21.5.2019 | 21:30
Af árinu 1909
Árið 1909 þótti hagstætt til lands og sjávar. Lítið var um slæm illviðri ef frá eru talin mjög skammvinn vorhret og erfiður kafli fyrri hluta októbermánaðar. Meðalhiti í Reykjavík var 4,1 stig, 3,6 stig í Stykkishólmi og 2,8 á Akureyri. Júnímánuður var sérlega hlýr, á landsvísu sá hlýjasti síðan 1871 og síðan þá hafa aðeins júní 1933 og 2014 verið hlýrri - en hiti hefur í nokkur skipti önnur verið svipaður, síðast 2017.
Hæsti hiti ársins mældist í Möðrudal, 25,0 stig, en við höfum enn horn í síðu hæstu talna úr Möðrudal - eins og árin á undan. Aðstæður voru ekki alveg ákjósanlegar. Næsthæsta talan er frá Möðruvöllum í Hörgárdal, þar fór hiti í 22,0 stig þann 5.júní. Hiti fór einnig í 22,0 stig á Seyðisfirði 1.júlí. Hámarkshitamælar voru ekki á þessum stöðvum og vel mögulegt að slíkir hefðu sýnt eitthvað hærri tölur. Óvenjulegt má telja að hiti mældist 20,0 stig á Stóranúpi í Gnúpverjahreppi þann 7.maí. Daginn eftir mældist hæsti hiti ársins í Reykjavík, 18,3 stig. Hiti komst í 20,1 stig í Vestmannaeyjum 14. júní og þá fór hiti aftur yfir 20 stig á Stóranúpi.
Mesta frost ársins mældist í Möðrudal þann 21.desember, -27,0 stig. Litlu minna frost mældist á Grímsstöðum. Það er athyglisvert að viku áður, þ.14. hafði hiti farið í 13,3 stig á Seyðisfirði og talan 10,1 stig er í gögnum frá Grímsstöðum á Fjöllum sama dag (lesið af hámarksmæli þann 15.) - þykir það á mörkum hins trúverðuga, en varla rétt að sleppa.
Myndin sýnir hita frá degi til dags í Reykjavík árið 1909. Athuga ber að hvorki var lágmarks- né hámarkshitamælir á staðnum. Við sjáum að veturinn 1909 var ekki mikið um hörð frost að slepptri viku síðari hluta janúar. Mikil hitasveifla varð í maí, þá mældist hæsti hiti ársins í Reykjavík þann 8., en aðeins viku síðar gerði frost. Snögglega kólnaði undir lok septembermánaðar og mesta frost ársins mældist um jólaleytið, eins og á landsvísu.
Ekki voru nema fimm mjög kaldir dagar í Reykjavík á árinu, 16.mars, 19.maí, 27. og 28. október og 27.desember. Tveir dagar teljast mjög hlýir, 8.maí og 15.júní. Síðarnefndi dagurinn var einnig mjög hlýr í Stykkishólmi - og víða á landinu.
Engar úrkomumælingar voru gerðar í Reykjavík eða í grennd á árinu 1909. Júnímánuður var þurr um landið sunnanvert - og sennilega um mestallt land. Ágúst var úrkomusamur. Ársúrkoma í Stykkishólmi var sú minnsta síðan 1892, en varð síðan enn minni 1915. Á Eyrarbakka var ársúrkoman sú minnsta frá 1895, en hún var aftur á móti ekki fjarri meðallagi í Vestmanneyjum og á Teigarhorni.
Loftþrýstingur var óvenjuhár í júní (miðað við árstíma). Lægsti þrýstingur ársins mældist í Reykjavík 17.janúar, 952,1 hPa, en hæstur 1042,6 hPa á Teigarhorni þann 26.febrúar. Myndin sýnir þrýsting að morgni dags í Reykjavík. Vel sést að mikill háþrýstingur fylgdi hlýindunum í maí, en féll síðan með kuldakastinu í kjölfarið - kuldapollur af norðurslóðum trúlega ruðst suður í kjölfar hlýrrar fyrirstöðu - eins og algengt er. Þrýstingur var viðvarandi lágur fyrri hluta október. Þrýstiórói var með meira móti í júlí og ágúst.
Hér að neðan eru dregnar saman helstu fréttir af veðri, tíð og veðurtengdu tjóni á árinu 1909 og vitnað í samtímablaðafréttir. Stundum eru þær styttar lítillega og stafsetning er að mestu færð til nútímahorfs.
Jakob Möller lýsir tíð í Skírni 1909:
Tíðarfar hefir verið afbragðs gott þetta ár. Veturinn mjög mildur og voraði snemma, enda byrjaði sláttur um land allt einni til tveim vikum fyrr en í venjulegu árferði, og þótt vel ári. Sumarið miklu heitara en undanfarið, og þó með talsverðri vætu, enda grasvöxtur meiri miklu þetta sumar en undanfarin ár. En óþurrkakast gerði á túnaslætti um land allt, um 35 vikur, svo töður manna velktust nokkuð, einkanlega á Norðurlandi, en þó ekki til neinna verulegra skemmda. Haustið hefir verið sérlega gott allan októbermánuð [fáir voru sammála því - (ritstjóri hungurdiska)], en úr því fara veður að harðna, og í desember eru meiri frost en mörg undanfarin ár. ... Snjór er talsverður fyrir norðan.
Einar Helgason ritar í Búnaðarrit 1910:
(s322) Vetur frá nýjári var mildur og snjólítill um allt Suðurland. Jörð tekin að gróa um sumarmál. Aðeins einu sinni gerði mikinn snjó í Borgarfjarðarhéraði; það var 17. og 18. febrúar. Þá hlóð niður fádæma miklum snjó í logni, en þann snjó tók fljótt upp aftur. Á Vestfjörðum var veturinn frostvægur og umhleypingasamur með töluverðri snjókomu og áfreðum, svo að haglaust var tímum saman. Á Norðurlandi var snjólítið og jarðsælt fram í miðjan mars. Þá fór að verða snjóasamt. Tók þann snjó tiltölulega fljótt upp í Eyjafirði, svo þar var jörð nær alauð fyrir sumarmál, en í Þingeyjarsýslu leysti snjó fremur seint. Þar var fádæma mikill snjór um páska. Í Vopnafirði var óstillt tíð í janúar, bleytutíð í febrúar, lítil frost. Sumarblíða suma daga seint í mánuðinum. Sveitin nær öll alauð síðari hluta febrúar. Mars fremur slæmur, en apríl bætti úr því. Fé fór viða að liggja úti eftir 10. apríl. Á Fljótsdalshéraði og Austfjörðum yfirleitt var tíðarfarið líkt og í Vopnafirði. Á Héraðinu var jörð farin að gróa og túnvinna langt komin um sumarmál. Í suðurhluta Suður-Múlasýslu og í Austur-Skaftafellssýslu var veturinn ágætur fram undir sumarmál; þá fór að kólna.
Vorið. Á Suðurlandi var vorið fremur kalt framan af, en hlýtt og gott eftir 20. maí. Jörð, nær klakalaus um lok þess mánaðar. Á vesturkjálkanum öllum og á Vestfjörðum var gott vor, og greri snemma. Á Norðurlandi var vorið fremur kalt. Í Eyjafirði sást gróður nærfellt enginn fyrr en í byrjun júní. Í Þingeyjarsýslu snjóaði í lok maímánaðar. Á Austfjörðum var maí fremur kaldur, en júní blíðviðrasamur.
Sumarið. Júlí var þurrviðrasamur sunnanlands, en með ágúst brá til óþurrka, og voru þerrar úr því til sláttuloka stuttir og stopulir. Heyverkun því mjög misjöfn. Sláttur byrjaði miklu fyrr en venjulegt er, á nokkrum stöðum fyrir 20. júní, en almennt í júnílok. Spretta yfirleitt góð, á valllendi ágæt. Heyskapur með mesta móti, víða meira en dæmi eru til áður. Líkt er að segja um Borgarfjörð og Dali, en á Snæfellsnesi var tíðin enn þá votviðrasamari. Þeir, sem þar fóru fyrst að slá, náðu töðum vel verkuðum, hjá hinum hröktust þær. Heyföng með meira móti að vöxtum. Á Vestfjörðum var þurrkatíð í júlí, en með ágúst brá til rigninga, og var sumarið fremur óþerrisamt eftir það. Úthey því nokkuð hrakin, en nýting á töðum ágæt. Grasvöxtur yfirleitt í besta lagi og sláttur byrjaði allt að hálfum mánuði fyrr en vanalega.
Lík var tíðin á Norðurlandi, og grasspretta þar í betra lagi. Þurrkatíð þangað til kom fram í seinni hluta júlí og svo aftur eftir miðjan september. Hey urðu í meira lagi. Heyskapartími almennt um 10 vikur í Þingeyjarsýslu. Grasspretta góð á Austfjörðum, þó brunnu hólatún viða á Héraði. Óvenjulega hagstæð heyskapartíð. Í Vopnafirði byrjaði sláttur síðustu dagana í júlí. Í Skaftafellssýslum var hagstæðasta heyskapartíð til sláttuloka, og varð heyskapur þar með langmesta móti. Grasmaðkur geisaði óvenjulega mikið á Út-Síðu og í Skaftártungum á harðvelli, bæði á túnum og út-valllendi. Grasspretta varð með allra besta móti þar sem grasmaðkurinn náði ekki til að skemma, og það sem fyrst hvítnaði undan honum spratt furðanlega, er á leið sumarið. Nokkrir bændur fengu ekki meðalheyskap vegna maðksins.
Haustið og veturinn til nýjárs. Um Suðurland á svæðinu austur að Eyjafjöllum var fremur góð hausttíð, þó kom frost snemma í jörð. Fé víða tekið á gjöf mánuð af vetri (eftir miðjan nóv.) og lömb sumstaðar um októbermánaðarlok. Óvenju-snörp frostköst er á leið, alt að 25°C. mest. Um Borgarfjörð var milt og hagstætt tíðarfar. Um veturnætur fór að frjósa og héldust sífeldar kælur úr því fram að nýjári. Mest frost var á þriðja í jólum, um 22°C. Alltaf nógir hagar; þó var alstaðar farið að gefa fé fyrir nýjár. Hrjóstug og rosasöm tíð um Snæfellsnes. Í Dölum voru köld norðaustanveður með mikilli snjókomu allan október og fyrri hluta nóvember. Komu þá þíður og blíðviðri um tíma. Síðustu daga ársins þíður og suðlæg átt. Á Vestfjörðum gerði stórhríð með ofsaveðri og aftaka snjógangi í öndverðum október, og stóð það um þriggja vikna tíma, en eftir það var góð tíð til ársloka. Slæm hausttíð á Norðurlandi. Í Fljótum voru lömb tekin á gjöf sumstaðar 3 vikum fyrir vetur. Um Eyjafjörð gekk í norðaustan-bleytuhríð 1. október, og héldust þær samanhangandi þar til 20. nóvember, og var víða jarðlaust í sveitum, en þá gerði ágæta hláku nokkra daga, en stóð stutt. Umhleypingasöm tíð til nýjárs. Hríðar og frosthörkur um jólin. Í Þingeyjarsýslu var haustið eitt hið lakasta frá því 3. október. Lagðist þá að með snjóum, og tók ekki til ársloka. Hey skemmdist í hlöðum og görðum, og fjárrekstrar tepptust. Sumstaðar fór sauðfé alveg á gjöf hálfum mánuði fyrir vetur. Hláku gerði síðari hluta í desember, svo jörð kom upp á láglendi.
Í Vopnafirði hvassar austnorðanhríðar 1.10. október. Fé fennti á heiðum og heimalöndum. Rigningar komu 12.14. okt., tók þá snjó úr byggð. Erfið og óstöðug tíð, en ekki snjómikið til nóvemberloka. Lömb tekin á gjöf á Hofi 13. nóvember. Snjókoma mikil fyrstu viku desember. Öllu fé gefið þá í húsi nema við sjó. Hláka síðustu dagana. Árið endaði unaðslega. Á Fljótsdalshéraði var hin versta tíð allan október. Víða haglaust, og fjárrekstrar allir til Seyðisfjarðar tepptust, en oftast mátti reka fé eftir akbrautinni til Reyðarfjarðar. Seint í október rigndi svo mikið, að elstu menn mundu ekki annað eins. Flóð varð mikið á Út-Héraði og skemmdir af því sumstaðar. Á Kóreksstöðum týndust um 70 lömb, sem flest rak þó upp út á söndum. Nóvember allgóður; þá var fé ekkert gefið. Í byrjun desember lagðist að með harðindum, svo að allt fé komst á gjöf og hross víðast hvar. Á suðaustur-kjálkanum hretasamt en frostvægt í október. Eftir það kaldranaleg hörkutíð, en ekki jarðleysur. Fé og hross tekið með fyrsta móti. Í Vestur-Skaftafellssýslu hagstæð tíð til veturnótta, en þá setti niður feikna-snjó, einkum með fjöllunum, svo elstu menn mundu ekki annan eins um það leyti. Þó fennti tiltölulega fátt fé. Á Holti á Síðu voru menn í 6 daga að bjarga fé úr stöðum". Eftir viku batnaði veðráttan, en skammvinnt var það. Gekk svo í hvern snjóbylinn á fætur öðrum, og tók fyrir alla haga víðast hvar 3 vikur af vetri. Sumstaðar var hestum og lömbum gefið frá veturnóttum til áramóta. Fullorðið fé gjafalaust á helstu hagajörðum allt fram til jóla. Frost voru til áramóta öðru hvoru með mesta móti.
Uppskera úr görðum var allstaðar í góðu meðallagi og sumstaðar meira. (s326)
Janúar. Nokkuð hagstæð tíð, en umhleypingasöm. Hiti í meðallagi.
Norðri segir þann 21: Tíðarfar hefir verið afar óstillt undanfarandi tíma, einlægir ofsar, og skiptast á hlákublotar og hríðar, er nú vont til jarðar á fremstu bæjum.
Reykjavík 23.: Tíðin ill þessa viku. Oftast nær rok og byljir.
Fjallkonan segir þann 23.janúar:
Ofsarok af útsuðri gerði hér aðfaranótt 21.þ.m. og olli það ýmsum skemmdum hér á bryggjum og öðrum mannvirkjum. Hefir verið ærið stormasamt nú um stund, og umhleypingasöm tíð.
Þjóðviljinn segir um janúartíð: [18.] Snjór all-mikill á jörðu, og frost nokkur að undanförnu. [31.] Tíðin hefir vorið rosasöm undanfarið, en frost og hægviðri síðustu dagana, en þó fennt dálítið.
Þjóðviljinn segir í fréttum þann 31.:
Snjóflóð féll i Önundarfirði um miðjan janúar þ.á. og brotnuðu nokkrir ritsímastólpar. ... Fimm menn drukkna. Báti, sem var á ferð úr Reykjavík upp á Kjalarnes, hlekktist á í ofsa-roki um nónbilið 28. janúar síðastliðinn við Brimnestanga í grennd við Saltvík. Veður hafði verið sæmilegt, er lagt var af stað úr Reykjavik, en ofsa-hvessti, er á leið daginn, og sást báturinn vera kominn í grennd við fyrr greindan Brimnestanga, er seglin sáust hverfa. Fimm menn voru á bátnum, er allir drukknuðu. ... Skipstrand. Aðfaranóttina 28. þ.m. rak enskt botnvörpuveiðagufuskip, er lá hér á höfninni, upp í klettana við Klapparvör, og komu göt á það, svo sjór féll inn. Liggur það þar enn, og er óvíst hvort því verður náð út. Skipið heitir City of London" og er frá Grimsby.
Vestri segir af tíð: [9.] Tíðarfarið afar óstöðugt undanfarið, og gefur því nær aldrei á sjó. [16.] Tíðarfar líkt og áður, sífeldir stormar og frost, og hefir aldrei gefið á sjó þessa síðustu viku.
Vestri greinir af sköðum í pistlum þann 23.
Bátur fórst af Akranesi á leið frá Reykjavík 20. þ.m. A honum voru fimm menn: Bóndinn í Móum, hreppsstjórinn, einn karlmaður til og tvær stúlkur. Allir drukknuðu. ... Stúlka varð úti á Laugabóli í Laugadal í Ögurhreppi um helgina sem leið (sunnudaginn?) Hún hét Jakobína Jónsdóttir. Hún hafði farið með mjólkina úr fjósinu örstutta leið, 40-50 faðma, og mest með veggjum að fara. Bóndinn, sem var með henni í fjósinu, varð eftir til að hlúa að því, en þegar hann kom heim var stúlkan ókomin. Var þegar'tarið að leita hennar, en hún fannst ekki fyrr en daginn eftir, og var þá látin.
Lögrétta segir þann 20.janúar:
Veðrið hefur verið kaldara en áður undanfarna tíð og hefur töluvert snjóað. Í gær var heiðskírt veður og dálítið frost, en í nótt kom hláka og vindur á sunnan.
Þjóðviljinn birti þann 11.febrúar bréf frá Bíldudal dagsett 1. sama mánaðar;
Tíðarfar hefir verið hér all-bærilegt í vetur, oftast nær nóg jörð fyrir sauðpening, og nú í dag er hláka. Samt hefir einatt verið fremur umhleypingasöm tíð, og nú síðast 27. f.m. gjörði ofsaveður af suðvestri, svo að menn muna varla eins mikið veður; fauk þá hér á Bíldudal frá grunni hús, sem í var geymd steinolía, einnig rauf þak af geymsluhúsi og hliðar að nokkru, og var þetta hvorttveggja eign hlutafél. P.J. Torsteinsson & Co., nokkrar skemmdir urðu og á túngarði, er sama verslun átti; á Fossi í Suðurfjörðum og Laugabóli í Mosdal fuku og 2 hlöður ofan að veggjum,og urðu þar jafnframt heyskaðar nokkrir; i Otrardal færðist og til á grunni timbur- og járnhlaða, um freka alin. Fleiri skemmda af nefndu ofveðri hefir eigi spurst til hér.
Þjóðviljinn birti þann 15.mars bréf úr Beruneshreppi í Suður-Múlasýslu, dagsett 10.febrúar:
Tíðin ágæt, og muna menn vart jafn góðan þorra, alltaf auð jörð, og blíðviðri, frost nær engin. Fé víða aldrei hýst nú, og lömbum sumstaðar enn ekki kennt át. Sjávarrót gerði mikið milli jóla og nýárs, og brotnuðu hér þrír bátar í spón og bryggja Örum & Wulf's á Djúpavogi. Við Fáskrúðsfjörð brotnuðu þá tíu bátar.
Lögrétta segir þann 3.febrúar:
Enskan botnvörpung rak upp í klettana hér austan við höfnina miðvikudagskvöldið 27. [janúar] Hann liggur þar enn og er hálffullur af sjó, því að steinarnir standa gegnum skipsbotninn. Skipið heitir City of London.
Febrúar: Góð tíð. Snjólétt eystra og suðvestanlands. Hlýtt.
Þjóðviljinn segir af febrúartíð í Reykjavík:
[11.] Tíðin var einstaklega góð síðustu viku. Hæg frost og stillur, en umhleypingasamari það sem af er þessari viku, stormar og úrkoma, rigning, bleytukafald öðru hvoru.
[28.] Indælasta tíðarfar hér syðra nú um hríð, stillviðri og frostleysur. Jörð allstaðar marauð í byggðum.
Ingólfur segir af jarðskjálfta í frétt 28.febrúar:
Jarðskjálftakippur allsnöggur fannst að Laugarvatni og fleirum bæjum í Laugardal aðfaranótt þriðjudagsins var [23.], um kl. 3 3/4 árdegis.
Og Ingólfur bætir við þann 14.mars:
Jarðskjálftakippir hafa aftur fundist í efri sveitum Árnessýslu aðfaranótt 26. og 27. f.m. Voru minni en kippurinn aðfaranótt 23 f.m., er áður var getið í blaðinu.
Mars: Tíð talin mjög góð suðvestanlands, en annars var nokkuð næðingasamt. Hríðarhraglandi norðaustanlands. Fremur kalt.
Vestri segir þann 6.mars: Skautasvell er nú óvanalega gott hér á Pollinum, og er þar því fjölmenni mikið að skemmta sér á hverju kvöldi.
Þjóðviljinn segir af marstíð:
[10.] Frosthörkur all-miklar í þ.m., en fór þó draga úr þeim fyrir siðistu helgi.
[19.] Kuldar all-miklir, og norðan-beljandar, síðustu dagana. Frostið þó eigi meira en 5 stig.
[25.] Indælasta tíð síðasta vikutímann, sem á sumardegi.
Þjóðviljinn segir þann 20.apríl:
Aðfaranóttina 27.mars varð maður úti á Óshlíð í Norður-Ísafjarðarsýslu, milli Seljalands og Bolungarvíkur.
Apríl: Hagstæð tíð. Fremur hlýtt.
Vestri segir þann 3.:
Skortur á vatni var hér talsverður um daginn, áður en þíðurnar komu. Nauðsynlegt væri að bæta úr því, að slíkt komi svo títt fyrir, því gott og nóg vatn er skilyrði fyrir góðum þrifum og vellíðun bæjarmanna.
Þjóðviljinn greinir frá apríltíðinni:
[7.] Tíðarfarið hefir verið hið ákjósanlegasta, einlæg þíðviðri, og er slíkt fátítt um þenna tíma árs.
[20.] Síðan blað vort var siðast á ferðinni, hefir haldist sama ágætis tíðin, sem að undanförnu.
[24.] Ágætis veðrátta hefir haldist, sem einmánuð allan, og 22. þ.m. heilsaði sumarið mjög þýðlega og hlýindalega.
Þann 30. segir Þjóðviljinn frá fjársköðum:
Snemma í apríl missti Jón bóndi Halldórsson á Galtará í Gufudalssveit allt fé sitt í sjóinn. Um svipað leyti missti og Arnór bóndi Einarsson á Tindum í Geiradal 53 kindur í sjóinn.
Þjóðólfur gerir veturinn upp í pistli þann 23.apríl:
Veturinn sem kvaddi oss í fyrradag, hefur verið einhver hinn besti í manna minnum, að minnsta kosti hér á Suðurlandi, frost nálega engin, og snjókoma óvenju lítil, yfirleitt sífelldar stillur og góðviðri og úrkoma með langminnsta móti, engin ofviðri verið síðan um áramót, og jörð oftast nær auð. Skepnuhöld ágæt í sveitum og sumstaðar búið að sleppa öllu fé.
Maí: Tíð talin hagstæð, þó var fremur kalt og úrkomusamt eftir hlýja byrjun.
Ingólfur segir þann 9. fréttir úr Berufirði dagsettar þann 3.maí:
Veðrátta hefir verið óstillt og köld hér um slóðir síðan um páska [11.apríl]. Fjúk hér í gær og frost, svo að gluggar voru hélaðir. Norðanveður í dag með litlu fjúki.
Lögrétta lýsir tíð í maí:
[5.] Kuldakast, norðanátt og miklir þurrkar hafa verið undanfarandi um tíma, þar til í morgun, að komin eru hlýindi og dálítið regn.
[8.] Hlýindi mikil hafa verið nú í nokkra daga.
Lögrétta segir þann 8.:
Af Eyrarbakka er skrifað 2. þ.m.: Veðrátta hin blíðasta fyrstu 3 vikur góunnar og allan einmánuðinn. Norðankast gerði í 3ju viku góu og nú aftur eftir sumarmálin og helst það enn. Eigi hefur fiskur fengist nema í net, en gæftir mjög stirðar; hefur aflinn því verið minni og lakari en ella mundi og kostnaður þó meiri.
Fréttabréf undan Eyjafjöllum. Veturinn sem nú er liðinn, var með þeim allra bestu vetrum sem menn muna. Fram að nýjári var alltaf snjólaust að kalla mátti, en desembermánuður var stórviðrasamur, einkum síðari hlutinn, þó ofviðrið þann 29. tæki yfir. Skemmdust þá víða hús, og hey tapaðist á nokkrum bæjum. Mestan hluta janúarmánaðar voru harðindi, en úr því mátti kalla að hver dagurinn væri öðrum betri, oftast frostlaust, aðeins tvisvar gránað af snjó. Jörð er því orðin klakalaus fyrir löngu, enda hafa menn notað tímann til jarðabótavinnu, þeir sem hafa haft ástæður til þess. Fénaður er í ágætu standi og heyfyrningar með mesta móti.
3. þ.m. gerði stórviðri fyrir sunnan land. Vestmanneyingar voru á sjó, en hleyptu heim, er veðrið tók að hvessa. Skammt frá lendingu bilaði vélarbáturinn Von, svo að hann komst ekki áfram. Var mönnunum bjargað af öðrum báti, en Von sökk rétt á eftir. Annar vélarbátur, Fálki, með 5 mönnum, náði landi á Eyrarbakka eftir 2 sólarhringa hrakning. Þriðji vélarbáturinn, Vestmanney, lenti einnig í hrakningum, og var mönnum af honum bjargað af franskri fiskiskútu, og kom hún hingað inn með þá til Reykjavíkur, en báturinn fórst.
Þjóðviljinn segir frá maítíð:
[5.] Norðan-kalsa næðingar síðustu dagana, en heiðir og sólbjartir dagar.
[15.] Tíðin indæl, hreinviðri og sólskin nær daglega. Túnin farin að grænka hér syðra, en kýr þó óvíða komnar út enn.
[25.] Hlý vorveðrátta að undanförnu, eftir dálítið uppstigningardagshret, að gömlum vanda, 19.20. þ.m.
[31.] Tíðin enn indæl, eins og verið hefir vorið, að kalla má.
Þann 26.birti Ingólfur fréttabréf úr Dalasýslu (ódagsett, en ritað í maí):
Tíðin hefir verið einmuna góð í vetur, naumast komið snjór eða frost, að við köllum. Hey því víðast nóg. En illa mundi víða hafa farið, ef veturinn hefði orðið harður, því að nú setja menn víða illa á á haustin.
Austri segir af maítíð: [15.] Veðrátta slæm, kuldastormur og hríðarhraglandi. [25.] Veðráttan nú gengin til batnaðar. Veðurblíða í dag.
Ísafold segir þann 19. - ritað úr Borgarnesi(?):
Eftir bestu sumarhlýindi fáeina daga í fyrri viku brá til kulda aftur með snarpri norðanátt, jafnvel aftökum um helgina síðustu [16.]. Þá var 5 stiga frost á Grímstöðum á Fjöllum, og um 12 á Akureyri, Seyðisfirði og Ísafirði. Eina nóttina hafði verið 7 stiga frost hér í Borgarnesi. Kafaldsfjúk í nótt og í dag fyrri partinn, á norðan uppstigningardagshret [20.maí].
Júní: Hagstæð tíð. Mjög þurrt. Hlýtt, einkum fyrir norðan.
Austri segir af hlýindum þann 12.júní:
Hitar miklir hafa verið nú lengi undanfarið, 1520 stig á R. ... Vatnavextir ákaflega miklir hafa verið nú í hitunum. Lagarfljót flæddi svo yfir farveg sinn, að menn, sem komu nú í vikunni norðan yfir fljótið, urðu að sundríða frá brúarsporðinum all-langan spöl yfir á hæð á Egilsstaðanesinu.
Þjóðólfur birti fréttir af tíð og sprettu þann 25.júní:
Grasvöxtur verður ágætur í þetta sinn hér sunnanlands, einkum á túnum, og byrjar sláttur því í langfyrsta lagi, og er þegar byrjaður sumstaðar. Valllendi er einnig vel sprottið, en mýrlendi fremur illa, vegna of mikilla þurrka í vor. Tíðin yfirleitt einhver hin besta, er menn muna, síðan um nýár.
Þann 17.júní varð almyrkvi á sól - deildarmyrkvi hér á landi og átti sér stað seint að kvöldi, enda var hámark myrkvans nærri norðurpólnum. Vestri birti þann 19.júní frásögn af myrkvanum þar vestra. Hún verður ekki öll tekin upp hér - en við lítum á brot:
Og svo rann þá sá dagur upp. Árdagshimininn var heiður og fagur; sólin helti vermandi geislastraumum yfir hauður og sjó; og hádegið varð heitt; og vindblær enginn. Það held ég, að sólmyrkvinn sjáist í kvöld," var sagt. En um nón fór að koma snögg hreyfing á loftöldurnar; hann hvessti skyndilega með allsnöggum hviðum, og skýflókar fóru að sýna sig í landsuðri. Og undir miðaftan var himininn orðinn alskýjaður, nema hvað eitt heiðskírt belti var að sjá í útnorðri. Skyldi hann ætla að þykkna svona allur með kvöldinu?" Og illa líst mér á það, að maður sjái sólmyrkvann í kvöld." Þannig fórust sumum þeirra orð, sem hittust á malarstrætum Ísafjarðarkaupstaðar, kvöldið þetta. Skýflókarnir þykknuðu, og þokuskrýmslín teygðu armana hvert til annars, svo að þau tóku saman og urðu eins og samfeld breiða, sem vafðist og þandist um himininn. Aftanskinið á fjöllunum hvarf. Loftvogin féll. En alltaf var bjart heiðríka beltið í útnorðri i sólarlagsáttinni. Og þess vegna lögðu hóparnir af stað, sumir menn þó með hálfum huga, eftir því sem veðurspásagnaandinn snerist.
Frá Ísafirði gat sólmyrkvinn ekki sést, því að fjöllin loka þaðan útsýn yfir Djúpið. Menn fóru því ýmist landveg yfir á Arnarnes, eða fengu sér bát þangað. En við lögðum nokkur í hóp út á Djúpið, á norsku línuveiðaskipi. Við héldum alllangt út; svo var skipið stöðvað. Djúpið lá opið fyrir, Við sáum nú greinilega heiðbjarta beltið, en það var norðar að sjá en svo, að nokkur líkindi væru til þess, að sólin gæti lent í því, hnígandi að öldum; hún huldist nú, að mestu, skýjablæju, en skýjajaðrarnir loguðu og ljómuðu eins og gulleldar; en á Bjarnarnúp sló daufum kvöldroða; við réðum því af halda ferðinni lengra áfram, í áttina til norðurs, og nær fjallinu; og þegar þangað var komið, var afstaðan orðin þannig, að sólin sást koma niður undan skýi, sem lá yfir heiðríkjunni, og ljómaði hún þar í allri töfradýrð sinni, fór þá að glaðna yfir okkur eins og sólinni; en ekki leyfði hún okkur, framar venju, að horfa lengi á sig með berum augum; við tókum því upp ós-litað gler úr pússi okkar, og gafst nú heldur en ekki á að líta, nýja tunglið var búið að setja allstórt skarð í hana að neðanverðu og upp hægra megin, enda var þá kl.15 mínútur yfir 10. Þarna ljómaði nú kvöldsólin í skýlausa loftbeltinu, og skugginn smáóx, þegar svartur máninn færðist yfir hana, upp eftir. Og þegar kl. var langt gengin 11, var myrkvinn mestur, svo að seinast var sólin að sjá ekki ósvipuð tveggjanátta tungli, fagurleiftrandi þó, með logaröndina efst, og gullhornin hangandi niður, jafnt til beggja hliða, og eins og mistur-rökkri sló yfir fjöll og sjó. [undir pistilinn ritar L.Th.]
Þjóðviljinn segir mjög stuttlega af hagstæðri júnítíð:
[12.] Tíð einatt hin ákjósanlegasta. [23.] Tíðin einatt mjög ákjósanleg; all-oftast sólskin, og heiðríkja, en þó stundum gróðrarskúrir. [30.] Tíðin einatt mjög hagstæð.
Norðri segir af júnítíð í pistli þann 1.júlí:
Ágæt tíð hefir nú verið í langan tíma. Grasspretta er með allra besta móti allstaðar hér norðanlands, og hér í Eyjafirði er sláttur byrjaður á flestum bæjum. Er það yfirleitt viku fyrr en í fyrra, og er það sumar þó talið ágætt heyskaparsumar.
Júlí: Nokkuð úrkomusamt nyrðra, en góðir þurrkkaflar á Suður- og Vesturlandi. Hiti í meðallagi.
Austri segir frá júlítíð:
[3.] Grasvöxtur er nú mjög góður hér austanlands, sérstaklega á votengi. Þurrkarnir hafa verið helst til of miklir fyrir harðvelli og hólatún eru nokkuð brunnin sumstaðar.
[10.] Veðurblíða á hverjum degi. Sláttur mun nú almennt byrjaður á túnum hér eystra, og hirðist heyið jafnóðum.
Norðri birti þann 23.júlí bréf af Skagaströnd, dagsett þann 3.:
Tíðin hefir verið afarhlý og stillt en þurrkar til baga. Er gras í harðlendum túnum og harðvelli mjög rýrt, en fremur gott á mýrum og votri jörð. Sláttur alstaðar byrjaður og að byrja. Í gær og í dag er norðan kuldi og úrfelli. Sú væta hefði átt að koma fyrri.
Lögrétta birti þann 21. bréf frá Guðmundi Björnsyni landlækni, þessi kafli er ritaður á Austfjörðum þann 7.júlí:
Það má segja, að allstaðar láti vel í ári. Á Síðunni og í Fljótshverfi hefur orðið geysimikil skemmd á jörðu af grasmaðki. Þar sá ég víða stórar engjaspildur og búfjárhaga rótnagaða af maðki, grátt og svart, ekkert grænt strá; hef aldrei séð neitt því líkt. Annars er grasspretta ágæt. Um helgina sem leið var túnasláttur byrjaður víða í Héraði. Allstaðar hefur verið óvenjumikil þurrkatíð. Ég hef fengið tvisvar skúr á mig á allri leiðinni, austan til á Mýrdalssandi, sólmyrkvakvöldið, og aftur austan til á Síðunni, sunnudaginn 20. júní.
Þjóðólfur greinir frá komu skemmtiferðaskips og veðri í pistli þann 16.:
Oceana" þýska skemmtiskipið, er hingað hefur komið fyrirfarandi sumur, kom hingað aðfaranóttina 11. þ.m., og fór héðan áleiðis til Spitzbergen nóttina eftir. Daginn sem ferðamennirnir stóðu hér við (sunnudaginn) var slæmt veður, stórrigning og stormur allan daginn að heita mátti, og hittist það óheppilega á.
Norðri greinir frá heyskapartíð í pistli þann 29.júlí:
Heyskapartíð hefir verið ágæt síðustu vikuna. Ágætir þurrkar síðan á sunnudag [25.], enda hefir náðst upp mjög mikið af heyjum, sem safnast höfðu fyrir í óþurrkakaflanum á dögunum. Vestur í Húnaþingi er allvíða búið að hirða tún, og töðufall allstaðar með langmesta móti, nema á mjög harðlendum túnum.
Þjóðviljinn greinir frá júlítíðinni í örstuttum pistlum:
[9.] Stöðugt sama einmunatíðin, hitar og stillur. [16.] Stöðugt sama einmunatíðin. Þurrkar og vætur skiptast heppilega á. [24.] Enn helst sama blessuð blíðan. [31.] Stöðugt sama einmunatíðin.
Vestri segir frá þann 31.:
Heyskapur hjá bændum gengur nú með lang-besta móti, grasspretta víðast góð, þó hefir nokkuð brunnið af hörðum túnum. Kaupafólk nóg að fá, en margir kynoka sér við að taka það vegna kaupgjaldsins.
Ágúst: Mjög úrkomusamt um mikinn hluta landsins, tíð talin góð suðvestanlands, en erfiðari heyskapartíð á Norðausturlandi. Hiti í meðallagi.
Fjallkonan segir frá þann 7.:
Þjóðhátíð Reykvíkinga. Hún stóð dagana 1. og 2. þ.m. Veðrið dró mjög úr ánægjunni; tók upp á því að verða eitt hið leiðinlegasta sem komið hefir á sumrinu. Og svo leiðinlegt var líka sumt af fólkinu, að það flýði brott úr bænum. Menn taka upp á alls konar duttlungum, þegar sólskinið vantar.
Austri segir af heyskap og ágústtíð:
[2.] Heyafli af túnum mun vera með allrabesta móti almennt hér eystra, og nýting ágæt, svo að viðast mun nú búið að hirða tún.
[21.] Veðráttan hefir verið óhagstæð þessa umliðnu viku, stormur og rigning á hverjum degi, svo að bátar hafa eigi getað farið til fiskjar.
Norðri segir af ágústtíð:
[5.] Veðrátta hefir verið hlý síðustu viku, en þurrkar fremur óstöðugir.
[12.] Veðrátta hefir verið mjög óstöðug síðustu vikuna og mjög ótryggir þurrkar.
[19.] Tíðarfar hefir verið óvanalega votviðrasamt síðustu vikuna. Getur ekki heitið að nokkur sólskinsstund hafi komið, og er því mjög mikið úti af heyjum.
Þjóðviljinn greinir frá ágústtíðinni í Reykjavík:
[10.] Það sem af er þessum mánuði hefir lengst af verið vindasamt og votviðri all-mikil.
[18.] Nú um helgina [15.] síðustu breyttist veðráttan aftur til batnaðar og hefir verið besta veður síðustu dagana, hægviðri, sólskin og hiti.
[24.] Veðrátta nokkuð óstöðug, en þó stillt veður síðustu dagana.
[31.] Ágætt veður síðustu dagana. Góður þerrir, enda hans ekki vanþörf.
Ingólfur segir fréttir af grasmaðki þann 26.ágúst:
Grasmaðkur hefir gert víða mikinn skaða í vor og sumar. Kvað einna mest af þessum skemmdum í Gnúpverjahreppi ofanverðum, Landmannasveit, ofanverðum Rangárvöllum og svo í Skaftártungunni, Síðunni og Fljótshverfi í Vestur-Skaftafellssýslu. Mest hefi borið á þessum maðki og eyðileggingu hans á valllendi og heiðarlendi. Bitfjárhagar í Skaftártungunni víða hálf eyðilagðir. Einnig hefir maðkurinn farið í túnin sumstaðar og valdið tjóni t.d. í Hvammi á Landi, Geirlandi og Mörk á Síðu og víðar Sagt og, að á einum bæ, Finnstungu í Húnavatnssýslu, hafi maðkur skemmt túnið.
Vestri segir frá þann 28.ágúst:
Geymsluhús úr timbri fauk á Bakka í Skálavík 20. þ.m. Tveir menn höfðu sofið í húsinu um nóttina og var annar þeirra farinn út, en hinn var í rúminu. Rúmið stóð eftir og hluti af gólfinu kring um það, svo að manninn sakaði ekki; hafði full sementstunna staðið þar á gólfinu, rótt við rúmstokkinn. Vörur og fleira, sem inni var, ónýttist og skemmdist, og varð eigandinn, Jón bóndi Magnússon fyrir all miklu tjóni.
Óþurrkatíð hefir verið nú um langan tíma hér á Vestfjörðum og horfir til vandræða með þurrk á heyi og fiski. Hey eru viða orðin hrakin og skemmd og ýmsir hættir heyskap á meðan þessu heldur áfram.
September: Tíð talin hagstæð. Úrkomusamt framan af á Suður- og Vesturlandi. Fremur hlýtt.
Norðri segir af laklegri heyskapartíð þann 2.september:
Tíðarfar hefir verið óvenjulega vætusamt nú í langan tíma. Hefir gengið mjög illa að þurrka hey og er víða talsvert mikið úti hér í Eyjafjarðarsýslu en þó miklu meira í Húnavatns- og Skagafjarðarsýslum, enda getur naumast heitið, að þar hafi komið nokkur verulegur þurrkdagur í samfleyttar vikur. Síðustu dagana hefir þó verið allgóður þurrkur hér og sennilega einnig vestur um sýslur, enda er nú komin sunnanátt. Vonandi er því að mestöll hey hér norðanlands náist inn þessa daga, en hrakin munu þau vera orðin allvíða. Hefir þessi óþurrkatíð einnig tafið mjög heyskapinn, enda sumstaðar orðið að flytja hey til langan veg til þess að koma því á þurrkvöll, því að víða hefir vatn flætt yfir engjar, sem vel má þurrka á í meðal þurrkasumrum. Rætist nú úr með þurrkinn mun þó heyfengurinn víðast hvar verða með mesta móti, því að grasspretta er allstaðar ágæt og heyskapur var almennt byrjaður óvanalega snemma.
Þjóðviljinn greinir frá septembertíð:
[18.] Tíðin fremur hagstæð að undanförnu. [25.] Tíðin óþurrkasöm, svo að örðugt veitir um þurrk á fiski, og á heyi, sem enn er úti a sumum stöðum hér syðra. [30.] Tíð einkar mild undanfarna daga.
Þann 23.október birti Fjallkonan tvö bréf utan af landi:
Árnessýslu 30.september. Kalla má að stöðugt blíðviðri hafi staðið hér fjóra síðastliðna mánuði, þurrkasamt fyrri hlutann, en fremur vætusamt síðari hlutann, og þó blíðviðri, því jafnan var logn. Aðeins stöku daga kom vindur, er teljandi væri, og þó aldrei svo að undan óveðri væri kvartandi. Grasvöxtur varð með besta móti allstaðar, nema á þeim mýrum, sem vatni eru vanar, en hafa ekki áveitu, og svo var að sjálfsögðu graslítið á þeim stöðum, sem maðkurinn eyðilagði í fyrra. Nýting var góð fyrri hluta sláttar, enda byrjaði sláttur fyrr en vant var. Síðari hlutann var nýting eigi jafngóð, en þó hafa nú allir náð heyi sínu lítt skemmdu, að talið er.
Eskifirði 12. október 1909. Þetta sumar, sem bráðum er á förum, er eitthvert hið indælasta er menn muna. Sífeld lognblíða og hiti fram til septemberloka. Grasvöxtur og nýting með besta móti. Matjurtarækt er hér mjög lítil og ófullkomin, en nú spratt þó með besta móti. Ber spruttu mjög vel, enda hagnýtti fólk sér þau óvenjulega mikið til þess að spara sér saftkaup frá útlöndum. Með október fór veðrið að breytast og hefir mátt heita óstöðug tíð síðan. Í Fljótsdalshéraði kyngdi niður mjög miklu af snjó, 34 fet á jafnsléttu, svo að algerlega tók fyrir haga.
Október: Úrkomusamt, einkum framan af. Kalt.
Austri segir þann 2.október:
Storm og stórflóð gjörði hér í nótt og olli það miklum skaða, braut báta og bryggjur, meira og minna. Mótorbátinn Aldan" sleit upp og rak á land og brotnaði hann mjög mikið, ennfremur sleit upp nótabát með nót í og brotnaði hann í spón og nótin skemmdist allmikið fleiri skaðar urðu og hingað og þangað.
Enn segir Austri af sköðum í sama veðri í fréttapistli þann 9. október:
Í óveðrinu 1.þ.m, strandaði gufuskipið Reidar", eign gufuskipafélagsins Thor", á Borgarfirði skammt frá Höfn, rak þar í land undan óveðrinu og stórsjónum. Allir skipverjar björguðust á land. Í sama veðri sleit upp mótorbát á Borgarfirði og rak hann á land og brotnaði í spón. Hann var óvátryggður og er tjónið því mikið fyrir eigendur bátsins. ... Mikinn snjó setti niður á fjöll nú í ofsaveðrinu 1. þ.m. og alla leið niður í byggð, þá er nú autt hér í fjörðunum upp í miðjar fjallshlíðar en á Mið-Héraði er allmikill snjór, svo varla var bægt að beita þar fé. Voru Héraðsmenn margir lagðir af stað með fé sitt á leið til Seyðisfjarðar, en komust eigi lengra en undir Fjarðarheiði að Egilstöðum, og hefir þeim til þessa þótt ókleyft að koma fénu hér ofanyfir heiðarnar. Munu sumir bændur þegar hafa rekið fé sitt heim aftur, og ætla að bíða þar til færðin batnar yfir heiðarnar. Fleiri þúsund fjár er það sem enn er ókomið af Héraði víðsvegar hingað ofan á Seyðisfjörð, og er það mikið tjón bæði fyrir bændur og kaupmenn, ef svo illa gengur lengi, að eigi verður hægt að koma fénu ofan yfir fjöllin.
Austri greinir líka frá illviðrum í pistli þann 18.október:
Ofveður hefir verið nú undanfarið um allt land að kalla má, stormur og kraparigning. Þó mun lítinn snjó hafa lagt á fjöll þessa síðastliðnu viku, en snjór sá er féll þar um daginn blotnaði mjög og orðið að krapa, að minnsta kosti á heiðunum hér í kring. ... Símaslit varð nú s.l. viku á Haug; hafði Seyðisfjörður í gær og dag eigi samband lengra norður en til Vopnafjarðar. Símamenn frá Hofi lögðu á stað til Haugs á föstudaginn, en urðu að snúa aftur vegna óveðurs, en nú mun vera langt komið að gjöra við bilanir þessar.
Maður varð úti á Jökuldalnum nú i hríðarveðrinu um daginn, Ívar Magnússon að nafni, rúmlega tvítugur að aldri. Hann átti heima í Hjarðarhaga, en hafði verið lánaður að Merki, meðan bóndinn þaðan var í kaupstað, og átti hann að gæta fénaðarins. Hríðardaginn versta var hann að ganga við fé, en kom eigi heim aftur að kvöldi; en daginn eftir fannst hann örendur allskammt frá bænum; hefir eflaust villst og örmagnast svo af þreytu og kulda.
Austri segir frá þann 30.október:
Veðráttan er alltaf fremur stirð, hefir nú lagt dálítinn snjó alveg ofan i sjávarmál hér í firðinum, þó er næg beit allstaðar, nema yst í firðinum að sunnanverðu, þar kvað snjórinn vera mestur, jafn-fallinn í mjóalegg og kné.
Norðri segir líka af erfiðri tíð í október:
{7.] Veðrátta hefir verið afar óhagstæð síðustu viku. Síðan á föstudag [1.] hefir daglega snjóað og er nú komin allmikil fönn. Frostlaust hefir alltaf verið að mestu. Fé er alstaðar hér í nærsveitum óvíst, enda illmögulegt að ná því sakir ófærða og dimmviðra. Er jafnvel mjög illt á jörð nú og mun fé orðið illa útleikið. - Sakir ófærðarinnar hefir verið afar erfitt að koma slátrunarfé hingað til bæjarins, enda mjög þungfært með hesta.
[21.] Á föstudaginn er var [15.], var hér ofsaveður af norðri og krapahríð. Þá um kvöldið og nóttina rak upp mótorbáta frá Höfða, er lágu við Kljáströnd, annan á land, er brotnaði í spón og hinn á grynningar og sökk hann þar, inn og fram af Höfðabænum. Bátar þessir hétu Fáfnir og Agnes, voru báðir næstum nýir, yfirbyggðir, með 8 hesta mótorum. Báðir voru þeir vátryggðir í Bátaábyrgðarfélagi Eyfirðinga, Fáfnir fyrir 2200 kr en Agnes fyrir 2400 kr. Er það lítið meira en hálfvirði og bíða eigendur því mjög tilfinnanlegan skaða. Ábyrgðarfélagið má heldur eigi vel við slíku tjóni því að það er nýlega stofnað af litlum efnum, sem og kunnugt er. Þrír aðrir mótorbátar lágu þenna sama dag við Kljáströnd og var þeim með naumindum og mannhættu bjargað frá að reka á land. Á engum bátnum bilaði legufæri en stórsjórinn var svo mikill að akkerin héldu eigi, enda telja Höfðabræður, að þá hafi verið þar við ströndina einn hinn mesti sjór, er þeir muna.
Tepptar samgöngur á sjó. Gufuskipið Ceres, er fór héðan fyrra laugardagskvöld [líklega 8.] til Sauðárkróks, lá þar til fimmtudags [14.], en þá gat hún ekki lengur haldist þar við sakir sjógangs og hleypti yfir að Þórðarhöfða, en komst loks á laugardagskvöld [16.] til Sauðárkróks aftur og gat þá loks á sunnudaginn er var afgreitt sig þar. Skálholt fór héðan fyrra sunnudagsmorgun, lá við Hrísey á annan sólarhring, fór þaðan til Siglufjarðar á þriðjudaginn og lá þar til laugardags. Hólar fóru á mánudagsmorgun [líklega 11.] til Húsavíkur en héldust þar eigi við og hleyptu þaðan inn fyrir Hrísey og lágu þar fram yfir síðustu helgi. Vendsyssel lá í byrjun illveðursins á Ísafirði en lagði út úr Djúpinu á miðvikudag. Var þá svo mikill ósjór og og rok úti fyrir, að skipverjar gátu við ekkert ráðið. Annar björgunarbáturinn brotnaði og ýmislegt fleira á þilfarinu; sjór komst niður í skipið og vélin bilaði. Gátu þeir eigi snúið aftur og létu því reka austur. Náðu þeir loks landi á Blönduósi á mánudaginn er var [18.].
Norska gufuskipið Flóra, er hér var á vestur- og suðurleið um fyrri helgi, og fór héðan til Siglufjarðar og Húsavíkur, lagði af stað þaðan fyrra mánudagskvöld [11.] kl. 6.e.h. áleiðis til Ísafjarðar. Var þá norðan illviður og stórsjór og jókst hvortveggja um nóttina. Hélt skipið alltaf í norðvestur, en vegna illveðurs sáu skipverjar eigi land á Vestfjörðum, enda þorðu ekki að leita þess í slíku veðri og sjógangi. Veðrið hélst látlaust í fjóra sólarhringa, og áttuðu skipverjar sig ekki fyrr, en þeir voru komnir alla leið að austurströnd Grænlands. Sneru þeir þá til baka, og er þeir komu í nánd við Ísland, vildi svo vel til, að þeir sáu snöggvast til sólar, og gátu reiknað út, hvar þeir voru. Var það all-langt vestur af Patreksfirði, og komust þeir þangað inn eftir 5 sólarhringa útivist. Alla þessa daga var ógurlegur stórsjór, enda brotnaði stjórnpallurinn mjög. Voru þá þar uppi 2 menn, er báðir slösuðust all-mikið, annar þeirra rifbrotnaði. Tveir kolamokarar höfðu og meiðst talsvert mikið. Allt lauslegt á þilfari fór í sjóinn, allir bátar ýmist brotnuðu eða skoluðust yfir borð. Leiðarsteinninn bilaði og að miklum mun. Mun oft hafa legið við borð, að skipið færist með öllu, enda mun enginn þeirra 150 manna eða fleiri, er í skipinu voru, þóst hafa komist í slíka raun. Frá Patreksfirði fór Flóra til Ísafjarðar og þaðan fór hún aftur á þriðjudaginn áleiðis til Reykjavíkur.
Ingólfur birti 24.október bréf úr Strandasýslu - dagsetningar ekki getið:
Tíðarfarið hefir yfirleitt verið hagstætt þetta ár. Síðastliðinn vetur var góður og hagasamur, og heyfyrningar því allmiklar undan vetrinum. Það voraði vel og hélst fyrirtakstíð fram í byrjun ágústmánaðar, hlýviðri og sólfar mikið, en þurrviðrasamt um of fyrir harðvelli. Á engjaslætti kom 5 vikna óþurrkakafli, en þó voru eigi stórrigningar, og hélst fram til leita. Tún spruttu vel, nema harðbalar. Þar brann gras af til skaða. Sláttur byrjaði með júlímánuði og náðust töður óhraktar á undan óþurrkunum.
Þjóðviljinn birti þann 24.desember bréf af Hornströndum, dagsett 23.október:
Í byrjun októbermánaðar skipti hér um veðráttu. Gerði þá svo grimmílega fannhríð, með ofsa-veðri á norðaustan, að á sumum bæjum voru allar skepnur komnar á gjöf, einnig hestar, hálfum mánuði fyrir vetur. Veðri þessu fylgdi svo mikil sjávarólga, að menn muna varla slikt, og á stöku stöðum flutti sjór smásteina, og rekavið sex álnir upp yfir venjulegt flæðarmál, neðan brattar brekkur. Mest kvað að þessu 14.15., og var það eigi ólikt flóðöldum, sem sagt er frá í öðrum löndum.
Vestri lýsir októbertíð fyrir vestan:
[2.] Kuldatíð hefir nú verið þessa síðustu daga, norðanstormur og kafald, og er jörð nú alhvít niður undir sjó. [16.] Sama ótíðin alla þessa viku, norðanstormar með kafaldi eða krapahríðum. Í dag er þó þurrt og heldur hlé á veðrinu. [30.] Tíðarfar yfirleitt stillt og gott þessa síðustu viku.
Þjóðviljinn segir af tíð og slysi þann 19.október:
Frá Ísafirði fréttist kuldatíð, norðanhret í öndverðum október og jörð orðin alhvít til sjávar.
Tveir menn drukkna. Vélarbátur, sem 9. okt. þ.á. fór frá Vestmannaeyjum til Víkur í Vestur-Skaftafellssýslu, slitnaði þar upp, með því að slæmt var í sjóinn, og brimasamt. Rak vélabátinn síðan á Þykkvabæjarfjörum í Landeyjum í Rangárvallasýslu 10.október, og var þá mannlaus, svo að talið er víst að tveir menn, sem á bátnum voru, hafi farist. Segl var uppi á bátnum, og þykir því líklegt að vélin hafi bilað. Þegar báturinn lagði af stað frá Vestmanneyjum til Víkur, voru á honum sex menn, en fjórir þeirra voru í landi í Vik, er bátinn sleit upp.
Reykjavík: Tíðin hvassviðrasöm í vikunni, sem leið, norðanstórviðri, en þó engir snjóar enn fallnir á láglendi hér syðra.
Þjóðviljinn segir 30.október:
Veturinn gekk í garð 23. þ.m. og snjóaði þá nokkuð á láglendi hér syðra, og jörð alhvít morguninn eftir.
Þjóðólfur segir þann 29.október:
Veðurátta hefur verið stillt síðari hluta þessa mánaðar en töluverður snjór fallið á jörð hér syðra, og nú síðustu dagana hafa verið óvenjumikil frost um þetta leyti árs, t.d. 9°C. hér niður á sjávarbakka í gærmorgun, en í morgun 15° á Grímsstöðum á Fjöllum.
Austri segir þann 6.nóvember frá vatnasköðum eystra í október:
Skaðar allmiklir urðu á heyjum og fénaði í Hjaltastaðaþinghá í votviðrunum og vatnavöxtunum um daginn. Þannig er mælt að bændurnir á Kóreksstöðum og Kókreksstaðagerði hafi misst um 70 lömb í Selfljótið, er flæddi langt yfir farveg sinn; en á Hjaltastað urðu heyskaðarnir mestir.
Nóvember: Hagstæð tíð. Hiti í meðallagi.
Norðri segir um tíðina og útlitið í pistli þann 6.nóvember:
Veðrátta hefir nú í heilan mánuð verið óvenjulega ill og köld. Hefir fé hér norðanlands verið á gjöf að mestu leyti allan þennan tíma og sumstaðar algerlega staðið inni að heita má, og það jafnvel í góðum útbeitarsveitum í Suður- Þingeyjarsýslu. Snjór hefir verið óvenjulega mikill, einkum til dala. Í fyrradag gerði blota og var allgóð hláka í gær, en í dag er snjókoma allmikil og mun nú víðast hvar í Eyjafjarðar- og Þingeyjarsýslum vera jarðlaust með öllu. Bera flestir veðurfróðir menn kvíðboga fyrir mjög hörðum vetri, enda kváðu draummenn ýmsra spakra manna hafa sagt þeim, að sannkallaður fimbulvetur væri í aðsigi. Kemur það í góðar þarfir, að heybirgðir manna eru allstaðar með langmesta móti og munu í öllum sveitum vera fleiri eða færri búendur, er hvernig sem viðrar hafa birgðir aflögu og geta því hjálpað, ef með þarf. Sjaldan eða aldrei munu búendur hafa verið færari um að taka á móti hörðum vetri og er því engin ástæða til þess að æðrast, þótt kaldan blási og kyngi niður fönn.
Norðri segir stuttlega frá tíð þann 18. og 24.nóvember:
[18.] Tíðarfar hefir verið allgott hér norðan lands, síðustu vikuna. Er nú snjólítið hér í Eyjafirði og víðast hvar góð jörð. [24.] Veðrátta hefir verið hin ákjósanlegasta síðustu daga, logn og bjartviðri með litlu frosti. Snjór er víða lítill í lágsveitum, en víðast hvar mikill er dregur til fjalla.
Vestri segir:
[6.] Tíðin er hér nú allgóð, nýafstaðin vorhlýindi, en nokkur snjókoma á eftir. Og þó að snjói og hvessi lítið eitt á vetur, þá er það ekki til þess að æðrast af. [13.] Norðanveður úti fyrir, en stillt veður og gott hér inni í fjarðarbotni.
Þjóðviljinn er líka stuttorður:
[13.] Tíðarfar stillt síðastliðna viku, og frost töluverð, en fannkoma eigi að mun. [24.] Tíðin fremur hagstæð undanfarna daga, þíður, og lygn veður.
Desember: Talsverð snjókoma nyrðra, en hagstæð tíð syðra. Kalt.
Þjóðviljinn segir af desembertíð:
[3.] Talsverður snjór féll á jörðu dagana fyrir helgina, svo að jörð hefir verið alhvít.
[13.] Snjóað hefir töluvert að undanförnu, og jafnvel komið svartar kafaldshríðar, en þó heiðskírt veður öðru hvoru.
[24.] Sudda-veður, og dimmviðri að undanförnu, síðustu daga frost og kuldi. Jörð orðin marauð hér syðra, svo bændum sparast heyin þennan tímann.
[31.] Heiðskírt og glaða tunglsljós, um jólin og rennihjarn á jörðu. Sveitafólkinu hefir því gefið vel, að sækja kirkjur og aðrar skemmtisamkomur um jólin. Óvanalega fagrar litbreytingar, eða litskrúð á himni öðru hvoru að undanförnu.
Þjóðviljinn birti þann 31. bréf úr Dýrafirði, ritað í desember en ódagsett:
Fréttir eru héðan fáar, nema versta ótíð, frost, og fannkomur sífelldar, síðan jólafasta byrjaði; og var þó áður úr litlu að spillast, nema hvað veður var þá hægra um tíma. Nú mun víða vera orðið jarðlaust, þar sem ekki nær til fjöru, og gefa verður hér nær því fulla gjöf, og er það snemmt, því að kýr og lömb komu að öllu á gjöf um mikaelsmessu [29.september]. Meira, en viku, hefir verið hér svo mikil snjóhríð, að með köflum hefir verið illfær bæja milli.
Austri segir af símslitum og snjóflóðum í frétt þann 11.desember:
Í stórhríðarveðrinu nú um næstliðna helgi [5.] urðu símaslit á nokkrum stöðum hér eystra. Á símalínunni hér í bænum, milli Vestdalseyrar og Öldu, brotnaði 1 staur af snjóflóði, og á Mjóafjarðarlínunni tók snjóflóð 5 staura á fjallinu Mjóafjarðarmegin; ennfremur höfðu 45 staurar farið í snjóflóð á línunni út að Brekku í Mjóafirði, milli Hesteyrar og Skóga.
Enn greinir Austri af snjóflóði í frétt þann 18.desember:
Tveir menn fórust í snjóflóði 9. þ.m. í svonefndu Skriðuvíkurgili sunnan við Njarðvíkurskriður, milli Njarðvíkur og Borgarfjarðar. Voru þeir þrír saman og komu ofan af Krosshöfða, þangað sem þeir voru að sækja steinolíu, því steinolíulaust var að sögn við verslanir í Borgarfirði. Og er menn þessir komu í áðurnefnt Skriðuvíkurgil féll snjóflóð mikið og reif með sér tvo mennina, er fremstir gengu. En hinn þriðja sakaði ekki og fór hann strax til bæja og sótti hjálp; fundust brátt lík félaga hans undir snjódyngjunni niðri í fjöru.
Austri segir frá þ.22.:
Lagís, allþykkan, lagði hér á kringluna aðfaranótt 17. þ.m. Mótorbáta þá, er lágu fyrir festum út á höfninni, rak töluvert með ísnum, og einn mótorbáturinn, sá stærsti sem er hér í firðinum, Eva", eign Páls Árnasonar, sökk.
Norðri segir þann 16.desember:
Viðarreki hefir verið óvenjulega mikill víða hér norðanlands í haust, einkum á Skaga og í síðustu norðanhviðunni fyrir rúmri viku síðan rak svo mikið í Ólafsfirði, Svarfaðardal og utanverðri Árskógsströnd, að elstu menn muna ekki annan eins reka, að sögn. Mest af þessum trjáviði hefir verið fremur smátt, en þó allmikið góðir máttarviðir í peningshús. Sennilega hefir einnig mikið rekið í þessari hríð austanverðu fjarðarins og norður á Tjörnesi og Sléttu, því það eru bestu rekastaðirnir hér, aðrir enn Skaginn. Trjáviðarreki hefir nú í næstum heilan mannsaldur verið miklum mun minni, en áður var og hefir verið kent um skógarhöggi og aukinni byggð í Ameríku og Síberíu, en þaðan kemur mestur rekaviður hingað, að fróðra manna sögn, eins og kunnugt er. Hefir flestum verið horfin öll von um, að þetta mundi nokkurn tíma breytast til batnaðar, enda hafa rekahlunnindi jarða verið að litlu metin síðustu árin. Hver veit nema nú sé ný rekaöld að renna upp, þrátt fyriralla vantrú á slíku. Var rekinn í fyrri daga Íslandi mjög mikils virði, og væri betur, að enn mætti svo verða.
Norðri segir af frostum þann 30.desember:
Frost hafa verið óvanalega mikil nú um jólin, alt að 20° á C; er það sjaldgæft hér svo snemma vetrar. En í gær brá til sunnanáttar og þíðu og helst það enn.
Ísafold birti 20.janúar 1910 bréf af Snæfellsnesi, dagsett 31.desember:
Árið byrjaði með nokkuð óstöðugri veðráttu, snjókomu & milli og oftast frostlítið fram í þorralok, en með góu byrjaði hin hagstæðasta tíð, mjög úrkomulitið, en þó ekki mikil frost, en stundum nokkuð vindasamt til sjávar. Þessi ágæta veðrátta hélst til júlímánaðarloka. Gras mjög mikið, sérstaklega á túnum þeim, sem eru í nokkurnveginn góðri rækt, en hún er nú víða lakari en vera ætti; vonandi, að menn taki sér fram í því efni. Í ágústbyrjun byrjuðu óþurrkar, að eins einn og einn þerridagur í einu og hraktist þá mjög hey víða. September var þurrviðrasamari og náðust þá hey manna, svo heyfengur varð með besta móti. Líka varð uppskera úr matjurtagörðum mjög góð. Hafa margir stundað matjurtarækt venju fremur á næstliðnu vori. Ekki ólíklegt, að koma Einars Helgasonar hafi heldur glætt áhuga manna við garðrækt. Væri betur að oft væru slíkir menn a ferð, sem hvetja til framfara í búnaðinum. Í 24. viku sumars [snemma í október] kom talsvert snjóhret, svo að kindur fennti jafnvel sumstaðar. Síðan hefir verið fremur góð veðrátta, og nú við árslokin er alauð jörð.
Lögrétta birti þann 12.janúar 1910 bréf úr Rangárvallasýslu, dagsett 31.desember 1909:
Þegar á allt er litið, má telja þetta ár, sem nú er að kveðja, yfirleitt gott ár. Veturinn frá nýári var ágætur, voraði snemma og heybirgðir alstaðar nógar. Grasspretta með allra besta móti, og því byrjað að slá 12 vikum fyrr en vanalega. Heyskapur almennt góður, þótt miklar tafir yrðu víða af vætu meira og minna í ágústmánuði, en það hjálpaði öllum, hve snemma var farið að slá. Haustið hefur verið snjóa og frostasamt, snjóaði strax með október, sem er óvanalega snemmt hér, og síðan hefur snjóað öðru hvoru, en gert góðar hlákur á milli; snörp frost hafa einnig verið með köflum, mest 19.29. þ.m. frá 1018 stig.
Austri birti þann 21.maí 1910 brot úr veðurlýsingu ársins 1909 (líklega af Héraði):
Veðurlag var hagstætt fyrri hluta janúarmánaðar, og hagbeit var góð til hins 13. Byrjuðu þá norðaustanhríðar til hins 19. Var þá víða haglítið vegna snjódýptar. Þann 20 hlánaði nokkuð, en dagana 24. 26. var suðvestan hláka, svo hagar voru góðir til mánaðarloka. Allur febrúarmánuður var veðursæll og jörð snjólítil í byggð. Tíðarfar var snjóa- og umhleypingasamt í marsmánuði, en hagbeit nokkur þegar til gaf.
Allur aprílmánuður var góðviðrasamur. Um miðjan mánuðinn var alauð jörð í byggð; komu þá lóurnar í vorblíðunni. Jörð var stunguþíð. Var þá unnið að túnsléttun og öðrum jarðabótastörfum. Byrjuðu menn þá almennt að vinna á túnum. Eftir 20. þess m. sást vottur til að jörð var byrjuð að gróa.
Veðurátt breyttist þann 10. maí, og gekk til norðurs og norðausturs með hvassviðri og kulda, og snjóum einkum til fjalla. Hnekkti þá mjög gróðri þeim er kominn var. Eftir 20. s.m. hlýnaði veður af suðvestri, greri jörð þá allvel síðari hluta þ.m. svo um mánaðamótin var farið að beita nautgripum. Allur búpeningur manna gekk vel undan vetri. Sérstök blíða var í júnímánuði, hitar miklir og þurrkar, einkum síðari hluta þess m. Þótt bæri á bruna í harðlendum túnum og ofþurrki í mýrum, varð þó grasvöxtur góður. Enda var sláttur" byrjaður, síðustu daga þ.m. Grastíð var góð í júlímánuði. Snemma morguns þ.15. fraus kartöflugras í görðum, einkum fölnaði grasið þar sem sól náði til fyrri hluta dags, en ekki annarsstaðar. Bendir þetta á það að haganlegt sé að kartöflugarðar halli undan sól fyrri part dags. Eftir 20. þess m. komu nokkrir regn og þurrkleysisdagar. Útengi spruttu vel þennan mánuð. Tún voru í betra meðallagi vaxin, og taða birtist vel.
Heyskapartíð var hin besta í ágústmánuði. Nokkrir úrkomu- og kuldadagar með þurrkdögum á milli. Hey manna hirtust vel. Þann 13. þess m. snjóaði í fjöll, og enn gerði skaða í kartöflugörðum, svo uppskera varð lítil þar sem kartöflugras fraus og fölnaði. Tíðarfar var allgott í septembermánuði. Heyannir enduðu almennt 18.25. Hey voru mikil almennt yfir og vel hirt. Fjársöfn, ferðalög og önnur haustverk gengu vel frá hendi í þessum mánuði.
Veðurlag í októbermánuði var mjög úrkomusamt. Gjörði mikla snjóa 2.10. þ.m. Fjársöfn, ferðalög og önnur vinna gekk mjög illa. Í stórrigningarveðri 15.16. þ.m. skemmdust mjög mikið hey manna og eldiviður. Vatnsflóð brutu brýr og vegi, skriður féllu víða og fleiri skaðar urðu. Tíðarfar var umhleypingasamt í nóvembermánuði, en sem oftast allgott í högum. Veðurlag var misjafnt í desembermánuði. Gjörði snjóa nokkra til hins 12. Þann 13.15. mikil leysing svo alautt varð i byggð. Þá gjörði mikla snjóa, með bjartviðrisdögum á milli, og langvinn óvanalega mikil frost sem urðu hæst 1920° á C þ.21. og 28. þ.m. Hinn 29. gjörði hláku um kvöldið til hins 30. Síðasta dag ársins var logn og góðviðri og regnskúrir um nóttina.
Lýkur hér að sinni samantekt hungurdiska um árið 1909. Finna má ýmsar tölulegar upplýsingar, meðalhita, úrkomu og fleira í viðhenginu.
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt 30.5.2019 kl. 23:53 | Facebook
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (15.11.): 189
- Sl. sólarhring: 541
- Sl. viku: 2551
- Frá upphafi: 2410853
Annað
- Innlit í dag: 158
- Innlit sl. viku: 2241
- Gestir í dag: 157
- IP-tölur í dag: 154
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.