9.6.2018 | 21:54
Af árinu 1750
Við lítum nú aftur á stöðuna um miðja 18.öld og veljum í þetta sinn árið 1750. Veðurupplýsingar eru aðallega úr annálum, en þó höfum við líka mælingar Niels Horrebow sem hann gerði á Bessastöðum. Mælar hans voru að vísu illa kvarðaðir þannig að erfitt er að reikna meðalhita með þeirri nákvæmni sem við helst vildum - en samt er miklu betra að hafa þessar mælingar heldur en engar. Veðurdagbók Jóns eldra er tiltölulega læsileg þetta ár - en er öll á latínu og ritstjóri hungurdiska treystir sér ekki til að byggja á henni - þó orð og orð sé mjög vel skiljanlegt (svo sem frost og hiti, þurr, regn ofl.) - og auðvelt að greina veður dag og dag.
Rit Horrebows, Tilforladelige Efterretninger om Island innihélt töflu með öllum veðurathugunum hans. Þegar íslenska þýðingin loks kom út árið 1966 undir titlinum Frásagnir um Ísland var þessum töflum sleppt. Ritstjóri hungurdiska heldur sérstaklega upp á afsökun þýðandans:
Töflunum er sleppt í þessari útgáfu, enda eru þær ekki lestrarefni. En þeim fylgja nokkrar athugasemdir til yfirlits, og eru þær teknar hér með, nema upphafið, þar sem höfundurinn skýrir frá tækjum sínum og vinnubrögðum. Frásagnir um Ísland, Bókfellsútgáfan 1966.
Myndin sýnir hitamælingar Horrebow. Hér verðum við að hafa í huga að kvörðun mælisins er ábótavant og að hann var lengst af ekki úti heldur við opinn norðurglugga í húsi. Hið síðarnefnda þýðir að snarpar hitasveiflur koma síður fram. Þann 1.október 1750 var hitamælirinn settur út fyrir gluggann - og við sjáum að eftir það verður hitinn sveiflukenndari - og þá fraus oftar og meira heldur en veturinn á undan þegar lengst af var frostlaust í mælaherberginu. Lengsti frostakaflinn kom í marslok og stóð fram eftir aprílmánuði. Eftir það hefur vorað vel á Bessastöðum.
Fram kemur að um sumarið voru margir bjartir og þurrir dagar og dágóður hiti er allt til septemberloka. Ekki kólnaði að ráði fyrr en um veturnætur.
Loftvogin sýnir órólegt veðurlag fyrstu þrjá mánuði ársins, hefðbundinn háþrýstikafla í maí og framan af júní og síðan í aðalatriðum hægt fallandi loftvog í júlí, ágúst og september. Haustið einkennist af miklum háþrýstikafla frá því í lok september þar til í lok nóvember.
Horrebow nefnir þann 16.desember að þá hafi vindur verið hægur og veður bjart í 5 daga þó loftvog standi lágt. Sömuleiðis að hann hafi þessa daga verið hvass á norðan rétt úti á Flóanum þannig að sjósókn hafi gengið illa og mikið hafi látið í sjónum. Má minna okkur á að náttúruhljóð voru mikilvægt hjálpartæki við veðurspár hér áður fyrr, sérstaklega fyrir vana menn - nú greinast þau varla frá öðrum hávaða. Þetta virðist hafa verið mikið norðurljósaár á Bessastöðum - þeirra er mjög oft getið.
Annálar greina frá nokkuð erfiðu árferði um landið norðanvert, en betra syðra. Mikill hafís kom að landinu. Við skiptum annálunum gróflega upp eftir árstíðum. Byrjum á vetri og vori. Eins og sjá má af orðalagi éta þeir sumir eftir öðrum og ekki gott að segja hversu margar frumheimildir eru óháðar. Sumardaginn fyrsta bar upp á 23.apríl.
Ölfusvatnsannáll: Vetur frá jólum miðlungi, með iðuglegum úrkomum, ýmist af snjó eða regni, fyrir kyndilmessu gömlu [13. febr.]. Fór þá að smáherða á með jafnlegum (s361) snjó og áfreða, hagleysi alltíð meir og meir, er hélst við til Magnúsdags [16. apríl]. Batnaði þá og varð góð vorveðrátta. Samt vegna undanfarinna vetrarharðinda ... varð víða stráfellir á útipeningum, sérdeilis sauðfé, svo sumir, áður af fé vel ríkir, áttu lítið og nokkrir ekkert eftir af því. ... Vorið var kalt og vindasamt, þó við meðalmáta. (s362) ...
Þessari frásögn Ölfusvatnsannáls ber allvel saman við hitamælingar Horrebow, en ekki minnist Horrebow á áfreðana, kannski hafa þeir ekki verið svo áberandi á Bessastöðum.
Grímsstaðaannáll [af Snæfellsnesi]: Vetur dágóður fyrir jól og eftir, en ógæftir til sjóarins víðast kringum Jökul. ... Tveir skiptapar urðu syðra, annar á Akranesi, voru á 4, (s605) ... drukknuðu 2 en formaðurinn og annar komust af. Hinn skiptapinn syðra skeði við Engey og drukknuðu allir sem á voru. ... Hafís var allt þetta ár frá 1749 um jól og allan veturinn, allt vor og sumarið, og fram undir haust. Voru þá hin mestu harðindi um Strandir norður, einnig í Húnavatnssýslu, en rekaviður hinn allra mesti undan og í hafísnum, hvar af fólkið hafi mikið gagn. (s606) ...
Höskuldsstaðaannáll: Spilltist veðurátt með föstuinngangi. Rak ís að Norðurlandi á einmánuði með austanhríðum. Var Húnafjörður fullur af ísi eftir sumarmál fram til krossmessu. ... Vorið var kalt.
Íslands árbók: Fyrri partur vetrarins viðraði allvel og fram á góu. Síðan harðnaði, og kom þung skorpa fram á vor. Þann 12. Martii gjörði mikla vatnshríð, sem orsakaði bæði skriður og snjóflóð, hvar af ýmsar jarðir fengu skaða, og sums staðar tók hey og fjárhús. Urðu og harðindi meðal fólks, svo peningi varð lógað til matar. Fyllti upp með hafís fyrir öllum Vestfjörðum og Norðurlandi. (s23) ...
Sauðlauksdalsannáll: Vetur í meðallagi á Íslandi til lands og sjóar. (s429)
Úr Djáknaannálum: §1. Vetrarveðrátta góð framanaf en spilltist og varð óstöðug og fjúkasöm. Á einmánuði gjörði norðanhríðir; rak þá ís að Norðurlandi og Vestfjörðum svo Húnafjörður fylltist af honum eftir sumarmál fram til krossmessu [3.maí]. Vorið kalt. §4. Þann 12ta Martii gjörði vatnshríð af vestri, sem orsakaði miklar skriður og snjóflóð, hvar af ýmsar jarðir fengu skaða og sumstaðar tók hey og fénað úr húsum. (s75).
Um sumarið 1750. Það virðist hafa verið allgott sunnanlands, en mun erfiðara nyrðra.
Ölfusvatnsannáll: Sumarið var gott og grassamt, með góðri nýtingu (s365) sunnanlands. Brá til vætu með Maríumessu fyrri [15.ágúst]. Nýttust þó hey til höfuðdags [29.ágúst], en úr því ekki. En í hinum fjórðungum landsins var bág nýting og graslítið. ...
Grímsstaðaannáll: Þetta var þurrkasumar hið mesta, en lítill töðugrasvöxtur. (s613)
Höskuldsstaðaannáll: Fór ísinn burt í 12. viku sumars [um 25. júlí]. ... Iðulegur óþerrir af þokum og skemmdust víða töðurnar. Einnig haustið óstöðugt. (s489)
Úr Djáknaannálum: Hafísinn fór burt í 12tu viku sumars. Iðulegur óþerrir af þokum; skemmdust víða töður, batnaði eftir hundadaga [lýkur 23.ágúst]. Haustið óstöðugt.
Espólín: XVII. Kap. Þá var grasár í meðallagi syðra og vestra, en illt norður um; var vætusamt og snjóaði þar í hundadögum, og nýttust illa hey, en batnaði veðrátt síðan. (s 24).
Ölfusvatnsannáll: Haustið var vott og vindasamt til veturnótta, batnaði þá og varð þurr og góð veðrátta, svo vetur var til jóla einn sá allra besti. ... Á mánudagsnóttina fyrstu í jólaföstu, [30. nóv.] að líðandi vökutíma, varð í heiðríkjum svo björt leiftran, að hún yfirgekk glaðasta tunglsljós, en þá var ekki tunglskin, því það var í kveikingu. (s366)
Íslands árbók: Haustið viðraði vel og fram á vetur. (s25)
Úr Djáknaannálum: Vetur góður til nýárs. (s 74).
Djáknaannálar segja einnig frá almennu harðrétti:
Úr Djáknaannálum: Góður fiskiafli eystra og syðra, sæmilegur undir jökli. Um vorið enginn fiskur fyrir norðan, en hákall nokkur. Smáfiskur venju framar um haustið á Húnafirði. Þann 5ta Oct. rak hvalbrot á Sviðningi á Skaga. Harðrétti manna á milli svo peningi var sumstaðar til matar lógað. Á Langanesströndum, Vopnafirði og utarlega í Fljótsdal dóu í harðrétti 44 manneskjur og 40 bæir eyddust. (s 74).
Hrafnagilsannáll segir frá - spurning hvort verið er að lýsa glitskýjum frekar en eldsbjarma:
3.febrúar 1750 sást eftir dagsetur blóðrauður reykur eður ský undan austurfjöllunum hér í Eyjafirði millum miðs morguns og dagmálastaðar um dagsetursleyti, varaði meir en tíma og færði sig suður eftir. Þenktu menn þetta koma af jarðeldi úr Mývatnsfjöllum eður námum, sást og fyrir norðan. (s679)
Þakka Sigurði Þór Guðjónssyni fyrir innslátt flestra annálatextanna [úr Annálaútgáfu Bókmenntafélagsins] og Hjördísi Guðmundsdóttur fyrir tölvusetningu árbóka Espólíns (ritstjóri hnikaði stafsetningu til nútímaháttar - mistök við þá aðgerð eru hans).
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (2.1.): 1005
- Sl. sólarhring: 1110
- Sl. viku: 3395
- Frá upphafi: 2426427
Annað
- Innlit í dag: 895
- Innlit sl. viku: 3051
- Gestir í dag: 871
- IP-tölur í dag: 805
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.