16.8.2018 | 23:02
Af árinu 1823
Árið er ef til vill helst í minnum haft fyrir Kötlugos sem hófst 26.júní. Eyjafjallajökulsgosinu var lokið, en þó sást rjúka úr tindi hans stöku sinnum. Kötlugosið var minna en þau næstu á undan. Aska lagðist fyrst um Mýrdal og mikill vatnagangur var á Mýrdalssandi. Annað gos mun hafa orðið í Vatnajökli fyrr á árinu, en fregnir af því eru harla óljósar. Veðurdagbækur úr Eyjafirði geta reykjarmóðu um sumarið - líklega er hún tengd Kötlugosinu.
Jón Þorsteinsson mældi hita í Nesi við Seltjörn og má ráða hitafar um landið sunnanvert af mælingum hans. Svo virðist sem fremur hlýtt hafi verið þar í janúar, apríl og júlí, en kalt í febrúar, mars, maí, júní, október, nóvember og desember. Sérlega kalt var í maí - fram yfir þann 20. og einnig virðist hafa verið mjög kalt að tiltölu í október.
Eins og venjulega er stafsetning að mestu færð til nútímahorfs.
Annáll 19.aldar dregur saman tíðarfar ársins:
Um veturinn frá nýári var árgæska hin mesta yfir allt land, og hélst hún, að minnsta kosti syðra, fram í maí. Eftir það kom ótíð mikil með kuldum og hretum nyrðra; gjörði þann snjó um hvítasunnu {18.maí], að hestum tók í kvið á jafnsléttu og lá hann sumstaðar í fulla viku eða meir. Þurrara var þá syðra, en þó hretasamt, varð grasvöxtur víðast lítill nema undir Eyjafjöllum og þar í grennd. Mátti hann kallast þar í besta lagi. Nýting var góð syðra, en hin bágasta nyrðra. Kom snjór snemma um haustið og urðu hey víða úti. Var síðan hörð tíð til ársloka.
Ís kom seint í júní og lagðist um Vestfirði og norður með landi. Eystra og syðra var hlutatala í hæsta lagi og eins undir Jökli, en víða var fiskur talinn í rýrara lagi að vexti. Í apríl voru nær 150 smáhveli rekin á land í Njarðvíkum og á Vatnsleysuströnd, í september álíka mörg á Útskálareka, og viku síðar 450 á Seltjarnarnesi [þ.17.]. Fuglaafli við Drangey í betra lagi.
Grái ferillinn á myndinni sýnir hitamælingar utandyra, en þær sem merktar eru með rauðu sýna hita í óupphituðu herbergi á norðurhlið Nesstofu. Við sjáum að ferlarnir fylgjast gróflega að, en sveiflur eru mun minni inni við heldur en úti. Sömuleiðis virðist húsið halda allgóðum varma í haustkuldunum. Árið 1823 mældi Jón hita um hádegið.
Kuldakastið í maí sker sig nokkuð úr, þá fór frost á útimælinum í -5 stig. Sömuleiðis eru júníkuldaköstin nokkuð snörp - það fyrra ofan í góð hlýindi í síðustu viku maímánaðar. Hiti var yfir 15 stigum á hádegi á hverjum degi mestallan júlímánuð.
Loftþrýstingur var lengst af mjög hár í janúar, meðaltalið hefur ekki mjög oft verið hærra, en í febrúar og mars var tíð órólegri. Óvenjulítil hreyfing var á loftvog í apríl og maí, en um miðjan júní komu nokkrir dagar með óvenjuháum þrýstingi. Mögulega hefur þá orðið mjög hlýtt í innsveitum - alla vega einhvers staðar á landinu.
Brandsstaðaannáll:
Sama veðurblíða hélst í janúar. Fyrri part febrúar gerði frost og snjó, en gott jarðlag, seinni part blotar og og góðviðri. Í mars óstöðugt, lengst þó allgott. Hríðarkast í góulok um 3 daga, svo góðviðri á eftir og auðar heiðar.
Með sumri, 24. apríl, kom norðanfjúk og kuldi með hörku, svo féð var inntekið á gjöf til hvítasunnu., 18. maí. Mikla hríð gerði 2 maí og stórhríð laugardag 17. maí. Eftir það gott veður og gróður.
Aftur með júní frost og norðankuldar um 9 daga, svo lítill gróður dó út af, síðan oft vestanátt, hvöss og köld og aftur milli messna [þ.e. Jónsmessu, 24, júní og Pétursmessu og Páls, 29. júní] frost og hret, er víða frestaði fráfærum, með (s88) norðanstormi, er verndaði landið fyrir sandfalli úr Eyjafjalajökli [reyndar Kötlu]. Sumir færðu frá 2.júlí og lestir fóru suður 5.-7. og almennt með allar vörur sínar. Gaf þeim vel, því sífellt voru þurrviðri og næturfrost. Mesta grasleysi var nú þegar yfir allt. Sláttur byrjaði 28.júlí. Hafði slíkt grasleysi ei orðið 21 ár. Þurrkar, kuldar og þokur gengu til 24.ágúst, eftir það sunnan-og vestanátt, þó sjaldan rigningar.
Í göngum 14. sept. mikið hret og snjór um 4 daga og votviðri á eftir. Síðslegið hey náðist 1. okt. Þar eftir þurrviðri og miklar hörkur, 15.-16. okt þíða, svo óstöðug vestanátt til 27., þá hríðar og hörkukast 9 daga, þaðan mjög rosasamt með vestanátt og ofsaveðrum. Jólafasta hin versta, með hríðum úr öllum áttum. Mikill áhlaupsbylur þann 11. Hrakti fé víða og menn kól. 7. des spillibloti og 21. jarðleysi. Hross víða tekin inn. Hér með kom varla kafaldslaus dagur. ... Hey voru sáralítil. (s89)
Klausturpóstur Magnúsar Stephensen lýsir tíðarfari ársins 1823 allnákvæmlega í nokkrum pistlum.
Klausturpósturinn 1823 (VI, 3, bls.46)
Sérlegasta árgæska til lands og sjávar, mildasta og besta vetrarfar, og ríkuleg blessan af sjó gleður í ár allt Ísland. Veturinn, sumri líkur, framfleytir skepnunum við bestu hold og höld. Sjórinn hleður nú þegar veiðistaðanna fiskiskip austan- sunnan- og vestanlands óvenjulega snemma, mikilfengum afla. Eyjafjallajökull vonast að mestu genginn vera til gamallar hvíldar. [...] Óheillir spyrjast og fáar: Þó brann nokkuð af bæjarhúsum Sigmundarstaða í Borgarfirði. Ein kona skammbrenndi sig þar og 6 gemlingar köfnuðu í þeim.
Klausturpósturinn 1823 (VI, 4, bls.62)
Mildi og blíða vetrarins viðhelst, en fiskiafli tjáist lítill enn þá austanmeð, eður í sunnanverðu landi. Í Faxafirði samt víða dágóður, enn þótt af rýrðar fiski. Hér um 150 smáhvalir vóru reknir á land á Strönd og í Njarðvíkum. Í febrúar sáust reykjarmekkir í óbyggðum uppundan Síðusveit í Vestur-Skaftafellssýslu, hér um 4 mílur þaðan rétt í norður eða norðaustur; halda menn þar framkomin ný eldsupptök í Skaftárjökli nálægt fornu eldgos opi hans, en vita þó enn ógjörla staðinn. Ennþá fara samt hingað litlar sögur af því nýja gosi, nema að þann 14. febrúar féll með norðanstormi nokkur aska gráleit á Síðumanna- og Skaftártungusveitir. Máski lendi þar við, eða það verði vægt, sem Eyjafjallajökuls, hvers óskaðnæm dampa-gufa sést enn við og við.
Klausturpósturinn 1823 (VI, 6, bls.97)
Sú vetrarblíða og sá ríkulegi fiskiafli, sem ég í no.4 á bls.62 nefndi, viðhéldust stöðugt til þess í maí, en í þessum mánuði gjörði langsöm, hörð áhlaup með sífelldum stormum, kulda steytingi, frostum og um sjálfa hvítasunnu miklum kafalda og snjóa kyngjum allvíða; allur fénaður fékk þá í mörgum héröðum innistöður; hey og útigangur, þó nægir hagar og góð vetrar veðurátt stöðugt héldust við, reyndust mjög þrotalétt, uppgangssöm og dáðlaus; fénaður þreifst sárilla víða; lömb og ær féllu hrönnum í ýmsum sýslum; hross gengu mögur fram, en nokkur féllu; mjólk gafst óvíða af heyjum. Fiskiafli þar á mót varð hinn frábærasti austan- og sunnan-lands, rétt við landssteina, eins kringum Snæfellsjökul; fiskur þó allstaðar magur og rýr. Undir Eyjafjöllum þreifst útiganspeningur betur, en kýr sárilla, og urðu þar nokkrar sem víðar, reisa, hvað sumir eigna þar liða- og beinaveiki. [Hér fylgir frásögn af leiðangri Magnúsar Sigurðssonar á Leirum á Eyjafjallajökull á hvítasunnu 19. maí].
Klausturpósturinn 1823 (VI, 7, bls.111)
Frá vorri eyju er fátt gleðilegt að fregna. Ógæftir í vor gjörðu afla af sjó víða sár-rýran. Sífelldur kuldasteytingur og þurrkar til þessa í flestum héruðum gróðurlausa jörð, nema í Eyjafjallasveit, hvar hann frábær gafst, en málnytin annarstaðar víða sár-gagnlausa til þessa, hvará bætist að hafísar seint í júní umspenntu Vestfirði, en ekki er enn sannfrétt um norðurstrendur Íslands, eða um Austfirði, og reyndust hestar því mörgum sár-magrir og þróttlausir, eftir þann milda vetur. Nýr, óttalegri jarðeldur tjáist, þann 22ann junii þ.á. uppkominn í Mýrdalsjökli, sem sést hefir glöggt bæði úr Vestmannaeyjum og Árnessýslu, en lengra að austan er fregn enn ókomin, er þetta ritast (þ. 5.júlí). Eftir afstöðunni halda og segja menn hann vera úr Kötlugjá gosinn, sem nú í 68 ár hefir þó hvílst eður frá 1755, þá gos hennar varð mjög skaðvænt. Í flugufregn er að lestarferðir úr Skaftafellssýslu senn þá teppist, vegna geysilegs falls ösku og vikurs og vatnsflóða úr jöklinum, einkum fyrir Mýrdalssveit, en til eldbjarmans má um nætur sjá jafnvel af Seltjarnarnesi. Á ný útkomið kaupskip í Hafnarfirði féll þ. 28. 29.júní mikið af bláleitri ösku, þá í 20 mílna fjarlægð, en sannfrétt er nú þ. 6.júlí að eldgosið hafi bylt miklum jökulhlaupum fram í haf, lagt mikið af út Mýrdalssveit undir leðju og vatnsflóðu, og eyðilagt Sólheima jörð m.fl.
Klausturpósturinn 1823 (VI, 8, bls.128)
Árgangur: Sami kuldasteytingur, þurrkar, norðanstormar og oftast brunasólskin viðhelst til þessa (7. ágúst) og gjörir jörð allvíða mjög gróðurlitla, en slátt harðan og seinfæran, svo til stórfellis heyjapenings horfir í mörgum sveitum. Þurrkarnir ýttu mörgum kaupskipum snemma héðan frá landi, svo flest syðra munu farin í miðjum ágúst. [Lýsing Sveins Pálssonar á Kötlugosinu er á bls. 129] [Lýsing á ferð Séra Jóns Austmann á Mýrdalsjökul 12. ágúst byrjar á bls. 144 (9. tölublaðs)].
Klausturpósturinn 1823 (VI, 10, bls.160)
Sumarið kveður oss þegar; reyndist fyrir norðan og austan kalt og óþerrasamt, víðast hvar um land gróðurlítið, helst á mýrarjörðum, en syðra og vestra sífellt heitt og þurrt, svo taða varð mörgum rýr og brann af hörðum túnum; sumstaðar engu minni en venjulega, og sérlegasta nýting í þeim síðari landsplássum, bætti úr margra grasbresti. Á Mikaelsmessu mátti þar enn velta sér um venjuleg kviksyndi að harðvellu orðin, og í ár voru þar slegnar starartjarnir og seilur, út í hver enginn áður, sem botnlaus áræddi.
Espólín segir frá heldur hraklegu síðsumar- og haustveðri nyrðra:
CXXXII. Kap. Þá var jafnan kalt, með hríðum fyrir norðan, og áðu sumri lauk gjörði klyfjabrautir af snjóum, urðu hey úti, og tók fyrir allan heyskap fyrir norðan Yxnadalsheiði, en náðist lítið þaðan af; var hvervetna lítið heyjað, og nýtingin ill, en veðrátt stilltist aldrei eða mýktist, og tók þar við eðlilegur vetur sem þraut vetrarveður sumarsins. Afli var þó þá mikill fyrir norðan land á útkjálkum; viðrekar höfðu einnig allmiklir verið. (s 139).
CXXXV. Kap. Þá gjörði þegar óstöðugt vetrarfar, og illt til jarða fyrir norðan land, urðu sumstaðar menn úti, og horfði mjög þunglega, þó það yrði ei mjög að meini fyrir þá skuld, að gott kom á eftir seinna. (s 142).
Suðurnesjaannáll greinir frá því að skip Bjarna Sívertsen í Hafnarfirði hafi strandað í október á innsiglingunni á Naustarifi innan Útskála. Mannbjörg varð og eitthvað af farmi náðist.
Sveinn Pálsson lýsir í skýrslu sinni um Kötlugosið (birt í Safni til sögu Íslands bls.264 og áfram) veðurlagi fyrir gosið:
Ofan á nær því frostalausan og snjóalítinn vetur, allt fram um sumarmál 1823, fylgdi í kaldara lagi vor, að framanverðu óstöðugt, snjóasamt með hörðum frostaköflum og landnorðanstormum, þá líkara lagi gróðri hér eystra nálægt fjöllum, þangað til um trínitatishelgi seint í maímánuði, að veðrið snerist upp í stöðuga norðlæga þyrringa með náttfrostum og sífeldum brælum eða þræsingsvindum á austan eða vestan, hvort heldur loftið var þykkfengið eða heiðríkt, svo nú tók nálega fyrir gróður, er menn mest kenndu um hafísum, til hverra fréttist úr Múlasýslu, kringum Langanes til Hornafjarðar, jafnvel síðast í aprílmánuði. Vertíðarfiskirí var hér í Mýrdal í betra lagi en allt fiskikyn óvenjulega magurt og lifrarlítið, hvað þá helst var eignað þeim í fyrravetur geysandi eldi í Eyjafjallajökli, jafnvel þó menn ekki til vissu hann síðan næstliðin jól (1822) gosið hefði öðru en hvítum vatnsgufureyk. Eftir því tóku fleiri en færri á ofanverðu sumri 1822, að allur austari hluti Mýrdalsjökuls um kring og niður frá Kötlugjár afstöðu var sem lækkaði, svo ýmsir hnjúkar þar í nánd virtust komnir fram, er ei sáust áður. Þó var auðsýnileg þessu samfara einhver þurða í jökulvötnum á Mýrdalssandi allt þetta vor, fram undir hlaupið, svo að í Múlakvísl og Eyjará, sem koma undan vestanverðum Kötlufalljökli, hvar oftast hefur hlaupið, sást ekki jökulvatnslitur og lítið eitt í Leirá.
Þann 26, júní sama ár um morguninn einsog nokkra daga á undan, eindræg norðanátt, þó hér vestra ekki sérlega hvasst, en jökullinn í fullt norður frá Vík svo óvenjulega bunkaður hvítum skýjum, hverju á bak við annað og ofan á öðru eins og ofsaveður eða mesti kafaldsbylur væri í vændum, úr hverju þó ekkert varð hér, heldur fór sem sjatnandi fram um miðjan dag, gjörði hægviðri og útrænu vestra, en þó áttin væri einlæg norðan.
(s285): Þ. 19. [júlí] fóru fyrst að berast hingað fréttir úr útsveitunum [þ.e. að vestan] með heimkomandi kaupferðamönnum, seint í næstiðinni viku. Segja þeir slíka þyrringa vestra, að varla mætti sig væta á sokkaleistum í Flóa, og hvervetna sárauman grasvöxt, lengst af næturfrost, og svo kalt, að trautt höfðu menn getað haldið sér vörmum. Að norðan besta árferði og hafísar á burtu.
(s288-89): Síðasta dag júlímánaðar var svo fjallabjart, sem orðið gat, gafst þá besta sýni yfir allan jökulinn, hvar þó var tilsýndar neðan frá rótum einsog kolsvartasta, nýtt brunahraun alt vestur á Sólheimajökul, að fráteknu allra efst kringum eldvarpið, hvar auðséð var, að snjór hafði drifið, síðan eldurinn dó, líklegast sunnudaginn næstan eftir, er allan daginn var hlýindaregn í byggð niðri. Um þessar mundir skipti aftur um veðurátt, til sömu en hvassari norðlægu þyrringa, sem áður voru, og þá sjaldan að úrkomu gjörði var það snjór til fjalla, alt til hins 18. ágúst. Varð ekki á haganlegra kosið úr því sem ráða var hér í Mýrdal og Álftaveri, hvar mestum sandi hafði rignt, því nú reif hann svo öfluglega af og dreif í sjó út, að strax var sjónarlegt, víðast mundi jörð jafngóð verða. Og svo var megnt sandkafaldið um kring Sólheima þann 3. ágúst, að ekki sást til um hádaginn að lesa sunnudagshúslesturinn. Eftir þann 18. dró áttin sig meir til hafs og rigninga, og þess á milli austanstorma, hvað allt lagðist á jafntök í að sundurþvæla og burtu feykja sandinum, en láta það fínasta rigna niður í jörðina til að snúast henni upp í bestu frjóvgun eftirleiðis.
Þannig lauk nú eldgosi þessu á 28 dögum, og verður ekki annað með sanni sagt, en að það hafi gjört langminnst af sér allra þeirra, er menn nú vita og þekkja til, líklega
þess vegna, að vatnsmegnið í sjálfu eldvarpinu hefur aldrei orðið svo mikið, að brotið gæti töluvert af falljöklinum, né borið með sér fram yfir sandinn, einsog í hinum fyrri hlaupum. En í þess stað sýnist, sem fá hlaup hafi eftir skilið eins mikinn jökulaur á Mýrdalssandi, sem þetta, hækkað hann allan og fyllt alla farvegi og lágar, svo hann nú er að kalla sléttur, og virðist góðum mun fljótari yfirferðar en áður, einkum á Tunguveginum.
(s291) ... þó gjörðu hauststormarnir, sem áður er á drepið við 30.júlí, að burtu feyktu strax ógrynni þaðan af sandi, ásamt regn, frostleysur og blíðviðri frá veturnóttum allt fram á jólaföstu, er heldur mátti kalla og var gróðrar en vetrar veður, það að verkum, að bæði hestar og fé komust þar vel af veturinn næsta á eftir, ...
Ólafur Eyjólfsson á Uppsölum í Öngulstaðahreppi segir í dagbókarfærslu (ÍBR 36 8vo) daginn sem Kötlugosið hófst (26.júní): Krapahríð og kaldur norðanstormur fyrst, síðan hríðarél mikil. Þann 29. var hjá honum norðanbleytuhríð fyrst en síðan stórrigning. Dagana þar á eftir var talsvert skárra. Þann 5.júlí segir hann frá miklum hita. Þann 16. júlí fer hann að segja frá móðu - trúlega kemur hún frá Kötlugosinu og þann 23. og 24. nefnir hann beinlínis reykjarmóðu.
Reykjavík 21-1 1823 (Geir Vídalín biskup):
Frá sólstöðum til þess 13. janúar einlægar þíður með stormum á milli. Nú spakara veður með frosti og (s208) ekki rétt gott á jörðum. Norðlendingar úr Húnavatnssýslu komu hér fyrir skömmu, sögðu þeir þaðan sól og sumar. (s209) Í gærkveldi frétti eg eftir manni að austan, sem var nýkominn í Keflavík, að gosið úr jöklinum [Eyjafjalla-] skyldi hafa farið daglega minnkandi síðan á jólum, og nú seinast hefði hann engum sandi eða bleytu spúð. (s210)
Reykjavík 16-3 1823 (Geir Vídalín biskup):
... þó veturinn kannski ekki hafi verið að öllu leyti eins góður og konferensráð lýsir honum í Klausturgrána, hefur hann þó verið mikið góður, einkum síðan fyrir jól og til þess nú fyrir viku ... (s211)
Þess má geta að Geir var hér orðinn farinn heilsu. Þann 17. september kom mikil höfrungavaða kom inn á Reykjavíkurhöfn og voru hundruð rekin á land við Hlíðarhús. Biskup fór út og fylgdist með, en varð innkulsa í norðansteytingi sem þá gekk og lést fáum dögum síðar.
1-3 1823 (Jón Þorsteinsson athsemd):
som er paafaldende ulig den over forrige Vinter thi ligesom den forrige Vinter var temmelig stræng, dog meere ved idelige Storme og Sneefog end en höj Kulde Grad, saa er denni i begge henseende en af de mildeste Mand i nogle Aar har havet her.
Í lauslegri þýðingu segir hér að veturinn (fram til 1.mars) hafi verið sérlega ólíkur næstliðnum vetri. Sá hafi verið harður, ekki þó vegna frosta heldur vegna storma og skafrennings, en þessi aftur á móti einn sá mildasti sem komið hafi um margra ára skeið.
Viðeyjarklaustri 5-3 1823 (Magnús Stephensen):
(s39) Þó berst sú flugufregn eftir kalli að austan, að Öræfajökull sé tekinn til við að brenna, en því ei trúandi ...
Viðeyjarklaustri 14-7 1823 (Magnús Stephensen):
(s41) Ég kemst nú ei til, fyrr en um fáa daga, að rita um mikið útbrot úr Kötlugjá, hvörs fyrirboðar með jarðskjálftum, eldingum, stórbrestum skulu byrjað hafa 22. Junii, en útbrotið sjálft eiginlega 26ta næsteftir, þá geysi öskufall og vikur, og jökulstykki stór úr Mýrdalsjökli, í hverjum hún er, og byltust ofan yfir Mýrdalinn vestanverðan, og fram í sjó með ofsaflóðum, og setti undirlendið undi öskugrautar leðju. 3 bæir fóru hreint af NB í bráð, þarámeðal Sólheimarnir 100c jörð [jarðarmat hundrað hundruð]. Bændur flúðu með pening sinn í nauð, fátt eitt drapst, Mýrdalssandur varð og er enn ófær, svo lestamenn urðu austurfyrir að fara, og svo á Fjallabaki suður eftir að norðanverðu. Álftaver tjáist enn undir vatnsflóðum. ... Við og við fór gosum og jökulhlaupum fram til fyrsta júlí, síðan óglöggt frétt að austan, en vægð meiri á þaðan sögð. Gróðurleysi almennt, hafís á Vestfjörðum, og fyrir Ströndum og skammt fyrir utan Norðurland, sífelldir kuldasteytingar, þurrkingar og aldrei regn frá Aprílis byrjun. Kaupverslun hin aumasta. Fiskiafli góður, en sárgrannur. Eggvarp hið lakasta, og enn ei nóg hreinsað í vöggusvæfilinn orðið.
Hér er rétt að taka fram að það mun hafa verið öskufall mikið sem spillti hag Sólheimabænda en ekki jökulhlaup.
Viðeyjarklaustri 2-8 1823 (Magnús Stephensen): (s44)
... og ekkert merkilegt að rita, nema um sífellda ofsa-þurrka allt til júlí með langvinnum kulda en síðan megnum hitum. Af Kötlugjá fara nú í 1 mánuð litlar sögur, og engin merkileg gos hennar, síðan þau þrjú fyrstu, ... meina menn hún hafi stórum hægt á sér síðan, þó mokkur (svo) uppaf henni við og við sjáist héðan frá Viðey, og hefir hún enn ei orsakað skaða nema í Mýrdalssveit, og þar helst 3 bæjum í bráð, en engan mann eða skepnu þar enn drepið, því ei má henni kenna, að 6 dauðvona horær á Sólheimum þoldu ei hörð haglél í vor. ... þeirri síþurru og í vor langsamlega köldu veðurátt er samt að kenna sérlegasta gróðurleysi víðast hvar um land, svo sjáanlegt er að peningur munir hrönnum falla og lógast í haust, víðast til helmingar, sumstaðar meir vegna heyleysis, einkum skipti nú bráðlega um, sem óttast má, til langsamra úrfellis óveðra.
11-8 1823 (Hallgrímur Jónsson á Sveinsstöðum - Andvari 98/1973): (bls. 172)
Bág er nú tíð á fósturjörðu vorri, eldur uppi í Kötlu, grasbrestur mikill yfir mestallt land, og þar til sumstaðar svo sem hér um pláss stakir óþurrkar af sífelldum norðanþokum, fúlviðrum og snjóhretum á víxl.
Saurbæ Eyjafirði 25-9 1823 [Einar Thorlacius]
(s11) Rétt sem náttúran hefði gleymt vana sínum, fengum við eftir dæmafáan góðviðra- (s12) vetur, kalt vor með sífelldum kaföldum, gróðurlítið sumar, svo snjór hefur lengst af hulið öll fjöll og frostin allajafnt yfirtakanleg á þessu stykki norðanlands og víða hey undir fönn.
Tíð er lýst gróflega í vísum Jóns Hjaltalín. Hann minnist á vorhretin, þurra tíð um landið vestanvert, votviðri nyrðra og haust- og snemmvetrarhríðar.
Góðum vetur lýsir letur lands um haga,
kvikfé lét þó kanna baga
kuldahret um vorsins daga.
Missti engi lífgun lengi, lauka rætur
því ei fengu þroska bætur
þurrkar gengu dag og nætur
---
Hér varð vestra heyja brestur helst á töðum
nærði frest á neyð og sköðum
nýting best í flestum stöðum
Nyrðra mengi mætti lengi meiri regnum,
sem um engin svo hjá þegnum
sumars fenginn vætti gegnum
Rosum hreyfði haust og reifði hrími moldu,
líka dreifði fönn um foldu,
firðar leifðir hretin þoldu.
Byljir mestu fold um festu fanna köstu,
þjóðin lest af þreki höstu
þáði vestu jólaföstu.
Lýkur hér að sinni umfjöllun hungurdiska um árið 1823. Sigurði Þór Guðjónssyni er þakkað fyrir innslátt Brandstaðaannáls og Hjördísi Guðmundsdóttur fyrir innslátt Árbóka Espólins (stafsetningu hnikað hér - mistök við þá aðgerð sem og annan innslátt eru ritstjóra hungurdiska).
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 23:12 | Facebook
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.1.): 59
- Sl. sólarhring: 113
- Sl. viku: 2506
- Frá upphafi: 2434616
Annað
- Innlit í dag: 52
- Innlit sl. viku: 2226
- Gestir í dag: 52
- IP-tölur í dag: 46
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.