Af hreti í maílok 1952

Þó kuldakastið sem nú gengur yfir (aðallega um landið norðaustan- og austanvert) sé leiðinlegt er það engan veginn í hópi þeirra skæðari á þessum árstíma - alla vega ekki enn sem komið er. Það hefur samt valdið því að ritstjóri hungurdiska hrökk í dálítinn upprifjunargír á dögunum. Auðvitað rifjuðust upp mörg skæð köst eða hret síðustu viku maímánaðar og langt fram eftir júní - flest tengd árásum kuldapolla úr norðri eða vestri. 

Margir muna enn mikil hret á þessum tíma árið 2011, 2006, 1997, 1975 og 1973 - og sjálfsagt mun fleiri. Eitt þeirra skæðustu kom seint í maí árið 1952 - fyrir tíma langminnis ritstjórans - en samt eru enn margir á lífi sem gætu munað það. Ekki víst þó að þeir minnugu séu meðal lesenda þessara pistla. 

Við skulum til gamans rifja upp þetta hret - og einkum þó blaðafréttir af því. Kuldanum nú veldur útrás úr norðurhöfum - afmarkaður kuldapollur ættaður frá ströndum Síberíu. Svo vel vill til að aðalafl hans beinist til suðurs nokkuð fyrir austan land - og við sleppum við verulegt illviðri. 

Kuldapollurinn sem olli kastinu í maí 1952 var annarrar ættar - kom eiginlega þvert yfir Grænland og náði jafnframt í mjög hlýtt loft sunnan úr höfum. Afskaplega hættuleg staða á öllum árstímum. 

Eftir sérlega erfiðan desember 1951 og janúar 1952 skánaði veðurlag hér á landi þannig að febrúar og mars voru tíðindaminni og víða hagstæðir. Apríl er merkastur fyrir mikið illviðri sem náði þó ekki svo mjög til landsins en olli gríðarlegum mannsköðum norska selveiðiflotans fyrir norðan land og við Jan Mayen - held að nærri því hundrað sjómenn hafi þar drukknað. 

Maí byrjaði kuldalega, en um miðjan mánuð hlýnaði og vorið virtist blasa við. Veðráttan segir um maítíðina:

Tíðarfarið var fremur óhagstætt að undanskildum hlýviðrakafla upp úr miðjum mánuði. Tún voru víðast farin að grænka um miðjan mánuð, en seinast í mánuðinum kippti mjög úr gróðri. Samgöngur voru oftast erfiðar vegna aurbleytu og snjóa.

w-blogg280519a

Kortið sýnir stöðuna í 500 hPa-fletinum seint að kvöldi sunnudagsins 25.maí 1952. Þá er köld háloftalægð rétt í þann mund að taka stökkið yfir hábungu Grænlandsjökuls og mætir kuldi hennar hlýjum straumi langt sunnan úr höfum. Lægð myndast þá á Grænlandshafi og dýpkar hún ört og hreyfist austur meðfram norðurströndinni. Sunnan lægðarinnar var vindur hvass úr vestri. Kalda loftið kom fyrst inn yfir land úr vestri upp úr hádegi þann 26. - en vindur snerist að kvöldi þess dags til norðurs og hvessti verulega.

w-blogg280519b

Daginn eftir, þriðjudag 27.maí var lægðin komin austur fyrir land - svipað og kortið hér að ofan sýnir. Athugið að sýndar eru jafnhæðarlínur 1000 hPa-flatarins, lína merkt 0 er sú sama og 1000 hPa jafnþrýstilínan og 40 metrar sýna 1005 hPa. Eins og venjulegt er í endurgreiningum er snerpa lægðarinnar heldur vanmetin.

islandskort_19520527_0900

Íslandskortið kl.9 að morgni þriðjudags sýnir veðrið ekki fjarri hámarki. Þrýstispönn yfir landið - frá Dalatanga vestur í Bolungarvík er sú þriðjamesta sem við vitum um í maímánuði og meiri en sú mesta sem vitað er um í júní. Samanburður nær aftur til 1949. Sjá má að á Nautabúi í Skagafirði er blindhríð, skyggni 200 metrar og hiti við frostmark. Ofsaveður er á Kirkjubæjarklaustri og sandbylur og fárviðri á Stórhöfða í Vestmannaeyjum. 

Frost fór í -10,2 stig í 850 hPa yfir Keflavíkurflugvelli daginn eftir og hefur aðeins einu sinni orðið meira síðar að vori. Það var í júníhretinu mikla 1997. 

Við skulum nú fara yfir fréttir af veðrinu og tjóni í því sem birtust í Tímanum og Morgunblaðinu næstu daga á eftir. Þar kemur vel fram hversu slæmt þetta hret var. Við skulum hafa í huga að talsverðar breytingar hafa orðið á þjóðfélagsháttum og samgöngum á þessum tæpu sjö áratugum sem liðnir eru - og gerði sama veður eða ámóta nú á dögum yrðu áhrifin önnur. 

Þess má geta að kuldinn hélt áfram fram í júní og þann 2. varð alhvítt á Stórhöfða í Vestmannaeyjum, snjódýpt mældist 2 cm. 

Vindhraði komst í 10 vindstig á Reykjavíkurflugvelli, en höfum í huga að vindmælirinn var í „ólöglegri“ hæð um þessar mundir. Einkennilegasta tjónið varð á Geirlandi á Síðu. 

Tíminn 28.maí:

Í fyrrinótt gerði hið versta veður, sem náði um mestan hluta landsins. Var veðrið af norðri og víða ofsarok sunnanlands, en snjókoma og frost norðan lands. Fregnir af veðrinu á Norðurlandi eru þó ekki ljósar enn vegna þess að símasambandslaust var norður um land og einnig austur um til Hornafjarðar.

Á Suðurlandi og í Vestmannaeyjum komst veðurofsinn sums staðar allt að 12 vindstigum. Nokkurt næturfrost var og sunnanlands og allmikið norðan lands en hiti 3—4 stig í gær en um frostmark á Norðurlandi.

7000 kálplöntur eyðilögðust. Veðurofsinn fór vaxandi fram eftir nóttu í fyrrinótt og um klukkan sex í gærmorgun náði hann hámarki sunnanlands. Á Laugarvatni var veðrið afskaplegt svo til fádæma má telja, enda varð þar mikið tjón, sem lauslega er talið nema 30-40 þúsund krónum. Rúður brotnuðu úr gróðurhúsum, og 7000 kálplöntur sem nýbúið var að setja niður, eyðilögðust. Er talið óvíst, hvort hægt verður að fá plöntur í þeirra stað, og er hætt við að kálræktin á Laugarvatni bíði mikinn hnekki af þessu í sumar. — Veðurofsinn var svo mikill, að bát tók á loft og brotnaði hann. Talin er hætta á að um 10 tunnur af kartöflum, sem búið var að setja í rásir í görðum en ekki hylja mold, hafi eyðilagst í næturfrosti. Margvíslegt tjón annað varð á garðagróðri á Laugarvatni. Mun tjón af svipuðu tagi hafa orðið víðar á Suðurlandi í fyrrinótt, þótt ekki sé það eins stórfellt.

Sandgræðslan á Stjórnarsandi stórspillist. Veðurofsinn náði hér hámarki klukkan 7—8 í gærmorgun, sagði fréttaritari Tímans á Kirkjubæjarklaustri. Var hann þá svo mikill í byljunum, að fádæmi eru. Margvíslegar skemmdir hafa orðið af veðrinu. Sandgræðslan á Stjórnarsandi hefir stórspillst. Var orðið þar vel gróið yfir að líta eftir einmuna vortíð, og sandfaxið orðið vel sprottið. Í dag er þar svart yfir að líta. Sandfokið var geysilegt, og víða liggja nú sandskaflar þar sem áður var grænt gras. Áveitan út á sandinn frá Skaftá hefir og spillst, þar sem sandskaflar lögðust í áveiturennur. Er augljóst, að sandgræðslan, sem þarna var komin vel á veg fyrir ötult starf og merkilegt átak hefir beðið allmikinn hnekki.

Rafstöðin á Geirlandi skemmist. Rafstöðin við Geirland, sem fjögur heimili á Geirlandi og Mörk fá rafmagn frá, og er dýrt mannvirki, Skemmdir á henni urðu með þeim hætti, að vatn fauk í veðurofsanum úr aðveituskurðinum og uppistöðulóni út í grasi gróna brekku, og kom þar svo mikill vatnsagi, að aurskriða rann ofan á aðrennslispípur, braut þær og raskaði. Eru skemmdir þessar allmiklar.

Þök af mörgum útihúsum. Á Síðu og í Landbroti fuku þök af útihúsum, einkum hlöðum. Mestar skemmdir af því tagi urðu í Nýjabæ í Landbroti, Hörgslandi og Keldunúpi á Síðu. Skemmdir urðu víða í görðum, fauk áburður og kálplöntur eyðilögðust.

Flugvöllurinn ónothæfur í bili. Flugvöllurinn við Klaustur er ónothæfur í bili vegna sandfoksins. Fauk sandur inn í allstóra sandskafla á flugbrautinni, og þarf að ýta honum af með ýtu áður en völlurinn verður lendingarhæfur á ný.

Meiddist í baki. Fréttaritari blaðsins í Vík í Mýrdal sagði, að veðrið hefði ekki verið eins hvasst þar og austar, en ýmislegt fauk þó úr skorðum, og næturfrost var þar í fyrrinótt, þó vonandi hafi það ekki orðið til skemmda í kartöflugörðum, þar sem farið var að koma upp. Sigurður Sigurðsson bóndi í Skammadal meiddist lítilsháttar í baki, er hann var að hagræða einhverju við bæ sinn og koma í veg fyrir fok. Fauk þá spýta í bak hans. Meiðsli hans var þó ekki talið hættulegt. Í gærkvöldi var farið að lægja og hlýna í veðri.

Snjókoma á Norðurlandi. Fregnir af Norðurlandi voru af skornum skammti í gærkvöldi vegna símabilana, sem virðast hafa orðið þar allmiklar. Þar var þó allmikil snjókoma í fyrrinótt og fram eftir degi í gær, og allmikið frost í uppsveitum. Mun hret þetta hafa komið mjög illa við, þar sem sauðburður stendur sem hæst, og mun kannski sumstaðar hafa verið búið að sleppa lambfé, þar sem tíð hefir verið einmuna góð að undanförnu og kominn góður gróður.

Morgunblaðið 28.maí 1952:

Miðþorraveður á Norður- og Austurlandi í gærdag. Snögg veðrabrigði hafa orðið. — Um allt Norður- og Austurland var norðan stormur í gær með hríð. — Víða var frost í fyrrinótt og náði það niður til uppsveita í Árnessýslu. — Veðrið var öllu meira um sunnanvert landið þar sem það olli skemmdum á mannvirkjum. Á Norðurlandi króknuðu lömb í hríðinni og kuldanum. Skemmdir urðu á símalínum. Er frá þessu sagt í fréttum hér í blaðinu í dag. Veðurstofan skýrði Mbl. svo frá í gær, að mest frost í gærmorgun hefði verið í innsveitum á Norðurlandi þar sem það mældist 3 stig. Víðast annars staðar þar og á Austurlandi var hiti rétt um frostmark. Það eru horfur á að norðanáttin verði hér alls ráðandi næsta sólarhring a.m.k. og er hætt við að á Norður- og Austurlandi verði næturfrost. Vindur mun verða hægur. Um Suðvesturland mun veður verða bjart.

Djúpavík 27. maí. — Eftir látlaust þíðviðri hér um slóðir frá því um miðjan maí, brá til norðaustanáttar í gærkvöldi með hvassvíðri og snjókomu. Í alla nótt voru bændur við smalamennsku til að bjarga lömbum í hús. Óttast er að lömb hafi króknað. Fram til 16. maí voru hér stöðugir kuldar og frost á hverri nóttu og snjókoma öðru hvoru. Þá sást tæplega á dökkan díl, jörð öll þakin snjó og sumstaðar var snjórinn mannhæðardjúpur, þar sem hann var jafnfallinn. Þá voru margir bændur komnir í heyþrot. — En þennan fyrrnefnda dag brá til þíðviðris, sem svo hefur staðið yfir síðan. — Snjó hafði mikið tekið upp og flestir bændur búnir að sleppa fé sinu og sauðburður stóð sem hæst.

Í gærkvöldi brá skyndilega til norðaustanáttar með hvassviðri og snjókomu. Hún stóð í alla nótt og fram á dag. Allmiklum snjó hefur kyngt niður á þessum tíma og hér er nú frost. Bændum hér í sveit varð lítið svefnsamt í nótt, því flestir voru í smalamennsku að bjarga lömbunum í hús í hvassviðri og hríð. Talið er víst að lömb muni hafa króknað í kuldanum í nótt. — Hér er það von manna að hret þetta standi stutt. — Að öðrum kosti má búast við fjárfelli.

Í því óvenju harða norðanveðri sem gekk yfir landið í fyrrinótt og í gær, bilaði talsímalínan milli Reykjavíkur og Akureyrar. — Kunnugt var um að í Húnavatnssýslu brotnuðu 4 símastaurar vegna ísingar á vírum línunnar, þunga víranna og veðurofsans og ekki var mögulegt að gera við línuna í gærdag vegna veðurs. Þessi bilun hafði í för með sér að talsímasambandslaust var við Norður- og Austurland. Einnig var talsímasambandslaust austur á Hornafjörð, en fregnir höfðu ekki borist um hve alvarleg sú bilun var.

Akureyri, 27. maí. — Í morgun vöknuðu menn hér við norðan grenjandi stórhríð. Vindhraðinn var um 7 vindstig hér í bænum og hiti um frostmark. Háspennulínan frá Laxá bilaði í morgun, og var bilunin ekki fundin um hádegi og því allt í óvissu um hvenær rafmagn kemur. Veður var að sjálfsögðu ákaflega óhagstætt til viðgerðar á línunni. Strax og kemur út fyrir bæinn, er veðurhæðin mun meiri, og mun snjó hafa fest á vegum, svo að bílar eiga erfitt yfirferðar. — Eru t.d. þeir vörubílar tepptir austur í Fnjóskadal, er ætluðu inn yfir Vaðlaheiði. Áætlunarbílar Norðurleiða voru rúma tvo og hálfan tíma á leiðinni í Bakkasel, en eru venjulega um eina klukkustund, að keyra þá leið. Mun ófærðin hafa verið mest neðan til í Öxnadal, en færi sæmilegt úr því. Nokkrir bændur úr nágrenninu mun hafa verið búnir að sleppa fé, og er hætt við, að unglömb krókni i hríðinni. Vignir.

Húsavík 27. maí. — Í nótt gerði hér vonskuveður af norðri og snjóaði í fjöll. Grátt var í rót niður undir sjó. Í dag hefir verið stórsjór, eins og á vetrardegi, en heldur fór hann minnkandi er á daginn leið. Áætlunarferðir til Akureyrar hófust um s.l. helgi, en Vaðlaheiði er nú orðin ófær, svo að ferðir falla niður þar til aftur birtir. Fréttaritari.

Ísafirði 27. maí. Um kl.7 í fyrrakvöld gerði hér slyddu og kl.9 skall á fárviðri. Járnplötur fuku víða af húsum, svo sem af Hraðfrystihúsinu og af bílskúr. Skúr, sem stóð við Knattspyrnuvölinn, fauk inn á hann og gereyðilagðist. Kappróðrarbátar, sem notaðir eru á sjómannadaginn, hvolfdi, þar sem þeir lágu við legufæri. Var mikil mildi, að enginn skyldi slasast í þessu veðri, því að járnplötur fuku víða yfir og milli húsa. Veðrinu slotaði ekki fyrr en um kl.3.

Morgunblaðið 29.maí:

Hofi í Vatnsdal, 28. maí — Aðfaranótt þriðjudags gekk hér yfir ofsa norðvestan og norðan krepjuhríð með mikilli snjókomu. Veðurhæðin komst allt upp í 10 vindstig. Gil og lautir fylltust af snjó og fennti fé á ýmsum stöðum eða varð fast í sköflum. Ákaflegir erfiðleikar voru að koma lambám í hús, þar sem lömbin urðu máttlaus af kulda og var lambadauði mikill. ... Það var lítið um svefn þessa nótt, þar sem hver verkfær maður var við björgunarstörf til morguns. Voru mörg lömbin vermd og lífguð í eldhúsunum af kvenfólkinu, sem einnig tók virkan þátt í því starfi, sem þarna þurfti að vinna. ... Elstu menn muna ekki slíkt voða-áhlaup í maí-lok. Enn þá er hvasst og kalt. Jörð var áður vel gróin og sprettu útlit gott, hvaða afleiðingar sem þetta fárviðri kann að hafa í för með sér. — Ágúst.

Árnesi, S-Þing., 28. maí: — Hér gerði aftaka veður með frosti og snjókomu í gærmorgun. Hefir hríðarveður haldist í dag og kominn er töluverður snjór í innsveitum. Eru þar jafnvel mannhæðardjúpir skaflar. Skemmdir urðu í veðrinu á húsum og mannvirkjum. Háspennulínan til Akureyrar rofnaði, járnþök fuku af gripahúsum í Mið-Hvammi og Hvammi i Aðaldal og fleiri skemmdir urðu. Margir bændur voru búnir að sleppa lambfé og náðist það með naumindum í hús. Er allt sauðfé á gjöf í dag. Mun það valda bændum miklum óþægindum, ef löng innistaða verður, enda fara hey að ganga til þurrðar sumstaðar. H.G.

Morgunblaðið 30.maí:

Skriðuklaustri 28. maí: — Eftir tíu daga einmuna veðurblíðu, suðvestan vinda og hlýindi gerði í gær norðan ofsaveður með krapahríð fram eftir degi, en undir kvöldið frysti og minnkaði nokkuð úrkoma. Er þetta með verstu veðrum, er hér hafa komið á þessum árstíma. Í morgun var alhvítt og hefir gengið á með skörpum éljum í dag. Tekið hefir þó af láglendi, en segja má að þorrasvipur sé á að horfa til heiðabrúnanna. Ágætur gróður var kominn og sauðfé var alls staðar komið af húsi. Í gær var víða margt tekið í hús, eftir því sem til náðist. Sauðburður stendur nú yfir. Slík hörkuáfelli um sauðburðinn kosta jafnan einhver lambslíf, en ekki munu mikil brögð að því hér í nágrenninu. — J.P.

Tíminn 29.maí:

Frá fréttaritara Tímans á Reyðarfirði. Í fyrradag og fram eftir degi í gær var hér um slóðir hið versta veður með slyddu og festi snjó á láglendi. Bifreiðaumferð um Fagradal er nú alveg stöðvuð, og varð að yfirgefa tvo bíla á fjallinu. — Var þar ofsaveður og ófærð og aðrir bílar voru ýmist mjög lengi að komast yfir eða sneru aftur. ... Ferðafólkið náði þó allt til byggða, en var sumt mjög hrakið og illa til reika. Bændur áttu erfiða daga við að smala saman lambfé, þar sem víða var búið að sleppa nokkru af því. Sauðburður stendur sem hæst. Tún illa kalin. Túnávinnslu var víðast hvar lokið áður en áhlaupið kom, og eru tún viða mjög illa kalin, jafnvel svo að sjaldgæft er að svo mikið kal sé í túnum hér um slóðir. Byrjað var að setja niður í garða.

Frá fréttaritara Tímans í Trékyllisvík. Í óveðrinu á þriðjudagsnóttina tók þak af íbúðarhúsi í Norðurfirði. Húsið er timburhús með bárujárnsþaki og fletti óveðrið járninu af helmingi þaksins. Snjókoma var töluverð þar vestra og varð jörð hvít niður að sjó, en snjóinn var að taka upp í gær. Ennþá er jörð gróðurlaus og líta túnin mjög illa út. Ekki mun nein teljandi vanhöld hafa orðið á skepnum í óveðrinu, enda allar kindur á húsi um nætur. Sums staðar urðu þó töluverðir erfiðleikar við að koma fénu í hús. Talsvert hefir borið á fjöruskjögri í lömbum að undanförnu.

Tíminn 30.maí:

Frá fréttaritara Tímans á Reyðarfirði. Í fyrradag fór ýta yfir Fagradal, sem lokaðist algerlega í bylnum á dögunum. Í slóð ýtunnar fóru 10 bifreiðar til Egilsstaða, og voru þeir 11—12 klukkustundir yfir heiðina. Snjókoma var enn á Fagradal, og snjór orðinn þar svo mikill, að traðirnar, sem voru með veginum eftir ruðninginn í vor, voru alveg fullar. Ýtan ruddi leiðina að nýju, en snjókoma og renningur fyllti þær aftur jafnharðan, svo að nú er ófært á ný, þangað til ýta hefir enn rutt veginn.

Lýkur hér upprifjun hungurdiska af illviðrinu 27.maí 1952. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Takk fyrir þessa ítarlegu upprifjun á merkilegu hriti af fágætri gerð.  Ótrúlegt að ýta yfir Fagradal hafi verið 11-12 klst yfir. En vissulega voru firningar til staðar og ruðningar eins og fram mekur í síðustu frétt úr Tímanum.

Einar Sveinbjörnsson (IP-tala skráð) 29.5.2019 kl. 09:24

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Þetta er nú ekkert! cool

Undirritaður var fermdur um miðjan júní í stórhríð í Svarfaðardal.

Halda átti fermingarbarnamót í Hrísey en því var aflýst vegna veðurs.

Bekkjarbróðir minn, Hjöri á Tjörn, helmingurinn af Hundi í óskilum, lét hins vegar ekki ferma sig, enda kommúnisti. cool

Þorsteinn Briem, 29.5.2019 kl. 10:51

3 identicon

Kuldaköst í maílok eru ekki nýnæmi. En ,,hamfarahlýnunin" á þessari yfirstandandi eymdanna öld hlýtur samt að valda þeim á einn eða annan hátt.  

Baldur Gunnarsson (IP-tala skráð) 30.5.2019 kl. 21:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg141124ii
  • w-blogg141124b
  • w-blogg141124b
  • w-blogg141124a
  • w-blogg141124i

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (15.11.): 276
  • Sl. sólarhring: 469
  • Sl. viku: 2638
  • Frá upphafi: 2410940

Annað

  • Innlit í dag: 234
  • Innlit sl. viku: 2317
  • Gestir í dag: 221
  • IP-tölur í dag: 214

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband