21.7.2018 | 14:08
Af árinu 1751
Lýsingar á veðurlagi ársins 1751 eru harla rýrar (finnst okkur). Nokkrir annálar fjalla þó um það - en virðast tyggja nokkuð hver eftir öðrum. Getið er um mikil frost og ísalög, en þó segir líka frá góðum vetri. Kannski hann hafi ekki verið mjög veðrasamur og gjaffrekur. Slæmt hret gerði um miðjan maí. Sumarið virðist hafa verið fremur hagstætt nyrðra, en dauft syðra. Samkomulag er um hagstætt haust og að það hafi jafnvel verið með besta móti.
Niels Horrebow mældi hita og loftþrýsting á Bessastöðum fram á sumar. Hitamælir hans var nú lengst af utandyra - nema í verstu veðrum. Þó ófullkomnar séu gefa þessar mælingar mikilsverðar upplýsingar um tíðarfarið.
Hér má sjá eina fjóra töluverða frostakafla, þann síðasta snemma í mars. Sömuleiðis er býsnakalt lengi um og fyrir miðjan maí. Við verðum að hafa í huga að mælirinn var illa kvarðaður, en varla mjög fjarri lagi samt. Það var -13°R frost á mælinum síðdegis þann 25.janúar. Ef um venjulegan R-kvarða væri að ræða jafngilti það -16,3°C. Horrebow segir um frostið í maí, að þumlungsþykkur ís hafi verið á vatni aðfaranótt þess 11. og næturfrost hafi haldist fram á aðfaranótt þess 24. Hann lætur þess getið að maí 1751 hafi einnig verið kaldur í Danmörku.
Horrebow nefnir sérstaklega hversu stórar loftþrýstisveiflur eru á Íslandi miðað við það sem hann þekkir í heimalandi sínu - og lætur þess getið að veður geti verið slæmt þó loftvog standi vel og gott þótt hún standi illa. Hér sjáum við að mikið háþrýstisvæði hefur ríkt við landið framan af febrúarmánuði, en loftvog stóð lengst af lágt í mars.
Það vekur athygli hversu oft Horrebow talar um mistur eða móðu. Lítið virðist vera um snjókomu á Bessastöðum þennan vetur. Vindur var oftast milli norðurs og austurs fyrstu mánuði ársins. Illviðrasamt var snemma í apríl. Fyrsta maí segir hann vera hina indælustu sumarblíðu. Þann 11. maí fraus hins vegar vatn í eldhúsinu á Bessastöðum. Rigningatíð var um miðjan júní og þann 17. var hvassviðri af suðaustri með helliskúrum og þrumum - síðdegis stytti upp. Þann 23.júní snjóaði í Esju.
Þó dagbók Jóns Jónasonar eldri á Möðrufelli sé með læsilegasta móti þetta ár er hún rituð á latínu. Þó ritstjóri hungurdiska skilji orð og orð treystir hann sér ekki til að lesa áreiðanlega úr. Færsla þriggja síðustu daga ársins er þó auðskilin - heldur hann:
29., 30. 31. [desember] bonus, sine gelu. Frostlaust góðviðri.
Vetri lýst í annálum. Hann virðist hafa verið nokkuð hagstæður suðvestanlands þrátt fyrir frost, fréttir af mannfalli og stórvandræðum norðaustanlands eru heldur óljósar - kannski má finna eitthvað meira þar um í öðrum heimildum:
Ölfusvatnsannáll: Vetur frá jólum með náttúrlegri veðráttu hinn allra besti. ... Tveir menn urðu úti fyrir vestan ...
Grímsstaðaannáll: Sá mesti frostavetur eftir jólin, einlægt út allan þorra, svo menn mundu þau ekki að nýjungu meiri. Riðið og runnið sjóarís um allar eyjar fyrir Helgafellssveit, Skógarströnd, Skarðsströnd, einnig Breiðafjarðareyjar undan Reykjanesi, sem og Breiðasund milli Brokeyjar og nálægra eyja, einninn milli Öxneyjar og Hrappseyjar, allt Breiðasund, jafnvel yfir um röstina milli Purkeyjar og Rifgirðinga. Tvö skip brotnuðu á Hjallasandi um veturinn, það fyrra í ís á þorranum, nálægt Brimnesi. ... Hið annað skipið brotnaði við urðina á sandinum, að segja í mola, og það í litlu brimi; allir mennirnir komust af óhindraðir; þetta skeði á góunni. ... Meðalfiskiár í kringum Jökul, en allrabesta nýting á fiskinum alstaðar, eins eldiviðar og heyja alstaðar þar til spurðist á landinu, en harðindatíð upp á bjargræði norðan í Þingeyjarsýslu, svo fólk flosnaði þar upp, jafnvel prestar. Eyddust yfir eða um 40 bæir nálægt Langanesi, og sumt fólkið þar nálægt af harðrétti út af dó.
Sauðlauksdalsannáll: Árferði hart á Íslandi, vetur frostamikill af hafís, sem öndverðan vetur umgirti Norðurland. Peningafellir í Múla- og Norðursýslum mestur, en víða bjargarskortur. Sókti suður uppflosnað fólk að norðan.
Vatnsfjarðarannáll yngsti: Vetrarfar frá nýári til sumarmála sæmilegt,
Höskuldsstaðaannáll: Veturinn var hríðasamur og harður. Rak ís að og inn á gói, allur Húnafjörður uppstappaður. Gengu menn á Skagaströnd á ísinn, drógu hákarlinn hrönnum upp um vakir og báru á land á hestum.
Íslands árbók: Harðnaði veðurátt með miðjum vetri. (s25) ...
Úr Djáknaannálum: §1. Vetur harður og hríðasamur norðanlands frá miðjum vetri. Rak hafís inn á góu og fyllti firði. Sá ís lá lengi við. Á Skagaströnd gengu menn á hafísnum, drógu hákallinn hrönnum upp um hann og fluttu til lands á hestum.
Vori lýst í annálum. Kaldi kaflinn í maí virðist skera sig nokkuð úr:
Ölfusvatnsannáll: Vorið var gott og þurrt. Gjörði sterkan kulda og storm með bænadegi [kóngsbænadegi 7. maí], og hélst sú veðrátta í hálfan mánuð með minnilegum frostum. Batnaði svo aftur og gerði gott. Þó var seint um gróður, því að jörðin var víða dauðkalin.
Sauðlauksdalsannáll: Vorið var kalt,
Vatnsfjarðarannáll yngsti: vorið lognasamt, kom sjaldan regn,
Höskuldsstaðaannáll: Vorið kalt. Ísinn lá lengi við. Hvergi að heyrðist hér fyrir norðan fiskifengur um Jónsmessu og síðan fiskifátt og sjaldróið. ... Grasvöxtur og heyskapur misjafn.
Íslands árbók: Vorið var næsta hart upp á veðuráttu, so fénaður féll bæði norðan og austan lands, einkum í Vopnafirði, hvar ein kirkjusókn, sem kallast Refstaðir, aleyddist að fé, en prestur og sóknarfólk, það sem ei féll í harðrétti, flakkaði suðaustur eftir. (s26)
Úr Djáknaannálum: Vorið kalt og hart víðast um land.
Sumri lýst í annálum. Það virðist hafa borið misjafnt niður - en fær almennt ekki svo slæma dóma:
Ölfusvatnsannáll: Um sumarið var besta veðrátta og nýting, þó graslítið væri. ... Sáust víða um Suðurlandið flugur, líkar litlu fiðrildunum gráu (af hverjum ogso var óvenjulega mikið), utan þær voru langtum stærri og svo sem safranóttar að lit, með tveimur öngum fram út höfðinu og sínum knappi á hvörjum anganum, nefndar af sumum náflugur. ...
Sauðlauksdalsannáll: sumar graslítið, en nýting góð. (s430)
Vatnsfjarðarannáll yngsti: sumarið þurrkasamt og grasvöxtur hægur, en nýting besta;
Höskuldsstaðaannáll: Sumar- og haustsveðurátta óstöðug. ... Það haust fórst vermannafar til Vestmannaeyja með átján mönnum (að skrifað var). (s490)
Íslands árbók: Sumarið varð gott grasár fyrir norðan, en hið daufasta fyrir sunnan og vestan. (s27) ...
Úr Djáknaannálum: Sumarveðrátta víðast allgóð og grasvöxtur góður nyrðra, en í aumasta lagi syðra og eystra, en nýting heyja var allgóð.
Hrafnagilsannáll: Grasvöxtur í meðallagi og heynýtingar góðar það af er liðið. (s682)
Hausti lýst í annálum og virðist hafa verið mjög hagstætt nema ef til vill austanlands.
Ölfusvatnsannáll: Haustið var vætusamt frá Michaelismessu [29.september] Í austurfjórðungi landsins gjörðu hallæri vegna grasbrests, ónýtingar af vætu, svo þar gekk, og af því að fiskur fékkst þar ekki, svo að á þessu sumri dóu þar í vesöld 70 manneskjur, sem sannspurðist. Vetur til jóla mikið góður. (s367)
Grímsstaðaannáll: Haustveðrátta í betra lagi og jafnvel í besta máta allt fram til jóla, þó með sjóbönnum og fiskileysi kringum Jökul. Frosthægt og snjólaust til jólanna. (s614)
Vatnsfjarðarannáll yngsti: haustið og vetrarfar til nýárs bærilegt.
Íslands árbók: Haustið og veturinn fram til nýárs viðraði í besta máta (so varla festi snjó á jörðu. (s29)
Úr Djáknaannálum: Haustið þíðviðrasamt svo varla festi snjó á jörðu fram um nýtt ár. (s 77). Fyrir norðan enginn fiskur til Jónsmessu, þar eftir fiskfátt og sjaldróið. Meðalafli kringum Jökul en nýting besta. Um haustið mjög aflalítið syðra og nyrðra. Hval rak um haustið í Vopnafirði, 2an á Sléttu, 3ja á Laufássgrunni. (s77).
Almennar harðindafréttir úr Djáknaannálum:
Harðindi mestu í Múlasýslu, eyddust 24 bæir í hennar norðurparti með prestsetrinu Refstað, frá hvörju síra Jón Ólafsson gekk með konu og börnum og sótti um Öræfaþingin. Kollfellir af peningi kringum Langanes. Í miðpartinum var og hallæri mikið af fiskleysi og ónýtingu heyja. Kringum Langanes flosnuðu margir upp og fólk dó í harðrétti, en 40 jarðir lögðust í eyði; í Vopnafirði eyddist heil kirkjusókn, en fólkið flúði. (s 77). §3. Skiptapi af Flateyjardal um haustið með 4 mönnum í ofsaviðri.
Espólín dregur út úr annálunum:
Espólín: XIX. Kap. Þann vetur, er áður er getið, næstan því er þeir Eggert og Bjarni fóru að kanna Ísland, eftir hann miðjan, harðnaði veðrátt norðanlands; var þá dautt áður meir en 40 manna í harðrétti, á Langaness-ströndum, í Fljótsdalshéraði utarlega, og um Vopnafjörð, og 40 bæir í auðn, en nú gjörði kolfelli kringum Langanes, og margir flosnuðu upp; hófust harðindi mikil í landi, eyddist heil kirkjusókn í Vopnafirði, og fénaður féll fyrir norðan land. (s 26). Aflalítið var þá fyrir sunnan og norðan, en allgott undir Jökli. (s 27). XXI. Kap. Sumum mönnum þótti það ills boði um sumarið, at mikið var af fiðrildum norðanlands bleikgulum, kölluðu sumir náflugur eða ræningjaflugur, og er sagt að þau séu alltíð utanlands. Gott var þá grasár fyrir norðan, en verra suður og vestur um land, og þó veðrátt góð, þar var og nýting allill. (s 29).
Lýkur hér frásögn hungurdiska af árinu 1751. Þakka Sigurði Þór Guðjónssyni fyrir innslátt flestra annálatextanna [úr Annálaútgáfu Bókmenntafélagsins] og Hjördísi Guðmundsdóttur fyrir tölvusetningu árbóka Espólíns (ritstjóri hnikaði stafsetningu til nútímaháttar - mistök við þá aðgerð eru hans).
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 16:34 | Facebook
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (3.1.): 35
- Sl. sólarhring: 1131
- Sl. viku: 2706
- Frá upphafi: 2426563
Annað
- Innlit í dag: 33
- Innlit sl. viku: 2410
- Gestir í dag: 33
- IP-tölur í dag: 33
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.