21.11.2018 | 22:30
Af árinu 1811
Erfitt ár 1811 - árið áður lét vorið bíða eftir sér og það gerðist aftur, en að þessu sinni varð biðin nærri því þrem vikum lengri. Janúar þótti ekki sem verstur en febrúar afleitur. Heldur létti á um tíma í mars og má segja að sú hláka ásamt góðri viku rúmri kringum sumarmál hafi bjargað því sem bjargað varð. Sæmileg tíð var um haustið, en desember þungur.
Danski strandmælingaflokkurinn gerði veðurathuganir á Akureyri allt árið, mældi hita og loftþrýsting þrisvar á dag. Sveinn Pálsson læknir í Vík í Mýrdal gerði líka hitamælingar og ritaði veðurlýsingar. Mælingarnar hans eru þó nokkuð stopular. Umboðsmaður enskra í Reykjavík Mr. Fell mældi hita- og loftþrýsting og lýsti veðri stuttlega fyrstu mánuði ársins - fram í miðjan maí. Möguleiki er á því að hann hafi haldið mælingunum eitthvað áfram og gögn um þær liggi einhvers staðar í breskum skjalasöfnum. Þó mælingar hans séu gisnari og óljósari heldur en mælingarnar á Akureyri eru þær samt mjög mikilvægar - allar mæliraðir styðja hinar.
Myndin ber saman mælingar frá Akureyri (að kvöldi - grár ferill), úr Vík (grænn ferill - kvöld) og Reykjavík (rauður ferill - athugunartími óþekktur) fyrstu fimm mánuði ársins 1811. Þó lengst af sé áberandi kaldara á Akureyri heldur en syðra má samt sjá sömu hlýju kaflana og sömu kuldaköstin.
Við sjáum vel hversu mikið kólnaði með þorra - í síðari hluta janúar. Lengst af var mjög kalt í febrúar, meðalhiti þess mánaðar á Akureyri reiknast -10,7 stig. Marshlákurnar koma fram, en kuldakastið snemma í apríl er vægast sagt hrikalegt, frostið á Akureyri fór í -27,4 stig á miðvikudag fyrir páska (10. apríl) og hefur vart orðið mikið meira á þeim árstíma. Mesta frost í apríl síðari tíma er -18,2 stig og mældist þann 1. árið 1968.
Næsta mynd sýnir allar Akureyrarmælingarnar allt árið. Frostið mældist mest þann 16.febrúar -29,0 stig. Í kuldakastinu um mánaðamótin apríl/maí mældist mesta frostið -13,8 stig að kvöldi þess 2.maí. Mikil frost gerði líka í Vík í Mýrdal í þessu kasti, mest -5,5 stig að kvöldi 28.apríl. Mesta frost á síðari árum á Akureyri á þessum tíma árs mældist -10,4 stig þann 1.maí árið 1968. Þann 5.maí skánaði veður að mun um stund, hiti komst í 11,3 stig þann 6. og svo í 12 stig þann 17. Eftir það harðnaði aftur á dalnum og var yfirgengilegur kuldi í júníbyrjun. Þann 5.júní fór frostið í -6,5 stig. Það mesta í júní á síðari tímum er -3,0 stig þann 5. júní 1943. Mælingar Sveins í Vík voru heldur stopular, en hann getur þó -3°R (-4°C) að kvöldi 6.júní. Þann dag og daginn áður gekk þar á með éljum, en þess ekki getið hvort snjó festi.
Talsverðar sveiflur voru í hita fram eftir júní, m.a. þann 17. (fæðingardag Jóns Sigurðssonar forseta), en þá komst hiti um miðjan dag í 14,8 stig. Það var loks eftir þann 20. að það hlýnaði svo um munaði og hiti fór í meir en 20 stig.
Eftir miðjan júlí kólnaði aftur og í lok ágúst gerði fádæma rigningar nyrðra og eystra með stórkostlegum skriðuföllum. Á sama tíma skiptust á þurrir dagar og einhver úrkoma í Vík í Mýrdal. Næturfrosts er getið í Vík þann 30. og 31. ágúst. Um haustið hélst hiti sæmilegur fram yfir miðjan nóvember.
Loftþrýstingurinn varð aldrei mjög lágur, lægstur þann 22. september, 963 hPa. Um þá lægð vitum við lítið annað. Hæstur varð þrýstingurinn þann 26.apríl, 1043 hPa. Hlýtt var áður - kalt á eftir. Líklega hefur sígild fyrirstöðuhæð farið vestur um til Grænlands og setið síðan þar fyrir vestan og veitt til okkar kulda.
Ljóst er að mjög mikill hafís var við landið norðan- og austanvert. Útbreiðsla hans er þó nokkuð óljós nema hvað Sveinn Pálsson getur þess þann 30. apríl að þá hafi komið ís að austan til Víkur í Mýrdal.
Í Árferði á Íslandi í þúsund ár (s.385] segir Þorvaldur Thoroddsen, þeir Frisak og Scheel sem hann nefnir voru aðalmenn mælingaflokksins sem athugaði veður á Akureyri:
Kom hafís nyrðra með þorra, en rak frá á einmánuði. [Norðanfari, 1.júlí 1864] Torfi á Klúkum segir hafþök á Eyjafirði frá því á þorra þangað til i maí og veðrátta hafi batnað 8 vikur af sumri. H. Frisak var við mælingar á Skaga 9. maí til 10. júní; lá hafís þá þar fyrir landi og fylgdu honum þokur, snjóhret og kuldar. Scheel mældi þá strendur frá Eyjafirði vestur til Fljóta, frá því 24. júní til 25. ágúst, og segir hann, að hafís hafi verið að flækjast fyrir landi fram í miðjan ágúst.
Mr.Fell umboðsmaður breta sem þraukaði í Reykjavík segir um hafísinn (í lauslegri þýðingu á texta á síðu 481 í ferðabók MacKenzie:
Grænlandsísinn kom sér fyrir við norðanvert landið einhvern tíma í febrúar og jókst daglega að magni þar til hann lokaði af nærri því tvo þriðju hluta eyjarinnar. Í júní var hafið ekki sýnilegt frá hæstu fjöllum, svo algjörlega var landið haldið þessum hræðilega ís. Fjöldi hvítabjarna hefur sést.
Lítum á ritaðar heimildir og lýsingar.
Annáll 19.aldar:
Vetur var góður frá nýári til þorra, eftir það harðnaði til páska, síðan var hláka og góðvirði til sumars [sumardagsins fyrsta] um 11 daga. Var einkum eystra kalt og illviðrasamt, svo aldrei létti næðingum og hríðum til þess átta vikur af sumri. Miklir óþerrar voru syðra og lágu töður á túnum fram á haust og voru hey víða kolbrunnin. Eldiviður ónýttist mjög svo að menn urðu í mestu nauð. Var brennt steinkolum í Reykjavík og því sem eftir var af þófaramylnunni. Óþerrar voru og vestra, en allgóð nýting nyrðra. Íshroði kom fyrir norðan land með þorra, rak um hvítasunnu en fór aftur eftir messur. Haust var gott nyrðra og fram á vetur. Síðan gjörði hinar mestu hríðar og jarðbönn nyrðra og vestra, en fyrir sunnan Hvítá var allgott.
Annállinn nefnir að vanda fjölda slysa og óhappa bæði á sjó og landi. Við nefnum hér aðeins þau sem tengdar eru ákveðnum dagsetningum:
13. janúar rak skip fyrir austan í Meðallandi, illa til reika; fundust á því menn dauðir ... Skipið var eirslegið allt að neðan og fengu menn þar góð kaup. 15.febrúar urðu fjórir menn úti í Hróarstungu. 29. mars drukknuðu sjö menn á Hvalfirði, formaður Egill Egilsson bóndi á Þorgautsstöðum, en hásetar flestir efnilegir bændur úr Hvítársíðu.
Þann 26.ágúst varð þjóðsagnakennt slys er skip fórst í ofsaveðri við Bjarnargnúp með 11 manns. Skipið var á leið frá Aðalvík til Skutulsfjarðar. Sama dag fórust fjórir menn úr Eyrarsveit.
Brandsstaðaannáll:
Milli nýárs og þrettánda góð hláka; eftir það allgott. Fyrir þorrann lagði að með landnorðanhríðum (s61) og hörkum. Hélst þó jörð til síðustu viku þorra. Var nú alkominn ís mikill. Sífellt var fjúkasamt og góa því verri. Seint á henni brutust vermenn suður, því þá var hjarn um tíma. Ei kom á góu fjúklaus dagur. Með einmánuði kom snöp nokkra stund. Aftur með apríl sterk frost og köföld; vatnsskortur víða. Með páskum 14. apríl batnaði. Hafði skorpa þessi haldist 12 vikur. Jarðlag og veður var þennan vetur lakara til lágsveita, móti því er þrengdi mest að dalamönnum í fyrra.
Með sumri hófst aftur landnyrðingur með stormi, og gerði mikil vorharðindi til fráfærna, utan viku eftir krossmessu var þítt og gott, svo sauðnál kom. Eftir uppstigningardag kuldar og hret um hálfa þriðju viku. Varð lambadauði mikill í megringsplássi. Þó komst vænt fé af, þar landgott var, án vorgjafar. Gengu víða mikil hey upp eftir sumarmál.
Í júnílok fært frá; 5.júlí rekin lömb, og voru þau allvíða fá og á stöku búi engin. 9.júlí byrjuðu lestarferðir og var mikið hagleysi á fjöllum. Eftir Jónsmessu var gróðrarveður, en svo langvinnir kuldar ollu því, að mjög seint spruttu tún. Sláttur byrjaði 29.júlí. Varð rekjusamt viku tíma og síðan besta nýting. 3., 4. og 5. sláttarviku rigningar, óþurrkar og gott grasviðri, er gaf góðan grasvöxt. Nýting var mörgum bág og þungur heyskapur á votengi á stuttum sláttartíma. Að lokum náðist allt hey um seinni göngur.
Haustið stillt og snjóalítið, þokusamt og oftar þítt, þar til 19. nóv. Sunnudaginn 26. nóv. kom dæmalaus lognfönn og litlu síðar bloti, er skeljaði fönnina, svo fé kom á fulla gjöf. Moka mátti fyrir fé og hross brutu niður. Á jólum voru öll hross á gjöf komin utan rétt með sjóarfjörunni. Með desember hríðar miklar, svo stillt veður lengst til nýárs. (s62) ... Ísatíð og óár hér í kring Skaga. (s63)
Árbækur Espólíns:
XL. Kap. Vetur sá var góður til þorra ... Á þeim vetri var mjög þröngt syðra við sjóinn, svo menn lifðu þar á einum saman fiskinum þurrum, og viða var þröngt í landi, því mannmargt var orðið, en björg lítil eða engin, nema sú er innlend var, og fiskilaust nyrðra.(s48). Eftir það kom íshroði fyrir norðan land með þorranum, og gjörði vetur þungan og snjóasaman hvar sem til spurðist, linaði nokkuð eftir miðja góu, svo fært varð byggða á milli, en síðan gjörði miklar hörkur með einmánuði. (s.48).
XLI. Kap. Hinn 15. febrúar var illt veður, varð svo mikill bylur á Austurlandi að fjórir menn urðu úti í Múlasýslu, og margt fé týndist, og jafnan var hinn efri hluti vetrarins harður: voru skinn étin víða, og varð hvervetna fellir á lömbum og öðrum fénaði. Hvalur tók skip í Garði suður, týndust 5 menn, en 2 náðust. (s.48-49).
XLIV. Kap. Þá var bæði norðan og sunnanlands, og þó enn meira eystra, vor svo kalt og illt, að aldrei létti kuldum og hríðum til þess er 8 vikur voru af sumri; var það þá furðulegt, er menn héldust við, bjargarlausir og heylausir víða, féll sumstaðar sauðfé, en alstaðar eða víðast mikið af unglömbum, og urðu peningar gagnslitlir hvervetna; var þá svo mikil þröng er hvorki var mjólk til né matur annar, sem óvíða er á voru þá lengi hefir hart gengið og ei að fá hið minnsta í kaupstöðum, en skuldir kallaðrar sem óðast, veiðiskapur enginn því ís lá fyrir öllu landi og ófært að koma hrossum neitt til bjargar, að það ætluðu menn, að aldrei mundi í jafnmiklu harðæri á hinum fyrri tíðum mannfall hafa svo lengi undan dregist. (s.51).
XLVI. Kap. Þar sem vætur gengu allt sumarið eftir svo illt vor, og mest fyrir sunnan, og allt var svo dýrt, sem ei áður hafði verið og sumt ófáanlegt. (s.53). Miklir óþerrar voru fyrir sunnan um sumarið og illur heyskapur; fengu ei þeir menn er þar voru í austursveitunum vanir að hafa 20 nauta, meira en fyrir 5 eða 6 og lágu töður á völlum allt sumarið, voru 200 hestar af Innra-Hólms túni, en 160 færr en vant var af Leirár túni. Hey voru mjög víða kolbrunnin, eldiviður ónýttist þar og nálega allur svo að menn voru í hinni mestu nauð; var brennt steinkolum í Reykjavík, og því er eftir var af þófaramyllunni. (s.53).
Við skautum í gegnum illlæsilegar veðurdagbækur Jóns Jónssonar á Möðrufelli í Eyjafirði - vonandi ekki margt ranglesið.
Janúar yfir höfuð allgóður fyrri part, en frost og hríð með þorra. Febrúar harður, en með með góunni hafa gengið blotar. Svo virðist sem rignt hafi í lognsnjó og allt hlaupið í gadd, guð vægi segir Jón. Mars að sönnu allur heldur harður, þó kom góð jörð upp í hlákum. Þann 9. segir Jón að nýliðin vika hafi verið still, en jarðleysi sé af snjó og áfreða. Þann 16. segir hann að vikan hafi verið stirð fyrri partinn, en góð þann síðari og gert hafi góða hláku svo fullnóg jörð sé upp komin. Síðari hlutinn var óstöðugur að veðráttu. Í apríl voru kuldar, mesta jarðleysi framan af, en með páskum [14.apríl] hafi gert góðan bata og allt orðið snjólaust, en mikill hafís kominn. Maí var allur mjög harður, þungt áfelli með snjó um tíma. Júní með áframhaldandi harðindum allt að sólstöðum, en þá skipti að sönnu um.
Júlí telur Jón sæmilegan. Vikuna 25. til 31. ágúst nefnir hann skriðufallaviku, í sjö daga uppstyttulaust stórregn svo allt fór á flot. Fjöllin hrundu fram með skelfilegustu jarðföllum. Guðrúnarstaðir (þar í sveit) hafi eyðst öðru sinni af skriðuföllum á 14 árum. Fleiri jarðir í sveitinni nefnir hann sem urðu fyrir stórtjóni. Hann getur þess að snjóað hafi í fjöll þann 28. og 29. Um september segir Jón að hann hafi ei verið kaldur, en nokkuð votsamur í bland. Október mildur að veðráttu, aldrei að segja frost og aldrei að segja gránað. Nóvember einnig allsæmilegur, en þann 24. og 25. hafi gert dæmalausa snjódyngju í logni og síðasta vika mánaðarins hafi verið hörð. Desember var ákaflega harður að sögn Jóns. Um árið í heild segir hann: Þetta útliðna ár má kallast fullkomið harðindaár.
Mr. Fell, umboðamaður breta í Reykjavík lýsir veðri nokkuð auk mælinganna sem áður er getið. Við drepum tilviljanakennt niður í skýrslu hans sem prentuð er í ferðabók MacKenzie (og þýðum lauslega):
6.janúar: Austnorðaustan, góður dagur, smáskúrir sem frusu í ís - ekki óvenjulegt.
9.janúar: Suðaustan. Þungt hvassvirðri allan daginn með regnskúrum, fárviðri fyrir morgun
13.janúar: Norðan. Góður dagur, öll jörð sem gler.
18.janúar: Norðaustan. Góður dagur og næturfrost, hagl, snjór og þrumuveður um nóttina, ekki óalgeng að vetrarlagi.
27.janúar: Norðan. Ógurlegt hvassviðri allan sólahringinn
29.janúar: Norðan, enn hvass. Sjórinn frosinn út að eyjum - hestheldur.
10.febrúar: Vestsuðvestan. Sérlega góður dagur.
12. febrúar: Norðnorðaustan. Eitt mesta hvassviðri vetrarins allan daginn, landið allt þakið saltvatnssnjó utan af sjó.
19.febrúar: Austnorðaustan. Ægilegt hvassviðri með regnskúrum og éljum, undir kvöld varð það hræðilegt, fólk gat ekki fótað sig og allt fór á flot.
22.febrúar: Norðaustan. Stífur blástur en bjartviðri, um kvöldið voru björt norðurljós.
11. mars: Suðsuðvestan. Einhver hræðilegasti dagurinn til þessa, ógurlegt hvassviðri með snjókomu allan daginn.
13.mars: Suðaustan. Rigning allan daginn, sem ásamt bráðnandi snjó olli flóði um alla jörð. Frost um kvöldið og snjór.
20.mars: Austnorðaustan: Hræðilegur snjó- og vindstormur nánast allan daginn, svo þéttur að varla sá 20 yarda.
5.apríl: Norðvestan. Sérlega mikið hvassviðri allan daginn með særegni, hiti 8°F (-13°C).
25.apríl: Norðan. Gott, heiðríkt veður, næturfrost, fyrsti dagur sumars að íslensku tímatali.
29.apríl: Norðan, gott veður og mikið frost, hvasst um nóttina.
Ritstjóri hungurdiska hefur ekki séð mörg bréf sem lýsa veðri 1811, en þó nefnir Bjarni Thorarensen það í tveimur. Það fyrra er ritað í september:
Reykjavík 10-9 1811 (Bjarni Thorarensen): Foraaret har her været yderst slet og Sommeren ikke bedre; til Vinteren ere derfor Udsigterne maadelige. (s3)
Í lauslegri þýðingu segir: Vorið hefur verið sérlega slæmt og sumarið ekki betra. Útlitið fyrir veturinn þess vegna svona og svona. [Maadelig er ekki auðvelt að þýða - en skemmtilegt orð engu að síður].
Í bréfi sem ritað er nærri ári síðar nefnir Bjarni einnig sumarið 1811:
Reykjavík 25-8 1812 (Bjarni Thorarensen): Höeavlen i forrige Sommer mislykkedes ganske formedelst det uophörlige Regnveir, hvilked havde den Virkning at Landmanden i fugtige og moradsige Egne maatte nedslagte 3/4 Dele af deres Creature!
Í lauslegri þýðingu: Heyskapur á næstliðnu sumri (1811) misheppnaðist sökum látlausra rigninga. Þetta leiddi af sér að bændur í raka- og foraðssveitum urðu að slátra 3/4 hluta bústofns síns!
Frú Gyða Thorlacius á Eskifirði nefnir árið lauslega:
(Úr Fru Th.s Erindringer fra Iisland) Vinteren 1811 var meget streng. Den grönlandske Iis" laae hele Foraaret ved de iislandske Kyster og i Fjordene. Fisieriet kunde altsaa ikke drives, og mange fattige Folk lede Mangel.(s72)
Í lauslegri þýðingu: Veturinn 1811 var mjög harður. Grænlandsísinn lá allt vorið við strendur Íslands og í fjörðunum. Því var ekki hægt að stunda sjó og margir fátæklingar liðu skort.
Myndin sýnir vikusamantekt þá sem Jón Jónsson gerði 31.ágúst 1811.
Sigurjón Páll Ísaksson var svo vinsamlegur að senda hungurdiskum uppskrift sína og leyfa birtingu hennar hér. Kann ritstjórinn honum bestu þakkir fyrir:
Þessi vika má kallast skriðufallavika. Hefur verið hana mest alla skelfilegasta úrkoma með norðaustan steypiregni. Í 7 dægur samfleytt gekk uppstyttulaust stórregn, svo allt fór á flot, bæði slegna og rakaða hey úti. Heyin fordjörfuðust í tóftunum, n(efni)l(ega) töðurnar, því annað hey var ekki innkomið, sem víða stóðu óþaktar. Fjöllin hrundu fram með skelfilegustu jarðföllum. Guðrúnarstaðir sem fyrir 14 árum fóru í skriðu, urðu nú aftur að nýju eyðilagðir með öllu, hvar hræðilegustu stórskriður féllu margar og aldeilis ofan í á, og eyddu mestpart landinu. Fyrir utan Björk í Sölvadal, milli Finnastaða og Bjarkar dundu áfergilegast skriður. Eins fyrir utan og sunnan Kerhól, og utan Ánastaði.Á Draflastaði hljóp skriða, sem tók mikið af velli, samt 1 fjárhús, og sama er fram eftir öllum firðinum, hjá Arnastöðum, á Hólagrundum, milli Jökuls og Halldórsstaða, Hleinargarðsfjall og -engi, allur Varmhagi. Allt er þetta umrótað af ógnarlegustu jarðfallaskriðum fyrir utan víða annarstaðar smærri jarðföll. Hér og undir fjöllum féll ekki mikið. Þó hefur engin manneskja hér um pláss líf misst né heldur af skepnum ákaft farist það menn vita.
Í bók Ólafs Jónssonar um skriðuföll og snjóflóð er nokkuð fjallað um skriðuföllin (s.123 til 126 í 2.bindi, 2.útgáfu verksins). Þar er talað um að skriðuföllin fram í Eyjafirði hafi orðið 11.september, en það er varla rétt miðað við lýsingar Jóns á Möðrufelli. Veðurathuganir á Akureyri styðja einnig að mestu skriðurnar hafi orðið í ágúst, þar var rigning á öllum athugunartímum í 8 daga samfellt, frá og með 23. til og með 30. ágúst - einnig var þar talin þoka - ekki tæknilega skilgreind á okkar tíma vísu en samt takmarkað skyggni. Hvasst var suma dagana og áttin norðaustlæg þá alla. Þann 11.september var hins vegar þurrt, en hvasst var af norðri um morguninn. Rigning var hins vegar dagana 12. til 14.september. Gríðarmikil skriðuföll urðu einnig í Svarfaðardal - sex eða sjö býli skemmdust af skriðum. Segir nánar af þeim í bók Ólafs - hugsanlegt er að þær hafi orðið í september. Þar segir einnig af skriðum eystra og vitnað í óprentaðan annál Gísla Gíslasonar frá Snotrunesi í Borgarfirði eystra (IB 654 8vo). Við skulum lesa þá lýsingu - sem mun eiga við Austurland (að sögn Ólafs Jónssonar):
Í ágústmánuði þetta ár, sumarið 1811, gerði miklar stórhríðar, svo undrum sætti. Gekk þá allt úr góðu lagi. Jörðin umhverfðist öll með hlaupum og skriðuföllum. Mátti segja að hvar sem brattlendi var, að þar væri þriðjungur af jörðinni burtu hlaupinn. Muna engir menn sodan ósköp, og eigi finnst það heldur neinstaðar í annálum að hríðar hafi gert svo mikið umrót. Öll vötn uxu fram úr öllu hófi, svo öngvir menn, sem þá lifðu, höfðu nokkurntíma séð þau til líka við það. Sums staðar tók af bæi, sums staðar tún og engjar, sums staðar skemmdust það mjög, sums staðar urðu gripir undir sodan, og allt gekk upp úr góðu lagi.
Ólafur segir svo: Skaði er að annálsritarinn segir eigi nokkru gerr frá því, sem til hefur borið, en sjá má að skriðuhlaupin hafa orðið upp úr snjó og hríðum. Varlegt er að trúa því að um snjó hafi verið að ræða - því orðið hríð var einnig notað um mjög mikla rigningu, stórregn eða vatnshríð. Ekki er óhugsandi að snjór í fjöllum hafi valdið krapastíflum ofarlega í giljum og stuðlað að því að framhlaup hafi orðið öflugri en ella bæði eystra og nyrðra - en það er ágiskun.
Annáll 19.aldar segir að snjóflóð hafi hlaupið á Laufáskirkju og skemmt hana mikið. Ólafur Jónsson segir að aðrar heimildir segi þetta hafa gerst 1812.
Í bókinni Skriðuföll og snjóflóð [2.útg. 3.bindi, s.68] er greint nokkuð ítarlega frá hlaupi (krapa, snjó eða aur) sem féll á Másstaðakirkju í Vatnsdal, en þar var annexía frá Undirfelli. Þetta á að hafa gerst annan dag páska þá er fólk var nýgengið frá embættisgjörð. Kirkjan skemmdist svo að ekki varð við gert. Telur Ólafur Jónsson að hlaupið hafi úr svonefndri Másstaðagjá sem er gljúfur þar í fjallinu - veðurathuganir segja hláku þennan dag.
Brot úr tíðavísum Þórarins í Múla:
Árið nýtt var brögnum blítt á brún uppruna,
sýndist þýtt að óskum una,
eiga hlýtt við náttúruna
Stóð ei lengi gæfu gengi garpa vorra,
grimmt harðfengi þótti þorra,
þjóði mengið hríðar dorra.
...
Elstu menn ei muna þenna mánuð strengri,
hríðar sennu lotalengri
lífs- og enn né -bjargar þrengri.
...
Skaphörð þótti skata dróttum skerjan góa
dag og nótt með driftum snjóa
dáð og þrótti vön að sóa.
Einmánuður ófögnuði yfir hellt
storma suður ei þó elti
ísum hruðu landa belti
Veturinn harði barlóm barð býsna stríðan,
að páskum varði; sýndist síðan
setja að garði veðurblíðan
Páska-hláka fé og fáka fögur saddi,
lands um rákir laust af gaddi,
lunda snáka foldar gladdi.
Ellefu daga auðnu hagur að oss hylltist
með sumar- fagri -sólu spilltist,
sárum baga landið fylltist.
Björg nam linna úti og inni eftir vonum,
héldust stinn með hölda sonum
harðindin að sólstöðonum.
...
Ýtt var nautum út til þraut á auða hnjóta
fjúk um brautir þó nam þjóta,
þaktar lautir holta-móta.
...
Gráföl tún og grundir búning grænum skreyttust,
dags því brúna dögg um fleyttust,
dáðir fúnu sáði veittust.
...
Með hundadögum hófust slög af hafrigningum,
landið mjög svo langt í kringum
leiddi drög af skúra hringum.
Á nótt og degi vals um vegi vatns ógrynni
spillti heyjum úti og inni,
upp svo dregin, loks þó brynni
Vatna þungi vætu drunga við nam krakka
elfur sprungu yfir bakka
aur og klungri hlóðu í stakka
Fjalla hrundu fast á grundu feikna skriður,
hauðrið undir hristist viður,
hamra drundu beltis kviður.
...
Sagt er hingað, súld rigninga sama grandið
hafi þvingað happa standið
hartnær kringum ísalandið.
Haust eitt besta frekt nam fresta frosti og snjónum
vatnshríð mest enn varð að tjónum
vetur lést og blíður sjónum.
...
Mánuð fyrstan brúnir bistar bærði ei vetur
síðan hristi belginn betur
byggð um lysti hríðar tetur.
...
Jóla tíðir hreggs og hríða hryðjum fylltu,
skip allvíða braut og byltu,
bylji gríðar varla stilltu.
Þeir sem vilja geta rifjað upp gamlan pistil hungurdiska þar sem fjallað er um vorið 1811 í tilefni af tveggja alda afmæli fæðingar Jóns Sigurðssonar forseta.
Lýkur hér að sinni umfjöllun hungurdiska um veður og tíðarfar ársins 1811. Þakka Sigurði Þór Guðjónssyni fyrir innslátt Brandstaðaannáls og Hjördísi Guðmundsdóttur fyrir innslátt texta árbóka Espólíns. Smávegis af tölulegum upplýsingum er í viðhenginu.
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt 25.11.2018 kl. 13:44 | Facebook
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (3.1.): 2
- Sl. sólarhring: 1106
- Sl. viku: 2673
- Frá upphafi: 2
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 2378
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.