28.9.2019 | 18:40
Af árinu 1879
Árið 1879 var ívið hlýrra heldur en árið á undan og fékk almennt góða dóma - nema sumarið á Austurlandi. Meðalhiti í Reykjavík reiknast 4,1 stig, 3,4 stig í Stykkishólmi og giskað er á 3,1 stig á Akureyri (ekki var mælt þar). Hlýtt var í nóvember og desember, en kalt var í febrúar, mars, maí, júní, júlí og september. Vart varð við hafís, en hann hamlaði ekki siglingum svo heita mætti. Aftur á móti voru lagnaðarísar með mesta móti í upphafi árs.
Enn voru engar opinberar veðurstöðvar inni í landi. Hámarks- og lágmarkshitatölur eru því heldur hóflegar. Hæsti hiti ársins mældist í Hafnarfirði 7.júlí, 21,2 stig. Hann hefur vafalítið einhvern tíma árs farið hærra inni í sveitum. Lægsti lágmarkshiti mældist þann 11.mars í Grímsey - en engar opinberar mælingar voru í innsveitum eins og áður sagði.
Hér má sjá daglegt hitafar. Efri línan (oftast) sýnir hæsta hita hvers dags (ekki hámarkshita) í Reykjavík, en sú neðri meðalhita hvers dags í Stykkishólmi. Enginn dagur telst mjög hlýr í Reykjavík - og ekki heldur í Stykkishólmi, en köldu dagarnir voru ekki mjög margir, 7 í Reykjavík og 11 í Stykkishólmi. Fyrstu dagar ársins voru sérlega kaldir og lagði þá firði víða eins og lesa má um í fréttapistlunum hér að neðan. Listi yfir mjög kalda daga á þessum stöðum er í viðhenginu.
Lægsti þrýstingur ársins mældist í Stykkishólmi þann 27.desember, 947,7 hPa. Hæsti þrýstingur ársins mældist einnig í Stykkishólmi, 1044,4 hPa þann 5.maí. Ekki virðist hafa verið mikið um þrýstiöfga á árinu 1878. Þrýstiflökt frá degi til dags var mikið í maí - bendir til órólegs veðurlags. Meðalþrýstingur var óvenjuhár í nóvember, en lágur í september.
Árið 1879 var mjög þurrt, þó ekki alveg jafnþurrt og árið áður í Stykkishólmi - en úrkoma var aðeins mæld á þremur stöðum á landinu þetta ár. Sumarmánuðirnir, júní til ágúst voru samtals þeir þurrustu sem vitað er um í Stykkishólmi og sumarið allt (september með) meðal þeirra allraþurrustu). Á Djúpavogi var sumarúrkoma hins vegar nærri meðallagi. Mánaðartölur má sjá í viðhenginu.
Hér að neðan eru dregnar saman helstu fréttir af veðri, tíð og veðurtengdu tjóni á árinu 1879 og vitnað í samtímablaðafréttir og fleira. Stundum eru þær styttar lítillega og stafsetning er að mestu færð til nútímahorfs. Sem fyrr má finna tölulegt yfirlit í viðhenginu.
Jónas Jónasson stud theol ritar í Fréttir frá Íslandi:
Árferð þetta ár hefur verið nokkuð misjafnt í ýmsum hlutum landsins, enn þó eigi svo, að það geti eigi orðið tekið í einu lagi. Þess er getið í fréttunum frá 1878, að frostasamt hafi verið um jólaleytið og undir árslokin; hörkur þessar héldust fram yfir nýárið; snjór mikill á Suður- og Vesturlandi og vestursýslum Norðlendingafjórðungs, en í Þingeyjarsýslu og á Austurlandi voru jarðbönn mikil. Um nýárið sást til hafíss fyrir Norðurlandi. Litlu eftir það svíaði til, og hafíshroða rak í burt aftur; en bráðum gekk aftur harðviðri og hríðar, og hélt þeirri tíð fram undir lok marsmánaðar. Þá gjörði hláku góða um allt land, svo að öríst varð í Húnavatns- og Skagafjarðarsýslum, og allgóðar jarðir komu upp í snjóasveitunum nyrðra og eystra. En sú hláka varð eigi heldur langgæð, því að 21. mars gekk aftur í norðanhríðar. Þó tók heldur að milda veðurátt úr því. Um sumarmálin og síðara hlutann af apríl var blíðutíð, en í byrjun maímánaðar gjörði hríðarkast á norðan, og snjóaði þá víða norðanlands. Vorið var afarkalt og þurrt og og oftast frost á nóttum. Sumarið var blítt, og svo þurrt, að varla kom deigur dropi úr lofti svo að nokkru næmi, nema á Austurlandi og í Skaftafellssýslum var fjarska óþurrkasamt; haustið var hvervetna hið blíðasta þar til hinn 20. október, að gjörði hríð á norðan í fjóra daga svo mikla, að í sumum sveitum var nær haglaust eftir. En rétt á eftir gjörði hláku góða, og mátti síðan heita, að sú hláka héldist fram undir jól; þá voru einlægar þíður og blíðviðri, hver dagurinn öðrum betri; stundum var þá samt nokkuð hvassviðrasamt. Um jólin voru hreinviðri með nokkrum frostum og veður hið fegursta.
Af eldgosum er lítið að segja; í ágústmánuði þóttust sumir menn sjá til elds í hafi fyrir Reykjanesi, og nokkru síðar er sagt að vikur nokkurt hafi rekið þar nærlendis. Annað vita menn ei neitt um þessa eldsuppkomu.
Grasvöxtur var víða í rýrara lagi, einkum á túnum og þurrlendi, því að það vantaði vætu þá, er til þurfti í hinum miklu þurrkum. Tún brunnu víða, einkum þar sem þau voru hólótt, eða eigi varð veitt vatni á þau. Sömuleiðis spilltust þau víða af grasmaðki, því að hann var víða svo mikill, að eftir hann lágu hvítar skellur þar sem hann hafði vaðið yfir, bæði á túnum og úthaga. Engjar, einkum blautar mýrar, spruttu víða í góðu meðallagi, og sumstaðar jafnvel betur. Heyskapur gekk víðast hvar heldur vel, af því að tíð var svo einkar hagstæð, og heyjaðist víðast í góðu meðallagi, og sumstaðar jafnvel betur. Nýting var hin besta. Á Austurlandi og í Skaftafellssýslum heyjaðist miður, þar sem tíðarfarið var óhagstæðara sakir óþurrkanna, og nýting varð þar víðast í lakara lagi, þar eð heyin hröktust, og komu svo á endanum sumstaðar illa þurr í garð. Samt sem áður má þó líta svo á, að heyskapur hafi gengið vel þetta sumar og heyaflinn víðast verið í góðu meðallagi. Garðvextir manna spruttu þetta sumar mjög vel, að því er vér frekast til vitum.
(s17) Sjávarafli hefir heppnast næsta misjafnt þetta ár, en almennt má þó svo á líta, sem í þá átt hafi verið heldur góð árferð. Þegar í byrjun vertíðar var allur Faxaflói fullur af fiski, og hugðu því útvegsbændur gott til hins besta aflaárs. En ógæftir ollu því, að aflinn gat ei orðið svo mikill sem skyldi. Fyrst aflaðist vel í Garði, Leiru, Njarðvíkum og hinum syðri veiðistöðum, en verr á Ströndinni og á Innnesjunum. Í mars gjörði norðanstorma mikla, og urðu þeir að miklu tjóni, því að fjöldi manna missti þá net sín að sumu eða öllu leyti.
(s21) Siglingar til landsins gengu fremur illa, og var þó ei hafísinn til þess að hamla mönnum að komast að landinu. Helstu tjón á verslunarskipum voru þessi: 30. dag marsmánaðar strandaði norskt kaupskip Ellida við Þormóðssker undan Mýrum; hlaðið vörum. Hafði það fyrst hrakist vestur fyrir Jökul, en getað síðan snúið aftur, en lenti í þokum, svo að skipverjar vissu eigi hvar þeir fóru, fyrr en skipið hjó niðri og sökk þegar. Skipverjar komust á bátum slippir í land. 1.dag maímánaðar strandaði norskt timburskip, Ossian, fyrir Látrabjargi; allir menn komust af. 3. s.m. sleit upp danskt verslunarskip, Else, á Eyrarbakka, hlaðið vörum; rak það upp í sand og brotnaði í spón. Eitthvað fórst og af frakkneskum fiskiskútum hér við land, eins og vant er að vera, og er eigi þörf að telja þær hér.
Slysfarir hafa orðið nokkrar þetta ár, og eru það einkum skiptaparnir, sem nokkuð kveður að. Í norðanstormunum týndust 2 skip af Akranesi, 27. dag febrúarmánaðar, og voru l0 menn á þeim alls. 30.dag aprílmánaðar týndist róðrarskip fyrir Landeyjasandi, og voru á því 10 menn. 23.dag ágústmánaðar fórst bátur með 4 mönnum á Álftanesi, rétt að segja við landsteinana. 26.dag septembermánaðar týndist bátur með 4 mönnum frá Hvaleyri við Hafnarfjörð. Í októbermánuði týndust tveir menn af báti í Steingrímsfirði og fórst bátur með 3 mönnum á Hrútafirði. 8. dag nóvembermánaðar var afspyrnurok fyrir Norðurlandi, og fórust þá tveir bátar á Skagaströnd, með 5 mönnum hvor, og sama dag týndust 2 bátar úr Steingrímsfirði og aðrir tveir af Skagafirði. Eigi hefir frést, hve margmennir þeir hafi verið. Slysfarir í ám og vötnum hefir ei frést greinilega um, og eigi heldur um það, hvort menn hafi orðið úti; en víst er að það urðu einhverjir, eins og vant er að vera.
Janúar: Tíð talin sæmileg syðra og vestra þrátt fyrir nokkuð frost og snjókomur. Hretasamt nyrðra og eystra.
Norðanfari segir af tíð þann 9.janúar (lítillega stytt hér). Athyglisverðar eru fréttir af lagnaðarísum á fjörðum:
Allan þennan næstliðna mánuð, að einstöku dögum undanskildum, hafa verið staðviður og lítil snjókoma en frostin mikil, þó mest nóttina hins 2. þ.m. 20°R [-25°C]. Eyjafjörður var þá sagður lagður út að Hjalteyri og yfir i Höfðann, svo fara mátti hér innantil með hesta og æki. Vesturállinn, millum lands og Hríseyjar, gengur á hafís og lagís en austurállinn og fjörðurinn inn að skör auður, nema þá heljurnar höfðu verið mestar, allur lagður en óvíða gengur. Húnaflói kvað fullur með hafís og eins Skagafjörður inn að Eyjum en lagís þaðan inn í botn, gengt í land úr Málmey og frá Grafarósi á Sauðárkrók. Hafþök eru sögð úti fyrir það eygt verður af fjöllum, allt austur fyrir norðan Grímsey og að Sléttu. Þéttur hafíshroði á Skjálfandiflóa, Grímseyjarsundi og hér út af Eyjafirði. 14 bjarndýr er sagt að hafi sést á Skaga, sum fram á ísnum og sum á landi og 2 eða 3 af þeim (heldur enn önnur) á Reykjaströnd, en litið mein af sér gjört nema eitthvað rifið í sig af hákarli og fiski, er var i hjalli eða hjöllum og á einum bæ mölvað hurð frá húsi eða kofa sem selur hafði þá nýskeð verið gjörður til á. Á Skaga er sagður afbragðsgóður skotmaður sem heitir Sigurður Víglundsson og sem sendi þegar, er bangsar höfðu tekið land, eftir kúluriffli að Ási í Hegranesi. Nú síðan, hér um bil viku fyrir jól, hefir ekki vegna íssins og hinna miklu frosta orðið róið til fiskjar, en seinast þá róið varð af Uppsaströnd og úr Ólafsfirði, var hlaðfiski af reginþorski, svo afhöfða varð í sjóinn, en þá kom hafísinn og tók fyrir aflann, sem menn
sögðu nýja ágöngu, er komið hefði með ísnum. ... Víðast hvar yfir alla Þingeyjarsýslu og hér á útsveitum, hafa jarðbannirnar, sökum snjóþyngsla og áfreða verið hinar sömu og áður; aftur er sagt að í nokkrum framsveitum og til dala hér í sýslu og Skagafirði, hafi það af er vetrinum, verið nóg jörð fyrir hross og sauðfé en stundum ekki beitandi fyrir hörkum, en 6. þ.m. fór að svía til og síðar oftar þítt, svo að sumstaðar, er komið upp dálitið af jörð, þar er hún ekki var áður.
Þann 15. bætir Norðanfari við:
Frá því er vér, í næsta blaði hér á undan, sögðum frá tíðarfarinu, hélst það enn til hins 15. þ.m., að þá kom norðan hríðarveður og snjókoma með litlu frosti. Í næstliðinni viku var róið með línur til fiskjar úr Svarfaðardal og Ólafsfirði, og fékkst metahleðsla af vænum fiski, svo afhöfða varð; bátar höfðu og róið af Árskógströnd í austurálinn og aflaði hver yfir 50 í hlut af fiski. Nú kvað hafísinn vera horfinn það eygt verður, bæði af Skagafirði og hér út af Eyjafirði en víst ekki langt undan landi sem marka má af því hvað sjórót er lítið þó hvasst sé úr hafi.
Skuld segir þann 13.janúar:
Hafísinn, hinn árlegi gestur vor nú í nokkur ár, heimsótti oss í fyrra lagi í ár; var hann um nýársleytið kominn austur að Barðsneshorni, að sagt var; mun hann verið hafa á austurferð, til að óska Austfirðingum gleðilegs nýárs. En aðfaranóttina þess 6. þ.m. mætti hann andviðrum, því síðan hefir gengið á með sunnan rosum og þíðu. Er það margra ætlun að hafísinn hafi lagst norður í höf þegar svona byrjaði, og munu flestir óska að honum gangi norðurferðin svo greiðlega, að hann mætti komast alla leið norður að heimskauti. Í hörkunum um hátíðirnar varð vatnslaust svo víða hér, að vatn þornaði upp á ýmsum stöðum, þar sem það hafði aldrei fyrri þorrið í manna minnum. Það má kalla að stöðug norðanátt, og einatt hörð, væri búin að standa í samfleytta fjóra mánuði, þegar sunnanáttin kom loksins. Með hafáttinni, sem hann gekk í 5. þ.m., gjörði geysilegt brim sumstaðar, einkum utarlega norðan fram með fjörðum. Aðfaranótt þess 7. þ. m. gekk brim svo hátt, að tók út bát í Kolfreyjustaðarhöfn (sem Marteinn, bóndi þar, átti) og tvo báta á Höfðahúsum, sem hreppstjóri Þorsteinn Guðmundsson þar átti. Í Arnagerði tók út gagnvaðstré, er lágu þar á stólpum niðri í tanganum. Þessir bæir eru allir í Fáskrúðsfirði.
Ísafold segir þann 13.janúar:
Heyrst hefir, að hafís sé kominn fyrir norðan land. Er sagt hann sé landfastur á Skaga, en einstakir jakar hafa sést á Húnaflóa. Eftir veðráttufarinu er mjög líklegt, að fregnin sé sönn. þó búast megi, eftir þessu, við harðindum fyrst um sinn, þá er sú bót í máli, að sjaldan verður mein að miðsvetrar ís". Veðrátta hefir síðan á miðri jólaföstu verið þurr og köld, snjólaus að heita má; frost hefir verið í meira lagi, að jafnaði frá 1014°R. Skerjafjörður er lagður; hefir hann þegar undir hálfan mánuð verið gengur, og milli jóla og nýárs var farið með hross yfir um hann.
Þjóðólfur segir frá þann 28. (við endurtökum þó ekki fregnir Norðanfara):
Rétt eftir nýárið breyttist veðráttan úr harðindum í rigningar, umhleypinga og þíður, og hefir síðan verið alauð jörð hvervetna nema í nyrstu héruðum landsins. Aflabrögð hafa enn lítil orðið, þó sumir þeirra, er farið hafa suður í Garðsjó, hafi orðið vel varir.
Skuld birti þann 3.febrúar bréf úr Vopnafirði og Mjóafirði (og svo Eskifirði):
Vopnafirði 11.janúar: Hey er orðið skemmt að mun, eftir því sem næst verðu komist. Á stöku stöðum er enn ekki búið að gefa að mun sauðum eða ám; óvíða ganga hestar úti, og valda því svellalög og bruna-stormar norðan, sem stöðugt hafa gengið síðan fyrir jólaföstu; harðneskju norðan-hríðar með lítilli fannkomu frá því á jóladaginn til 6. þ.m. 3 daga undanfarna logn-þýðandi, og kom allstaðar í aðalsveitinni meiri og minni jörð; frost og bjart í dag. 5. þ.m. 18 stiga frost, hið mesta sem komið hefir á vetrinum; þá var heiður himinn.
Mjóafirði, 25. janúar 1879, Héðan er fátt að frétta nema góða tíð sem stendur og nógar jarðir; ekkert sem heitir búið að gefa fullorðnu fé. Óvíða munu lömb í þessari sveit hafa verið tekin, fyrri en í veðrunum fyrir jólin (úrkast kunna menn að hafa gjört úr þeim áður); en í Dalakjálki voru þau tekin nær sem veturinn gekk í garð, og féll þar framan af mjög svo hart.
Eskifirði, 3. febrúar 1879. Tíðin hefir síðan til þíðanna gekk verið hæg og jöfn, svo alauðna er yfir allt. Nú í fáeina daga hefir verið frost og norðanátt í lofti, en þó hægviðri. Í dag er mjalldrífa í logni. Eftir sunnanáttina hefir verið hér talsvert almennt nokkuð reka-vart, en þó hvergi stórhöpp. Aflalaust er, þó reynt sé, því eigi er að telja eftirlegusmáseyði, sem ávallt liggur hér í firðinum. Það hefir verið rjúpnavetur í vetur í meira lagi.
Febrúar: Fremur köld tíð og stormasöm.
Skuld segir frá þann 14.febrúar:
[Þriðja] þ.m. gekk í snjóveður norðaustan og austanstætt; síðan hlóð niður snjó með bleytu ýmist, þó upprofum á milli, uns gekk í norðanveður með frosti þann 11. þ.m. Varð því jarðleysa og hagbann yfir allt. Í dag er komin sunnanrigning með þíðu.
Mars: Framan af köld tíð og hretasöm, en skárri síðari hlutann. Þó hret í lok mánaðarins.
Skuld segir þann 5. og 17. mars:
[5.] Veðrátta hefir verið hin umhleypingasamasta og þó oftari hverju frost og norðanátt upp á síðkastið, einn dag í fyrri viku jafnvel 1314° Reaumur.
[17.] Bjargarleysi fyrir skepnur virðist ætla að verða almennt manna á meðal, ef harðindunum linnir eigi því fyrr. Um daginn fréttum við að tveir bændur í Mjóafirði hefði verið búnir að reka af sér fé sitt. Maður úr Norðfirði (þar sem venjulega mun þó eigi sett á útigang) sagði í gær, að þaðan mundi verða farið að sækja korn hingað til skepnufóðurs.
Þjóðólfur segir frá þann 14.mars:
Veðráttan, síðan góan byrjaði [23.febrúar], hefir verið afar-stirð og umhleypingasöm, en fannkomur litlar og jörð víðast auð; frost mikil annað veifið, 612°R hér í Reykjavík. Mannskaði á Akranesi. (Skýrsla eftir herra Hallgrím Jónsson á Guðrúnarkoti). Hinn 27. febrúar týndust héðan 2 skip með 10 menn. Þennan dag var hægt veður að morgni, og reri hver fleyta á Akranesi til sviðs; þegar þar var komið, skall á hastarlegt norðanveður með stórsjó og frosti; allir urðu að hleypa suður á Seltjarnarnes, og er skylda að geta þess með stærsta þakklæti, hvað Seltirningar tóku þá vel og mannúðlega á móti Akurnesingum, sem munu hafa verið yfir 200, á 30 skipum. Á þessari suðursiglingu hafa hin skipin farist.
Ísafold segir fréttir að norðan í pistli þann 25.mars:
Úr sumum plássum að austan og norðan fréttist með norðanpósti mikil harðindi; var sumstaðar, t.d. í Kinn, búið að hafa allar skepnur á gjöf í rúmar 20 vikur. Einn björn var unninn á Haganesi í Fljótum. Var bessi skotinn meðan hann var að snæða hákarl í hjalli. Tveir aðrir sáust snúa heim á leið með hafísnum.
Norðanfari birti nokkur bréf þann 3.apríl:
Af Austfjörðum 15. mars: Fréttir eru litlar nema harðviðri og jarðbönn. svo langt sem fréttist. Eru margir heytæpir orðnir þó ótrúlegt sé, ekki eftir snjó meiri vetur; því jarðir voru víðast meiri og minni til miðþorra, en illa hafa þær auðvitað oft notast. Flestir munu þó gefa í miðjan einmánuð að ég held, og nokkrir framúr, en yfir höfuð er samt illt hljóð í mönnum, kenna flestir áfellinu í september er allir máttu hætta við heyskap.
Reyðarfirði 16. mars: Oftast norðanveður og grimmdarfrost 10. (mars) 11°, 11. 15°, 12. l1° , 13. 13°, svo .að er því líkast sem þegar hafís er, samt hefir hans enn ekki orðið vart. Þetta eru hin mestu frost er komið hafa hér undanfarin ár, því þegar hér við sjó eru 16°, þá má telja að í Vallanesi séu að venju 20°, Valþjófsstað og Hofteigi 22°, en á Möðrudalsheiði 26°.
Seyðisfirði 16. mars: Hér hafa verið hin mestu harðindi alla góuna og hvervetna jarðleysur og sumir orðnir tæpt staddir fyrir pening sinn. Vikuna sem leið voru alltaf norðanstormar og feikna frost 15-16°. Heilsufar manna nú um stundir gott.
Þann 2.júlí birti Ísafold fregnir af veiðarfæratjóni og illviðri á Faxaflóa í mars:
Vetrarvertíðin hér innan flóa byrjaði, eins og lög gjöra ráð fyrir, með því að þorskanet voru lögð í Leiru- og Garðsjó 14. mars; þó lögðu 8 skip útlend og eitt innlent þorskanet 13. mars; þau voru öll úr Leirunni. Undir eins í fyrstu umvitjun voru nálega öll net full af fiski, þó enn frekara eftir því sem út á dró. Þessi afli hélst allt til hins 22. s.m. Þá gerði ofsaveður á vestan útsunnan, með stórbrimi. Héldust svo rok og umhleypingar allt fram til mánaðamóta. Fóru menn þá að leita neta sinna, sumir árangurslaust að öllu leyti, en sumir fundu þau í stærri og smærri hnútum, fleiri og færri trossur saman, fullar af morknum fiski. Netatjónið var stórkostlegt, því sumir hafa aldrei fundið einn möskva af netum sínum.
Apríl: Batnandi tíð þegar nær dró sumarmálum.
Þjóðólfur segir þann 9. og 30.apríl:
[9.] Seinni hluta febrúar og til síðustu daga, gekk hörð og köld norðanátt, með 59°R frosti; varð þá lítið stunduð aflabrögð hér í veiðistöðunum, þótt nægur fiskur væri fyrir.
[30.] Því miður hafa aflabrögðin til þessa orðið mjög endasleppt og misjöfn, víðast hér við flóann; veldur því mest gæftaleysi og netajón. Á Akranesi munu komnir hæstir hlutir. Aftur er ávallt fullur sjór af fiski hið dýpra, og allir, sem lengst hafa sótt sjó hér af innnesjum, hafa best orðið varir. Bæði útlend og innlend þilskip hafa aflað vel, og hákarlaskipin ekki síður að tiltölu. Köld há-átt hefir oftast gengið síðan í f.m., með töluverðum næturfrostum, en allgóðu veðri.
Skuld birti bréf þann 26.apríl:
Raufarhöfn, 8. apríl: Tíðarfarið hefir í vetur verið hér svakviðrasamt. Hér í sveit urðu svo að segja engir fjárskaðar, eins og svo víða annarstaðar. Jörð var hér skörp fram til þrettánda, og hafís kom um jól inn um allan Axarfjörð og Þistilfjörð. Eitt bjarndýr kom með ísnum og varð eftir af honum, þegar hann rak burtu á þrettánda. Var það skotið litlu síðar hjá Rauðagnúp, en rökkur var og nálægt sjó; veltist bangsi í sjóinn, en vindur stóð af landi og hefir hann ekki sést síðan. Um þrettánda kom hér besti bati allstaðar, eins inn um firðina, og rak hafísinn burtu, og hefir ekki orðið vart við hann síðan. Hin góða tíð hélst út þorra, en góa var ærið svakviðrasöm. Síðan einmánuður kom [25.mars] hefir heldur gengið til batnaðar, og nú er hláka.
Jökuldal 15. apríl: Þó kalt sé hér uppi á jöklinum, þá eru þau umskipti orðin, að skepnur hafa gegnið sjálfala um tíma og ekkert sultarkvein heyrist lengur. Veturinn hér hefir verið annar sá versti nú upp í 15 ár, sem ég hefi verið hér, þó nokkuð betri en 1874, því að þá lagði að með jarðleysum um veturnætur og batnaði 1. sunnudag í sumri, en nú kom batinn talsvert fyrr. Aftur dundu harðindin nú miklu fyrri á, því að í 20. viku sumars var alsnjóa ofan í á á Efradal, frá því á sunnudag til miðvikudags; þá komu stormar og svo litla kornið, sem úr honum fauk í 21.vikunni. Skepnur drápust, eins og þú veist, hröktust og meiddust, hey urðu úti, mest á Skjöldólfsstöðum (um 100 hestar), en litið hjá mér. Meðan jörðin var hér á Útdalnum var versta sóttarpest í fénaði, svo að eigi var hægt að beita; heyin skemmdust í rigningunum, svo allt hefir orðið til þess, að flestir höfðu sanna þörf á batanum.
Maí: Góð tíð í byrjun mánaðar, en síðan gerði mikið hret norðanlands.
Þjóðólfur kveinar þann 28.maí:
Tíðfarfarið þennan mánuð hefir verið eitthvert hið bágasta, landsynningsátt með sífeldum stormum og stórrigningum, kulda og fannkomu til fjalla; gróður nálega enginn enn kominn, og fjárhöld hin ískyggilegustu víða í sveitum; eru skepnur bæði magrar og sjúkar og teknar að falla víða; þó lítur bágast út með sauðburðinn, sem nú er byrjaður. Þar sem góð hagbeit er, stendur fé sig best, en lakast á léttum jörðum og sumstaðar í gjafasveitum. Heyin hafa í fyrra bæði verið svo létt og óholl, að undrum sætir. Allgóður afli hefði til þessa fengist hér um innanverðan flóann og máski víðar, en ógæftir hafa meira og minna aftur orðið til hnekkis.
Skuld birti þann 9.júní bréf, eitt dagsett í apríl, en hin í maí (reyndar segir að síðasta bréfið sé dagsett 12.júní - en það getur ekki verið rétt - og er leiðrétt hér):
Miðfirði 11. maí: Tíðin fremur köld nú um tíma. 1 skip komið á Borðeyri. ... Veturinn mátti yfir höfuð heita hér um sveitir inn blíðasti og skepnuhöld hin bestu, heilbrigði almennt góð yfir veturinn og slysfarir litlar.
Rangárvallahrepp, 12. maí: Nú er veturinn liðinn, og þó hann væri nokkuð kaldur, má hann þó teljast með hinum blíðustu hér sunnanlands, því að góunni undanskildri má varla heita að hér hafi gránað á jörð; þó eru heyin að mestu gefin upp hjá flestum og fénaður í bágu ástandi víða, einkum við mýrlendi, og er það afleiðing hinna miklu frosta fyrri part vetrarins, og óþurrkanna í fyrrasumar, því bæði var fénaður mjög magur í haust, og svo hafa bæði heyin og vetrarbeitin reynst einstaklega kjarnlaus; nú er hér oftast frost á nóttum, og af og til snjóhraglandi og með öllu gróðurlaust. Skipskaði varð við Eyjasand 30.[apríl], var það hlaðið með skreið úr Vestmanneyjum; drukknuðu þar alls 10 menn, voru það 8 karlmenn og 2 stúlkur; meðal þessara 4 bændur, er létu eftir sig fjölda ómaga. Vöruskip, nýkomið á Eyrarbakka, slitnaði upp og rak í land í vestan-roki 4. þ.m., en meira hlut af vörunum var búið að skipa upp úr því.
Reykjavík 9. apríl: 30. [mars] strandaði norskt vöruskip þeirra Snæbjarnar Þorvaldssonar á Akranesi, nálægt Þormóðsskeri, milli Akraness og Mýra.
Skuld segir frá þann 28.maí og birtir einnig bréf úr Mjóafirði:
Nýja brúin á Slenju [í Mjóafirði] hefir nú lokið æfi sinni; brotnuð undan snjó. Þetta er sú önnur, sem fer svo, og virðist það ætla að verða dýrkeyptur lærdómur fyrir sýslubúa hér að læra, hvernig .eir eigi að gjöra brú, sem dugi meira en árlangt.
Mjóafirði, 24. maí: Síðan tíðarumskiptin urðu hafa verið hagstæð veður, hvað jörðina snertir, enda er hér kominn nokkur gróður í úthaga, og tún í góðu útliti og, sem mest er um að gjöra, óvíða kalin; gripahöld sæmilega góð yfir höfuð. Skip frá kaupmanni V.T. Thostrup liggur á Brekkulegu og tekur móti saltfiski (hertum), og afhendir bændum jafnframt salt, korn og kramvöru og hvað annað, sem menn tóku út á verslunarstaðnum áður skipið fór þaðan. Þetta teljum vér bændur oss mikið hagræði og ættum vér að vera þeim þakklátir, er fyrst léttir oss svona viðskiptin. Aðfaranóttina 20. þ.m. lá við að skipið ræki upp, en því varð þó afstýrt, með því veðrinu slotaði síðari hluta nætur. Í sama veðri fauk timburhúss-grind hjá Guðmundi bónda Guðmundssyni á Hesteyri, og hefir að líkindum skemmst mikið.
Norðanfari birti þann 4.júlí tíðarlýsingu úr Reykjavík dagsetta 1.júní og úr bréfi frá vestfirskum manni stöddum í Reykjavík í júní:
Tíðarfarið á Suðurlandi næstliðinn maímánuð, eða frá byrjum hans til þess 24., var ærið stirt, gekk þá úr hófi, svo elstu menn muna eigi eins, kalsi og rigningar í byggð en fannkyngi til fjalla frá hinum 16. til 24., er í sífellu gekk alla þá daga, og hafði sú veðurátta ill áhrif á fénað allan, svo margt fé drapst og unglömb er þá voru borin, ólyfjan er einnig sögð að öðru leyti í fé, svo það drepst, þótt það sé í sæmilegum holdum, er menn kenna óhollu og léttu heyi frá næsta sumri. Með hinum 25. brá til blíðviðris, heiðríkju og hita, er varð mestur inni 16° og 24°R móti sólu. Þessi veðurátt hefir haldist síðan til loka mánaðarins.
[Þ.] 1. f.m. [væntanlega maí] strandaði norskt skip að nafni Ossian, er flytja átti viðarfarm til Ísafjarðar, sunnan undir miðju Látrabjargi. Mennirnir komust af á skipsbroti, og nokkru eða 2 förmum á 10 skipum stærri og smærri varð bjargað af viðnum og var það selt við uppboð; ... Skip þetta kom frá Mandal, mennirnir fóru suður hingað á Díönu og fara víst héðan með Phönix. ... Tíð var þar yfir höfuð góð þó kom rigningakafli kringum uppstigningardaginn [22.maí], og var þá svo kalt í veðri, að töluvert snjóaði á fjöll t.a.m. á Selárdalsheiði var knésnjór sumstaðar í götum eftir hretviðrið hið freka 1. og 2. maí. Síðan um hvítasunnuleytið [2.júní] hefir hér syðra verið blíðasta og hlýjasta veður, en oft þoku og saggasamt loft, og er svo háttað veðráttufari hér í dag, gróðrarveður ágætt, enda hefur grasvöxtur aukist þann tæpa hálfa mánuð er ég hefi dvalið hér syðra.
Júní: Fremur kalt og þurrt lengst af, slæmt hret í miðjum mánuði.
Þjóðólfur segir þann 25.júní:
Laxflutningsskip Mr. Bowmans kom 21. þ.m. frá Húsavík og hafði verið 3 1/2 dag á ferðinni þaðan. Úti fyrir Húnaflóa lá þá hafíshroði og svo nálagt Horni, að tæpar 2 danskar mílur [um 15 km] voru milli lands og íss. Vestanvert við Horn urðu þeir varir við gufuskip, sem hélt norður og eftir öllum líkindum hefir verið Díana. Það var snemma dags hins 19. þ.m. Fram yfir miðjan þennan mánuð stóð eitt hið indælasta blíðviðri, sem menn muna, enda blessaðist vorvertíðin eftir því, og vorhlutir hér á inn-nesjum eru almennt orðnir með besta móti, því mikill hluti fiskjarins hefir verið roskinn. Þ.17. gjörði norðan storm harðan, er stóð nokkra daga. Gróður er talinn orðinn í meðallagi, en vegir hinir bestu. Laxveiði lítil enn sem komið er.
Norðanfari birti þann 4.júlí bréf úr Skagafirði dagsett 24.júní:
Veðurátta hefir verið mjög köld með þurrkum á daginn en frostum á nóttum, svo þar sem hálent er, er brunnið og sumstaðar kominn maðkur í jörð; 14. til 18. þ. m. gjörði mikillegan kuldabálk, sem voðalega hnekkti grasvexti víða hvar, líka gjörði það sama veður mikið tjón fuglaveiðinni við Drangey, er áður var með besta móti, en fiskafli hefir verið heldur lítill.
Ísafold segir 26.júní:
Phönix, aðalpóstskipið, lagði af stað héðan eigi fyrr en 18. þ.m., snemma morguns, sakir stórviðris á norðan. (Kvöldið áður snjóaði ofan í miðja Esju og Skarðsheiði).
Þann 29.maí 1880 (árið eftir) birti Þjóðólfur eftirfarandi pistil undir fyrirsögninni Náttúru-viðburður:
Presturinn á Stóruvöllum í Rangárvallasýslu skrifaði oss fyrir skemmstu eftirfylgjandi: Í fyrra sumar [1879] að morgni hins 25. júní lá sílabreiða á litlum bletti á Minnivallatúni (bæ hér í grennd við); hefir slíkt, svo menn muni, að eins einu sinni áður borið við, á svo nefndum Hellismoldum, Eiríkur Eyjólfsson bóndi á Minnivöllum, segir að síli þessi hafi verið spegilfögur og sem þeim hefði niðurrignt; þykkviðri stóð af hafi (bærinn er yfir 4 mílur frá sjó) en útlit var fyrir, að rignt hefði um nóttina. Tvö af sílunum hefi ég geymt hjá mér í spíritus, og þykja mér þau líkust svo nefndum trönusílum að lengd og lögun. Útskýringu yfir náttúru-viðburð þennan óskum vér að fá hjá náttúru-fróðum mönnum.
Júlí: Þurr og blíð tíð nema á Austur- og Suðausturlandi þar var mjög óþurrkasamt. Fremur kalt.
Norðanfari segir frá tíð þann 4.júlí:
Veðurátta hér nyrðra hefir að kalla í allt vor verið þurr og köld nema dag og dag og lengi fram eftir frost á nóttunni. Tvö stórhret dundu hér yfir, seinni hluta maímánaðar og aftur fyrir og um miðjan [júní] Seinna hretið varð svo stórfellt, að kindur fenntu til dauðs og króknuðu í afréttum, og út við sjó og millum bæja. Eggver höfðu og sumstaðar skemmst til muna. Hér innfjarðar hefir nú lengi verið aflalítið. en nokkur afli yst í djúpum ... Nýlega voru Grímseyingar hér á Akureyri og Oddeyri, sögðu þeir líkt tíðarfar og á landi, lítill fiskafli, aftur varp í björgum vel í meðallagi.
Ísafold birtir þann 26.júlí fréttir úr Eyjafirði, dagsettar þann 12.:
Þurrakuldar héldust við framan af öllu vori, svo að harðlendistún kólu víðast, og þar sem það ekki var, skrælnuðu þau upp þá fáu hlýju daga, sem komu, því aldrei kom deigur dropi úr loftinu, þar til í miðjum júní, að breytti til með veðurstöðuna; úr því hafa stöðugir austanstormar gengið með kulda og úrkomum. Um fráfærurnar alsnjóaði, svo umbrot var fyrir hesta í heiðum og i daladrögum, geldfé var þá nýbúið að rýja og reka til afréttar, og króknuðu gemlingar sumstaðar; að vísu mun fé hafa gengið allvel undan vetrinum, en gróðurinn kom svo seint, að skepnur horuðust niður allt vorið. Lambadauði hefir verið nokkur, þó ekki eins og við hefði mátt búast eftir tíðarfarinu, og er það efalaust því að þakka, að meðferð fjárins á vetrum er stórum að batna hér í firðinum. Um sumarmálin kom nokkur fiskigengd í fjörðinn, en hélst að eins 3 vikna tíma; úr því má heita að fiskilaust hafi verið, nema reytingsafli yst á firðinum, sem fáum hefir þótt svara kostnaði að sækja. Hákarlsaflinn var góður hjá allflestum skipunum fyrstu ferðina. Aðra ferðina öfluðu nokkur skipin vel, en fleiri þó heldur lítið. Nú hafa þau verið um mánuð í þriðju ferðinni, en hafa sjálfsagt ekki getað verið nema mjög lítið við afla allan þennan tíma vegna storma og hafgangs, því bændur hér út með firðinum segja, að síðan austanstormarnir byrjuðu, hafi brimið sífellt verið eins og mest á haustdag.
Skuld (Eskifirði) segir af tíð þann 17.júlí:
Meðal þeirra gripa, sem i óskilum eru, getum vér Austfirðingar farið að telja sumarið í ár; að minnsta kosti höfum vér ekki orðið varir við það annarstaðar en í almanakinu, ennþá. Nú upp í frekan mánuð má svo að orði kveða, að varla hafi sól séð fyrir rosum, rigningum, þokum og hverskyns illsku í veðurlaginu; enda fer gróðurinn eftir því. Næturfrost hafa komið af og til, og það er ekki lengra síðan, en aðfaranótt 6. þ.m., að skændi af lagís hér út allan fjörð. Fráfærur urðu allstaðar á eftir venjulegum tíma og hríðdrapst undan ám og jafnvel ær króknuðu; bætti ekki um, að fé var víða horkvalið undan vetrinum. Í fyrra mánuði [júní] fennti enda fé í Seyðisfirði. Vér þekkjum bónda hér, sem á nú eftir 20 kvíær af 80, og munu fleiri til, er það nálgast, þótt eigi keyri svo úr hófi. Tún eru farin að sölna sumstaðar hér í neðra, og kyrkingur í öllum gróðri; er ekki útlit til að tún verði að meiru en hálfu gagni; en úthagi er víða eigi fyrirsjáanlegt að verði sláandi. Ofan á þetta bætist, að víða er kominn megn grasmaðkur í jörð, sem eyðir öllu gagni, þar sem hann til nær. Afleiðing þessara rosa og ógæfta hefir orðið eins á sjónum; aflinn hefir hvikull verið, meðfram sakir beituleysis, enda hefir sjaldan á sjó gefið, og tíðin hin versta til að verka afla. Yfir höfuð er engin sumarmynd á neinu, hvorki á sjó né landi, og vér þykjumst góðu hættir ef það kell [kelur] ekki úr oss síðasta lífs og vonar mark í hundadögunum.
Norðanfari segir af tíð þann 24.júlí:
Veðurátta er hér enn hin sama og áður, sífeld norðanátt og þurrviðri; grasvöxtur því með minnsta móti eftir því sem verið hefir nú um nokkur undanfarin ár, grasmaðkurinn hefir og viða á harðlendi ollað miklum skemmdum.
Ágúst: Þurr og blíð tíð nema á Austur- og Suðausturlandi þar var mjög óþurrkasamt. Fremur hlýtt nyrðra.
Norðanfari segir að sunnan þann 6.ágúst:
Veðrátta er góð hér á Suðurlandi; þurrviðri mikil og jafnvel um of, svo að grasvöxtur er í minna lagi. Fiskiafli var hér mjög góður í vor, en er nú að minnka.
Skuld segir af tíð eystra þann 22.ágúst:
Tíðarfarið hefir í sumar verið hið bágbornasta, er menn muna. Túnasláttur byrjaði löngu eftir vanalega tíð, og víða fást eigi hálf hey af túnum. Hér i sveit, utan háls, er úthagi sumstaðar eigi ljábær.
Þjóðólfur segir frá slysförum í ágúst í pistli 6.október:
[Þ.] 23. ágúst fórst skip með 4 mönnum af Álftanesi, þar skammt undan landi, þannig að bráðviðri var á, skip nærri tómt, en fáar hendur á; þykir víst, að þeir hafi siglt sig um koll. ... Um þessa daga er og talinn af róðrarbátur með 4 mönnum frá Hvaleyri við Hafnarfjörð.
September: Lengst af hagstæð tíð, nema austanlands, Mjög kalt syðra.
Þjóðólfur birti þann 6.október bréf úr Tálknafirði, dagsett þann 5.september:
Grasspretta hefir verið með bágasta móti hér í fjörðunum; sumstaðar hefir taða brunnið svo af túnum, að þau eigi hafa orðið slegin, engjar eru og illa sprottnar, nema helst votengi.
Skuld birti 22.október bréf úr Rangárvallasýslu, dagsett þann 12.september:
Tíðarfar hefir verið hér heldur gott, þó það hafi verið þerrilitið framan af júlí, og grasvöxtur með betra móti hér, helst á mýrarjörðum, því svo hefir allt verið þurrt hér, að það hefir verið slegið nú, sem menn muna varla að notast hafi áður fyrir vatni. Valllendi aftur með verra móti.
Þjóðólfur lýsir sumartíðinni þann 18.september:
Veðráttan í sumar hefir verið óminnilega fögur, björt og þurr um allt land nema á Austfjörðum og vestur með Vatnajökli í Skaftafellssýslu. Þar eystra hefir aftur gengið hallæristíð af hrakviðrum og kulda, og grasbrestur svo mikill, að víða byrjaði eigi túnasláttur fyrr en í ágústmánuði. Verður þar því nauð mikil í haust, er almenningur hlýtur annaðhvort að farga fjölda af skepnum sínum eða koma þeim í fóður, en hvert? Að vísu varð veðráttan að mun skárri óðara en upp í Héraðið kom, en heyskapur verður þar hvervetna mjög rýr, en með veðráttufari batnar hann úr því eftir því sem vestar dregur, og víðast annarsstaðar um landið mun heyskapurinn mega teljast góður sökum hinnar ágætu nýtingar. Þó brunnu tún víða (mest og háskalegast kringum Ísafjarðardjúp) í sumar, svo á fjölda jörðum brást töðufall til stórskaða. yfir höfuð hefir grasvöxturinn orðið fjarskalega misjafn, en víðast miklu betri á votengjum en þurri jörð, og sumstaðar afbragðsgóður, t.a.m. í Rangárvalla- og Árnessýslum (mestur að sögn á Skúmstöðum í Landeyjum og Arnarbæli í Ölfusi).
Skuld segir þann 21.september (dagsetur þann 20):
Það er nú útséð um það, að hér komi sumar í ár, þar sem sett er að með haustveðráttu og snjókomu af og til, bæði í fjöll, og í gær ofan undir sjó.
Október: Hagstæð tíð að slepptri slæmri hríð um veturnætur, annars hlýtt.
Þjóðólfur segir þann 6.:
Veðrátta gengur nú óstöðug og hraksöm síðan leið á réttirnar.
Skuld segir mjög stuttlega frá tíð í tveimur pistlum í október:
[11.] Veðurfar þessa viku hið blíðasta sem sumar væri, stillingar og logn.
[22.] Veðráttan er óstöðug nokkuð, en þó jafnaðarlegast hægt og frostlaust.
Norðanfari birti tvö október bréf þann 6.nóvember:
Húnavatnssýslu 14. október 1879: Tíðin hefir í haust verið rosasöm og miklar bleytur, slyddur og snjókomur.
Presthólahrepp í Norður-Þingeyjarsýslu 20. október: Tíðaríarið var hér um pláss kalt með austan nepjum og því gróðurlítið í vor og fram í ágústmánuð, en þá gjörði hér indæla tíð, er hélst um mánuð; spratt þá útengi öllum vonum framar; en þá gjörði enn austnorðan kuldakast; enn um Michaelismessu [29.september] gjörði öndvegistíð, og varð því heyskapur að lokunum fremur góður eftir því sem hér er um að gjöra; nú er hér komin haustveðrátta fyrir viku og þó ekki slæm. Fiskiafli hefir verið ágætur hér í sveit í sumar og er enn nægur fiskur fyrir þá róið er.
Norðanfari birti þann 2.janúar 1880 bréf af Rauðasandi, dagsett 18.október:
Síðan ég ritaði yður seint í júlí er allt tíðindalítið. Tíðin var hin ágætasta allt fram í september. En síðan eftir 7. sept. hefir veðurátta verið rosafengin og óstillt, stundum mjög miklar rigningar. Síðara hlutann af sept. bleytuköföld, sem að vísu urðu að vatni í byggð en festi á fjöll, svo á þau sum var komið allt að því hnésnjór. Frost hefir oft verið á nóttum. Síðan kom fram i þennan mánuð og svo er aftur annað veifið þíða og rigning; hefir því snjóinn tekið aftur upp af fjöllunum að mestu. Heyskapur hefir víst víða orðið í minna lagi, þó sumstaðar í meðallagi. Einkum brugðust túnin, því að af þeim hafði viða brunnið í hitunum framan af sumrinu.
Nóvember: Hagstæð tíð. Mjög hlýtt sunnanlands.
Skuld birti þann 27. bréf úr Fljótsdal, dagsett 7.nóvember:
Fréttir hefi ég engar að skrifa yður nema góða heilsu manna og góða tíð sem stendur; heybirgðir manna með langminnsta móti og útlit á að vetrarbeitin verði lítil, því það mátti kalla að úthagi grænkaði ekki í sumar, fénaður manna með rýrasta móti og farið að brydda á bráðapestinni á stöku stöðum. Haustveðráttan hefir verið allgagnstæð sumarveðráttunni hér um slóðir. Hefir oftast verið landátt (vestan til sunnan) með hitum og stundum úrkomu, snjólaust og frostlaust mest af; hefir enda stundum verið 68° hiti (R.) á nóttunni. Nú nokkra daga síðast hægt frost með norðanátt og logni siðast.
Norðanfari birti þann 2.janúar 1880 nokkur bréf dagsett í.nóvember:
Miðdölum 11.nóvember: Héðan er stórtíðindalaust að frétta, heilsufar almennings allgott og engir nafnkenndir nýlega dánir, tíðin hefir verið mjög umhleypinga- og illviðrasöm síðan á réttum, en ómunalega góð um heyskapartímann, varð því heyskapur i betra lagi, þó viðar væri snöggslægt. Fjárheimtur eru með versta móti því vegna þurrviðranna, í sumar hefir fé runnið afgeipa [út og suður]. Það er leiðinlegt, að vita hvað margt óskilafé er selt í hverjum hreppi og eigendur þess skuli þannig tapa eign sinni, sem ekki þyrfti að vera ef auglýst væri í blöðunum hvað selt er, ...
Broddaneshrepp í Strandasýslu 26.nóvember: Sumarið var óvenjuþurrkasamt og hagstætt, en graslítið harðvelli og brann víða af túnum, svo töður urðu víða helmingi minni en venjulega, en úthagi í meðallagi og sumstaðar góður til fjalla, málnyta allstaðar mjög rýr, haustið fjarskalega rigningasamt og oft talsverð veður af suðri og vestri, enda hafa orðið hér 3 bátstapar. 1. [nóvember] drukknuðu 2 menn af bát í Steingrímsfirði, en 1 varð bjargað, hann var frá Hafnarhólmi á Selströnd. 6. [nóvember] drukknuðu 3 menn frá Kleifum á Selströnd, sem voru til fiskiróðra norður á Eyjum. allt ungir menn og ógiftir, formaðurinn hét Jóhannes, þeir fórust í vestanveðri og enn er sagt að ekkert hafi rekið af þeim bát. 8. sama mánaðar drukknuðu 4 menn frá Guðlaugsvík, 3 bændur, ... þeir voru í fiskiróðri og þann dag var hér afar mikið veður, og brast á allt einu.
Af Suðurnesjum 22. nóvember: Hér er allt tíðindalaust, besta árferði upp á landið. Umhleypingar hindra sjógæftir. Snemma í nóvembermánuði rak hval eða aftari part af honum í Þorlákshöfn, líka hvalstykki á Ásfjörum, fremri part fisksins hafði rekið á Skúmstaðafjöru, en tók út aftur.
Þann 8.janúar 1880 birti Norðanfari bréf af Seyðisfirði, dagsett 23.nóvember:
Tíðarfar hefir verið mjög stirt í sumar, snjóar, rigningar og frost á víxl; ógæftir, fiskileysi, beituleysi og svo frv. Með september skánaði þó tíðin dálítið, svo góðir dagar komu stundum og afli nokkur. Ekki aflaðist síld fyrr en síðustu dagana af september, þá kom mikið af henni og fiski líka, næstum tómur þorskur. Fyrstu vikuna af október var hlaðafli af tómum þorski, eins inn á firði, var alla þá viku blíðu veður og logn. Nú er komið frost og norðanstormur, snjógangur og brim og heldur farinn að réna afli í firðinum, en útfyrir gefur ekki að reyna. Norðmenn hafa fengið svo mikla síld að undanförnu, að þeir hafa gjört boð út um byggð, að hver sem vildi mætti hirða síld hjá sér án borgunar, því lásarnir voru svo fullir, að þeir urðu strax að rýma úr þeim svo hún dræpist ekki.
Þjóðólfur birti tíðar- og slysapistil þann 27.nóvember:
Haust þetta hefir verið all-hrakviðrasamt, einkum á Suðurlandi og allt norður í Skagafjörð, þurrara úr því og gott á Austurlandi. Haustafli hér syðra viða góður orðinn, og hér á inn-nesjum sumstaðar óvenjugóður þessa síðustu daga á grunni. Af heilbrigði manna og málleysingja er allt bærilegt að segja, skaðar hafa fáir orðið og engin strönd, sem vér enn höfum frétt, enda fá ofsarok komið. En því miður hafa hin gömlu slys og mannalát haldið fornri venju: Á Steingrímsfirði hvolfdi báti í f.m. týndust 2 en 1 komst af; bátur fórst og á Hrútafirði með 3 mönnum; var formaðurinn Ólafur frá Guðlaugsvík; allir voru þeir kvongaðir. 8. þ.m. þá er norðanpóstur fór úr Eyjafirði, gjörði skyndilega um hádegi eitt hið voðalegasta afspyrnu-rok. Þá týndust 2 skip af Skagaströnd og 5 menn af hverju, 2 skip úr Skagafirði, og enn 2 á Steingrímsfirði. Um manntjónið er oss ókunnugt.
Ísafold segir af tíð þann 28.nóvember:
Veðrátta hefir í þessum mánuði verið mild, en vætu- og stormasöm; sér í lagi gjörði hér ákaflega mikið stórviðri á landsunnan þann 20. Afli hefir verið góður, þegar gefið hefir, en mjög sjaldróið sökum umhleypinga. Sláturfé skarst fremur illa um sláturtímann, sér í lagi upp á mör. Bráðapest gjörir við sig vart hér og hvar, þó ekki eins og við hefði mátt búast, eftir því sem tíðarfarið er. Hvergi heyrist kláðinn nefndur á nafn. Heilsufar manna á meðal fremur gott; þó hefir brytt á lungnabólgu á stöku stöðum. Með norðanpósti fréttist, að tíð hefir verið hin besta, sér í lagi eftir því sem lengra dregur norður.
Desember: Nokkuð skakviðrasamt, en lítið var samt kvartað undan tíð. Hlýtt í veðri lengst af.
Skuld segir þann 12.desember:
Það var haft eftir pósti síðast, að Norðlendingar hefðu orðið varir þess við og við í haust að eldur væri uppi. Hið sama hafa sumir þóst merkja hér eystra. Tíðin bendir og til þess. Af og til sumarveðrátta, vestanátt og sunnan; nær ávalt milt.
Fróði birti þann 14.febrúar 1880 bréf úr Skaftafellssýslu, dagsett 29.desember 1879:
Tíðarfarið mjög kalt og frostasamt, með norðaustan næðingum allt fram í miðjan júnímánuð, svo gróðurlaust mátti heita, og varla áfangastætt; frá 1722. júní hafrigning með stormi, svo talsvert króknaði af fé, einkum í Austursýslunni. Sumarið allt kalt, en fremur þurrviðrasamt. Grasvöxtur í allra minnsta lagi upp í mörg ár; svo heybirgðir manna í Austursýslunni einkum austur í Lóni og Nesjum óvanalega litlar. Aftur á móti grasvöxtur ágætur í Meðallandi og Mýrdal, en í góðu meðalagi yfir höfuð í Vestursýslunni. Síðan með september öndvegistíð, varla sést snjór og frost lítil, svo varla muna menn eftir jafngóðri haustveðráttu; víðast hvar ekki enn þá farið að gefa lömbum. Rétt fyrir jólin kom talsverður bleytusnjór, en tók undir eins upp aftur á annan í jólum.
Þann 17.mars 1880 birti Fróði bréf úr Árnessýslu, dagsett 20.desember:
Þegar maður skrifar um árferði, þá á best við að byrja með vorinu, því þá eru áraskipti árferðisins, og það eru hin náttúrlegu áraskiptin. Vorið sem leið var fremur gott, en þó greri jörð seint, því hún var mjög dauð og klaki í mesta lagi eftir veturinn. Eftir vertíðarlok gerði stórrigninga-kafla á þriðju viku, en þá hófst þurrviðrið og blíðan sem síðan hélst stöðugt þangað til 20 vikur af sumri; muna fáir jafnlangt góðviðri breytingalaust. En þá brá allt í einu til úrkomu með mestu hrakviðrum, snjóaði í fjöll og rigndi í byggð, tókust fjallaleitir ógreitt, og urðu heimtur ekki góðar, en fjallafé áður víða runnið í þurrviðrunum. Haustið varð hið rosamesta, og það sem af er vetri hafa verið umhleypingar, frost lítil, en úrkomur miklar og meira rignt enn snjóað. Grasvöxtur varð í minna lagi vegna þurrkanna er á leið vorið, en nýting var hin besta, þornuðu hey almennt svo vel að ekki hitnaði í þeim, en fyrir það urðu þau venju fremur laus í sér, og er nú víða kvartað yfir að vatn hafi hlaupið í þau í hinum miklu haustrigningum; eru víða af því orðnar tilfinnanlegar skemmdir bæði í görðum og í hlöðum.
Þjóðólfur segir á gamlársdag:
Haustið og skammdegið til þessa má kallast að hafa verið milt og gott, þótt jólafastan hafi verið hrakviðrasöm og gæftalítil. Fiskiaflinn hér í inn-flóanum varð hinn besti og hefði jafnvel orðið óvenjulega mikill, hefðu gæftir orðið góðar. Jörð hefir hér syðra oftast verið auð og þíð, enda gengu lömb úti til jóla til dala og fjalla, þar sem beit er best; aftur eru mýrarjarðir orðnar lítt nýtar til beitar, því þegar snjór ekki fær að hvíla slíkar jarðir annað veifið fyrri hluta vetrar, verður hagbeitin einatt bæði óholl og ónýt.
Þann 8.janúar 1880 birti Norðanfari tíðarfarsyfirlit ársins 1879:
Hin sömu frost og harðindi er gengið höfðu fyrir nýár 1879, héldust um Norður- og Austurland fram að páskum; snjóþyngsli voru mikil, einkum um Þingeyjarsýslu, Múlasýslur og mikinn hluta Eyjafjarðarsýslu; víða i þessum sýslum var haglaust fyrir allar skepnur allt frá því hálfum mánuði fyrir vetur i fyrra haust og fram til páska; frost voru og æði hörð fyrst eftir nýárið, lagði þá Eyjafjörð út að Hrísey og Vesturál, en Skagafjörð út að Málmey; hafís var fyrir utan en litt varð hann landfastur, og var nær allur horfinn í byrjun aprílmánaðar. Fyrir vestan Öxnadalsheiði var snjór lítill og nær því engin um Suðurland; veðrátta var óstöðug þegar kom fram á þorra og góu, voru þá umhleypingar syðra og hrakviðri, en snjóar fyrir norðan og austan. Eftir páska [13.apríl] fór að taka upp snjó fyrir norðan, en vorið var kalt og þurrkasamt nær því um allt land, kom því gróður seint í jörðu, snjóaði aftur í júní nyrðra og eystra. Grasvöxtur var í minna lagi víðast en þurrkur og nýting á heyjum var í besta lagi um Norður- og Suðurland. Aftur voru óþurrkar og hrakviðri eystra, einkum á Austfjörðum, í sumar. Eftir slátt gjörði góða tíð á Austurlandi og nyrðra, gekk sunnanátt með hlýindum og litlum úrkomum allt fram að nýári, mátti kalla öndvegistíð norðan og austanlands á hausti þessu; snjór féll svo að segja enginn og tók þegar upp aftur. Á Suðurlandi breyttist veðrátta eftir slátt, gekk í sunnan rigningar og hrakviðri, oft mjög stórkostleg, svo undir skemmdum lágu þar hæði hey og eldivíður; hélst veðurátt sú syðra fram að jólum með snjókomu öðruhverju; nokkuð rigningasamt var þá um Vesturland og Húnavatnssýslu, einkum vestan til.
Þjóðólfur gefur árinu 1879 góða einkunn í pistli þann 10.janúar 1880:
Með hinu liðna ári, hvarf eitt af gæskuárum lands vors í haf horfinnar tíðar batnandi vetur, meðalvor, indælt sumar og hagstætt haust. Innanlands eigum vér, eins og áður er sagt, að sjá á bak einhverju hinu besta ári, góðviðrisári, aflaári, heynýtingarári. Þó varð grasvöxtur víða mjög lítill, enda sumarið mjög stirt í fáeinum sýslum, helst eystra, og heilsufar manna ekki háskalaust.
Lýkur hér að sinni yfirferð hungurdiska um árið 1879. Finna má ýmsar tölulegar upplýsingar í viðhenginu.
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 18:47 | Facebook
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.1.): 28
- Sl. sólarhring: 134
- Sl. viku: 2475
- Frá upphafi: 2434585
Annað
- Innlit í dag: 25
- Innlit sl. viku: 2199
- Gestir í dag: 25
- IP-tölur í dag: 25
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.