Austanátt

Svo virðist sem austlægar áttir verði ríkjandi á næstunni - oftast fremur meinlausar. Við lítum á norðurhvelskort sem gildir síðdegis á fimmtudag, 21.nóvember.

w-blogg191119a

Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar, af þeim má ráða vindátt og vindstyrk. Litir sýna þykktina, en hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs, því meiri sem þykktin er því hlýrra er loftið. Mörkin á milli grænu og bláu litanna eru við 5280 metra. 

Yfir Íslandi er ákveðin suðaustlæg átt - þykktin er nærri 5340 metrar, um 60 metrum ofan meðallags áranna 1981 til 2010. Loftið í neðri hluta veðrahvolfs er um 3 stigum hlýrra en að meðallagi. Við jörð er áttin úr austri - þessi snúningur á vindátt með hæð táknar að aðstreymi lofts sé hlýtt sem kallað er - hlýrra loft sækir enn að. 

Eins og síðast þegar við lítum á stöðuna á norðurhveli er Ísland enn um sinn varið fyrir ásókn kulda úr norðri. Háþrýstisvæði - býsna fyrirferðarmikið er austan við land og nær allt austur í Rússland. En kuldinn verður smám saman fyrirferðarmeiri á norðurslóðum. Hvort hann kemur til okkar löngu leiðina (úr vestri) eða þá stuttu (úr norðri) er allsendis óljóst. Við (þeir hófsömu) óskum okkur helst að sem lengstur tími líði þar til hann kemur. 

Hægi á austanáttinni - tekur landið sjálft völdin að einhverju leyti - eins og venjulega. Þá kólnar smám saman inni í sveitum og á hálendinu og getur orðið þar talsvert frost þótt mun hlýrra sé ofan við - og við sjávarsíðuna. Þegar loftið kólnar streymir það í átt til sjávar - loft að ofan streymir þá niður í stað þess sem á brott hverfur og leysir upp öll ský sem aftur ýtir undir áframhaldandi kólnun - þó ofanloftið sé í eðli sínu hlýtt. 

Við vitum ekki enn hversu mikil austanáttin verður í mánuðinum í heild - meðan við bíðum getum við litið á myndina hér að neðan.

w-blogg191119b

Hún sýnir „meðalaustanátt“ allra veðurstöðva í nóvember 1949 til 2018. Reiknaður er meðalvigurvindur alls mánaðarins - (lesa má um hugtakið í stuttum pistli í viðhengi). Því hærri sem súla er á myndinni, því þrálátari hefur austanátt mánaðarins verið, ef vel er að gáð má sjá þykka línu liggja um myndina þvera við núll. Vestanáttarmánuðir lenda neðan línunnar (austanáttin hefur verið neikvæð). 

Við sjáum að enga leitni er að sjá - tíðni austanáttarinnar í nóvember virðist vera nær alveg tilviljanakennd. Hún virðist þó hafa verið ákafari í kringum 1970 heldur en áður og síðar - og nú eru nokkuð mörg ár liðin síðan við höfum fengið nóvembermánuð með ríkjandi vestanátt (svo heitið geti) - en það er þó ekki beinlínis orðið óvenjulegt. 

Svipað má segja um háloftin (ekki sýnt hér) - tilviljun ein virðist ríkja - þar er vigurvindur reyndar nær alltaf úr vestri - austanáttarnóvembermánuðum bregður fyrir - en enga leitni að sjá. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg121124a
  • w-blogg101124c
  • w-blogg101124b
  • w-blogg101124a
  • w-blogg081124d

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (14.11.): 11
  • Sl. sólarhring: 450
  • Sl. viku: 2273
  • Frá upphafi: 2410262

Annað

  • Innlit í dag: 9
  • Innlit sl. viku: 2040
  • Gestir í dag: 9
  • IP-tölur í dag: 9

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband