Nokkur órói

Nokkur órói virðist framundan í veðrinu - vonandi samt að við sleppum bærilega þrátt fyrir allþéttan lægðagang. Næstu lægðar fer að gæta strax á morgun - þriðjudag 8.janúar. Svo virðist sem landsynningurinn á undan henni verði þó ekki mjög skæður heldur lendum við svo til samstundis yfir í hlýjum geira kerfisins. 

w-blogg070119b

Evrópureiknimiðstöðin stingur upp á þessari stöðu snemma á miðvikudagsmorgunn. Mjög hlýtt loft verður þá yfir landinu, komið langt sunnan úr höfum vestan við hæðina miklu við Bretlandseyjar en hún hefur ráðið veðri hér að undanförnu. Hér er lægðarmiðjan klesst upp við austurströnd Grænlands og hreyfist norðaustur með henni. Þegar hún kemur fyrir hornið sunnan við Scoresbysund (Brewsterhöfða) sækir mjög kalt loft úr vestri yfir Grænlandsjökul. 

Þrjú spennandi atriði fylgja lægðinni. Í fyrsta lagi er sunnanloftið sérlega hlýtt. 

w-blogg070119a

Það sést best á þessu korti. Það sýnir mættishita í 850 hPa-fletinum á miðvikudagskvöld. Ef okkur tækist að ná þessu lofti niður að Dalatanga (óblönduðu) færi hiti þar í 24 stig. Ólíklegt er reyndar að það takist - en miði er möguleiki - segir í fornum kveðskap. Það er mjög hvasst í lofti - og að auki er snjór ekki mikill (ef nokkur). 

Annað atrið sem er mjög spennandi er hvernig fer með kalda loftið sem steypist yfir Grænland. Spár eru nokkuð misvísandi hvað það varðar. Líklega gætir þess mest norðan Scoresbysunds, en sumar spár gera ráð fyrir þeim möguleika að eitthvað nái hingað til lands. Það verður alla vega ekki langt undan. Fallvindar sem þessir geta orðið gríðaröflugir, 50 til 60 m/s (10-mínútna meðalvindur) við fallið ofan af jöklinum. Dæmi eru um að ofsaveður eða fárviðri verði staðbundið nærri fjöllum hér á landi þegar strengirnir ganga hjá. Slíkt er að vísu sjaldgæft - en eins og áður - möguleiki er möguleiki.  

Þriðja atriði er rétt að nefna. Áður en kalda loftið kemur (komi það) teygir hes heimskautarastarinnar sig niður í átt til landsins - gæti líka valdið verulegum vindi á landinu (síst þó suðvestanlands). 

Sem stendur er evrópureiknimiðstöðin heldur linari í vindaspá sinni heldur en bandaríska veðurstofan - og hefur árangurshlutfall með sér. Þetta er þó staða sem rétt er að fylgjast náið með - hvað sem svo úr verður. Veðurstofan sér um spár og viðvaranir. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg010125i
  • w-blogg010125
  • w-blogg271224a
  • w-blogg271224aa
  • w-blogg261224ia

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.1.): 950
  • Sl. sólarhring: 1118
  • Sl. viku: 3340
  • Frá upphafi: 2426372

Annað

  • Innlit í dag: 846
  • Innlit sl. viku: 3002
  • Gestir í dag: 826
  • IP-tölur í dag: 761

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband