Benedikt var vanur maður á fjöllum og virðist hafa farið sér lítt að voða að öðru leyti en því að matarskortur var farinn að há honum enda fjalladvölin orðin nokkru lengri en ætlað var í upphafi. Greinin er aðgengileg á timarit.is og ættu áhugasamir að kynna sér hana - margt athyglisvert kemur fram - við látum það liggja á milli hluta hér.
Ritstjóri hungurdiska þekkir lítið til á þessum slóðum og ætlar því ekki að hætta sér mjög í smáatriði. Veit þó að aðallega var verið að leita á Mývatnsöræfum austan Nýjahrauns en það rann í eldsumbrotum 1875 þar voru og eru væntanlega enn snjóléttir hausthagar sem þá þótti sjálfsagt að nýta einkum í svonefndum Grafarlöndum. Á þessum slóðum er ekki langt í Jökulsá á Fjöllum í austri og þar með til byggðar austan hennar allra syðst á svæðinu til Möðrudals á Efra-Fjalli, en nyrst á svæðinu til Grímsstaða oft gistu gangnamenn þar þar á meðal Benedikt í leitinni á aðventu 1925. Sá hængur var á að Jökulsá var óbrúuð langoftast mikill farartálmi - og ekki hægt að fá ferjumann frá Grímsstöðum nema panta hann fyrst með símtali úr Reykjahlið. Sími hafði verið lagður hjá Grímsstöðum 1906, en hann lá í fyrstu niður að jökulsárbrúnni í Axarfirði en ekki beint til Reykjahlíðar. Hafi svo enn verið 1925 er eðlilegt að engin möguleiki hafi verið á því að hringja eftir ferju frá vesturbakkanum nema fara alla leið til baka til Reykjahlíðar.
Í þetta sinn héldu leitarmenn úr Reykjahlíð og austur þann 10. desember. Þeir komu flestir saman með fé til byggða þann 14., en Benedikt varð eftir og leitaði eftirlegukinda fyrst með öðrum manni en síðan einn. Komst austur að Grímsstöðum og hvíldist þar í einn eða tvo daga (ólíkt skáldsögunni).
Laugardag 18. desember var svo haldið aftur til leitar vestur yfir Jökulsá og urðu úr nokkrir hrakningar sem í dag væru kallaðir stórkostlegir og náði Benedikt ekki til byggðar í Reykjahlíð fyrr en síðla á annan í jólum, 26. desember þá fyrir nokkru orðinn matarlaus. Sveitungar hans voru þá farnir að gera sér nokkrar áhyggjur af honum og ákváðu Reykhlíðungar um jólin að byrja leit þann 28. en suðursveitungar fóru til leitar daginn áður þann 27. án þess að vita að hann hefði þá þegar skilað sér til Reykjahlíðar. Tókst giftusamlega að afturkalla leitina.
Langt er síðan ritstjórinn las Aðventu, sjálfsagt meir en 40 ár en hefur svo heyrt allstóra hluta bókarinnar í útvarpslestrum á seinni árum. Sagan Aðventa er skáldskapur kannski byggður á fleiri vetrarfjallaferðum Benedikts en þeirri sem hér hefur verið nefnd frásögnin í Eimreiðinni nefnir brot úr öðrum en skáldsaga engu að síður. Hún verður því ekki borin saman við raunveruleikann. Höfum t.d. í huga að aðventan 1925 hófst 29.nóvember, en hinir raunverulegu leitarmenn héldu ekki til heiða fyrr en 10 dögum síðar. [Eins og segir einhvers staðar: Vika líður - til merkis um að vika sé liðin].
En að aðventuveðrinu 1925. Tímarit Veðurstofunnar, Veðráttan segir um tíðarfar í desember: Norðan átt var ríkjandi í þessum mánuði. Tíðin var þó fremur hagstæð, nema á Norðurlandi.
Endurgreining evrópureiknimiðstöðvarinnar sýnir þrýstivik í desember 1925. Þrýstingur er umfram meðallag og norðlægar áttir tíðari en venjulega.
Mjög hlýtt var yfir Grænlandi og þar vestan við, en kalt á Norðurlöndum. Þykktarvikakort evrópureiknimiðstöðvarinnar sýnir þetta greinilega. Fremur óvenjulegur háloftahæðarhryggur er vestan við Ísland og norðvestlæg átt ríkjandi í veðrahvolfinu.
Langversta og athyglisverðasta illviðri mánaðarins gerði dagana 7. til 9. þá urðu fimm menn úti, miklir fjárskaðar urðu, auk tjóns af völdum vinds og sjávargangs. Mývetningar biðu af sér þetta veður í Reykjahlíð. Við fjöllum lítillega um það síðar í þessum pistli.
Árið 1925 var Veðurstofan að ná sér á strik og athuganir þar með eftir ákveðna erfiðleika umskiptaáranna, en danska veðurstofan sem hafði haft opinberar athuganir með hendi frá 1872, lagði þær í hendur Veðurstofunni 1.janúar 1920. Skilningur ráðamanna á nauðsyn veðurathugana og kostnaði þeim tengdum var misjafn eins og verða vill en flestum var þó mikilvægið ljóst þegar hér var komið. Myndir hér að neðan skýrast að mun séu þær stækkaðar.
Stöðvar sem mældu hita í desember 1925. Mesta frost mánaðarins var yfirleitt milli jóla og nýárs, en hlýjast var í upphafi illviðrisins mikla þann 7. og 8.
Þó stöðvakerfið hafi verið nokkuð gisið 1925 voru þó athuganir á þremur stöðvum í innsveitum á Norðausturlandi, Grænavatni í Mývatnssveit, Grímsstöðum á Fjöllum og í Möðrudal. Skeyti voru send frá Grímsstöðum til Veðurstofunnar, en veðurskýrslur haldnar á hinum stöðvunum tveimur. Athuganir voru misgóðar en segja okkur samt nokkuð nákvæmlega frá veðri allan útivistartíma Benedikts.
Myndin sýnir hitamælingar á Grænavatni í Mývatnssveit í desember 1925. Hún verður mun læsilegri sé hún stækkuð. Bláu línurnar sýna annars vegar (til vinstri) þann tíma sem úthaldið stóð - frá 10.desember og hins vegar (til hægri) þann tíma sem Benedikt var einn á ferð.
Hér má sjá aðrar athuganir frá Grænavatni. Bláu línurnar eru þær sömu og á fyrri mynd. Fjólubláu ferhyrningarnir afmarka þá daga sem vindur var hægur. Í græna rammanum eru upplýsingar um búfjárhald, byrjað að hýsa fé þann 8.desember og hrossum komið á gjöf þann 17. Þann 19. segir Páll athugunarmaður að snjó hafi hlaðið niður og á jóladag var aftakabylur.
Snjódýpt var mæld á Grímsstöðum á Fjöllum marga daga og getum við séð af athugunum Sigurðar Kristjánssonar að þar var töluverður snjór, snjódýpt komin í meir en 40 cm á annan jóladag.
Hitamælingar í Möðrudal eru auðlæsilegri heldur en Grímsstaðamælingarnar (þar eru allstórar mælaleiðréttingar). Frost fór í meir en -20 stig þann 19. og 20. en báða þá daga lá Benedikt úti - og í jóladagshríðinni var frostið meira en -10 stig.
En snúum okkur nú að illviðrinu þann 7. til 9.desember - sem leitarmenn biðu af sér.
Alls urðu fimm menn úti, þar af þrír í Dalasýslu. Víða urðu fjárskaðar og í Húnavatnssýslu fórust 60-70 hross. Alls er talið að um 500 fjár og 100 hross hafi farist, flest í Dalasýslu, en einnig við Galtarholt í Skilmannahreppi og Leirvogstungu í Mosfellssveit. Þak fauk af hlöðu á Læk í Leirársveit. Járnplötur fuku af húsum í Mýrdal. Fjárskaðar urðu einnig eystra, við Berufjörð og í Breiðdal - en ekki týndist margt á hverjum bæ segir veðurathugunarmaður á Teigarhorni.
Símabilanir urðu miklar um land allt. Prestssetrið Höskuldsstaðir í Austur-Húnavatnssýslu brann til kaldra kola. Víða fuku plötur af húsum og þak fauk af hlöðu í Borgarfirði. Sjóvarnargarði á Sauðárkróki sópaði burt. Sjór og vindur brutu hafskipabryggju á Siglufirði, þrjá mannlausa báta rak á land í Keflavík, Grundarfirði og á Dalvík, brotnuðu tveir þeirra. Brim braut fáeina símastaura í Fljótum. Nokkrar járnplötur fuku í Mýrdal. Þann 9. og aðfaranótt þess 10. brotnuðu 40 símastaurar í ísingu í Jökulsárhlíð.
Við skulum líta á fáein veðurkort - bandaríska endurgreiningin framleiðir þau.
Kortið sýnir hæð 1000 hPa-flatarins um hádegi sunnudag 6.desember 1925. Þá er vaxandi lægð suður í hafi. Endurgreiningin segir þrýsting í lægðarmiðju lægri en 975 hPa (-200 metrar). Það sem við sjáum ekki á þessu korti er að snarpt háloftalægðardrag er yfir Grænlandi - á austurleið og dregur með sér kalt loft úr vestri og síðan norðri og mætir það hlýindunum sunnan að. Úr verður mikil dýpkun - eiginlega sérstök ný lægð - skammt fyrir sunnan land.
Hér sést staðan í 500 hPa á sama tíma, hún er afskaplega varasöm. Í tilvikum sem þessu ná kalda loftið og það hlýja ekki alltaf saman - en í þessu þarna gerðist það.
Daginn eftir var staðan orðin þessi:
Gamla lægðin situr eftir suður í hafi og eyðist, en sú nýja orðin ámóta djúp og sú gamla var - um 975 hPa og er enn dýpkandi. Náði einna mestu afli daginn eftir - eins og næsta kort sýnir:
Innsta jafnhæðarlínan er -320 metrar, það þýðir að miðjuþrýstingur er lægri en 960 hPa. Jafnhæðarlínurnar eru gríðarlega þéttar yfir landinu vestanverðu og úti af Vestfjörðum, en ekki eins hvasst eystra. Ekki snjóaði neitt sem heitið gat á Suðurlandi, en virðist hafa gert það um landið norðvestanvert. Gríðarleg rigning var á Austfjörðum, mældist meiri en 100 mm á tveimur sólarhringum á Teigarhorni.
Veðurlýsing frá Hvanneyri segir þann 6.: Snjóaði töluvert frá 9 f.h. til 6 e.h. en rigndi mikið eftir það. Þann 7. segir: Rigning um nóttina, krapi frá 11 f.h. til 5 e.h. Snjóaði nokkuð eftir það. Þ.8. Stormur (9 til 10) fyrripart nætur, skafrenningur allan daginn og örlítið ofanfall.
Á Suðureyri við Súgandafjörð var alautt þann 5., en kominn 65 cm snjór þann 10. Norður á Lækjamóti í Víðidal féll mestöll úrkoman sem snjór - meðan mesta rigningin var á Hvanneyri. Þar segir þann 6.: Byrjaði að snjóa kl.5, hlóð niður um nóttina, hvessti kl.2-4, moldhríð með roki 2 næstu daga. Fórust hross víða um Húnavatnssýslu, fenntu og sló niður. Fé náðist að mestu í hús.
Hér má sjá brot úr veðurathugunarbók á Veðurstofunni þessa daga, athuganir kl.8 að morgni. Úrkoma að morgni þess 7.mældist 20,8 mm - allt rigning. Að morgni þess 8 eru 10 vindstig af norðnorðaustri og 9 vindstig af norðri þann 9. Örin bendir á athugasemd þar sem segir að 11 vindstig af norðri hafi verið aðfaranótt þess 8. Þetta var í 3 sinn á árinu 1925 að vindur varð svo hvass í Reykjavík. Fyrst varð það þann 21.janúar - um það veður fjölluðu hungurdiskar þann 1.desember 2016, síðan þann 8.febrúar - í halaveðrinu svonefnda. Hungurdiskar munu e.t.v. fjalla lítillega um það fljótlega.
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (2.1.): 1027
- Sl. sólarhring: 1115
- Sl. viku: 3417
- Frá upphafi: 2426449
Annað
- Innlit í dag: 915
- Innlit sl. viku: 3071
- Gestir í dag: 889
- IP-tölur í dag: 823
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.