Af árinu 1896

Ekki þótti 1896 vera hart ár á sínum tíma, en tíð aftur á móti afskaplega óhagstæð. Þar komu þrálátar úrkomur mest við sögu. Meðalhiti í Reykjavík var ekki nema 3,9 stig, en samt 0,3 stigum ofan meðallags næstu tíu ára á undan. Við sem nú lifum fengum síðast svona kalt ár árið 1995, þá var meðalhiti í Reykjavík 3,8 stig. Á landsvísu teljast þrír mánuðir ársins í hlýja flokknum, febrúar, maí og desember. Reyndar voru ekki margir febrúarmánuðir 19. aldar hlýrri, þessi var sá hlýjasti í 24 ár. Sex mánuðir voru kaldir á landsvísu, mars - og síðan allt sumarið, júní, júlí, ágúst og september. Að tiltölu varð október þó langkaldastur. Síðustu 200 árin finnast aðeins þrír kaldari, einn með fullri vissu, 1917, hinir í nokkurri grámóðu óvissunnar, 1824 og 1855. 

Hæsti hiti ársins mældist á Teigarhorni 2.ágúst, 23,5 stig. Allmargir hlýir dagar virðast hafa komið um landið austanvert um sumarið (meðan Suðvesturland sat í sudda), en því miður voru engar opinberar mælingar gerðar á Fljótsdalshéraði eða á norðanverðum Austfjörðum. Mesta frostið mældist í Möðrudal þann 19.janúar, -30,7 stig. Þann sama dag fór frostið á Akureyri niður í -24,9 stig og -18,0 í Reykjavík, næsta óvenjulegt. 

ar_1896t-rvk

Fyrir utan fáeina daga er samt varla hægt að tala um frostamikið ár. Leit ritstjóra hungurdiska að köldum dögum í Reykjavík skilaði aðeins fimm slíkum, tveimur í janúar, tveimur í júní, þá var næturfrost þann 1. og 2. og einn mjög kaldur dagur fannst í ágúst (24.). Í Stykkishólmi fundust einnig sex mjög kaldir dagar, þrír í janúar, tveir í ágúst og einn í október. Einn hlýr dagur kom fram í Reykjavík, 9.ágúst, en hámarkshiti varð þó ekki nema 16 stig, en lágmarkið óvenju hátt, 12,6 stig. 

En úrkoman var mikil. Þann 23.febrúar mældist hún t.d. 50,1 mm í Stykkishólmi, með því mesta sem þar gerist og sama dag 48,2 mm í Reykjavík, líka með því mesta sem gerist. Þá gekk ofsaveður yfir Austurland. Sama var á Teigarhorni, þar fór úrkoman tvisvar upp í eitthvað sem telst óvenjulegt (meir 6 prósent af ársúrkomu á einum sólarhring), það var 13.júní, þegar 108,1 mm mældust og 3.desember, 83,4 mm. 

Lægsti loftþrýstingur ársins mældist í Stykkishólmi þann 19.febrúar, 951,1 hPa, en hæstur á Teigarhorni 8.janúar 1050,3 hPa. 

ar_1896_01-08-12_1000

Kortið sýnir hæðina miklu 8.janúar. Endurgreiningin bandaríska nær henni vel. Athugið að tölurnar sýna hæð 1000 hPa-flatarins, 400 metrar jafngilda 1050 hPa, en 0 metrar 1000 hPa. Það er ekki mjög oft sem þrýstingur er ofan við 1000 hPa á jafnstóru svæði í kringum Norður-Atlantshaf í janúar (ritsjórinn þykist þó muna fleiri dæmi). Það er aðeins á litlu svæði milli Labrador og Grænlands þar sem þrýstingurinn er lægri en 1000 hPa. Í hinni endurgreiningunni bandarísku er svæðið lítillega stærra. 

Þessi mikla hæð entist ekki lengi, hún hörfaði strax til Bretlands, en þar var háþrýstingur viðloðandi með köflum næstu vikurnar og sá um hlýindin og ókyrrðina hér á landi í febrúar. 

Ísafold fjallar 10.janúar 1897 um árið 1896:

Landskjálftarnir og fleiri áföll valda því, að árið 1896 mun lengi bera lakan orðstír í sögu landsins. Árið á undan (1895) var eitthvert besta ár á öldinni að tíðarfari hér á landi; en þetta nýliðna ár var raunar engan veginn harðindasamt, en tíðarfar samt mjög óhagstætt yfirleitt, einkanlega fyrir óþurrka sakir að sumrinu og hrakviðra haustið og veturinn fram til áramóta. Framan af árinu, veturinn í fyrra, var og óvenju-rigningasamt, en frostalítið. Rigningaárið mikla mundi það sjálfsagt hafa verið kallað, árið 1896, ef ekki hefðu landskjálftarnir komið og tekið að sér langsamlega að ráða heiti þess í annálum vorum.

Sakir sumaróþurrkanna varð heyskapur rýr og ónotasæll. þar við bættist enn mesta fiskileysi við helstu veiðistöð landsins, Faxaflóa, eins og árið fyrir, og þar á ofan í Árnessýsluveiðistöðunum að meiru leyti. En líklega meðalár austanlands og vestan til sjávarins. Það er, á opnum bátum. Á þilskip aftur yfirleitt mikið góður afli. Verslun sæmilega góð að verðinu til, einkum útlend nauðsynjavara með vægu verði. Auk landskjálftatjónsins, einhvers hins mesta síðan land byggðist, beið landið þungar búsifjar af yfirgangi útlendra fiskimanna, botnverpinganna ensku, og er því miður síður en eigi séð fyrir endann á þeim ófögnuði enn.

Janúar: Nokkuð hagstæð tíð og ekki illviðrasöm. Fremur kalt, einkum um miðjan mánuð.

Þjóðviljinn ungi lýsir tíðarfari í mánuðinum (dagsetningar í hornklofum):

[16.] Frá 4. - 11. þ.m. gengu hér suðvestan rosar, og rigningar öðru hvoru, en 12.þ.m. sneri til snjóa og norðanáttar; hafa og síðan verið frost nokkur, 13 stig á R., og norðanbylur síðustu dagana.

[24.] Norðanhretið, sem hér hófst 12.þ.m. stóð í samfellda viku, og var oft svartur bylur, og frosthörkur all-miklar, allt að 11 stigum á Reaumur; 20. þ.m. gerði gott veður í svip, en reif sig upp aftur daginn eftir, og hafa síðan oftast verið ofsaveður og hríðar, og mjög óstöðug og hættuleg tíð til lands og sjávar.

[31.] Tíðarfarið hefir nú um hríð verið mjög umhleypinga- og stormsamt, skipst á snjóar og rigningar, norðan- og suðvestanhríðir. svo að vart hefir komið kyrr stund.

Þjóðviljinn ungi birtir 13.mars bréf úr Rangárvallasýslu dagsett 21.janúar: „Í vetur hefir verið mild tíð undir hinum sólsælu Eyjafjöllum; um jólin og nýárið voru vel ræktaðir túnblettir algrænir, en nú eru komin harðindi, og á jólaföstu var snjór mikill um tíma“. Og af Fljótsdalshéraði 31.janúar: „Tíðin ágæt; menn muna varla snjóléttari vetur hér á Héraði, því þótt tvisvar hafi snjóað nokkuð í vetur, hefir hlánað jafnharðan aftur“.

Þjóðólfur birti 14.febrúar bréf úr Dalasýslu dagsett 29.janúar:

Tíðin hefur síðan um þrettánda verið heldur úfin, snjókomur og rigningar, en stundum stormar, en þangað til vóru líka miklar blíður.

Febrúar: Miklir umhleypingar og skiptust á regn og hríðar. Mjög úrkomusamt vestanlands. Fremur hlýtt.

Ísafold birtir veðuryfirlit fyrir janúar og febrúar í Vestmannaeyjum 25.mars (stytt hér):

Vestmannaeyjum 12. mars. Í janúarmánuði var veðrátta köld frá þeim 10. til þess 28. ... Febrúarmánuður var aftur á móti hlutfallslega mjög heitur, aðeins 8 sinnum næturfrost ... Úrkoma var nálega á hverjum degi, alls 140 millimetrar. Vindstaða var nálega allan mánuðinn á sunnan eða suðvestan, sömu vindstöður voru einnig tíðastar í janúar. Það sem af er þessum mánuði [mars] hafa verið sífeld frost, mest rúm 11° aðfaranótt þess 9. Dagana 8. og 9. voru stormviðri á norðan og vestan með býsnamikilli snjókomu og skafbyl.

Þjóðviljinn ungi lýsir tíð í febrúar í nokkrum pistlum:

[8.] Það, sem af er þessum mánuði, hafa haldist stöðugir umhleypingar, og dyngt niður kynstrum af snjó, svo að hvívetna eru nú hagleysur, og ófærðir mestu á landi.

[20.] Sömu ofsarnir og umhleypingarnir, sem verið hafa, síðan um þrettándann, haldast enn, og slotaði aðeins í svip 12.—15. þ.m., en síðan hafa aftur gengið rosar og rigningar.

[26.] Tíðarfar sífellt mjög óstöðugt og veðrasamt, ýmist stórrigningar eða fannkomur, og væri óskandi að góan yrði nú ögn stilltari en þorrinn.

Austri segir frá þann 21.febrúar:

Tíðarfar er alltaf mjög milt, og snjókoma lítil, en áköf rigning og hvassviður mikið var hér í Fjörðunum 19. þ.m. Frost hafa verið hér svo lítil, að sumstaðar horfir til vandræða með að fá ís í íshúsin, og er það all-undarlegt á Íslandi. Hvergi hefir spurst til hafíssins ennþá, og er óskandi að sá voðagestur heimsæki oss eigi þetta árið.

Og sama blað segir þann 29. frá miklu illviðri sem gerði þar eystra sunndaginn 23.:

Ofsaveður gjörði hér á Austurlandi aðfaranótt sunnudags þ. 23. þ.m. sem einkum gekk hér yfir innri hluta Seyðisfjarðar með voðalegum krafti, og helst við allan fyrri hluta sunnudagsins þangað til stundu eftir hádegi, er því slotaði með ákaflegri rigningu. Dagana á undan hafði loftþungamælirinn staðið mjög lágt, en var heldur farinn að stíga upp á laugardaginn fyrir ofviðrið, svo menn voru farnir að vona, að hinn yfirvofandi stormur gengi að þessu sinni framhjá. Þó sagði oss hinn ágæti sjómaður, kaupmaður og kapteinn T.L. Imsland, storminn fyrir um nóttina, er vér áttum tal við hann síðast á laugardagskvöldið.

Framan af sunnudagsnóttunni var hér eigi hvasst, en fór að hvessa seinni hluta nætur, en undir daginn var veðrið komið í algleyming. Stóð veðrið af suðvestri innan úr dal, og æddi með ákaflegum krafti yfir Fjarðaröldu, en var miklu linara á Búðareyri og Vestdalseyri og utar í firðinum. En hér inn á Fjarðaröldu lék hvert einasta hús á reiðiskjálfi, og menn hristust til i rúmunum, og munu flestir hafa flýtt sér á fætur, því menn gátu búist við því að húsin fykju ofanaf þeim þá og þegar, í þessum ósköpum. En einstöku menn hlupu í kjallara þar sem þeir voru til, og höfðust þar við þar til mesta ofviðrið lægði. Í byljunum, sem voru svo ákaflega knappir, sem þeim væri skotið úr byssu - gátu menn eigi staðið, heldur urðu að fleygja sér niður, en sjóinn skóf svo sem blindbylur stæði út eftir „Kringlunni og „Lónið" rauk svo yfir húsin í „Tanganum“, að þau sáust eigi af árbakkanum í byljunum, fyrir vatnshríðinni sem yfir þau gekk, og eru þó aðeins fáir faðmar af árbakkanum og ofan í „Tangann".

Vegna hinna tíðu ofviðra hér á Seyðisfirði hafa flestir bæjarbúar hlera fyrir gluggum, og það varnaði víst því, að hús fykju hér fleiri, en varð, því mölin og grjótið gekk eins og stórhríð á húsunum á Fjarðaröldu, uppúr þeim íburði, er bæjarstjórn kaupstaðarins hafði látið bera í bæjargrunninn. En sá galli er á þessum gluggahlerum, að þeir ná óvíðast efst á rúðurnar, heldur er þar dálítil rifa skilin eftir, svo birta geti komist inn í húsin, er aftur þarf að hafa hlerana vegna ofviðris. Og þar komst bæjarstjórnarmölin að til að mölva gluggana fyrir allmörgum bæjarbúum, er bjuggu nálægt „Torginu". En stórskaðar urðu eigi að þeim rúðubrotum, af því að hlerarnir voru fyrir mestum hluta glugganna. Þá skekkti stormurinn nokkuð hús skósmiðs Andr. Rasmussens, er mölin hafði brotið glugga í, og stormurinn svo komist inn í og fleiri hús röskuðust svo, að hurðir fellu þar ekki að stöfum eftir ofviðrið.

Í veðrinu fauk allt sem ekki var því betur njörvað niður og grjótborið, og það mátti heita mannhætta að vera úti á götunum fyrir því, sem ofviðrið var að feykja hingað og þangað með áakaflegum hraða og krafti. Skemmdir urðu fjarska miklar að þessu ólátaveðri hér innan til í firðinum. Í Fjarðarseli reif timburþak af tveim heyhlöðum, og tók stormurinn annað þakið, í heilu líki og fleygði því langt útá tún og braut það. Þar reif og torfþök af heyjum og fauk og spilltist töluvert af heyjum. Í bænum Firði reif stormurinn þak af hlöðu og klauf baðstofuna að endilöngu. Hér niðri á Fjarðaröldu tók veðrið í loft upp og mölbraut myndatökuhús Eyjólfs skraddara Jónssonar, og tapaðist mest af því sem þar inni var geymt, og telur hann skaða sinn um 300 kr. Bát tók á loft inn af húsi Stefáns Th. Jónssonar, og feykti ofviðrið honum á húsið, ofan við glugga, og braut nokkuð ytri klæðninguna, og molaðist báturinn síðan í smáagnir. — Nokkur hluti af slátrunargálga og gamall bátur fauk af lóð stórkaupmanns V. T. Thostrups. — Geymsluskúr fauk úr „Tanganum" frá Lárusi barnakennara Tómassyni, svo ekkert sást eftir af honum, nema kolin sem í honum voru.

Annar geymsluskúr fauk frá húsi Skapta Sveinssonar útá sjó, með talsverðu af munum í, er hann og tengdasonur hans, Kristján Jónsson, áttu, og er það tilfinnanlegur skaði fyrir efnalitla menn. Allstór kjötskúr, er stóð rétt innan við söluhúð kaupmanns Sig. Johansons, fauk í veðrinu og brotnaði í spón. Fleygðust brotin úr honum á búðina, og skemmdu hana töluvert. Báðir málþræðirnir slitnuðu. Framantil á Búðareyri var sama ofsaveðrið sem hér á Öldunni, og tók þar upp hinn gamla ferjubát Einars Pálssonar á Ósi, og flutti hann i loftinu langa leið neðan frá sjó, rétt framhjá húshorni bókhaldara Bjarna Siggeirssonar, og beint á geymsluskúr, er Bjarni geymdi hey í, og mölbrotnaði skúrinn, og fuku spítur og hey sem hráviður út um alla Búðareyri, og var það allmikill skaði, er Bjarni varð þar fyrir.

Það má nokkuð marka ofurafl stormsins á því, að hann sleit upp barkskip O. Wathnes, er lá hér á „Kringlunni" fyrir landfesti og afarsterkri akkerisfesti, er slitnaði þó í sundur rétt upp við borðstokk, þar hún var hérumbil 3 þml. að þvermáli. Barkinn rak svo út fyrir Vestdalseyri, útað húsum þeim, er Grude kaupmaður á, og lagðist þar upp að þeim, að menn halda óskemmdur. Margar aðrar skemmdir urðu hér á Fjarðaröldu, t.d. á girðingum, reykháfum o.fl., sem of langt yrði hér upp að telja. Hefir þetta veður komið hér einna mest á síðari árum, því byljirnir voru svo ákaflega knappir og harðir, og komu sem örskot, svo eigi var annað undanfæri, en fleygja sér niður, ef þeir náðu manni útá víðavangi; en slys urðu þó engin á mönnum í ofviðrinu, það er til hefir spurst.

Á Melstað hér útí firðinum raskaði ofviðrið enda af húsi Jóns útvegsbónda Vestmanns, er hann hafði bætt við það í haust, en feykti eigi. Víða annarsstaðar að hefir frést, að mjög hafi verið hvasst á sama tíma og hér, en hvergi nálægt því eins og hér innan til í Seyðisfirði, enda litlir skaðar tilspurðir annarsstaðar frá nema af Vopnafirði. Daginn eftir, þ. 24. þ.m., var hér hið blíðasta veður, sólskin og stillilogn, og sást þá nálega annar hver maður, er um bæinn gekk, með rúður undir hendinni, en allir ofboð glaðir yfir að hafa komist  klakklaust frá þessum himnaspretti.

Góð tíð var í Skagafirði að sögn bréfs sem dagsett var þar 22.febrúar og birtist í Þjóðólfi 17.mars:

Tíðin hefur verið hin indælasta, sífelldar hlákur og blíða, ár eru orðnar íslausar út í sjó, og oft í flóðum, eins og á vordag.

Mars: Hagstæð tíð eftir nokkuð stríða norðanátt fyrstu vikuna. Fremur kalt.

Þjóðviljinn ungi segir frá þann 13. og 21.

[13.] [Þ.] 5. þ.m. gerði að nýju norðanhret með allt að 10 stiga frosti, og fannkomu nokkurri, og hélst það hret til 9. þ.m., en síðan hefir verið nokkru stilltari veðrátta, og hrein og köld norðanátt. Hafís. Nokkra hafísjaka hefir rekið hér inn Djúpið undanfarna daga, og liggur nú hafíshroði hér úti fyrir öllum norðvesturkjálka landsins, allt vestur fyrir Önundarfjörð að minnsta kosti, og þykir trúlegt, að allir firðir séu nú fullir af hafís fyrir norðan land.

[21.] Tíðarfar enn mjög óstöðugt, dimmviðri, þokur og éljahríðir, en þó oftast frostlaus veðurátta. Hafís. Eftir því sem fréttist nú í vikunni norðan af Hornströndum, og úr Steingrímsfirðinum, þá var Húnaflói allur orðinn fullur af hafís, svo að naumast sá í auða vök.

Jónas Jónassen segir þann 21.: „Mesta veðurhægð undanfarna viku, oftast bjart og fagurt veður. Í morgun (21) logn og fegursta veður“, og þann 28. segir hann: „Undanfarna viku hefir verið besta vedur; snjór fallið við og við einkum aðfaranótt h. 27. og þann dag var hér logn og við og við ofanfjúk. Í morgun (28.) logn og bjart veður“.  

Í Ísafold 6.maí er greint frá því að í Vestmannaeyjum hafi fyrstu 10 dagar marsmánaðar verið kaldir en úr því hafi veðrátta þar verið hlý með nær samfelldum sunnanáttum. Veðrátta hafi ekki verið mjög stormasöm í mars og sjógæftir því oftast góðar fram að bænadögum (skírdagur var þann 2.apríl). 

Apríl: Óstöðug, en ekki erfið tíð. Hiti í meðallagi.

Þjóðviljinn ungi segir þann 24. frá hvassviðri þann 16.:

Þilskipið „Karen", eign Tangsverslunar, sem sent hafði verið með salt út i Bolungarvík, varð að höggva mastrið þar á Víkinni i ofviðrinu 16. þ.m., með því að það myndi ella hafa rekið þar í land. 

Bréf frá Seyðisfirði, dagsett 23.apríl (fyrsta sumardag), birtist í Ísafold þann 20.maí:

Kveðja vetrarins hina síðustu dagana hefir ekki verið amaleg, og að sama skapi gengur sumarið í garð með hinni indælustu veðurblíðu. Láglendi allt er nú að kalla örsnjóa, og þegar farið að verða lítið eitt aflavart. Hafís hefir fyrir nokkrum dögum sést hér úti fyrir norðanverðum Austfjörðum og rak töluvert af honum inn a Borgarfjörð; annars halda menn, að hafís sá, er kominn er, sé alls ekki mikill. Ísalög á landi hafa svo sem aldrei verið nein í vetur; má svo að orði kveða að hörgull hafi verið á ís til íshúsanna, en þó munu á endanum hafa fengist nægar sumarbirgðir.

Ísafold birti 16.maí bréf úr Strandasýslu (miðri) dagsett 4.maí:

Fram yfir sumarmálin voru kuldar og smáuppþot, en síðan hefir tíðin farið dagbatnandi og er nú snjór að mestu leystur í byggð; hefir veðráttan verið einkar hagstæð síðan um skipti, með því úrfelli hafa verið lítil og veður oftast lygnt. Lítið vottar enn fyrir gróðri. Um fyrstu sumarhelgina reiddi hér inn allmikið af hafís, miklu meiri en nokkurn tíma á vetrinum; leit út fyrir, að nú ætlaði að rætast draumur ísfirska málgagnsins um það, „að Húnaflói væri fullur af ís“; en sem betur fór, átti ísinn að þessu sinni skamma dvöl hér, því vindur sneri sér þegar til suðurs, svo „sá hvíti“ sigldi beggja skauta byr norður fyrir Skaga og er nú Húnaflói alauður. Þarf ekki í ár að kenna hafísnum um það, þó aldrei sjáist eimskipsreykur á Húnaflóa.

Maí: Mjög úrkomusamt á Suður- og Vesturlandi, en annars góð tíð. Hlýtt lengst af.

Jónas Jónassen lýsir veðrinu í Reykjavík í þessum mikla úrkomumánuði svo í nokkrum pistlum:

[2.] Hinn 27. [apríl] var hér hvasst norðanveður en bjartur og ýrði snjór úr lofti og sama veðrið var h. 28. en hægði undir kveldið og var logn og fegursta veður h. 29. Síðan hæg austan eða landátt með hlýindum.

[9.] Hefir oftast verið við suður-útsuður með talsverðri úrkomu, hvass með köflum en oftast hægur. Í morgun (9.) dimmur, hægur á sunnan.

[16.] Hefur verið við sunnan útsunnanátt með talsverðri úrkomu við og við; gekk til austurs h. 15. hvass um morguninn með regni, svo aftur síðari part dags til landsuðurs, nokkuð hvass og dimmur, lygndi síðast um kveldið. Í morgun (16.) logn, dimmur, rigning.

[23.] Hefir verið við vestur-útsuður alla vikuna með miklum kalsa og snjóað við og við í fjöll. Í morgun (23.) sami útsynningur með kalsa, hefir snjóað mikið til fjalla í nótt og hér útsynningsbylur í morgun.

[30.] Hefir alla vikuna verið á sunnan suðvestan, með mikilli úrkomu má heita dag og nótt, oftast hægur, hefir rignt í 23 daga af þessum mánuði. Í morgun (30.) sama veðrið.

Ísafold birti þann 27. bréf dagsett á Eyrarbakka þann 22.maí:

Veðrátta hefir verið hér mjög votviðrasöm um nokkrar undanfarnar vikur. Hefir vatn sett niður mjög mikið og til stórskaða og erfiðleika nú um sauðburðinn, einkum þar sem láglent er. Gróður er kominn allgóður, en mundi þó meiri, ef hlýindi hefðu verið samfara úrkomunni.

Þjóðviljinn ungi segir frá þann 30.maí:

Síðan síðasta nr. blaðsins kom út hefir tíðin verið mjög stormasöm og kaldhryssingsleg, og suma dagana enda komið hagl eða snjókrap úr lofti, og stafar þessi kuldatíð óefað af hafísnum, sem jafnan er slæmur gestur. Hafís. 28. þ.m. fyllti Skutulsfjörð, og allt Út-Djúpið að vestanverðu, með hafís, svo að allar skipaferðir hingað til kaupstaðarins hafa síðan vorið tepptar. Og róðrar verða ekki stundaðir í vestanverðu Djúpinu eins og nú stendur. 

Júní: Nokkuð úrkomusamt. Kalt.

Þjóðviljinn ungi segir þann 12. og 22.:

[12.] Tíðarfar einatt fremur kalt, svo að illa horfist með gróður, ef ekki breytist tíð. Hafísinn rak héðan af firðinum i öndverðum þ.m., svo að innsiglingin var aðeins teppt um vikutíma.

[22.] Sama kuldatíðin helst enn, svo að vor þetta má yfirleitt teljast eitt af köldustu vorum hér vestra.

Austri segir þann 12.:

Tíðarfar er alltaf mjög kalt og hefir við og við snjóað hér ofan í sjó. Gróður var kominn góður fyrir kuldana, en fer nú aftur. Sauðburður hefir þó gengið vel, því fé var vænt undan vetrinum Hafísinn kvað liggja norður af Langanesi, en eigi er víst að hann sé þar landfastur, og enginn ís var þann 9. þ.m. hérna megin við Langanes. „Thyra" lá 24 tíma við ísinn í Ísafjarðardjúpi, og komst ekki inn á Skutulsfjörð.

Ísafold birti 27.júní bréf ritað í Vestur-Skaftafellssýslu þann 18.:

Þó tíðin sé köld og hretviðrasöm, verður árferðið þó að teljast með betra móti hvað landbúnaðinum viðvíkur. Jörð er orðin sæmilega sprottin; þó hefir grasi lítið farið fram nokkra stund vegna kulda og storma. Kýr hafa ekki getað staðið á fyrir kulda og annar fénaður hefir sótt eftir skýli. Samt eru kýr farnar að græðast, og vonandi er, að ær og allur málnytupeningur gjöri gott gagn, þegar veður stillir, sem menn vonast eftir að bráðum verði.

Mikið hlýnaði eystra undir lok mánaðarins, Austri segir frá þann 30. Því miður voru engar opinberar hitamælingar á þessum árum norðantil á Austfjörðum og hvergi varð mjög heitt á veðurstöðum í júní 1896, hæst 20,3 stig í Möðrudal þann 22.:

Veðurlag hefir síðustu vikuna verið hér ákaflega heitt. Þetta allt fram undir 20° á R í skugganum og hefir grassprettu nú mikið farið fram.

Júlí: Óþerrasamt um stóran hluta landsins, en þó gerði þurrkkafla á Suður- og Vesturlandi síðari hlutann. Fremur kalt.

Ísafold ber saman tíð syðra og eystra þann 8.júlí:

Veðrátta virðist hafa verið mun sumarlegri fyrir norðan og austan undanfarna viku, heldur en hér um slóðir. Á Seyðisfirði t.d. voru líttþolandi hitar seinustu vikuna af fyrra mánuði. Hér hefir verið mjög vætusamt margar vikur samfleytt, og með kaldasta móti um þennan tíma árs.

Tíð var góð eystra að sögn Austra þann 20. og 28.:

[20.] Seyðisfirði 19. júlí 1896. Tíðarfar er áframhaldandi hagstætt, hitar og úrkomur í milli. einkum hér niðri í Fjörðunum en þurrari uppi á Héraði, og því grasspretta þar nokkru lakari.

[28.] Tíðarfar er alltaf fremur hagstætt en þó snjóaði nokkuð í fjöll nóttina milli þess 20. og 21. þ. m. en sá snjór er nú mestur horfinn fyrir eftirfarandi blíðviðri.

Þann 15.má lesa eftirfarandi í Ísafold:

Enn helst framúrskarandi ótíð hér um slóðir að óþurrkum til. Er þetta sjálfsagt eitthvert hið mesta óþurrkavor og sumar (það af er), sem menn muna. Ekki nema 3 dagar þurrir í maímánuði (28 rigningardagar), 9 í júní alls og 1 í júlí hingað til, dagurinn í gær; rignt 14 daga af 15 liðnum, og oft stórum, jafnvel með stórviðri á stundum. Grasvöxtur rýr, vegna kalsans og einkum þess, að sjaldan sem aldrei nýtur sólar. Stórvandræði með eldivið til sveita sumstaðar; engin móflaga þornar; eru dæmi þess, að menn hafa neyðst til að láta gamlan heyrudda undir pottinn hjá sér.

En þann 22. og 25. er hljóðið örlítið betra í blaðinu:

[22.] Í fyrradag létti loks úrfellisótíðinni. Var góður þerrir í gær, norðanveður, kalt í meira lagi; í dag hægri, brakandi þerrir, með glaðasólskini, sem örsjaldan hefir sést í allt vor og sumar. Sláttur mun hafa almennt byrjað i sveit hér nærlendis um helgina núna, og kemur þerririnn sér þá ljómandi vel. En hér í Reykjavik voru mörg tún slegin fyrir allt að 3 vikum, en engin tugga hirt fyrr en í gær. Mjög hefir eldiviður farið illa víða í óþurrkunum, og fiskur skemmst, þótt meiri brögð hefðu að því orðið, ef hlýrra hefði verið.

[25.] Rifaþerrir alla þessa viku. Glaðasólskin dag eftir dag 4 daga vikunnar í röð (þriðjudag - föstudag); daufara í dag. Mikil töðuhirðing og almenn hér í bænum.

Jónas Jónassen lýsir samfelldum óþurrkum í Reykjavík fram til þess 20, lítum á júlípistla hans:

[4.] Undanfarna viku sama kalsaveðrið með talsverðri úrkomu og aldrei sést til sólar; virðist enn engin breyting á veðráttu.

[11.] Undanfarna viku veðurhægð en ekki nokkur dagur þurr til kvelds, sólarlítið mjög - frámunaleg óþurrkatíð. Í morgun (11.) hvass á austan með dynjandi rigningu.

[18.] Sama úrkoman dag og nótt, sést ekki til sólar. Í morgun líkast haustveðri, hvass á austan með regni.

[25.] Um miðjan dag h.20. birti loksins upp er hann gekk til útnorðurs og hefir síðan verið fegursta sólskin á degi hverjum, hægur á útnorðan. Í morgun (25.) hægur á suðvestan, bjartur.

[1. ágúst] Bjart og fagurt veður undanfarna daga, þar til hann gekk í suður síðari part dags h. 30 með nokkurri úrkomu. Í morgun (1.) sunnan dimmur með regnskúrum.

Þjóðviljinn ungi segir frá nokkurra daga þurrki í frétt þann 31.júlí:

Blíðviðrin og þerrarnir, sem hófust hér 21. þ.m , stóðu ekki lengi, því að 26. þ.m. byrjuðu óþurrkamir aftur, og jafnframt mesta kuldatíð, svo að enda snjóaði á fjöllum aðfaranóttina 27. þ.m., og varð hvítt af mjöll ofan i miðjar fjallahlíðar.

Ísafold birti þann 15. ágúst bréf úr Seyðisfirði dagsett þann 5.:

Tíðarfarið hér í firðinum hefir verið einmuna gott síðan, byrjun júnímánaðar., nema hvað hér var nokkuð kalt fyrstu dagana og fram til kringum 15. júní; þá fór að hitna í veðri og síðan farið allt af batnandi til júlíbyrjunar, að þá byrjuðu fyrir alvöru hinir heitu sumardagar, og hafa þeir haldist allt til þessa tíma með hagstæðri veðráttu. Grasspretta var hér fremur góð á túnum, en aftur lakari á útengjum og mun það stafa helst frá kuldum þeim, sem hér komu í júnímánuði, þegar grasið einmitt þá var farið að lifna; en það sem hjálpaði til er hin indæla tíð síðan, fyrst með hægri rigningu og góðu náttfalli, og svo síðan byrjað var að slá heimatún, þá hafa hin miklu blíðviðri og hitar gjört nýtinguna svo ágæta sem kostur er á.

Ágúst: Allmikil úrkoma einkum um tíma kringum miðjan mánuð. Fremur kalt. Að kvöldi 26. ágúst varð mikill jarðskjálfti á Suðurlandi og varð tjón mjög mikið. Um hann er aðeins lítillega fjallað hér á hungurdiskum, sömuleiðis þá sem urðu vestar á Suðurlandi 5. og 6. september og líka ollu gríðarlegu tjóni. Langítarlegustu skjálftafrásagnirnar eru í blaðinu Ísafold í ágústlok og byrjun september. Áhugasamir eru hvattir til að fletta því. 

Austri segir frá hlaupi í Markarfljóti í frétt þann 23.september:

Ákaflegt jökulhlaup kom í Markarfljót í f.m. [ágúst] og tók af mikið á engjum á ýmsum bæjum og sumstaðar hey og fénað.

Mun ítarlegri frásögn af hlaupinu birtist í Ísafold þann 22.ágúst:

Hlaup í Markarfljóti. Fyrra þriðjudag, 11. þ.m., kom óvanalegt hlaup í Markarfljót og kvíslum þess (Þverá ofl.), meira en dæmi eru til í hálfa öld, og olli talsverðum skemmdum á engjum, meðfram Þverá einkanlega, svo að ónýtt er til slægna þetta ár, þar á meðal talsverð skák af Safamýri. Um 2000 hesta slægjur er sagt að ónýst hafi á einum bæ á Rangárvöllum, Dufþekju, og 600 á Móeiðarhvoli, auk þess sem flóðið fór þar með 100 hesta af heyi. Það er brennisteinskennd jökulleðja, sem hylur jarðveginn og límir grasið niður. Ekki spillir það honum til frambúðar: sprettur vel næsta ár og ef til vill öllu betur en áður. Eitthvað af fénaði vissu menn til að orðið hefði fyrir hlaupinu; fundust nokkrar kindur dauðar í byggð og búist við meira tjóni ofar. Silungur fannst og dauður í hrönnum, er hlaupið rénaði, og þótti taka fyrir veiði í Þverá eftir, nema af nýgengnu, þegar frá leið. Heppni var það, að ekki voru menn á ferð yfir vötn þessi eða um leirana milli þeirra, þegar flóðið kom; ólíklegt talið, að hægt hefði verið að forða sér. Kaupstaðarlest frá Odda með 10—12 hestum, á heimleið neðan úr Landeyjum, var nýkomin upp úr Þverá, er hlaupið kom; mundi það hafa farið með hana alla, eins og hún var. Giskað er á að flóðið hafi verið allt að 2 mannhæðum á dýpt í farvegum. Það kom stundu eftir hádegi og fór ekki að réna til muna fyrr en um miðaftan, en ekki fulldregið úr vötnunum fyrr en rúmri viku eftir. Hlaup þessi stafa af vatnsstíflu upp í jöklum, er úr verður með tímanum stórt lón, sem grefur sig fram að lokum og rýfur stífluna eftir ef til vill svo tugum ára skiptir frá því að fyrst fór að safnast fyrir.

Þjóðólfur segir frá sama hlaupi þann 11.september - í lok langs bréfs úr Landsveit sem dagsett er 2.september og fjallar um jarðskjálftana miklu og tjón af þeim:

Þess má ennfremur geta, að snemma í ágúst kom flóð mikið í Markarfljót og Þverá, sem skemmdi mjög engjar með jökul-leðju og forarleir; er mönnum ókunnugt um, hvaðan það hefur komið. Í jarðskjálftunum uxu vötn og lækir og runnu fram mórauðir, sumstaðar kom vatn upp úr sprungunum, og var jökul-litað; þar sem jarðvegur er gljúpur, svo sem í mýrum og á söndum sumstaðar, kom vatn upp úr jörðinni, en sumstaðar þverruðu lindir og lækir (t.d. Minnivallalækur). Vatn í laugum varð ljósblá-litað. Víða sigu jarðspildur, þar sem sprungið hafði, sumstaðar meira en alin, einkum þar sem vatn var nálægt.

Þjóðviljinn ungi segir frá óþurrkum í pistli þann 20.:

Stöðugir óþerrar og þokur haldast enn hér vestra, svo að til stórra vandræða horfir með heyþurrk til sveita, og þá ekki síður með þurrkun fisks hjá kaupmönnum, sem full hart mun, að varinn verði skemmdum.

Á höfuðdaginn, þann 29.ágúst, mátti lesa eftirfarandi pistil í Ísafold:

Nú er loks eða lítur út fyrir að vera skipt um til batnaðar, um höfuðdaginn, eins og þjóðtrúin kennir, eftir hið mesta kulda-, rosa- og votviðrasumar, sem elstu menn muna, að minnsta kosti um Suður- og Vesturland, og nokkuð austur eftir Norðurlandi. Fyrra laugardag, 22. ágúst, fylgdi landsunnan stórviðri og rigningu svo mikill sjávargangur hér við Faxaflóa norðanverðan, að miklum heysköðum olli í Borgarfirði að minnsta kosti, bæði í Andakíl (Hreppi, Hvanneyri, Hvítárósi) og einkum norðan fram með firðinum (á Ölvaldsstöðum o.fl. bæjum). Sunnudagskveldið eftir og nóttina þá snjóaði hann mjög á fjöll og stóð hálfgert hausthret fram eftir vikunni. Nú í dag er heiðskírt veður og afbragðsþerrir, á norðan.

Ísafold segir frá veðri í Vestmannaeyjum í pistli 5.september:

Vestmannaeyjum 28. ágúst. Veðrátta hefir veríð mjög umhleypingasöm; mikið regn með köflum, mest var úrferðin 16. þ.m. 30 mm. Síðustu 5 daga hefir verið mjög kalt, og norðanstormur 24.- 26., sem skemmdi mjög kartöflugarða; er því útlit fyrir mjög slæma jarðeplauppskeru.

Þann 31. ræðir Þjóðviljinn ungi um hafísinn - og getur um jarðskjálfta. Stórskjálftarnir á Suðurlandi fundust allt vestur á firði:

Hafísinn liggur einatt örskammt hér út undan vesturkjálka landsins, og segja þilskipamenn, sem inn komu fyrir síðustu helgi, að ísinn hafi þá legið rétt upp í landsteina á Ströndum. Jarðskjálftar. Tveir hægir jarðskjálftakippir fundust hér í kaupstaðnum að kvöldi 26. þ.m. um kl. 10, og sumir urðu einnig varir jarðskjálfta daginn eftir.

September: Góðviðrasamt lengst af, en úrkomuhryðja kringum miðjan mánuð. Fremur kalt.

Athyglisverð er flóðbylgja sem jarðskjálfti olli í Ölfusá þann 6. september og nefnd í framhjáhlaupi í bréfi í Þjóðólfi þann 11.:

Ölfusá ruddist fram með óumræðilegum ofsa, varð flóðbylgjan í henni, eftir því sem næst verður komist, um 16 feta há. Hugðum vér, sem við hana búum, að hún væri að koma yfir oss, gínandi og mundi sópa öllu burtu, sem lífs hafði sloppið úr jarðskjálftanum. 

Austri birti 10.október bréf úr Austur-Skaftafellssýslu dagsett 14.september:

Nú fer að líða að lokum heyskapar hér um slóðir og má heita, að hann hafi yfirleitt gengið vel. Í vor var gróðrartíð góð fram til vordaga, því þá voru lengstum blíðviðri, ýmist sólskin eða skúrir. Seint í maí kólnaði veðrátta, og gjörði kuldakast allsnarpt um mánaðamótin, sem spillti mjög grasvexti, er áður var komin vel á veg. Héldust kuldar fram yfir fardagana, en 13.júní kom stórrigning, og hlýnaði eftir það og var góð tíð til mánaðarloka. Með byrjun júlímánaðar dró til rigninga, sem héldust öðru hvoru til hins 20., þá komu góðir þerrar, en frá 9. ág, fór enn að dragast i óþurrkakafla, og komu eigi aftur stöðugir þurrkar fyrr en 24.ágúst — þá gjörði norðanveður allhvasst, svo hey fauk sumstaðar til skaða, en eftir það hafa verið stöðug góðviðri, þangað til skipti um hinn 12. þ.m. til úrkomu. Í gær og í dag hefir verið stórrigning.

Þjóðviljinn ungi segir frá tíð vestra í september:

[12.] Síðan veður breyttist til batnaðar um endaða hundadagana hefir hér vestra haldist mild og hagstæð veðrátta.

[22.] Norðanhrinu gerði hér all-snarpa 16.—18. þ.m., og snjóaði ofan i miðjar hlíðar; en síðan hefir verið bjart og fagurt veður.

[30.] Tíðarfarið er orðið all-haustlegt, norðan-snjóhret 27. þ.m., og síðan oft frost um nætur.

Bréf frá Seyðisfirði dagsett 30.september birtist í Ísafold 21.október:

Tíðarfarið hér í firðinum hefir verið framúrskarandi gott, þar til nú fyrir rúmum 3 vikum. Fyrst komu ákafar rigningar, en þó ekki með svo mjög miklu hvassviðri, heldur  hægð, og stóðu þessar rigningar meira og minna yfir í 16—20 daga. Svo létti nú dálitið óþurrkatíðinni, og komu þá kalsaveður og fylgdu því snjókoma ofan í mið fjöll, og nóttina milli þess 27. og 28, var alhvít jörð ofan í byggð með svo miklu frosti, að vel héldu pollar fram eftir morgni þess 28., og var lengi fram fram eftir degi mjög kalt, og hryssingsveður.

Október: Óstillt, en lengst af fremur þurrt. Mjög kalt.

Í byrjun mánaðarins gerði mikið hríðarveður. Olli það miklum fjársköðum, einkum eystra. Veðurhæð virðist ekki hafa verið jafnmikil og í veðrinu sömu daga árið áður, en vel má rugla þessum veðrum saman. Ítarlega frásögn má finna í bók Halldórs Pálssonar, „Skaðaveður 1891-1896“.  

Austri segir lauslega frá þann 10.október:

Tíðarfarið hafði lengi verið stirt og úrkomusamt, svo illa hafði gengið að þurrka fisk og hey, en útyfir tók nú fyrstu dagana af þ.m., þá er hér skall yfir allt Austurland versta bleytuhríð i 3 daga, frá 3.— 6., og er hætt við að fé hafi fennt, en ófært var yfir heiðar með öllu, og situr fé flest uppí Héraði enn og verður líklega mjög örðugt að koma því ofanyfir.

Yfirlit um helstu fjárskaða eystra birtist í Austra þann 6.nóvember:

Eins og áður er getið um hér í blaðinu urðu fjárskaðarnir langmestir í Skriðdal og Fellum. Í Skriðdal er sagt að hafi farist undir snjó nálægt 1400 fjár, og mest af því á Vaði, um 200, á Mýrum full 200 og margt fé á Þorvaldsstöðum. Í Fellum er sagt að fjártjónið muni hafa orðið nær 1000 fjár. Langmest fórst á Skeggjastöðum. nálægt 250 fjár þess má geta sem dæmi um það, hvað fannfergjan var fjarskaleg í fyrstu hríðinni, að hestar fórust í annarri eins góðviðrasveit og Vellirnir eru vanalega, og einn hestur á Miðhúsum í Mið-Héraði. Í hinum sveitum Fljótsdalshéraðs hafa engir ákaflegir fjárskaðar orðið, þó missti bláfátækur barnamaður í Ármótaseli í Jökuldalsheiðinni eina hestinn sem hann átti og um 30 fjár, er var víst helmingur af allri hans fjáreign. Á Arnórsstöðum á Jökuldal vantaði nærri allt féð eftir hríðina, en hefir nú fundist flestallt lifandi aftur, og engir fjárskaðar hafa orðið til muna á Jökuldal eða Fjöllum. Sunnanpóstur sagði miklu snjóléttara fyrir sunnan Breiðdalsheiði og enga sérlega fjárskaða úr þeim sveitum.

Dagskrá í Reykjavík segir af veðrinu þann 8.október:

Norðanveður ofsafengið hefur verið hér síðustu dagana; hvessti á sunnudagsnótt [aðfaranótt 4.] og stóð veðrið þann dag allan og svo mánudag. Á þriðjudagsmorguninn slotaði nokkuð, en hvessti þó aftur fyrri hluta dags. Allmörg skip hafa legið hér á höfninni; eitt þeirra, „Ingolf", innlent fiskiskip, sleit upp á þriðjudagsnóttina og rak í land. Skipið er þð að mestu óskemmt.

Þjóðviljinn ungi segir lauslega frá veðrinu í pistli þann 8.:

[Fyrsta] þ.m. gerði hér norðan garð, og hélst það veður, með fannfergju nokkurri og hríðarbyljum, í samfleytta viku, slotaði loks í gær.

Veðrið olli einnig vandræðum í Skagafirði. Ísafold birtir 21.nóvember bréf dagsett þar 20.október:

Veðráttan i haust vond. Byljir við og við. Skip kom eftir pöntunarfélagssauðunum til Sauðárkróks hinn 1. þ.m. En aðfaranótt h.4. kom norðaustanhríð mikil; var þá búið að skipa fram í skipið aðeins litlu af pöntunarsauðunum, en deildasauðirnir komnir nær framskipunarstaðnum, og nokkrir voru á Sauðárkrók, er hríðin byrjaði. Voru hin mestu vandræði með sauðina yfir hríðarbylinn, sem hélst hinn 4., 5. og 6. þ.m. með mikilli snjókomu. Þegar birti upp, var haldið áfram framskipun sauðanna, og hélt skipið af stað með þá hinn 10. þ.m. Furða er, hve litlir skaðar urðu hér i þessum byl. Mest hefir bóndinn Sigurjón i Eyhildarholti misst af fé; en eigi höfum vér heyrt með vissu, hve margt hann missti.

Þjóðólfur birtir þann 23. bréf dagsett á Seyðisfirði þann 11.október:

Áfelli mikið hefur nú gert hér á Austurlandi. Gekk í dimmviðrisbyl að kveldi 3. þ.m. sem heita má að héldist þangað til i gærkveldi [10.]. Verst var veðrið 6 fyrstu dægrin (4.- 6.), austan stórviðri og bleytuhríð, þá létti hríðinni að mestu og var allgott veðrið hinn 8.; en í fyrradag og þó einkum í gær var hánorðan harðneskjuveður og dimmviðri; hefur sett niður mikinn snjó og mun því víðast jarðlaust sem stendur.

Skárri dagar komu nokkrir þegar veðrið hafði lokið sér af. Austri segir þann 23.október (dagsetur 20.):

Tíðarfar hefur verið breytilegt þessa síðustu viku. Frá 12. til 15. voru blíðviðri og þíður, og tók snjó þá óðum. En 15. kom rosaveður, sem hefir haldist síðan, í gær og í dag með töluverðri snjókomu. Fjárskaðar munu hafa orðið töluverðir í veðrinu 3. til 6. þ.m. einkum i Skriðdal og á Jökuldal og víðar, en greinilegar fregnir hafa ekki borist. Á stöku stað er sagt að fennt hafi hesta. Maður varð úti frá Birnufelli í Fellum.

Ísafold lýsir tíð þann 21., 24. og 28.október:

[21.] Hér [í Reykjavík] hefir verið bleytukafald 2—3 daga undanfarið með allmikilli fannkomu, sem töluvert frost hefir fest í nótt, svo að haglítið er orðið hér um slóðir fyrir sauðfé, eða sama sem haglaust nú í bili.

[24.] Veturinn ríður heldur hart í garð í dag með bálviðri á norðan og allmiklu frosti, en jörð alsnjóa og illa, með klakabrota er gera mun jarðbann nema í skóglendi. Er kvíðvænlegt að hugsa til áhrifanna af þessari veðráttu á landsskjálftasvæðinu, þar sem mjög mikið af peningshúsum liggur niðri og jafnvel nokkuð af bæjarhúsum sumstaðar.

[28.] Sami vetrarbragur enn á tíðarfari og síðast. Snjóbreiða yfir allt, sem smáblotar gera ekki annað en spilla. Sagður hnésnjór austanfjalls á láglendi; versta brotaófærð. Austfirðingar með „Bremnæs“ segja vonda tíð þar líka og fannir miklar.

Nóvember: Óstöðug tíð og mjög úrkomusöm syðra. Hiti í meðallagi.

Bréf úr Suður-Múlasýslu ritað 9.nóvember birtist í Ísafold 19.desember:

Stirð hefir tíðin verið hér í haust, varla komið þurrkadagur allt haustið frá 15. ágúst. Þá dyngdi niður áköfum snjó með októberbyrjun, svo að fé fennti stórkostlega, einkum i Héraði í Skriðdal. Í Héraðinu, sem er lítil [?] sveit, fenntu 1200 fjár, sem eigi var fundið, er siðast fréttist. Á einum bæ fórust 200 fjár, helmingur alls fjárins. En í Fjörðunum, þar sem menn voru að þurrka fisk sinn, eiginlega næstum allan sumarfisk sinn, því að framan af sumrinu fiskaðist mjög litið, fennti alla fiskistakka í kaf, og hafa menn verið að grafa þá úr fönn og bera inn hálfblauta og meira og minna skemmda, svo að litið er um innleggið, og skuldir við kaupmenn því meiri.

Ísafold segir frá hrakviðrum þann 21.:

Veðrátta hefir verið mjög storma- og hrakviðrasöm þessa viku. Mesta afspyrnurok aðfaranótt mánudags {16.] og eins aðfaranótt fimmtudagsins [19.]. Mjög slæma veðráttu að frétta af Austfjörðum fyrir viku rúmri.

Þjóðviljinn ungi lýsir veðri 14., 21. og 30.:

[14.] Norðan-snjóhret var hér framan af þessari viku, en síðan hlákur og frostlin veðrátta.

[21.] Tíðarfar hefir verið fjarska óstöðugt þessa síðustu viku, sífelldir stormar af ýmsum áttum, skipst á hríðarbyljir og stórfelldar rigningar. [30.] Hríðarbyljunum, sem stóðu hér í samfleytta 1 1/2 viku, slotaði loks 25. þ.m., og hafa síðan haldist logn og þíðviðri.

Austri birti 12.desember bréf úr Austur-Skaftafellssýslu ritað 24.nóvember:

... tíðin lengstum verið mjög óstillt og rosasöm, og svo er enn. Í október voru oft ofsaveður og á síðasta sumardag [23.október] gjörði hér blindbyl, fennti þá nokkrar kindur i Lóni en annars hafa eigi orðið hér fjárskaðar né önnur slys. 

Desember: Óstöðugt veðurlag. Útsynningshríðar um jólaleytið. Fremur hlýtt.

Úr Strandasýslu sunnanverðri var ritað 8.desember (Ísafold 19.):

Nú er fyrir hálfum mánuði skipt um til bærilegrar veðráttu, eftir eitthvert versta og rosasamasta haust, sem lengi hefir komið. Mikill snjór var kominn og mjög hagskarpt orðið, allstaðar farið að gefa fé, og að því komið, að öll hross þyrfti að taka inn. En nú um 2 síðastliðnar vikur hefir verið hagstæð tíð og þíða oftast, svo að góður hagi er kominn. 

Veðri síðari hluta árs í Skagafirði er lýst í bréfi dagsettu 14.janúar 1897, birtist í Austra 9.mars (orðalag er óvenjulegt):

Næstliðið sumar var hér mjög votviðrasamt og grasvöxtur kortlega í meðallagi, varð því heyskapur almennt í rýrara lagi og heyin slæm og illa verkuð og skemmdust viða að mun í tóftum fyrir þær miklu úrkomur síðari part sumarsins, flest hús láku meira og minna, og jörðin varð eins og heili. Haustið var einnig með verri haustum með illviðrum og óstillingum svo ekki varð hægt að gjöra nokkuð af vanalegum haustverkum, svo sem bera á tún og flytja heim eldivið, og horfir víða til vandræða með eldiviðarleysi. Veturinn síðan með jólaföstuinngangi hefir mátt heita ágætur allt til þessa tíma en nokkuð stormasamur, oftast á sunnan og suðvestan, og nú er alauð jörð uppí mið fjöll.

Þingeyingar kvörtuðu líka undan sumri og hausti ef trúa má bréfi sem birtist í Þjóðólfi 9.apríl 1897. Á þessum tíma vildu menn frekar þurrka í miðri viku heldur en um helgar eins og nú er:

Sumarið 1896 var eitt hið leiðinlegasta, sem komið hefur í manna minnum. Það var ekki kuldasamt, en svo vætusamt og þurrkalaust, að varla náðist nokkurt heyhár með almennilegri verkan. Grasspretta var í meðallagi víðast hvar. Þá sjaldan sem þurrkur kom, var það helst um helgar. Áttin var stöðugt austræn, en fremur hæg og mild, svo rann hann (Kári) norður í, gerði illviðrahrinu, og rofaði svo oftast til úr hafi á laugardögunum. Himininn heiddi að norðan, og þokuslæðurnar flæktust suður á bóginn og gengu undir sjónhringinn suður frá. — Svo var oftast þurrkflæsa á sunnudaginn. Þeir sem notuðu sunnudagaþurrkinn náðu heyjum sínum nokkurn veginn óhröktum, en illa þurrum samt. Hinir urðu á hakanum og áttu sumir hey sín úti í haust. Sumir þeirra náðu heyinu í fúlgur, og notuðu þær fyrri hluta vetrarins; en sumir áttu það flatt, og liggur það nú undir fönn og gaddi.

Í Suður-Þingeyjarsýslu náðust heyin á flestum stöðum á endanum, þó seint væri, — sumstaðar ekki fyrr en undir veturnætur. En í Norður-Þingeyjarsýslu varð mikið hey úti á ýmsum stöðum. Á Víkingavatni urðu t.d. um 200 hestar úti o.s.frv. — Þó tók haustið út yfir allan þjófabálk. Þvílíkt illviðrahaust þykist enginn lifandi sála muna. Það má svo að orði kveða, að þrotlausar norðaustanstórrigningar væru frá miðjum september til mánaðarloka. En um mánaðarmótin gekk hann í norðaustan krapahríðar með svo miklu veðri, að firnum sætti, og kyngdi þá niður afarmikilli fönn í hásveitum og til fjalla, svo víða varð jarðlaust, og voru þá lömb tekin víðast hvar á gjöf — 3 vikum fyrir vetur. Fjallskilum var þá ekki lokið; heimtur voru illar af afrétt, og það sem þó var heimt, fennti sumt en sumt flæktist í óskilum og kom seint til skila og illa til reika. Hlákublota gerði tveim sinnum fyrir veturnætur. En ekki batnaði tíðin neitt til muna fyrr en með jólaföstu, eða litlu fyrr. Þá gerði hlákur og síðan hefur veturinn verið snjóléttur, mjög frostavægur og hlákur góðar öðruhvoru.

Þjóðviljinn ungi lýsir tíð í pistlum 14. og 31.desember:

[14.] Hér hafa haldist stillviðri, eður hæg sunnanveður, frá byrjun þ.m. [31.] Eftir lognin og hlýviðrin, tók veðráttan að breytast á Þorláksmessu og gerði snjóa nokkra og hvassviðri, sem hafa haldist lengstum síðan.

Lýkur hér að sinni umfjöllun um árið 1896. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg010125i
  • w-blogg010125
  • w-blogg271224a
  • w-blogg271224aa
  • w-blogg261224ia

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.1.): 907
  • Sl. sólarhring: 1119
  • Sl. viku: 3297
  • Frá upphafi: 2426329

Annað

  • Innlit í dag: 807
  • Innlit sl. viku: 2963
  • Gestir í dag: 789
  • IP-tölur í dag: 726

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband