Sé rétt reiknað

Sé rétt reiknað verður veðrið næstu viku (6. til 12.ágúst) með nokkuð öðrum hætti en algengast hefur verið að undanförnu. Við lítum hér á eftir á háloftaspá evrópureiknimiðstöðvarinnar, en fyrst skulum við sjá meðalkort júlímánaðar (þökkum Bolla fyrir kortagerðina).

w-blogg030818b

Heildregnar línur sýna meðalhæð 500 hPa-flatarins í júlímánuði, en strikalínurnar þykktina. Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Litirnir gefa til kynna hversu mikið þykktin víkur frá meðaltali áranna 1981 til 2010. Við tökum eftir því að hiti var ofan meðallags í júlímánuði á mestöllu svæðinu sem kortið sýnir - en minnst þó fyrir suðvestan land. Þó hlýnað hafi frá fyrri mánuðum er sem fyrr langhlýjast yfir Skandinavíu og Evrópu norðvestanverðri. 

w-blogg030818a

Síðara kortið sýnir spá sem nær til næstu viku, 6. til 12.ágúst. Hér hefur skipt um, mestu jákvæðu vikin eru þar sem hvað kaldast var fyrr í sumar. Neikvæð vik fylgja hins vegar norðanátt austan Íslands. Háloftavindar liggja hér úr norðvestri yfir landið í stað þess að hafa verið úr suðvestri í mestallt sumar - og líka í júlí eins og sá mátti á fyrra kortinu. Hér er kuldinn austurundan afleiðing norðanáttarinnar sem þar á að ríkja. 

Sé þessi spá rétt verða allmargir norðanáttardagar í næstu viku - með heldur köldu veðri. Við skulum samt vona að við sleppum við alvarlegar árásir úr Íshafinu. 

Reiknimiðstöðin framreiðir síðan spár enn lengra inn í framtíðina. Það er merkilegt að spáin fyrir næstu viku á eftir (13. til 19.) virðist sýna allt falla aftur í sama far og hefur verið til þessa í sumar - sama á síðan við sé litið enn lengra fram í tímann.  

Eins og venjulega verður að minna á að spár eru bara spár, ekki raunveruleikinn sjálfur. Hann kann að verða með öðrum hætti. 

En nú er hásumar - um það bil vika í þá daga þegar vestanvindar veðrahvolfs á norðurhveli eru í lágmarki að meðaltali og um þrjár vikur þar til vindsnúnings fer að gæta í heiðhvolfinu. Fjórar vikur (tæpar) eru til höfuðdags, en þá fer nýr vetur að fæðast á eyjunum miklu norðan Kanada. Um 6 vikur eru í lágmark hafísútbreiðslu norðurslóða og nærri sjö til jafndægra. Ellefu vikur eru eftir af íslenska sumrinu og 20 fram að sólstöðum. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • w-blogg030425c
  • w-blogg030425b
  • w-blogg030425a
  • w-blogg030425i
  • w-blogg020425b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (4.4.): 19
  • Sl. sólarhring: 390
  • Sl. viku: 1941
  • Frá upphafi: 2457926

Annað

  • Innlit í dag: 19
  • Innlit sl. viku: 1763
  • Gestir í dag: 19
  • IP-tölur í dag: 19

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband