Þankastrik

Það er meir en sennilegt að samband sé á milli raunverulegs veðurs (eins og það kemur fram í mælingum) annars vegar og upplifunar hópa manna á því hins vegar. Því verra sem veðrið er (í einhverjum skilningi) er líklegt að stærri og stærri hóp finnist það slæmt. Þetta á trúlega við í hina áttina líka - á betri vængnum. Ritstjórinn sér alveg fyrir sér einhvers konar símaapp sem gæti reiknað út veðurgæði eftir mati fjöldans - ef nægilega margir notuðu það (kannski nokkur hundruð) - og nægilega oft. Fróðlegt væri að fylgjast með slíku - sérstaklega til lengri tíma. Tvittertístaþéttni gæti sjálfsagt gert sama eða svipað gagn (en er ekki eins markvisst eða auðtúlkað).

Það er hins vegar greinilega vandamál að skiptin á milli þess sem er gott og vont liggja alls ekki við meðalveður raunveruleikans. Sú er tilfinning ritstjóra hungurdiska til margra ára að um það bil 80 prósent veðurs á Íslandi sé talið bæði kalt og vont - þetta á alla vega við þann (stóra) hluta þjóðarinnar sem minnist á veður. Á einhverjum mælikvarða er það sjálfsagt þannig (að skítaveður sé hið eðlilega ástand á Ísland), en samt er tilhneiging veðurfræðings sú að nota frekar þau viðmið sem raunveruleikinn býr til fremur en að vera sífellt að ætlast til þess að sumarhitar sér ríkjandi strax á miðju vori - nú eða jafnvel allt árið (eins og nú virðist lenska).

Ástæða þessara skrifa hér er auðvitað sú kveinalda sem nú gengur yfir landið sunnan- og vestanvert. Ritstjóri hungurdiska skal fúslega viðurkenna að tíðin gæti verið betri, og hefur oft verið betri um þetta leyti. En honum sýnist líka að þrátt fyrir allt sé vorið komið og að grundirnar grói bara nokkuð vel og hýrna taki um hólma og sker.

Norðaustanlands er hiti vel yfir meðallagi það sem af er maímánuði, 2 stigum ofan meðaltals síðustu tíu ára í Vopnafirði. Hér suðvestanlands liggur hitinn nokkuð neðar, -1,2 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára í Reykjavík, en sé miðað við lengri tíma er hitinn rétt neðan við miðjan hóp - og telst í raun í meðallagi notum við vinsæla þriðjungaskiptingu hita til að greina á milli þess sem er hlýtt, í meðallagi og kalt.

Úrkoma hefur verið meiri en að meðallagi (í efsta þriðjungi, en samt ekki nema helmingur þess sem mest hefur mælst sömu daga), og sólskinsstundir ívið færri en í meðallagi, en samt í meðalþriðjungi, rétt eins og hitinn. Nú, vindhraði hefur verið í rúmu meðallagi, en hefur oft verið talsvert meiri fyrri hluta maímánaðar heldur en nú, til dæmis í fyrra.

Loftþrýstingur hefur hins vegar verið óvenjulágur miðað við maímánuð.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Takk fyrir þessar pælingar Trausti. Nákvæmlega eins og mér hefur fundist eftir tali margra sem maður hittir og umgengst. Viðkvæðið oftar en ekki að oft sé skítaveður og fáir góðir dagar og hitta alls ekki á helgi eða frídaga. Nú er ég svo heppinn að geta verið mikið utandyra og miða því oft við hvernig vinnuveður sé. Undanfarið hefur verið, á mínum slóðum í Skagafirði, gott vinnuveður nánast svo vikum skiptir. Svosem svalt suma daga og ekkert sólbaðsveður enda er það ekki þægilegt ef eitthvað á að taka til hendinni. Svo tók að gola nokkuð hressilega síðustu daga en þó ekki úr hófi fram. Rigning eða skúrir hafa verið óvenjumarga daga en þá oftast að kvöldi til eftir að maður hefur lokið því sem maður ætlar sér að gera utandyra þann daginn. Hvernig á maður þá að tjá sig um veðrið. Ekki sólbaðstækt en fínt vinnuveður?

Hjalti Þórðarson (IP-tala skráð) 18.5.2018 kl. 20:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg160424b
  • w-blogg160424a
  • w-blogg120424c
  • w-blogg120424b
  • w-blogg120424a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 52
  • Sl. sólarhring: 104
  • Sl. viku: 1543
  • Frá upphafi: 2348788

Annað

  • Innlit í dag: 47
  • Innlit sl. viku: 1345
  • Gestir í dag: 44
  • IP-tölur í dag: 43

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband