Einn af þessum

Nú kemur einn af þessum smákuldapollum úr norðri suður yfir landið. Hann er reyndar ekki líklegur til stórræða - bæði lítill að afli og fær þar að auki lítinn tíma til athafna.

w-blogg050319a

Kortið sýnir hæð 500 hPa-flatarins auk vinds og hita í honum kl.6 að morgni miðvikudags 5.mars. Kerfið er á leið til suðausturs yfir landið. Eins og vera ber er kaldast í miðju þess. Þetta er ekki sjaldséð staða og oft er hún mjög skæð og varasöm - en reiknimiðstöðvar eru samt rólegar að þessu sinni og við þar af leiðandi líka. Engin hefðbundin skil fylgja kuldapollum af þessu tagi - en þá „langar“ samt til að skreyta sig með þeim og verða að heiðarlegum lægðum. Það tekst ef tími vinnst til og nægilegt afl er til staðar. 

Hvort það gerist nú vitum við einfaldlega ekki - ekki einu sinni reiknimiðstöðvarnar. Kortið hér að neðan sýnir sjávarmálsþrýsting og úrkomu á sama tíma og kortið að ofan.

w-blogg050319b

Við sjáum að vindur er hægur (þrýstilínur fáar), en samt eru mjög reglulegir éljagarðar á sveimi við landið - bæði norðan, vestan, sunnan og austan við. Það er alltaf spennandi að sjá hvernig reikningum tekst til - eru þetta bara sýndargarðar í líkaninu eða verður eitthvað raunverulegt úr - eða gerist kannski eitthvað meira? Sé þessi spá rétt mun snjóa nokkuð syðst á landinu á aðfaranótt miðvikudags - og garðurinn fyrir suðaustan land (sá sem ekki snertir landið) á að færast frekar í aukana og koma upp að Hornafirði á miðvikudagskvöld. Smálægð virðist vera í úrkomukrækjunni fyrir norðan landið.

Lítum líka til gamans á lausn harmonie-líkansins á sama tíma.

w-blogg050319c

Hér er minna gert úr úrkomunni syðst á landinu - (en höfum þó í huga að lituðu svæðin marka hér aðeins klukkustundarúrkomu - en taka til 3 stunda á hinu kortinu). Meira virðist hins vegar gert úr smálægðinni fyrir norðan land. En sannleikurinn er sá að úrkoman er lítt viðráðanleg í stöðu sem þessari. Við vitum þó að kólnun yfir landinu (vegna þess að geislunarbúskapur er mjög neikvæður) býr til dálitla hringrás sem veldur lítilsháttar niðurstreymi sem leysir upp ský og úrkomu. Landið ver sig því dálítið - úrkoman myndast frekar yfir sjónum og berst þaðan e.t.v inn yfir land - alla vega meðan éljagarðarnir eru slakir.

Þó þetta sé ekki merkileg staða er hún samt skemmtileg viðfangs - jafnvel spennandi - rétt eins og sápuópera sem gæti hæglega tekið óvæntan snúning (en gerir það líklega ekki). 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg020125a
  • w-blogg020125a
  • w-blogg010125i
  • w-blogg010125
  • w-blogg271224a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.1.): 170
  • Sl. sólarhring: 845
  • Sl. viku: 2841
  • Frá upphafi: 2426698

Annað

  • Innlit í dag: 161
  • Innlit sl. viku: 2538
  • Gestir í dag: 159
  • IP-tölur í dag: 158

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband