Við miðsumar (í skyndingu)

Nú eru liðnar 14 vikur af íslenska sumrinu. Sumarmisserið er venjulega 26 vikna langt, en að þessu sinni er sumarauki þannig að ein vika bætist við. Sumaraukavikan hefur ekkert með veður að gera (þó ekki veitti af um landið sunnan- og vestanvert að þessu sinni) heldur er hlutverk hennar það sama og hlaupársdagsins - sér til þess að misræmi safnist ekki upp milli tímatals og sólargangs. - Tæknilega er sumaraukavikan ekki sú síðasta í sumri, heldur er henni skotið inn nærri miðsumri. Núlíðandi vika er sumarauki. Í ár er miðsumar samkvæmt tímatalinu þann 29.júlí. Frá miðsumri fóru menn að telja niður til veturs - 13 vikur (búnir með sumaraukann og svonefndar aukanætur - (sumardagurinn fyrsti er á fimmtudegi, en fyrsti vetrardagur á laugardegi)).    

En 15. vika sumars hefst á morgun, fimmtudaginn 26.júlí. Mikil umskipti urðu í tíð skömmu eftir sumardaginn fyrsta - og hefur haldist svipuð síðan að því leyti til að óvenjulegt sólarleysi hefur verið ríkjandi um landið suðvestanvert með miklum úrkomum og nokkuð svölu veðri, en hlýindi hafa gengið norðaustan- og austanlands. Úrkoma hefur þar þó verið mjög mismikil - sums staðar furðumikil, en annars staðar minni. 

Á Austfjörðum verða hlýindin að teljast óvenjuleg. Meðalhiti fyrstu 14 vikur sumars á Dalatanga er 7,5 stig, 0,5 stigum ofar en það hlýjasta til þessa þar um slóðir að minnsta kosti frá 1949 að telja. (Ritstjórinn hefur enn ekki reiknað daglegan meðalhita á Dalatanga 1939 til 1948 - enda liggur hitinn þar óskráður á stafrænt form). Það sem af er júlí hefur þó heldur slegið á hitavikin jákvæðu eystra - enda áttin orðin ívið suðlægari og jafnvel suðaustlægari en var fram að því.

Í Reykjavík hefur aftur á móti verið heldur svalt, meðalhiti þar fyrstu 14 vikur sumars er aðeins 7.7 stig. Ómarktækt kaldara (7,6 stig) var á sama tíma 2015, en síðan þarf að fara aftur til 1993 til að finna jafnlágan meðalhita fyrstu 14 sumarvikurnar - á eldri tíð er slæðingur af lægri tölum.

Úrkoman hefur hins vegar verið óvenjulegri, mælst hafa rúmlega 300 mm í Reykjavík vikurnar fjórtán, það mesta sem vitað er um sömu vikur - næstu tölur eru um 250 mm, 2014 og 1887. 

Svipað er að segja um sólarleysið. Aðeins mældust 343,7 sólskinsstundir í Reykjavík, það minnsta sem vitað er um fyrstu 14 vikur sumars - en ómarktækt minna en á sama tíma 1913,  1914 og 1984. 

Góðu tíðindin eru þau að svo virðist sem heldur hlýrri dagar séu framundan (þó varla þurrir) - hvað sem hlýjan svo endist er annað mál. Langtímareikningar sýna engar marktækar breytingar á veðurlagi á næstunni - og þó lengri framtíð sé auðvitað fullkomlega frjáls er það samt þannig að júlí og ágúst spyrða sig oftar saman hvað veðurlag varðar heldur en aðrir almanaksmánuðir - þeir einu reyndar sem sýna einhvern marktækan samvinnuvott. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg211124a
  • w-blogg181124a
  • w-blogg151124c
  • w-blogg151124b
  • w-blogg151124a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 578
  • Sl. sólarhring: 734
  • Sl. viku: 2373
  • Frá upphafi: 2413393

Annað

  • Innlit í dag: 542
  • Innlit sl. viku: 2142
  • Gestir í dag: 535
  • IP-tölur í dag: 522

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband