Spurningar um júnímánuð

Ýmsar spurningar hafa komið upp varðandi júnímánuð þann sem nú er nærri liðinn. Hann hefur verið sérlega þungbúinn um landið sunnan- og vestanvert. Þar hefur úrkoma einnig verið mikil og veður fremur svalt.  Allt aðra sögu er að segja um landið austanvert. Heildarúrkoma mánaðarins er þar að vísu nokkuð mikil sums staðar - (mjög misskipt), en hlýindin mikil og svo virðist sem sól hafi einnig skinið þar glatt.

Hlýindin hafa verið mest á hálendinu austanverðu. Við Kárahnjúka hefur hitinn verið 3,2 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára og víða til fjalla austanlands hafa jákvæð vik verið meiri en 2 stig - heldur minni í byggð. Að tiltölu er svalara eftir því sem vestar dregur. Neikvæða vikið miðað við síðustu tíu ár er mest í Staðarsveit, á Hraunsmúla hefur hiti verið -2,0 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára og -1,8 stig á Bláfeldi og svo á Hafnarmelum. 

Í Reykjavík er vikið miðað við síðustu tíu ár -1,6 stig, en +0.9 á Akureyri. Sem stendur er mánuðurinn sá kaldasti á öldinni meðal almanaksbræðra í Reykjavík (munar þó litlu á honum og júní 2001), en á Akureyri er hann í augnablikinu sá sjöttihlýjasti á þessari öld. Austur á Egilsstöðum er hann sá fjórðihlýjasti á öldinni. 

Taflan hér að neðan tekur saman hita á einsökum spásvæðum Veðurstofunnar og setur hita mánaðarins í röð á öldinni.

 röð spásvæði
 17 Faxaflói
 15 Breiðafjörður
 12 Vestfirðir
 9 Strandir og Norðurland vestra
 5 Norðurland eystra
 5 Austurland að Glettingi
 2 Austfirðir
 7 Suðausturland
 15 Suðurland
 8 Miðhálendið

Hér má sjá að við Faxaflóa er mánuðurinn sá næstkaldasti á öldinni, en á Austfjörðum sá næsthlýjasti. Fyrir landið í heild er hiti í meðallagi júnímánaða síðustu tíu ára. 

Þó svalt hafi verið sunnanlands og vestan miðað við undanfarin ár hefur júní samt oft verið talsvert kaldari heldur en nú, t.d. 30 sinnum í Reykjavík síðan samfelldar mælingar hófust. Síðast var kaldara en nú 1997, og talsvert kaldara var í júní bæði 1994 og 1992. 

Úrkoma hefur nokkrum sinnum verið meiri í Reykjavík í júní heldur en nú, síðast árið 2014. Aftur á móti eru alveg þurrir dagar í mánuðinum ekki nema 5 til þessa - og verða vart fleiri. Sýnist ritstjóra hungurdiska í fljótu bragði að úrkomudagafjöldi í júní hafi ekki verið slíkur nema tvisvar áður, 1960 og 1983. Ólíkt fór um þau tvö sumur, það fyrra státar einnig af einum lengsta samfellda þurrkakafla nokkurs sumars - (í ágúst) og er enn í minnum haft fyrir gæði, en hið síðara var allt á versta veg, kalt, hvasst og blautt. 

Rigningunum hefur fylgt sérstök deyfðartíð til loftsins um landið sunnan- og vestanvert. Meðalskýjahula í Reykjavík hefur aðeins tvisvar verið ámóta mikil í júní og nú. Það var 1986 og 1988. Sömuleiðis virðist ástandið hafa verið svipað í júní 1914 tökum við mark á athugunum á Vífilsstöðum. Sólskinsstundafjöldi er líka sérlega lágur, þegar þetta er skrifað eru aðeins 70,6 stundir færðar til bókar. Þær voru ámóta fáar 1988, voru þá 60,1 þegar jafnlangt var komið fram í mánuðinn, en síðustu tvo dagana bættust 12,1 við þannig að mánuðurinn endaði í 72,2 stundum. Enn vantar núlíðandi júní 1,6 stund til að jafna þá tölu - en hefur til þess daginn í dag (29.) sem er langt kominn án sólarglennu og svo morgundaginn - en þá er enn möguleiki síðdegis eða undir kvöld. 

Í júní 1914 varð heildarfjöldi sólskinsstunda 65,6. Mælt var á Vífilsstöðum. Dálítil óvissa er alltaf í aflestri á sólskinsblöðum. Danska veðurstofan hafði þannig fengið út töluna 60,9 stundir - og þriðji lestur einhvers annars myndi væntanlega skila þriðju tölunni fyrir mánuðinn í heild. En heildarfjöldinn er samt líklega ívið lægri heldur en nú - það styður líka meðalskýjahulan í júní 1914 og áður var á minnst. 

En þess skal getið að annar mælir hefur undanfarin ár líka mælt sólskinsstundafjölda í Reykjavík - hann er þeim kostum búinn að mæla betur síðustu geisla kvöldsólarinnar og fyrstu geisla á morgnanna þegar sólargangur er allralengstur - heldur en hinn venjulegi mælir. Svo hefur einmitt viljað til nú að sól hefur helst skinið rétt í byrjun og lok dags. Þetta veldur því að sá mælir hefur nú samtals mælt 79,3 stundir í mánuðinum - 9 stundum meira en hefðbundni mælirinn. - En líklega hefði hann líka mælt meira í júní 1988 heldur en hinn. Nokkuð langan samanburðartíma þarf til að nýju mælingarnar geti orðið alveg samanburðarhæfar við þær eldri. - En það kemur.

Eitt af því sem telja má óvenjulegt er að hámarkshiti ársins til þessa í Reykjavík er ekki nema 14,3 stig - og ekki nema 13,5 stig á kvikasilfursmælinn í gamla skýlinu. Þessar tölur eru reyndar frá því í maí. Hæstu tölur í júní eru 13,2 stig (hólkur) og 12,6 stig (skýli). Nú er það svo að skýlið er nú aðeins opnað tvisvar á dag, líklegt er að minni munur hefði verið á hámarkshita hólks og skýlis ef það væri opnað á þriggja stunda fresti eins og var á árum áður. 

Það er sárasjaldan að hámarkshiti júnímánaðar sé lægri en 14 stig í Reykjavík. Frá því að samfelldar hámarksmælingar hófust árið 1920 hefur það gerst sjö sinnum að hámarkshiti júnímánaðar hefur verið undir 14 stigum, þrisvar undir 13,5 stigum og aðeins einu sinni jafnlágur og nú (13,2 stig). Það var 1978. Hámarksmælingar voru mjög stopular fyrir 1920, en voru þó gerðar í júní 1885 þegar mánaðarhámarkshitinn mældist aðeins 12,5 stig. Hæsti hiti sem mældist á athugunartíma í júní 1914 (þeim sólarlausasta af öllum) var 13,0 stig. 

Það hefur gerst aðeins 6 sinnum (frá og með 1920) að hæsti hiti fyrri hluta árs hefur verið lægri en nú í Reykjavík (14,3 stig), síðast 1994, en áður 1978, 1977, 1973, 1961 og 1922. Rétt að hafa í huga að samkeppni upp á tíunduhluta er varla marktæk - mest viðhöfð til gamans.  

Sumareinkunn júnímánaðar á (leik)kvarða ritstjóra hungurdiska verður mjög lág í Reykjavík, líklega núll og enginn sumardagur hefur enn skilað sér í júnímánuði (samkvæmt skilgreiningu ritstjórans). Við látum uppgjörsfréttir og samanburð bíða þar til mánuðurinn er endanlega liðinn. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg181124a
  • w-blogg151124c
  • w-blogg151124b
  • w-blogg151124a
  • w-blogg141124ii

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 34
  • Sl. sólarhring: 152
  • Sl. viku: 1955
  • Frá upphafi: 2412619

Annað

  • Innlit í dag: 34
  • Innlit sl. viku: 1708
  • Gestir í dag: 33
  • IP-tölur í dag: 32

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband