Af árinu 1888

Árið 1888 var hart eins og þau næstu á undan, áttunda kuldasumarið og áttundi kaldi eða ofurkaldi maímánuður í röð. Þó hefðu grillsinnaðir nútímamenn verið allánægðir með sumarið í flestum landshlutum - nema hafíssveitum - því það var bæði þurrt og sólríkt. Ársmeðalhiti í Reykjavík reiknast ekki nema 3,4 stig, tveimur stigum lægri en við höfum átt að venjast á þessari öld. Í Stykkishólmi var ársmeðalhitinn 2,9 stig og 2,2 á Akureyri. 

Enginn mánuður ársins var hlýr á landsvísu, fjórir mánuðir í meðallagi, janúar, febrúar, nóvember og desember. Mars og maí voru sérlega kaldir, og sex mánuðir til viðbótar kaldir. Mest frost á árinu mældist í Möðrudal 14.febrúar og 28.nóvember, -26,2 stig, (tölurnar standa enn sem landsdægurlágmörk) en hæstur mældist hitinn á Núpufelli í Eyjafirði þann 24.júní, 25,7 stig. 

ar_1888t

Myndin sýnir hámarks- og lágmarkshita hvers dags ársins í Reykjavík. Það sem helst vekur athygli eru vorkuldarnir. Frost var flestar nætur í Reykjavík bæði í apríl og maí - og eins var frost aðfaranótt 1.júní. Þá var líka frost í Vestmannaeyjum. Aðfaranótt 8.maí var -12,2 stiga frost á Stóra-Núpi í Gnúpverjahreppi og hefur síðan aldrei mælst svo mikið í maí þar um slóðir. Það bjargaði vorinu að nokkru að ekki var mikið um mjög slæma hríðarbylji - kuldinn var jafn. Árið áður hafði hins vegar gert tvær mjög slæmar hríðar - en skárra var á milli. Rætt var um hvort væri verra. 

Sumarið einkenndist af köldum (og björtum) nóttum og þokkalega hlýjum dögum. Hægt er að tala um hitabylgju í kringum 25.júní, en þá var mjög hlýtt inn til landsins í öllum landshlutum og fór hiti í meir en 20 stig marga daga í röð í Eyjafirði og náði 20 stigum víða. Harðan frostakafla gerði í nóvember, en hann stóð ekki lengi. 

Ritstjórinn finnur 20 óvenjukalda daga í Reykjavík, sex þeirra komu í röð, 26.maí til 1.júní. Sautján dagar teljast óvenjukaldir í Stykkishólmi. Tveir dagar teljast óvenjuhlýir í Reykjavík, 25. og 26.júní, og enn stendur hámarkið 19.júlí 1888 sem dægurmet í Reykjavík - en hlýtur að falla um síðir því það er ekki nema 18,9 stig, lægsta dægurmet júlímánaðar. Liggur vel við höggi. 

Eins og áður sagði var sumarið óvenjuþurrt um mestallt land (suddasamt þó í hafíssveitum). Úrkoma í júlí og ágúst var samtals 15,6 mm í Reykjavík og í júlí mældist hún aðeins 0,7 mm austur á Teigarhorni. Ársúrkoman varð þó ekki langt neðan meðallags á þeim fáu stöðum sem mældu. Óvenjumikil úrkoma samfara leysingu olli flóðum um miðjan janúar og mældist sólarhringsúrkoma í Stykkishólmi 51,7 mm þann 14. Það er óvenjulegt að sjá svo háar tölur í Hólminum - en gerist þó endrum og sinnum. Í viðhenginu má finna úrkomutöflu ásamt fleira góðgæti.

ar_1888p

Myndin sýnir morgunloftþrýsting í Reykjavík árið 1888. Þar vekur athygli hversu lítið er um mjög lágan þrýsting fyrri hluta árs. Þó voru illviðri nokkur. Hæstur mældist þrýstingurinn í Stykkishólmi þann 23.mars, 1044,9 hPa og ómarktækt lægri í Vestmannaeyjum 28.febrúar, 1044,8 hPa. Lægsti þrýstingur á hefðbundnum athugunartíma mældist í Stykkishólmi 23.desember, 938,1 hPa. Þrýstingur fór neðar á milli athugana, en var mældur lægstur í Reykjavík. Nákvæm tala er álitamál, en svo virðist sem hún sé lægri en 930 hPa, líklega 929 hPa. - Meir um það í desembertextanum hér að neðan. 

Hafís var verulegur - komst vestur fyrir Vestmannaeyjar í júní - en hleypti þó skipum að bæði Norður- og Austurlandi. Honum fylgdu víða kuldar, sérstaklega í útsveitum norðanlands, meðalhiti í Grímsey og Papey var undir 5 stigum bæði í júlí og ágúst og undir 4 stigum á Raufarhöfn í ágúst. 

Eins og venjulega förum við yfir helstu atburði með aðstoð blaðafregna og smámuna annarra, stafsetning er færð til nútímaháttar (að mestu). Einhver bæjanöfn og örnefni kunna að vera misrituð. Mikið vantar upp á að allir sjóskaðar séu nefndir hér að neðan - þáttur veðurs enda oft óljós. Sömuleiðis eru ekki tíunduð öll þau tilvik sem menn urðu úti. 

Fréttir frá Íslandi lýsa veðurlagi nokkuð ítarlega:

Veðrátta. Veturinn var fremur snjólítill, enn þó gjaffeldur, jafnvel þótt auða jörð gerði með köflum, af því að tíð var óstillt og enda áfreðar. Í janúar gerði hláku mikla og hlupu ár og lækir þá mjög fram og ollu skemmdum; þannig hljóp Ölfusá 13. og 14. janúar og varð fénaði að bana, t.a.m. í Kaldaðarneshverfi (25 kindum), og setti allt láglendi þar undir
margra álna þykka íshrönn og skemmdi hús og hey; var giskað á, að flóðhæðin þar, er mest var nálega hálfa stund, hefði verið 15—20 álnir [9 til 12 m] yfir vanalegt flóðfar, og á Selfossi, þar sem brúin á að standa [reist fáum árum síðar], hækkaði áin um 8 álnir [5 m] fram yfir meðalvöxt, og þótti þetta flóð þar góð aðvörun í tíma. Sömuleiðis urðu miklar skemmdir af þessum leysingum aðfaranótt hins 11.janúar á hinum nýja vegi Norðmannanna niður af Svínahrauni: veginum sumstaðar gjörsópað burt og vatnsaugu og brýr sprengdar burt, þar á meðal 18 álna [11 m] löng brú á Hólmsá, í 4 álna hæð fyrir ofan vatnið venjulega, og var tjónið talið skipta allmörgum þúsundum króna. Vestanpóstur missti og í vesturleið koffort af hesti í sömu leysingum í Austurá í Sökkólfsdal með peningum (926 kr. 59 au) bréfum og bókasendingum.

Það var hafísinn, sem, eins og vant er, hafði mikil áhrif á veðráttu fyrri helming þessa árs, enda var hann nú venju meiri og þaulsætinn; hans var þegar vart í janúar víða fyrir Norðurlandi, einkum á Ströndum; var síðan á slæðingi, uns hann lagðist algerlega að landi og inn á firði um páska bæði að Norður- og Austurlandi, og fór að reka inn á Ísafjarðardjúp í maí, og í júníbyrjun sást hann frá Loftsstöðum í Árnessýslu suðvestur af Vestmannaeyjum, enda lá hrannaris þangað að austan og íshella að Dyrhólaey. Frá Norðurlandi lónaði ísinn eftir hvítasunnu, en kom inn aftur eftir skamma stund, og fór ekki af Húnaflóa fyrr en seint í júní og komust þá kaupför þar inn á hafnir (Borðeyri, Blönduós, Skagaströnd), en þó ekki inn á Skagafjörð sökum íss; en í júlí létti honum fyrst algerlega frá landi á vesturfjörðum Norðurlands, en eystra (t.d. Þistilfirði) fór hann ekki fyrr en í ágúst. Af hafísnum stóðu eins og vant var sífeldir kuldar, næðingar og þyrrkings-veðrátta, stundum með fjúki og illviðri; urðu fjárskaðar miklir af hríðarbyl í Þingeyjarsýslum (á 3. hundrað fjár að því er tilspurðist), en höpp færði ísinn engin teljandi; 4 bjarndýrum varð þó náð á Melrakkasléttu og Tjörnesi um veturinn. Frost voru sjaldan mjög mikil. ...

Vorið varð sökum íssins mjög kalt, þurrt og hart, og var nyrðra og eystra jafnað til vorsins 1882; kom gróður ærið seint og klaka leysti seint úr jörðu; þannig var þriggja kvartila þykkur klaki í Vallarkirkjugarði í Svarfaðardal seint í ágúst. Þó minnkuðu vorkuldarnir með júní, einkum sunnanlands. — En sama þyrrking hélt áfram sumarið út um allt land, nema hvað hafísþokubræla olli óþurrkum austnorðan á landinu; varð sumarið því eitt hið mesta þurrkasumar og góðviðristíð oftast yfir höfuð, er stóð fram í september; þann mánuð gerði miklar rigningar með illviðrum stundum; en upp frá því varð um haustið yfirleitt mesta blíðviðri; þó gerði hríðarkast nyrðra og vestra 23.október í viku, enn batnaði aftur úr því. En æði-vindasamt varð víða um land bæði um haustið og framan af vetri, svo að víða varð tjón að; í október (26.) fuku skip og bátar í Vík í Reynishverfi og víðar í Mýrdal eystra af ofsastormi; Reyniskirkja fauk og til, (og kirkjan í Holti undir Eyjafjöllum hafði fokið og brotnað um veturinn (á pálmasunnudag) og sömuleiðis bátar þar eystra). Sandfok gerði í Meðallandi í þessum stormum um haustið og skemmdi jarðir að mun; ýmsar jarðir höfðu og skemmst þar eystra um veturinn og vorið af sandfokstri.

Í nóvember fuku og brotnuðu hús og bátar (20) á Seyðisfirði og hey fauk og hús rauf, og í stormi og stórflóði aðfaranótt hins 22.nóvember fórust skip og bátar ýmist alveg svo tugum skipti eða skemmdust meir og minna í Reykjavík, á Akranesi, í Hafnarfirði, á Álftanesi, í Brunnastaðahverfi í Höfnum, í Selvogi og á Eyrarbakka; enn fremur urðu skemmdir í þessum stöðum meira og minna á bryggjum, húsum, kálgörðum, túnum og varnargörðum og fé fórst í Höfnunum. Skipatjónið varð stórkostlegast í Reykjavík, og var næturvörðum bæjarins um kennt, að þeir hefðu ekki aðvarað menn í tíma, og þeim síðan vikið frá sýslaninni af bæjarstjórninni, er sannast þótti vanræksla af þeirra hendi. Strandferðaskipið Thyra hafði og orðið að kasta útbyrðis 90 sauðkindum á leið frá Akureyri til Seyðisfjarðar sökum stórviðris. Rafnseyrarkirkju tók af grunni í ofsaveðri 28.október, en brotnaði ekki; en á Þorláksmessu fyrir jól fauk og mölbrotnaði næstum fullsmíðuð timburkirkja á Narfeyri á Skógarströnd, þá fuku og heyhlöður (járnpaktar) víða eða skemmdust. Að öðru leyti var tíðin ágæt allt þangað til 3 vikur af vetri; þá voru lömb fyrst tekin á innigjafarjörðum, er snjó setti niður, einkum vestra; í rauninni kom þó ekki veturinn annarstaðar fyrr en með sólstöðudegi; þá skipti algerlega um til harðinda með snjógangi til ársloka.

Grasvöxtur varð almennt í minnsta lagi, og einkum þó eystra og nyrðra, þar sem hafísinn bagaði mest; ollu hinir langvinnu þurrkar bæði vorið og sumarið grasbrestinum; einkum varð vatnsaga-mýrjörð ónýt til sláttar. Sökum ágætrar nýtingar rættist þó furðu vel úr heyskapnum og varð hann allt að því í meðallagi sumstaðar og hey góð, nema hvað það hey hraktist nokkuð, sem laust var í september, og hey drap dálítið í görðum og kumblum. Fiskur og eldiviður þornaði ágætlega.

Janúar. Umhleypingasöm tíð, en ekki mikill snjór. Vatnavextir.

Jónas Jónassen segir þann 4.janúar frá umskiptum um áramót: 

Að morgni h.31. [gamlársdags] gekk hann til norðurs og gjörði brátt ákaflegt norðanrok, sem hefir haldist til aðfaranóttar h.3. er hann gekk til austur-landnorðurs hér innfjarðar (hvass enn á norðan til djúpa). Sjóharkan mikil og er nú sem stendur íshroði út á miðja skipalegu. Jörð hér svo að kalla alauð.

Þjóðviljinn birti þann 17.apríl bréf úr Norður-Þingeyjarsýslu dagsett 11.febrúar og segir frá bjarndýrum sem komu á Sléttu á nýársnótt:

Nálægt jólum kom hafís að Melrakkasléttu. Gengu þá 3 bjarndýr á land, húnamóðir, með tveimur hálfvöxnum húnum. Dýrin komu heim á bæinn Blikalón á nýársdagsnótt. Var hið elsta dýrið skotið til dauðs á bæjarhlaðinu snemma dags, en síðari hluta dagsins voru húnarnir skotnir, sem legið höfðu hjá móður sinni dauðri nokkurn tíma. Engan skaða gerðu bjarndýr þessi; en þó ýgldust þau á menn þá er út gengu.

Þjóðólfur birtir þann 27.janúar bréf úr Skagafirði dagsett þann 8.janúar - þar segir m.a. frá mikilli fjárfækkun árin á undan:

Mikið er látið af árgæskunni á Suðurlandi, enda ætla fjöldamargir suður til sjóróðra héðan að norðan, því að þeir hafa hér lítið við bundið, skepnurnar eru ekki svo margar hjá almenningi, fullum þriðjungi færri en í fyrra og helmingi færri en fyrir 5 árum. Þó er bót í máli, að nú er búist við, að menn geti haldið skepnum sínum í góðu standi, því að heybirgðir eru sæmilegar, og svo hefur verið heldur góð tíð, það sem af er vetrinum. Um jólin var sönn sumarblíða, þangað til á nýársdag; þá gerði hríð er stóð í nokkra daga og í þeirri rumbu rak hafísinn upp í land, en í gær lónaði hann dálítið frá, svo að ekki er að vita, hvað mikill hann kann að vera.

Þjóðólfur segir þann 20. frá hláku og miklum flóðum: 

Tíunda þ.m. gerði hláku, sem stóð í viku. með ákaflegum leysingum og flóðum í ám, og nú aftur komin hláka. Nýi vegurinn, sem hefur verið lagður í fyrrasumar og sumar sem leið niður frá Svínahrauni, skemmdist mikið í leysingunum um daginn. Brúin, sem lögð var á Hólmsá í haust, brotnaði í tvennt af jakaburði í ánni; annar parturinn lafir fastur við stöpulinn, en hinn kominn langt ofan á hólmana. Brúarstöpullinn vestanmegin lítið skemmdur, [tvö lög röskuð], en á eystri stöplinum aðeins tvö neðstu lögin óskemmd. Um 200 faðmar af veginum frá ánni yfir hólmana, talsvert skemmdir; síðan alllangur spotti lítið skemmdur upp að Hraunsnefi. Brúin yfir jarðfallið fyrir ofan Hraunsnef alveg á burtu og stöplarnir hrundir. Þaðan upp undir Lækjarbotna litlar skemmdir. Grafið undan stöplunum undir Lækjarbotnabrúnni, en þeir standa þó enn, nema eitt hornið hrunið. Miklar skemmdir á 80-90 föðmum af veginum þar. Þaðan upp að Sæluhúskofa svo sem engar skemmdir.

Á Sandskeiðinu um 250 faðmar af suðurjaðri vegarins allmikið skemmdir, báðar brýrnar á Sandskeiðinu burtu, og vegurinn gjörsamlega eyðilagður á 24 föðmum, þar sem brýrnar hafa verið. Á Öldunum upp undir Svínahrauni eru um 50 faðmar, sem nokkuð þarf að laga. - Þetta er tekið eftir 2 mönnum, Erlendi Sakaríassyni á Bergi og bróður hans Árna, sem amtmaður Jónassen sendi í fyrradag til að skoða skemmdirnar og komu í gær. Þessir menn álíta, að þó að svona hafi farið, muni þó mega láta veginn liggja í sama stað og nú, ef brúarstöplarnir eru hafðir nógu háir, og lengra milli þeirra á Sandskeiðinu, svo að árnar þar hafi óhindrað framrás, en flæði eigi fram með veginum, eins og oft hefur átt sér stað. Annað eins flóð og þetta hefur ekki komið, t.d. í Hólmsá, á síðustu 40 árum.

Í Hvítá (Ölvesá) kom og ákaflegt flóð, sem gerði stórskemmdir, eins og eftirfylgjandi bréfkafli af Eyrarbakka 16. þ.m. segir greinilegar frá: „Í leysingu þessari komst svo mikill vöxtur í Hvítá (Ölvesá), að hún flóði yfir mikið af Kaldaðarneshverfi í Flóa, bæði fénaðarhús og bæi. Bóndinn á Lambastöðum missti allt fé sitt fullorðið, nál 30(?), sem drukknaði í fjárhúsinu; og sagt er, að farist hafi um 50 fjár á sama hátt á Útverkum á Skeiðum, en ekki þori ég að fullyrða það".

Að norðan komu vermenn í gær úr Húnavatns -og Skagafjarðarsýslum, og sögðu tíðarfar líkt og hér. Hafíshroði hafði sést inn með Skagaströnd og Ströndum um það leyti, sem þeir fóru af stað.

Ísafold segir frá flóðinu í Ölfusá í pistli þann 8.febrúar:

Hlaupið í Ölvesá 11. [janúar], sem getið var um fyrir skemmstu, hefir verið voðalegt, viðlíka og jökulhlaup, miklu meira en elstu menn muna. Í greinilegu bréfi frá merkum manni á Eyrarbakka er því þannig lýst:

„Hlaupið byrjaði fyrir ofan Auðsholt í Tungum (í Hvítá), en ekki hefir frést um skaða þaðan. Grímsnesingur sagði mér frá að í Skálholtstungu hefðu um kvöldið verið 7 hestar þegar hlaupið byrjaði, og hefðu þeir hlaupið upp á einn bakka eða hólma, sem um morguninn eftir hefði verið lagður undir hlaupið. Á Skeiðum man enginn maður annað eins hlaup; samt varð öllum skepnum bjargað, ýmist á bátum eða með því að ríða hestum á sund. Í Grímsnesi að sunnanverðu náðist féð án dauða. Á Stóra-Ármóti flóði yfir svokallaðan Lambhaga, ómunamikið. Selfossbjarg, norður undan túninu, gamalt eins og áin, valt um koll: þeir búast við látri við það bjargfall. Á Kotferju hljóp áin á ferjustaðinn og fylgir jakahrönnin heiðarbrúninni alla leið að melunum austan til við Hreiðurborg, og rennsl mikið fyrir framan Hreiðurborg.

Ég stóð á Hestalyngshól austur undan melunum ofarlega og sá yfir þann mikla ís. Bærinn Kotferja sást þó upp úr ísnum niður í miðja veggi; á fjárhúsunum fram á túninu sást á mænirinn, líkt og rekastaur í íshrönn (féð var þá fram á heiði á beit, er nú við beitarhúsin úr Kaldaðarneshverfi). Varðan á háu klöppinni milli Kotferju og Kaldaðarnesflata, þegar riðið er upp að Kotferju, að nafni Prestsvarða, sést upp úr, og báðum megin við hana á klöppina eins og borðsbreidd. Á svæðinu frá því fyrir ofan Kotferju og út að Kaldaðarnesbökkum fyrir austan hverfið er víst þessi hrönn, þar sem lægstur er jarðvegur undir, frá venjulegri hæð árinnar 20—30 álna þykk. Kaldaðarneshlaupið hefur byrjað við Hrafnsnes. Vatnið hefur lyft hellunni og rekið hana á Kaldaðarneshverfið. Svo er að sjá, sem hellan hafi rekist á Höskuldsstaði, sett austurhluta túngarðsins inn á heyin, klemmt þau saman, reist upp á endann norðurhluta garðsins, sem stendur uppi, líklega 5—6 álnir (ég mældi hann ekki). Ísinn var hærri þar; hefur hellan mulist hvað yfir annað; en þar sem lægra var, runnið yfir tún og á bæi, svo að hefði vatnið verið 1/2 til 1 alin hærra, hefði það farið með hús og bæi; en hefði ekki hlaupið á Kotferju komið, hefði enginn bær, kirkja eða neitt annað fyrir fundist (heldur við staðar-úttektina). Víða í kotunum komst vatnið upp á heygarðsbrún og upp á garðinn fyrir neðan baðstofuglugga, upp að fjóskömpum efri; svo sprakk áin upp úr heygörðum og húsum (því holt hraun er undir), og með eigin augum sá ég sprungu í túnum, og á einum stað vatnið belgja upp, og þá var lítið meira en vanaleg hæð á ánni.

Í einu kotinu rann svo mikið inn, að bóndinn datt í bæjardyrum og tunna með kolum ofan á hann, og var hann aðframkominn að sagt var; samt komst hann inn þá rann vatnið á rúmstokknum; konan varð ofsalega hrædd; þau hafa alveg yfirgefið kotið. Konur sögðu mér að þær lokuðu bæjardyrum, báru að hurðum til að draga úr innrennslinu, en ekki tjáðu þær það hafa verið gleðistund. Mesta vatnsgusan var fyrst og var langhæst; stóð stutt yfir, svo sem 10 mínútur til 15 mínútur; sumir sögðu 5—6 mínútur; stutt hefir það verið, því annars hefðu menn kafnað og ekki tekist að rífa fé út með lífi, eins og gert var, nema á Lambastöðum dóu allar kindurnar nema nokkuð af lömbum. Sá, sem sér Kaldaðarneshverfi nú, hann býður ekki yfir 7 þús. fyrir í stað 17 þúsund. Vatnið rann meðfram kirkjugarðinum að austan, svo að ekki þótti árennilegt að leggja út í það, og upp undir heygarð að norðan“.

Þjóðólfur segir frá þann 30.:

Í leysingunum um daginn hljóp skriða (13. þ.m.) á bæinn og fleiri hús á Steinum undir Eyjafjöllum, skekkti og skemmdi sum hús stórum, fyllti kálgarða með aur og leðju, en menn og skepnur björguðust; túnið skemmdist og allmikið.

Fjallkonan segir þann 31.janúar frá sömu skriðuföllum:

Skriða hljóp á bæinn á Steinum undir Eyjafjöllum fyrir skömmu og braut bæinn og gjörskemmdi túnið, en fólkið komst af. Á túnið bárust þau heljarbjörg, að 20 manns gátu ekki hreyft þau úr stað.

Í riti Ólafs Jónssonar „Skriðuföll og snjóflóð“ er undir árinu 1888 (snjóflóð) dagbókarfrásögn um mikil (og fjölmörg) snjó- og krapaflóð sem urðu í Víðidal í Lóni í miklum leysingum 11.janúar. Ólafur segir: „Það er ekki lítið sem gengið hefur á í Víðidal þennan dag. Eigi færri en 15 snjóflóð eru talin og sum stór. Vafalaust hafa þetta verið hálfgerð krapahlaup eða mjög vot snjóflóð“. Orðalag upphafs dagbókarfærslunnar er athyglisvert: „Sunnanstormur og ofsaveður allan daginn og fjarska bládýpi komið í fannir ...“ Ólafur getur þess einnig að um 9. til 10.janúar hafi 40 fjár farist í snjóflóði á Hvalnesi við Stöðvarfjörð og tengir sömu hláku og olli Víðidalsflóðunum. 

Þjóðviljinn á Ísafirði segir frá janúartíð í tveimur pistlum:

[11.] Á gamlársdag gerði norðangarð, sem hélst í viku, og hindraði allar sjóferðir.

[21.] Alla þessa viku hefir verið mesta blíðskaparveður, logn og frostleysur.

Febrúar. Óstillt tíð og nokkuð áfreðasöm. Mjög kalt í annarri viku mánaðarins.

Ísafold birtir bréf, dagsett 6.febrúar, úr Barðastrandarsýslu (sunnanverðri) þann 21.febrúar: 

Veðurátt hin besta það af er veturinn. Síðan skömmu eftir nýárið, að hafís rak inn á Húnaflóa, svo að fjarðafyllir varð á Ströndum, hefir hann verið þar á reki eftir vindum og straumum, en haldið að ísinn sé ekki mikill úti fyrir.

Bréf, dagsett í Holtamannahreppi 13.febrúar birtist í Þjóðólfi þann 21.:

Það, sem af þessum vetri er, hefur mátt heita sannarleg gæðatíð; að vísu var hér á öllu láglendi óhrein jörð og mjög hagskarpt fram yfir þrettánda, en aftur til fjalla svo að segja auð jörð, svo ekki voru allir búnir að taka lömb á gjöf þar, fyrr en um miðþorra. Sem dæmi upp á veðurblíðuna má geta þess, að 2 menn héðan úr hreppi og sá þriðji úr Landsveit fóru í eftirleit inn á Holtamannaafrétt núna á þorranum, og hefur það ekki verið árætt fyrr um þennan árstíma, en lítil urðu not að því, því ekki fundust nema 3 lömb.

Þjóðólfur segir um tíð þann 21.febrúar:

Tíðarfar hið ákjósanlegasta sunnanlands. Sama er að frétta af tíðarfari víðast hvar annarstaðar af landinu. Í Þingeyjar- og Múlasýslum hefur veturinn verið með heldur harðara móti.

Þjóðviljinn á Ísafirði segir frá tíð þar um slóðir:

[7.] Tíðarfar hefir síðustu vikuna verið umhleypingasamt, grimmdarfrost annan daginn, en þíðviðri hinn. Annars má yfir höfuð telja, að veturinn, sem af er, hafi verið frámunalega góður.

[14.] Snemma í vikunni, sem leið gerði norðangarð, er haldist hefir síðan með miklu frosti (mest 14 stig R ). Síðan segir frá skipstapa úr Bolungarvík:

Mánudaginn 6.þ.m. reru skip almennt úr veiðistöðunum við Djúp, enda var gott sjóveður allan fyrri part dagsins; en rétt eftir hádegi skall allt í einu á aftaka dimmviðrishríð frá suðvestri; voru þá enn mörg skip á sjó, og um kvöldið vantaði 5 skip frá Ísafirði og 2 sexæringa úr Bolungarvík. Daginn eftir var allgott sjóveður, og komu þá til skila skip þau, er vantaði, nema „Fálkinn", sexæringur úr Bolungarvík, sem Guðmundur hreppstjóri Magnússon í Tröð var formaður á. Höfðu skipin sum hleypt norður á Snæfjallaströnd, en sum komust við illan leik í nálægari veiðistöður. Skip Guðmundar Magnússonar var yst þeirra, er reru þennan dag, og þeir, sem næstir voru, sáu ekkert til hans eftir það, er hríðin skall á; en ætlun margra er það, að Guðmundur muni hafa ætlað sér að hleypa í Jökulfjörðu, og hafi hann farist á boðum þeim, er í stórsjóum rísa út undan Bjarnarnúpi. Lítilfjörleg brot úr skipi kvað hafa rekið i Bolungarvíkurmölum 10. þ.m., sem kunnugir þykjast þekkja, að séu úr skipi Guðmundar.

Fjallkonan segir frá því þann 18.mars að í hríðinni 9. til 10.febrúar hafi feðgar frá Mallandi orðið úti á Skaga og í sömu hríð hafi einnig orðið úti maður á Laxárdalsheiði. 

Fjallkonan segir í fréttum af skriðuföllum og snjóflóðum í Haukadal bæði í blaðinu 23.febrúar og 28.mars. Ekki er ljóst hvort um sama atburð er að ræða - en líklegt er það þó:

[23.febrúar] Snjóflóð og skriðuföll urðu 12.-14. febr. í Dalasýslu, einkum í Haukadal, og gerðu tjón á túnum og engjum á nokkrum bæjum. 

[28.mars] Skriður hlupu fram seint í febrúar i Haukadal vestra og gerðu stórskaða, einkum á Leikskálum; gjörskemmdu þar bæði tún og engjar. 

Þann 27.febrúar lýsir Þjóðviljinn tíð vestra: „Tíðarfarið hefir verið umhleypingasamt, suðvestanstormar og rigningar alltaf öðru hvoru“.

Mars Óstillt veður, snörp kuldaköst nyrðra, en skammvinnari syðra og tíð talin þokkaleg. Veðurathugunarmaður á Teigarhorni sá hafís utan fjarðar þann 24.mars, en hann kom inn fjörðinn þann 30.

Ísafold segir þann 7.mars:

Veðráttan, sem verið hefir ómuna-blíð lengi að undanförnu, fremur sumar- en vetrarveður, brá til norðanáttar með talsverðu frosti í fyrradag.

Þjóðviljinn segir 10.mars:

Eftir sumarveðráttuna sem kalla mátti að væri síðustu dagana af f.m. og fyrstu daga yfirstandandi mánaðar, gerði norðangarð 5. þ.m , sem hefir haldist síðan með 10-14 stiga frosti á R.

Þjóðólfur birtir 13.apríl bréf úr Suður-Þingeyjarsýslu dagsett 20.mars:

Tíðin er mjög óstillt, ýmist norðanstórhríðar eða sunnandrifahlákur; jarðir notast því mjög illa. Í norðangarði 13.-14. þ.m. rak hafísslæðing inn á Eyjafjörð, og Langanespósturinn segir að talsverður is sé á Þistilfirði, Axarfirði og Skjálfanda, en 18. og 19. þ.m. var sunnanhláka með allmiklu veðri; eru því líkur til, að ísinn hafi rekíð frá landi.

Fjallkonan segir frá 18.maí:

Þrjá menn kól til skemmda í Öræfum 24. mars; þeir voru frá Skaftafelli; tveir af þeim misstu fæturna, en einn komst af lítt skemmdur.

Þjóðólfur segir þann 31.mars:

Tíðarfar hefur verið óstöðugt og mjög óhagstætt um tíma, oftast norðanhvassviðri með talsverðu frosti; á þriðjudagsnóttina 27.þ.m. var aftakanorðanveður og 16° frost á C, í gær fjúk en frostvægt.

Þjóðólfur birti 13.apríl bréf úr Miðfirði, dagsett 31.mars:

Á mánudaginn var [26.] gerði snöggt hríðaráhlaup af norðri, sem stóð í 2 daga; fé var allstaðar úti er hríðin skall á; þó hefur eigi heyrst um fjárskaða, nema lítilsháttar á 2 bæjum. Eigi rak hafís inn í því kasti, nema hroða inn með Ströndunum, en haft er eftir hákarlaskútum, að mikill ís sé fyrir Horni.

Þann 4.maí segir Þjóðólfur af fjársköðum í þessu veðri:

Fjárskaðar urðu 26. mars í Þingeyjarsýslu, og fórust 68 kindur á Víðikeri í Bárðardal, 29 á Hallbjarnarstöðum í Reykjadal og 18 á Fossseli.

Þann 25.maí segir Þjóðviljinn frá skiptapa í sama veðri:

26. mars fórst skip af Rauðasandi í hákarlalegu og týndust 11 manns. Formaður Guðbjartur Jónsson frá Breiðuvík.

Ólafur Jónsson greinir frá því í ritinu „Skriðuföll og snjóflóð“ að á útmánuðum 1888 hafi orðið mikið hrun við Reynishöfn undir Reynisfjalli í Mýrdal og fjórir menn sloppið naumlega. 

Apríl Kuldatíð víðast hvar.

Þjóðólfur 13.apríl:

Tíðarfar hefur alstaðar, þar sem til hefur spurst, verið óstöðugt í f.m. Sunnanlands hefur verið góð tíð það, sem af er þessum mánuði.

Þjóðólfur segir þann 4.maí að hafís hafi verið mikill fyrir Þingeyjarsýslu um sumarmálin og allmikill ís inn á öðrum fjörðum norðanlands. Sömuleiðis að bjarndýr hafi náðst fyrir skömmu á Tjörnesi. 

Þjóðólfur birtir þann 25.maí fregnir úr Meðallandi:

Skaftafellssýslu (Meðallandi) 5.maí. „Veturinn var yfir höfuð víðast hvar góður og hagar oftast nær, nema í Meðallandi, enda hljóp Kúðafljót hér um allt út Meðalland og lagði alla jörð undir í 1.viku þorra, svo að ein íshella varð, sem ekki tók upp fyrr en í 1.viku sumars. Og hefur víðast hvar hér verið gefið öllum fénaði síðan um jólaföstu. Skip fauk hér um daginn og brotnaði í spón. Aðrar slysfarir ekki“.

Maí Köld og hörð tíð. Frost síðasta dag mánaðarins, meira að segja í Vestmannaeyjum.

Jónas lýsir tíð um mánaðamótin apríl/maí í pistli þann 2.:

Fyrsta dag vikunnar var sunnanátt með regni en gekk til útsuðurs eftir hádegi; daginn eftir logn og dimmur og sama veður næsta dag, en 28. gekk hann í norður, bálhvass og sama veður 29.; 30. var landnorðan, nokkuð hvass fyrri part dags; hinn 26. var hér alhvítt af snjó snemma morguns og hafði snjóað mikið í öll fjöll um nóttina; h.27. var ofanhríð allan seinni part dags og allt til þessa hefir snjó ýrt úr lofti allan daginn við og við og orðið alhvítt stutta stund. Í dag 1. maí er vestanhroði með snjóhryðjum og kaldur.

Og enn snjóaði framan af maí, Jónas lýsir:

Alla þessa viku hefur verið norðanvindur, stundum all-hvass, stundum hægur að minnsta kosti að kveldi; snjór hefur fallið talsverður einkum h.7.; gekk hann til vesturs-útnorðurs og var ofanhríð rétt allan daginn með kulda rétt sem væri á miðþorra. Í dag 8. hægur á norðan bjart og fagurt veður og bræðir sólin nú óðum aftur allan snjóinn.

Þjóðólfur birti 22.júní bréf úr Þistilfirði, dagsett 7.maí:

Nú eru bráðum 3 vikur af sumri, en samt er hér ennþá hávetur; fjöldi manna orðinn heylaus fyrir allt; fénaður farinn að verða magur og dreginn. Síðan viku eftir páska hefur ekki gengið á öðru en norðanhríðum og nú vikuna sem leið í fjóra daga norðvestanbrunahríðar, líkar uppstigningardagsbylnum í fyrra. Samt er nú ekki fé ennþá farið að falla. Ísinn hefur verið hér landfastur síðan fyrir páska [1.apríl], og ekkert rót komið á hann enn. Í nálægum sveitum mun líkt ástatt og hér í Þistilfirði, jafnvel verr á Langanesi og Sléttu og ég hygg í Kelduhverfi. Langanesstrandirnar víst sárlega illa staddar, og menn hvervetna sagðir heytæpir um allt Austurland.

Ísafold segir frá tíðinni í nokkrum pistlum. 

[2.] Tíðarfar er kuldasamt nokkuð hér um slóðir. Hafís var fyrir Norðurlandi í miðjum f. mánuði, á hrakningi inn eða út af fjörðunum, haldinn ekki mikill eða síbyrt af honum.

[3.] Tíðarfar segja póstar norðan og vestan, sem komu loks í gærkveldi, hafa verið kalt í meira lagi í fjærsveitunum. Póstur reið á ís, lagnaðarís, yfir Hrútafjörð nú fyrir tæpri viku, milli Þóroddstaða og Borðeyrar. Hafþök af hafís voru sögð úti fyrir Norðurlandi, en ekki nema hrakningur inn á Húnaflóa.

[9.] Veðrátta köld og stirð það sem af er sumrinu, og í fyrradag kafaldsbylur af norðri einhver hinn mesti, sem dæmi eru til hér sunnanlands um þennan tíma árs. Jörð alþakin fönnum. Hafís sagður kominn allt suður undir Vestmannaeyjar; fullt fyrir öllu Austurlandi.

Fjallkonan birtir þann 28. bréf dagsett á Djúpavogi þann 8.:

Djúpavogi 8.maí. Veðráttan er mjög köld. Grimmdarfrost um nætur en lítil sólbráð á daginn, enda fullt af hafís hvarvetna úti fyrir og inni á fjörðum. Skip eru því enn ókomin hingað; eru víst 20 ár síðan skip hafa komið svo seint á Djúpavog.

Ísafold segir þann 30.maí:

Með hvítasunnudeginum [20.] brá til hlýinda nokkurra hér syðra, en stóð að eins fáa daga. Tókust þá aftur næturfrost og fjúk til fjalla.

Júní. Kuldar í hafíssveitum, en skárra syðra síðari hluta mánaðarins. Úrkomudagar á Teigarhorni reyndust aðeins fjórir í mánuðinum, sá síðasti þann 16. Athugunarmaður þar getur þess 20.júní að hafís sé að mestu farinn af firðinum. 

Þann 7.júní segir veðurathugunarmaður í Vestmannaeyjum að höfnin hafi fyllst af hafís. Hann bráðnaði þar næstu daga á eftir. 

Þjóðólfur segir þann 1.:

Tíðarfar breyttist skjótt aftur til kulda og norðanáttar, sem staðið hefur alla þessa viku, stundum með snjógangi. Allt fullt af hafís fyrir norðan segir maður af Sauðárkrók, sem fór þaðan 24.f.m.

Ísafold ræðir tíðina í pistli þann 6.júní:

Tíðarfar hefir verið ærið kuldasamt til þessa og stafar það sjálfsagt af hafísnum, er síðustu fréttir að austan segja hafa sést suður við Dyrhólaey. 

En aðeins betra hljóð er í Þjóðólfi þann 8.:

Síðustu daga hefur verið hlýtt veður, og útlit fyrir, að nú séu komin fyrir fullt og allt umskipti á tíðina.

En mjög kalt var í Reykjavík aðfaranótt þess 10. Lágmarkshiti 1,2 stig. Veðurathugunarmaður bræddi um morguninn sjó og hagl úr úrkomumælinum, samtals 5 mm vatns. 

Þjóðólfur birtir þann 22.bréf úr Skagafirði, dagsett 7.júní:

Loksins er komin vorveðrátt, hlýindi með gróðrarskúrum, svo að tún eru orðin græn, en úthagi enn grár yfir að sjá. Þessi veðrátt byrjaði 1. þ.m. Til þess tíma hélst vetrartíðin með litlum úrtökum. Veturinn lagðist hér að 25. sept. með stórhríð og komu kýr þá algjörlega á gjöf. Frá 25. sept. til 1. júní, að þeim ótöldum, hafa komið 74 dagar, er frostlaust hefur verið kl.8 að morgni; nokkra daga þó auk þess 0° á mæli að morgni. ... Tíðin allan tímann mjög ókyrr og oft ákaflega umhleypingasöm. Snjófall yfir höfuð lítið, en jörð létt til beitar. Hey hafa reynst mjög létt, svo að þó að menn settu vel á í haust yfir höfuð, voru menn almennt komnir á nástrá í fardögum bæði fyrir kýr og fé, og allmargir fyrr. Fénaðarhöld munu yfir höfuð allgóð. Sjálfur veturinn hefur yfir höfuð mátt heita allgóður, en vorið eitt hið versta í þessum harðindabálk, og er ekki séð fyrir enda þess enn. Vorið í fyrra þótti vont og varð hið hörmulegasta að afleiðingum; en því ollu mest hin voðalegu áfelli 2, er þá gjörði, hið fyrra úr sumarmálum og hið síðara 17. maí og næstu viku; en á milli þeirra og undan þeim og eftir var fremur góð tíð, einkum eftir síðara áfellið. Þá var hiti á hverjum morgni í maí í 25 daga, en nú ekki nema í 10 daga. Þetta vor hefur því verið hér yfir höfuð talsvert verra, að áfellunum í fyrra undanskildum, og líkast vorinu 1882. Það, sem gjörir, að skepnuhöld eru nú sæmileg, mun helst vera það, að heyin voru meiri og einkum hollari en í fyrra. - Allt er hér enn fullt af hafís og hefur lengi verið. Aflalaust mun enn vera hér, þó að stundum kynni að mega róa í rifur í ísnum. Ekkert hafskip hefur enn komið á Skagafjörð í vor, en kaupstaðir á Sauðárkrók hafa verið vel byrgir af mat til þessa, en eru nú að þrotum komnir. Eru birgðir þessar mest því að þakka, að Coghill og Knudsen fluttu hingað miklar vörur í fyrra sumar, svo að kaupmenn hér þurftu lítinn mat að selja fyrr en í vetur, móti því sem annars hefði verið.

Í sama tölublaði Þjóðólfs er einnig bréf úr Strandasýslu, dagsett 10.júní. Þar segir meðal annars:

Veturinn var hér, eins og víðast, fremur góður. Aftur hefur vorið verið eitthvert hið erfiðasta, sem menn muna, næst vorinu 1882; að vísu stórhretalaust, en sífelldir blotalausir kuldanæðingar, oft með gaddfrosti dag og nótt til maímánaðarloka. Hafís liggur hér enn, og er allur Innflóinn að minnsta kosti fullur enn. Skepnuhöld hafa orðið vonum betri í þessum harðindabálki og mega þau viðast heita með besta móti; aftur hafa ísalögin gjört ómögulegan allan afla af sjó, og kemur það því harðara niður á þessum sveitum, sem skepnufæðin er orðin svo, að lítið er annað á að lifa fyrir almenning, en það sem af sjó fæst. 

En tíð batnaði mjög syðra og segir Ísafold frá þann 27. Einnig eru fréttir úr Meðallandi dagsettar 15.júní:

Blíðviðri og hiti allmikill hefir verið hér síðustu dagana. Er hafís nú að öllum líkindum farinn frá landinu; hann fór af Húnaflóa í Bótólfsmessustraumana (17.), og var sigling komin á Borðeyri og Blönduós, sagði maður sem norðan kom í gær.

Úr Vestur-Skaftafellssýslu (Meðallandi) er Ísafold skrifað 15. þ.m. um hafísinn o.fl.: Hafís hefir legið hér að segja má staðfastur síðan um hvítasunnu [20.maí] eða rétt fyrir hana. Hann hefir oftar verið svo, að varla hefir sést út yfir hann. Ég heyrði talað um það í ungdæmi mínu, að það hefði verið gömul trú, að hafís hyrfi alltaf um Vítusmessu (15. júní). Hvað hæft hefir verið í þessu, veit ég ekki; en hitt er það, að ég hefi hér aldrei heyrt getið um hann eftir þann tíma, nema í fyrrasumar, þegar hann kom í ágústmánaðarlok, enda hefir það verið mjög sjaldan, að hafís hefir hér komið, og aldrei eftir sumarmál, það ég til man, nema nú og í fyrra. Hér ber ekki neitt til tíðinda, annað en ef telja mætti, að Meðallandið er nú nærri eyðilagt af sandi, eftir hin stórkostlegu og langvinnu hvassviðri, sem iðulega hafa gengið nýliðinn vetur og þetta vor".

Júlí. Mjög þurrt svo háði sprettu, góðviðri nema í hafíssveitum norðaustanlands. Úrkoma mældist aðeins einn dag á Teigarhorni, þann 17. Úrkoma var 0,7 mm. 

Jónas lýsir blíðviðri í Reykjavík í júlípistlum sínum:

[4.] Alla vikuna hefir verið einmuna fagurt veður. Daglega oftast rétt logn. Í dag 3. hægur útnorðan-kaldi og bjartasta sólskin.

[11.] Einmuna fagurt veður hefur verið alla þessa vikuna, oftast alveg logn og bjartasta sólskin, aldrei dropi úr lofti. Í dag 10. logn og fegursta veður, sunnangola eftir kl.4.

[18.] Umliðna viku hefir verið mesta hægð á veðri rétt logn alla vikuna, oftast dimmur og stundum með svækju-rigningu. Í dag 17. logn og dimmur.

[25.] Sama blíðan hefir haldist alla vikuna oftast verið logn og bjart veður. Í dag 24. dimmur til hádegis, að hann gekk til norðurs með hægð, rétt logn og bjartasta sólskin. Loftþyngdarmælir mjög stöðugur. 

Ísafold hrósar líka tíð þann 11. og 25.:

[11.] Síðan á Jónsmessu hefir verið hér einmuna-tíð: logn eða hægviðri og glaðasólskin nær alla tíð, dag eftir dag. Ekki komið dropi úr lofti, svo teljandi sé, fyrr en í nótt sem leið. 

[25.] Enn standa hin dæmafáu blíðviðri hér sunnanlands, - ekkert að, nema grasbrestur mikill víða, vegna hinna langvinnu þurrka, eftir kuldana í vor. Að norðan og vestan er að frétta viðlíka veðráttu. Af Akureyri skrifað 18. þ.m.: Þurrkar allan júní og það sem af er júlímánuði, aldrei dropi úr lofti; jörð því víða hálf-sviðin, og útlit með grassprettu í Eyjafirði og Þingeyjarsýslu í versta lagi.

Hafís var allmikill við Austfirði seint í vikunni sem leið, eftir því sem fréttist með franska herskipinu öðru. Af Akureyri skrifað 18. þ.m : „Ís kominn út af fjörðum, þó skammt frá landi, hákarlaskipum mjög til tálmunar; líklega fastur við Sléttu“. Thyra komst þó til Eyjafjarðar daginn eftir (19.) vestan fyrir; hafði einnig komist á Húsavík.

Ágúst. Óvenjumiklir þurrkar. Mjög kalt í hafísssveitum, 13 frostnætur í Grímsey. Aðeins tveir úrkomudagar á Teigarhorni fram til þess 23. - eftir það rigndi talsvert. 

Fjallkonan birtir þann 28. bréf dagsett í Suðurmúlasýslu 3.ágúst: 

Í júlí var ýmist of kalt eða of heitt. Grasvöxtur því í löku meðallagi, tún og harðvelli brunnin, votengjar betri. Hafísinn er skammt frá landi og um 40 mílur á breidd út af Reyðarfirði. - Eftir 10.júní hvarf ísinn frá um tíma svo skip komust á hafnir. 

Bréf dagsett í Norðfirði 3.ágúst birtist í Þjóðólfi 14.september:

Fréttir eru litlar, nema kuldar og ísar, þ.e.a.s. nú þessa daga er talsvert íshrul að drífa hér inn á fjörðu, svo að menn geta sem stendur ekki lagt línur.

Þjóðviljinn á Ísafirði segir frá þann 11.:

Tíðarfar hefir síðasta hálfan mánuð oftast verið fremur kuldasamt, og stundum snjóað ofan í miðjar hlíðar. Grasvöxtur hefir hér vestra orðið í meðallagi, nema á harðvelli, vegna hinna ómunalegu þurrka.

Þjóðólfur birti þann 31. bréf úr Eyjafirði, dagsett 16.ágúst:

Fyrri hluta þ.m. voru óþurrkar og þokur miklar; þó rigndi sjaldan nema lítið. Nú þessa daga aftur góður þurrkur á hverjum degi. Heyskapur gengur almennt bærilega. Grasspretta eftir því sem fréttist í nærsveitunum næstum í meðallagi og töðufall sömuleiðis; nýting góð á því, sem fengið er, og haldist góð tíð, mun heyafli verða allt að því í meðallagi.

Jónas lýsir tíð í pistli sem birtist á höfuðdaginn (29.ágúst):

Sama góðviðrið helst enn sem nú í langan tíma að undanförnu; síðustu dagana hafir hann verið á norðan, oft hvass til djúpa. Í dag 28. hvass hér innfjarða, en bálhvass úti fyrir á norðan, bjart og heiðskírt veður.

Þann 31.segir Þjóðólfur frá tíð:

Tíðarfar helst enn hið sama, sem verið hefur í allt sumar sunnanlands, síðan um Jónsmessu, sólskin og þurrkar því nær á hverjum dagi, stundum norðanátt og kuldi dag og dag í bili. Líkt tíðarfar er að frétta viðast annarstaðar af landinu, svo að þrátt fyrir grasbrestinn, lítur út fyrir að heyskapur verði vonum betri. Norðanlands hefur þó tíð verið kaldari, og sumstaðar þar gengið þokur og óþurrkar með köflum, en þó yfir höfuð góð nýting á heyjum. Á Hornströndum og nyrst í Strandasýslu hefur frést að gengið hafi þokur og óþurrkar um langan tíma. Í dag er hér rigning.

Þjóðólfur segir frá því 14.september að laxlaust sé og silungur nær enginn í ám í Miðfirði.

September. Miklar rigningar og illviðri.

Ísafold birti þann 29. frétt úr Barðastrandarsýslu, dagsetta 6.september:

Slíka góðviðristíð, svo langvinna, muna eigi elstu menn, því hún hefir að kalla má, stöðugt haldist síðan um sólstöður.

Ísafold segir þann 26.september:

Veðráttu virðist hafa brugðið til votviðra um land allt með byrjun þ.m., og gert heyskap endasleppan; hann mundi annars hafa orðið allgóður víða, þrátt fyrir grasbrestinn.

Bréf úr Árnessýslu 23. þ.m. segir svo: „Ómunarigningar og vatnavextir frá því veðri brá í byrjun þessa mánaðar. Sauðfjárrekstur úr Mýrdal, er átti að fara til Reykjavíkur, varð að hverfa aftur við Markarfljót. Fjárheimtur af afréttum munu slæmar. Ekki varð réttað sumstaðar fyrir illviðri fyrr en degi síðar en vandi er til, t.d. í Flóarétt. Auk þess misstu Flóamenn að sögn hálft þriðja hundrað fjár í fen eða vötn hjá Murnaeyrum í Eystri-Hrepp, þegar safnið var rekið niður eftir. Skaftfellingar segja mjög lítinn heyskap af grasbresti, en öllu betri er hann í vestri sýslunum (Árnes og Rangárvalla). Aftur á móti eru hey afbragð að gæðum, nema það er enn kann að liggja á teig“.

Þjóðviljinn á Ísafirði segir þann 25. að þar hafi orðið alhvítt þann 22.september. 

Október. Nokkuð blönduð tíð. Slæm illviðri í sumum landshlutum en mun betra á milli.

Illviðrin austanlands fyrir miðjan mánuð eru fremur illa dagsett. Þó taldi veðurathugunarmaður á Teigarhorni 6 vindstig af norðri (fárviðri) að morgni þess 12. Danska veðurstofan lét breyta því í 5 vindstig (storm) við prentun í Meteorologisk Aarbog. Stormur af norðri var einnig á Teigarhorni þann 4., en ekki aðra daga í mánuðinum. 

Þjóðólfur segir þann 19.: „Tíðarfar er yfir höfuð gott, nokkuð vætusamt með köflum, en oftast milt veður“. Og þann 26.: Tíðafar býsna vetrarlegt síðustu tvo daga, norðangarður og talsvert frost. 

Fjallkonan segir þann 19.nóvember frá illviðrum austanlands í október. 

Sandfok gerði í Meðallandi 26.október og skemmdi margar jarðir þar. Bærinn Eystri-Lyngar, þar sem presturinn, síra Jón Straumfjörð, býr, sökk svo í sand, að varla verður komist út um húsdyr og ljós verður að kveikja í húsum um daga; útlit fyrir að prestur verði að flýja í kirkjuna, því að öðrum kosti verði hann húsnæðislaus.

Ofsaveður gerði víða á Austurlandi 11. og 16. október. Í fyrra veðrinu fuku 16 bátar á Seyðisfirði og urðu margar aðrar skemmdir. Síðara veðrið var enn meira og var víða grjótfok og sandfok svo ódæmum sætti og sumstaðar hrakti fé í sjó. Skip sleit upp á Papós og Djúpavogi. A Seyðisfirði fuku eitt eða tvö hús ásamt bátum og veiðarfærum; annað þeirra 60 álnir á lengd og 20 á breidd.

Ísafold segir 17. nóvember frá illviðrinu þann 26.október - og birti fréttir úr Austur-Skaftafellssýslu:

Sandfok mikið gjörði í Meðallandi 26. f.m. eða þá dagana enn á ný. [Það hafði líka gerst veturinn áður] Eyddi slægjur og beitalönd, en setti bæi í kaf, svo sem Slýju og Eystri-Lynga. Sandurinn er (þar) jafnhár húsabustum; verður því að skríða inn um dyr, en hafa ljós í húsum um bjarta daga, því gluggum verður ekki haldið uppi. Það er sá munur á sandi og snjó, að sandurinn hrynur aftur og aftur ofan í það, sem búið er að moka og fyllir allt jafnóðum, en snjórinn stendur sem stöpull þegar veðrinu slotar. Skip fuku og brotnuðu í spón á nokkrum stöðum; í Vík í Mýrdal, í Reynishverfi, og í Austur-Meðallandi.

Austur-Skaftafellssýsla 28.október: „Heyskapur varð með minnsta móti hér í austursýslunni, en fremur vel fenginn. Fjártaka varð með mesta móti á Papós í haust, liðug 2000 fjár, að heita allt tekið á fæti. Þetta fé var úr Öræfum, Suðursveit, Mýrum, Nesjum og Lóni; þar að auki var talsvert rekið af fé austur á Djúpavog úr öllum þessum sveitum nema Öræfum. Líka kom enskur fjárkaupmaður suður í Nes og keypti sauði í Nesjum og Lóni. Tvisvar í þessum mánuði (11. og 16.) hafa komið mikil skaðaveður. Rauf þá víða hús, og sumstaðar fauk hey úr görðum. Á Seyðisfirði er sagt að hafi fokið 2 hús norsk; annað þeirra 60 álnir á lengd og 20 álnir á breidd. Líka er sagt að þar hafi fokið um 20 bátar“.

Og þann 28. nóvember segir Fjallkonan enn frá illviðrum og fleiru í október:

Norður-Múlasýslu (Vopnafirði) 23. október: „Nóttina milli 9. og 10. þ.m. gekk hér í fjarskalegt norðanveður, með fannkomu svo fé fennti á stöku stöðum, reif þök af húsum og heyjum hér og hvar, og bátar fuku. Síðan hefir verið besta tíð og allgóður afli þegar gefur að róa".

Sömu sýslu (Langanesströndum) 24. október. „Í efnalegu er hér hið bágasta ástand, nýbýli öll komin í eyði og sum lögbýlin, fólkið hópum saman flúið til Vesturheims".

Barðastrandarsýslu (Arnarfirði), 9. nóvember; „23. f.m. brast á norðangarður og hélst nær því viku. Hvassast var veðrið 27. og 28. Í sumum sveitum hér á Vestfjörðum gerði allmikla fönn sem nú er að mestu farin. Í þessu veðri tók kirkjuna á Rafnseyri af grunni og færði ofviðrið hana langt út í kirkjugarðinn, en ekki brotnaði til muna nema gólfið.

Þjóðólfur segir 23.nóvember frá fokinu í pistli úr Dýrafirði, hann er dagsettur 2.nóvember:

[Þann] 23. [október] hleypti í norðaustankafaldsgarð með afspyrnu veðri. 24. f.m. fóru 2 menn á báti yfir Arnarfjörð í Mordalinn, að flytja fóðurlömb prestsins frá Rafnseyri, en á leiðinni til baka hvolfdi bátnum; drukknaði annar maðurinn, Bjarni að nafni, vinnumaður prestsins, enn hinn komst á kjöl og náðist. - 27. [október] sneri aftakaveður Rafnseyrar kirkju af grunnmúrnum, svo að dyrnar snúa nú í norður, en kórinn í suður, en ekkert brotnaði; bátar fuku sumstaðar og kindur drápust á stöku stað.

Þann 18.janúar 1889 eru enn fréttir af októberveðrum í Fjallkonunni:

Austur-Skaftafellssýslu (Hornafirði) 8. desember: Tíðin heldur umhleypingasöm i haust og eins það sem af vetrinum er. Þó hafa ekki verið nein harðindi enn. Í miklum ofviðrum i haust (4.-12. okt.) gerði hér miklar skemmdir af grjótfoki á engjum og högum, einkum i Lóni, auk þess sem hús rufust og bátar fuku víða. 

Þjóðólfur birti þann 9. nóvember bréf úr Miðfirði, dagsett 27.október:

Hausttíðin hefur verið ágæt, því blíðari sem lengur leið á haustið; aldrei nein teljandi hret, þangað til 23. þ.m.; þá snerist hann fljótlega til norðurs eftir miðjan dag upp úr blíðviðri og gjörði ofsanorðanveður um nóttina með talsverðu frosti; fannkoma var lítil hér; sagt, að hún hafi orðið meiri austar og norðar. Ekki mun hríð þessi hafa orðið að tjóni til muna hér i sveit, þótt fénaður væri víða í lítilli gæslu; marga vantar þó nokkuð bæði að heiman og af heimtum.

Í veðrinu þann 23.október varð skipstrand á Sauðárkróki. Þjóðólfur segir frá þann 23.nóvember:

Skagafjarðarsýsla, 10. nóvember: „Helstu fréttir héðan eru, að gufuskip Knudsens, Lady Bertha, strandaði á Sauðárkrók 23. f.m. með allmiklu af vörum; talsvert af vörunum náðist óskemmt, en allmikið skemmdist, af því, að skipstjórinn hleypti sjó inn i skipið, þegar það var komið upp í sand, til þess, að varna því, að það færi á hliðina. Hinar skemmdu vörur voru seldar 6. þ.m. við uppboð og fóru í afarverð, jafnvel þó að þær eftir læknis áliti væru seldar með þeim skilmála, að þær mættu að eins notast sem skepnufóður; svo voru þær skemmdar. Annað gufuskip Knudsens lá á höfninni í sama mund og sakaði ekki.

Þann 23. nóvember segir Þjóðólfur einnig frá illviðrinu í Meðallandi og í Vík þann 26.:

Aðfaranótt 26. f.m. fauk skip, sexæringur, í Vík og brotnaði í spón, enda var þann dag og næsta dag ofsastormur. Í veðri þessu eyðilagðist enn að nýju nokkuð af Meðallandi af sandfoki. Slýjar og Eystri-Lyngar, þar sem prestur okkar (séra Jón Straumfjörð) er enn til heimilis, sukku í sand, svo að skríða verður út úr húsdyrunum, og gluggum verður ekki uppi haldið, svo að dimmt er í húsum um bjartan dag. Jafnóðum og sandurinn er mokaður frá, hrynur hann aftur að, og hvenær sem gustur er, kemur sama moldviðrið.

Og þann 14.desember birti Þjóðólfur bréf úr Fáskrúðsfirði sem segir frá októberillviðrunum þar eystra:

Fáskrúðsfirði, 27. október: Fréttir fáar, nema alveg fiskilaust og tíð mjög óstillt. og stórviðri mikil; það hafa nú fyrir skemmstu komið skaðaveður, svo að menn muna varla þvílíkt. Hér í sveit varð skaðinn eigi mikill, fauk aðeins hjallur, 2 heyhlöður og 2 bátar, sem báðir brotnuðu, annar í spón. Í Reyðarfirði urðu miklir skaðar, bæði á húsum og bátum, sömuleiðis í Norðfirði; þar rak á land lausakaupsskip, er Tulinius á Eskifirði átti. Allir bátar fuku í Hellisfirði og stofa, skemma, búr og eldhús í Hellisfjarðarseli, og misstu hjónin þar því nær aleigu sína i þessu mikla veðri.

Nóvember Mjög stormasamt, en þokkaleg tíð á milli. Snjóasamt á Vestfjörðum síðari hluta mánaðarins.

Ísafold birti þann 19. fréttir af kirkjufoki á Rafnseyri - í öðrum fregnum er þetta sagt hafa gerst 27.október - og lýst á annan hátt:

Kirkja fauk á Rafnseyri við Arnarfjörð 4. nóvember, í feykilegum aftökum, „svo miklum, að menn muna eigi slíkt, nema ef vera skyldi þorraveðrið mikla, er „Fönix“ fórst veturinn 1881. Kirkjuna tók svo hátt upp, að hún fór yfir nokkur leiði, sem uppgerð voru, en kom svo niður aftur alheil og óskemmd“. Þannig skrifar presturinn á staðnum. Kirkjan var nýsmíðuð. 

Ísafold lofar tíðarfarið þann 17.nóvember:

Öndvegistíð er hér enn dæmafá; grængrónir blettir víða nú í miðjum nóvember. 

Mikið illviðri gerði þann 21. og 22. Þjóðólfur segir 23. frá tjóni í Reykjavík aðfaranótt þess 22.:

Stórskemmdir hafa orðið hér í bænum af ofsaveðrinu og sjóganginum í fyrrinótt. Milli 10 og 20 skip og báta hefur tekið út, sem alveg eru horfnir og mörg skip og bátar meira og minna skemmd; sum hús næst sjónum hafa og skemmst, eitt t.d. (vörugeymsluhús Helga snikkara) ýst til á grunninum; þilskip eitt, Ingólfur, sem lá i fjörunni, hafði rekist á akkeri og það gengið í gegn um hliðina á skipinu. Margir standa uppi skipalausir og hafa því engin tök að leita sér bjargar úr sjó. Um nóttina hafði enginn farið út að bjarga bátunum; hafa haldið, að öllu væri óhætt, enda höfðu næturverðirnir, sem hér eru tveir, eigi látið nokkurn vita um þetta mikla brim.

ar-1888-rvk-2_thrystiritar-i

Jónas segir frá illviðrinu aðfaranótt 22. í pistli sem birtist þann 28.:

Fyrsta dag vikunnar (21.) var landsynningur (NA). hægur að morgni og ýrði snjór úr lofti. eftir hádegi koldimmur með byl af austri og ágerðist veðrið og ofanhríðin til kl. 4-5 e.m. þá fór að rigna um stund og var bálhvass á austanlandsunnan (SA). Um nóttina (aðfaranótt h.22.) gekk hann til útsuðurs og gjörði aftaka hafrót og gekk sjór kl. 4-5 að morgni á land upp, langt upp fyrir venjulegt flæðarmál; daginn eftir, 22., brimrót en hægð á veðri. Síðan hefur verið norðanátt. þó ekki hvass. Enn er aðeins föl á jörðu; frostharkan heldur að aukast. Í dag 27. rétt logn og bjartasta veður, en kaldur.

Veðurathugunarmaður í Vestmannaeyjum segir frá veðrinu þann 21. til 22. í skýrslu til dönsku veðurstofunnar (lausleg þýðing ritstjóra hungurdiska):

Um miðjan dag þann 21. var vindur hvass af austri (4 stig) og hélt þeim styrk þar til um kl.7 um kvöldið. Þá snerist hann snögglega til suðsuðvesturs, um 4 stig, með stormhviðum og miklum haglhryðjum sem náðu hámarki í sérlega snörpu éli („yderst rasende byge“) um kl. hálf tólf. Í þeirri hryðju kom þruma, sú eina sem heyrðist. Aftur á móti sást fjöldi eldinga um kvöldið og nóttina - án þess að þrumur heyrðust. Sjór gekk mjög hátt um nóttina og morguninn eftir, sérstaklega á eynni sunnan- og vestanverðri, svo mjög að elstu menn muna ekki að sjór hafi þar nokkru sinni gengið jafnhátt. 

Desember. Vindasöm tíð, hlóð niður snjó um sólstöður.

Þjóðólfur birti þann 21.desember nokkur fréttabréf:

[Eyjafjörður 30.nóvember]: Tíðin er óstöðug; mikill snjór fallinn hér i öllum sveitum og jarðbönn víða.

[Húnavatnssýslu 4.desember]: Veturinn er fyrir alvöru genginn í garð. Síðan eftir miðjan næstliðinn mánuð hafa verið hér öðru hverju hríðarköst og komnar eru allmiklar fannir. Sumstaðar kvað enda vera jarðlítið eða jarðlaust.

[Dalasýslu 7.desember]: Héðan það helst að frétta, að tíðin hefur verið hin ákjósanlegasta i haust, stöðugir suðaustan þíðvindar til 19. f.m.; þá brá til snjóa og gerði blota og áfreða, svo viða varð mjög haglítið, einkum til fjalla, en 5. þ.m. skipti aftur um til hláku og sunnanáttar. Skepnuhöld eru hér ágæt og heimtur í haust fremur góðar.

Þjóðólfur segir frá þann 7.desember:

Aftur komin hláka og besta veður, því nær alauð jörð í lágsveitum. ... Fiskilítið er nú orðið á Innnesjum, en afli nokkur í hinum syðri veiðistöðum við Faxaflóa.

Jónas segir frá þorláksmessulægðinni miklu í pistli þann 27.:

Fyrstu tvo dagana var hér logn; 21. var hér útnorðanbylur allan fyrri part dags og kyngdi niður talsverðum snjó. 22. hægur útsynningur með byljum. 23. var hér að morgni dags austanveður, hvasst með krapasletting, gekk síðari part dags til landnorðurs og um kl.4-5 var hér svo að kalla logn, en allt í einu fyrst á sjötta tímanum hvessti á austan landsunnan og gjörði afspyrnu-rok milli milli 6 og 7, og var veðrið mest er hann gekk til útsuðurs; kl.7 fór svo að lygna og varð vægari á útsunnan. Loftþyngdamælirinn hafði aðfaranótt h.23. fallið mjög mikið og var sí-fallandi allan sunnudaginn, og klukkan rúmlega 6 um kveldið var hann kominn niður í 27,4 = 697 mm (= 929,3 hPa); kl.7 fór hann þegar aftur að hækka. Í öll þau ár, sem ég hefi haft aðgæslu á loftþyngdarmæli, hefir hann aldrei komist svona langt niður, enda mun það mjög fátítt að hann komist 63 millimetra niður fyrir vanalega stöðu. Síðustu dagana hefir haldist hægur útsynningur með talsverðri snjókomu. 

Jónas notar greinilega enska loftvog - einingin er enskar tommur - hann miðar einnig við 760 mm sem „venjulega stöðu“, en það er ríflegt hér á landi. 

ar-1888-rvk-2_thrystiritar-ii

Veðurathugunarmaður í Reykjavík fylgdist sérstaklega með loftvoginni þennan dag og las lægst 697 mm milli kl.5 og 6 síðdegis. Hann getur ekki um hita á loftvoginni á sama tíma, en sá sem fór yfir athuganir á dönsku veðurstofunni nefnir töluna 695 mm - eftir hitaleiðréttingu. Klukkan 2 var hiti á loftvoginni 21,5 stig, en 14,5 stig kl.22 um kvöldið. 695 mm eru 926,7 hPa. Þá á eftir að bæta við þyngdarleiðréttingu, (um  1,5 hPa) og hæðarleiðréttingu (um 0,7  hPa). Útkoman er um 929 hPa. 

Veðurathugunarmaður í Vestmannaeyjum segir um loftþrýsting þann 23. (í lauslegri þýðingu ritstjóra hungurdiska):

Klukkan hálffimm síðdegis þann 23. stóð loftvog í 704,3 mm, en tók síðan að rísa. Á sama tíma sló vindurinn sér úr austsuðaustan 5 stigum í sunnan 5 stig og kl.7 í suðvestan 5. 

Talan sem nefnd er er óleiðrétt - leiðrétta þarf vegna hita, þyngdar og hæðar yfir sjávarmáli. Þegar það hefur verið gert er útkoman 941,0 hPa. 

Fjallkonan segir þann 30.janúar 1889 fréttir af tjóni í þorláksmessuveðrinu:

Skaðar af ofviðri. Á Þorláksmessu, 23.f.m., var aftaka sunnanstormur sem gerði víða tjón. Fauk þá kirkjan á Narfeyri, er frú Ingibjörg á Skarði átti; hún var nýbyggð, en ekki fullger innan og gluggar ósettir í hana. Í sama stormi fauk hlaða með járnþaki á Þorbergsstöðum í Laxárdal; þakið vafðist saman i stranga og fauk út að túngarði. Þá fauk og hlaða með járnþaki á Þingnesi i Borgarfirði, og hlaða með 30 hestum af heyi á Rauðanesi í Borgarhrepp.

Fréttir af sama veðri má finna í bréfi úr Dölum sem dagsett er 17.janúar 1889 og birtist í Þjóðólfi þann 29.janúar - einnig er getið frétta af Ströndum og úr Húnavatnssýslu:

„Á Þorláksmessu gerði aftakaveður af suðri. Mest var veðrið um kveldið frá kl. 9-12, enda er það eitthvert hið hvassasta veður, er menn muna hér eftir. Á Þorbergsstöðum í Laxárdal fauk járnþak af heyhlöðu. Á Narfeyri á Skógarströnd fauk ný timburkirkja, sem komið var langt með að endurbyggja, og brotnaði í spón".

Af Ströndum er skrifað, að ofveðrið hafi verið „óminnilegt", og úr Húnavatnssýslu, að það hafi verið „ofsaveður með fannkomu af suðvestri. Sumstaðar gerði það skemmdir á húsum og heyjum.

Tjóns er einnig getið í bréfi af Mýrum sem dagsett er 27.janúar 1889 og Þjóðólfur birti þann 8.febrúar:

Í „bátabrjót" (ofviðrinu í nóvember f.á.) brotnaði einn bátur í Straumfirði (lóðsins).  Í „jólarokinu" brotnaði bátur á Litlu-Brekku (báturinn var í nánd við Langá, þar sem sjórinn gengur í hana). Þá fauk og þak af hlöðu í Rauðanesi í Borgarhreppi og á Þingnesi i Borgarfirði (hvorttveggja timburþök). 

Þann 28.desember segir Þjóðólfur frá tíð:

Rétt fyrir og um jólin hefur hlaðið niður miklum snjó, svo að nú mun víða vera haglítið, einkum af af því að spilliblota gerði 23. þ.m. Ofsaveður gerði hér á áliðnum degi 23. þ.m. af útsuðri; en eigi hefur frést, að það hafi gert neinar stórskemmdir, enda stóð það eigi nema fáar klukkustundir.

Lýkur hér að sinni samantekt hungurdiska um tíðarfar og veður ársins 1888. Finna má ýmsar tölulegar upplýsingar í viðhengi. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg200125c
  • w-blogg200125g
  • w-blogg200125f
  • w-blogg200125e
  • w-blogg200125d

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 31
  • Sl. sólarhring: 127
  • Sl. viku: 2478
  • Frá upphafi: 2434588

Annað

  • Innlit í dag: 28
  • Innlit sl. viku: 2202
  • Gestir í dag: 28
  • IP-tölur í dag: 26

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband