Fáeinir kuldadagar

Um framtíðina vitum við ekkert - en getum litið til fortíðar. Undanfarnir dagar hafa verið nokkuð kaldir á höfuðborgarsvæðinu (og víðar á landinu). Það kemur samt nokkuð á óvart að veitum sé brugðið - og veit varla á gott því satt best að segja geta þessir kuldar varla talist miklir - enn sem komið er að minnsta kosti. Kannski hafa menn haldið að hnattræn hlýnun hafi gengið frá nákvæmlega öllum kuldaköstum dauðum. Nei, kuldaköst eru ekki dauð þó tíðni þeirra hafi óneitanlega minnkað verulega hin síðari ár miðað við það sem oft var áður og heldur tannlaus hafa þau flest verið síðustu tvo áratugi. 

Hér að neðan er leitað að dögum sem eru jafnkaldir eða kaldari í Reykjavík en þeir nýliðnu tveir til þrír - og fjöldi á ári síðan talinn, en aðeins í vetrarmánuðunum fjórum. Við hugum ekkert að því enn hvort þeir dagar hafa hafa komið stakir eða í klösum. Athugum það síðar verði kuldinn nú langvinnur (en það er hann varla enn). 

w-blogg300119

Horft er alveg aftur til 1872 en upplýsingar um daglegan meðalhita vantar stöku ár snemma á 20.öld. Það vekur strax eftirtekt hversu fáir köldu dagarnir hafa verið á þessum áratug, árið 2011 sker sig að vísu nokkuð úr - við fengum þá eftirminnilega kalda syrpu í desember. Fáein stök fyrri ár eru rýr, einna helst viðloðandi upp úr 1920. Þó kuldatímabil síðari hluta 20.aldar hafi hafist nokkuð snögglega 1965 var það samt þannig að kaldir dagar voru nokkuð algengir á stórum hluta hlýindatímans áður - mun algengari heldur en þeir hafa verið síðustu 14-15 árin - en áraskipti veruleg. 

Á 19.öld er eitthvað allt annað ástand, aðeins í stöku ári sem kaldir dagar voru færri en 2011. 

Köldu dagarnir nú hafa verið hægir - enda hefur loftið yfir landinu í raun ekki verið svo sérlega kalt. Þykktin, en hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs hefur ekki verið mjög lág - í spánum er hún lækkandi, verður e.t.v lægst á föstudaginn. Mikill munur hefur því verið á hita þar sem vindur hefur verið hægur og þar sem vind hefur hreyft. 

Álag á hitakerfi vex talsvert með vindi. Við verðum þó að hafa í huga að svokölluð vindkælistig húsa og manna eru langt í frá samstíga. Ritstjórinn nennir þó ekki að reifa þau mál frekar en hann hefur þegar gert, en hlýtur samt að spyrja hvað gerist ef raunverulegir kuldar skella á - sem þeir gætu auðvitað gert. Framtíðin alltaf óráðin, jafnvel í hlýnandi heimi.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta eru auðvitað nokkuð skondnar upplýsingar. Ekki kemur fram við hvað er miðað, þ.e. hvaða frosttölur er miðað við né á hvaða degi. Þá talar Trausti um fáeina kuldadaga, tvo til þrjá nýliðna, þegar nær stanslaust frost hefur verið í Reykjavík frá því á sunnudag (eða í fimm daga)!
Svo eru auðvitað aðalfrostdagarnir eftir, þ.e. föstudagur og laugardagur (og spáð allt að 17 stiga frosti á laugardagsmorgninum!). Hann hefur því verið aðeins of fljótur á sér blessaður - og uppfærir þetta graf því vonandi um helgina!

Torfi Stefánsson (IP-tala skráð) 31.1.2019 kl. 08:45

2 identicon

Sæll Trausti og til hamingju með að átta þig á afleiðingum ítrekaðra viðvarana þinna og Halldórs Björnssonar til stjórnvalda um meinta 3°C hlýnun á Íslandi fram til 2050. Auðvitað sofna íslensk stjórnvöld á verðinum þegar málsmetandi menn keppast við að telja þeim trú um yfirvofandi óðahlýnun - kólnun hefur hingað til ekki verið í kortunum hjá ykkur á Veðurstofunni.

Í stað þess að reyna að hlaupast frá ábyrgð er rétt að þú og HB horfist í augu við kólnandi loftslag á jörðu vegna lítillar sólvirkni og kólnunar úthafa. Framundan er áratuga hnattkólnun sem alvöru vísindamenn hljóta að kannast við.

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 31.1.2019 kl. 15:09

3 identicon

Ósköp er þetta venjulegur vetur, varðandi frostatölur.  Reyndar æði mikill snjór í enda nóv. og byrjun des.  Snjóinn tók þó "fljót af" og hitastigið nálgaðist + 15 C, eina vikuna í des.  Þó finnst mér fullmikið hafa snjóað hér, síðustu daga.  Sennilega nálgast það 50 cm. í mínu hverfi.  Mældi þó ekki í morgun.  Það gengur þó yfir, eins og venjulega.  Á þessari stundu, eru - 2 C í mínu hverfi á Akureyri og éljagangur með köflum.  Þó sé ég þokkalega til fjalla.  ...Enda eitt kaldast hverfið (brekkan, efst) fyrir utan kuldapollinn á Akureyrarflugvelli (og reyndar er þar heitast, þegar sá gállinn er á veðrinu, sem og á Oddeyri).  Mér finnst kvartanir mest heyrast frá borgarbúum, svona ekki ósvipað og í rigningartíðinni þar á slóðum a sumrin.  Annars hef ég verið að glugga dálítið í "aldirnar", síðustu daga og veðurfarið á öldum áður.  Ég get ekki annað en brosað, þegar ég heyri "kveinstafina" frá meðlöndum mínum.

Páll A. Þorgeirsson (IP-tala skráð) 31.1.2019 kl. 15:54

4 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

 Maöur  hrekkur nú ekki við yfir fáeinum kuldadögum!

Helga Kristjánsdóttir, 31.1.2019 kl. 16:21

5 identicon

Smá innlegg varðandi "óvenjulegar frosthörkur" sem finnast reyndar ekki hérna við Mjölnisholtið. Heitavatnsnotkunin okkar yfir árið er frekar stöðug en fer þó minnkandi með hlýnandi árum, var fyrir aldamót um 2600 m3 t.d 2679 m3 árið 2000 en þá var ársmeðaltalið 4,5° og vindur 4,8 m/sek. Seinni árin er þetta í kringum 2200 m3. Árið 2014 2065 m3 en þá var meðaltalshitinn 6,0°og vindur bara 3,8 m/sek.

P.S svo má alveg skera svona skæting eins og frá HH hér á undan niður við trog. Trúarbrögð eiga lítið erindi í hitatölur

Elvar ástráðsson (IP-tala skráð) 1.2.2019 kl. 12:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Mars 2025
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30 31          

Nýjustu myndir

  • w-blogg030325ia
  • w-blogg030325b
  • w-blogg030325a
  • w-1975-07-04-500
  • w-1975-04-29-500

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (4.3.): 9
  • Sl. sólarhring: 794
  • Sl. viku: 1542
  • Frá upphafi: 2449767

Annað

  • Innlit í dag: 9
  • Innlit sl. viku: 1367
  • Gestir í dag: 9
  • IP-tölur í dag: 9

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband