Endurtekið efni (um hlýnun)

Nú bregðum við okkur rúm 20 ár aftur í tímann. Þá skrifaði ritstjóri hungurdiska grein sem birtist í Lesbók Morgunblaðsins 28.mara 1998 undir yfirskriftinni: „Aukin gróðurhúsaáhrif í íslenskum veðurathugunum“. Greinina prýddi undurfögur mynd (eftir RAX) af hafísröst við Vestfirði - sem tekin var nokkrum dögum áður. Greinina má auðvitað finna á timarit.is, en ritstjórinn rakst á hana í ljósriti á dögunum og finnst ekki alveg út í hött að birta hana hér og nú. Ástæðan er sú að í greininni var auk fortíðar fjallað um framtíðina og settar fram nokkrar einfaldar sviðsmyndir (eins og það er kallað) um þróun hitafars. 

Hér að neðan kemur fyrst texti greinarinnar í heild - ásamt myndum (ekki þó sú fallega). Við sleppum þó millifyrirsögnum. Að lokum eru fáeinar vangaveltur um það sem síðan gerðist í framhaldinu - til loka ársins 2017. Vonandi hafa einhverjir gaman af að rifja þetta upp (en þeim sem ekki hafa það er fyrirgefið - eins og venjulega). Það má nú taka fram að í handriti var titill greinarinnar „Merki um aukin gróðurhúsaáhrif í íslenskum veðurathugunum?“ - öllu þokukenndari (auðvitað) heldur en sá sem síðan birtist í Lesbókinni. Kannski rétt að taka fram líka að árið 1998 sáust ekki enn merki þess að kuldakastinu mikla sem hófst hér á landi árið 1965 (eða svo) væri um það bil að ljúka.

Og hefst þá greinin:

Í fjölmiðlum og manna á meðal er talsvert rætt um hlýnun af völdum aukinna gróðurhúsaáhrifa. Sem vonlegt er sýnist sitt hverjum og er reyndar ástæðulaust að halda að öll kurl séu endanlega komin til grafar í þeirri umræðu. Nokkuð hefur á því borið að hegðan veðurlags á Íslandi síðustu áratugi sé notuð sem röksemdafærsla gegn hugmyndum þorra vísindamanna um hlýnandi veðurlag. Hér sé þrátt fyrir allt kaldara nú en var fyrir miðja öldina. Hér er ætlunin að fjalla lítillega um þetta mál.

w-blogg151119a

1. Hiti á norðurhveli jarðar 1856 - 1997. (Úr safni Hadley-reiknimiðstöðvar bresku veðurstofunnar og Climatic Research Unit við Norwich-háskóla á Bretlandi). Tölurnar á lóðréttu ásunum sýna frávik hita frá meðallaginu 1951-80 í Celcíusgráðum.

Lítum fyrst á kunnuglega mynd sem sýnir meðalhita á norðurhveli frá 1851 til 1997 (1). Súlurnar sýna frávik meðalhita hvers árs frá meðaltali áranna 1951-1980, en þykkari línan sýnir 15-ára keðjumeðaltal. Stöldrum nú við nokkur atriði. Frá upphafi línuritsins til um 1920 er hitinn lengst af að sveiflast svona 0,2° til 0,4° undir meðallaginu áðurnefnda. Um 1920 fer ferillinn að sveigja uppávið. Þó „brekkufóturinn” sé við 1917 er það ekki fyrr en síðar sem greinilegt er að farið er að hlýna. Ef brugðið er blaði fyrir þann hluta myndarinnar sem sýnir tímann eftir 1929 sést að fram undir það eru árin flest á svipuðu róli. En síðan tekur við skeið þar sem hiti nær meðallaginu áðurnefnda. Greinilegur toppur er árið 1944, en síðan gengur hlýnunin dálítið til baka. Hlýjasti hluti þessa tímabils er ekki fjarri 0,3° hlýrri en var síðari hluta 19.aldar. Næsti brekkufótur er um miðjan 8. áratuginn. Ár sem eru marktækt hlýrri en þau hlýjustu fyrr á öldinni koma þó ekki fyrr en 1988 eða svo. Síðustu 10 árin hafa greinilega verið hlýrri en áður þekkist á því tímaskeiði sem þessar mælingar ná yfir. Nú er svona 0,2 - 0,3° hlýrra en var um miðja öldina, þ.e.a.s. 0,5° - 0,7° hlýrra en í upphafi aldar og síðari hluta þeirrar síðustu. Á myndinni má einnig sjá að fyrir 1880 er breytileiki milli ára meiri en síðar hefur verið. Ekki er víst af hverju þetta stafar en skortur á mælingum gæti verið hluti skýringarinnar. Nú er unnið mikið við að reyna að framlengja þetta línurit aftur á bak til síðasta hluta 18. aldar. Óvissan í þeim reikningum er mikil, en þó hefur komið í ljós að hiti virðist a.m.k. tvisvar hafa orðið hærri heldur en var eftir miðja 19. öld, ef til vill ekkert ósvipað því sem við sjáum á íslenska línuritinu hér að neðan. Ef hlýnunin er miðuð við þessi hugsanlegu fyrri hámörk verður hún sennilega nær 0,5° en 0,7°.

w-blogg151119b

2. Hiti í Stykkishólmi 1831-1997. Skásettar punktalínur upp frá vinstri til hægri: Miðlína, leitni (trend) hitans yfir tímabilið í heild (0,633°C/100 árum). Efsta línan er sú sama og miðlína að viðbættum 1,5°C, neðsta línan er 1,5°C undir miðlínunni. Rauði, breiði ferillinn sýnir 15-ára keðjumeðaltöl á öllum myndunum 2 til 6. 

Þá lítum við á mynd (2) sem sýnir hitafar í Stykkishólmi frá því um 1830 til okkar daga. Mælingar hófust í Stykkishólmi 1.nóvember 1845, en með samanburði við mælingar í Reykjavík má með nokkuð góðu móti áætla Stykkishólmshitann aftur á 3. áratug 19. aldar. Enn eldri mælingar eru til og er nú unnið að lausn túlkunarvandamála sem við er að stríða til að nota megi þær til þess að framlengja línuritið aftur til 1775. Hægt er að túlka þessa mynd á fleiri enn einn veg. Hér er hins vegar ætlunin að líta á einn möguleika, þann að hér hafi þrátt fyrir allt hlýnað nokkurn veginn jafn mikið og að meðaltali á norðurhveli.

Hitafarinu má skipta í tvenns konar tímabil, hlý og köld. Fremur hlýtt tímabil stóð í 8 ár eða svo á 5. áratug 19. aldar. Annað hlýtt tímabil var við lýði frá um 1925 til 1964. Hlýjasti hluti þessa síðara tímabils er u.þ.b. 0,5° hlýrri en hlýjasti hluti fyrra tímabilsins, 70 - 80 árum áður (eins og efsta beina línan á myndinni sýnir). Kalt tímabil hófst um 1850 og stóð fram á 3. áratug þessarar aldar. Annað kalt tímabil hófst 1965 og stendur kannski enn. Hlýjustu ár þessa síðara kalda tímabils eru ekki fjarri því að vera 0,5° hlýrri en hlýjustu ár síðasta kalda tímabils. Hitafarið eftir 1965 er nánast eins og beint framhald af þeirri hægu hlýnun sem átti sér stað frá upp úr 1860 til 1920. Veðurfar á Íslandi er með þeim sérkennum að stöku sinnum eru hafþök af ís norðan og austan við land. Þá lokast fyrir upphitun lofts af norðlægum uppruna norðan við land og landið verður eins konar tangi út úr Grænlandi. Þá breytist veðurlag á Íslandi og slík ár fá einskonar „aukakulda”. Við sjáum ár af þessu tagi á síðustu öld, en ekki á þessari. Þetta voru 1836, 1859, 1863, 1866, 1869, 1874, 1881, 1882 og 1892. Við lá að við færum í þetta far 1979.

Beina línan sem liggur um myndina þvera skáhallt gegnum súluþyrpingarnar uppávið til hægri sýnir 0,63° hlýnun á hundrað árum eða u.þ.b. það sama og er á norðurhveli í heild. Hlýindaskeiðin tvö áðurnefndu eru samkvæmt þessari túlkun sérstakar sveiflur sem þurfa aðra skýringu en aukin gróðurhúsaáhrif. Hvað veldur veit enginn, en ýmsar skýringartilgátur hafa verið nefndar en þær verða ekki raktar hér.

w-blogg151119c

3. Framtíðarsýn. Ferlar framlengdir með því að  bæta frávikum hlýskeiðsins um og fyrir miðja öldina (og upphafi síðara kuldaskeiðs) við framhald leitnilínu. Leitnilínan sýnir sem fyrr 0,633°C hitahækkun á hverjum 100 árum. 

Hvert verður svo áframhaldið? Það veit auðvitað enginn. Það gæti t.d. komið nýtt aukahlýindaskeið. Það ætti þá e.t.v. að verða hlýrra en hið fyrra, kannski eins og á næstu mynd (3; „Framtíðarsýn 1a”). „Framtíðin” á þessari mynd er einfaldlega þannig fengin að gamla hlýindaskeiðinu er bætt við línuritið í framhaldi af árinu í ár, en nú væri byrjun þess hlýrri en var um 1920, í upphafi þess fyrra. Kannski heldur núverandi „kuldaskeið” áfram og stendur hátt í eina öld.

w-blogg151119d

4. Framtíðarsýn. Ferlar framlengdir með því að bæta frávikum kuldaskeiðsins fyrra við framhald leitnilínu. Leitnilínan sýnir sem fyrr 0,633°C hitahækkun á hverjum 100 árum. 

Mynd 4 („Framtíðarsýn 1b”) er þannig fengin að frávik gamla skeiðsins frá beinu línunni er líka notað sem frávik áranna 1998-2062 frá sömu línu. Þó er gerð sú breyting að fjögur mestu hafís- og kuldaárin verið skorin burt að nokkru (þau sem lenda neðan neðstu skálínunnar á mynd 2. Ef eitthvað ámóta yrði raunin mættum við bíða lengi eftir jafnhlýjum árum og á 4. áratugnum, jafnvel þó gróðurhúsaáhrifin héldu áfram að aukast eins og verið hefur. Vöntun á hlýjum árum á Íslandi væri því enginn afsönnun á vaxandi hlýnun í heiminum. Við gerð þessarar framlengingar var ákveðið að láta þetta síðara kuldaskeið einnig hanga neðan í línunni eins og hið fyrra. Það breytir þó ekki miklu þó meðalfráviki fyrra kuldaskeiðsins (0,28°) yrði bætt ofan á.

Kannski bætir hlýnunin í sig eins og tölvureikningar virðast benda á. Niðurstöður veðurfarslíkan- reikninga virðast benda til þess að hlýnun á næstu 100 árum verði á bilinu 1,5° til 3° að meðaltali yfir jörðina.

w-blogg151119f

5. Framtíðarsýn. Eins og mynd 3 að öðru leyti en því að í stað 0,633°C hitahækkun á hverjum 100 árum er sett hækkunin sett 3,0°C á 100 árum eftir 1997. Þetta er við efri mörk þess sem líklegt er talið í skýrslum IPCC-hópsins.

Síðustu myndirnar (5; „Framtíðarsýn 2a” og 6; „Framtíðarsýn 2b) eru eins gerðar og myndir 3 og 4 nema hvað á þessum seinni myndum er hlýnunin eftir 1997 sett við efri mörkin eða 3,0°C/100 ár. Takið eftir því að þrátt fyrir þessa miklu hlýnun koma ár sem eru hlýrri en hlýjustu árin á 4. og 5. áratugnum ekki fram fyrr en eftir 2015 í síðara dæminu, en eftir um áratug í því síðara.

w-blogg151119e

6. Framtíðarsýn. Eins og mynd 4 að öðru leyti en því að í stað 0,633°C hitahækkun á hverjum 100 árum er sett hækkunin sett 3,0°C á 100 árum eftir 1997. Þetta er við efri mörk þess sem líklegt er talið í skýrslum IPCC-hópsins.  

Þessi fjögur ímynduðu dæmi ætti ekki að taka alvarlega og auðvitað verður raunveruleikinn einhver allt annar. Kannski kemur hafísinn af fullum þunga aftur? Við gætum e.t.v. fengið „aukakuldaskeið” jafn óvænt og hlýindaskeiðin? Svo gæti auðvitað hlýnað strax á þessu ári?

Niðurstaðan er sú að „skortur á hlýnun” hérlendis er ekki í neinu ósamræmi við hugmyndir um aukin gróðurhúsaáhrif. Svo virðist sem á Íslandi hafi hlýnað alveg jafn mikið og að meðaltali á norðurhvelinu öllu þegar til langs tíma er litið.

- - - 

 

Hér lýkur greininni gömlu. Nú hafa liðið 21 ár (og reyndar nærri því 22). Því má spyrja hvernig þessar sviðsmyndir hafa gengið eftir - hvernig hefur hlýnunin gengið fyrir sig?

w-blogg151119g

Svarti ferillinn á þessari mynd sýnir 15 ára keðjumeðaltöl hita í Stykkishólmi allt fram til áranna 2004 til 2018 - hinir litirnir sýna sviðsmyndirnar fjórar (og byrja á 1984 til 1998). Þær sviðsmyndir sem sýndu áframhaldandi kuldaskeið (og undirliggjandi hlýnun) eru lengst frá því að hafa komið fram, en hlýnunin á þessari öld fylgir hlýrri sviðsmyndunum nánast nákvæmlega. Blái ferillinn sýnir síðan framtíð þar sem (undirliggjandi) hlýnun heldur áfram eins og verið hefur (0,6°C/öld) - en að núverandi hlýskeiði ljúki - eins og því fyrra. 

Bleiki ferillinn sýnir aftur á móti nærri 5 sinnum hraðari hlýnun - hún er svo hröð að „náttúruleg“ kólnun hefur ekki í við hana - þó mikil sé. 

Við ættum að sjá af þessu að það er eiginlega alveg sama hver hitaþróun næstu 40 ára verður hér á landi - allar tölur verða í samræmi við aukin gróðurhúsaáhrif - hitabreytingar til skamms tíma á einum stað segja nær ekkert um það sem er að gerast í heiminum í heild. 

Spurningin er hins vegar sú hvort við höfum undanfarin 20 ár verið að taka út staðbundna hlýnun eða ekki - henni er ósvarað. Það má hins vegar halda því fram að fari hiti næstu 20 ára vel upp fyrir bleika ferilinn sé eitthvað mikið í gangi - og þá trúlega á heimsvísu - hin gríðarlegu hlýindi síðustu 20 ára hér á landi hafi þá ekki verið eitthvað staðbundið. 

Það má benda á að hlýjasta ár alls tímabilsins í Stykkishólmi var 2016 - meðalhiti þá hærri heldur en öll 15-ára meðaltöl sviðsmyndanna. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg010125i
  • w-blogg010125
  • w-blogg271224a
  • w-blogg271224aa
  • w-blogg261224ia

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.1.): 897
  • Sl. sólarhring: 1113
  • Sl. viku: 3287
  • Frá upphafi: 2426319

Annað

  • Innlit í dag: 797
  • Innlit sl. viku: 2953
  • Gestir í dag: 780
  • IP-tölur í dag: 718

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband