24.1.2020 | 14:08
Af árinu 1862
Árið 1862 fær yfirleitt ill eftirmæli, byrjaði þó ekki illa. Hiti í janúar var í meðallagi og febrúar var hlýr, meira að segja í langtímasamhengi, jafnhlýr eða hlýrri febrúar kom ekki aftur fyrr en 1909. Hiti var nærri meðallagi í maí, október og desember, en aðrir mánuðir voru kaldir. Sérlega kalt var í apríl og júlí var einn sá kaldasti sem vitað er um. Ársmeðalhiti í Stykkishólmi var 2,9 stig. Á Akureyri er giskað á að ársmeðalhitinn hafi verið 1,9 stig, en 3,8 í Reykjavík.
Myndin sýnir meðalhita hvers sólarhrings í Stykkishólmi árið 1862. Enginn dagur telst hlýr, en 13 kaldir. Kaldast að tiltölu varð dagana 8. til 11.apríl og svo um miðjan júlí.
Ársúrkoma mældist 663 mm í Stykkishólmi - lítillega undir meðallagi áranna 1961 til 1990. Úrkoma þar var yfir meðallagi í janúar og september, en sérlega þurrt var júlí. Einnig var þurrt í mars, apríl og ágúst.
Myndin sýnir þrýstifar ársins 1862 - byggð á morgunmælingum í Stykkishólmi. Við sjáum að mikið lægðasvæði gekk yfir um miðjan janúar. Því fylgdi nokkur snjór. Rólegt var lengst af í febrúar, sá mánuður talin hagstæður. Mestu kuldunum í apríl hefur lokið með miklum háþrýstingi. Þrýstingur var lágur í maí og júní - júní heldur skakviðrasamur. Júlíþrýstingur nokkuð stöðugur, en þá var kuldatíð eins og áður sagði. Lágþrýstingur var viðloðandi í október og aftur í rúma viku fyrir miðjan desember. Lægsti þrýstingur ársins mældist í Stykkishólmi þann 18.janúar, 945,2 hPa, en hæstur 1044,8 hPa þann 10.apríl. Þann 17.júní fór þrýstingur í Stykkishólmi niður í 978,0 hPa, óvenjulágt um miðjan júní.
Eldgos varð á árinu við vesturjaðar Vatnajökuls, sennilega þar sem nú heitir Tröllahraun. Gosinu virðist hafa fylgt mikil móða og mengun og hefur e.t.v. spillt gróðri - ætti að athuga betur.
Hér að neðan er tíðarfarið rifjað upp með orðum samtímaheimilda. Stafsetning er þó víðast færð til nútímahorfs og texti stöku sinnum styttur. Mikið er um mannskaða á sjó og ekki allt tíundað hér.
Annáll 19.aldar segir:
Þjóðólfur segir besta tíðarfar yfir allt land fyrstu tvo mánuði ársins og ritað hafi verið að norðan að stunguþítt hafi verið á Skaga í Skagafjarðarsýslu og því byggð hús í janúar. Síðan brá til norðanáttar með hryssingi fram í maí. Vorið var víðast fremur kalt og þurrt, þó harðast í Norður-Múlasýslu. Frost voru allan júnímánuð til fjalla í Borgarfirði syðra og eigi stunguþítt í kálgörðum við lok hans. Féll töluverður peningur um Vopnafjörð og Jökuldal. Grasvöxtur var mjög lítill bæði á túnum og engjum, en víðast nýttist töðuhárið vel, en úthey illa, enda tók víðast að mestu fyrir heyafla með höfuðdegi vegna rigninga. Um miðjan september féll mikill snjór bæði syðra og nyrðra, urðu hey víða úti og var nautgripum venju fremur fargað. Aftur var nýting betri í Þingeyjar- og Múlasýslum og einkum í Austur-Skaftafellssýslu, því þar heyjaðist sem í meðalári. Haustveðrátta var víðast um land fremur stirð, stundum fannkoma og blotar á milli, en oftast frostlítið til ársloka.
Hafís kom að Norðurlandi og var að flækjast úti fyrir langt fram á vor, var selur á honum. ... Fiskafli var á vetrarvertíð syðra góður, rýrari á vorvertíð, en þá góður á Vestfjörðum. Norðanlands var mikill fiskiafli um sumarið og haustið, en aflalítið við Faxaflóa um haustið, enda ógæftir mikla, betri undir Jökli og mokfiski við Ísafjarðardjúp.
Janúar: Hlý og hagstæð tíð framan af, en síðan nokkuð umhleypinga- og jafnvel snjóasöm.
Norðanfari lýsir janúar - en dagsetur sig ekki:
Fyrra hluta mánaðar þessa var oftar sunnanátt og blíðviður en seinni kafla hans umhleypingar, norðan- og austanhríðar með bleytu og ísing og þess á millum nokkur frost og seinustu dagana keyrði niður mikla fönn, varð þá hagskarpt vegna áfreða og snjóþyngsla. Hey hafa þótt fremur mikilgæf, einkum töður, sem næstliðið sumar hröktust meira og minna, helst til sveita og dala, og kýr að því skapi í vetur brugðist til mjólkur, en þar töður hirtust vel, er málnyta í góðu meðallagi. Hross, sem úti hafa gengið, þykja nú í lakara útliti, en samsvari því hvað oftar hefir þó verið gott til haga, og kenna menn um það skakviðrunum og hvað nóvembermánuður var aftakaharður.
Þjóðólfur segir frá þann 9.janúar:
Hin sama einstaka veðurblíða, með frostleysum, lognum og öðru hverju regnúða, en oftast þurrviðri, hefir haldist fram á þennan dag, og það um gjörvallt Suður- og Vesturland, að því sem er sannspurt. Góður afli spyrst undan Jökli norðanverðum, nokkur afli á Akranesi, síðan nýár, vestur í svo nefndum Forum, og besti afli suðrum Garðsjó og Leiru; fara nú Innnesjamenn þangað daglega og sækja hlaðfermi, mest af ýsu, en meðfram nýgenginn og vænsta þorsk, í gær og næstu daga þar á undan.
Íslendingur fjallar um tíðina þann 25.janúar:
Með mönnum, sem fyrir skemmstu komu norðan úr Húnavatns- og Skagafjarðarsýslu, höfum vér frétt, að veturinn hafi verið heldur góður nyrðra; að norðaníhlaupið, sem gjörði í nóvembermánuði, hafi orðið mjög hart, en þó hvorki týnst menn eður fénaður. Um þær mundir hafði víða borist mjög mikill rekaviður á land, bæði þar nyrðra og vestur í Strandasýslu. ... Fullyrt er nú, að skúta sú, er Ólsen kaupmaður frá Bíldudal kom á hingað suður í haust, hafi týnst á vesturferðinni (að líkindum við Látrabjarg) með mönnum og öllu, og eitthvað rekið af henni inn á Barðaströnd. Sömuleiðis að hákarlaskip eitt úr Flatey á Breiðafirði með mörgum mönnum á hafi farist í norðanveðri og blindbyl eða náttmyrkri fram undan Rifsós undir Jökli [Þjóðólfur segir þetta hafa verið annan sunnudag í jólaföstu, 15.desember 1861].
Ferðamenn er hingað hafa komið þessa viku og þá sem næst leið, bæði að norðan og úr Skaftafellssýslu, og að vestan, segja hina sömu æskilegu tíð og veðurblíðu fram að miðju þessa mánaðar; síðan hafa gengið útsynningbyljir með allmikilli snjókomu en frostleysum; hefir þetta veðurlag tekið fyrir gæftir og suðurferðir Innnesinga, enda helst hinn sami ágætis afli, fram til veðurbrigðanna, í sjóplássum til mestu bjargar; á Akranesi hefir einnig aflast allvel hvenær sem gæftir hafa verið, síðan milli jóla og nýárs.
Febrúar. Lengst af hagstæð, hlý og blíð tíð.
Séra Þorleifur Jónsson veðurathugunarmaður í Hvammi í Dölum segir um febrúar:
Þessi mánuður hefir liðið með stöðugu blíðviðri og hægð, eins og best viðrar á vordag, flóar flestir þýðir, aurhlaup á vegum, oftast hægvindi og logn á Hvammsfirði í mánuð, sem ekki er vant, farið að litka í hlaðvörpum og á húsum og víða á bæjum.
Norðanfari dagsetur sig ekki en segir í febrúarblaðinu - og á væntanlega við þann mánuð:
Fyrstu vikuna af mánuði þessum voru frostnæðingar, en þaðan af á hverjum degi að kalla allan mánuðinn út besta og blíðasta veðurátt, svo slík er sjaldgæf, um þetta leyti ársins. Víða er og sagt allgott til haga fyrir útigangspening.
Íslendingur segir af tíð, afla og hafís þann 8.febrúar:
Tíðarfarið má alltaf heita gott. Síðustu daga f.m. [janúar] gjörði norðanveður allhart, en það stóð eigi lengi. Til fjalla er kominn nokkur snjór, og sagðar eru jarðleysur austan úr Grímsnesi, svo gefa verði útigangspeningi. Vestan úr Ísafjarðarsýslu höfum vér nýfrétt, að þar hafi verið góð veðurátt, það sem af er vetri; fiskiafli við Ísafjarðardjúp allgóður eftir jólin; hafíshroði sést fyrir Ströndum og á Ísafjarðardjúpi. 6. þ.m. reru nokkur skip héðan af Innnesjum suður í Garðsjó og fiskuðu vel, samkynja fisk og í næstliðnum mánuði. Í dag (8. febr.) er fagurt vetrarveður, frostlítið en bjartviðri, og hafa mörg skip róið héðan suður.
Þjóðólfur segir af veðri og afla í pistli þann 11.febrúar:
Það sem af er þorranum hefir viðrað ágæta vel, snjór féll nokkur eftir miðjan [janúar], er snerist til blota en síðan, um byrjun þorrans, til landnyrðingskólgu með vægum frostum, er því víða hér syðra heldur kreppt að högum, einkum til fjalla, en þó hvergi haglaust; næstliðna viku hafa gengið einstakar veðurblíður, með þurrviðri og þey og stirðnanda á mis einsog þegar best viðrar um sumarmál; þá vikuna voru og bestu gæftir til suðurferða, er hafa haldist til þess í dag, hefir vel og allmennt aflast af feitum stútungi, þyrsklingi og ýsu meðfram, en heitir ekki þorskvart. Á Akranesi helst og alljafn afli hvenær sem gæftir eru til.
Og þann 19. febrúar greinir Íslendingur enn frá hagstæðri tíð:
Póstur er nýkominn austan úr Skaftafellssýslu og segir besta tíðarfar allt austan úr Múlasýslum; lítinn sem engan sjávarafla, en þó orðið fiskvart í Mýrdal, Vestmannaeyjum og vestur með Söndum. Undir Eyjafjöllum í Eyvindarhólasókn niður við flæðarmál og fram undan bænum á Miðbæli höfðu fundist í sandinum stöðvar eftir bæ, er menn geta til að hafi lagst í eyði í svartadauða.
Norðanfari segir í mars frá sjóslysi sem varð 28.febrúar:
Aðfaranóttina hins 28. [febrúar], fórst skip í norðanveðri og strandaði með 11 mönnum á Húnaflóa, var það í hákarlalegu. Formaðurinn hét Sigurður Gunnarsson frá Breiðabólstað í Vesturhópi, giftur bóndi, ... Alþingismaður Ásgeir Einarsson á Þingeyrum átti skipið, sem sagt er að rekið hafi nokkuð brotið á Kaldrananesi í Bjarnarfirði en einn manninn af því á Heydalsá í Steingrímsfirði.
Mars. Kalt í veðri. Hríðasamt nyrðra.
Norðanfari lýsir tíð í marsmánuði - og sjóslysi þann 1.mars:
Allan þennan mánuð, að undanteknum nokkrum góðviðris- og þíðudögum, hafa verið hörkur og þráviður, og stundum norðan- landnorðanhríðar eða köföld. Frostið mest 13 gr. á Reaumur [-16°C]. ...
1. [mars] fórst sexæringur í norðanveðri og hríð með 5 mönnum, er áttu heima á Skagaströndinni, og voru þar framundan á grunnmiðum í hákarlalegu. Formaðurinn hét Guðmundur Helgason giftur bóndi á Syðriey ... Tveir af mönnum þessum höfðu rekið á Þingeyrasandi, og skammt frá bátinn, ásamt veiðarfærum og nokkru fleira, sem og eitthvað af aflanum. Fyrir manntjón þetta hafa orðið 8 ekkjur og sumar þeirra, að sögn, mjög bágt staddar.
Íslendingur segir þann 13.mars:
Eftir blíðviðrið, sem gekk allan næstliðinn mánuð [febrúar], breyttist veðrið þegar í byrjun þ.m. Var hart norðanveður fyrstu dagana og frostið náði 11°R. Aðeins 6. þ.m. var logn, en síðan hafa gengið austan- og nú síðustu 2 dagana útsunnan- og vestanstormar, og fram undir í viku hefur verið snjóhrakningur í lofti, og fallinn er talsverður snjór fjalls og fjöru í millum; en sjómenn vorir kalla það gott fiskigönguveður. Róið var alstaðar af Innnesjum 6. þ.m. og fiskaðist þá lítið; síðan hefur verið gæftaleysi. Suður í Höfnum var sagt góðfiski um fyrri helgi, og farinn að fiskast í Keflavík netafiskur. ... Allstaðar austanfjalls var og farið að fiskast þá seinast fréttist. Tvö skip úr Reykjavík fengu nokkra hákarla rétt fyrir norðanveðrið, síðasta dag f.m.
Og þann 23.mars segir Íslendingur fréttir - ekki allar nýjar:
Vetrarfar hefur allstaðar í landinu mátt heita gott, en nokkuð umhleypingasamt norðaustan á landinu, t.a m. í Þingeyjarsýslu; þannig skrifar oss einn merkur maður úr þeirri sýslu: Ekki verður því neitað, að árferði er betra en að undanförnu; heysöfn urðu almennt vel í meðallagi, sumstaðar betur; en þó er hitt meira vert, að hirðing var betri en á undan; hér af leiðir að kýr gjöra almennt sæmilegt gagn, og er það eina lífsbjörg margra fátæklinga, sem kýrnar gefa af sér. Skurðarfé reyndist einnig með betra móti, bæði á hold og mör; bestan sauð ætla ég mig hafa fengið hér, og gjörði hann 33 pund mörs og 44 lpd. kjöts. Sjórinn hefur brugðist mjög; ógæftir einstakar og afli lítill, enda er sjór sóttur hér miklu linlegar en á Suðurlandi. Trjáreki hefur verið í Húnavatns-, Skagafjarðar- og Eyjafjarðarsýslum; en ekki er hans getið í bréfum til vor austar við land, né heldur af Vestfjörðum, nema Strandasýslu. Meðal slysfara, sem vér höfum frétt má telja, að hákarlaskip af Skagaströnd með 5 manns fórst að líkindum í norðan-áhlaupinu, sem gjörði fyrst í þessum mánuði, og að norður í Keflavík í Fjörðum (í Eyjafjarðarsýslu) fóru hjón og vinnumenn tveir á einum bæ að bjarga bátum undan sjó, en þá kom holskefla, tók bátinn út, hjónin bæði og annan vinnumanninn; hann náði í stein og komst upp meðan útsogaði báruna, en hjónin drukknuðu bæði og fundust eigi síðan.
Apríl: Mjög kalt, sérstaklega fyrstu tvær vikurnar. Snjóasamt nyrðra og í uppsveitum syðra.
Norðanfari lýsir apríltíðinni í aprílblaðinu (ódagsett að vanda):
Veðuráttufarið hefir oftast verið þennan mánuð frostasamt, mest 13 gr. á Reaumur, en 7 að meðaltali, og færri dagar, sem ekki hafi verið hríðarslitringur eða þá meiri snjókoma með hvassviðri; dagana 8. og 17. þ.m. féll töluverður snjór, 15. rigning og leysing, og einstaka dag gott veður og rýmst um þar er jarðar kenndi. Víða hvar komin nokkur jörð. Margir orðnir tæpt staddir með heybirgðir sínar, enda sumir farnir að reka af sér og koma niður. Peningur sumstaðar orðinn að sögn dreginn og magur og því líklegt, ef ekki því betur vorar, að eitthvað af honum týni tölunni, verði ekki meiri fellir. Austanpóstur Níels Sigurðsson kom hingað á Akureyri 16. þ.m. og sagði ill veður og mikla snjóa á leið sinni, Jökuldæli mjög tæpt stadda með hey en Héraðið og Austfirðina betur.
Íslendingur segir frá:
[7.apríl] Þá dagana, sem af eru aprílmánuði, hafa gengið hér norðan- og norðaustan-stormar með frosti og fjúki, og ekki orðið á sjó komist, hefur því lítið aflast hér í Faxaflóa. Frostið hefur náð 15°C.
[30.apríl] Síðan einmánaðarbyrjun og einkum frá upphafi aprílmánaðar hefur verið slæm tíð, stormasöm, og snjókoma í mesta lagi víða til sveita. Hér syðra hefur reyndar fallið lítill snjór fram við sjó hér á nesjunum hefst snjór aldrei við að staðaldri en upp í Borgarfirði og austur á sveitum er sagt, að fannkoma hafi orðið mikil, og heyrt höfum vér, að norðanpóstur, sem héðan fór 3. þ.m., hafi setið hálfan mánuð um kyrrt í Borgarfirði sökum illviðra og fanndýptar, og er slíkt fáheyrt um þennan tíma árs. Eftir því sem hér hefur nú viðrað um tíma, er mjög líklegt, að hafísar séu á hrakningi fyrir Norðurlandi, og að þar hafi komið harðindaskorpa. Stormar þessir hafa ollað gæftaleysi hér syðra, einkum í öllum veiðistöðum Gullbringusýslu, og er slíkt hinn mesti skaði, og hlýtur að draga illan dilk eftir sig; hlutir eru því enn þá mjög litlir hér á öllum Innnesjum og suður með sjó, en úr því fer að batna.
Þjóðólfur segir þann 24.apríl:
Skipstrand. 31. [mars] eða 1. [apríl} strandaði í Meðallandi jagtskipið Ingólfur, eign Eyrarbakkareiðaranna; það átti að færa saltfarm til Eyrarbakka og Hafnarfjarðar. Skipverjar allir 5 komust af.
Þjóðólfur segir þann 16.júní frá skipsköðum í apríl (trúlega þeim sömu og nefndar eru hér að ofan - þá í mars):
Á einmánuði í vor, eða í öndverðum apríl fórust 2 hákarlaskip á Húnaflóa eður um þær stöðvar, annað fyrir framan Strandir innarlega, það skipið átti Ásgeir alþingismaður Einarsson á Þingeyrarklaustri (var á Kollufjarðarnesi), og voru á því 11 manns ... Hitt skipið var af Skagaströnd, var formaður þess og eigandi Guðmundur Helgason frá Syðri-Ey, en 5 manns voru á því skipinu, og týndust þar af báðum þeim skipum 16 manns.
Norðanfari segir í maíblaðinu aprílfréttir af Vesturlandi:
Af Vesturlandi hefir oss verið skrifað, að þar hafi komið í aprílmánuði miklir snjóar, sem hér víða um sveitir, og frostið orðið að 1820 gr. á Reaumur. 16.dag sama mánaðar, hafði og gjört ofláta landnorðanveður, svo allan Breiðafjörð rauk; 2 menn urðu þá úti, sem áttu heima í Steingrímsfirði og voru á ferð norðan af Kúvíkum. Í þessu sama veðri hröktust 17 kindur af Flatey á Breiðafirði í sjó. Kaupskip var þar á ferð í sama veðri utan eyjar, sem nær því hafði fleygt um, en skipverjar með hörkubrögðum fengu rétt við og siglt því inn á Stykkishólmshöfn.
Maí. Góð tíð lengst af og vorleg.
Norðanfari lýsir maítíðinni:
Frá því 4. þ.m. hefir veðuráttan verið hverjum degi blíðari og betri, svo flestar sveitir eru að miklu orðnar snjólausar. Aftur er sagt í snjóþyngslaplássum sé varla sauðjörð komin upp. Haldist því þessi góða tíð,og jörð nái að gróa eftir sem nú eru horfur á, þá eru líkindi til að skepnuhöldin verði betri, en útleit fyrir, í byrjun þessa mánaðar, þegar margir voru komnir á nástrá, og enda nokkrir, sem aldrei áður hafa bilað í því tilliti.
Júní. Heldur stirð tíð og með illviðrasamara móti í flestum landshlutum.
Norðanfari lýsir júnítíðinni:
Veðráttufarið hefir yfir þennan mánuð verið úrkomulítið en oftast kalt og norðan og stundum frost til fjalla á nóttunni, og nokkra daga éljagangur með snjókrapa ofan í byggð. Fönn er því enn mikil í fjöllum og í afréttum. Af veðráttunni er sagt betra að vestan úr Húnavatns- og Skagafjarðarsýslum. Aftur lakari í Þingeyjarsýslu. Horfur á grasvexti eru, sagðar betri vestra en hér, en miklu lakari norðurundan.
Íslendingur segir af tíðarfari og aflabrögðum þann 7.júní:
[V]eðurátt [hefur} mátt heita allgóð, að vísu nokkuð köld og vætusöm, en all-hagstæð fyrir grasvöxt og sauðburð til sveita, en fremur óstöðug og erfið sjávarmönnum, sem þerrir þurfa fyrir alls konar fiskiföng; og víst mun saltfiskur sumstaðar liggja undir skemmdum, ef þerrir kemur ekki bráðum. Gæftir á sjóinn hafa verið rétt í meðallagi, og mundi allvel hafa aflast þeirra vegna, en bæði er nú, að fiskur hefur verið fremur lítill og stopull fyrir ...
Íslendingur segir frá þann 4.júlí (aðallega um júní):
Veðurátt hefur mestallan júnímánuð verið með stirðasta móti, stormar af ýmsum áttum, kuldar og votviðri; snjó hefur fest í fjöllum og hagl sést niður í byggðum; um Jónsmessuleyti var 2 eða 3 gráða frost um nætur i Kjósinni; er því engi furða þó grasvöxtur sé með minnsta móti; kál- og kartöflugarðar eru ekki betri nú í byrjun júlímánaðar en um fardagaleyti í fyrra sumar. Fiskiafli varð einhver hinn rýrasti hér syðra þessa vorvertíð, og miklu meiri urðu vorhlutir í fyrra en nú; þilskip eru nú 6 talsins í Gullbringusýslu, sem innlendir menn eiga, og hafa 3 þeirra verið fremur heppin með þorskafla. Eitt þeirra, sem Jón hreppstjóri Jónsson á Hraunprýði við Hafnarfjörð er formaður fyrir, kom fyrir skemmstu vestan frá Hornströndum, hafði farið allt austur fyrir Horn og fengið frekar 4000 þorska í þeirri ferð, og að auki nokkuð talsvert af öðrum fiski á ekki löngum tíma. Litlu fyrir Jónsmessu kom þilskip þetta að landi vestur við Snæfjallaströnd og sagði Jón oss, að þar hefði þá enginn vottur sést til gróðurs, en snjór hefði legið á jörðu, og mannháir skaflar niður við flæðarmál. Er eigi furða þó landið sé fótkalt þar norður, þegar svo viðrar hér syðra sem nú er reynd á orðin.
Mannskaðar á sjó hafa orðið hér syðra í vor. Snemma á vorvertíðinni [Norðanfari segir 15.maí] fórst bátur af Akranesi með 4 mönnum, er allir týndust, þeir voru á heimleið úr beitufjöru; formaður hét Gísli Gíslason frá Sýruparti á Akranesi. 18. júní fórst bátur í fiskiróðri af Seltjarnarnesi, einnig með 4 mönnum og drukknuðu allir, formaður hét Þórður Hinriksson, bóndi á Melshúsum í Reykjavíkursókn. 23. s.m. fórst annar bátur af Seltjarnarnesi í fiskiróðri með 3 mönnum, formaður var Sigurður bóndi Sæmundsson frá Presthúsum á Kjalarnesi, nýtur bóndi; hásetar hans voru 2 unglingspiltar báðir mannvænlegir.
Júlí. Mjög óhagstæð tíð nyrðra, köld og bleytusöm, þurrt og sólríkt syðra, en heldur kalt.
Norðanfari lýsir tíð í júlímánuði:
Veðuráttan hefir nær því allan þenna mánuð verið norðan með þoku og kuldum og nokkrum sinnum úrkomukrapa og snjókomu á fjöllum, þó að sögn meira nyrðra og eystra en hér, hvar vegir sumstaðar í óbyggðum urðu vegna fanndýpis nær því ókleyfir. Grasbrestur er sagður mikill víða hvar, einkum á harðvelli nálega allstaðar hvar til fréttist, sér í lagi til dala og á útkjálkum, og jörð sé varla ljáberandi og ekki nógir hagar fyrir pening.
Íslendingur segir af eldgosi þann 18.júlí:
Skaftfellingar og Rangæingar hafa flutt þá fregn suður hingað, að síðan mánudag, 30. [júní], hafi reykjarmökkur geysi mikill sést norður af Skaftárjökli, inn í óbyggðum. þeir fullyrða, að ekki sé hann í Skaftárjökli sjálfum, heldur lengra norður, t.a.m. í Ódáðahrauni eða Trölladyngju, eða einhverstaðar þar um svæði. Vér vitum ekki meir um það. En víst er loftið um þessa daga og veðurlagið fremur undarlegt og eldgoslegt. Það er einhver dumbungur, einhver molla yfir öllu, það er eins og byggðirnar leggi við eyrum og sé að hlusta á hvað gjörist þar inn frá; en engum hugsast að forvitnast um hvar eldurinn er, eða hvernig hann hagar sér. Það er enda líklegt, að gos þetta, hvort það er mikið eða lítið, verði í haust kunnugra í Edinborg og London, en í Reykjavík eða á Akureyri.
Þjóðólfur segir af eldgosi þann 30.júlí:
Mánudaginn 30. [júní] og þriðjudaginn 1.[júlí] sást úr byggð í sveitunum milli Kúðafljóts og Brunasands að mikinn reykjarmökk lagði hátt á loft upp norður af byggðinni, var hann að sjá nálægt í hánorður af Síðunni og úr Meðallandinu rétt vestanvert við fjallið Karlbak, sem er hæsta fjallið framarlega (sunnarlega) og austantil á Síðumannaafrétti en einmitt í þessa stefnu, þar úr byggðinni, eru eldsupptökin 1783, og óttuðust því byggðamenn, sem von var, að þessi eldsupptök, er mökkinn lagði upp af, væru nálægt hinum sömu stöðvum. En úr Skaftártungu að sjá bar mökkinn í landnorður, og varð það þegar nokkurnveginn auðsætt af þessari stefnu að eigi væri upptökin hérna megin Vatnajökuls eða Skaftár, en hún hefir upptök sín undan vesturútnorðurhluta jökulsins og er sá hluti nú almennt nefndur Skaftárjökull; þessvegna sannfærðust menn brátt um það, að eldsupptök þessi, er mökkinn lagði nú upp af, væri ekki nálægt þeim stöðvum, þar sem hinn mikli jarðeldur 1783 kom upp, heldur hlyti þau að vera að norðanverðu við jökulinn eða að minnsta kosti fyrir norðan fjallgarð þann, er liggur fast frá útsuðurhorni jökulsins vestur með Skaftá fyrst og vestur til Uxatinda og þaðan vestrí Torfajökul. Þetta hefur nú ítarlegar staðfest, er nokkrir Síðumenn undir forstöðu Bjarna hreppstjóra Bjarnasonar á Keldunúpi fóru undir miðbik [júlí] þar norður undir jökulinn og gengu þeir úr skugga um, að eldsupptökin væri ekki þeim megin jökulsins.
Á hinn bóginn má ráða það af öllum fregnum, er hafa borist í þessum mánuði norðan úr Múlasýslum, Þingeyjar- og Eyjafjarðarsýslu, er allar segja svo, að þar hafi hvergi orðið vart við eldgos þetta, og hvorki mökk né öskufall, að eldsupptökin hljóti að vera fyrir sunnan Ódáðahraun eða sem fjærst öllum þeim byggðum, eða með öðrum orðum einhverstaðar sem næst norðanundir Vatnajökli, eða nálægt Herðubreið, Trölladyngjum eður Dyngjufjöllunum, sem kölluð eru. Á meðan eigi verður betur kannað þar um öræfin, er engi mannaleið liggur nálægt, nema ef vera skyldi hinn svo nefndi Vatnajökulsvegur, austur af Sprengisandi og austur á Jökuldal, en hann er næsta sjaldfarinn, þá verður eigi hægt að skýra nákvæmar frá þessu að svo komnu.
Nú er í annan stað að minnast nokkuð á, hvar og hvernig þetta eldgos hefir komið í ljós og á afleiðingar þess, að því er framast hefir fregnast. Vér höfum áreiðanlegar fregnir úr Múla-, Þingeyjar- og Eyjafjarðarsýslum frá fyrri hluta þ. mán. og fram yfir hann miðjan, og hafði þar hvergi orðið vart eldgossins á neinn veg, en þar hafi og gengið stöðug norðan- og landnorðanátt, en aldrei landátt gjörvallan þenna mánuð, og var því vindstaðan þaðan stöðugt í móti gosinu. Þetta kemur líka heim við fregnirnar austan úr Skaftafellssýslu, en þær höfum vér áreiðanlegar fram til 24. [júlí], því þar hefir gengið stöðug norðan- landnorðanátt allan þenna mánuð. Vér gátum þess frá upphafi hvenær eldmökkurinn sást fyrst í Skaftafellssýslu og var það um sama leyti og einkum miðvikudaginn 2. og fimmtudag 3. þ.mán. að mökkurinn sást glöggt úr Rangárvalla, og Árnessýslu, einkum af Eyrarbakka; hér sunnanfjalls sást aldrei mökkurinn sjálfur, en allt austurlandnorðurloftið var um þá daga þakið eldmistri héðan að sjá, og það oftast daglega fram til 16. þ. mán., helst á morgnana og framan af degi, en veðurstaðan hefir og verið hér heldur á utan eður útnyrt. Dagana 2.5. [júlí] og jafnvel oftar sást eldlitur á sól og roði í sólargeisla í húsum og eldlituð sól uni sólsetur. Öðruhverju hafa heyrst dunur og dynkir í Skaptafellssýslu fyrir austan Mýrdalssand, var það mest miðvikudaginn 2. [júlí], og svo öðru hverju fram til 15. eða 16. [júlí], þá heyrðust enn 2 eða 3 dunur í norðri austur á Síðu. Mökkur sást þar síðast 17. [júlí] og ætlum vér, að það væri þann sama dag eður daginn fyrir að hér sæist síðast mistur á austurlofti. Það er sagt eftir þeim Bjarna á Keldunúpi, er gengu norður á Síðumannafrétt, að þeir hafi glögglega séð 3 mekkina og bil á milli þeirra að neðan. Eigi þykir vissa fyrir því, að öskufall hafi komið neinstaðar nema þann eina dag 2.[júlí], er mökkurinn stóð mestur og svartastur af norðri landnorðri fram af Síðuheiðunum; veður var þá heiðskírt að öðru, en varð svo myrkt af mekkinum og öskufallinu, að eigi sást til Holtsborgar sunnan úr Landbroti ofanverðu.
Öskufall þetta gekk yfir allar utanverðar Síðuheiðarnar og byggðina, sem þar er fyrir vestan Kirkjubæjarklaustur, ytri hluta Landbrots og yfir Meðallandið að utanverðu; það er merkilegt við öskufall þetta að þess sá engi merki norðantil á Síðumannaafrétt, eftir því sem haft er eftir þeim Bjarna, en aðeins um fremra hlutann og heiðarnar (búfjárhagana) þar suður af; mætti af því ætla, í fljótu máli, að eldsupptökin væri þar á afréttinni og eigi allnorðarlega, en það er ekki; önnur vindstaða að utan hefir sjálfsagt klofið mökkinn þar norðurfrá, og staðið af Torfajökli austur innaf Uxatindum.
Um þetta öskufall og afleiðingar þess þar um byggðirnar setjum vér hér kafla úr bréfi Magnúsar hreppstjóra Magnússonar á Sandaseli í Meðallandi til Magnúsar justizráðs Stephensens í Vatnsdal, dags. 9.[júlí], er vér höfum fengið leyfi til að auglýsa: Ekkert get ég greinilega skrifað yður hér um eldinn, en hreint er mér óskiljanlegt eftir kortinu, að hann geti í Kröflu verið, þar mökkinn leggur í hreinni norðanátt þvert framyfir Karlbak, en [að] Leirhnúkur, sem er fyrir austan Mývatn, laust fyrir austan Jökulsá í Axarfirði, eður Krafla, sem þar er rétt suðuraf, geti hingað í hreinni norðanátt spúið reyk og eldi [skil ég ekki heldur]; því mun hann hljóta að vera í Skaftárjökli og varla í þeim gömlu eldgljúfrum, þar engi merki sjást enn til að Skaftá þorni upp". ... Miðvikudaginn þann 2. [júlí] lagði mökkinn hér fram yfir með svo miklum reyk og bláma, að varla sást bæja á milli og brennisteins saft svo, að allt það fínasta í túnum og útvallendi alhvítnaði upp og allt gras visnaði hér umbil til þriðjungs, að undamtekinni elting, sem ekkert sér á. Sagt er, að ljár muni ekki verða borinn að túnum á út-Síðunni, og öll jörð er þar yfir að líta hvít, þegar á hana blasir héðan. Allur fénaður fyllir sig hér í mýrunum, samt hefir málnytupeningur misst nyt hér um bil til þriðjunga og smjör svo þurrt sem á vetrardag. Það er ímyndan okkar að eldurinn sé í rénun".
Yngri fregnirnar, er vér höfum fram til 24. [júlí] staðhæfa nú að vísu öll aðalatriðin í þessu bréfi, en segja þó, að jörð hafi verið farin að lifna við aftur, að minnstakosti yfirlits, og málnyta búin að ná sér aftur að mestu, enda hafi og verið megnt kuldakast þá dagana er öskufallið kom, eigi síður en hér; en sneggja og grasbrestur á túnum og valllendi þar eystra viðlíka og annarstaðar um land, eins og síðar mun fráskýrt.
Þann 31. júlí ræðir Íslendingur enn um eldgosið - en af því eru litlar fréttir í raun - einnig eru fluttar fréttir af tíð:
Um eldgosið getum vér því miður lítið frætt lesendur vora að sinni. Vér höfum talað við menn, sem nýkomnir eru austan úr Múlasýslum, bæði sunnan um land yfir Skaftafellsýslu og norðan um land yfir Þingeyjar- og Eyjafjarðarsýslur, og hvorugir hafa getað annað sagt, en að eldur væri uppi inni í óbyggðum, og vart hefur orðið við öskuryk, einkum í Skaftafells- og Rangárvallasýslu og úti í Vestmannaeyjum. Norður í land hefur að líkindum síður lagt öskuna, því að vindur hefur því nær alltaf verið á norðan, og fyrir því lagt bæði reyk og ösku suður á loftið. Ein fregnin sagði, að eldur væri uppi á tveim stöðum, og mundi annar vera í Dyngjufjöllum hinum syðri, en annar í Trölladyngju; hvorttveggja er í Ódáðahrauni. Er það að vísu heppilegt úr því eldur er uppi á annað borð, að hann er sem lengst frá mannabyggðum.
Veðuráttin hefur um langan tíma verið mjög þurr og köld, með þokum og svækjum nyrðra, en hér syðra er oft og tíðum sólskin þó vindurinn sé kaldur. Til fjalla er sagt að frost sé á hverri nóttu. Allstaðar er grasbrestur í mesta lagi, og út lítur fyrir að heyskapur verði rýr um allt land; komi nú votviðrakafli þegar á líður sumarið, þá er skepnufellir vís. Vorharðindi og skepnufellir er sagður úr Múlasýslum, einkum úr Vopnafirði. Vart hefur orðið við hafís fyrir Þingeyjarsýslu, en víst munu lítil brögð að honum.
Ágúst. Ágæt tíð um mestallt land.
Norðanfari lýsir tíð í ágústmánuði:
Veðuráttan hefir yfir mánuð þennan verið einstaklega þurr og hagstæð, og töður manna og úthey, sem í garð er komið hefir hirst einkar vel og heyið að því skapi kjarngott og bætir að nokkru úr grasbrestinum, sem alltaf er mjög kvartað yfir.
Þjóðólfur segir af tíð og aflabrögðum þann 12.ágúst - aðallega að norðan:
Þetta liðna vor hefir eigi orðið kallað illviðrasamt eða hart neinstaðar um land, nema í Norðurmúlasýslu, en fá vor eða máske engi muna menn eins jafn-þurr, köld og ómjúk sem þetta, og máske ekkert vor með þeim einstaka grasbresti á túnum og útjörð um messur og undir slátt, eins og nú var yfir allt land. Það varð ekki kallað, að lygn eða eðlilega hlýr dagur gæfist til enda gjörvallan júnímánuð né fram yfir miðjan [júlí]; og þegar sleppt er 23 úrkomudögum af líðandi Jónsmessu, þá mun engi sú nótt hafa verið fram til 5.6. [júlí], að eigi væri frost til fjalla, og fremst (efst) til dala í Borgarfirði voru svo mikil næturfrost 1.3. [júlí] og um það skeið, að mýrar voru víst mannheldar á morgna fyrir sólarupprás þar um sveitir, var og sumstaðar eigi orðið stunguþítt í kálgörðum um júnílok. Regnskúrir og áleiðingar hafa verið sjaldgæfar, og aldrei hér áfall á nóttu að kalla má, fyrr en framan af [ágúst], og varla deigur dropi komið úr lofti gjörvallan [júlí] og fram til 9. þ.mán., en oftast voru það krapaél, svo að hvítnaði í fjöllum; og var svo mikil kornélshríð norður í Þingeyjarsýslu 7.[júlí], að alhvítt varð í byggð. Í Norðurmúlasýslu bættist nú það á, að þar voru grimmdarhörkur fram eftir öllu vori, og jörð jökli þakin og fönn fram undir fardaga í sumum sveitum; féll þar og talsverður fénaður einkanlega um Vopnafjörð og Jökuldal og um Firðina sem kallað er; sumar fregnir segja, að þar um sveitir hafi fallið 4000 eður meir. Kafli úr bréfi frá merkum manni í Þingeyjarsýslu sunnanverðri, dagsett 14. [júlí], lýsir bert ástandinu þar: Hér í sýslu er nú eitt hið mesta bágæri, skepnuhöld verða erfið hjá öllum, því hey voru létt og óholl, svo féð varð sjúkt og svo ómögulegt að halda því við hold, og féll svo víða úr blóðkreppusótt og aflleysi. Tún eru enn lítið sprottin, eu engi graslaus og hagi að eins með sauðgróðri, og á fjöllum uppi sést víða ekki grænt strá. Veðráttan er sífelld á austan, þokusöm og köld og sjaldan úrfelli, [hér syðra hefir veðurstaðan stöðugt verið á norðan- útnorðan] nema snjófall verði á fjöllum, og oft frost i nóttum. Allt að þessu hefir ekki orbið fiskvart, en sumir hákarlamenn hafa hitt á góðan afla. Hafís er sagður fyrir öllu landi að norðan og mitt inn í milli Kolbeinseyjar og Grímseyjar".
Úr öllum vestari sýslum Norðurlands og allstaðar að annarstaðar hefir verið látið vel yfir fjárhöldum, og sauðburður hefir heppnast vel. En allstaðar að er kvartað yfir megnum grasbresti á túnum og vallendi, enda líka á mýrum víða hvar; þar á bætist það, að víða brann af hálendum og harðlendum túnum í þessum skrælandi þurrk nótt sem dag, þegar aldrei er áfall sakir kulsins og aldrei logn, og hafa þaraðauki verið vandræði að ná þessu litla grasi af túnum, er aldrei dignar í rót. Það mundi og einkennilegt við þetta kalda og þurra sumar, og jafnvel einsdæmi, að til þessa hefir orðið mjög lítið vart maðkaflugu, og varla sést vígjur í fiski eða öðrum mat.
Íslendingur segir af veðráttu og eldgosinu í pistlum þann 21. ágúst:
Veðuráttin hefur einlægt verið þurr og heldur köld, varla aldrei komið deigur dropi á jörð allt til 16. þ.m., síðan er sunnan- og útsunnan átt með vætu. Tún eru víða hvar alhirt, en allir kvarta um megnan grasbrest. Sagt er að hafís muni vera í nánd við Vestfjörðu og Norðurland allt. Sjávarafli hefur orðið allgóður á Vestfjörðum, og mundi afbragðsgóður orðinn við Ísafjarðardjúp, ef kvefsóttin hefði eigi truflað atvinnu manna. Hér syðra aflaðist um tíma síld í mesta lagi á Hafnarfirði, og hafði margur gott af, einkum þeir, er höfðu hana til beitu fyrir annan fisk. Nú er hér því nær fiskilaust. Þiljubátum hér syðra hefur gengið heldur vel fiskiafli í sumar.
Eldgosið í óbyggðum. Frést hefur hingað, að dr. Grímur Thomsen og nokkrir menn með honum, hafi í öndverðum þessum mánuði [ágúst] riðið upp af Rangárvöllum norður yfir Tungná, til að forvitnast um eldinn, og komist norður í Hágöngur skammt frá Tungnafellsjökli, hafi þeir þá séð reykjarmökk mikinn þaðan í austur landsuður, og lagði reykinn suður á Vatnajökul. Þykja því líkur til, að eldgos þetta sé í Vatnajökli norðanverðum. Ekki urðu þeir varir við vikur eður önnur ummerki þessa jarðelds. En frá urðu þeir að hverfa sökum heyleysis handa hestum sínum, en hagar eru engir um það svæði, sem kunnugt er. Þeir menn, sem komið hafa hingað úr Múlasýslum geta engar sagnir fært oss af eldgosi þessu. Undarlegt má það virðast, ef enginn skyldi grennslast betur en búið er um þetta eldgos.
Þjóðólfur birti þann 22.ágúst slysafréttir úr fyrri mánuðum:
Tveir efnilegir menn á besta aldri, Björn Pálsson og Benedikt Guðbrandsson vestur í Steingrímsfirði á Ströndum voru til sjóróðra vestrí Bolungarvík næstliðna vetrarvertíð, og ætluðu þeir að bregða sér snöggva ferð heim í Steingrímsfjörð fyrir páskana [20.apríl]. Þeir lögðu frá Lágadal á Langadalsströnd upp á Steingrímsfjarðarheiði, miðvikudaginn fyrir skírdag þ.á. (16.apríl), en bylur datt á um nóttina, og kom hvorugur fram síðan; fannst lík Björns undir vörðu þar á heiðinni, en stafur Benedikts nálægt réttri leið, en sjálfur var hann ófundinn, er síðast spurðist.
Í ofviðrinu að morgni hins 25. [júní?] tapaðist bátur með 3 mönnum á frá Gróttu á Seltjarnarnesi; Um mánaðamótin júníjúlí fórst flutningsbátur eða skip frá Vatnsfirði í Ísafjarðarsýslu á heimleið þangað utan úr Bolungarvík, voru þar 4 menn á og týndust 3 þeirra og voru 2 af þeim vinnumenn prestsins síra Þórarins Böðvarssonar; hann missti þar og að sögn, allmikið af veiðarfærum o.fl.
Íslendingur birti þann 12.september kafla úr bréfi úr Miðdölum, dagsett 15.ágúst:
Veðráttan hefur verið einstök kulda og þurrviðratíð síðan með júlímánaðarbyrjun. Áður voru hregg og kaföld; þó snjóaði og svo hér á fjöll um byrjun hundadaga. Reaumur hitamælir stóð jafnast um hádaginn í skugganum 58°, en um sólsetur á 30°, við afturelding og sólarupprás þá er kaldast við jörðina 2°, því hélufall var á hverri nóttu og hart frost á fjöllum. Nú í rúma viku er veðráttan mildari; í dag 15° í sólfarslausu. Grasvöxt man ég ekki lakari síðan ég fór að taka eftir og varla svo slæman. Af túnum fellur 1/2-2/3 við það í góðum árum, á túnum, sem eru í framför og bestu rækt, vantar 1/4-1/6 við í góðum árum. Útengi er að sínu leyti þó lakara. Nýting er afbragð. Málnytja er yfir höfuð í lakara lagi, hún leit út fyrir að verða góð og hefði orðið það, því mikið var gefið að vorinu, en frostin kipptu öllum smjörkosti úr grasinu og þurrkarnir mjólkurhæðinni. Heilsufar og höld á fénaði er einstaklega gott.
September. Umhleypinga- og stormasamt lengst af. Mikil skaðahríð nyrðra undir miðjan mánuð. Batnaði nyrðra eftir þann 20., en illviðri og úrkomur héldust syðra.
Norðanfari lýsir tíð í september:
Veðuráttan var þennan mánuð mjög stormasöm, og oftast sunnan - útsunnan og stundum með úrkomu, svo erfitt veitti með þerrir á heyjum; og vegna hvassviðranna að töluverðir heyskaðar yrðu, enda á stöku stað á húsum. 12.13. þ. m. var landnorðan hríð með snjókomu og frosti, svo ókleyf fönn kom á fjöll og sumstaðar mikil í byggðum, helst á útkjálkum. Kúm og fleiri skepnum varð að gefa hey inni. Í byrjun hríðarinnar jós upp foráttu brimi, svo skip brotnuðu eða tók út, einnig rekavið sem var í fjörum ásamt afla og ílátum. 15.20. var úrkomusamt, en þaðan af til loka mánaðarins hin æskilegasta tíð, blíðviðri, sunnanátt og sólskin.
Íslendingur segir af tíð þann 12.september:
Veðurátt er alltaf í kaldara lagi. Seinustu daga ágústmánaðar var sunnan- og útsunnanátt, og á höfuðdaginn sjálfan (29. ágúst) ofsaveður af suðri, þó varð eigi skaði af, svo vér höfum frétt. Nóttina milli 9.10. þ. m. var ákaft næturfrost niður að sjó, og snjór féll á fjöll um þá daga; nú er vindur aftur genginn til suðurs með úrfelli. Allir kvarta um megnan grasbrest, en nýting hefir orðið góð, svo langt sem heyrst hefur. Sjávarafli er mjög lítill og fæstir gefa sig við honum um þessar mundir. Þilskip, sem til fiskjar hafa gengið hér syðra, hafa aflað í betra lagi.
Þjóðólfur segir af skiptöpum í pistli þann 29.september:
Nálægt 10. [september] sleit upp kaupskip er lá fyrir akkerum á Vatneyri við Patreksfjörð vestra, með talsverðri vöru; Þorsteinn lausakaupmaður Thorsteinsson átti þá vöru eða yfir henni að segja; en nú varð það allt strandrek, skip og vara, og var selt uppboðssölu. 25. þ.m. sökk spánskt skip Ophilio [Teofilo segir Íslendingur] að nafni, skammt fyrir sunnan Fuglasker; það var vænt skip og vandað á allan veg, og aðeins 6 ára, og var nú á leið hingað, til Siemsens kaupmanns, með saltfarm frá Englandi, og átti að taka hér saltfisk aftur og færa til Spánar. Skipverjar voru 9 að tölu; höfðu þeir að vísu orðið varir nokkurs leka 2 síðustu dagana, svo að þeir máttu aldrei frá pumpunum fara, en samt kom þessi sjófylling að með svo bráðum atvikum, að skipið maraði allt í kaf fyrr en nokkurn varði, svo að þeim gafst naumlega það ráðrúm að höggva sundur festar skipsbátsins, hleypa fyrir borð og snarast í hann, hálfnaktir eins og þeir stóðu að hörku störfum, en fengu alls engu bjargað.
Íslendingur segir af septembertíð þann 4.október:
Tíðarfarið hefur allan septembermánuð verið mjög stirt, sífelldir stormar og rigningar, svo ekki má kalla að menn hafi getað leitað bjargræðis síns, hvorki á sjó eða landi. Einkum er þetta tilfinnanlegt fyrir sveitabóndann, því flestir, ef ekki allir, hafa átt meira eða minna hey úti, sem nú hefur hrakist og orðið lítt nýtt, og ef til vill ónýtt með öllu. Kom það sér nú því lakar, sem grasvöxtur var allstaðar í rýrasta lagi, en margur hefði getað til góðra muna aukið heyafla sinn, ef vel hefði viðrað fram eftir haustinu. En nú er öðru að heilsa. Það væri fróðlegt, en ekki skemmtilegt, að frétta, hvað mörgum kúm og lömbum menn þurfa nú að farga sökum þessa heyleysis, sem nú verður allstaðar í landinu. Vér höfum frétt, að í sumum sveitum bjóða menn kú með kú, eða þá 9 lömb, en fóður fáist þó ekki. Skiptapar. Frést hefur, að kaupskip eitt hafi öndverðlega í septembermánuði slitið upp vestur á Vatneyri við Patreksfjörð, og hvorttveggja skemmst svo, bæði skip og góss, að selja varð á uppboðsþingi. Sagt er og, að skip eitt, er koma átti til Akureyrar og flytja meðal annars við til kirkju þeirrar, er þar er nú í smíðum, hafi brotnað í spón við Færeyjar, en mönnum orðið bjargað.
Þann 15.desember birti Íslendingur bréf af Selströnd (við Steingrímsfjörð), dagsett 30.september:
Fréttir eru nokkrar úr þessu héraði, en þær eru ekki allar þar eftir góðar. Vorið sem leið var hér í sveit heldur hart í margan máta, og þá fyrst sífelld norðanátt með miklum kuldum og gróðurleysi, oftast frost um nætur, og stundum snjóaði ofan í sjó, en oft á fjöllum; af þessu leiddi það, að grasið óx í lakasta máta, bæði á túnum og því verr um úthaga og engjar, og því er heyskapur viða hér lítill á þessu sumri, og er það bágt, því vetrarríki er hér í sveit mikið, en framan af slættinum voru góðir þurrkar á milli, og nýting mátti þá heita góð á því litla, er skófst upp úr jörðunni, en síðari part sumarsins hafa þar á móti verið miklir óþurrkar, sífelldar rigningar og snjókomur, og heynýting mikið bág síðan. Skepnuhöld manna hafa verið misjöfn, ekki góð hjá sumum, en allgóð hjá sumum. Aflabrögð manna voru mjög bág á næstliðnu vori, lík og fyrri árin, ...
Október. Lengst af nokkuð hagstæð tíð, en hríðarkast gerði nyrðra eftir miðjan mánuð. Syðra mun hafa verið umhleypingatíð.
Norðanfari lýsir tíð í október:
Frá byrjun þessa mánaðar var veðuráttan oftast sunnan með þíðum og hagstæð til hins 17. s.m. að þá um kveldið brast hér í landnorðan og síðan útnorðan hríðar og snjókomu allt til hins 20. að birti upp; hafði mikla fönn gjört það til fréttist. Þaðan var mánuðinn út, oftar allgott veður.
Nóvember var nokkuð kaldur. Umhleypingasamt framan af. Tíð þótti mjög óhagstæð syðra.
Tvær blaðsíður vantar í nóvemberblað Norðanfara - og þar með upplýsingar blaðsins um veðráttufar í þeim mánuði - nema hvað Íslendingur gerir okkur þann greiða að endursegja yfirlitið (að mestu leyti - vonum við) þann 1.mars 1863:
Nóvember var stirður, með hvassviðrum og blotum til 20., en úr því var staðviðri með nokkru frosti, þó mest 11°R. Í nóvembermán. höfðu 5 manns farið í sauðaleit í Silfrúnarstaðafjall í Skagafirði, og er þeir gengu upp eftir gili einu og stóðu þar á milli hengju, einn þeirra litlu ofar, þá hljóp hengjan fram og þeir 4 neðar stóðu á henni og fluttust í henni með snjóflóðinu ofan á láglendi; hafði einn þeirra lítið lent niður í flóðinu, komst því á fætur, en sá þá jafnframt hvar einn hinna var að mestu á kafi í því, og fékk bjargað honum; hinir tveir fundust ekki fyrr en degi síðar; var haldið að þeir hefðu þegar kafnað.
Þjóðólfur segir af skipsköðum í frétt þann 5.nóvember:
31. [október] urðu hér [fjórir] skipskaðar um nesin; bátur með 3 mönnum af Akranesi, voru það 2 rosknir menn, Jóhannes Ólafsson og Jón Ísleifsson og unglingspiltur hinn þriðji; bátur með 3 á af Vatnleysuströnd, formaður Þórður Jónsson á Höfða og 2 unglingspiltar. Bátur frá Halakoti í Brunnastaðahverfi, af honum var formanninum bjargað, en 2 mennirnir týndust ...; hinn 4. báturinn úr Leiru, bar sama dag undir Hólmsberg og brotnaði þar með hálfföllnum sjó; formaðurinn, Kjartan að nafni, fékk bjargað þeim 2 piltum, er voru hásetar hans, með því að kippa þeim uppá þurrt, en síðan var farið í sig, ofan bergið til þess að bjarga þeim; ...
Íslendingur segir af tíð og slysförum þann 12.nóvember:
Tíðarfar hefur verið hið lakasta allan októbermánuð, stormar og úrfelli úr ýmsum áttum, en varla sést sólbjartur dagur eða lygn frá morgni til kvelds. Rúmri viku fyrir vetur gjörði hart norðanveður með mikilli fannkomu til sveita, svo sumstaðar var blindbylur frá því föstudaginn 17. til þriðjudags hins 21. október; fennti þá víða fé til fjalla, en náðist flest aftur. Víða varð illt til haga, og skepnur eru farnar að hrakast, sem við er að búast, ef ekki er því betri hirðing höfð á þeim. Sjávarbændur hafa sjaldan getað róið fyrir stormi, og hefur því mjög lítið aflast, sem von er; en án efa er fiskur fyrir í Faxaflóa. Síldarhlaup mikið kom hér inn á Reykjavikurhöfn laugardag 1. nóvember, og hefði hér þá verið veiðarfæri og áhöld til, þá er ekki hægt að segja, hversu mikill afli hefði fengist; einn maður átti hér lítilfjörlega vörpu, og í hana náðust eitthvað um 17 tunnur af síldinni, og svo var sú veiði á enda.
Slysfarir hafa orðið með meira móti hér syðra. Maður týndist héðan úr Reykjavík, miðvikudaginn 29. október, Gunnar að nafni, sonur Gríms heitins Melbys, (er í sumar dó), á tvítugs aldri. Hann hafði verið sendur þann dag til að sækja kindur upp að Lækjarbotni; svo heitir nýbýli eitt efst í Seltjarnarneshrepp undir Selfjalli. Annar maður varð honum samferða, er Jónas heitir, og er kenndur við Bústaði. Veður versnaði, er á daginn leið, og gjörði kafald; villtust þeir og skildu í hríðinni; Jónas lét fyrirberast um nóttina undir skúta einum og komst með illan leik, þegar morgnaði daginn eftir, að Lækjarbotni. Leitaði síðan Gunnars daginn eftir og fann ekki. Síðan hefur mikill mannsöfnuður verið gjörður út, til að leita Gunnars, en hann er ófundinn. Föstudag 31. október var gott veður að morgni, og reri almenningur til fiskjar, en er kom fram um hádegi, hvessti á svipstundu af norðri og gjörði ofviðri; héldu þá allir til lands, og náðu sumir ekki sinni lendingu að kveldi. Þá fórust 3 bátar í sjóinn: einn af Akranesi með 3 mönnum á; annar af Vatnsleysuströnd með 3 mönnum; hét formaður á þeim bát Þórður Jónsson frá Höfða; hinn þriðji var frá Halakoti í sömu sveit; formanninum (Gunnari Erlendssyni) varð bjargað, en hásetar drukknuðu báðir. Þannig fórust hér 8 menn í sjóinn. Sama dag hrakti tvo báta, að sögn, upp undir Hólsberg syðra; menn komust þar af með því móti, að sigið var niður til þeirra og þeim þannig bjargað, en annar báturinn fór í spón.
Þjóðólfur gerir upp sumar og haust í pistli þann 17. nóvember:
Sumarið sem leið var víðast hvar um land eitthvert hið endasleppasta að heyskap og heyskaparminnsta sem menn muna, og það jafnkomið yfir allt, að fráteknum einstöku héruðum og engjasveitum, t.d. Ölfusi og Meðallandi, þar sem flóð og foræði eru; því sakir hins stöðuga þurrks framan af sumrinu og fram eftir öllum túnaslætti, þá urðu öll þessileiðis flóð og forir vel slægar, er þó sjaldan sem aldrei næst heyskapur úr að mun, sakir vatnsfyllinga; svo er t.d. varið svonefndu Pollengi í Bræðratunguhverfinu (í Biskupstungum); minnstur hluti þess verður sleginn árlega, en nú í ár var það teigslegið, en svo hefir aldrei orðið um 27 næst undanfarin ár; sóttu um 20 búendur þangað drjúgan heyskap í sumar, auk þeirra er áttu; svo var og um hinar kafloðnu Arnarbælisforir í Ölfusi, að þangað sótti nú heyskap hinn mesti fjöldi. En þessleiðis dæmi eru einsdæmi er svo fáum gátu komið að haldi, þegar til almennings er litið. Því fyrst var almennur grasbrestur á túnum og er almennt talinn 1/3 til 1/4 töðubrestur að vöxtum og þaðan af meira, að frátekinni Austur-Skaftafellsýslu og hér og hvar um sunnanverðar Mýrar, því þar hafa töður náð því sem vant er í meðalárum. Taðan verkaðist að vísu í besta lagi víðast hvar; en engjaheyskapurinn tók yfir víðast um land; fyrst var almennur grasbrestur á engjum, en hitt varð þó að miklu almennari fóðurbresti og tjóni, hvað þvertók fyrir engjaheyskap víðast hvar um um land, þegar með höfuðdegi að kalla mátti, því þá brá víðast til eins stöðugra rigninga eins og fyrr hafði gengið stöðugur þerrir; voru það margir hér sunnanlands, að eigi náðu undan yfirburði engjaheyskapar síns fyrr en undir réttir, og má nærri geta hve áreiðanlegt fóðurhey það muni reynast. En um það leyti, eður um miðjan september, féll mikill snjór bæði hér syðra og norðanlands; hér féll sá snjór að vísu mestur á fjalllendi og um hinar hálendari sveitir; en sömu snjókrassarnir hafa haldist hér á Suðurlandi síðan, af landnorðri, en hlaupið þess á milli í útsuður og hafsuður með blota; þó hefir snjókyngið jafnan haft yfirborð, og aukist mjög á það allan þennan mánuð [nóvember], sem af honum er. Varð það svo mikið aflíðandi veturnóttum og um lok f. mán., að fé fennti víða og til skemmda um Ölfus og Grímsnes og víðar, og var þá um tíma að fjárrekstrarmenn komust ekki yfir Lyngdalsheiði sakir ófærðar. En undir þeirri fönn, er lagði svo snemma yfir og aldrei hefir síðan upp tekið í fjallasveitum, eiga margir talsvert hey úti enn í dag, bæði á fjallabæjum hér í Mosfellssveit, og einstöku menn um Grímsnes og víðar. Nautpeningi verður því stórum og almennt fargað hér á Suðurlandi, einkum kúm; er sagt svo muni teljast til, að um syðri hluta Borgarfjarðar verði fargað 1 mjólkurkú á hverju býli eða það rúmlega og engu minna um uppsveitirnar í Árnessýslu; allmiklum kúpeningi er og sagt fargað um Húnavatns og Skagafjarðarsýslur, en minna þegar norðar dregur, því nýting var góð á öllum heyskap um Þingeyjarsýslur og einkum í Múlasýslum og Austur-Skaftafellsýslu. Fyrir norðan hefir haustveðráttan verið miklu betri og hagstæðari en hér syðra, því þó að þar gerði mikla hríð dagana 12.-13 september, svo að þar tók snjórinn hestum í kvið, og ferðamenn lágu almennt veðurtepptir, þá tók þenna snjó strax upp aftur og var þar um hérað hin besta haustveðrátta fram til miðju [október], en úr því snerist þar einnig til illviðra og storma, svo að margir voru hræddir um að fé hefði fennt, en það var aftur komið upp um heiðar og fjöll í góðviðrunum sem á undan gengu. Um síðustu mánaðarmót voru þar komin mestu snjóþyngsli á jörð og ófærð, svo að ekki þótti fært bæja milli víða í Skagafirði nema á skíðum.
Skipstrand. 17. [október] rak upp kaupskip Gudmanns kaupmanns á Höfðakaupstað (Skagaströnd); það var nýkomið þangað af Akureyri, og átti að færa kornvöru og aðrar nauðsynjar, en taka aftur slátrað fé o.fl., og hafði tekið á Akureyri nálega 200 tunnur saltkjöts, ull, tólg og gærur, er allt var í skipinu, er það sleit upp, og meir en helmingur kornvörunnar sem ætluð var til Skagastrandar; var rúgurinn laus í skipinu, en bankabygg í tunnum. þetta varð allt strandrek, skip og góss, og var selt á uppboðsþingi 29. [október], gegn borgun við hamarshögg. Skipverjar allir, 11 talsins komust lífs af.
Íslendingur segir af tíð þann 20.nóvember:
Þegar minnst hefur verið á veðuráttuna síðan í haust, hefur þess jafnan verið getið, sem satt er, að hún hafi verið mjög stirð. En þó má kalla, að yfirtaki þessar síðustu vikur. Um þessar mundir ganga stormar og köföld oftast nær á degi hverjum; varla fært bæja milli, og alls ekki út á sjóinn, nema með lífsháska, enda mun það sjaldan, að 21 maður hafi drukknað hér syðra, á þessum tíma árs, eins og nú því miður á sér stað, og auk þess hafa þeir 2 týnst á landi, sem áður er sagt, og þetta allt síðan um veturnætur. Fiskur hefur vafalaust verið hér fyrir, ef gefið hefði á sjóinn, en nú er, sem vonlegt er, mjög lítið um hausthluti manna á millum. Það getur verið, að komnir séu tveggja hundraða hlutir af samtíningsfiski hjá sumum. Úr Norðurlandi berast betri fréttir um haustveðuráttu; svo er og sagt, að víða fyrir norðan og austan land hafi fiskiafli verið góður, bæði í sumar og i haust, og líkar fréttir hafa borist af Vestfjörðum um haustaflann. Í bréfi úr Eyjafjarðarsýslu, dagsettu 17. október 1862 segir svo: Í sumar var tíðin hér góð, eftir að liðinn var hálfur mánuður af vallarslætti en þann hálfa mánuð var einlægt súld menn voru sumir búnir, sumir langt komnir að slá tún, og þá kom mátulega þerrir, stöðugar heiðríkjur og hafgolur, svo menn fengu bestu verkun á þurrkvöndustu töðu, og er það sjaldgæf veðurátt af norðri; en svo var grasbrestur hér mikill, að flestir fengu hér um bil 1 kýrfóðri minna, en vant var, þar sem 3 og 4 hafa fengist; nokkuð skárri voru hér útengjar, en nýting á öllu góð; seint á engjaslætti gjörði hret svo mikið, að snjóaði ofan í sjó, en batnaði fljótt, og síðan hefur verið einlæg sunnanátt, en oft um of á heyi og líka á sjófarendum; nýlega var opið hákarlaskip að slaga sig inn eftir firðinum, og var komið undir Oddeyri utanverða; veður stóð af eyrinni og gekk á með byljum, og í einum sló skipinu um; sumir segja, að 11 manns væri á, sem allir komust upp á hlið skipsins og varð bjargað af ferðabát, sem út sigldi. Kaupskip það, er í haust kom til Skagastrandar, og nýkomið var þangað af Eyjafirði, sleit upp í ofsaveðri 18. október, og rak á land fyrir innan Hólanes; menn komust lífs af, en skipið laskaðist svo, að ekki varð við gjört, og var síðan selt á uppboðsþingi. Það hafði verið búið að flytja vöru á land úr skipi þessu í 2 daga, hér um bil 50 tunnur rúgs og nokkuð af annarri vöru, en út í það voru komnar eitthvað um 60 tunnur af kjöti.
Desember. Heldur skárri tíð.
Norðanfari lýsir desembertíðinni nyrðra:
Veðuráttan hefir þennan mánuð verið, hvað til hefir spurst hingað, oftar góð en hörð, en þó víða fremur hagskart vegna áfreða, einkum til sumra sveita og dala, en aftur jarðsælla á nokkrum ystu útkjálkum allt til hins 20. þ.m. að gjörði yfir allt góða hláku, svo nokkur jörð kom allvíða upp og frysti í hreinu. Frostið hefir í þessum mánuði orðið mest 12 gr á Reaumur.
Þjóðólfur segir af tíð og aflabrögðum þann 10.desember:
Seinni hluta [nóvember], og þar til hann brá til innan áttar, mátti heita besti afli hér um öll Suðurnes og Innnes, og þó hvað best á Akranesi; aflinn var stútungur og væn ísa, en minna af þorski. Frá 28. [nóvember] til 8. þ.mán. hét ekki komið á sjó hér um nesin, en á mánudaginn var reru margir og reyndist fiskilaust. En af því fiskilega þykir horfa suðrum Garð og Leiru, eru nú Inn-nesingar að búa sig þangað í túra, sem þeir kalla. Frá því um 20. [nóvember] hefir gengið einstaklega hagstæður mari og spakveður, og mestallur snjór upp tekinn.
Íslendingur segir frá tíðarfari í pistli þann 15.desember:
Tíðarfarið hefur verið gott síðan um 20. f.m. oftar verið þýðvindi, og snjór er að mestu leyti horfinn úr byggðum; en þessa síðustu daga er talsverður útsynningur til hafsins og brimhroði við lönd; verður því eigi róið hér á Innnesjum, ...
Íslendingur birti þann 26.mars 1862 tvö bréf sem lýsa tíð á árinu 1862. Hið fyrra er ritað í Breiðdal í Suður-Múlasýslu 20.desember, en hið síðara á ótilgreindum stað í Þingeyjarsýslu 28.janúar 1863:
[Breiðdalsbréfið, dagsett 20.desember]: Tíðarfarið hefur verið mjög óstöðugt og hryðjusamt síðan um Mikalismessu [29.september], ýmist hafa gengið snjó- eða krapahríðar. Hagbannir hafa ekki verið til muna. Um 10. nóvember, setti hér niður stórsnjó og fennti víða fé, einkum í Fljótsdal, Fellum og Skógum, og á einum bæ fenntu 3 hestar, 2 til dauða, en 1 fannst lifandi; áfelli þetta stóð rúmar 3 vikur, þá hlánaði og menn fundu fé sitt, flest lifandi (eftir því sem frést hefur). Afli hefur verið mikill hér á Austfjörðum í haust, svo menn muna varla meiri; fiskur hefur gengið upp í landsteina, og mikið komið á land af honum, en sem þó hefði orðið talsvert meiri, ef tíðin hefði ekki verið svo bág. Kvefsótt og allskonar krankleiki hefur verið að stinga sér niður hér og hvar í vetur, og fólk dáið til og frá úr honum.
[Bréf úr Þingeyjarsýslu, dagsett 28.janúar 1863 - lítillega stytt hér]: Árið 1862 má með réttu teljast hér um sveitir eitt hið bágasta ár, sem komið hefur á þessari öld. Felliveturinn mikli 185859 mun lengi verða í minnum hafður, en það er efasamt, hvort hann hefur orðið lakari að afleiðingunum til en þetta ár, þegar á allt er litið. Þá féll fjórði hluti fjár í sumum sveitum, en þá kom líka gott sumar á eftir, sem bætti úr bráðustu vandræðunum, og þá voru menn líka betur undirbúnir eftir góðu árin á undan. Norðanfari nr. 1314 drepur stuttlega á afleiðingar vetrar og vorharðindanna í fyrra, og mun það satt sem þar er sagt, að sumir bændur hafi misst þriðjung til helmings alls fénaðar, og sem lakast var, að það sem af lifði, mun hafa orðið gagnslítið. Mest voru brögð að fjárfellinum í norðurhluta Þingeyjarsýslu og sumum sveitum Múlasýslu, og er ástandið mjög voðalegt í þeim sveitum sem lakast eru farnar. Ekki var það fyrir fóðurskort eingöngu, að svona margt féll, því margir felldu sem áttu hey aflögu; óþrif og veikindi í fénu hjálpuðu til að gjöra fjárfallið enn meira. Menn telja ýmsar orsakir til þessara veikinda og óþrifa í fénu. Sumir segja, að fjárkynið sé að versna eða spillast, að fé sé tápminna og kvillasamara en áður var; aðrir halda að einhver ólyfjan hafi fallið á jörðina í fyrra sumar og gjört grasið banvænt; en ég vil ætla, að orsakirnar geti legið nær manni. Það er sjálfsagt, að hey það sem aflaðist í fyrra sumar hefur verið létt og óhollt, vegna óþerranna, og svo þess, hvað grasið visnaði snemma; en að ólyfjan hafi blandast þar saman við, held ég sé ástæðulaus getgáta. Þegar nú hér við bættist, að jörðin reyndist ónýt til útbeitar í útigangssveitunum, en veturinn kaldur og umhleypingasamur, getur það verið skiljanlegt, að hina mestu nákvæmni verði að viðhafa í allri fjárhirðingu, eigi skepnan að halda þrifum og heilsu. Að fé sé lingerðara og kvillasamara en það áður var, er heldur ekki alveg rétt; því þó að meira hafi brytt á kvillum í fénaði þessi árin, en að undanförnu, held ég það sé fremur árferðinu að kenna, en kynfari fjárins. það hefur alltént verið kvartað um veikindi og kvilla í fé í hörðum árum; svo hafði það verið um aldamótin, og eins í harðindunum í kringum 1780. Þetta er líka eðlilegt; í harðindum og ísárum verður loftið saggasamt og óhollt bæði úti og inni, grasið á jörðunni verður rýrara og léttara, og þegar nú skepnan líður skort á nauðsynlegu viðurværi meiri hluta ársins, og það frá barnsbeini, en hlýtur að sæta allajafna kulda og vætu, þá er eðlilegt hún verði þrekminni, veiklulegri, og óhraustari heldur en ef hún hefði hollt og notagott viðurværi. Það er sjálfsagt, að hið svokallaða Jökuldalsfjárkyn, sem flestir eru að sækjast eftir, er fínbyggðara en hið eldra fjárkyn, og þarf betri og nákvæmari hirðingu; en sé hirðing og viðurgjörningur í því lagi, sem ætti að vera, þá mun ástæðulaust að telja það kvillasamara. ... Meðal hinna bágu afleiðinga vorharðindanna, má telja grasleysið í sumar. Í sumum sveitum gat varla heitið sauðgróður 10 vikur af sumri. Sláttur var almennt ekki byrjaður fyrr en í 13. og 14. viku sumars, og þá á lítið meir en hálfsprottinni jörð. Eftir þessu fór heyaflinn; sumir bændur höfðu helmingi minni hey í haust en i meðalári; og flestir sem héldu fé sínu í vor, urðu að lóga því í haust hálfónýtu, fram yfir þarfir og venju. ... Hvernig nú ræðst með fjárhöldin í vor, er bágt að segja enn þá; veturinn hefur verið heldur jarðsæll, það sem af honum er; fáir kvarta um veikindi í fé, eða heysvik, og kýr gjöra almennt gott gagn; mun það því að þakka, að hinar litlu töður eru kjarngóðar og hirtust vel.
Í löngu bréfi af Austurlandi sem birtist í Norðanfara í apríl 1863 er tíðarfari eystra á árinu 1862 lýst svo. Fram kemur að bréfið er ritað á gamlársdag:
Þetta ár hefir þó verið nokkru betra hér en hið fyrra að tíðarfari, einkum að því, að engin býsnaáfelli hafa komið hvorki haustið né vorið. Veturinn í fyrravetur eftir nýár mátti heita jarðsæll við sjó og á ytri sveitum; því ýmist voru þíðukaflar, stundum með nokkurri úrkomu, ýmist snjófall en lagði aldrei mikinn fastagadd í byggðinni. En í efri sveitum einkum á Jökuldal voru jarðbannir í meira lagi og jörð hin óhollasta af krapa álögum (sem voru regn við sjó) og áfrerum en fjöllin undirlögð. Ætluðu menn síðar þetta mundi hafa svikið fénaðinn og aukið í honum pestina. Fyrir sumarmál lagði mikil snjókyngi á jörðu í norðurfjörðum en miklu minna á Héraði og engan teljandi í suðurfjörðum. Þenna snjó tók aftur nokkru eftir sumarmál og voru þá kuldar og rigningar jafnan. Þessari kulda og vætutíð með kraparigningum hélt allt vorið oftast þangað til um hvítasunnu gjörði snjóáfelli, en stóð lítinn tíma. Líkt tíðarfar var og eftir oftast þangað til annað áfelli kom seinast í 10 viku. Eftir það fór heldur að hlýna einkum eftir að byrjaði 14. vika sumars en gekk jafnan úrkomum og þokusúldrum alla tíð fram í 17. viku [eftir 10.ágúst]. Þá komu þurrkar, sem héldust annað veifið fram undir lok 21. viku. Þá gjörði enn snjóáfelli svo hvítnaði sumstaðar í byggð. Frá því voru suðvestanvindar oft mikið hvassir, svo bágt var að bjarga heyi; voru mistur mikil nótt og dag stundum óvanaleg og mátti sjá öskuský inn og vestur yfir Vatnajökli er svifu með ýmsum myndum austur eftir loftinu. Í 25. viku sumars brá til útsynninga og austuráttar með rosum og rigningum miklum, voru stundum krapa veður með snjó á fjöllum og í sumum byggðum og hljóp í frost á milli. Þetta gekk fram í 3 vetrar viku. Þá gjörði hinn 10. nóvember foraðsveður með stórviði og snjókomu af norðaustri. Þá urðu miklir fjárskaðar á efri héraðssveitum þar sem fé var ekki hýst, einkum í Fljótsdal, Framfellum og Skógum; fennti fjölda margt en fannst mikið aftur því hláku gjörði á eftir. Síðan hefir tíð verið nokkru stilltari og jarðir oftast fram undir þetta, þó féll býsna snjór um jólin í norðurfjöllum og á útsveitum svo þar er nú víða jarðlaust.
Heyskapur varð mjög lítill í sumar þar sem sveitir eru fremur þurrlendar, því grasvöxtur var þar óvanalega lítill, og seinna byrjaður heyskapur en vant var, sumstaðar ei fyrr en seint í 14. viku. Töður urðu alls að þriðjungi minni en í meðalári og harðvellisengjar víð ekki slegnar Í fjörðum var og grasbrestur mikill en þó minni heldur en í þurrlendissveitum. Aftur á móti var allmikið gras á vatnsengjum þar sem þær voru til, því vatnið stóð yfir í öllum vorkuldunum, en þornuðu svo mikið þegar áteið sumarið í þurrkatíðinni að grasið náðist. Á þeim fáu bæjum sem áttu þvílíkt engi varð mikill heysskapur. Allstaðar ætla ég kartöfluvöxtur hafi orðið lítill í sumar og víst var um það að hann varð nærri enginn í efri Héraðssveitum þar sem hann hefir oftar orðið mestur. Í fjörðum veit ég nú hvergi reynda kartöflurækt, þeir sem byrjuðu hana þar í góðu árunum og tókst allvel, eru nú hættir henni því þegar vorharðindaárin komu varð hún að ónýtu, eplin komust ekki ofan í jörðina fyrr en um eða eftir fráfærur og uxu síðan lítið. Kályrkja er nærri engin um Austurland. Þessi bágu ár hafa eytt að miklu leyti því litla sem byrjað var og svo hefir nú á seinni árum ekki fengist fræið, þó menn vildi reyna að sá. Það er eitt mikla ólagið í búskap okkar að stunda ekki kályrkjuna einkum við sjóinn, því það er sannreynt að kálvöxtur þarf nærri aldrei að bregðast mikið, ef garðarnir eru vel ræktaðir og hirtir. Skrifað á gamlársdag 1862, B.A.
Nokkrar fleiri fréttir af tíðarfari í lok ársins 1862 birtust í blöðunum framan af ári 1863 - blandað saman við fréttir þess árs - og verða tíundaðar í yfirferð hungurdiska.
Íslendingur hélt áfram að birta svör við spurningum Jóns Hjaltalín um hafís. Þann 31.júlí og 21. ágúst birtust ítarleg svör J. Sigfússonar á Ketilsstöðum undir fyrirsögninni Hafísinn við Múlasýslur. Fara þau hér á eftir:
Eftir tilmælum landlæknis, dr. J. Hjaltalíns, sem er, að hann fái að vita nokkuð um hafísinn og hafísa, þá tek ég að mér að svara flestum spurningum viðvíkjandi ísnum, og tilgreina hér að austan hið helsta, það ég til veit, um ísrek og ísár síðan um aldamót með meiru.
1. Hvað oft ís hefur komið að Norðurlandi, eða fyrir Múlasýslur, síðan aldarnót til þess 1801, get ég eigi með fullkominni vissu sagt, þar ísinn hefur komið stundum svo lítill, og ekki nema hrul eitt, að hans hefur lítið gætt á sjó, en síður á landi. En eftir því sem ég sjálfur man og hef líka heyrt af öðrum, sem nú eru dánir, þá mun hafísinn hafa komið fyrir Múlasýslur eður Austurlandi, í 40 til 42 ár síðan aldamót. Stundum hefur ísinn verið mjög mikill, og stundum lítill hroði eður hrul.
1800 kom enginn ís; þá var líka sá besti vetur sem hefur komið hér í meir en 100 ár.
1801 kom mikill hafís, seint á vetrinum að Austurlandi, hélst hann við allt vorið og fram eftir sumri, þá var eitt hið versta vor.
1802 kom aftur ísinn næstum jafnmikill; 1803 minni ís, og 1804 og 1805 lítill eða hrul.
1807 kom mikill ís (miðvetrarís), fór mikið burt aftur um veturinn.
1808 var lika mikill ís við Austurland.
180910 og 11 mun ís hafa komið að Austurlandi, en ekki mikill.
1813 kom og mikill ís, 1814 allt eins að kalla, og árin eftir meiri eða minni til þess 1818, samt mun hafa sést lítið hrul 1819.
1821 kom um sumarið mikill ís, árið eftir minni og 1823, 1824 mikill, en frekar lítill 1825.
1827 kom mikill ís, 1828 minni, og árin eftir til þess 1830 mun hafa sést fyrir Múlasýslum meira eða minna hrul af ís.
1835 kom mikill ís, árið eftir minni og árin þar eftir meiri eða minni íshroði til þess 1842.
1849 kom töluverður ís, og árin næstu meiri eða minni til þess 1852.
1855 kom fyrir Austurlandi mikill hafís, næsta ár minni og jafnvel árið þar eftir; en komið þó fyrir Austurlandi árlega til þess 1861.
2. Um hafísrek og veðuráttu.
Áður en hafís rekur að Austurlandi og hans þó von, blása oftast nær norðvestanstormar, er vara sjaldan 2 dægur í senn, og oft skemur; líka blása norðan og norðaustan hægari vindar, þá með meiri eða minni snjó, og þá oftar skuggalegur til sjós. Víst ber út af þessari veðurstöðu þó hafís reki að Austurlandi, t.a.m. 1821 30. júní kom hafís inn að Austurlandi í blíðu og bjartviðri, ísnum fylgdi lítið austankul; fyrri hluta dags sást úr fjöllum djarfi til hans austur í hafi, en um kveldið var ísinn kominn inn á flóa, firði og víkur, og daginn eftir svo mikill og þéttur saman, að mátti næstum ganga á honum yfir firðina; það var flat- eður helluís, og stóð ekki meir af honum upp úr sjó en 26. partur ]svo} eður þó minna. Ísinn lá við land til ágústmánaðarloka, hvarf hann þá allur á 23 dægrum; um sama tima gengu hægviður [SA] og s.v.s. og dimmur, og þokufastur til sjós, og strax 31. ágúst kom sunnanátt algjörlega, er varaði marga daga. Sumarið allt til höfuðdags mátti heita eitt hið besta stillingar- og þurrkasumar, en grasmaðkur mjög mikill. 1827 kom ísinn með annarri viku góu inn á flóa og firði; hér um allt að tveim vikum áður gengu stillingar og hélufall hverja nótt, svo síðast var það orðið mikið, allt að því í skóvörp; þar fyrir, eða fyrra part þorra, var þægileg vetrartíð og litlir vindar, en við norðanátt; þegar ísinn rak fyrir og inn að landi var [NA] og [ANA] hægviðri, dimmur til sjós og þokuslæðingur í fjöllum, ísinn fór að mestu burt fyrir messur; það var fjall- og helluís. 1855 kom allmikill ís; um þá daga, sem hann var í reki að Austurlandi, voru heldur hægviðri af n. og [NA] átt; en þar fyrir komu skörp norðanveður.
3. Hvort hafís fari jafnfljótt og hvað honum flýti?
Hafís rekur fljótar í meðvindi heldur en í logni, en sjóstraumar flýta mest ferð hans.
4. Úr hvaða átt að ísinn komi vanalega?
Helst lítur út fyrir, að hafís reki að landinu úr [NNA], og mun hann þá, úr téðri átt, koma fyrst undir Melrakkasléttu, nema vindar hamli því. Þó ber út af því, t.d. 1821, rak ísinn inn að Breiðdalsbugt úr austri; hann kom (það ég veit til) sama dag fyrir alla Austfirði, þann dag sem ísinn rak inn, sást djarfi til hans fyrir hádegi, úr miðjum fjöllum (af smala) lengst í austur i haf út af Breiðdal. Það hefur óskrafinn, ráðvandur og minnugur maður sagt, og dáinn fyrir nokkrum árum, að meir en 20 árum fyrir næstu aldamót, hafi hafís komið á sumri úr [SSA] og var sá ís mikill; en hann mundi hvorki árið, eða hvers kyns ísinn var, því hann var þá kornungur. Hvorki var ís við Austurland veturinn eður vorið fyrir. Haft er líka eftir skipara á vöruskipi, er gekk eitt vorið frá Kaupmannahöfn til Íslands, og þá skipið var í [NA] af Færeyjum, og sást lítið eitt til Eyjanna, að hann sæi í kíkir hafís í [NNA] þaðan; og mun þó enginn ís hafa komið það vor né sumar að Austurlandi; síðan eru nokkuð mörg ár. Það vita margir sjómenn, að ísinn liggur öllum sumrum í hafinu fyrir n. og [NA] Ísland, og þótt hann reki ekki að landinu fyrr en veturinn eftir, þá er hans samt von þegar hann hefur sést, og stundum ekki fjær en 1012 mílur í haf út undan Norðurlandi.
5. Um ístegundirnar.
Tvær eru ístegundir nefnilega fjall- eða borgaís, og flatur eða helluís; fjallís fer hraðara í meðvindi, en flatur ís hraðara hinum í mótvindi, ef hver er í sínu lagi; en séu þeir hver innan um annan, hamla þeir hver öðrum, og berast þá jafnótt að eða frá landi. Flatur ís er oftar samfara borgar- eða fjallís, stundum meir en stundum minna, þó var eingöngu flatur ís að heita mátti 1821; og meiri hluti haldinn af ísnum flatur 1824, þá var sleginn selur á ís í Borgar- og Loðmundarfirði, o.v. 1808 eða 1811 mun hafa líka verið flatur ís, eða meiri hlutinn af honum, þá gengu menn af Djúpavogi yfir Berufjörð og innanverða Breiðdalsbugt, yfir Stöðvarfjörð, Fráskrúðfjörð, og Reyðarfjörð inn á Eskifjörð; þetta skeði á einmánuði; frost voru þá í mesta lagi. 1802 mun líka hafa verið mikið af flatís innan um hinn. Nokkrum árum fyrir næstliðnu aldamót, það mig minnir, gekk ónefndur maður undan Búlandsneseyjum á ís út til Papeyjar, og eru það eindæmi, að komast þá leið yfir harða straumsála, og er 1 míla að vegalengd; stillt var veður, sólskin (og bjart) af og til; þetta skeði á sumarvorinu. Ísinn var mestmegnis flatur.
[Íslendingur 21.ágúst]
6. Um hvali í ísárum.
Sjaldan mun það bera til, að hvalir komi undan ísrekstri, inn í Austfjarðabugtir; í íslausum árum er það fremur, að þeir slæðast inn í firðina, og oft er fyrir utan landið, vor eða sumar, mesta hvalaganga; hvalir elta síldina eins og þorskurinn; í ísárum munu flestallir blásturfiskar vilja komast úr ískreppu, þótt sumir þeirra geti það ekki, þegar ísinn er mikill og drepast í honum; ísinn er líka svo djúpt niður í sjónum, að hvalir geta ekki til lengdar sveimað undir honum, nema að sprengja sig.
7. Um hvort straumar flytji burt ísinn, og hvað lengi hann liggi. Það er venjulegt, að vorhafís við Austurland liggi fram á sumar, og oft til höfuðdags en aldrei lengur, hvort sem hann hefur komið meiri eða minni, og fer það ekki eftir vexti hans, hvað lengi hann liggur við landið.
8. Hvar ísinn reki fyrst að landi, sjá 4. svar.
9. Er fyrir vestan.
10. Hvort ísinn, þegar hann er kominn fyrir Langanes, fer nær eður fjær landinu.
Þegar hafís færist austur fyrir Langanes, meðfram og helst af n.v.n. stormhviðum, er komið áður hafa tvisvar þrisvar (þá mun og sjaldan vera hafþök af ís fyrir Norðurlandi) fer hann eftir straum, utan fyrir allar rastir og tanga, og ef meðvindur er, þá fer ísinn á einum sólarhring fyrir alla Múlasýslu og suður fyrir Lónbugt.
11. Um ísmegnið.
Oft er það, þá hafís kemur mikill, sem venjulegt er eftir 2 eða fleiri ísleysisár, að ekki sést út yfir hann í Múlasýslu, nema máske í einstöku stað af hæstu fjöllum, svo sem 1801, 1802. 1807, 1813 eða 14, 1821 og 1835, samt oftar.
12. Í hvaða átt hafís reki frá Múlasýslu.
Undir öllum kringumstæðum litur svo út, sem ísinn flytjist burt mest fyrir straum í n.o.n.; hann liggur ekki lengur við Austurland en til ágústmánaðarloka, og hverfur þá allur í einu; sjaldan er á þeim tíma það bjartviðri, að megi sjá eftir honum; en hvort sem ísinn kemur eða fer, þá rekst hann þar sem straumurinn er harðastur og jafnastur fyrir utan alla tanga og rastir á Austurlandi; það lítur svo út, eins og sjómenn hér segja, að straumur í hafinu út af syðri Múlasýslu liggi ekki norðar en í n.o.n. Norðurstraumur er harðastur í ágúst og september, þar eftir taka suðurföll að harðna; smáharðna þar til sólstraumar eru liðnir; þar eftir fara norðurföll að smáharðna til þess á haustin, og suðurföllin taka við aftur. Ekki er ólíklegt, að norðurföll séu mest og hörðust sem næst ísbeltinu, svo þegar að ísinn fer burt seint á sumri, dregst þá fyrst með norðurstraum, allt hvað næst liggur af ísbeltinu; grisjar þá í hann, svo sá ís sem sunnar er, með öllu því sem í honum er fast og hulið, fer því fljótar á eftir.
13. Um hvort nokkrir hafa tekið eftir breyting á norðurljósum.
Fáir hér eystra hafa tekið eftir breyting norðurljósa svo heyrst hafi, þó er ekki ólíklegt, að einhver breyting mætti á þeim sjást, ef hafís væri mikill við land, og eins þótt ísinn lægi nokkuð undan landi.
14. Hvort kuldinn er meiri í sjó þá ís er við land. það segja hér sjómenn, að þá sé meiri sjávarkuldi, þegar von er á ís, eins þá hann liggur við land. Í íslausum vetrum verður hér eystra sjaldan svo mikið frost, að nái 18° á Reaumurs hitamæli, en í ísárum er frostið helst við sjó fyrir víst fjórðungi meir, eða 24°.
15. Hvort sudda og vætusumur fylgi ís. Ekki er það ætíð, að sumur séu með rigningum, sudda og þokum þó hafís liggi við land. En rigningar koma á eftir þá ísinn er burt, t.d. 1821, þá var eitt hið betra þurrkasumar til höfuðdags, þar eftir miklar rigningar. Lengi sumars voru 2 áttir saman, [A] og v.
16. Hvort sjaldan verði mein að miðsvetrarís.
Það er málsháttur hér eystra: Sjaldan er mein að miðsvetrarís, og eru flestir samdóma því, að málshátturinn sé sannur; sá ís, sem kemur á þorra, er oftast kominn burt frá landinu á einmánuði, og sá ís er kemur á góu, er stundum kominn á leið til baka fyrir messur; þess fyrr sem ísinn kemur, þess fyrr fer hann aftur burt. Sá ís sem kemur snemma á vetri, fer oftast sama vetur fyrir sunnanátt og vindi, svo sem 1807 og nokkrum sinnum síðar. Oft mun það til bera, að sá ís sem rekst til baka einkum ef hann er mikill á vetrum eða vortíma, að hann liggur í norðurhöfum og kemur að landi veturinn eftir.
17. Hvort kvillar á skepnum komið geti af hafís.
Ævinlega fylgir hafísnum ónotalegur kuldi og mikill hráslagi, og verkar helst á fjárpeninginn með lungnabólgu og jafnvel vinstrarsýki, t.d. 1835 kom á góu hafþök af ís fyrir Múlasýslur og sunnar; dó þá féð víða í sveitum þeim, er náðu til sjávar, svo mikið, að á einstöku bæjum varð nær því á fullorðnu fé hálffellir; smalar máttu eigi reka það hart, heldur fót fyrir fót, annars gapti það og dó á einni mínútu; þetta kölluðu sumir vinstrarsýki, því það var ólíkt vanalegu bráðafári. Einn gamall maður í Álftafirði sama veturinn sagði, að eftir 3 eða fleiri ísleysisár, þá hafís kæmi mikill, dæði féð, og hefði svo fyrr til borið í sínu minni, og hefði hann heyrt það kallaða hafíspest.
18. Hvernig tré reki með ís og hvernig löguð.
Vanalegt er, að ís hafi í för með sér eitthvað af reka, helst trjávið, kemur reki þessi með ís, undan, eða helst eftir, að hann er kominn langt í burt, því þá leysist úr honum það, sem hann hefur bundið i sér, hvert heldur það eru tré, hvalir eða þess konar, svo sem skipbrotamul. Flest eru þau tré sem reka sívöl, og færri ná 9 álnum [um 5 m] eða þar yfir, heldur eru það stumpar, rætur, mul og molkefli af ýmsri trjátegund, svo sem greni, rauðgreni, furu, tág o.fl. þess konar, og sumt sem varla þekkist hér.
19.Frá Norðurlandi.
20. Um betra árferði þá enginn er ís.
Ætíð er betra árferði við Austurland þá hafís kemur ekki, því þá er vetur, vor og sumar hlýrra og hráslagaminna á landi, bara ef jöklahlaup og jarðeldur spilla því ekki.
Það lítið sem ég hefi nú skrifað um ís, ísár, strauma og fleira því viðvíkjandi, er í margan máta ófullkomið, bæði af því, að ég man ekki vel að tilgreina hvað mikill ís hefur verið ýms árin, sem ég hefi þó talið, og líka, að sumt hef ég af þessu heyrt, þegar ég var ungur, af þeim sem nú eru dánir; einnig er stílsmátinn á greinunum hjá mér ekki sem skyldi, og í alla staði er það fremur illa úr garði gjört. Ég bið, að virt sé á betri veg, bæði ritvillur og hvað eina, sem mér hefur í þessu litla riti yfirsést.
Ketilsstöðum í janúar 1862. J. Sigfússon.
Lýkur hér að sinni samantekt hungurdiska um árið 1862. Dálítið af tölum er í viðhenginu.
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt 2.2.2020 kl. 22:41 | Facebook
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.12.): 20
- Sl. sólarhring: 214
- Sl. viku: 985
- Frá upphafi: 2420869
Annað
- Innlit í dag: 15
- Innlit sl. viku: 864
- Gestir í dag: 15
- IP-tölur í dag: 15
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.