Suðlægar áttir - strekkingsvindar og hlýrra veður

Nú virðist sem suðlægar áttir verði ríkjandi á næstunni. Það þýðir þó ekki að um stöðuga sunnanátt verði að ræða. Kortið hér að neðan sýnir spá evrópureiknimiðstöðvarinnar um sjávarmálsþrýsting, úrkomu og hita í 850 hPa-fletinum og gildir síðdegis á morgun, þriðjudaginn 19.febrúar. Neðar í pistlinum er þyngra efni - einkum ætlað nördunum (sjö?) - aðrir sleppa því auðvitað. 

w-blogg180219a

Fyrsta lægðin (í syrpu sem við vitum ekki enn hversu löng verður) er hér rúma 500 km suður af landinu á leið til norðvesturs. Þetta er lægð sem verður vera fljót að ljúka sér af því langt suðvestur í hafi er önnur lægð, sú í foráttuvexti. Það gæti orðið dýpsta lægð vetrarins á norðanverðu Atlantshafi, reiknast niður í 935 hPa á miðvikudag - en þá allfjarri okkur. Hún valtar bókstaflega yfir fyrri lægðina. 

En fyrri lægðin fer sum sé að hafa áhrif strax á morgun, þriðjudag og svo virðist þegar þetta er ritað (á mánudagskvöldi) að verulega hvessi um stund á landinu á þriðjudagskvöld og aðfaranótt miðvikudags. Stafar það að nokkru af „mótstöðu“ kaldara lofts yfir landinu og norður af því. Þó í reynd hafi farið afskaplega vel með veður það sem af er ári - harla lítið orðið úr hvassviðrum sem spáð hefur verið - getum við ekki treyst því að slíkt ástand haldist til eilífðarnóns. 

Hvassviðri sem fylgir lægðinni miklu suður í hafi á að ganga yfir á aðfaranótt fimmtudags, vonandi verður ekki mikið úr því. Síðan sér á lægð á lægð ofan næstu daga á eftir - en harla lítið er á þeim spám að byggja í bili að minnsta kosti. 

Til fróðleiks lítum við líka á mættishita- og vindsnið úr harmonie-spálíkaninu. Það gildir kl.5 á aðfaranótt miðvikudags - einmitt þegar hvassviðri fyrri lægðarinnar verður um það bil í hámarki um landið suðvestan- og vestanvert. 

w-blogg180219b

Lega sniðsins er sýnd á litla kortinu efst í hægra horni, það liggur frá stað rétt suðvestur af Reykjanesi í suðri (til vinstri á sniðsmyndinni) til norðurs norður fyrir Vestfirði (til hægri á sniðinu). Lóðrétti ásinn sýnir hæð - mælda í hPa, allt upp í 250 hPa í um 11 km hæð. Snæfellsnes og Vestfjarðafjöll sjást sem gráir tindar neðst á myndinni, sniðið liggur ekki fjarri Glámuhálendinu sem hér stingst rétt upp fyrir 900 hPa. 

Vindátt og vindhraða má sjá með hefðbundnum vindörvum, en vindhraði er líka sýndur á litakvarða. Brúnu litirnir sýnan vindhraða af fárviðrisstyrk - yfir Faxaflóa niður í um 950 hPa - í þessu tilviki um 200 metra hæð yfir sjávarmáli. Í námunda við fjöll, eins og t.d. Esjuna sem liggur aðeins austan við sniðið draga þau veðrið neðar. Landsynningsveður eru af tveimur megingerðum, þetta er sú algengari, vindhámarkið er tiltölulega lágt í lofti og afmarkað - ofar er mun hægari vindur. Ef vel er að gáð sjáum við hvað veldur - mættishitalínurnar (heildregnar) hallast upp til hægri þar sem vindurinn er mestur - kalda loftið nær ofar við Snæfellsnes heldur en sunnar (mættishiti vex með hæð).

Hin gerðin af landsynningi kennum tengjum við hesi heimskautarastarinnar - vindhámark teygir sig niður til jarðar allt frá veðrahvörfum. Það er ekki þannig í þessu tilviki. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg200125c
  • w-blogg200125g
  • w-blogg200125f
  • w-blogg200125e
  • w-blogg200125d

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 30
  • Sl. sólarhring: 128
  • Sl. viku: 2477
  • Frá upphafi: 2434587

Annað

  • Innlit í dag: 27
  • Innlit sl. viku: 2201
  • Gestir í dag: 27
  • IP-tölur í dag: 25

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband