Hið (ómögulega) fullkomna ár

Sem kunnugt er var aprílmánuður síðastliðinn sérlega hlýr á landinu. Sá hlýjasti allra í Reykjavík og víðar um vestan- og norðanvert landið - og sá næsthlýjasti á landsvísu. Hitinn var meir en 2 staðalvik ofan meðallags áranna 1931 til 2010. 

Pistillinn hér að neðan er tvískiptur. Í fyrsta lagi lítum við stuttlega á tíðni tveggjastaðalvikamánaða í Reykjavík (hana þekkjum við að vísu að mestu út frá skilgreiningu staðalviks)- á um 54 mánaða fresti að meðaltali (fjögur og hálft ár) - en við beinum sjónum að dreifingu þessara mánaða í tíma. Í Reykjavík frá 1871 til okkar daga. 

w-blogg250519a

Reynt er að sýna þetta á myndinni. Lárétti ásinn sýnir ár, en sá lóðrétti tíma sem liðinn er frá því að mánaðarmeðalhiti náði síðast tveimur staðalvikum. Svo vill til að einn slíkur kom strax í upphafi þess tímabils sem hér er undir. Það var júní 1871, á eftir honum fylgdi síðan ágúst 1880 - rúmum 9 árum síðar. Það er fyrsti punkturinn á þessari mynd. Síðan liðu 35 ár - þar til í október 1915. Svo voru ekki nema 5 ár í þann næsta - og á hlýindaskeiðinu fram til 1964 liðu oftast ekki nema fá ár á milli mjög hlýrra mánaða [um 3 ár að meðaltali] - þó voru þau tæplega 12 frá október 1946 til september 1958. 

Á kuldaskeiðinu 1965 til 1995 var lengri tími á milli, ekki komu nema þrír tveggastaðalvika hlýindamánuðir í Reykjavík á þeim tíma öllum (apríl 1974, desember 1987 og júlí 1991) - einu sinni á áratug - eða tæplega það. Frá og með árinu 2002 skipti hins vegar rækilega um, frá og með desember það ár hafa 13 tveggjastaðalvikahlýir mánuðir komið í Reykjavík, á um 17 mánaða fresti - tvöfalt oftar en á hlýskeiðinu á síðustu öld. Þetta er heldur meira en víðast hvar annars staðar á landinu, en mánuðirnir eru þó 11 í Stykkishólmi og 10 í Vestmanneyjum. 

Af myndinni sjáum við greinilega að tíðni afburðahlýrra mánaða og almenn hlýindi fylgjast nokkuð vel að. Það má þó segja að þeir fáu afburðahlýju mánuðir sem komu á síðari hluta 19. aldar hafi á sinn hátt verið enn afbrigðilegri heldur en stakir hlýir mánuðir þessarar aldar - tilvera þeirra gæti bent til þess að við gætum átt enn meira inni í því tíðarfari sem nú er ríkjandi. 

Í síðari hluta pistilsins lítum við á eitthvað sem er ímyndun ein. Við spyrjum hversu hlýtt er ár þegar allir mánuðir þess eru jafnhlýir (að tiltölu) og nýliðinn apríl. Sem stendur verða líkur á slíku ári að teljast engar - en við reiknum samt. 

w-blogg250519b

Þrjár gerðir af súlum eru á myndinni. Lárétti ásinn sýnir mánuði árisins, en sá lóðrétti meðalhita. Brúnu súlurnar sýna hæsta meðalhita hvers mánaðar í Reykjavík - þær bláu meðalhita mánaðar væri hann jafnhlýr og nýliðinn apríl. Grænu súlurnar sýna mismuninn. Sé munurinn stærri en núll hefur viðkomandi mánuður einhvern tíma orðið hlýrri (að tiltölu) heldur en nýliðinn apríl, sé munurinn minni en núll vantar enn upp á. Við sjáum t.d. að við eigum jafnhlýjan janúar „inni“, en aftur á móti hafa bæði febrúar (1932) og mars (1929) verið enn hlýrri að tiltölu heldur en nýliðinn apríl. Við eigum enn eftir að fá 9 stiga maímánuð, kæmi maímánuður jafnhlýr nýliðnum apríl yrði meðalhiti hans 9,5 stig - sá hlýjasti til þessa er 8,9 stig. Svipað er með júlí, þeir hlýjustu hingað til eru 13,0 stig - en við virðumst eiga 13,3 stiga júlí inni (eða þannig). 

Ef við nú veljum hærri tölu hvers mánaðar á myndinni hér að ofan og reiknum ársmeðalhita fáum við út 8,2 stig. Slík tala er ekki möguleg í núverandi veðurlagi. Hæsti ársmeðalhiti í Reykjavík til þessa er 6,1 stig (2003). Hæsta 12-mánaða keðjumeðaltalið er hins vegar 6,6 stig. - Það er alveg mögulegt að ársmeðalhiti nái að jafna það. En við erum þá samt 1,6 stigum neðan hita hins „fullkomna árs“ hér að ofan. Þegar (og ef) hiti á heimsvísu hefur hækkað um 1,5 stig (frá því sem nú er) gætum við farið að sjá eitthvað þessu líkt svona stöku sinnum. Svartsýnar spár segja það gerast innan 50 ára. Við sem munum vel meir en 50 ár finnst það ekki langur tími. 

En lítum líka á samsvarandi mynd fyrir Akureyri.

w-blogg250519c

Þar kemur í ljós að enn skortir nokkuð á að mánuðir hafi yfirleitt nokkru sinni náð þeim miklu vikum sem voru í nýliðnum apríl - október 2016 og febrúar 1932 eru einu ámóta mánuðirnir á tímabilinu (nær aftur til 1882). Þetta stafar að einhverju leyti af því að staðalvikareikningar gera ráð fyrir að gögnin séu máldreifð sem kallað er (normaldreifð) - útgildi dreifist jafnt til beggja handa - kulda og hita. Á Akureyri er kaldi halinn nokkru lengri en sá hlýi. „Erfiðara“ er því að ná stórum jákvæðum vikum heldur en neikvæðum. Ef vel ætti að vera þyrfti að leiðrétta fyrir þessu (og er vel hægt). - En við erum hér ekki í háfleygum vísindum heldur aðeins þukli og nokkurnveginnfræðum. En hærri talan til hægri á myndinni, 8,6 stig sýnir hversu hár árshiti yrði á Akureyri ef allir mánuðir þess væru jafnhlýir og nýliðinn apríl. Lægri talan (8,1 stig) sýnir meðaltal hæsta meðalhita sem mælst hefur. 

Hæsti ársmeðalhiti sem við vitum um á Akureyri er 5,6 stig. Það var 1933. Hæsta 12-mánaða meðaltalið er hins vegar 5,8 stig - aðeins tveggja ára gamalt. 

Í pistli hér á hungurdiskum var fjallað um ársmeðalhita þess árs sem jafnaði hámarkshitamet á hvers dags (á landsvísu). Í Reykjavík yrði meðalhiti slíks árs 14,3 stig, en 17,4 á Akureyri. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg141124ii
  • w-blogg141124b
  • w-blogg141124b
  • w-blogg141124a
  • w-blogg141124i

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (15.11.): 230
  • Sl. sólarhring: 556
  • Sl. viku: 2592
  • Frá upphafi: 2410894

Annað

  • Innlit í dag: 193
  • Innlit sl. viku: 2276
  • Gestir í dag: 188
  • IP-tölur í dag: 182

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband