Vindhraði og umferðarþungi

Hvernig hefur vindhraði áhrif á umferðarþunga á vegum landsins? Þetta er alveg lögleg spurning en nákvæm eða rétt svör e.t.v. torfundin. Hér veltum við vöngum - en subbulega þó. Kannski væri ástæða til að rannsaka málið ítarlegar og þá á strangfræðilegri máta? 

Við lítum á tvö línurit. Það fyrra sýnir umferð og vindhraða á Kjalarnesi. Stöð vegagerðarinnar nærri Móum skráir bæði vindhraða og umferðarþunga á 10-mínútna fresti. Sennilega er ýmiskonar ósamræmi í gögnunum. Væri komist fyrir það yrðu tölur væntanlega eitthvað aðrar en hér er sýnt. Við skulum því ekki fara að vitna í þetta út og suður sem einhvern heilagan sannleika. Ritstjóri hungurdiska gengur eins og venjulega um á skítugum skónum.

w-blogg180918a

Vindhraði er hér á lárétta ás línuritsins, hvert vindhraðabil 1 m/s að umfangi, en umferðarþungi er á þeim lóðrétta. Þunginn er mældur í fjölda ökutækja sem framhjá fer á hverjum tíu mínútum. Tveir ferlar eru á myndinni. Sá blái sýnir umferðarþungann á vindhraðabilum 10-mínútna meðalvindhraða, en sá rauði miðar við mestu vindhviðu undangenginna 10-mínútna.

Við tökum strax eftir því að umferðarþunginn minnkar eftir því sem vindhraðinn er meiri. Meðalþunginn er um 48 ökutæki á 10-mínútum, en er kominn niður í um 30 ökutæki við 20 m/s og niður fyrir 10 við fárviðri (>32,7 m/s). 

Næsta sem við tökum eftir er að umferð er minni í logni og mjög hægum vindi heldur en við heldur meiri vind. Ástæðan er ekki sú að ökumenn séu að forðast lognið heldur kemur dægursveifla vindhraða hér væntanlega fram. Stafalogn (eða því sem næst) er talsvert algengara að næturlagi heldur en að deginum, einmitt þegar umferð er hvað minnst. Ef vel ætti að vera þyrftum við að leiðrétta einhvern veginn fyrir þessu. Aftur á móti er ekki vitað til þess að hvassviðri fylgi sólargangi að marki - sá hluti línuritsins er því líklega ómengaður af þessu atriði. En trúlega mengar árstíðasveifla hvassviðra og umferðar niðurstöðurnar eitthvað hvassviðramegin, og mætti athuga betur. 

Við gætum nú gert ámóta línurit fyrir allar þær veðurstöðvar sem mæla bæði vind og umferðarþunga og farið út í alls konar vangaveltur. Við gætum haft á því áhuga að bera stöðvar saman. Síðari mynd pistilsins sýnir tilraun í þá átt. Vegna þess að umferð við stöðvarnar er mjög misjöfn þurfum við að norma gögnin á einhvern hátt. Sú aðferð sem hér er notuð er umdeilanleg og trúlega ekki sú besta - en er aftur á móti sáraeinföld. Við athugum legu ferla stöðvanna væri umferðarþungi þar jafnmikill í heildina og á Kjalarnesi. Það er líka sérlega skemmtilegt að fá að nota orðskrípi eins og „kjalarnesnormaður“ á prenti (kannski í fyrsta og síðasta sinn sem það orð er notað). 

w-blogg180918b

Við skerum af við 25 m/s og lítum aðeins á meðalvindhraða - ekki hviður. Meiri vindhraði er sárasjaldgæfur (víðast hvar) og við höfum ekki sérstakan áhuga á því þó einn eða tveir bílar hafi farið um t.d. Steingrímsfjarðarheiði við meiri vindhraða en það - (og trufli mjög útlit myndarinnar). 

En hér eru sex stöðvar, Kjalarnes, Hafnarfjall (það er að segja Hafnarmelar), Steingrímsfjarðarheiði, Öxnadalsheiði, Holtavörðuheiði og Reykjanesbraut. Á öllum þessum stöðum minnkar umferð með vaxandi vindhraða. Ekki munar miklu á útliti ferlanna og varla rétt að draga miklar ályktanir af þeim mun sem þó er. 

Ef til vill er þó vit í þeim mun sem er á hægri enda ferlanna. Í miklum vindhraða er umferð að tiltölu mun minni á Steingrímsfjarðarheiði heldur en á Kjalarnesi, hún er líka trúlega marktækt minni á Öxnadalsheiði heldur en á flestum hinna. Síðan kemur Hafnarfjall. 

En vindhraði (og væntanlega skafrenningur og annar ósómi sem honum fylgir) hefur greinileg áhrif á umferðarþunga. Bjuggumst við við öðru? 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg200125c
  • w-blogg200125g
  • w-blogg200125f
  • w-blogg200125e
  • w-blogg200125d

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 63
  • Sl. sólarhring: 116
  • Sl. viku: 2510
  • Frá upphafi: 2434620

Annað

  • Innlit í dag: 56
  • Innlit sl. viku: 2230
  • Gestir í dag: 55
  • IP-tölur í dag: 49

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband