Aftur vor og snemmsumars 1963

Ritstjóri hungurdiska hugsar enn aftur til vors og sumars 1963. Það er eitthvað sameiginlegt með tíðinni þá og nú. Að vísu kom þá norðanáttakafli í fyrrihluta maímánaðar - sem ekki var nú, en loftþrýstingur var mjög lágur og þegar á mánuðinn leið var þrálátur útsynningur með krapaéljaslettingi og snjó í fjöllum. 

Síðan tók allmikil hæð völdin með góðri hitabylgju um landið norðaustan- og austanvert - rétt eins og nú. Hitabylgjan sú stóð í nokkra daga, hófst þann 3., en endaði að mestu 5 dögum síðar, þann 7. Hiti komst hæst í 24,8 stig á Akureyri. Síðasta daginn varð einnig mjög hlýtt sums staðar sunnan- og vestanlands. Ungum veðuráhugamanni í Borgarnesi varð sá dagur sérlega minnisstæður - bæði vegna óhemjuhita (fannst honum) og þess að þá gerði einnig töluvert þrumuveður í nágrenni Borgarness - fjöldi eldinga sást þaðan og þrumur heyrðust. 

Lítum til gamans á hæsta og lægsta hita hvers dags á landinu í maí, júní og júlí þetta ár.

w-blogg040618_txtn1963

Lárétti ásinn sýnir tíma - en sá lóðrétti hita. Efri súlurnar sýna hámarkshita hvers dags á landinu, en þær neðri (bláu) landslágmarkið. Nær allan maí er varla hægt að segja að hiti hafi nokkurs staðar náð 12-13 stigum - og frost var einhvers staðar á landinu á hverri nóttu mestallan mánuðinn. Hitabylgjan í fyrstu viku júní sker sig mjög úr umhverfi sínu.

Síðan tók við mun svalari tími - meir en hálfur mánuður, marga þá daga fór hiti hvergi á landinu yfir 15 stig - en ekki var þó frost á nóttum. Seint í mánuðinum hlýnaði skyndilega aftur. Önnur hitabylgja gekk yfir. Heldur lengri og efnismeiri en sú fyrri - en gætti þó fyrst og fremst á Norður- og Austurlandi. Vestanlands var þá lengst af mjög þungbúið veður. 

Það er þó minnisstætt að Suður- og Vesturland fékk þó að sjá hitann dag og dag. Þann 1. júlí komst hiti t.d. upp í 20,5 stig á Þingvöllum og 23,4 stig á Hæli í Hreppum og dagana 4. til 8. var einnig yfir 20 stiga hiti víða á Suðurlandi - hlýtur að hafa orðið minnisstætt þar. Minna varð úr á Vesturlandi. Ritstjóri hungurdiska minnist þess þó að hafa orðið var við hitann þann 8, þá fór hámarkið í 21,4 stig í Andakílsárvirkjun og 20,5 á Hvanneyri. Annars lá lágskýjabakki lengst af yfir Flóanum - en bjarmaði af sól fram í Hvítársíðukrók. Í Reykjavík var hitanum svo sem rétt veifað framan í menn. Náði ekki 20 stigum á flugvellinum, en fór þann 8. júlí í 22,6 stig uppi á Hólmi ofan við bæinn. 

Það þótti þó merkilegast að hitinn fór hæst í 27,1 stig á Skriðuklaustri í þessari syrpu. Ungir veðuráhugamenn höfðu bara aldrei heyrt þannig nokkuð - enda hæsti hæsti hiti sem mælst hafði á landinu öllu frá því sumarið fræga 1955. 

En síðan snerist aldeilis um - það kólnaði harkalega - og svo mjög að það snjóaði langt niður í fjöll - meira að segja á Suður- og Vesturlandi og frost varð um nætur. Farfuglar hópuðu sig á miðju sumri.  

w-blogg040618_p-sponn1963

Þessi mynd sýnir þrýstifar þessa umræddu þrjá mánuði. Gráa línan (bláar súlur) sýnir lægsta þrýsting á landinu á 3 stunda fresti, en en sú rauða sýnir þrýstispönn landsins, mun á hæsta og lægsta þrýstingi á hverjum tíma. Því meiri sem munurinn er því hvassara er á landinu. 

Við sjáum að þrýstifar var mjög órólegt í maí, hver lægðin á fætur annarri gekk þá yfir landið. Þrýstibreytingar voru örar og þrýstispönnin mjög misjöfn - stundum stór. Undir mánaðamót maí/júní tók mikið háþrýstisvæði völdin - þá gerði fyrri hitabylgjuna. Þrýstispönn datt niður og vindur varð mjög hægur - sólfarsvindar réðu ríkjum. 

Eftir fyrstu viku júnímánaðar féll þrýstingur mjög - þá kom mikið háloftalægðardrag yfir landið með mun kaldara lofti, við sjáum að tvær mjög djúpar lægðir hafa farið yfir landið og að mjög hvasst varð um tíma samfara síðari lægðinni. Þessa daga var ritstjóri hungurdiska í fyrsta sinn í launavinnu - raðaði mótatimbri eftir gerð og lengd á plani Verslunarfélagsins Borgar í Borgarnesi. Ekki rigndi þó mikið á hann - því vindur var aðallega af norðaustri þennan tíma.  

Síðan kom mikil háloftahæð aftur að landinu - það var síðari hitabylgjan - með hægum vindum eins og sú fyrri. Eins og sjá má varð hvassviðrið mest þann 21. Það er sárasjaldan sem þrýstispönn af þessu tagi sést í júlímánuði. Tíð var hlýrri í lok mánaðarins - en mjög óróleg - var samt léttir eftir allan kuldann. 

Þetta fer væntanlega einhvern veginn öðru vísi nú (2018) veðrið segir aldrei sömu söguna tvisvar þó þær séu stundum líkar. En trúlega gefur háloftahæðin sem þessa dagana er á sveimi við landið eftir - rétt eins og systir hennar í júníbyrjun 1963 - og eitthvað kaldara tekur við. Vonandi verður það samt ekki eins kalt og 1963 - og ekki vitum við hvort við fáum svo aðra hitabylgju seint í mánuðinum? 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg211124a
  • w-blogg181124a
  • w-blogg151124c
  • w-blogg151124b
  • w-blogg151124a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 36
  • Sl. sólarhring: 649
  • Sl. viku: 2358
  • Frá upphafi: 2413792

Annað

  • Innlit í dag: 35
  • Innlit sl. viku: 2176
  • Gestir í dag: 35
  • IP-tölur í dag: 35

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband