Fáum við sneið af kökunni?

Eins og komið hefur fram í fréttum ganga nú óvenjulegir hitar yfir hluta af Evrópu vestanverðri og síðan næstu daga norður um Skandinavíu. Hér er á ferðinni loft af suðrænum uppruna - kannski frá Norður-Afríku. Að sjálfsögðu dregur úr mestu hlýindunum eftir því sem norðar er komið - en óvenjuleg eru þau líka þar. 

Allmargar spár (en ekki allar) gera nú ráð fyrir því að sneið af þessum hlýindum komist í námunda við Ísland - enn er þó rétt að nota spurningarmerki hvað það varðar - þar eru margir óvissuþættir. Sneiðin gæti einfaldlega farið framhjá landinu - nú eða þá að þykk ský og úrkoma fylgi þeim þannig að aðallega yrði um óvenjuleg úrkomu- eða næturhlýindi að ræða. 

Engu að síður skulum við líta á stöðuna. Fyrst er hefðbundið norðurhvelskort, jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar - af þeim ráðum við vindátt og vindstyrk í 5 til 6 km hæð. Þykktin er sýnd í litum, því meiri sem hún er því hlýrra er loftið í neðri hluta veðrahvolfs.

w-blogg250719a

Kortið gildir síðdegis á laugardag, 27.júlí. Við sjáum að mestu hlýindin eru liðin hjá á þeim slóðum sem hlýjast var á í dag (fimmtudag) og að meginkjarni þeirra er kominn yfir Skandinavíu. Þar er þykktin á stórum bletti meiri en 5700 metrar sem er mjög óvenjulegt norður á 65. breiddarstigi. Þetta minnir að sumu leyti á stöðuna sem var yfir Alaska fyrir nokkru. Það er líka óvenjuhlýtt yfir norðurskautinu og hlýindin hafa sneitt meginkuldasvæðið í tvennt. 

Í þessari spá er hluti hlýja loftsins á leið til Íslands - ekki það hlýjasta að vísu, en samt gæti þykktin komist yfir 5600 metra - jafnvel marga daga í röð rætist spáin. Ekki er langt í kaldara loft fyrir suðvestan land og á milli er allmikið regnsvæði. Spurning hvað það endist eða verður þrálátt. Fari það vestur fyrir land mun gera einhvers konar íslenska hitabylgju. 

Síðara kortið sýnir stöðuna um hádegi á miðvikudag - líkur á því að hún verði nákvæmlega svona eru auðvitað ekki miklar - margt fer úrskeiðis í spám á sex dögum.

w-blogg250719b

Við skulum vara okkur á því að hér sýna litirnir hæð 500 hPa flatarins (ekki þykktina), en heildregnu línurnar eru sjávarmálsþrýstingur. Hér er ákveðin austanátt við sjávarmál - en líka allákveðin austanátt í efri lögum. Við getum flett því upp hversu óvenjuleg þessi staða er - þá kemur í ljós að hún er eiginlega fordæmalaus - svona sterka austanátt með jafnháum 500 hPa-fleti þekkjum við ekki á þessum árstíma. Við höfum slatta af dæmum þar sem flöturinn er ámóta hár yfir landinu, en þá er miðja háþrýstisvæðisins að jafnaði nær okkur - og austanáttin þar af leiðandi minni. Við þekkjum tvo daga - en aðeins tvo - með jafnmikilli austanátt í háloftum í júlí og ágúst - en þá var 500 hPa-flöturinn áberandi lægri en kortið sýnir. Óvenjulegt veður fylgdi í báðum tilvikum. Hið fyrra var 20.ágúst 1950 - daginn áður varð mannskaðaskriðan mikla á Seyðisfirði - mikil hlýindi voru vestanlands um þær mundir. Hitt tilvikið var 29.júlí í fyrra - þegar hæsti hiti á landinu á árinu mældist vestur á Patreksfirði - ekki alveg venjulegt það. 

Við leitina finnum við daga með ákveðinni austanátt - þó minni sé en þetta - en ámóta háum 500 hPa-fleti - oftast þó aðeins staka daga. Í því tilviki sem hér er verið að spá á þessi austanátt að standa í nokkra daga. Við skulum nefna þau tilvik þegar ákveðin austanátt var samfara óvenjuháum 500 hPa-fleti í tvo eða fleiri daga í röð í júlí eða ágúst: a) 1. og 2. ágúst 2008 (hitabylgjuunnendur muna það ástand), b) 9 til 12. ágúst 2004 - jú, ætli sömu unnendur muni það ekki líka, c) 30. og 31. ágúst 1980 - (þeir eldri muna líka þá daga mjög vel).

Svo er stungið upp á tveimur eldri tilvikum - a) 14. og 15.ágúst 1914 - þá var áttin nægilega suðlæg til þess að það voru aðallega íbúar Norðurlands og landsins norðvestanverðs sem nutu mikilla hlýinda - en suðvestanlands var skýjað. b) 11. og 12. ágúst 1893 - þá var hitabylgja um landið suðvestan- og vestanvert. Hiti fór yfir 20 stig í Reykjavík og í tæp 25 stig á Stóranúpi í Hreppum. 

Það er enn allt of snemmt að ræða um þessar spár sem eitthvað raunverulegt - þær eru bara eitthvað í reikniheimum - en eðlisfræðilegur möguleiki engu að síður. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • w-blogg211224b
  • w-blogg211224
  • w-blogg121224
  • w-blogg111224a
  • w-blogg101224b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 20
  • Sl. sólarhring: 214
  • Sl. viku: 985
  • Frá upphafi: 2420869

Annað

  • Innlit í dag: 15
  • Innlit sl. viku: 864
  • Gestir í dag: 15
  • IP-tölur í dag: 15

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband