Enn af vetrarspá

Fyrir mánuði síðan litum við á vetrarspá evrópureiknimiðstöðvarinnar um hæðarvik 500 hPa-flatarins í desember til febrúar. Dreifing vikanna segir eitthvað um meðalstyrk og stefnu háloftavinda í þessum mánuðum. Nú er komin ný spá fyrir sömu mánuði.

w-blogg131018i

Við sjáum sem fyrr hluta norðurhvels jarðar. Litafletirnir sýna vikin - gulir og brúnir litir eru svæði þar sem búist er við jákvæðum hæðarvikum, en á þeim bláu eru vikin neikvæð. Spáin er í raun mjög svipuð og var fyrir mánuði síðan - vikin heldur eindregnari þó. Spáð er öllu flatari hringrás heldur en að meðaltali - vestanáttin við Ísland og fyrir sunnan það öllu slakari en algengast er. Háþrýstisvæði líka algengari norðurundan en vant er - og lægðabrautir fremur suðlægar - inn yfir Suður-Evrópu fremur en yfir Ísland og Noregshaf. Helsta breytingin í legu vikanna frá fyrri spá er að austanáttin er heldur suðlægari en var fyrir mánuði.

En jafnvel þó spáin rætist er rétt að hafa í huga að hún tekur til þriggja mánaða og sá tími felur ótalmargt. Kuldapollarnir stóru - þeir sem við höfum hér til gamans nefnt Stóra-Bola og Síberíu-blesa verða væntanlega á sínum slóðum eins og venjulega, en rætist þessi spá eru samt meiri líkur en minni á að þeir fái að takast meir en venjulega á við fyrirstöður alls konar og hrekist oftar í suðlægari stöðu en algengast er. 

Munum enn að árstíðaspár af þessu tagi eru algjör tilraunastarfsemi og lítt martækar, en merkilegt verður að telja rætist þessi - sérstaklega vegna þess að hér er veðjað á allt annað veðurlag en ríkt hefur að undanförnu. Háþrýstisvæðið í námunda við Skandinavíu heldur að vísu sínu í þessari spá (og heldur betur en fyrir mánuði), en vestan Grænlands er spárástand gjörólíkt því sem verið hefur ríkjandi lengst af frá því í vor. Spurningin er þá hvenær skiptir? Verðum við vör við það þegar að því kemur - eða læðist það bara að? Fjölviknaspá reiknimiðstöðvarinnar sem kom í hús í gærkveldi er eitthvað að tala um fjórðu eða fimmtu viku héðan í frá - það er að segja fyrrihluta nóvembermánaðar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Froststillur hjá okkur íslendingum en vitlausar roklægðir yfir Bretland Danmörk og suðurhluta Skandinavíu?

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 13.10.2018 kl. 10:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg010125i
  • w-blogg010125
  • w-blogg271224a
  • w-blogg271224aa
  • w-blogg261224ia

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.1.): 1089
  • Sl. sólarhring: 1112
  • Sl. viku: 3479
  • Frá upphafi: 2426511

Annað

  • Innlit í dag: 974
  • Innlit sl. viku: 3130
  • Gestir í dag: 943
  • IP-tölur í dag: 873

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband